Viðleitni og frammistaða á PISA

Þorlákur Axel Jónsson

 

Íslenska skólakerfið er ekki hátt metið í samanburði við önnur sambærileg samkvæmt PISA-rannsókn Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Skýrir viðleitni nemenda á PISA þessa stöðu íslenska skólakerfisins? Er ástæða hins lága mats á skólakerfinu sú að einstaka nemendur leggja sig ekki fram? Er ástæða hnignandi frammistöðu einfaldlega sú að nemendur eru hættir að taka PISA alvarlega?

Á nemendaspurningalista PISA hafa verið settar fram tvær spurningar um viðleitni nemenda á prófinu:

Hversu mikið lagðirðu á þig til að standa þig vel í PISA-prófinu?

Hversu mikið hefðirðu lagt á þig ef niðurstöður PISA-prófsins teldust með einkunnum þínum í skólanum?

Svarkostur beggja spurninga er að merkja við eina tölu á skalanum 1 til 10.

Nú er PISA endurtekin þversniðsrannsókn, sem á að geta sýnt þróun, en í hverri umferð er nýr hópur nemenda prófaður. Snið rannsóknarinnar er því ekki jafn sterkt og skólafólk er vant í störfum sínum þegar það fylgist með sömu nemendum og framförum þeirra yfir langt tímabil. Það samsvarar því að gera ferilrannsókn, sem er sterkara snið og heimilar ályktanir um einstaklinga og skóla. PISA er ætlað að byggja undir ályktanir um skólakerfi og skóla, ekki einstaka nemendur. Verkefnið á að gera samanburð skólakerfa mögulegan en þar dynja skeytin á því með réttu eða röngu. Jafnvel þó þessir andmælendur hefðu rétt fyrir sér og þó rannsóknarsniðið sé vissulega veikara en það sem kennarar eru vanir, þá er óháð því hægt á grunni gagna frá PISA að gera athugun sem tekur til eins lands.

PISA reynir að nálgast þróun mála milli umferða með því að endurtaka spurningar um nemendur sjálfa og auk þess er hluti prófspurninga endurnýttur í hvert skipti. Spurningarnar um viðleitni eru dæmi um slíka samfellu. Tekið skal fram að yfirleitt gerir framkvæmdanefnd PISA ekkert með þær upplýsingar og lætur öðrum það eftir, enda vandséð hvort er verra að nemendur ráði ekki við verkefnin eða að skólakerfið ráði ekki við nemendur.

Gagnaskrár PISA eru öllum aðgengilegar frá þeim degi sem niðurstöður hverrar umferðar eru birtar. Í þeim gagnaskrám sem ég hef hlaðið niður frá PISA eru þessar spurningar um viðleitini og svör að finna flest árin. Tölur vantar fyrir PISA 2003, 09 og 15 af einhverjum ástæðum. Á myndinni sýna bláu súlurnar meðaltöl hverrar umferðar yfir hversu mikið nemendur lögðu á sig á skalanum 1 til 10. Appelsínugulu súlurnar sýna hversu mikið nemendur hefðu lagt á sig gilti prófið til einkunnar. Hlykkjóttu línurnar sýna meðal frammistöðu íslenska skólakerfisins  öll árin sem PISA hefur lagt fyrir próf (nema auðvitað nú 2025) í PISA-stigum þar sem meðaltal aðildarríkja OECD var upphaflega 500 með staðalfávikið 100. Bláa punktalínan á myndinn sýnir stefnu þess yfir tímabilið hversu mikið nemendur lögðu á sig.

Alkunna er að frammistaða Íslands var lakari í síðustu umferð 2022 en nokkru sinni og kemur það fram á myndinni. Skólakerfinu virðist hraka jafnt og þétt í öllum greinum.

Nemendur virðast jafnan ekki hafa lagt mikið á sig á PISA (meðaltal 7,4 með staðalfrávik 0,3). Engin markverð breyting varð á því yfir tímabilið. Nemendur sögðu að þeir hefðu lagt meira á sig ef prófið hefði gilt til einkunnar í skólanum sem þeir gengu í (meðaltal 9,2 með staðalfrávik 0,3) en þó ekki til fulls samkvæmt þessu. Athygli vekur að engin tengsl voru á milli þess hversu mikið/lítið nemendur lögðu á sig og hver frammistaðan var í lesskilningi (LES), stærðfræðilæsi (STÆ) og læsi á náttúruvísindi (VIS).

Væru nemendur teknir á orðinu og frammistaðan reiknuð upp í þau 100% sem hún gæti hafa verið samkvæmt þeirra eigin svörum, þá  væru niðurstöður PISA varla áhyggjuefni. Slíkur útreikningur vekti spurningu um hvers vegna frammistaðan var betri í fyrstu umferðum PISA þó nemendur hafi lagt jafn lítið á sig þá og þeir segjast gera nú?

Viðleitni nemenda á PISA hefur ekki breyst og hugarfarið gagnvart prófinu virðist stöðugt. Nærtækasta skýringin á hrakandi frammistöðu íslenska skólakerfisins er að unglingarnir okkar ráði ekki betur en þetta við þau verkefni sem fyrir þau eru lögð á PISA-prófinu. Hverjar sem ástæður þess kunna að vera, er það áhyggjuefni. Vonandi hvetur þessi grein til þess að allt þetta verði rannsakað betur.

Heimildir

Menntamálastofnun. (2018). OECD. PISA. Alþjóðleg könnun á þekkingu nemenda OECD 2006: Spurningalisti nemenda. Höfundur.

Menntamálastofnun. PISA 2022: Helstu niðurstöður á Íslandi. Höfundur

Programme for international student assessment (PISA): Data and methodology. Höfundur. https://www.oecd.org/en/about/programmes/pisa.html#data


Um höfund

Þorlákur Axel Jónsson er aðjúnkt við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hann lauk cand. mag.-prófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1994 og kenndi í rúma tvo áratugi við Menntaskólann á Akureyri. Rannsóknarsvið hans er félagsfræði menntunar.


Grein birt 9. júlí 2025