Hörður Svavarsson (1960–2025): Rannsakandans og aðgerðasinnans minnst
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson
Snemma vors 2018 hafði Hörður Svavarsson samband við mig til að herma upp á mig loforð frá því mörgum árum fyrr: að leiðbeina honum við meistaraprófsrannsókn en í millitíðinni sinnti Hörður öðrum mikilvægum verkefnum í samfélaginu.
Við hittumst svo síðla vors þetta sama vor og Hörður byrjaði að undirbúa rannsóknarvinnuna. Hann var með skýrar hugmyndir um að hann vildi rannsaka leikrýmið sem leikskólabörn hefðu því að talið væri of þröngt um þau; ég setti nokkurs konar skilmála um að það yrði kynjafræðileg vídd í verkefninu sem Hörður féllst á.
Samvinnan við Hörð
Hörður hófst handa við að dýpka þekkingu sínum á rannsóknaraðferðum og kynjafræði með því að gera undirbúningsrannsóknir í viðeigandi háskólanámskeiðum þá um haustið. Hann aflaði sér fjárstyrks úr rannsóknasjóði hjá Kennarasambandi Íslands. Verkefnið tók nokkur ár, með töfum vegna Covid. Meistaraprófinu lauk vorið 2022 og þar með samstarfi okkar sem nemandi og leiðbeinandi. Hörður kynnti verkefni sitt víða eftir að því lauk en á næstum mánuðum og misserum gerðumst við Hörður svo samstarfsmenn við ritun fræðigreinar.
Kynnin við Hörð voru ánægjuleg – í báðum hlutverkunum. Við rannsóknarvinnuna sóttist Hörður eftir því að leysa úr öllum áskorunum sem komu upp á veginum, hvort heldur utanaðkomandi eða þeim sem leiðbeinandinn lagði fyrir hann að leysa úr. Eitt af því sem vakti athygli mína var hversu vel Hörður mundi flest sem við höfðum rætt um, hvort heldur það tengdist verklagi við rannsóknina eða öðru, og greip stundum til þess löngu eftir að ég hafði gleymt því að hafa nokkurn tíma rætt þetta við hann.
Þegar á leið og skrifum ritgerðar var að ljúka, og stundum þurfti að færa framsetningu og rök í fræðilegri búning, kom upp sú hugsun „að það mætti samt ekki skrifa Hörð út úr verkinu“. Ég man ekkert hvor okkar kom fyrstur með þessa hugsun – en ég held það hafi tekist að halda verkefninu þannig að það sæist vel að Hörður hefði skrifað það. Síðar, þegar við skrifuðum fræðigreinina og þurftum margsinnis að takast á við kröfur ritrýna og ritstjóra settum við okkur að vera ekki alveg í felum á bak við fræðilegan texta. Hörður vildi skrifaði vandaða grein og hver einasta krafa rýna og ritstjóra var tekin alvarlega. Herði varð að ósk sinni að greinin var birt í hefti sem birtist í hefti af Tímariti um uppeldi og menntun haustið 2024 (sjá hér), sem gefið var út til heiðurs Guðrúnar Öldu Harðardóttir, náinnar samstarfskonu okkar beggja þótt á ólíkum tímum væri.
Rannsóknarverkefnið
Rannsóknarverkefni Harðar nefndist Börnin í veggjunum: Um rými barna í leikskólum. Nafnið er þannig til komið þegar Hörður tók viðtal við Olgu, deildarstjóra á einum af leikskólunum (nafnið Olga er ekki rétt nafn deildarstjórans), þá sagði hún: „Þegar er sagt að þú eigir að vera með svona mörg börn á deildinni eða í þessum skóla af því hann er svona margir fermetrar, þá er það allt annar fermetrafjöldi heldur en þegar [sveitarfélagið] býður út ræstinguna …“ Hörður spurði nánar út í þetta og Olga svaraði: „Þú veist ég er bara búin að vita það í mörg ár án þess að geta bent á það eða reiknað það út sjálf það er einhver skekkja í þessu dæmi. Þegar að börnin eru reiknuð inn er gert ráð fyrir utanmálinu á húsinu, þannig að það má segja að við séum með börn út á plássið sem veggirnir taka. Börnin í veggjunum“.
Rannsóknarverkefnið var þríþætt og geri ég hér stutta grein fyrir hverjum þætti þess.
Reglur um rými leikskóla
Í fyrsta lagi athugaði Hörður þróun reglna um rými. Í fyrstu reglum Sumargjafar frá 1968 var börnum í heilsdagsskólunum Hlíðaborg, Brákarborg og Staðarborg var börnum að jafnaði ætlaður 4,1 fermetrar. Yngstu börnunum á vöggustofunum var ætlað minnsta rýmið, eða 3,74 fermetrar, en eldri börnin áttu að hafa rýmra um sig eða upp í 4,4 fermetra. Raktar eru bæði í ritgerð Harðar og í greininni í Tímariti um uppeldi og menntun breytingar á reglum þar til árið 2009 þar sem ýmist var miðað við brúttó, það er með útveggjum, eða frá vegg í vegg innan húss. Þá voru miðlægar reglur afnumdar og engar kröfur gerðar í lögum eða reglugerð um lágmarksrými fyrir hvert barn en látið vera undir hverju og einu sveitarfélagi komið að setja reglur um rými barna í leikskólum.
Söguþráðurinn er óþægilega skýr: Það eru ekki fastar reglur um hvaða rými á að vera á hvert barn í leikskólum landsins þótt áður hafi verið svo.
Á allra síðustu árum hafa þrjú fjölmennustu sveitarfélögin í landinu, það er Reykjavík, Kópavogur og Hafnarfjörður, haft frumkvæði að því að setja viðmið um barnafjölda í leikskólum. Þær reglur voru að hluta komnar til framkvæmda þegar Hörður mældi leikrýmið sem var næsti og langumfangsmesti þáttur rannsóknarinnar.
Mælingar á leikrými barna
Hörður mældi leikrými barnanna í húsnæði 38 leikskóladeilda í 30 leikskólum í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði á árunum 2021 til 2022, og tók ljósmyndir til að geta skoðað rýmið betur. Með leikrými er átt við hið eiginlega kennslurými innan dyra í leikskólunum en stoðsvæði á borð við ganga, salerni, fataherbergi, geymslur og þess háttar þar sem börnin dvelja ekki falla ekki undir skilgreininguna leikrými. Vitað var að víða væri þröngt um börnin og Hörð langaði til þess að það væru til góð gögn um þrengslin. Leikrými reyndist að jafnaði vera 2,4 fermetrar að meðaltali á deildunum 38. Sums staðar var rýmið örlítið meira, en hvergi miklu meira, og í sjö deildum var það innan við 2 fermetrar á barn – og enn þá minna ef gert væri ráð fyrir því að starfsfólkið þyrfti eitthvert pláss. Þessir 2,4 fermetrar á barn eru miðaðir við þau 834 börn sem voru í deildunum nákvæmlega þegar mælingin fór fram en ekki þau 878 sem leyfi var fyrir í fullnýttri deild.
Grunsemdir um þrengsli voru sannarlega staðfestar en líklega kom á óvart hversu þrengslin voru mikil. Við Hörður urðum því sammála að réttara væri tala um þrengsli en ekki rými og gáfum því einfaldlega heitið Þrengsli í leikskólum, sem er óvenjulega stutt nafn á fræðigrein.
Hugkvæmni leikskólakennara en um leið upplifun af áhrifaleysi
Loks ræddi Hörður við tíu deildarstjóra í jafnmörgum leikskólum af þeim sem hann mældi til að skilja betur hvernig væri unnið í þrengslunum. Deildarstjórarnir, sem allir voru konur, sögðu frá því að þær gerðu umtalsvert til að vega upp á móti þrengslunum, svo sem að skipta hópum upp eða hólfaskipta stærstu rýmunum, meðal annars til að draga úr hávaða. Þessar aðgerðir eru jákvæðar miðað við núverandi stöðu og af viðtölunum má ráða að hugkvæmni leikskólakennara sé umtalsverð til að draga úr afleiðingum af þrengslunum. Engu að síður upplifðu deildarstjórarnir valdaleysi og vanmátt gagnvart fjarlægum valdhöfum og að mikil orka færi í að reyna að hólfa rýmið niður til að skipta barnahópunum upp.
Hvað varðar barnafjölda á deildunum mátti ekki einungis greina óánægju hjá deildarstjórunum sem höfundar ræddu við heldur kom einnig fram í skýrslu frá Kennarasambandi Íslands (2021) að skólastjórarnir teldu sig ekki hafa umboð til að ákveða barnafjölda. Þessi staða er umhugsunarverð, að núna í upphafi þriðja áratugar 21. aldar upplifi konur sem vinna í og stjórna leikskólum valdaleysi.
Lokaorð
Hvað varð svo um kynjafræðilegu víddina í rannsókninni? Ekki voru skýr merki um kynjaða notkun rýmisins í gögnunum sem Hörður aflaði og í sjálfu sér ekki heldur í viðtölunum. Heldur skilaði kynjafræðilegi vinkillinn sér fremur þannig að skoða hversu lítil völd og áhrif deildarstjórarnir tíu töldu sig í rauninni hafa. Það kann að vera tilefni til sérstakrar rannsóknar að athuga hvers konar áhrif upplifunin um vanmátt kunni að hafa á skólastarfið og mönnun leikskólanna.
Ég notaði áðan orðasambandið um að „ekki hefði mátt skrifa Hörð út úr verkinu“. Hörður vildi einmitt vera hvorttveggja í senn, rannsakandi og aðgerðasinni. Hann vildi ekki afslátt af fræðilegum kröfum og hann vildi ekki afslátt af kröfum um umbætur.
Persónulega er ég þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast manninum á bak við rannsóknarverkefnið, traustum og skemmtilegum sem ég hlakkaði alltaf til að hitta. Ég þakka þau góðu kynni.
Athugasemd
Texti greinarinnar er að hluta til sóttur í grein okkar Harðar í Tímariti um uppeldi og menntun.
Heimildir
Hðrður Svavarsson. (2022). Börnin í veggjunum: Um rými barna í leikskólum (meistaraprófsritgerð í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands). https://skemman.is/handle/1946/42940
Hörður Svavarsson og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. (2024). Þrengsli í leikskólum. Tímarit um uppeldi og menntun, 33(1), 115–133. https://doi.org/10.24270/tuuom.2024.33.7
Kennarasamband Íslands. (2021). Vinnuumhverfi barna og fullorðinna í leikskólum: Tillögur starfshóps FL og FSL um rými, réttindi og starfsaðstæður barna og fullorðinna í leikskólum og um samráð leikskólastjóra og rekstraraðila. https://www.ki.is/media/dutfrzzr/lokask%C3%BDrsla-starfsh%C3%B3ps-fsl-og-flokt21.pdf
Um höfund
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson (ingo(hja)hi.is) er prófessor emeritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk BA-prófi 1979 og cand.mag.-prófi 1983 í sagnfræði, auk kennslufræði til kennsluréttinda 1980, öllu frá Háskóla Íslands, og doktorsprófi í menntunarfræðum frá Wisconsin-háskóla í Madison 1991. Hann hefur meðal annars rannsakað menntastefnu, störf kennara og kyngervi og menntun.