Stóru-Vogaskóli, 150 ára saga: 1872–2022
Þorvaldur Örn Árnason
Haustið 2022 átti Stóru-Vogaskóli 150 ára afmæli. Af því tilefni birti ég vikulega þátt úr sögu skólans í Víkurfréttum. Alls urðu þetta 46 þættir sem þar birtust. Síðar bættust fjórir við.
Haustið 2021 fékk ég þá hugmynd að vinna úr gögnum sem ég hafði safnað í tengslum við 140 ára afmæli skólans 2012, hvattur til þess af Snæbirni Reynissyni skólastjóra og Hauki Aðalsteinssyni sagnfræðigrúskara, sem höfðu þegar um aldamótin safnað dálitlu efni og haldið upp á 130 ára afmælið 2002. Talsvert af handskrifuðum gögnum frá allri 20. öld voru varðveitt í skólanum. Þau nýttust vel við skrif þessi en auk þess leitaði ég víða fanga eins og gerð er grein fyrir 49. þætti, sjá hér.
Eftir að hafa birst í Víkurfréttum var öllu efninu safnað saman á vefsíðu Stóru-Vogaskóla, sjá hér: Þættir úr sögu skólans – Stóru-Vogaskóli. Einnig er hægt að nálgast efnið í prentvænni útgáfu, sjá hér.
Hvatinn að þessum skrifum var ekki síst sá að mér fannst skólinn hafa verið sniðgenginn þegar fjallað var opinberlega um elstu barnaskóla landsins. Sem dæmi má nefna í tveggja binda verki Kennaraháskóla Íslands og Háskólaútgáfunnar frá 2008, Almenningsfræðsla á Íslandi, er skólinn ekki nefndur á nafn. Mér þótti því brýn ástæða til að draga sögu skólans fram í dagsljósið. Stóru-Vogaskóli er þriðji elsti barnaskólinn á Íslandi sem hefur starfað samfleytt.
Séra Stefán Thorarensen, prestur og sálmaskáld á Kálfatjörn, átti frumkvæði að því að stofna skólann, ásamt útvegsbændum í hreppnum. Hann stofnaði til þess félag sem aflaði fjár og lét byggja skólahús. Þannig starfaði skólinn frá upphafi í eigin húsnæði. Stefán samdi reglugerð fyrir skólann í 30 greinum, eins konar skólanámskrá. Vísir var að unglingadeild og heimavist frá upphafi.
Í upphafi hét skólinn Thorchillii Barnaskólinn í Vatnsleysustrandarhreppi. Það nafn festist ekki við hann, heldur var hann kallaður Suðurkotsskóli, enda byggður á jörðinni Suðurkoti í Brunnastaðahverfi. Seinna (1938) breyttist nafnið í Brunnastaðaskóli. Grunnur elsta skólahússins þar er enn heillegur. Þegar skólinn var síðan fluttur í Voga árið 1979 fékk hann núverandi nafn, Stóru-Vogaskóli, enda byggður í túni höfuðbýlisins Stóru-Voga. Öll þessi 150 ár er þetta í raun sama stofnunin, þó hús væru byggð og rifin og nöfnum breytt. Byggð voru minni skólahús og starfækt um tíma – eins konar útibú frá skólanum – í fjarlægum hverfum, þegar þar var barnmargt. Þannig starfaði skóli í Kálfatjarnarhverfi 1893–1910, fyrst á Þórustöðum og í Landakoti og frá 1903 í sérbyggðu húsi í Norðurkoti; og í Vatnsleysuhverfi 1910–1914 og 1925–1943. Frá haustinu 1943 hefur verið skólabíll og eftir það öll kennslan á einum stað. Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar hefur endurbyggt Norðurkotsskóla við Kálfatjörn og er þar nú lítið skólaminjasafn.
Ég vona að lesendur Skólaþráða og annað áhugafólk um skólasögu og skólaþróun njóti þess að skoða þessa áhugaverðu sögu sem endurspeglar afrek forfeðra okkar og mæðra – að koma hér á fót skóla fyrir öll börn, stúlkur sem drengi, snauða sem ríka – löngu áður en skólaskylda komst á og opinberir aðilar fóru að sinna skólamenntun barna af alvöru.
Um höfund
Þorvaldur Örn Árnason er líffræðingur að mennt. Jafnframt háskólanámi í líffræði og að því loknu vann hann sem stundakennari við Háskóla Íslands og Kennaraháskólann. Hann nam síðan kennslufræði við KHÍ og kenndi um árabil í Menntaskólanum á Ísafirði og Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Þorvaldur var námstjóri í menntamálaráðuneytinu í tæpan áratug og lauk kennsluferli sínum sem náttúrufræðikennari við Stóru-Vogaskóla í Vogum, þar sem hann býr, og kenndi þar 2000–2016