1

Íslenska módelið í starfsmenntun – nokkrar hugleiðingar í kjölfar heimsókna í framhaldsskóla

Stephen Billett (Griffith Háskóla í Ástralíu) og Elsa Eiríksdóttir (Háskóla Íslands)

Í júní 2024 heimsótti ástralski fræðimaðurinn Stephen Billett Ísland í tilefni ráðstefnu NordYrk, norræns netverks um rannsóknir á starfsmenntun, sem haldin var í Háskóla Íslands. Heimsóknin var einnig nýtt til að fræðast um íslenskt starfsmenntakerfi og dvaldi hann hér þrjár vikur eftir ráðstefnuna. Stephen Billett er prófessor í starfsmenntun og fullorðinsfræðslu og hefur stundað víðtækar rannsóknir á því sviði. Í gegnum fræðistörf sín hefur hann kynnst starfsmenntakerfum víða um heim og því þótti athyglisvert að heyra hvernig íslenska starfsmenntakerfið birtist honum. Eftirfarandi pistill er samantekt á hugleiðingum Stephen Billett eftir heimsóknir í þrjá framhaldsskóla og samtöl höfunda í kjölfarið. Heimsóknirnar í Tækniskólann, Borgarholtsskóla og Verkmenntaskólann á Akureyri voru óformlegar og byggðust fyrst og fremst á samtölum við stjórnendur og kennara og kynningu á starfi skólanna.

Starfsmenntakerfi eru mismunandi eftir löndum en má í grófum dráttum skipta í tvo flokka eftir því á hvaða skólastigi þau eru aðallega staðsett. Annars vegar eru módel þar sem starfsmenntun fer fram í sérstökum starfsmenntastofnunum að loknu framhaldsskólastigi (eftir 18 ára aldur), eins og í Ástralíu þar sem starfsmenntun gengur undir heitinu Technical and Further Education (TAFE). Hins vegar eru módel sem byggja á að starfsmenntun fari fram innan framhaldsskólakerfisins (oftast á milli 16 og 19 ára aldurs), eins og á Íslandi. Starfsmenntakerfi sem byggja á seinna módelinu geta tekið á sig ólíkar myndir, en víða í löndum með vanþróaðri hagkerfi einkennast þau gjarnan af kennslu í almennum verkgreinum, eins og smíði og textíl, og lítilli sérhæfingu.

Það hefur verið tilhneiging til að álíta að starfsmenntun sem er staðsett innan framhaldsskólakerfisins sé lakari og hafi lægri virðingarstöðu en þegar hún er skipulögð í sérstökum starfsmenntastofnunum sem hafa starfsmenntun sem megináherslu og bjóða framhaldsnám á því sviði.  Álitið hefur verið að slíkar stofnanir séu betur til þess fallnar að sinna starfsmenntun en framhaldsskólar sem bjóða jafnframt upp á almennara nám. Oft er hugtakið „skóli“ viljandi ekki notað um þessar stofnanir því það þykir gefa til kynna að námið sé ætlað börnum og eigi ekki við um sérhæft framhaldsnám.

Sú sýn að starfsmenntakerfi á framhaldsskólastigi séu lakari getur þó verið mjög misvísandi og ekki á rökum reist og það virðist eiga við þegar rætt er um framhaldsskóla á Íslandi. Á Íslandi er starfsnám skipulagt (aðallega) á framhaldsskólastigi og engar sérhæfðar stofnanir bjóða upp á starfsnám á háskólastigi (á 5. þrepi ISCED hæfnirammans eða ofar). Þetta er ólíkt til dæmis því sem gerist í Danmörku þar sem sérhæfðar starfsnámsstofnanir bjóða upp á stuttar námsbrautir í framhaldi af starfsnámi á framhaldsskólastigi. Hér á landi eru heldur engir fagháskólar líkt og eru t.d. í Finnlandi og víðar sem svipar að mörgu leyti til hefðbundinna háskóla þar sem boðið er upp á framhaldsnám í mörgum starfsnámsgreinum (til dæmis tengdum ferðaþjónustu, byggingagreinum, félags- og uppeldisgreinum,  og skrifstofu- og verslunargreinum).

Eins og annars staðar í heiminum hefur menntakerfið á Íslandi þróast til að mæta þörfum samfélagsins almennt en einnig áskorunum sem tengjast landfræðilegri einangrun og dreifðri byggð. Hér líkt og annarsstaðar þarf að mennta fólk í hinum ýmsu starfsstéttum til að mæta félagslegum og efnahagslegum þörfum og það er hlutverk starfsmenntakerfisins sem hér á landi er skipulagt á framhaldsskólastigi. Framhaldsskólar á Íslandi bjóða bæði upp á bóknám og starfsnám fyrst og fremst fyrir 16 til 19 ára ungmenni. Skólarnir eru þó líka opnir fyrir fullorðna námsmenn sem vilja auka starfshæfni sína eða fá formleg réttindi til starfa og fullorðnir nemendur hafa löngum verið áberandi í starfsnámi í framhaldsskólum, sem sjá má t.d. af því að meðalaldur nema í iðnnámi og starfsnámi er hærri en nemenda í bóknámi (Elsa Eiríksdóttir og Sæberg Sigurðsson, 2023) Starfsnámsbrautir eru að jafnaði þriggja eða fjögurra ára nám og fela í sér bæði almenna og sértæka menntun.

Eftir að hafa heimsótt þrjá íslenska framhaldsskóla er það mat okkar höfunda að endurskoða þurfi það viðhorf að módel þar sem starfsmenntun fer fram innan framhaldsskólakerfisins, líkt og á Íslandi, standi að baki módelum þar sem starfsmenntun fer fram í sérhæfðum skólum eftir framhaldsskólanám, líkt og í Ástralíu. Markmið og breidd þeirrar starfsmenntunar sem fer fram innan framhaldsskóla á Íslandi er ólík og umfangsmeiri en sú menntun sem aflað er innan sérhæfðari menntastofnana. Heimsóknirnar veittu innsýn í fjölbreytt menntahlutverk íslenskra framhaldsskóla og breidd þess náms sem þar fer fram í samanburði við menntastofnanir sem snúast fyrst og fremst um starfsmenntun, líkt og finna má í Þýskalandi, Austurríki, Ástralíu og Bretlandi. Eftir að hafa skoðað aðstöðu og rætt við starfsfólk finnst okkur að hægt sé að setja fram eftirfarandi hugleiðingar um sérstöðu íslenskra framhaldsskóla sem starfsmenntastofnana út frá tilgangi þeirra og námsframboði.

  • Framhaldsskólarnir bjóða upp á breitt úrval starfsnáms sem býr nemendur undir lykilstörf í þjóðfélaginu, til dæmis í byggingagreinum, bílgreinum, háriðn, og matvælagreinum, líkt og gerist hjá sjálfstæðum starfsmenntastofnunum í þeim löndum þar sem námið er staðsett í slíkum stofnunum.
  • Framhaldsskólarnir bjóða upp á almennt bóknám auk starfsmenntunar en bóknámsbrautirnar leiða flestar til stúdentsprófs sem veitir aðgang að háskólamenntun.
  • Í framhaldsskólunum er boðið upp á námsbrautir sem sameina og samþætta bóknám og starfsnám (leiða bæði til starfsréttinda og stúdentsprófs) og nemendur fást við nám sem bæði er almennt og hefur sértækan tilgang til undirbúnings fyrir tiltekin störf.
  • Í samræmi við menntastefnu á Íslandi er lögð áhersla á að nám miðist við þroska og stöðu nemenda frekar en eingöngu á starfstengda hæfni. Framhaldsskólar skrifa námsbrautalýsingar og geta því boðið upp á ákveðinn sveigjanleika upp að því marki sem hæfnikröfur starfa leyfa.
  • Með því að staðsetja starfsnám innan framhaldsskólans er þó líklega erfiðara að koma til móts við væntingar vinnuveitenda þar sem íslenskir framhaldsskólar hafa fjölbreyttari tilgang en að undirbúa nemendur undir tiltekið starf. Að einhverju leyti vinnur hér á móti að námsbrautalýsingar byggja á hæfnikröfum starfa, vinnustaðanám er skilgreindur hluti af flestu starfsnámi og í löggiltum iðngreinum þurfa nemendur að þreyja sveinspróf til að fá réttindi til starfa.

Framhaldsskólar, einkum þeir sem bjóða starfsnám, þjóna fullorðnum nemendum sem margir eru með víðtæka reynslu af vettvangi og koma inn eftir raunfærnimat þar sem færni og þekking af vinnumarkaði er formlega metin og tekin gild sem hluti af náminu. Þetta þýðir að skólarnir verða að koma til móts við þarfir fullorðinna nemenda sem vinna með námi og búa jafnvel fjarri skólanum. Það felur í sér að bjóða þarf upp á námsbrautir sem fullorðnir geta lokið á eigin hraða eftir hæfni hvers og eins, og þar sem tekið er tillit til fyrri reynslu og þekkingar sem aflað hefur verið utan skólans (þar með talið með raunfærnimati).

Þetta sýnir vel breidd náms í íslenskum framhaldsskólum. Þar að auki er tilgangur framhaldsskóla almenn menntun fyrir samfélagið í heild og þessar stofnanir hafa því breiðara hlutverk en sjálfstæðar starfmenntastofnanir á næsta skólastigi hafa. Þetta þýðir að:

  • Bjóða þarf upp á nám fyrir fjölbreytta nemendahópa, bæði með tilliti til bakgrunns og getu, þar með talið nemenda með sérþarfir. Því þarf að hafa fjölbreyttan stuðning og þjónustu við nemendur.
  • Menntun án aðgreiningar þarf að vera leiðarljós í starfi framhaldsskóla, eins og gert er ráð fyrir samkvæmt menntastefnu.
  • Bjóða þarf upp á ráðgjöf fyrir nemendur á breiðum grundvelli, bæði út frá persónulegum þáttum og framtíðaráætlunum.
  • Skólinn þarf að vera í samstarfi og samtali bæði við foreldra og nemendur um tilgang náms, kennsluhætti og námsárangur.
  • Taka þarf tillit til ólíkra þarfa fullorðinna námsmanna og yngri nemenda.

Á heildina litið er það starfsmenntamódel sem byggt hefur verið upp á Íslandi hentugt fyrir fámenna þjóð í dreifbýlu landi sem ætlar sér að vera sjálfbær þegar kemur að menntun fyrir atvinnulífið. Þannig er starfsmenntun í framhaldsskólum á Íslandi að mörgu leyti bæði víðtækari og sveigjanlegri en starfsmenntun í sértækari menntastofnunum gæti verið. Sérstaklega þegar sértækari stofnunum er fyrst og fremst stýrt í gegnum stöðluð ákvæði um námsframboð sem takmarka hversu mikið er hægt að taka tillit til þarfa nemenda, eins og gjarnan er staðan þegar um ræðir sérhæfðari starfsmenntastofnanir sem þjóna fyrst og fremst tilteknum atvinnugreinum.

Þeir framhaldsskólar sem bjóða upp á bæði bóknám og starfsnám geta komið betur á móts við fjölbreyttar þarfir nemenda en sértækar starfsmenntastofnanir gætu gert og þjóna um leið þörfum nærsamfélagsins fyrir sérhæfða starfsmenntun. Þegar fjölbreyttur tilgangur og breidd náms í íslenskum framhaldsskólum er haft í huga rifjast upp áherslur Dewey í umræðu um starfsmenntun en hann lagði til að almennt nám þyrfti að vera hluti af starfsmenntun (Dewey, 1917). Að hans mati ætti að varast ofuráherslu á skilvirkni, því mikilvægt væri að miðla félagsfræðilegum og menningarlegum forsendum starfa og þjóna þörfum samfélaga frekar en að bregðast fyrst og fremst við þörfum atvinnulífsins.

Þakkir

Höfundar vilja þakka stjórnendum og starfsfólki skólanna þriggja og sérstaklega Guðrúnu Randalín Lárusdóttur í Tækniskólanum, Ársæli Guðmundssyni í Borgarholtsskóla og Jóhannesi Árnasyni í Verkmenntaskólanum á Akureyri. 

Heimildir

Dewey, J. (1917). The need for a recovery of philosophy. Í Creative Intelligence: Essays in the Pragmatic Attitude (bls. 8–69). Henry Holt and Company. https://archive.org/details/creativeintelli02moorgoog/page/n10/mode/2up

Elsa Eiríksdóttir og Sæberg Sigurðsson. (2023). Starfsnám eða bóknám: Aðsókn nemenda og þróun framhaldsskólastigsins. Skólaþræðir – Tímarit samtaka áhugafólks um skólaþróun. https://skolathraedir.is/2023/07/03/starfsnam-eda-boknam/


Um höfunda

Stephen Billett er prófessor í starfsmenntun og menntun fullorðinna við Griffith Háskóla í Brisbane í Ástralíu. Hann lauk doktorsprófi frá sama skóla 1995 en hefur síðan hlotið heiðursdoktorsnafnbót frá Háskólanum í Jyväskylä í Finnlandi og Háskólanum í Genf í Sviss. Í rannsóknum sínum hefur hann skoðað hvernig fólk lærir í starfi og fyrir starf. Rannsóknir hans hafa verið á sviði starfsnáms, vinnustaðanáms og fullorðinsfræðslu.

Elsa Eiríksdóttir er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í sálfræði frá Georgia Institute of Technology í Bandaríkjunum 2011. Rannsóknir hennar hafa helst snúið að verk- og starfsmenntun, vinnustaðanámi, framhaldsskólastiginu, þróun kunnáttu og yfirfærslu þekkingar.


Grein birt 6. ágúst 2024