1

Lesfimi, að lesa hratt eða lesa vel? Viðtal við dr. Jan Hasbrouck.

Auður Soffíu Björgvinsdóttir ræðir við dr. Jan Hasbrouck

Dr. Jan Hasbrouck er fræðikona og ráðgjafi í menntamálum og sérfræðingur í læsisfræðum. Dr. Hasbrouck starfaði sem læsissérfræðingur og ráðgjafi í 15 ár en hóf svo kennslu við Háskólann í Oregon (University of Oregon) og gegndi síðar stöðu prófessors við Texas A&M University. Síðustu ár hefur Jan starfað sem ráðgjafi og sérfræðingur bæði fyrir opinbera aðila og sjálfstætt gegnum fyrirtæki sitt JH Educational Services sem hún starfrækir frá Seattle þar sem hún býr. Sérþekking Jan á sviði læsis snertir einkum lesfimi, mat á lestri og lestrarkennslu.

Jan Hasbrouck hefur skrifað fjölda fræðigreina og bækur um læsi. Þeirra á meðal er Conquering Dyslexia (2020) sem kennd hefur verið við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Í janúar á þessu ári kom út bókin Climbing the Ladder of Reading and Writing: Meeting the Needs of ALL Learners sem hún skrifar og ritstýrir með Nancy Young. Sú bók verður án efa góð viðbót við kennsluefni á Menntavísindasviði en í henni er fjallað um hvernig mæta megi þörfum og efla lestrarfærni fjölbreytts nemendahóps, hvort sem nemendur glíma við áskoranir eða veitist lestrarnámið auðvelt og þurfa frekari áskoranir. Grunnurinn að bókinni liggur í Lestrar og ritunarstiganum eftir Nancy Young, sem þýddur hefur verið á íslensku með leyfi höfundar.

Sjá hér: https://nancyyoung.ca/the-ladder-of-reading-writing/

Sennilega er Jan Hasbrocuk hvað þekktust fyrir þróun lesfimimælinga. Lesfimiviðmið kennd við Hasbrouck og Tindal eru viðurkennd og mikið notuð í Bandaríkjunum Þessi viðmið voru síðast stöðluð árið 2017 með yfir 6 milljónum nemenda (Hasbrouck og Tindal, 2017).

Í nóvember 2023 heimsótti Jan Hasbrouck Ísland og flutti þá erindi á málþinginu Hvernig ná öll börn árangri í lestrarnámi sem haldið var á Menntavísindasviði Háskóla Íslands 8. nóvember 2023. Í erindi sínu Reading Fast or Reading Well? Let’s Take Another Look at Fluency útskýrði hún hugtakið lesfimi og fjallaði um algengan misskilning sem gjarnan kemur upp varðandi hugtakið. Erindið var mjög upplýsandi og vel tekið og í kjölfarið vöknuðu ýmsar spurningar, enda hefur töluverð umfjöllun verið um lesfimi og lesfimimælingar á Íslandi undanfarin ár. Mér sem lestrarkennara til margra ára, læsisfræðingi og doktorsnema í menntavísindum með lestrarkennslu sem viðfangsefni hefur stundum fundist umræðan á villigötum, einkennast af upphrópunum og misskilningi og sjaldan studd rannsóknum.

Lesfimi er flókin færni sem felur í sér nákvæmni, sjálfvirkni og hrynræna þætti tungumálsins (Kuhn o.fl., 2010). Af þessum þremur þáttum eru tveir mældir í lesfimiprófum, þ.e. nákvæmni og sjálfvirkni og er árangur mældur í fjölda rétt lesinna orða á mínútu. Umræðan hefur meðal annars snúist um að lesskilningur, það að geta sótt sér upplýsingar úr lesnum texta, sé takmark lestrarins og tengist ekki sjálfvirknihluta lesfimi, sem sé einungis óþörf mæling á leshraða. Því ætti að sleppa lesfimimælingum en mæla heldur lesskilning. Fjöldi rannsókna hefur sýnt að skýr tenging er milli lesfimi og lesskilnings (White o.fl., 2021) og hefur lesfimi verið kölluð brú milli umskráningar og lesskilnings (Duke og Cartwright, 2021; Rasinski, 2004). Í grunninn er um að ræða það að þegar við gerum eitthvað tvennt í einu, eins og að lesa texta og hugsa um innihald textans, þá þarf annað hvort sífellt að stökkva á milli þess að lesa og þess að hugsa, eða að önnur færnin sé algjörlega sjálfvirk (LaBerge og Samuels, 1974). Þannig gefst þeim sem getur lesið með sjálfvirkum hætti tækifæri til að hugsa um innihald textans á meðan sá sem þarf að einbeita sér að lestrinum getur lent í vanda við að skilja textann. Mælieiningin rétt lesin orð á mínútu kann að skýra þann misskilning sem ríkir um lesfimipróf og gildi þeirra. Einnig gæti framsetning á niðurstöðum og þau viðmið sem Menntamálastofnun setti í upphafi haft áhrif og eflaust er kominn tími til að endurskoða hvoru tveggja. Svo rammt hefur kveðið að þessum misskilningi að þingsályktunartillaga sem felur meðal annars í sér afnám lesfimiprófa og að þess í stað skuli metin stafaþekking, lesskilningur og ritun, hefur verið lögð fram í tvígang (Þingskjal nr. 87/2023. Breytingar á aðalnámskrá grunnskóla).

Í ljósi eigin reynslu, rannsókna og þeirrar orðræðu sem verið hefur um lestur og lesfimi, þótti mér sérlega mikill fengur að komu dr. Jan Hasbrouck hingað til lands og ákvað í kjölfar áskorunar Kolbrúnar Þ. Pálsdóttur, forseta Menntavísindasviðs, að óska eftir viðtali við hana meðal annars um lesfimi og hvernig staðan á Íslandi blasir við henni.

Á desemberkvöldi á Íslandi, en í hádeginu í Seattle, hittumst við Jan á Teams. Í upphafi viðtals fannst mér ég þurfa að biðjast afsökunar á því að biðja hana um að fjalla um lesfimi, efni sem hún hefur ítrekað verið beðin um að tala um. Jan svaraði því til að það skipti hana máli að nemendur njóti gæðakennslu og að kennarar noti réttar aðferðir. Þrátt fyrir að það væri aðeins hádegi í Seattle hafði hún þegar rætt lesfimi tvisvar þennan dag en var samt ekki þreytt á umræðuefninu.

Í ljósi þess að hátt hlutfall barna í 1.–3. bekk á Íslandi er undir 1. viðmiði, sem er lágmarksviðmið og 2. viðmiði sem er ætlast til að börn nái og að rannsóknir hafi ítrekið sýnt fram á mikilvægi þess að börn nái nægilegri fimi fyrir lok 3. bekkjar, hófum við umræðuna þar.

Hve mikilvæg eru viðmið þegar meta skal lesfimi, hvað finnst þér um íslensku viðmiðin fyrir lok 1. bekkjar, þar sem lágmarkið er 20 rétt lesin orð á mínútu, miðjuviðmið sem er það viðmið sem stefnt er að er 55 rétt lesin orð á mínútu og efsta viðmið er 75?

Það sem ég hef séð af rannsóknum síðustu áratuga er hversu víðtækar staðfestingar við höfum fyrir gildi þess að mæla rétt lesin orð á mínútu. Við höfum svo margar vísbendingar um að þetta sé mjög nákvæm, ekki fullkomin, en mjög nákvæm vísbending um hvar nemendur standa í lestrarfærni að við getum virkilega treyst þessu. Þó svo að meirihluti rannsókna hafi farið fram á ensku hafa svipaðar rannsóknir farið fram á fleiri tungumálum sem staðfesta þetta. Aðalatriðið er að fjöldi rétt lesinna orða á mínútu eru vísbending um lesskilning nemenda. Sjálfvirkni, sem er aðeins einn hluti lesfimi, skiptir verulega miklu máli í fyrstu bekkjunum. Þess vegna treystum við mælikvarðanum rétt lesin orð á mínútu og ég hef mikla trú á viðmiðunum sem við höfum þróað.

Þegar við fylgjumst með hvernig lestrarfærni nemenda þróast þá getum við verið nokkuð viss um að börn sem lesa 50 til 55 rétt orð á mínútu við lok fyrsta bekkjar séu komin vel af stað og muni halda áfram að bæta sig. Ég meina, almáttugur, það þarf að læra svo miklu meira um lestur en því sem hægt er að ná við lok fyrsta bekkjar. En krakkar sem lesa 55 rétt orð á mínútu, eða meira, kannski 75 orð, eru líklega í góðum málum hvað varðar lestrarþróun eða í raun að standa sig mjög vel. Krakkar sem eru í kringum 20 rétt lesin orð á mínútu, þeir hafa ekki náð færninni, þeir gætu verið að tafsa og jafnvel giska á orðin. Nemandi sem nær að lesa um 20 orð rétt á mínútu, eða reynir það, hann er í raun ekki að lesa og við hvorki viljum né ættum að sætta okkur við að nemendur ljúki fyrsta bekk með slíka lestrarfærni.

Það eru fleiri mælikvarðar og viðmið sem virðast hafa sama sterka forspárgildi, það eru fimi í þekkingu bókstafsheita og bókstafshljóða. Ef nemendur geta ekki nefnt hljóð og heiti bókstafa á seinni hluta leikskólagöngu þá ætti að byrja að kenna þeim það. Við verðum að miða kennsluna að því hvar nemendur eru staddir og þó að við ætlumst ekki til að þeir geti nefnt heiti og hljóð allra bókstafa án hiks við upphaf fyrsta bekkjar, þá ættu nemendur að ráða við flesta bókstafi með nokkuð sjálfvirkum hætti þegar þeir byrja. Þannig að við ættum sannarlega að horfa til viðmiða vegna þess að þau upplýsa okkur um stöðuna, gefa til kynna hvort börnin fylgi með eða séu að dragast afturúr. Eru framfarirnar nægilegar eða sjáum við rautt flagg? Við ættum að nota viðmiðin og við ættum að vera mjög áhyggjufull og tilbúin að grípa til aðgerða ef þau nást ekki. En við viljum þessar upplýsingar fyrir lok skólaárs. Viðmið sem gilda við lok skólaárs eru okkur minnst virði, við þurfum að vita hver staðan ætti að vera í upphafi og um mitt skólaár. Viðmið fyrir lok skólaársins gefa okkur hugmynd um hversu góðum árangri við höfum náð og segir sitthvað um kennsluna sem hefur farið fram. Ef það er hátt hlutfall barna sem hefur ekki náð viðmiði þá er eitthvað að kennsluaðferðunum og það þarf að bregðast við því fyrir næsta ár.

Þannig að ef yfir helmingur nemenda nær ekki tilætluðu viðmiði, 55 rétt lesnum orðum á mínútu við lok 1. bekkjar, segir það okkur að við þurfum að bæta kennsluna okkar?

Já, já.

Þannig er staðan hjá okkur á Íslandi og eitthvað sem við þurfum að huga að. Hvað myndir þú leggja til sem byrjunarársviðmið fyrir 2. bekk?

Nú erum við að ræða annars vegar um lestur á ensku og hins vegar íslensku, en þetta er sambærilegt. Það sem við finnum er að það verður meiri lækkun milli 1. og 2. bekkjar en annarra árganga. Ég held að það orsakist af þeirri staðreynd að þetta eru byrjendur í lestri, það er nýbyrjað að kenna þeim að lesa og heilinn fær litla þjálfun í því yfir sumarið. Þetta eru nokkrir mánuðir eða svo þar sem heilinn sem var að læra að lesa fær ekki æfingu og þau einfaldlega missa niður færni. Þannig að miðjuviðmiðið okkar, sem við vonum að flestir nemendur nái fyrir lok fyrsta bekkjar er 60 rétt lesin orð á mínútu, og það er í raun sama tala og ykkar 55 orð, það er næg nákvæmni. Þannig að þá hugsum við 60 rétt lesin orð á mínútu aftur við upphaf 2. bekkjar, en nú er textinn aðeins þyngri og við setjum upphafsviðmið í 2. bekk við 50 rétt lesin orð á mínútu.

Þau börn sem fóru vel af stað í lestri í 1. bekk hafa náð að virkja þær tengingar í heilanum sem þarf til að lesa þannig. Jafnvel þó að þau fái ekki mikla æfingu yfir sumarið þá hverfur færnin ekki, hún er varanleg. Þar liggur munurinn milli þeirra barna sem fóru vel af stað og hinna, þau lækka kannski aðeins, en ekki mikið. Í 2. bekk er búist við mikilli aukningu á færni, rannsóknir okkar sýna að við lok skólaársins er miðjuviðmiðið 100 rétt lesin orð á mínútu, nemendur ættu að geta bætt sig að meðaltali um 50 rétt lesin orð í 2. bekk.

Hvernig blasir við þér að á Íslandi, við lok fyrsta bekkjar eru um 25% barna undir 1. viðmiði sem eru 20 rétt lesin orð á mínútu og í öðrum bekk eru um 30% barna undir 1. viðmiðinu 40 orðum?

Þetta bendir til þess að leiðirnar sem eru notaðar til að kenna börnum verði verri með tímanum, vegna þess að fleiri börn eru undir viðmiðum í 2. bekk en 1. Að minnsta kosti á þetta við um börnin sem eru í viðkvæmustu stöðunni félagslega, þurfa mesta stuðninginn og kennsluna. Og gott og vel, ef við erum tilbúin til að sætta okkur við að 20–30% af íbúum á Íslandi verði ekki læsir. En því ber ekki saman við þau gögn sem við höfum um að það sé hægt að kenna nánast öllum börnum að lesa, en það þarf að kenna þeim. Þannig að ég myndi segja að þetta væru ekki góðar fréttir.

Það leiðir okkur að umræðunni um þjálfun í lestrarfærni. Á Íslandi er mikil áhersla lögð á hlutverk foreldra í lestrarkennslu í yngri bekkjum. Einnig voru niðurstöður PISA nýlega birtar, Ísland kom ekki vel út og nú hefur umræðan tilhneigingu til að hallast að foreldrum og heimilum. Hvað finnst þér um það?

Í Bandaríkjunum hafa margir foreldrar risið upp og eru orðnir einskonar aðgerðasinnar varðandi lesblindu. Margir þeirra eru lögfræðingar, barnalæknar, háskólaprófessorar og fólk með þess konar menntun sem eiga börn með lesblindu. Þessir foreldrar segja: Við lásum fyrir börnin áður en þau fæddust, við lesum fyrir þau á hverju einasta kvöldi og við tölum gott tungumál. Við sinnum þessu en barnið okkar þarf kennslu og ég er bara lögfræðingur eða ég er bara barnalæknir, ég veit ekki hvernig á að kenna og hef heldur ekki tímann. Þannig að ég held að sá boðskapur sé farinn að berast út að þrátt fyrir að börn fái allan þennan frábæra stuðning heima þá er það ekki nóg. Vissulega eiga öll börn skilið að fá þennan stuðning og við ættum að hjálpa foreldrum til þess, veita aðgang að bókasöfnum og tryggja að foreldrarnir sjálfir geti lesið og fleira. En það er ekki nóg, við vitum það og þetta á ekki aðeins við um börn með lesblindu. Það má segja að foreldrarnir séu kremið á kökuna en kakan er kennslan sem börnin fá í skólanum þar sem nemendur virkja nýjar tengingar í heilanum.

Við viljum þó ekki útiloka foreldrana?

Nei, við ættum aldrei að gera það. Við þurfum að vinna með foreldrum og styðja þau svo þau geti veitt góðan stuðning heima. En það er ekki á þeirra ábyrgð að kenna lestur og eins og við vitum verður ekki auðvelt að kenna hluta nemenda. Það er okkar ábyrgð, ekki foreldranna, ekki samfélagins, heldur okkar kennara.

Við höfum nú þegar rætt að það sé mikilvægt að skólar, að kennarar tryggi að öll börn nái góðum árangri í lestri og að lesfimi gegni lykilhlutverki í því. Á Íslandi finnst mér hins vegar stundum að lesfimi sé stillt upp gegn sköpunargáfu og gagnrýninni hugsun, þess vegna ættum við ekki að einblína á lesfimi. Þessar raddir má heyra frá foreldrum, kennurum og leiðtogum menntamála, er þetta raunin í Bandaríkjunum líka?

Já, það eru tvær fylkingar. Markmiðið er árangur nemenda og við viljum öll að nemendur geti lesið vel og notið þess að lesa. Enginn er ósammála því. Ágreiningurinn liggur í því að hluti okkar eru meðvitaðri um vísindi og rannsóknir og þá staðreynd að til þess að nemendur nái þessari færni þá verður að koma þeim á þann stað í lestrinum, við verðum að virkja og styrkja tengingar í heilanum. Við verðum að kenna heilanum að lesa. Ég elska skilaboðin í Lestrar- og ritunarstiganum hennar Nancy Young um að það að læra að lesa og skrifa sé ferli fyrir alla, og þessir lituðu reitir sem hún notar sýna þá staðreynd að fólk mun eiga misauðvelt með að klifra upp lestrarstigann.

Heilinn í krökkunum á dökkgræna svæðinu áttaði sig sjálfur á hvernig á að lesa. Svo er það grænt, svo appelsínugult og svo það rauða. Allir þessir heilar eru mismunandi, en það sem við vitum líka er að þeir geta næstum allir lært að lesa. Vísindin segja að næstum öll börn geti það, 95%. Einnig að stór hluti þessara barna þurfi mjög vandaða, ígrundaða og kerfisbundna kennslu og við verðum að kenna þannig, vegna þess að við viljum að allir nemendur öðlist frábæra lestrarfærni.

Við getum ekki bent hvert á annað og sagt, þú veist að þú hefur rangt fyrir þér. Já, við viljum skapandi hugsun. Já, við viljum þrautalausnir og djúpar greiningar. Já, við viljum að börn njóti þess að lesa. Við viljum að öll börn klifri upp lestrar- og ritunarstigann með góðum árangri, en þau munu gera það á mismunandi vegu og lesfimi leikur stórt hlutverk. Þú kemst ekki efst í stigann án sjálfvirkni og lesfimi. Þú kemst ekki þangað án góðs orðaforða. Fyrir sum börn verður kennslan að vera mjög markviss og skýr, þau verða að tengja tungumálið við stafrófið. Sum eru snögg að því en önnur fara hægt af stað og þá þýðir ekkert annað en að bregðast við. Ef nemendur eru neðst í stiganum þá höfum við mikið verk að vinna áður en þeir geta farið að taka fullan þátt. Spurðu þá 10. bekkinga sem eru að ljúka skólagöngu án fullnægjandi lestrarfærni hversu ánægðir þeir eru. Við viljum að þau séu hamingjusöm og börn sem kunna að lesa eru hamingjusamari en börn sem kunna ekki að lesa. Kennum þeim öllum að lesa. Það mun ekki tryggja hamingju, en ef þú getur ekki lesið verðurðu ekki hamingjusamur fullorðinn einstaklingur.

Ég er algjörlega sammála, en spurningin er, hvenær getur barn lesið vel? Ræðum lesfimina aðeins betur. Á Íslandi erum við með viðmið frá 1. til 10. bekkjar, en mér skilst að þið séuð bara með viðmið upp í 6. bekk eða svo, er það rétt?

Fyrri rannsókn okkar og gerð lesfimiviðmiða náðu til 8. bekkjar, en nýjasta rannsóknin nær aðeins til 6. bekkjar vegna þess að við gátum ekki nálgast gögn. Þetta var mjög flókið og við reyndum en staðreyndin er líka sú að ef við berum saman rannsóknir okkar frá 2006 og 2017 þá eru einfaldlega ekki miklar breytingar á milli 5., 6., 7. og 8. bekkjar.

Ég hef sjálf ekki framkvæmt rannsóknir fyrir ofan 8. bekk með það að markmiði að búa til lesfimiviðmið en aðrir hafa gert það og almenn samstaða er um að ef nemendur geti lesið aldurssvarandi texta óundirbúið, einhvers staðar í kringum 150-175 rétt orð á mínútu, þá breytist það ekki. Hlutirnir breytast mikið milli 1. bekkjar, 2. bekkjar, 3. bekkjar, 4. bekkjar, en það lítur út fyrir að í kringum 5. bekk fari lesfimi eða sjálfvirkni að jafnast út. Það þýðir ekki að krakkar standi í stað vegna þess að þeir lesa alltaf 150 rétt orð á mínútu, textinn verður erfiðari.

Við viljum að í lok 5. bekkjar lesi nemendur um 150 rétt orð á mínútu, kannski aðeins meira, og í 6. bekk og 8. bekk geta þau enn gert það. Þannig að við þurfum í raun ekki að hafa viðmið fyrir efri bekki.

Minn skilningur er, og mig langar að spyrja þig hvort ég hafi rétt fyrir mér? Það að ná bara lægsta viðmiði í 1. bekk, 20 rétt lesnum orðum á mínútu er ekki nógu gott, en að ná lægsta viðmiðinu í 10. bekk, 145 orðum, er í lagi. Ertu sammála mér?

Já, ég er það, já, já.

Þar höfum við miðjuviðmiðið, 180 rétt orð á mínútu sem mér finnst mjög viðeigandi og hæstu viðmið 200 og 210 orð, sem er mjög hratt. Það er ekki gagnlegt, eða er það?

Það er ekkert sem bendir til þess að þeir krakkar sem ná þessu hæsta viðmiði skilji betur en það er það sem skiptir okkur máli. Okkur er annt um skilning, þannig að um 140 rétt orð á mínútu er þröskuldur til skilnings, 180 hámarkar líklega skilning. Fyrir ofan það ertu bara að lesa fyrir hraða.

Texti fyrstu bekkjanna er svo einfaldur að við viljum koma krökkum í hærri viðmið vegna þess að það sýnir sjálfvirkni í lestri, að þetta sé þeim auðvelt og það eykur möguleika á lesskilningi. En seinna, þegar textinn er orðinn flóknari verðum við að hægja á okkur til að heilinn geti unnið úr textanum. Við erum í raun að mæla það sama, en við þurfum að hugsa þetta með ólíkum hætti fyrir nemendur í 1. bekk og í 10. bekk.

Lesfimiviðmið á Íslandi hafa verið dregin í efa og ég velti fyrir mér hvort það sé vegna þess að þau eru á einhvern hátt ofmetin eða ofnotuð vegna þess að við höfum svo fá stöðluð próf. Mig grunar að kennarar leggi mikla áherslu á lesfimiprófin vegna þess að þeir hafa ekki mikið til að mæla framfarir með. Ég held að við þurfum að nota prófin öðruvísi og skynsamlega til að tryggja að börnin taki fullnægjandi framförum í yngstu bekkjunum og ef það næst, einbeita okkur síðar að öðru mati eins og lesfimikvarða Tim Rasinskis (sjá hér). Í mínum huga ef barn í 8. bekk er að lesa kannski 165 rétt orð á mínútu, þá er það nóg, látum gott heita. Hvað finnst þér?

Já, láttu þetta eiga sig. Það er svo margt annað sem þarf að gera. Ég meina, orðaforði, skrift, stafsetning, lestur ólíkra textategunda. Tilgangurinn er ekki að lesa hraðar og hraðar, það er ekki málið. Góð skýring fyrir þá sem efast um lesfimiviðmið getur verið munurinn á lestri við upphaf grunnskóla og lok hans.

Allir vita að 10. bekkingar eru allt öðruvísi en fyrstu bekkingar. Það á líka við um lestur. Við vitum að það þarf að virkja nýjar taugabrautir í heilanum svo hann verði lestrarheili. Þegar sú endurskipulagning hefur átt sér stað þurfum við að vinna með annars konar lestur.

Við tölum um að læra að lesa fyrir 3. bekk og að lesa til að læra eftir 3. bekk og það er sannleikur í því. Heilinn hefur þá verið virkjaður til lestrar og fyrir flest börn sem ekki glíma við taugafræðileg frávik og hafa fengið góða kennslu, ætti þeirri vinnu að vera lokið nokkurn veginn um miðjan 2. bekk. Eftir það verður lestur að einhverju öðru fyrir flest börn. En þau sem ekki hafa náð að virkja taugabrautir heilans til lestrar og eru beðin um að lesa aldurssvarandi texta í t.d. 4. og 5. bekk og geta það ekki þurfa þau annars konar kennslu.

Almennt myndi ég segja að ég vilji mæla rétt lesin orð á mínútu þrisvar á ári í 1. og 2. bekk og svo í byrjun árs í 3. bekk hjá öllum. Ef krakkarnir ná viðmiðum í upphafi skólaárs missa þau ekki færnina yfir skólaárið. Það er hægt að meta lesfimina í 3. og 4. bekk kannski 5. bekk, og síðan nýta matsramma Rasinski (sjá hér). En hafðu líka í huga að ef við viljum fá viðbótarupplýsingar um fjölda lesinna orða fyrir fleiri árganga þá er það fljótlegt og við ættum að gera það. En samkvæmt minni reynslu og niðurstöðum rannsókna þá munu niðurstöður lesfimiprófs við upphaf 3. bekkjar sýna okkur hvaða krakkar eru á góðri leið og hver ekki. Aðalatriðið er að ganga úr skugga um að þú hafir fundið krakkana sem eru í erfiðleikum svo hægt sé að bregðast við með kennslu. Í raun ættu allir nemendur að vera komnir vel af stað á þeim tíma og þá myndi matskvarði Rasinski duga.

—–

Eftir þetta gagnlega og upplýsandi samtal er margt sem leitar á hugann. Það fylgir því ábyrgð að kenna börnum og meta færni þeirra. Þó að Jan staðfesti í viðtalinu ótvírætt gildi lesfimimælinga og gagnsemi þeirra til að álykta um lesskilning, þá er samt ljóst að það er ýmislegt sem mætti endurskoða varðandi þær leiðir sem farnar eru í lestrarmati hér á landi.

Við ættum til að mynda að spyrja okkur um tilgang þess að meta lesfimi eins lengi og raun ber vitni í ljósi þess að sá þröskuldur sem við viljum ná nemendum okkar yfir eru 140 orð og allt yfir 180 orð bætir sennilega litlu við. Þessu tengt kemur upp í hugann hvort sú birtingarmynd Skólagáttar að sýna hverjum skóla meðaltal sitt gagnvart landsmeðaltali hafi áhrif á hvort haldið sé áfram að prófa sterka nemendur að nauðsynjalausu.

Þegar litið er til viðmiða Menntamálastofnunar væri ástæða til að endurskoða þau frá ýmsum hliðum, hækka lágmarksviðmið á yngsta stigi en afnema viðmið yfir 180 rétt lesnum orðum á mínútu. Ekki síður væri gagnlegt að skilgreina viðmið við upphaf og miðbik skólaárs því eins og Jan benti á, þá er minnst gagn af þeim viðmiðum sem sett eru fyrir lok skólaársins, en það eru einu viðmiðin sem við höfum.

Það sem þó situr einna helst eftir í kjölfar þessa samtals er að það þarf að bregðast við því að við virðumst vera að mæla lesfimi endurtekið án þess að bregðast við niðurstöðum og breyta kennsluháttum. Þegar niðurstöður í Skólagátt Menntamálastofnunar eru skoðaðar aftur í tímann er ekki að sjá miklar breytingar frá ári til árs. Eins og Jan benti á eiga nemendur að læra að lesa fyrir lok 3. bekkjar til að geta einbeint sér að því að lesa til að læra á mið- og unglingastigi. Samkvæmt upplýsingum úr Skólagátt voru 66% nemenda í 3. bekk undir miðjuviðmiðinu 100 rétt lesin orð á mínútu vorið 2024, en niðurstöður frá 92% nemenda á landinu voru settar inn í gáttina. Þegar litið er til niðurstaðna 5. bekkjar sama vor má sjá að 69% nemenda eru undir miðjuviðmiðinu 140 rétt lesnum orðum á mínútu og þar af 35% undir lágmarksviðmiði sem eru 90 rétt lesin orð á mínútu. Niðurstöður 91% nemenda 5. bekkjar voru settar inn í Skólagátt. Þessar tölur segja okkur að stór hluti nemenda okkar er ekki fær um að lesa til að læra svo vel sé. Ólíklegt er að djúplæsi og ígrundun eigi sér stað hjá þessum nemendum og þar af leiðandi vex að lestrarfærni í takt við aldur og þyngd texta ekki.

Þegar litið er til þess hve tengsl lesfimi og lesskilnings eru skýr og mikið rannsökuð er ljóst að við getum nýtt okkur niðurstöður lesfimiprófa töluvert betur og með skynsamari hætti til að efla lestrarfærni nemenda okkar. Þessar niðurstöður segja okkur að við þurfum að breyta kennsluháttum. Við þurfum ekki að bíða eftir PISA niðurstöðum til að fá skellinn.

Tilvísanir

Hasbrouck, J. E. (2020). Conquering Dyslexia: A guide to early detection and intervention for teachers and families. Benchmark Education.

Hasbrouck, J. og Tindal, G. (2017). An update to compiled ORF norms (Technical Report No. 1702). Eugene, OR, Behavioral Research and Teaching, University of Oregon. https://files.eric.ed.gov/fulltext/ED594994.pdf

Kuhn, M. R., Schwanenflugel, P. J. og Meisinger, B. M. (2010). Aligning theory and assessment of reading fluency: Automaticity, prosody, and definations og fluency. Reading Research Quarterly, 45(2), 230–251.

Menntamálastofnun. (2024, 16. júní ). Skólagátt. https://skolagatt.is/g%C3%B6gn/landi%C3%B0/lesfimi/?term=2023-24

LaBerge, D., og Samuels, S. J. (1974). Toward a theory of automatic information processing in reading. Cognitive psychology, 6(2), 293-323. https://doi.org/10.1016/0010-0285(74)90015-2

Young, N., og Hasbrouck, J. (Eds.). (2024). Climbing the ladder of reading & writing: Meeting the needs of ALL learners. Benchmark Education.

White, T. G., Sabatini, J. P., og White, S. (2021). What does “below basic” mean on NAEP reading?. Educational Researcher50(8), 570-573. DOI: 10.3102/0013189X211044144

Young, N. (2023). The ladder of reading & writing. Nancy Young. https://www.nancyyoung.ca/ (Íslensk þýðing: Auður Björgvinsdóttir, Guðbjörg Rut Þórisdóttir, Sonja Dröfn Helgadóttir og Katrín Ósk Þórisdóttir.)

Þingskjal nr. 87/2023. Breytingar á aðalnámskrá í grunnskóla. https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/154/87/?ltg=154&mnr=87


Heimasíðu dr. Jan Hasbrouck er að finna á þessari slóð: https://www.janhasbrouck.com/

Á vef Reading Rockets má lesa umfjöllun um lesfimiviðmiðin og notkun þeirra Fluency Norms Chart (2017 Update) | Reading Rockets


Um höfund

Auður Soffíu Björgvinsdóttir (audurbjorgvins(hja)hi.is) er grunnskólakennari, læsisfræðingur og doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Viðtal birt 16. júní 2024