1

Förum á flug: Nýsköpun, samþætting og teymisvinna í skólastarfi Víkurskóla

Fiona Oliver og Hildur Seljan

 

Þegar skólabreytingar urðu í Grafarvogi og Víkurskóli var stofnaður þann 1. ágúst 2020, fékk hann undirtitilinn nýsköpunarskóli og var þá strax ákveðið að fara nýjar leiðir í kennsluaðferðum. Samþætting var eitt af því sem var grundvöllurinn að breytingunum; að afnema skilin milli námsgreina, tvinna þær saman og gera námið þannig áhugaverðara og árangursríkara. Lilja M. Jónsdóttir lýsir kostum samþættingar í meistararitgerð sinni Integrating the Curriculum – A Story of Three Teachers á eftirfarandi hátt: „Samþætting viðfangsefna er leið fyrir kennarann og nemendur að sannreyna í skólastarfi að veröldin er ekki samhengislaus, heldur er hvað öðru háð. Í samþættingu þarf þekkingu og leikni frá öllum þekkingarsviðunum“ (Lilja M. Jónsdóttir, 1995, bls. 51). Markmiðið var því að tengja saman mismunandi námsgreinar og hvetja nemendur til að nota heildstæða nálgun í lausnum á vandamálum eða verkefnum.

Í Aðalnámskrá grunnskóla kemur fram að leitast eigi eftir því að nám sé sem heildstæðast og segir þar enn fremur:

Í samfélaginu eru verkefni yfirleitt ekki sundurgreind og einangruð heldur samofin mörgum þáttum. Þetta er mikilvægt að hafa í huga við skipulag skólastarfs. Því ætti að vera áhersla á samþættingu námsgreina þar sem horft er til verkefna sem hafa snertifleti við margar námsgreinar. Þannig má nálgast það markmið að gera námið merkingarbærara fyrir nemendur, skýra fyrir þeim samhengi fræðigreina og nauðsyn þess að hafa innsýn í heim þeirra (Aðalnámskrá, 2011, bls. 51).

Með samþættingu námsgreina er lögð áhersla á að nemendur geti skilið hvernig mismunandi þættir tengjast og hvernig þeir geti nýtt þekkingu sína á mismunandi sviðum til að leysa flókin vandamál. Samþætting námsgreina getur einnig aukið skilning og áhuga nemenda á mismunandi fræðigreinum og stuðlað að því að þeir séu betur undirbúnir fyrir fjölbreytt störf og verkefni.

Fyrirmyndir eins og Sprellifix í Langholtsskóla og Smiðjur í Vallaskóla voru lagðar til grundvallar. Þessi samþætting í Víkurskóla bar frá upphafi nafnið Ugla og talað er um að ný Ugla hefjist líkt og um lotu sé að ræða. Námsgreinarnar íslenska, samfélagsgreinar, náttúrufræði og upplýsinga- og tæknimennt urðu þannig að Uglu þegar skólinn tók til starfa. Haustið 2022 var ákveðið að nýta betur mannauð skólans og breyta til. Aðeins einn náttúrufræðikennari var í starfsliðinu en margir enskukennarar. Því var náttúrufræðin tekin út í 9. og 10. bekk og í staðinn kom enskan inn. Náttúrufræðin er enn samþætt í Uglu í 8. bekk og enskan er kennd sér í þeim árgangi. Í hverjum árgangi eru því fjórar námsgreinar samþættar. Að baki hverrar Uglu er þrotlaus vinna og er mikill metnaður lagður í þróunina. Þegar Uglur eru endurteknar er tækifærið ávallt gripið og þær betrumbættar.

Leiðsagnarnám

Smátt og smátt fundum við okkar takt í samþættingunni og voru aðferðir leiðsagnarnáms rauður þráður í gegnum vinnuna og skipulagið okkar. Uglurnar eru unnar út frá hæfniviðmiðum Aðalnámskrár. Við leggjum mikið upp úr að nemendur viti til hvers er ætlast af þeim og því eru hæfniviðmið og árangursviðmið alltaf sýnileg. Árangursviðmið hjálpa nemendum til framfara og einnig að meta sinn eigin árangur (Nanna Kristín Christiansen, 2021, bls. 19). Þessi skýrleiki (e. clarity) hjálpar við skipulag, einfaldar námsmat og léttir undir forfallakennslu.

Við setjum einnig mikla vinnu í að gera verkefnin lífleg og aðlaðandi fyrir nemendur. Öll fyrirmæli og kennsluefni er alltaf aðgengilegt á Google Classroom og á svokölluðum námsveggjum og nemendur geta því unnið á sínum hraða þó vissulega séu fastir skiladagar. Námsveggir (e. learning walls) „… gegna mikilvægu hlutverki sem námsstoðir og er ætlað að stuðla að sjálfstæði nemenda. Þar setur kennarinn upplýsingar og ýmis hagnýt gögn sem nýtast nemendum í þeim verkefnum sem verið er að vinna að þá stundina …“ (Nanna Kristín Christiansen, 2021, bls. 85).

Fyrirmyndarverkefni eru notuð svo að nemendur skilji hvað átt er við með „vel unnið verkefni“ og viti til hvers er ætlast af þeim. Fyrirmyndarverkefni hvetja nemendur til að leggja sig meira fram (Nanna Kristín Christiansen, 2021, bls. 110-111). Þegar nemendur skoða fyrirmyndarverkefni skapast tækifæri til ígrundunar, gagnrýni og umræðu. Slík vinnubrögð auka skilning nemenda á gæðum verkefna og skilningur kennara og nemenda verður sá sami á því hvað telst góður árangur (Nanna Kristín Christiansen, 2021, bls. 111).

Við notumst ávallt við endurgjöf í námsferlinu og nemendur fá ævinlega tækifæri til að gera betur. Við fáum um leið endurgjöf frá nemendum um hverja Uglu fyrir sig. Við nýtum endurgjöf nemenda í hvert sinn til að bæta kennslu okkar og nálgun. Við ígrundum kennsluna stöðugt, viðfangsefnin og stöðu nemenda og aðlögum verkefnin eða bregðumst við í hvert skipti. Ef þeir skilja ekki þá þarf að fara til baka og prófa nýjar leiðir. Verkefnin eru fjölbreytt og áhersla lögð á að nemendur hafi ánægju af viðfangsefninu því líðan þeirra skiptir máli. Góð líðan er forsenda fyrir árangursríku námi.

Teymisvinna

Við höfum verið óhrædd að prófa nýjar leiðir og það er því ómetanlegt að hafa stjórnendur sem styðja okkur í þessari vegferð að gera eitthvað nýtt og öðruvísi. Við erum í sífellu hvött til að feta ótroðnar slóðir og vera ekki hrædd við að gera mistök, af þeim lærir fólk einmitt mest. Uglukennarar eru í teymisvinnu og hafa verið þriggja og fjögurra manna teymi um hvern árgang. Stærð árgangsins ræður því hversu margir kennarar eru settir í teymi fyrir hverja Uglu. Teymisvinna er krefjandi og gengur best þegar kennarar með svipaða sýn eru settir saman í teymi. Þá gerast kraftaverkin. Forsenda góðrar teymisvinnu er traust. Þórhildur Helga Þorleifsdóttir vekur athygli á mikilvægi traustsins í grein sinni Fjórar meginstoðir teymiskennslu:

Traust verður ekki til í tómarúmi en til eru ótal leiðir til að nýta samræðuna til að byggja upp traust og það þarf að gera í upphafi teymisvinnu. Skapa þarf leiðir til að kennarar deili hugmyndafræði sinni, sínum sterku hliðum og veiku- bæði hvað varðar kennslufræði og persónuleika. Hver kennari þarf að vita hvar teymisfélagar hans standa og að þeir viti hvar hann stendur. Þá fyrst er hægt að huga að næsta þætti sem er skipulag (Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 2021).

Að kenna Uglu hefur gert okkur kleift að vinna mjög náið saman. Sem teymi skiptum við vinnuálaginu, vörpum fram hugmyndum og eigum samtöl sem hjálpa okkur að þróa þær hugmyndir sem koma upp í kollinn á okkur. Í okkar teymi hjálpumst við mikið að og nýtum ólíka styrkleika okkar. Það má með sanni segja að við smellpössum saman og finnst við ná árangri sem við töldum ekki mögulegan áður. Góð samvinna innan teymis leiðir til þess að þar fæðast og þróast frábærar hugmyndir sem verða að lokum að verkefnum sem teymið getur stolt lagt fyrir nemendur.

Framsetning

Þegar fyrsti brimskaflinn var að baki og flestir farnir að finna sinn takt var kominn tími til að ákveða hvernig framsetning verkefna ætti að vera. Við ákváðum að setja námsefnið upp í Google Slides þar sem það er auðvelt og aðgengilegt í notkun og býður upp á fjölmörg sniðmát og endalausa möguleika.

Þar sem við erum að vinna með fjórar námsgreinar í einu var ákveðið að litakóða þær til að sýna nemendum hvaða námsgreinar er verið að vinna með hverju sinni. Íslenska er blá, enska er rauð, samfélagsgreinar fjólubláar, upplýsinga- og tæknimennt er appelsínugul og náttúrufræði græn. Í vetur höldum við áfram þeirri vinnu sem hófst í fyrra, að búa til tákn fyrir hvert hæfniviðmið í þeim lit sem við á. Einnig erum við, í samstarfi við margmiðlunarkennara skólans, að setja upp vefsíðu sem mun hýsa allar Uglur. Hún verður opin öllum kennurum sem geta skoðað og nýtt sér verkefnin. Hún er enn á byrjunarreit en hægt að skoða hér: Uglur.online

Við leggjum mikinn metnað í starf okkar og reynum að vera frumleg þegar kemur að því að nefna námshópana okkar. Oftast er það gert með því að nota eitthvað sem tengist viðfangsefni hverrar Uglu fyrir sig og oftar en ekki tengjum við það líka við okkur kennarana. Sem dæmi má nefna að í Regnboganum, einni af Uglunum, hétu hóparnir eftir frægum hinsegin einstaklingum og í Draumaferðalaginu hétu hóparnir eftir draumaáfangastað kennaranna. Við hvetjum nemendur til að spyrja út í nöfn hópanna og hönnum hópaskiptinguna í Canva svo að það passi við útlit kennsluefnisins í Google Slides. Við reynum líka að hafa Google Classroom umhverfið snyrtilegt og skipulagt með því að númera Uglurnar, nota tjákn (e. emojis) og sérsniðna borða (e. banners).

Með leiðsagnarnám og fuglinn sjálfan í huga nefndum við ýmis hugtök einhverju sem tengist uglum. Þannig varð námsveggur að hreiðri, staðnum sem uglan geymir sitt allra mikilvægasta. Auka dreifirit, ítarlegar upplýsingar og tékklista er síðan hægt að finna í vasa á veggjum sem nefnast eggið því þar liggur kjarninn. Það síðasta sem við höfum farið í að endurnefna, í takt við fuglinn, kemur til vegna mikillar samvinnu nemenda. Við fundum fljótt að sumum nemendum fannst þeir leggja meira af mörkum í hópavinnu og í framhaldi af því ákváðum við að allir nemendur myndu gera sjálfs- og jafningjamat og meta hverja Uglu fyrir sig. Þar fá nemendur tækifæri á að ígrunda sína vinnu, segja frá samstarfinu og veita kennurum endurgjöf fyrir Ugluna og kennsluna. Ekki var það þjált að minna nemendur á að fylla út sjálfs-, jafningja- og Uglumat og fékk það því heitið 270°. Ástæðan er sú að flestar uglur geta snúið höfði sínu í allt að 270° og því er uglan eins og við kennararnir. Við sjáum margt þegar kemur að samvinnu hópanna en því miður ekki allt (eða allar 360° hringsins). Þessar 270° eru langoftast gerðar í Google Forms og er borðinn (e. banner) þar einnig í samræmi við útlit kennsluefnis.

Mikilvægi samfélagsgreina og tengsl við Menntastefnu Reykjavíkur

Við erum afskaplega ánægð með samþættingu samfélagsgreina og tungumála. Samfélagsgreinar gefa okkur tækifæri til að kafa ofan í fjölbreytt viðfangsefni og taka á þeim efnum bæði á íslensku og ensku. Í samstarfi við forvarnarteymi Víkurskóla höfum við valið mismunandi félagsleg viðfangsefni fyrir hvern árgang sem við teljum mikilvæg fyrir 21. aldar nemendur. Skipting þeirra er eftirfarandi:

  • Í 8. bekk er farið í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, réttindi og skyldur, málefni flóttafólks, trúarbrögð, loftslagshlýnun og fleiri umhverfismál.
  • Í 9. bekk er ítarlega farið í kynjakerfið og hinsegin samfélagið en einnig fjallað um aðra minnihlutahópa eins og fatlaða, auk fjölmiðlalæsis.
  • Í 10. bekk er áherslan sett á rasisma, kynjajafnrétti, stjórnmál, framtíðarnám og atvinnumarkaðinn, samþykki og mörk.

Þetta er mjög í takt við Menntastefnu Reykjavíkurborgar en þar segir að „Meginmarkmið stefnunnar er að öll börn vaxi, dafni og uni sér saman í lýðræðislegu samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs“ (Menntastefna Reykjavíkurborgar, e.d.). Enn fremur segir í meginmarkmiðum stefnunnar að unnið verði „…að því að öll börn hafi sterka sjálfsmynd, trú á eigin getu og nái árangri“ (Menntastefna Reykjavíkurborgar, e.d.). Í stefnunni er einnig tekið skýrt fram að nemendur öðlist getuna til að lesa „…sér til gagns og gamans, afli sér þekkingar og öðlist skilning á samfélagi og náttúru. Þau sýni frumkvæði, skapandi og gagnrýna hugsun og tileinki sér heilbrigðan lífsstíl“ (Menntastefna Reykjavíkurborgar, e.d.).

Við viljum hvetja nemendur okkar til að stunda gagnrýna hugsun, þróa rökhugsun sína, þora að taka afstöðu og láta í sér heyra. Það er von okkar að kennsla í þessum málefnum veiti þeim innblástur og undirbúi þá undir að vera virkir þjóðfélagsþegnar sem eru óhræddir við að taka afstöðu gegn óréttlæti og láta rödd sína heyrast. Er það því okkar mat að við séum að sinna meginmarkmiðum menntastefnu borgarinnar, þó auðvitað megi ávallt bæta og breyta til.

Nokkur dæmi um Ugluverkefni úr hverjum árgangi:

Skólinn okkar

Víkurskóli er unglingaskóli og nemendur koma úr Engja- og Borgaskóla og sameinast þegar þeir fara í 8. bekk. Það eru oft mikil viðbrigði og ótrúlega miklar breytingar sem verða þegar komið er á unglingastig og hvað þá í nýjum skóla með nýjum krökkum og kennurum. Við höfum fundið að nemendur eru oft lengi að átta sig á öllu sem þeir þurfa að læra á og til að hjálpa þeim við þessar breytingar var ákveðið að fyrsta Ugla 8. bekkjar væri að læra á skólann, hugmyndafræði hans, vinnubrögð og hegðunarviðmið. Uglan fékk nafnið Skólinn okkar og var henni skipt í níu hluta:

  1. Vegir liggja til allra átta: Nemendur fóru í ratleik um skólann, lærðu á lotur, kynntust kennurum og fóru yfir hvernig valgreinar virka.
  2. Hætt’ekki, gefst’ekki upp: Nemendur kynntust grunnatriðum leiðsagnarnáms (árangursviðmið, endurgjafir, jafningjamat og námsfélagar).
  3. Þó maður geri ekki neitt: Hér var farið yfir Uppeldi til ábyrgðar og nemendur semja leikrit þar sem þeir fóru í gegnum hegðunarferla og frávik í anda Uppeldis til ábyrgðar.
  4. Ugla sat á kvisti: Uglan fékk að sjálfsögðu sinn sess og þarna lærðu nemendur hvernig kennarar setja upp Uglur og ýmis konar hugtök eins og samþætting útskýrð.
  5. Það er leikur að læra: Hér var kafað í námsmat og símat. Nemendur lærðu að lesa í hæfnikortin sín, fengu fræðslu um símat og áttu síðan að útskýra hæfnikortið fyrir foreldrum sínum.
  6. Tölvuskjánum á, er lífið leikur: Við komu á unglingastig fengu allir nemendur Chromebook tölvur og því var lögð rík áhersla á að læra betur á tækin. Megináherslan var á flýtileiðir og lykla, sem og öryggi og aðgangsorð en einnig fengu nemendur heimanám og áttu að æfa fingrafimi.
  7. Illa ég læt, ef mig vantar gígabæt: Nemendum var kennt á Google svítuna og kennd almenn færni á hin helstu forrit eins og Docs, Slides og Classroom.
  8. Nýr heimur opnast: Í Víkurskóla vinnum mikið með Canva og er mikill metnaður í fjölbreyttri uppsetningu verkefna og því ákváðum við að kenna nemendum okkar strax á það undratól. Í Canva áttu nemendur að búa til veggspjald um sig út frá stefnu Uppeldi til ábyrgðar og allt sem þeim finnst einkenna sig og vera þeim mikilvægt.
  9. Rifja upp og reyn’að muna: Nemendur rifjuðu upp allar loturnar sem þeir höfðu lært í gegnum Einn-tveir-allir (e. Think-pair-share) aðferðina. Það síðasta sem nemendur gerðu var að taka fingrafimipróf og fóru niðurstöður algjörlega eftir því hversu dugleg börnin höfðu verið að sinna heimanáminu sem þau fengu um miðbik Uglunnar. Að lokum sjá dæmi um fyrirmyndarverkefni hér: Vinnubók-Skólinn okkar

Heillandi heimsálfur

Nemendur í 8. bekk unnu Ugluna Heillandi heimsálfur nú í þriðja sinn í september 2023. Meginmarkmið Uglunnar var að nemendur fengju fræðslu um heimsálfurnar og áttuðu sig á ólíkum einkennum, menningu og löndum heimsálfanna. Einnig að þeir gætu unnið í hóp og sýnt virðingu í samskiptum við aðra og sett saman Google Sites heimasíðu sem þeir kynntu fyrir bekknum. Að lokum fengu nemendur fræðslu um mikilvægi þess að vísa til heimilda og lærðu undirstöðuatriði í réttri heimildaskráningu. Hver tími byrjaði á kveikju sem oftast var myndband sem sýndi á einhvern hátt fjölbreytni heimsálfanna. Um miðbik hverrar kennslustundar gaf kennarinn heilahlé (e. brain break) og fór hópurinn saman í Globle, en það er síða sem býður upp á nýtt land til að giska á hvern dag.

Kröfurnar um gerð heimasíðunnar voru góð forsíða og á henni átti að vera kynningartexti um nemendur sjálfa og verkefnið, almennar staðreyndir um heimsálfuna (flatarmál, íbúafjöldi o.þ.h.), hlekkir á Wikipediasíður allra landa álfunnar og skemmtilegar staðreyndir. Nemendurnir áttu einnig að gera undirsíður um einkenni sinnar álfu, en þar áttu þeir að lýsa með orðum og myndum gróður- og veðurfari og nota til þess fimm merka staði í álfunni. Að lokum átti að vera undirsíða um heimildir og voru gerðar þær kröfur að þeir settu upp a.m.k. þrjár rétt uppsettar heimildir skv. APA 7 staðli. Þetta var fyrsta skrefið að því að læra heimildaskráningu en á öllum þremur árunum í Víkurskóla aukum við kröfur og bætum við upplýsingum um framsetningu heimilda.

Í lok Uglunnar áttu nemendur að kynna sína heimsálfu fyrir hinum svo að allir fengju fræðslu um hverja og eina þeirra. Áður en ráðist var í kynninguna fengu hópar úr mismunandi stofum með sömu álfuna að kynna hver fyrir öðrum, æfa sig og gefa jafningjamat. Hér er ein fyrirmyndarsíða til að skoða: Norður Ameríka 

Regnboginn

Víkurskóli fékk hvatningarverðlaun Skóla- og frístundaráðs fyrir verkefnið Regnbogann sem er Ugla sem kennd var í 9. bekk síðastliðinn vetur. Regnboginn er námsefni um hinseginleikann sem eykur og dýpkar skilning nemenda á hinseginleika. Nemendur unnu fjölbreytt verkefni en lokaafurð var meðal annars barnaefni þar sem hinseginleiki kemur við sögu.

Auk okkar greinarhöfunda er Edda Sigurðardóttir meðhöfundur Regnbogans. Í umsögn frá dómnefnd segir meðal annars: „…að það sem greinir verkefnið frá öðrum sambærilegum er að til verði afurð sem er barnaefni. Þannig gangi verkefnið lengra en þarf til að fá regnbogavottun og sé sannarlega öðrum til eftirbreytni“ (Reykjavík, 2023). Nemendur byrjuðu á hugtökum sem margir eiga erfitt með að skilja eða taka í sátt. Nemendur unnu í pörum og notuðu heimasíðuna Frá ö-a og skilgreindu hugtökin sem þar er að finna með því að búa til glósubók. Frayer líkanið var notað í þetta sinn; nemendur skilgreindu hugtökin, fundu enska þýðingu, komu með lýsandi dæmi í formi setningar og að lokum settu þeir inn mynd sem útskýrði hugtakið. Nemendur horfðu á nokkur myndbönd sem fóru yfir sögu hinsegin fólks: Roaring 20’s, World at war, Age of Conformity, The Golden Age og Stonewall. Eftir áhorfið var notast við aðferðina Einn-tveir-allir (e. Think-pair-share). Loks fengum við skriflega frá nemendum hvaða spurningar hefðu vaknað með þeim.

Næsta verkefni var einnig paraverkefni þar sem nemendur áttu að velja sögufræga hinsegin persónu og setja upp kynningarglæru um hana, þar sem upplýsingar um einkalíf, menntun og starfsframa áttu að koma fram og að lokum að velja góða mynd. Næst áttu þeir að halda áfram með persónuna sem þeir völdu og svara eftirfarandi spurningum: Hvaða áhrif hafði hún á samfélagið sitt? Hvaða áhrif hafði hún á réttindabaráttu hinsegin fólks? Lokaverkefnið var að búa til hinsegin barnaefni í hópum. Nemendur höfðu frjálst val um hvernig þeir settu efnið upp, t.d. bókarform, myndasaga, stuttmynd eða hvað annað sem þeim datt í hug. Nemendur máttu einnig ráða hvernig hinseginleikinn birtist í sögunni. Úr urðu margar skemmtilegar afurðir. Hér má að lokum sjá dæmi um eitt fyrirmyndarverkefni úr Regnboganum: Hver vill dansa við mig?

Draumaferðalagið

Nemendur 9. bekkjar unnu Ugluna Draumaferðalagið síðast í desember 2022. Hún var þá kennd í annað sinn og höfðu töluverðar breytingar átt sér stað frá fyrstu útgáfu. Uglan snerist um að skipuleggja draumaferðalag erlendis í viku. Hópunum var úthlutað fjármagni með snúningi á lukkuhjóli og átti sú upphæð að duga fyrir öllum kostnaði í ferðinni en einnig átti að nýta alla fjárhæðina. Nemendur skiluðu nákvæmri kostnaðaráætlun (í Google Sheets) sem unnin var í samvinnu við stærðfræðikennara skólans.

Nemendur kynntu sér menningu staðarins sem heimsóttur var og fundu fjölbreytta hluti að gera og skoða. Allar upplýsingar settu nemendur upp í heimildaskrá skv. APA kerfinu. Þeir skrifuðu póstkort á ensku og suðu saman ferðasögu sem þeir kynntu fyrir samnemendum og kennara og voru margir sem stigu all verulega út fyrir þægindarammann með leikmunum og atriðum, búningum og heimabökuðu góðgæti. Nemendur voru mjög áhugasamir og gaman að sjá öll þessi flottu verkefni sem urðu til. Hér er eitt dæmi um fyrirmyndarverkefni: Frakkland-draumaferðalag

Mannlegi þátturinn

Eftir að hafa lært um fyrri heimsstyrjöldina, millistríðsárin og seinni heimsstyrjöldina völdu nemendur í hópum viðfangsefni frá seinni heimsstyrjöldinni. Þar köfuðu þeir í mannlega þáttinn og þjáninguna sem fylgdi þessu tímabili og enduðu á því að setja upp kynningarbása með verkefnunum.

Nemendur sýndu foreldrum, nemendum og starfsfólki skólans afraksturinn. Áður en sýningar fóru af stað fékk hver og einn hópur að hlusta á alla hina og gefa jafningjamat á bæði það sem var gott og einnig ráðleggingar um það sem betur mætti fara fyrir sýninguna (tvær stjörnur og ein ósk). Básarnir voru skemmtileg nálgun og fannst krökkunum ótrúlega gaman að búa til sinn bás og nota sköpunargleðina en einnig að kynna verk sín fyrir öðrum.

Nemendur stóðu sig með stakri prýði og við vorum ákaflega stoltar af þeim. Við vorum líka afar ánægðar með góða mætingu foreldra. Það hefur verið tilhneiging til að fækka sýningum og boðum til foreldra um að koma í skólann eftir því sem nemendur eldast. Það kom okkur því skemmtilega á óvart þegar foreldrar fjölmenntu á sýningar hjá 9. bekk en þær voru á vinnutíma. Þetta bendir til þess að foreldrar séu almennt áhugasamir um skólastarf barna sinna.

Lestur er bestur!

Lestur er bestur! er Ugla í 10. bekk sem við erum afar ánægð með og var nú lögð fyrir í þriðja sinn. Nemendur eiga að lesa bók að eigin vali en kennarar gerðu engu að síður kröfur um blaðsíðufjölda, að bókin hæfði aldri og þroska og að ekki hefði verið gerð bíómynd eða þættir eftir bókinni. Í þessari Uglu voru gerðar miklar kröfur um sjálfstæð vinnubrögð og unnu nemendur að ýmsum verkefnum.

Meðal verkefna sem nemendur áttu að vinna var að búa til sína eigin vinnubók og hanna hana frá grunni, átta sig á kynjahlutföllum í teiknimyndasögum sem nemendur þekkja, búa til lestraráætlun og halda dagbók, og útbúa hugarkort og tímalínu svo eitthvað sé nefnt.

Lokaverkefnið var teiknimyndasaga en þar höfðu nemendur frjálst val um hvort þeir vildu vinna hana í tölvu eða teikna á blað. Unnið var eftir aðferðum leiðsagnarnáms allt ferlið og endað á jafningjamati. Nemendum var, eins og vanalega, ljóst strax með hvaða hæfniviðmið var verið að vinna og hvaða árangursviðmið lágu að baki námsmati. Hér má sjá dæmi um fyrirmyndarverkefni: Myrkrið veit – Lestur er bestur

Race is a Human Invention

Nemendur 10. bekkjar byrjuðu á því sem við köllum Rugluglu (svipað og hringekja) Race is a Human Invention í nóvember 2022 og luku í janúar 2023. Hver kennari lagði áherslu á mismunandi þætti en sneru þeir þó allir að vitundarvakningu gegn rasisma.

  • Í Facing the Facts: Black History var saga svartra Bandaríkjamanna rakin og horft á heimildamyndina The 13th. Nemendur unnu síðan myndrit (e. infographics) um persónu og atburð úr sögunni á íslensku og ensku.
  • Í Born a Crime var ævisaga suðurafríska grínistans Trevor Noah lesin og unnin rafræn vinnubók og tekið munnlegt próf. Einnig var horft á sannsögulegu kvikmyndina Just Mercy.
  • Í þriðju Uglunni Orð hafa mátt var farið í að greina orð og hugtök er tengjast rasisma, kafað í sjálfsmyndina og fluttar ræður.

Nemendum var skipt upp í þrjá hópa og fóru þessir hópar milli Uglukennara á þriggja vikna fresti. Vegna ólíkra og fjölbreyttra nálgana, sem og verkefna, urðu nemendur ekki leiðir á viðfangsefninu, heldur sýndu þeir efninu mikinn áhuga allan tímann. Hér eru nokkur fyrirmyndarverkefni úr öllum þremur Uglunum sem farið var í í Race is a Human Invention: Sýnidæmi úr Race is a Human Invention

Við munum endurtaka þessa Uglu í febrúar 2024 en þó með aðeins breyttu sniði og hlökkum til að sjá hvernig til tekst. Þessar breytingar eru gerðar með athugasemdir nemenda í huga frá því að Uglan var kennd síðast. Árgangurinn mun að þessu sinni vinna að sameiginlegri bók, þar sem þeir, í litlum hópum, skrifa fræðitexta um atburð úr mannkynssögunni og um fræga manneskju á íslensku. Hóparnir fá mismunandi viðfangsefni og það er spennandi að sjá hvernig lokaafurð þessa verkefnis verður.

Að miðla málum

Síðasta Ugla nemenda í 10. bekk Að miðla málum, var heimasíðugerð þar sem nemendur ígrunduðu síðasta skólaárið sitt, sögðu frá Uglunum og hvaða fjögur Ugluverkefni stóðu upp úr hjá þeim eftir veturinn. Fyrir hverja Uglu sem nemendur völdu, áttu þeir að rökstyðja val sitt, útskýra ítarlega vinnu sína, hvað vinnan skildi eftir hjá þeim og segja frá því hvers vegna þeir væru stoltir af henni. Nemendur unnu sjálfstætt og nýttu sér þann lærdóm og þekkingu sem þeir höfðu aflað sér í gegnum Uglunámið sitt.

Mat okkar er að árangurinn hafi farið fram úr okkar björtustu vonum. Við sjáum mikla sköpunargleði hjá nemendum okkar, sjálfstæð vinnubrögð og vel ígrundaða vinnu. Nemendur eru, satt best að segja, stöðugt að koma okkur á óvart. Voru þessar kynningar einstök upplifun bæði fyrir kennara og foreldra sem boðið var að hlusta á kynningu barna sinna. Hér eru nokkur dæmi um fyrirmyndarverkefni nemenda sem luku 10. bekk síðasta skólaár: Heimasíða 1Heimasíða 2Heimasíða 3Heimasíða 4Heimasíða 5

Að lokum

Uglur Víkurskóla eru í stöðugri þróun og hafa með hverju árinu orðið metnaðarfyllri og faglegri. Samþætting námsgreina er nálgun sem við viljum hvetja alla kennara til að kynna sér. Kennslan verður fjölbreyttari og nemendur fá að kynnast viðfangsefnum á ólíkan hátt með hliðsjón af ýmsum sjónarhornum.

Með því að nota aðferðir leiðsagnarnáms valdeflum við nemendur og þau verða sjálfstæðari í hugsun og vinnubrögðum, taka meira þátt í náminu sem aftur kveikir áhuga og bætir árangur þeirra.

Með teymisvinnu og teymiskennslu deilum við ábyrgð og sameinum krafta okkar og styrkleika. Vinnan verður skemmtilegri og hugmyndir þróast hraðar. Teymiskennslan kemur einnig í veg fyrir það að við stöðnum í starfi eða festumst í viðjum vanans.

Við erum stoltar af því að vinna í Víkurskóla með kraftmiklu og skapandi samstarfsfólki og stjórnendum sem styðja okkur, treysta og gefa okkur lausan tauminn í sköpunargleði. Við hlökkum til komandi ára og frekari þróunar og erum hvergi af baki dottnar.

Heimildir

Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti 2011: Greinasvið 2013/2013.

Menntamálastofnun (2019). Frayer líkanið, Frayer hires. Menntamálastofnun. https://klb.mms.is/media/uploads/2019/05/23/frayer-hires.pdf

Lilja M. Jónsdóttir. (1995). Integrating the curriculum: A story of three teachers [ópr. M.Ed.- ritgerð.] Toronto: Ontario Institute for Studies in Education.Menntastefna Reykjavíkurborgar. (e.d.).
Um Menntastefnu. https://menntastefna.is/um- menntastefnu/

Nanna Kristín Christiansen. (2021). Leiðsagnarnám: Hvers vegna, hvernig, hvað? Nanna Kristín Christiansen.
Reykjavík. (2023, 22. febrúar). Verkefni um sjálfsþekkingu, hinseginleika og menningarráð verðlaunuð. reykjavik.is https://reykjavik.is/frettir/verkefni-um-sjalfsthekkingu/hinseginleika-og-menningarrad-verdlaunud

Samtökin 78 (e.d.) Hinsegin frá Ö til A. otila.is. https://otila.is/grunnurinn/

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir. (2021, 10. febrúar). Fjórar meginstoðir teymiskennslu. Skólaþræðir – Tímarit Samtaka áhugafólks um skólaþróun. https://skolathraedir.is/2021/02/10/fjorar-meginstodir-teymiskennslu/


Um höfunda

Fiona Oliver er með B.A. í alþjóðlegu námi í menntunarfræði og M.Ed. í kennslufræði grunnskóla og ólst upp í Kanada. Hún hefur starfað við Barnaskóla Hjallastefnunnar, Kelduskóla og nú Víkurskóla. Frá 2019 hefur Fiona verið leiðtogi í leiðsagnarnámi í svokölluðum þekkingarskólum. Fiona skrifaði umsögn um bók Nönnu Kristínar Christiansen Leiðsagnarnám, hvers vegna, hvernig, hvað? sem birtist í Skólaþráðum. Síðustu tvö ár hefur hún haldið úti námskeiði fyrir Menntafléttuna sem kallast Leiðsagnarnám – fyrstu skrefin. Fiona hlaut viðurkenningu Íslensku menntaverðlaunanna í flokknum Framúrskarandi kennari árið 2023.

Hildur Seljan er með B.A. í ensku og kennsluréttindi í framhalds- og grunnskóla. Hildur hefur meðal annars kennt í Menntaskólanum á Egilsstöðum, Menntaskólanum í Kópavogi, Sæmundarskóla og Kársnesskóla. Hildur tók þátt í að móta nýtt kerfi í Menntaskólanum á Egilsstöðum sem kallast spannakerfi og bjó til ásamt samkennara fyrstu áfangalýsingarnar í ensku sem notaðar voru sem grunnur um land allt í framhaldsskólum. Hildur hefur einnig tekið að sér enskukennslu á áfangaheimilinu Krýsuvík í gegnum MK. Hildur hóf störf við Víkurskóla haustið 2021 og hefur verið leiðtogi í Uglum.


Grein birt 11. janúar 2023