Ólafur Páll Jónsson
Mary Midgley byrjar bók sína, Skepna og maður: Rætur mannlegrar náttúru á orðunum: „Við erum ekki tiltölulega lík dýrum; við erum dýr.“ Hún heldur svo áfram og segir: „Það sem gerir okkur frábrugðin öðrum dýrum kann að vera sláandi, en samanburður við þau hefur verið, og er óhjákvæmilega, mikilvægur fyrir hugmyndir okkar um okkur sjálf“ (Midgley, 1979, bls. xiii).
Í þessari grein, sem byggð er á erindi sem ég hélt á Menntaviku 2023, fjalla ég um manneskjur sem dýr og um mannlega farsæld sem dýrslegt ástand, eða öllu heldur, sem dýrslegt hlutskipti. Nú þegar orðið „farsæld“ er nánast á hvers manns vörum er vert að staldra við og hugleiða merkingu þess. Ég lít svo á að farsæld sé ekki bara ástand, staða einhvers sem er mælanleg á tilteknum tímapunkti, heldur hlutskipti sem varðar aðstæður, sögu og væntingar einstaklingsins, og það umhverfi sem hann er hluti af, bæði náttúrulegt og manngert, efnislegt og menningarlegt. Til að skilja hverskonar hlutskipti það er í tilviki manneskja að njóta farsældar, þá verður að líta á það sem hlutskipti dýrs. En vissulega mjög sérstak dýrs.
1. Farsæld sem hlutskipti
Þegar við metum okkar eigið líf, eða virðum fyrir okkur líf annarra og fellum um það dóma, þá koma til greina ólíkar einkunnir og margvísleg atriði sem við gætum gefið gaum. Stundum segjumst við vera glöð, ánægð, kát, jafnvel fullnægð. Við segjum þetta kannski af einhverju tilteknu tilefni; við höfum hitt fjölskylduna og átt saman notalega kvöldstund; okkur hefur gengið vel í einhverju; ritstjóri tímarits hefur sagt okkur að grein sem við höfum verið að vandræðast með í langan tíma hafi verið samþykkt til birtingar. Svona dómar taka fyrst og fremst til þess hvert okkar hugarástand er. Við horfum inn á við á tilteknu augnabliki og niðurstaðan er þessi: Við erum ánægð.
Þegar við veltum því fyrir okkur hvort við séum farsæl, þá dugir ekki bara að horfa í eigin barm og taka púlsinn, ef svo má segja. Farsæld varðar ekki bara hvernig við höfum það á tilteknu augnabliki heldur varðar hún lífið í heild. Tímaþátturinn er hér afgerandi: Þótt við getum verið ánægð fyrir hádegi en döpur seinnipartinn, verið fullnægð einn daginn en fundið til tómleika þann næsta, þá er farsældin ekki þannig. Platon og Aristóteles vissu þetta og því sögðu þeir að í vissum skilningi væri ekki hægt að meta farsæld mannlegs lífs nema við lok þess, en þá væri eiginlega orðið of seint að meta það – allavega fyrir þann sem í hlut á.
Annað sem greinir farsældina frá ánægju og jafnvel fullnægju eru þau atriði sem liggja matinu til grundvallar. Þegar við segjumst vera glöð, þá er það sálrænt ástand okkar sem skiptir máli. Þegar við viljum meta hvort okkur hafi farnast vel – séum farsæl – þá veltur það ekki bara á sálrænu ástandi okkar heldur skipta margvíslegir ytri þættir einnig máli, líka þættir sem ekki eru „ytri“ en samt ekki sálrænir, eins og líkamlegt ástand. Þótt hugmyndin um að mér kunni að skjátlast um það hvort ég sé ánægður sé nokkuð langsótt, kannski alveg fráleit, þá er ekkert ótrúlegt við það að mat mitt á því hvort ég sé farsæll sé blekking ein.
2. Farsæld og velferð
Fyrir nokkrum árum skrifaði ég grein sem ber yfirskriftina „Lífskjör og réttlæti“. Þar setti ég fram þrenns konar spurningar um lífskjör til að halda utan um umræðuna (Ólafur Páll Jónsson, 2012):
(1) Hvaða upplýsingar skipta máli til að meta lífskjör?
(2) Hvert er innbyrðis mikilvægi ólíkra upplýsinga til að ákvarða heildarlífskjör tiltekins einstaklings?
(3) Hvernig má raða saman upplýsingum um lífskjör einstaklinga til að fá heildarmat á lífskjörum tiltekins hóps eða þjóðar?
Við getum spurt svipaðra spurninga þegar við veltum fyrir okkur farsæld manneskju og samfélags:
(4) Hvaða upplýsingar skipta máli til að meta farsæld manneskju?
(5) Hvert er innbyrðis mikilvægi ólíkra upplýsinga til að ákvarða farsæld tiltekins einstaklings?
(6) Hvernig má raða saman upplýsingum um farsæld einstaklinga til að fá heildarmat á farsæld tiltekins hóps eða þjóðar?
Til að einfalda umræðuna skulum við leggja að jöfnu lífskjör og velferð. Stundum er litið á „farsæld“ sem enn eitt orðið yfir velferð – og það kann vel að vera að orðið „farsæld“ hafi komið einmitt þá leið inn í opinbera umræðu um lög og reglur um stuðning við börn. Sé orðið „farsæld“ skilið þeim skilningi, þ.e. sem samheiti við „velferð“, þá er líklega ekki mikill munur á spurningum (1) til (3) um lífskjör annars vegar og svo spurningum (4) til (6) um farsæld hins vegar. Ég held að orðin „lífskjör“ og „velferð“ varði sömu hlutina, þau vísa til þeirra ytri kringumstæðna sem móta líf fólks og skipta máli fyrir það hvernig líf þess er og hvort það hefur kost á að lifa góðu lífi. Ég vil aftur á móti leggja annan skilning í hugtakið „farsæld“.
Farsæld er í grunninn siðferðilegt hugtak, varðar það sem Grikkirnir kölluðu „hið góða líf“, á meðan lífskjör varða fremur efnahagslega og pólitíska stöðu, einmitt það sem er viðfangsefni velferðarkerfanna í nútímanum. Stundum er litið svo á að lífskjör fólks ráðist eingöngu af þeim efnislegu gæðum sem það nýtur, en sá skilningur er of þröngur. Í áðurnefndri grein færi ég rök fyrir því að hin pólitíska vídd verði að vera með þegar við reynum að meta lífskjör fólks, t.d. það hvort það búi við réttlæti:
Réttlæti bætir lífskjör, ranglæti skerðir lífskjör. Þetta er andstætt þeirri hugmynd um lífskjör sem gerir ráð fyrir að þau velti einungis á þeim gæðum sem einstaklingurinn ræður yfir, svo sem tekjum og eignum, eða einstaklingsbundnu mati á eigin stöðu. (Ólafur Páll Jónsson, 2012, bls. 223)
Eftir þessum skilningi eru bæði „lífskjör“ og „farsæld“ normatíf hugtök, þ.e. gildishlaðin hugtök, og varða siðferðilega stöðu fólks. En jafnvel þótt svo sé, þá er varasamt að líta á þau sem samheiti. Farsæld er óhjákvæmilega siðfræðilegt hugtak en velferð tilheyrir sviði stjórnmála og efnahags. Það veltur svo á því hvaða kenningar fólk hefur um þau svið hvort og þá að hvaða leyti hið siðferðilega litar velferðina. John Rawls hefði væntanlega verið sammála því að velferð væri pólitískt hugtak en um leið viljað aftengja það tilteknum kenningum um siðferði (Rawls, 2001) og þar með mati á farsæld fólks. Amartya Sen (2009) og Martha Nussbaum (2000) myndu líta á velferð sem siðferðilegt hugtak en jafnvel þótt svo sé held ég að þau myndu ekki leggja velferð og farsæld að jöfnu. Velferðin, myndu þau væntanlega segja, varðar fyrst og fremst hvaða efnislegu kjör fólk býr við og hvaða raunverulegu tækifæri það hefur, en farsældin varðar einnig hvernig fólki tekst að vinna úr þeim efnum og tækifærum sem því hefur hlotnast.
Þegar við viljum meta farsæld en ekki bara lífskjör, þá skiptir máli hvað gefur lífinu gildi og hvort fólki hafi auðnast að finna lífi sínu góðan farveg. Hér skiptir því máli hvernig fólki hefur tekist að spila úr því sem því hefur hlotnast. Jafnvel þótt velferðin sé af skornum skammti og aðstæður bágar getur fólk lifað farsælu lífi og fólk sem býr við mikla velferð – hefur allt til alls – getur vissulega klúðrað lífinu og ekki auðnast að lifa farsælu lífi. Það er sitt hvað, gæfa eða gjörvileiki er sagt.
3. Dýrslegt eðli og siðfræði
Það er um það bil hér sem Mary Midgley kemur til sögunnar og áminning hennar um að við séum dýr. Hvað telst góður farvegur fyrir mannlegt líf veltur m.a. á því hverskonar skepna mannskepnan er. Mary Midgley var auðvitað ekki fyrst heimspekinga til að halda þessu fram. Í Stjórnspekinni segir Aristóteles að manneskjur séu pólitísk dýr. Með þessu vildi hann ekki bara undirstrika að við værum pólitísk heldur líka að við værum dýr. Það er heldur ekki að undra að Mary Midgley staðsetur sig innan aristótelískrar hefðar að svo miklu leyti sem hún staðsetur sig yfirleitt einhvers staðar.
Á námsárunum við Oxford háskóla kynntist Mary Midgley nokkrum öðrum konum sem áttu eftir að hafa mikil áhrif á heimspeki aldarinnar, þeim Írisi Murdoch, Philippu Foot og Elísabethu Anscombe (Mac Cumahill og Wiseman, 2023). Hún hóf nám við skólann um það bil sem seinni heimstyrjöldin braust út, á tímum þegar heimspeki hversdagsmálsins (e. ordinary language philosophy) var í hávegum. Rökfræðilega raunhyggjan var líka upp á sitt besta og Alfred Ayer, innblásinn af hugmyndum Vínarhringsins og heimspeki Wittgensteins, gekk um og þaggaði niður í hverjum heimspekingnum á fætur öðrum með yfirlýsingum um að hann skildi nú bara alls ekki hvað væri meint með því sem verið væri að segja. Mælikvarðinn á merkingarbærni var að staðhæfingar mætti sannreyna með reynslu (sjá Ayer, 1936; Ólafur Páll Jónsson, 2016) og þar sem siðadómar eins og t.d. „morð eru ranglát“ verða ekki sannreyndir með vísun í reynslu, þá varð annað hvort að slá alla slíka dóma út af borðinu sem hreina merkingarleysu eða finna þeim einhvern annan grundvöll.
Frekar en að úthýsa öllu tali um siðferði gripu ýmsir áhrifaríkir heimspekingar til þess að endurtúlka slíkt tal. Sjálfur leit Ayer á siðadóma eða gildisdóma sem yfirlýsingu um einstaklingsbundin viðhorf til fullkomlega gildasnauðs heims. Á árunum eftir seinni heimstyrjöldina varð Richards Hare einn áhrifamesti siðfræðingurinn innan rökgreiningarheimspekinnar. Hann var sammála Ayer um að heimurinn væri í grunninn fullkomlega gildasnauður en frekar en að líta á siðadóma sem yfirlýsingar um einstaklingsbundin viðhorf (lifi sannsögli! niður með morð!) þá leit hann svo á að siðferðið byggði á safni einstaklingsbundinna skuldbindinga. Afstaða Hares var ekki ósvipuð þeirri sem Sartre hafði gert að grundvelli tilvistarspekinnar, m.a. í kverinu Tilvistarstefnan er mannhyggja, þar sem hann segir að tilvistin komi á undan eðlinu.
Mary, Íris, Philippa og Elísabeth hötuðust við þessa gildasnauðu sýn á siðferðið, hvort heldur í búningi Ayers eða Hares, og hver með sínum hætti settu þær fram kenningar um siðferði sem hlutlægan veruleika. Kjarninn í hugmyndum Mary Midgley var að manneskjur byggju yfir eðli, mannlegu eðli eða mannlegri náttúru (e. human nature), og það væri þessi mannlega náttúra sem setti skorður við því hvað væri gott og hvað vont, hvað væri að lifa vel og hvað ekki. Það væri í mannlegri náttúru sem finna mætti staðreyndagrundvöll fyrir siðferðið.
Einkennandi fyrir afstöðu Richards Hare var að siðferðið byggði á skylduboðum (e. moral prescriptions). Að þessu leyti má segja að hann hafi haldið fram kantískri siðfræði. Ólíkt Kant – en eins og Sartre – þá áleit Hare að það væru engin algild siðalögmál til, heldur væri innri samkvæmni einu rökfræðilegu skorðurnar sem einkenndu siðadóma. Þannig legði skynsemin til mælikvarða á rétt og rangt, en sá mælikvarði gæti verið breytilegur frá einni manneskju til annarrar, allt eftir því hvaða skuldbindingar fólk setti sér. Hare reyndi að vísu að finna siðfræði sinni alhæfan grundvöll í bókinni Moral Thinking, sem kom út árið 1981, með því að endurmóta hugmyndir sínar sem tiltekna tegund af nytjahyggju. Árangurinn af þeirri endurgerð er að mínu mati, og ýmissa fleiri, afar bágur (sjá t.d. gagnrýni Julia Annas í Oxford Review of Education frá 1982).
Eins og áður sagði þá hafnaði Mary Midgley algerlega hugmyndum Hares um eðli siðferðisins og setti þess í stað fram hugmyndir í anda Aristótelesar um að fólk hefði eðli, náttúru, og að skynsemin væri í grunninn hæfileiki til að koma skipulagi á líf dýrs sem væri afurð af árþúsunda þróun. Siðferðið byggir á því að við erum dýr af tilteknu tagi, með tilteknar þarfir, langanir, þrár og hæfileika, sem búum í tilteknum kringumstæðum. Hér skiptir hugmynd Aristótelesar um dygð sem ágæti hlutar miklu máli. Mannleg dygð er það sem gerir manneskju kleift að lifa vel sem manneskja – sem það pólitíska dýr sem hún er – í þeim kringumstæðum sem hún er. Dygðin tekur þannig mið af eðli manneskjunnar en án slíks eðlis væri engin grundvöllur fyrir dygðir.
4. Farsæld, geta og gott líf
Ef við víkjum aftur að spurningu (4) að ofan, „Hvaða upplýsingar skipta máli til að meta farsæld manneskju?“ og skoðum hana í ljósi hugmynda Mary Midgley um grundvöll siðferðisins í hinu dýrslega eðli mannskepnunnar þá blasir við að við þurfum að vita ýmislegt um hverskonar dýr mannskepnan er. Og hvers konar skepna er þessi mannskepna eiginlega? Við komum inn í heiminn sem náttúraðar verur, segir hún, og það er þessi náttúra sem ákvarðar, að hluta til, hvað okkur ber að gera og hvað okkur ber að forðast, hverju við þurfum á að halda til að geta lifað vel, og hvað það er yfirleitt að lifa vel. Mary Midgley heldur því ekki fram að við séum algóð, þvert á móti segir hún að tilhneigingar okkar gangi í ólíkar áttir og því sé mikilvægt að þekkja eigin tilfinningar, geðshræringar og hneigðir til að geta haft skynsamlegan hemil á þeim þegar þær standa í vegi fyrir farsælu lífi.
Til að setja svolítið kjöt á þessi bein sem Mary Midgley hefur lagt okkur til, er gagnlegt að huga að hugmyndum annars aristótelísks heimspekings, Mörthu Nussbaum. Þegar Nussbaum (2000) setur fram kenningu sína um mannlega getu – sem kannski væri betra að kalla kosti eða kjör – sem grundvöll að réttlæti þá byggir hún hugmyndir sínar einmitt á líkum grunni og Mary Midgley. Ólíkt sáttmálakenningum eða skynsemiskenningum í anda Kants, t.d. réttlætiskenningu Rawls eða siðfræði Hares og Sartres, þá er það mannlegt eðli sem leggur til frumforsendurnar hjá Nussbaum.
Í bókinni Women and Human Development: The Capabilities Approach setur Nussbaum fram lista yfir tíu ólík getusvið eða lífsskilyrði (e. capabilities) sem hún segir að lýsi því sem fólk þarf að búa yfir til að geta lifað réttlátu lífi. Nussbaum hugsar listann ekki sem algerlega óháðan stund og stað en hún segir að hann sé gagnlegur til að ná jarðtengingu fyrir getukenninguna um réttlæti. Skoðum þennan lista sem snöggvast:
- Líf. Að geta lifað til loka mannlegs lífs af eðlilegri lengd …
- Líkamleg heilsa. Að geta búið við góða heilsu, … nærast vel og hafa skjól
- Líkamlegt sjálfræði. Að geta farið um frjáls frá einum stað til annars, … vera öruggur gagnvart árás, þ.m.t. kynferðislegri áreitni, kynferðislegri misnotkun, heimilisofbeldi, …
- Skynjun, ímyndunarafl og hugsun. Að geta notað skynfærin, ímyndunaraflið, geta hugsað og dregið ályktanir – og geta gert allt þetta á „raunverulega mannlegan máta“. …
- Geðshræringar. Að geta tengst hlutum og fólki öðru en manni sjálfum, að geta elskað þá sem elska og annast um okkur, að syrgja fjarveru þeirra … (Að styðja við þessa getu felur í sér að styðja við þær tegundir mannlegs samfélags sem hefur sýnt sig að vera forsenda fyrir þroska hennar).
- Verkleg skynsemi. Að geta formað hugmynd um hið góða og skipulagt eigið líf með gagnrýnum hætti.
- Tengsl. Að geta lifað með og fyrir aðra, að geta viðurkennt aðra og sýnt þeim umhyggju, tekið þátt í margvíslegum félagslegum samböndum … Hafa félagslegar forsendur fyrir sjálfsvirðingu og vera laus undan smánun. Að komið sé fram við mann sem manneskju sem býr yfir mannlegri reisn og er jafn verðmæt og hver önnur manneskja.
- Aðrar tegundir. Að geta verið í tengslum við aðrar tegundir, plöntur og hinn náttúrulega heim og sýnt þeim umhyggju.
- Leikur. Að geta hlegið, leikið og notið tómstunda.
- Stjórn á eigin umhverfi.
- 10a. Stjórnmál. Að geta tekið virkan þátt í stjórnmálum sem varða manns eigið líf, …
- 10b. Efnisleg. Að geta átt eignir (bæði land og lausa muni) ekki bara formlega heldur sem raunveruleg tækifæri …
Ef við lítum á þennan lista þá blasir við að til að átta sig á hvað er nauðsynlegt eða hæfilegt, t.d. varðandi ævilengd og líkamlega heilsu, þá verðum við að líta á manneskjuna sem það dýr sem hún er. Rétt eins og hæfileg ævilengd hunds ræðst af því að skepnan er hundur, þá ræðst hæfileg ævilengd manneskju af því að hún er manneskja. Hið sama á við um heilsuna. Góð mannleg heilsa er eitthvað annað en t.d. góð heilsa músarrindils eða rostungs.
Eitt af því sem Mary Midgley, Íris Murdoch, Philippa Foot og Elísabeth Anscombe var í mun að benda á var að hrottaskapur seinni heimstyrjaldarinnar, t.d. útrýmingarbúðir nasista, væri dæmi um hluti sem væru rangir, ekki bara eitthvað sem vekti tilteknum einstaklingum viðbjóð (sbr. Ayer) eða væri erfitt að gera hluta af sjálfum sér samkvæmum lífsáformum (sbr. Hare og Sartre). Listi eins og sá sem Nussbaum setur fram, sem endurspeglar hverskonar dýr mannskepnan er, leggur til hlutlæg viðmið um rétt og rangt, gott og vont og bendir á með skýrum hætti hvað sé rangt við hrottaskap styrjalda. Styrjaldir ganga gegn öllum atriðum listans.
Mary Midgley myndi segja að án þess að líta á mannskepnuna sem dýr af tilteknu tagi, væri ekki hægt að búa til svona lista; það væri ekki hægt að segja til um hvað væri eðlileg ævilengd, hvað væri góð heilsa, hvað væru mikilvægar geðshræringar, hverskonar tengsl skiptu máli, að hvaða leyti væri mikilvægt að hafa stjórn á eigin umhverfi, o.s.frv. En hún heldur því ekki fram að listinn dragi mörk hins náttúrulega og hins ónáttúrulega. Grimmd og drottnunarhvöt, sem geta verið eyðileggjandi þættir í mannlegu eðli, eru eftir sem áður hluti af mannlegu eðli. Og það er m.a. vegna slíkra hneigða sem skynsemin er hverri manneskju svo mikilvæg. Flest þurfum við á skynsemi að halda til að meta okkar eigin tilhneigingar, geðshræringar og hvatir og beina þeim í farvegi sem eru samrýmanlegir farsælu lífi.
Þótt ég hafi takið getulistann frá Nussbaum sem dæmi um hvernig hugmynd um mannlega náttúru leggur til forsendur fyrir gildishlaðna sýn á mannlega tilveru þá ætti ekki að líta á listann sem útleggingu á mannlegri farsæld. Listinn varðar fremur lífskjör en farsæld. Þetta tvennt er ekki ótengt, góð lífskjör auka líkur á því að fólk geti lifað farsælu lífi, og bág kjör standa oft í vegi fyrir farsæld; lífskjörin varða þær kringumstæður sem fólk býr við – hvaða spil það hefur á hendi – en farsældin veltur svo á því hvernig fólk spilar úr þeim spilum sem það hefur.
5. Farsæld sem markmið
Farsæld er hlutskipti en hún er mjög margþætt hlutskipti; vísar bæði aftur í tímann og fram á við, tekur til innri þátta, bæði líkamlegra og sálrænna, og ytri þátta, bæði er varða umhverfi og félagslega stöðu. Að því leyti sem farsæld er markmið menntunar, þá verður að nálgast hana með þessum margþætta hætti. En vel að merkja, sem markmið er hún ekki beint viðfangsefni menntunar, eins og t.d. læsi eða það að kunna að prjóna. Ef farsæld væri tiltekin færni eða þekkingaratriði, þá mætti nálgast hana með beinum hætti, ekki einungis sem markmið heldur líka sem viðfangsefni. En eins og ég hef sagt, þá er farsæld hlutskipti en ekki ástand og enn síður er hún færni eða hæfni. Stofnanir samfélagsins geta haft – og ættu að hafa – það markmið að gera hlutskipti fólks sem best, þ.e. bæta lífskjör þess og styðja það í sókn sinni eftir farsælu lífi, en þetta er markmið sem verður alltaf utan seilingar þess sem gert er dags daglega í slíkum stofnunum.
Heimildir
Annas, Julia. (1982). Utilitarianism and double standards: A discussion of R.M. Hare’s Moral Thinking. Oxford Review of Education, 8(2), 100-210. https://www.jstor.org/stable/1050356
Ayer, Alfred. (1936/2001). Language, truth and logic. Penguin.
Hare, Richard. (1952). The language of morals. Clarendon Press.
Hare, Richard. (1981). Moral thinking: Its levels, method and point. Oxford University Press.
Mac Cumhaill, Clare og Wiseman, Rachael. (2023). Metaphysical Animals: How four women brought philosophy back to life. Vintage.
Midgley, Mary. (1979/2002). Beast and man. The roots of human nature. Routledge. Endurskoðuð útgáfa. Routledge.
Midgley, Mary. (1984/1992). Wickedness. A philosophical essay. Routledge.
Nussbaum, Martha C. (2000). Women and human development: The capabilities approach. Cambridge University Press.
Ólafur Páll Jónsson. (2012). Lífskjör og réttlæti. Stjórnmál og stjórnsýsla, 8(1), 219-230. Doi: https://doi.org/10.13177/irpa.a.2012.8.1.10
Ólafur Páll Jónsson. (2016). Sannfæring og rök: Gagnrýnin hugsun, hversdagslegar skoðanir og rakalaust bull. Háskólaútgáfan.
Rawls, John. (2001). Justice as fairness: A restatement. Harvard University Press.
Sartre, Jean-Paul. (1946/2007). Tilvistarstefnan er mannhyggja. Íslensk þýðing eftir Pál Skúlason. Hið íslenzka bókmenntafélag.
Sen, Amartya. (2009). The idea of justice. Harvard University Press.
Um höfund:
Ólafur Páll Jónsson er prófessor í heimspeki við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Viðfangsefni hans eru einkum á sviði heimspeki menntunar þar sem hann hefur fjallað um lýðræði og réttlæti, sjálfbærnimenntun og skóla án aðgreiningar og sitthvað fleira. Ólafur Páll hefur birt fjölda greina og gefið út sex bækur, m.a. Lýðræði, réttlæti og menntun (2011), Annál um líf í annasömum heimi (2020) og barnabókina Fjársjóðsleit í Granada (2014).