1

Dýrir háskólar og þjóð í vanda: Um bókina After the ivory tower falls eftir Will Bunch

Atli Harðarson

 

Will Bunch er bandarískur blaðamaður og samfélagsrýnir. Bók hans After the ivory tower falls: How college broke the American dream and blew up our politics—and how to fix it (Þegar fílabeinsturninn er hruninn: Hvernig háskólarnir eyðilögðu ameríska drauminn og rústuðu stjórnmálum okkar – og hvað er til ráða) kom út í fyrra og hefur vakið verulega athygli. Í þessu 320 blaðsíðna riti segir Bunch sögu háskólamenntunar í Bandaríkjunum frá miðri síðustu öld til dagsins í dag og rökstyður að margt sem aflaga hefur farið í stjórnmálum þar í landi á síðustu áratugum tengist því hve dýrt er fyrir einstaklinga að afla sér háskólamenntunar.

Skildir út undan – skildir eftir – skuldum vafðir – skilja ekkert

Virtustu háskólarnir í Bandaríkjunum, sem best tryggja nemendum sínum forgang á vinnumarkaði, rukka sumir yfir 60.000 dali fyrir hvert skólaár. Með fæði og húsnæði kostar árið þá um 80.000 dali sem jafngilda rúmlega 10 milljón íslenskum krónum. Eftir bakkalárnám, sem tekur yfirleitt fjögur ár þar vestra, skulda því margir hátt í íbúðarverð. Það segir sig sjálft að með slíkar klyfjar á bakinu er erfitt að stofna fjölskyldu og eignast þak yfir höfuðið. Það segir sig líka sjálft að því dýrari sem skólaganga er því stærri er sá hópur sem á í raun engan kost á að njóta hennar. Sums staðar er þó enn hægt að komast í háskóla þar sem skólagjöld eru innan við 10.000 dalir á ári.

Bókin fjallar einkum um tvo hópa sem saman mynda stóran hluta Bandaríkjamanna undir miðjum aldri: Annars vegar skuldum vafða háskólaborgara og hins vegar þá sem eru skildir út undan (eða á betri íslensku, hafðir út undan) og sjá háskólamenntun ekki sem raunhæfan kost. Bunch kallar fyrrnefnda hópinn „left broke“ og þann síðarnefnda „left out.“ Í greiningu sinni á samfélaginu gerir hann grein fyrir tveimur hópum til viðbótar sem eru að mestu skipaðir fólki komnu yfir miðjan aldur. Þetta eru annars vegar þeir sem kláruðu háskóla áður en það varð jafn dýrt og nú og eru „left perplexed“ því þeir skilja ekkert í reiðinni og sundrungunni sem einkennir samtímann. Hins vegar eru þetta þeir sem voru skildir eftir og aldrei fóru í háskóla þótt þeir gætu séð skólagöngu eftir framhaldsskóla (high school) sem möguleika fyrir sig eða börn sín. Þennan síðast nefnda hóp kallar hann „left behind.“

Stór hluti tveggja fyrst nefndu hópanna, þeirra skuldum vöfðu og þeirra sem hafðir eru út undan, er óánægður með hlutskipti sitt og gremja þeirra veldur klofningi og spillir fyrir möguleikum á að leita lausna á vandamálum samfélagsins.

Ameríski draumurinn eftir stríð og martröð samtímans

Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar voru um 5% Bandaríkjamanna með háskólagráðu en nú er þetta hlutfall 37%. Í stríðslok urðu, segir Bunch, mikilvægar breytingar bæði á háskólunum og á sameiginlegum draumum landsmanna um betri framtíð. Alríkisstjórnin tók ákvörðun um að þeir sem þjónuðu í hernum skyldu eiga kost á háskólagöngu á kostnað ríkisins. Við þetta stækkuðu háskólarnir og einstök ríki buðu borgurum sínum í vaxandi mæli ódýra eða ókeypis skólavist í fylkisháskólum. Í kjölfarið litu fleiri og fleiri svo á að menntun á háskólastigi væri sameiginleg gæði sem greitt skyldi fyrir með almannafé. Á þriðja fjórðungi síðustu aldar óx þeirri skoðun líka fylgi að menntun og vísindi bættu hag allrar þjóðarinnar og tryggðu forystu Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi. Á sama tíma fóru lífskjör almennt mjög batnandi og þorri landsmanna gat vonað að menntun færði börnum þeirra betri heim. Ameríski draumurinn gekk í endurnýjun lífdaga þar sem trúin á gildi menntunar gaf honum aukið inntak.

Á árunum kringum 1970 runnu tvær grímur á marga, einkum íhaldsmenn sem óaði róttækni stúdenta af 68-kynslóðinni og fannst háskólarnir ógna hefðbundnum kynhlutverkum og aðskilnaði hvítra og svartra. Á síðustu áratugum aldarinnar óx styrkur íhaldsmanna á kostnað þeirra frjálsyndu. Ronald Reagan sló tóninn fyrir komandi ár þegar hann tók við sem fylkisstjóri í Kaliforníu árið 1967 og sagði að meginhlutverk háskóla væri að bæta vinnuaflið og skattgreiðendur ættu ekki að niðurgreiða menntun sem aðeins væri til að svala forvitni fólks. Reagan varð svo forseti 1981 og á fyrri hluta níunda áratugarins drógust útgjöld alríkisstjórnarinnar vegna æðri menntunar saman um 25%. Bakslagið var hart og áður en öldin var öll tóku margir fylkisháskólar að rukka há skólagjöld eins og einkaskólarnir og styrkir úr opinberum sjóðum dekkuðu lægra og lægra hlutfall af námskostnaði. Í vaxandi mæli var hætt að líta svo á að háskólamenntun væri sameiginleg gæði og tekið að skoða hana sem fjárfestingu sem einstaklingar gerðu í eigin þágu og á eigin kostnað.

Jafnframt þessum breytingum dró úr sókn í háskólanám í frjálsum listum (liberal arts) eins og bókmenntum, sögu eða félagsfræði og aðsókn jókst að námi sem menn töldu líklegt til auka tekjur sínar. Mest varð fjölgunin í viðskiptagreinum.

Á sama tíma breikkaði tekjubil milli háskólaborgara og annarra landsmanna, alþjóðavæðingin varð til þess að verkafólk fann fyrir aukinni samkeppni við vinnuafl í löndum þriðja heimsins og störf í iðnaði fluttust úr landi. Það þrengdi því að hópnum sem var hafður út undan. Örvænting hans og vond lífsskilyrði segir Bunch að hafi valdið mikilli fjölgun dauðsfalla vegna eiturlyfjaneyslu og sjálfsvíga. Fjöldi slíkra dauðsfalla hefur nær þrefaldast á aldarfjórðungi. Í fyrra þegar bókin kom út var hann kominn í 158.000 manns á ári. Þetta, segir hann, að jafngildi því að þrjár Boeing 737 Max farþegaþotur hrapi á hverjum einasta degi allan ársins hring og að aukningin sé nær öll í hópi hvítra karlmanna án háskólagráðu.

Enn eitt sem vert er að nefna er að háskólamenn eru meira en tvöfalt líklegri til að flytja milli fylkja en hinir. Þetta hefur leitt til þess að til eru svæði þar sem hlutfall þeirra hefur farið lækkandi.

Hæfnisórar, menntahroki og andóf gegn vísindum

Samfara alþjóðavæðingu síðustu áratuga urðu þær raddir æ háværari að á Vesturlöndum væri framtíðin í þekkingargreinum. Fólk sem vildi komast áfram skuldsetti sig því upp í rjáfur til að ná sér í prófgráðu og háskólarnir nýttu þessar aðstæður til að raka saman óheyrilegum fjármunum. Bandarískir háskólar innheimta að jafnaði tvöfalt meira fyrir hvern ársnema en skólar í öðrum auðugum ríkjum.

Jafnframt því sem ítök háskólanna, auður og áhrif jukust varð almælt að háskólanám væri forsenda þess að komast áfram í lífinu. Ríkjandi rödd, með undirtón menntahroka og vissu um eigin yfirburði, hefur líka staglast á því að það sé hæfni einstaklinganna sem ræður úrslitum um gengi þeirra í námi. Þeir sem komast ekki í háskóla fá sem sagt bæði að heyra að þeir eigi enga framtíð fyrir sér og það sé vegna þess hve vanhæfir þeir séu. Öllum sem vilja vita er þó ljóst að tengsl háskólagráðu við mannkosti eru flóknari og lausari í reipum en svo að slíkar alhæfingar eigi nokkurn rétt á sér.

Meginröksemdafærslan í bókinni er á þá leið að æ dýrari háskólamenntun sé helsta ástæða djúpstæðs klofnings í bandarísku samfélagi. Höfundur segir að þessi klofningur, sem birtist hvað skýrast í aðdraganda forsetakosninganna 2016 þegar Donald Trump hafði betur en Hilary Clinton, sé vissulega að hluta til vegna þess hvernig störf hafa flust úr landi og hvernig verkafólk finnur fyrir vaxandi öryggisleysi. Að þessu leyti á hann sér samsvörun í fleiri vestrænum ríkjum þar sem urgur í garð alþjóðavæðingar er vatn á myllu lýðhyggju og þjóðernisstefnu. En klofningurinn er, segir Bunch, sérlega djúpstæður og hættulegur í Bandaríkjunum vegna þess hve erfitt er fyrir fátæka að brjótast til mennta. Hann skýrir sérstöðu eigin samfélags sem sagt með vísun í sögu háskólamenntunar frá lokum seinni heimstyrjaldar til samtímans. Hann segir þessa sögu afar vel með mörgum dæmum, viðtölum og reynslusögum auk tölfræðilegra upplýsinga. Hann segir hana líka þannig að lesandi fær samúð með báðum hópum: Með þeim skuldugu sem flestir styðja demókrata og dreymir um niðurfellingu námslána og með þeim sem eru hafðir út undan og heilluðust af málflutningi Donalds Trump. Bunch dregur þó enga fjöður yfir að fleira en alþjóðavæðing og breytingar á háskólum skipti máli og ræðir sérstaklega breytta fjölmiðlun þar sem útvarpsstöðvar sem boða lýðhyggju og gera lítið úr menntamönnum ná til verkafólks meðan langskólagengnir leita fremur í dagblöð og hefðbundna fréttamiðla. Sameiginlegur almannavettvangur hefur skroppið saman og samgangur milli fólks úr þessum ólíku hópum hefur minnkað. Margir af þeim sem eru út undan líta á frjálslynda menntamenn sem fjandsamlegt afl og finnst að allir sem háskólaborgararnir hata og fyrirlíta séu í sínu liði. Fyrir stjórnmálamenn er það því beinlínis orðið til vinsælda fallið að espa háskólamenn á móti sér og gefa skít í allan þeirra þankagang. Þetta skildi Trump og kunni að nýta sér.

Hvað er til ráða?

Í bókarlok rökstyður Bunch að brýnasta úrlausnarefni bandarískra stjórnmála sé að veita miklu breiðari hópi möguleika á að ganga í háskóla án þess að verða mjög skuldugir. Hann ræðir hve erfitt þetta er og bendir meðal annars á að hæpið sé að fallast á kröfur þeirra skuldum vöfðu um niðurfellingu námslána því hún sé bæði ósanngjörn gagnvart þeim sem hafa hert sultarólina og borgað skuldir sínar og þeim sem ákváðu að fara ekki í háskóla vegna vitneskju um hve erfitt yrði að greiða námslánin. Hann gagnrýnir líka íhaldsmenn sem gera lítið úr þörf alþýðu fyrir menntun og segir að þótt málflutningur þeirra sé vinsæll meðal lítt skólagenginna bregðist þeir skyldum sínum við unga fólkið sem þurfi á ríkulegri námstækifærum að halda.

Meðal þeirra úrræða sem Bunch rökræðir ítarlega er samfélagsþjónusta önnur en hermennska þar sem fólk vinnur sér inn rétt á ókeypis kennslu á háskólastigi. Um þetta segir hann meðal annars að skoða þurfi þegnskylduvinnu sem leið til að koma samfélaginu út úr þeim ógöngum sem það er í og ýta undir borgaravitund sem sameinað getur þjóðina. Hann fjallar líka um möguleika á auknum niðurgreiðslum á tveggja ára námi á háskólastigi sem hann telur að geti höfðað til marga í hópnum sem nú er hafður út undan. Hann leggur áherslu á að hvað sem gert er þurfi það að vera ásættanlegt fyrir þorra landsmanna, ekki bara skulduga háskólaborgara. Hann segir líka að gremjan sé komin á það stig að ástæða sé til að óttast vopnuð átök innanlands ef ekki tekst að vinna á þeirri mismunun sem leiðir, ýmist beint eða óbeint, af háum skólagjöldum.

Ísland sem eltandi skuggi – lokaorð

Í þýðingu sinni á ljóði eftir enska skáldið W. H. Auden lýsir Magnús Ásgeirsson (1975, bls. 101) Íslandi sem „eltandi skugga“ heimsins þar sem í „afdal hvín jazzinn, og æskunnar fegurð fær alþjóðlegt filmbros á vör.“ Við öpum fleira eftir Ameríkönum en tónlist og framkomu. Þau miklu umbrot sem bókin After the ivory tower falls segir frá hafa haft áhrif hér eins og annars staðar. Endurómar af bandarísku andófi gegn þankagangi menntamanna og vísindalegri hugsun heyrast til dæmis í máli þeirra sem þykjast vita meira um bóluefni og sóttvarnir heldur en læknar og skilja loftslagsmál betur en veðurfræðingar. Flóttinn frá frjálsum listum í háskólum birtist í því að þótt nemendum fjölgi fækkar þeim sem læra til dæmis íslensku. Breytingarnar á fjölmiðlun sem rætt er um í bókinni hafa líka gerst hérlendis þar sem fólkið sem hlustar á Útvarp Sögu lifir nánast eins og í öðrum heimi en þau okkar sem kveikja oftast á gömlu gufunni. Hugmyndafræði háskólamanna hér á landi er líka eins og bergmál af því sem hæst glymur vestanhafs þar sem háskólaróttækni snýst einkum um að vera vakandi (woke) fyrir orðræðu sem mismunar fólki.

Í bók sem kom út árið 2014 lýsir félagsfræðingurinn David P. Baker háskólum heimsins sem stórveldi og þankagangi þeirra sem ríkjandi og sigursælum. Þessi bók heitir The Schooled Society og ég hef sagt frá efni hennar í grein á Skólaþráðum (Atli Harðarson, 2021). Sjálfur held ég að Baker hafi lög að mæla og mér sýnist líka að háskólaróttækni samtímans sé samofin alþjóðavæðingunni sem mörgu verkafólki þykir ógna afkomu sinni og öryggi. Áherslan á talsmáta sem engan særir virðist öðrum þræði hluti af félagsmótun sem gerir nemendur húsum hæfa hjá alþjóðlegum stórfyrirtækjum.



Andóf gegn háskólaróttækni og frjálslyndi er nátengt bakslagi í jafnréttismálum. Það hefur ekki tekið á sig jafn öfgafullar myndir hér á landi og í Bandaríkjunum. Hér eins og þar er þó of mikil einföldun að túlka það sem kúgun þeirra sterku á þeim veiku eða ofbeldi feðraveldis og hvítra gagnkynhneigðra karlmanna gegn konum og minnihlutahópum. Það tengist fremur máttleysi en veraldarmakt. Mér virðist það vera uppreisnartilburðir manna sem eiga lítið undir sér en hafa lifað í skjóli gamalgróins valds. Það er hægt að óttast brotthvarf slíks herradæmis án þess að hafa sjálfur mikið af því. Forpokun samtímans er samt töluverð ógn því mikil og útbreidd gremja veldur því að stjórnmál fara út í tóma vitleysu og jafnvel eitthvað þaðan af verra. Sporin frá Bandaríkjunum sem Bunch lýsir ættu að hræða og líklega ættu yfirvöld menntamála hér á landi að fara að ráðum hans og gefa þeim meiri gaum sem eru hafðir út undan í þekkingarhagkerfi nútímans.

Rit

Atli Harðarson. (2021, 25. september). Menntakerfið sem stórveldi: Nokkur orð um bókina The schooled society eftir David P. Baker. Skólaþræðir. https://skolathraedir.is/2021/09/25/menntakerfid_sem_storveldi/

Bunch, Will. (2022). After the ivory tower falls: How college broke the American dream and blew up our politics—and how to fix it. William Morrow.

Magnús Ásgeirsson. (1975). Ljóðasafn II. Helgafell.


Atli Harðarson (atlivh(hja)hi.is) er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann hefur ritað bækur og greinar um heimspeki, bókmenntir og námskrárfræði. Nánari upplýsingar eru á vefsíðunni https://atlivh.com/


Bókadómur birtur 17. ágúst 2023