Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Er einhver að sinna hlutverki framhaldsskólans? Um fyrsta áratug starfs Heilsueflandi framhaldsskóla

í Greinar

Magnús Þorkelsson

 

Verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli fór af stað haustið 2009 þegar Flensborgarskólinn hóf undirbúning þess með Lýðheilsustöð. Formlega hófst það 1. október 2010. Hér verður fjallað er um rætur verkefnisins, sem má rekja til WHO, UNESCO og hér á landi til Lýðheilsustöðvar. Því er lýst hvernig verkefnið fór af stað, sem og þróun þess fyrsta áratuginn.

Rakin eru tildrög verkefnisins, fjallað um mikilvæga þætti sem og tengsl verkefnisins við Aðalnámskrá framhaldsskóla. Dæmi eru tekin um verkefni í forvarnarmálum og námskrármálum, varðandi heilsu, heilsusamlegt líferni, geðrækt og kynhegðun, með meiru. Greint er frá áheitahlaupi skólans þar sem safnað hefur verið til góðgerðarmála. Bent er á að í lögum um framhaldsskóla er skólastiginu veitt ákveðið hlutverk sem ekki er augljóslega uppfyllt í venjulegu eða hefðbundnu skólastarfi eða námskrárgerð. Dregið er fram hvernig þetta verkefni fór með meðvituðum hætti í að uppfylla sum hlutverka framhaldsskólans. Sýnt er fram á hversu mikilvægt það er að fá að móta skólastarf sem er ekki fyrst og síðast skorðað af með námsgreinum og stundatöflum.

Höfundur var skólameistari Flensborgarskólans veturinn 2009‒2010 og aftur frá 2013‒2022 og var því innsti koppur í búri við mótun heilsueflandi framhaldsskóla. Í þessari grein er verkefnið sett í samhengi við hugmyndafræði framhaldsskóla, daglegt skólastarf og stefnumótun. Fjallað er um hugmyndafræðilega stefnu, sem er líklega, fyrsta raunverulega tilraunin þar sem íslenskur framhaldsskóli mótar sér hugmyndafræðilega stefnu sem fjallar ekki einvörðungu um námsgreinar heldur einnig heilsueflingu, farsæld og vellíðan nemenda og starfsmanna skólans. Þessi grein er að miklu leyti unnin upp úr dagbókum og fundargerðum, auk prentaðra eða veftækra heimilda. Þá er hægt að skoða allnokkuð efni á heimasíðum Flensborgarskólans, Embættis landlæknis og ýmissa annarra skóla.

Það skal tekið fram að höfundur þessarar greinar var í miðpunkti málsins frá því það barst í tal inni á skrifstofu skólameistara, sem þá var Einar Birgir Steinþórsson. Hugmyndalegur drifkraftur verkefnisins innan skólans, án þess að á nokkurn halli, er Bryndís Jóna Jónsdóttir, þá mannauðsstjóri skólans. Tengiliður skólans og Lýðheilsustöðvar, var Héðinn Svarfdal Björnsson lengst af. Síðar tóku aðrir við af honum. Lýðheilsustöð var sjálfstæð eining til ársins 2011 en þá rann hún undir Embætti landlæknis.

Litlar skipulegar heimildir eru til um sögu þessa verkefnis nema það sem má finna á heimasíðum einstakra skóla, heimasíðu Flensborgarskólans og heimasíðu Embættis landlæknis, auk fyrirlestra, ársskýrslna og greinargerða sem teknar voru saman í Flensborg. Þá er margt á opnum heimasíðum hinna og þessara aðila. Svo eru minnisblöð, dagbókarkorn sem eru misskipulögð, fréttir úr fjölmiðlum, auk nokkurra meistaraprófsritgerða. Eftir 2010 bætast við heimildir af heimasíðum annarra stofnana og sveitarfélaga.

Þegar ekki er vísað til heimilda þá er verið að vinna upp úr skjalasafni og minnisbókum stjórnenda skólans.

Inngangur

Á leið sinni að Ölfusárbrú, á leið til Selfoss, gæti verið að vegfarandi ræki augun í fána sem teygja úr sér í golunni við brúna. Átt er við þá sem eru merktir verkefni sem kallast „Heilsueflandi samfélag.“ Allmörg íslensk sveitarfélög mega skarta þessum fána. Sama gildir um skóla, stofnanir og fyrirtæki. Verkefnið Heilsueflandi framhaldskóli hófst formlega haustið 2010 í Flensborgarskólanum. Um svipað leyti hófst sambærilegt grunnskólamiðað verkefni í Egilsstaðaskóla. Á bakvið þessi verkefni var það sem þá hét Lýðheilsustöð, sjálfstæð stofnun sem síðar var flutt til Embættis landlæknis. Á skólastigi Flensborgarskólans er verkefnið kallað Heilsueflandi framhaldsskóli, oft stytt í HEF, en það heiti og þessi skammstöfun verða notað jöfnum höndum í þessari grein.

Verkefnið er samstarf Embættis landlæknis og Flensborgarskólans. Stjórnendur skólans samþykktu að hann yrði forystuskóli.

Markmið verkefnisins voru sett fram á vef embættis landlæknis:

Markmiðið með verkefninu er að stuðla markvisst að velferð og góðri heilsu nemenda. Enda hafa rannsóknir sýnt að heilsueflandi umhverfi bætir líðan nemenda og stuðlar að betri námsárangri. Með þessu er megináherslan lögð á fjóra þætti: næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl. Eitt viðfangsefni er tekið fyrir á hverju ári þannig að þegar nemandi útskrifast að fjórum árum liðnum hefur hann fengið haldbæra þekkingu á hollum lífsháttum og tækifæri til að tileinka sér þá (Embætti landlæknis, 2010).

Þannig varð skólinn tengdur við heilbrigðiskerfið. Það er áhugavert að skoða hvernig slíkt verkefni, sem á rætur að rekja frá allt öðrum geira stjórnsýslunnar gat runnið inn í starf Flensborgarskólans. Hvernig hefur sú innleiðing tekist? Hefur verkefnið mætt andspyrnu eða fékk það fyrst og síðast meðbyr? Hvernig samræmist þetta starf aðalnámskrá, lögum og reglugerðum um skólastarf?

Mikilvæg tenging er við 2. grein laga um framhaldsskóla. Leidd eru að því rök að sú grein fái mjög takmarkaða umfjöllun við námskrárvinnu. Með vinnu við HEF var einmitt verið að vinna á þann þverfaglega hátt sem lagagreinin kallar á (lög um framhaldsskóla nr. 92/2008,.). Svo því sé til haga haldið þá er sambærileg grein í eldri lögum um skólastarf..

Þessi grein er samantekt um HEF verkefnið, sem átti tíu ára afmæli í miðju COVID, haustið 2020. Tilgangurinn er að halda til haga upphafi þessa verkefnis.

Rætur Heilsueflandi framhaldsskóla

Þeirri hugmynd að efla þurfi innan skóla og kennslustofa andrúmsloft öryggis, meðvitund um heilsu og að tryggja vellíðan, hefur vaxið fiskur um hrygg síðustu áratugi. Hugtakið Heilsueflandi skóli (e. health promoting school) varð til þegar WHO (Alþjóðaheilbrigðismálastofnun Sameinuðu þjóðanna), þá nýstofnuð, skilgreindi í stefnuskrá sinni þau atriði sem þyrfti að huga að í samfélögum og skólum. WHO lagði áherslu á að heilsu þurfi að vernda og að hún væri almennt séð byggð á andlegri, félagslegri og líkamlegri líðan án tillits til kynþáttar, kynferðis, efnahags eða trúarbragða (WHO, 1947, 1978).

Árið 1991 stofnuðu þrjár alþjóðlegar stofnanir, WHO, Evrópuráðið og Efnahagsbandalag Evrópu (EB), verkefnið The European Network of Health Promoting Schools (ENHPS) eða eins konar evrópskt net heilsueflandi skóla. Þar með átti að efla vitund starfsmanna og nemenda í skólum, um heilbrigða lífshætti (Burgher o.fl., 1999; Denman o.fl., 2002).

Þess má geta að wellbeing hugtakið hefur m.a. verið þýtt sem farsæld, en það er slagorð skólans Flensborg – menntun til farsældar . Minna má á að í júní 2021 tóku gildi lög um farsæld barna (lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna 86/2021).

HEF er heildstætt verkefni því það nær fyrst og fremst til allra starfsmanna, sem þannig geta miðlað hugmyndum þess til nemenda og nærumhverfis skólans. Hugmyndin þarf með einhverjum hætti að snerta allt starf skólans, námsgreinar sem og önnur störf (stjórnendur, mötuneyti, námsráðgjöf, bókasafn o.s.frv.). Til að undirstrika þessa nýju ábyrgð var þess gætt að hvar sem farið er um skólann er vakin athygli á HEF verkefninu og það kemur fram í öllu starfi skólans, s.s. í námskrá, á bréfsefni, í starfsháttum, á gleðistundum og á fundum. Stjórnendur ákváðu strax að hér væri ekki um tímabundið átaksverkefni að ræða heldur er þetta lykilþáttur í starfi skólans til framtíðar.

Happafengur á hárréttum tíma

Þegar verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli var kynnt fyrir stjórnendum Flensborgarskólans á árinu 2008, þá féll það strax vel verkefnum sem verið var að vinna að í skólanum og snertu skólastarf og inntak náms. Til umræðu voru hlutir, s.s. skipulag og markmið félagslífs nemenda, sem og umhverfismál og jafnréttismál. Því var talið að þetta verkefni gæti orðið góð umgjörð um það sem stjórnendur skólans voru að vinna með. Samstarf við stofnun utan menntakerfisins var ögrandi. Úr varð að Flensborg bauðst að vera forystuskóli HEF og vinna með Lýðheilsustöð að mótun þess, en sú vinna hófst á vordögum 2009. Verkefnið hófst formlega haustið 2010. Aðrir skólar gátu sótt um að vera með og hefja undirbúning frá hausti 2020. Allir framhaldsskólar taka þátt.

Stóru verkefnin sem skólinn og fulltrúar Lýðheilsustöðvar/landlæknis glímdu við voru tvenns konar í fyrstu. Annars vegar að ná saman um sjónarhorn, að ná samningum um hver vandamálin og verkefnin ættu að vera. Lýðheilsustöð horfði á vandann sem leysa þurfti, s.s. offitu, reykingar, geðræn vandamál en fulltrúar skólans horfðu á verkefnið innan frá, sannfærðir um að þorri nemenda væri í góðum málum en að áhættuhópinn þyrfti að greina. Hann væri fámennur og réttast að skapa þannig umhverfi að hann hefði jákvæðar fyrirmyndir til að samsama sig við. Hitt var að finna út hvernig ætti að koma fræðslunni sem hverju þema tilheyrði (næring, hreyfing, geðrækt og lífsstíll), fyrir í skólastarfinu og hvort það kæmist fyrir í áföngum sem þegar væru yfirfullir og í þéttskipuðum stundaskrám. Þetta fannst starfsfólki Embættisins  augljóst að myndi leysast og áttuðu sig ekki á því að fjölmargt í skipulagi skóla er niðurnjörvað og ekki sjálfgefið að nýjum námsþáttum sé bætt við. Þá var skólinn frekar illa staddur fjárhagslega á þessum tíma og því blasti við sú spurning hvernig ætti að koma þessu nýja verkefni fyrir og kosta það?

Sérfræðihópur á vegum Lýðheilsustöðvar og Embættis landlæknis, eftir að Lýðheilsustöðin rann þangað 2011, fundaði reglulega með stýrihópi skólans til þess að móta verkefni hvers árs stig af stigi. Sérfræðihópurinn taldi mikilvægt að hjálpa þeim sem illa stóðu, s.s. þeim sem reyktu tóbak. Embættið vildi leggja fjármagn í að hjálpa fólki að hætta að reykja. Þegar fylgst var með reykingamönnum kom í ljós að þá mátti telja á fingrum annarrar handar svo samstarfshópurinn fór að huga að öðru. Mikilvægt var að finna leiðir til að efla nemendur til góðra hluta og finna fyrirmyndir. Þessir samstarfsfundir voru sérstakir vegna ólíkra hefða í verklagi innan skólans og embættis landlæknis. Leita þurfti að sameiginlegum snertifleti. En ávallt tókst það og með því myndaðist mikið traust milli aðila.

Tvennt er rétt að nefna. Tímasetning verkefnisins var kórrétt. Skólinn hafði verið í samstarfi um verkefnið Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs frá því um aldamótin 2001 um uppgræðslu lands. Skólinn rak nýlegt mötuneyti og unnið var leynt og ljóst að því að gera það eins heilsusamlegt og kostur var. Hvort tveggja lá til grundvallar því að HEF féll eins og flís við rass að hugmyndum skólastjórnenda.

Vinnan

Það er grundvallarsjónarmið stjórnenda því kerfi sem HEF byggir á að í öllu mótunarstarfinu skuli leitað samráðs, sérstaklega innan skólans. Þeir sáu mikilvægt verkefni sem myndi styrkja starf skólans, efla samstöðu og skerpa ímynd hans. Lögð var áhersla á lausnarmiðað starf sem allir gætu tekið þátt í og yrði sannarlega þverfaglegt. Lýðræði, jafnrétti, mannréttindi og fleiri slík orð voru óspart notuð og merkingu þeirra fylgt.

Starfsmenn skólans voru allajafna sáttir við verkefnið. Stjórnendur vildu fá kennara til að tengja þemun við áfanga sína, t.d. næringarþemað. Nokkrir sýndu þessu mikinn áhuga í verki og tóku heilshugar undir með því að vinna námsefni. Þeir áttu einnig beina aðkomu að starfinu og tóku þátt í hugmyndaflæði. Nemendur skólans voru sem heild mjög jákvæðir en á stundum hikandi í þátttöku. Tengsl stjórnenda við nemendur lágu ekki síst í gegnum nemendaforystuna (NFF). Þau lögðu stjórnendum og skólanum lið sitt. Þar fóru fremst nemendur sem voru félagslega virkir og um leið sterkir námsmenn. Þeir urðu drifkraftur í þessu eins og svo mörgu öðru. Áhersla var lögð á að kalla nemendur til samráðs um verkefni. Oft vissu þau hvað kveikti áhuga skólafélaga þeirra og þau aðstoðuðu við skipulag og framkvæmdir. Þessum skemmtilega hópi verður seint fullþakkað.

Hlutverk framhaldsskóla og HEF

HEF hafði ýmis hliðaráhrif. Meðal annars komu fram spurningar á fundum um það hvernig og hvers vegna þetta væri verkefni skóla? Hér ber að skoða hlutverk framhaldsskóla en um það er fjallað í lögum um framhaldsskóla. Þar má lesa í annarri grein laganna (lög um framhaldsskóla, 57/1988.80/1996, 92/2008;), hvert sé hlutverk skólastigsins. Hér skal bent á örfá atriði. Í fyrsta lagi er orðavalið. Framhaldsskólar stuðla að, efla, þjálfa, kenna og hvetja, búa undir og bjóða. Í öðru lagi eru viðfangsefnin. Þau eru m.a. siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust, umburðarlyndi, jafnrétti og gagnrýnin hugsun. Loks er fjallað um að læra að njóta menningarlegra verðmæta og búa undir virka þjóðfélagsþátttöku og er þá ekki allt talið. En hvað merkir þetta, hvernig tengist þetta námsgreinum og hvernig á að meta árangur þessa? Það er mikið augljósara að mæla hvort nemandi fullnægi kröfum háskóla með skriflegum, þekkingarmiðuðum prófum og byggja á síðustu setningu lagagreinarinnar. Þar með er litið fram hjá grundvelli kennarastarfsins og skólans alls.

Í safni rannsókna á starfi níu framhaldsskóla, sem birtist árið 2018 er fullyrt að þekkingarmiðlun sé áberandi (Ingvar Sigurgeirsson, et al. 2018), það sé lítið ýtt undir lýðræði eða frumkvæði og þar með beri að ígrunda kennsluhætti betur (Gerður G. Óskarsdóttir, 2018a; 2018b), að uppröðun í kennslustofum bendi til íhaldssamra kennsluhátta (Ásta Henriksen, 2018; Anna Kristín Sigurðardóttir og Sigrún Harpa Magnúsdóttir 2018) og að þrátt fyrir afar mikið svigrúm í frjálslegri löggjöf og námskrá þá nýti kennarar eða skólar slíkt ekki til umbóta (Hafdís Ingvarsdóttir, 2018).

Árið 2011 kom út algjörlega endurskrifuð aðalnámskrá. Í henni voru gjörbreyttir kaflar um um fjölmargt. Til dæmis koma ný hugtök, s.s. um sex grunnþætti menntunar, níu lykilhæfnisvið sem og þrep menntunar en næsta fátt um námsgreinar og inntak eða tilgang þeirra (Mennta- og menningarmálaráðuneytið. 2011).

Heimavinnan í Flensborg

Hér verður fjallað um daglegt starf þar sem kynnt verða nokkur þeirra verkefna sem unnin voru þannig að sjá megi tengsl þeirra við aðra grein framhaldsskólalaganna. Nú reyndi á öflugan hóp stjórnenda og starfsmanna. Stýrihópur var settur af stað. Í honum sátu yfirstjórn skólans, fulltrúar starfsmanna og nemenda, auk þess sem þeir voru kallaðir til sem taldir voru geta stutt við hugmyndir verkefnisins. Það að öll yfirstjórnin, skólameistari, aðstoðarskólameistari, áfangastjóri, mannauðsstjóri, forvarnarfulltrúi og náms- og starfsráðgjafar væru í þessum starfshópi, sendi skilaboð um það hversu mikilvægt verkefni þetta væri. Það voru samt atriði sem þurfti að skýra.

Í fyrsta lagi var um að ræða samstarf við stofnun utan menntakerfisins. Það þýddi að Menntamálaráðuneytið blandaði sér ekki í málið. Í öðru lagi þurfti að gera lýðum ljóst að fyrst yrði HEF verkefnið og það sem í hverju þrepi fólst að vera kynnt kennurum og þeir þurftu að skynja að HEF snérist ekki eingöngu um nemendur. Fyrst kom starfsfólkið. Þarna kom sér vel að hafa skólanefnd og foreldraráð, sem studdu skólann með ráðum og dáð. Þessir aðilar hjálpuðu til við að mynda gott andrúmsloft með stjórnendum. Þannig var ýmislegt er gert fyrir kennara og starfsfólk og þannig sköpuð velvild. Að auki að ná samstarfi við kennara, reyna að virkja þá til þátttöku og taka málefni HEF inn í kennsluna, auk þess að taka þátt í þeim HEF dögum sem voru settir inn í skóladagatalið. Þetta gat tekið á, enda töldu margir kennarar sig ekkert hafa of mikinn tíma til að halda utan um sína kennslu og að áfangar væru þrautskipulagðir. Þar væri ekki á bætandi. Loks þurfti að ígrunda hversu vel þjálfaðir kennarar væru í þeim margbrotnu verkefnum sem þyrfti að fást við. Það þurfti að fara varlega í sakirnar og finna jafnvægi. Það getur hver sem er sett sig í spor kennara í nánast hvaða námsgrein sem er, sem á að fjalla um t.d. geðheilsu, fíkn eða kynheilbrigði, full meðvitaðir um það að þar er ógnarfen yfir að fara ef menn misstíga sig.

Hér koma nokkur dæmi um verkefni sem til urðu.

Mötuneyti og önnur stoðþjónusta skólans

Í daglegu starfi birtist hugmyndafræði heilsueflandi skóla í hvatningarbréfum til foreldra, nemenda og starfsmanna. Skipulag mötuneytisins breyttist og seldar voru hollari vörur. Nokkrum sinnum var vandlega rætt um hvað það fæli í sér. Það að reka heilsueflandi mötuneyti gat kallað á umræður. Venjulega var miðað við heimilismat og voru starfsmenn hrifnari af slíkum mat en nemendur. Nú var taflinu snúið og horft á hvað nemendur vildu. Þetta kallaði á endurskoðun matseðla. Í ljós kom að yngri starfsmenn voru einnig hrifnir af breytingunni. Það var mikið rætt um hvers konar önnur vara (samlokur, orkudrykkir o.s.frv.) yrði í boði. Talað er um holla valkosti, sem eiga helst að vera ódýrari en hinir. Engu að síður berst stöku sinnum kökuilmur um húsið.

Mikið kapp var og er lagt á að setja upp viðburði í góðri umgjörð. Hér voru og eru nemendur kallaðir til að útbúa kynningar með skiltum, veggmyndum og jafnvel stutt myndskeið sem eru látin ganga á tjaldi í matsalnum. Hér hefur margt skemmtilegt birst frá nemendum og fróðlegt að sjá hvernig þetta horfði við þeim.

Samstarfið við námsráðgjafa var mikilvægt og traust. Meðal þess sem þeir bjóða upp á eru áhugasviðsgreiningar og margt fleira. Þá var mennta- og starfatorgið þróað af þeim. Starfsfólk skrifstofunnar er virkjað til allra verka og tekur því af yfirvegaðri rósemd.

Mennta- og starfatorg

Mennta- og starfatorgi er fléttað sérstaklega inn í umsjónaráfanga og sett upp einu sinni á ári eða annað hvert ár. Á torgið koma fulltrúar stofnana, skóla, háskóla, fyrirtækja og samtaka til að kynna nemendum starfsemi sína, þær kröfur sem áhugasamir umsækjendur þurfa að uppfylla sem og hvernig þeir geti aflað sér þeirrar menntunar sem til þarf. Verkefnið var þróað sérlega fyrir nemendur á öðru ári en allir nemendur eru hvattir til að kynna sér torgið. Þetta er gríðarlega skemmtilegt verkefni. Húsið verður nefnilega stútfullt af gestum og heimafólki því nemendur á öllum árum sækja kynningarnar, – sem eru líklega bestu meðmælin.

Þess ber að geta að þetta er eitt af þeim verkefnum þar sem mikilvæg tenging við nærumhverfið endurspeglaðist hvað sterkast. Fyrirtæki og stofnanir í Hafnarfirði og víðar, fá mjög gott tækifæri til að kynna sig og kynnast skólanum.

Ímyndin – að standa við það sem sagt er

Mikilvægt er að allir finni til ábyrgðar í verkefni sem þessu. Stjórn Nemendafélagsins (NFF) er mikilvægur hlekkur í þessari keðju. NFF miðar dagskrá sína við stefnu skólans. Hún er m.a. kynnt og ítrekuð með því að grunnstefna skólans er birt á skiltum í anddyri skólans. Veggspjöld eru sett upp, fánar eru merktir verkefninu, bréfsefni var aðlagað og svo framvegis. Þess er kyrfilega gætt að alls staðar sjáist auglýsingar og ef skólinn var nefndur á nafn á fundum utan og eða innan skólans þá er titilinn: Flensborgarskólinn í Hafnarfirði (eða einfaldlega Flensborg), Heilsueflandi framhaldsskóli. Stýrihópurinn er duglegur að koma máli HEF að á öllum fundum, t.d. hjá skólanefnd, sviðsstjórn, náms- og kennsluráðgjöf, á kennarafundi, og svo framvegis, ávallt er Heilsueflandi verkefnið tekið fyrir, hvort sem það liggur beint við eða ekki.

Námskrárgerð (HÁM)

Eitt af mörgu sem hefur verið gert var að ígrunda leiðir til að standa undir því lykilmarkmiði að efla skólatengsl, þ.e. að nemendur hefðu umsjónarkennara sem þeir gætu leitað til fyrstu tvö árin eða fram að 18 ára aldri, auk þess að gefa tækifæri til að efla félagsleg tengsl innan hópsins. Þegar ljóst mátti vera að erfitt yrði að koma mörgu af því sem HEF fjallar um inn í námsáfanga, var gengið í að móta áfangann HVA, sem síðar var nefndur HÁM sem stóð fyrir orðin heilsa, ábyrgð og markmið og síðast nefndur Hámark og sækir fyrirmynd sína í jákvæða sálfræði. Hér er vettvangur fyrir marga þá þætti sem fjallað er um í 2. gr. Laga um framhaldsskóla (92/2008). Þannig á að styrkja samfélag nemenda með því að þau eru saman í sínum hópi fyrstu fjórar annirnar, sem sé fjórir áfangar í keðju. Þar er unnið með sjálfsþekkingu, samfélagslegar skyldur og lýðræðisþátttöku, framtíðarmarkmið, núvitund og fleira. Einnig eru hraðlestrarnámskeið og annar námstæknilegur stuðningur og kannanir, s.s. áhugasviðspróf, en allt hjálpar þetta til við að tryggja nemendum nám við hæfi.

Eitt verkefni er kallað Lýðræðisverkefnið þar sem nemendur eiga að benda á hvernig bæta mætti úr ýmsu í starfi skólans. Stjórnendur eru síðan boðaðir á fund einstakra áfangahópa og farið yfir hugmyndir þeirra. Þykir stjórnendum fengur að þessu og komið hafa fram fjölmargar góðar tillögur sem hafa verið nýttar.

Annað nýmæli er að starf Nemendafélagsins er beintengt við námið. Útbúinn var áfangi, Leiðtogaþjálfun, en í honum sitja forysta NFF og fulltrúar nefnda. Þetta reynist oft góður tengill við stjórnendur skólans. Þau þjálfast í verkefnastjórnun og áætlanagerð. Þannig er orku nemenda beint til góðra verka og traust byggist upp.

Núvitund

Eins og fram hefur komið snérist HEF um að vinna með fjögur þemu. Fyrsta er hreyfing, annað næring og það fjórða er lífsstíll. Einna viðkvæmast var þriðja árið, þar sem fjalla á um geðrækt. Undirbúningur fyrir hvert þema hófst veturinn áður en það kom inn. Þannig var undirbúningsár vegna skólaársins 2010-11 skólaárið 2009-10. Þegar nýtt þema hófst þá var áfram unnið með það sem var fyrir og skipuleggjendur sáu þetta sem fjögurra ára ferli og þegar því lyki þá væru í raun öll fjögur þemun í gangi. Þegar þriðja þemað var undirbúið þá var stýrihópnum og öðrum áhugasömum, boðið að kynnast núvitund og settust liðlega 20 starfsmenn í hóp sem fékk góða leiðsögn um hana. Um var að ræða átta vikna sérútbúið námskeið. Síðan þá hafa margir kynnt sér málið því alls höfðu 60‒70 starfsmenn sótt slík námskeið árið 2020. Þetta námskeið opnaði leið að nýju verklagi og hugsun. Yfirstjórn skólans ákvað að nýnemar skyldu fá kynningu á núvitund, enda eflir hún einbeitingu og þroskar hugann. Það eina sem vantaði var námsefni við þeirra hæfi.

Gerðar voru allnokkrar tilraunir og leitað fyrirmynda erlendis. Námsefni var tekið saman, samið og þýtt. Síðan voru kennarar þjálfaðir til að kenna núvitund. Það námsefni er enn grunnurinn að því sem nemendum er kennt um núvitund.

Það eru fleiri leiðir til líkamlegrar og andlegrar uppbyggingar. Starfsmönnum var boðið að stunda jóga. Af þessu leiddi að útbúið var kyrrðarherbergi, sem einstaklingar og hópar geta nýtt sér.

Tengingin við jákvæða sálfræði og núvitund leiddi þau, sem stýrðu þessu stóra verkefni yfir í jákvæða menntun. Heilsueflandi framhaldsskóli hélt áfram að vera undir sínu nafni og við færðumst nær því sem kallað er jákvæð menntun, jákvætt skólastarf og áfram yfir í menntun til farsældar sem er undirslagorð skólans í seinni tíð.

Sérstakir viðburðir

Flensborgardagurinn, 1. október, var gerður að hátíðardegi haustið 2007. Þann dag árið 1882 var skólinn settur í fyrsta sinn. Árið 2010 þegar HEF verkefnið var sett kom fjöldi gesta, þar á meðal forseti Íslands, mennta- og menningarmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og fylgdarlið, sem og vitaskuld þáverandi landlæknir og fjöldi starfsmanna embættisins. Dagskrá þessa dags var af þessu tilefni mjög formleg en síðari Flensborgardagar voru gerðir markvisst fræðandi og menningarlegir og ekki síst skemmtilegir. Kappkostað er að fá gesti helst sérfræðinga í málaflokkum til að fjalla um tiltekinn málaflokk, oft stór pólítískan og viðkvæman. Fjöldi  listamanna hefur komið og gefið af sér.

Jafnan skiptist dagurinn nokkra þætti. Leikar hefjast með samkomu á sal, þar sem m.a. eru veittar viðurkenningar eða styrkir og byggð upp samstaða. Því næst er dagskrá sem byggir á gestum sem eru sérfræðingar í afmörkuðum málefnum. Dagskránni í skólahúsinu lýkur oft með því að til fundar koma leynigestir og um leið eru boðnar veitingar. Afbrigði af þessu er að halda einskonar þjóðfundi í stað fyrirlesaranna þar sem nemendur stýra hópum en ekki kennarar. Þar sitja starfsmenn og nemendur sem jafningjar. Að loknum þessum hluta er oft farið í íþróttahúsið þar sem fara fram keppnir, þrautabrautir o.fl. Fulltrúar starfsmanna og nemenda etja þar kappi. Undir þessum lið geta orðið óvæntar uppákomur, s.s. haustið 2011 þegar hópur starfsmanna setti upp danssýningu við þá afar vinsælt popplag og fékk síðan nær alla áhorfendur, um 400 manns til að taka þátt í dansinum.

Gestir láta jafnan í það skína að áhugi nemenda hafi komið þeim á óvart sem og málefnaleg framganga þeirra. Við viljum fá sérfræðinga á sviðum sértækra málefna til að kynna okkur umræðuna um það sem hæst ber. Hér má nefna málefni flóttafólks, innflytjenda, réttinda- og mannréttindabaráttu, næringu, hreyfingu og geðrækt, pallborðsumræður með frambjóðendum í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum, kynheilbrigði, jaðaríþróttir, stöðu fólks vegna kynhneigðar og fleira mætti nefna.

Eitt afbrigðið er að hefja daginn á kennslu þar sem allir starfsmenn skólans hafa skipt um hlutverk. Þannig getur skólameistarinn lent í að sinna mötuneyti skólans, húsvörðurinn eðlisfræðikennslu og íþróttakennari því að vera skólameistari. Mjög fróðlegt og upplýsandi og það á að vera gaman í skóla, sérstaklega í óbeinu námi.

Mikið kapp er lagt á að virkja nemendur til þátttöku og eru fyrirlesarar jafnan fengnir til að flytja erindi sitt tvisvar eða oftar í kennslustofum, en nemendur fara milli fyrirlesara. Fulltrúar nemenda fara svo yfir allar málstofur á sal og þar getur umræðan haldið áfram. Stjórnendur skólans eru gjarnan fram eftir kvöldi daginn áður við að lífga upp á skólann. Eitt árið voru hengd upp skilti með Geðorðunum tíu (Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, 2012).

Það getur tekið á að skipuleggja þennan dag og stundum fá menn hugmyndir sem virðast langsóttar. Árið 2014 kom sú hugmynd að gera myndband við lag Páls Óskars „Ég er eins og ég er…“. Í miðjum tökum kom sú hugmynd upp að fá Pál Óskar sjálfan til að flytja lagið með myndbandinu. Eins og oftar voru fjölmargir starfsmenn til í tuskið. Taugarnar voru þó þandar hjá stjórnendum því samband náðist ekki við söngvarann. Örfáum dögum fyrir hátíðina hringdi Páll, hlýddi á erindið, sló til og leysti málið af snilld við dynjandi fögnuð allra viðstaddra. Myndskeiðið og söng Páls Óskars má finna hér eða með leitarforðunum Páll Óskar og Flensborg, ef tengillinn er óvirkur. R.

Samtal og stuðningur við nærumhverfi

Flensborgarskólinn er sá skóli á höfuðborgarsvæðinu sem er með hæst hlutfall nemenda úr sveitarfélaginu en 95% nemenda skólans koma úr eða búa í Hafnarfirði. Tengsl skólans við sveitarfélagið eru sögulega sterk sem og við öfluga íþróttahreyfingu, félagsstarf, tónlistarskóla og bæjarstjórn. Til að efla þessi bönd enn frekar við samfélagið var komið á götuhlaupi, vitaskuld nefnt Flensborgarhlaupið. Það fór fyrst fram í september 2011 og var þá frá skólanum, upp Selvogsgötu í átt að Kaldárseli, þriggja, fimm og tíu kílómetra leið, fram og til baka. Það voru ekki margir sem fóru fyrsta hlaupið en búið var að safna nokkrum vinningum sem draga átti út í lok hlaups.

Haustið 2012 var svo hlaupinu breytt í áheitahlaup og skyldi allur afgangur af skráningakostnaði fara í að styrkja gott málefni og átti að afhenda á Flensborgardaginn.

Haustið 2013 gekk eilítið betur og eftir þetta fór boltinn að rúlla og hafa hlauparar að jafnaði verið á bilinu 350-450 manns síðan þá. Fyrirtæki innanbæjar og utan hafa gefið fjölda útdráttarvinninga, allt frá gjafabréfi í ísbúð í varning sem var metinn á tugi þúsunda. 2018, 2019 og 2022 var hlaupið frá Hafnarfjarðarkirkju áleiðis að Bessastöðum og til baka.

Níu sinnum hafa verið veittir styrkir en hlaupið féll niður vegna Covid haustin 2020 og 2021 . Þeir sem hafa fengið styrkti eru Íþróttafélagið Fjörður í Hafnarfirði, Ungmennahús í Staðarbergi í Hafnarfirði, Barnaheill, MS félag Íslands, Kraftur stuðningsfélag, Reykjalundur – endurhæfing, Hugrún Geðræktarfélag, Bergið Headspace og Sorgarmiðstöðin.

Hlauparar hafa safnað á þriðju milljón króna til þessara góðgerðarfélaga og styrkurinn er ávallt skilyrtur við þann hluta starfsemi þeirra sem snertir ungt fólk.

Litið um öxl

Verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli hefur haft mikil áhrif á vinnuanda í skólanum. Það hefur þjappað starfsmönnum saman og nemandinn verður í raun miðpunktur sem og hagsmunir hans, þó svo að starfsmenn fái mikilvægan undirbúning og stuðning. Það var eitt að lýsa skólanum sem Heilsueflandi framhaldsskóla, en annað að framfylgja því í daglegu starfi. Hvorki stofnunin né nemendur skólans eða starfsfólk breyttust í allsherjar heilsubolta daginn sem verkefnið var sett af stað eða 1.október árið2010. Þetta er langferð og taka varð á þeim verkefnum sem voru fyrirséð strax og leysa ófyrirsjáanleg verkefni þegar þau komu upp.

Verkefnin sem urðu til undir hatti HEF eru margbrotin, allt frá því að stuðla að umhverfisvernd yfir í öflugar vímuefnaforvarnir og þaðan í geðrækt. Með verkefninu hófst vegferð sem fjöldi kollega um allt land auk eldhuga í starfsmannahópnum innan skólans, studdu og styðja af heilum hug með virkri þátttöku. Þetta verkefni var þess efnis að það var erfitt að vera opinskátt á móti því sem slíku. Hins vegar var hægt að sitja hjá.

Það sem stjórnendur og stýrihópur lærðu ekki síst af þessu er að það að breyta hegðan hópa, s.s. nemenda eða starfsmanna skólans (og þar eru stjórnendur taldir með) tekur á og krefst þolinmæði. Þetta er langferð, mikil langferð.

Verkefnið ýtir undir námskrárgerð og leggur línur. Dæmi um slíkt er HVA/HÁM en um þau er fjallað hér að framan. Þá kom fram fjöldi hugmynda í íþróttum sem nú kallast Heilsuefling. Þess ber að geta að á hverjum tíma eru um 200 nemendur á Íþróttaafrekssviði (ÍAS). Þeir stunda íþróttir og æfingar hjá sínum félögum.

Segja má að leiðin til að koma svona málefni inn í kennslustofur sé að útbúa nýjar námsgreinar eða áfanga sem falla inn í áfangakeðjur. Sem dæmi má nefna tilraunir í íþróttum, sem nú kallast heilsuefling. Þar var stofnað til áfanga sem áttu að höfða til þeirra sem síst vildu og/eða gátu til að búa þeim umgjörð öryggis. Annað dæmi er áfangaröð sem heitir HVA/HÁM og er lýst fyrr í þessari grein .

Eitt námskeið var mótað innan skólans sem reyndist dýrmætt að eiga til að nota Covid árin 2020‒2022. Þá var skólanum lokað um tíma og ýmsar takmarkanir settar á sem gerði starfsfólki erfitt fyrir með heilsuseflandi samkomur. Þess vegna var heilsueflandi starfinu haldið áfram eins og hægt var en umhverfismál sett á oddinn, enda andlegt og líkamlegt lýðheilsuvandamál. Til var námskeið í áfanga í Umhverfisfræði þar sem nemendur fjalla um málaflokkinn þvert á fræðigreinar, sérlega raungreinar, með það að markmiði að þau muni láta til sín taka í þessum málum. Eftir nokkurra ára kennslu í umhverfisfræðum var sótt um hjá Landvernd að skólinn yrði Grænfánaskóli. Það hefur gerst og þar með kominn umhverfishópur nemenda. Starf þeirra hefur fengið aukið vægi ekki síst vegna Covid en það var einmitt trú þáverandi skólameistara og aðstoðarskólameistara að þessi málaflokkur væri svo brýnn að stúdentsefni á öllum brautum fara í gegnum slíkan áfanga. Umhverfisvernd, ræktun lands og meðvitund um það sem vel þarf að gera er heilsuefling á sinn hátt.

Ef litið er til skólabrags þá var margt að skoða. Busavígslur breyttust í Nýnemadaga og nemendafélagið stóð fyrir dagsferð með nýnemana í staðinn. Þannig losnaði skólinn undan sóðaskapnum og ofbeldinu sem hafði fylgt busavígslum. Þá tókst ótrúlega vel að „þurrka“ dimissjónir og hafa nemendur verið til fyrirmyndar í þeim efnum. Almenn drykkja á dansleikjum minnkaði og fram steig hópur sem í voru jákvæðar fyrirmyndir í daglegu starfi og íþróttum og kvaðst ekki nota áfengi eða fíkniefni.

Íþróttakennslan var endurskipulögð og fjölmargt prófað sem hentaði nemendum sem hvorki stunduðu íþróttir eða heilsurækt.

Mötuneytið aðlagaði sig að því að matbúa frá grunni (útbúa hollar samlokur, bjóða hafragraut o.fl.). Einföld tilvísun í HEF dugði yfirleitt til úrbóta. Nemendaforystan hefur einnig gengið í takt við skólastjórnendur.

Gerðar hafa verið umfangsmiklar rannsóknir þar sem nemendum var fylgt eftir frá fyrsta ári, til að kanna heilsufar þeirra og þekkingu á ýmsu sem snertir heilsu, næringu, svefn og fleira . Þá voru rannsóknarskýrslur frá Skólapúlsinum og Rannsóknum og greiningu rýndar, auk innri kannanna. Nú ber að hafa í huga að hér var ekki verið að fjalla um eitthvað sem breyttist skyndilega. Við sjáum sveiflur milli ára, í báðar áttir en í vissum málum er þó jákvæð tilhneiging til lengri tíma. Ein var sú að reykingar hurfu algjörlega í yngri hluta nemendahópsins. Sama gilti um svör við spurningum um drykkju- og fíkniefnanotkun. Svefnvenjur nemenda bötnuðu þó ekki og vísbendingar voru um að kvíði og depurð eða þunglyndi séu að sækja í sig veðrið.

Það eru sem sé til margvísleg gagnasöfn sem vinna mætti með til að varpa mynd á þessi mál. Flestir ef ekki allir framhaldsskólar geyma í vefsíðusöfnum sínum frásagnir af viðburðum og gangi mála. Til viðbótar við það sem að ofan er rakið þá lét Embætti landlæknis setja upp mælikvarða á það hvernig skólar tókust á við þemun fjögur (heilbrigði, næring, geðrækt og lífsstíll). Þannig gátu skólar unnið sér gull, silfur eða brons viðurkenningu sem festa mátti á þar til gerð skilti. Fyrstu gátlistarnir voru settir saman skólaárið áður en Flensborg fór í gegnum téð þema. Þar á bæ settu menn markið á að ná gulli ávallt og það gekk eftir.

Síðan var farið að leggja meira í þessa gátlista og þá var unnið með nýja og mun flóknari gátlista frá Embætti landlæknis. Þeir eiga að  meta stöðu skólans. Um er að ræða átta lista þar sem árangur skólans er frá 78% upp í 90%, eða 84% að meðaltali. Listarnir eru ítarlegir og ekki auðvelt að uppfylla þá. Jafnframt hefur verið settur upp vefurinn heilsueflandi.is en þangað færa menn gögn um starfið og svara gátlistum af bestu getu.

Þegar þessi vegferð hófst þá var Flensborg eini þátttökuskólinn. Í dag eru allir framhaldsskólar taldir heilsueflandi, en jafnframt hafa Hafnarfjörður og fleiri sveitarfélög skilgreint sig sem heilsueflandi samfélag og hvetja þar með alla leikskóla og grunnskóla sína til þátttöku. Árgangar nemenda í Flensborg árið 2010 höfðu aldrei heyrt af þessu verkefni en nú hafa nær allir árgangar sem til skólans koma, alist upp við þessa hugsun áður en þeir koma í framhaldsskóla. Það breytir miklu fyrir skólann og nálgun hans.

Þess ber að geta að verkefnið er í góðum farvegi. Skólinn fékk heiðursverðlaun frá Embætti landlæknis árið 2020 fyrir tíu ára frumkvöðlastarf. Það er svokallað Gullepli. Þetta var í annað sinn sem skólinn fékk Gulleplið en að auki hafa yfirstjórnendur skólans verið heiðraðir af Embætti landlæknis, hver og einn.

Við upphaf haustannar 2021 var birt starfsáætlun HEF fyrir komandi skólaár og er þar margt nefnt sem er orðið að föstum liðum. Þá var í tengslum við afmæli skólans kynntur grænn veggur og grænt torg, þar sem er margt að finna sem tengist umhverfisvernd. Hann var hannaður og málaður af listakonunni, Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur, rithöfundi og teiknara. Með þessu lifir HEF áfram þó nýjar áherslur skjóti upp kollinum, til lengri tíma séð.

Að lokum

Nokkur atriði þar sem verkefnið hefur haft mikil áhrif. Þetta var mikil nýlunda og fór af stað í miðju námskrárhléi. Það er skólarnir voru mest í að hagræða (les: skera niður) sem óneitanlega gerði andrúmsloftið þyngra en gott var. Verkefnið var hópeflandi í heild vegna þess að skipulagningin og framkvæmdin vann með stjórnendum sem hömuðust við að láta sér eitthvað koma í hug.  Verkefnið hafði mikil áhrif á félagslífið og gaf stjórnendum í hönd tæki sem hefur losað skólann undan ýmsu í félagslífinu eins og nefnd eru dæmi um. Það setti skólanum ramma hvað varðar næringarmál, sem virðast vera í góðum farvegi í dag, viðmið varðandi hreysti og þol og loks komust geðræktarmál sterklega inn í umræðuna. Þó svo ætla megi að þetta sé allt gert fyrir nemendur þá vill svo til að það var alltaf byrjað á að kynna kennurum málefni og svo völdust einhver þeirra en önnur ekki. Sum gengu alveg gríðarlega vel en stöku verkefni tókust lakar. Við fundum að það var munur á að veita fyrirmæli eða ýta fólki, sem ekki vildi af stað. Það þurfti að gera málefnið þannig að kennarar vildu taka þátt, – en þetta var oft á mörkum þess sem samningar fjalla um. Þeim var svo falið að kveikja í nemendum. Það var ekkert gefið að táningur hefði meiri áhuga á að rífa sig upp að morgni til að mæta í skólann til að hlusta á sérfræðinga tala um eitthvert ástand lengst úti í löndum.

Stjórnendur þurftu að gera sér grein fyrir því að ef 400+ (af oftast um 600) nemendur mættu á viðburð og stór hluti þeirra sat allan daginn en fór ekki þrátt fyrir að varla væri viðkomandi að taka manntal og enginn sem lokaði þau inni, þá var það gott. Lítum á kosningar stéttarfélaga um málefni tengd launum og vinnuaðstæður.

Allar tilraunir til að breyta skólastarfi eru langhlaup, hér var verið að vinna í langhlaupi og úthaldi. Þó teknir væru tveir til þrír dagar á vetri þar sem allt námsskipulag er brotið upp þá má ætla að þeir dagar geti verið ánægjulegir, fræðandi og ekki síst hvetjandi. Og það er í samræmi við það sem segir í annarri lagagrein framhaldsskólalaganna. Það versta sem gerðist var að tímar féllu niður og ruglaði þar með kennslu áætlunum. Sama gerist ef fólk veikist.

Oft koma inn í skólastarfið átaksverkefni og slík verkefni víkja þegar ný verða til, nú eða renna sitt skeið á stuttum tíma. Heilsueflandi framhaldsskóli var ekki átak. Það var breyting á hugmyndafræði og ramma skólastarfs. Þegar þessi vegferð hófst þá grunaði fáa að þetta myndi lifa jafnlengi og það hefur gert í Flensborg. Þess er óskandi að hugsunin um það að starfsmenn skólans búi við jákvætt starfsumhverfi og öruggt, sem leiðir til þess að nemendur gera það einnig, lifi góðu lífi enn um sinn.

Þakkarorð

Hér í lokin er höfundi efst í huga þakklæti til allra þeirra  sem sáu sóknafæri í þessu verkefni og komu með það til skólans, en ekki síður til allra starfsmanna skólans, forystu NFF á hverjum tíma, nemenda allra og aðstandendum þeirra. Flensborgarskólinn naut þeirra forréttinda að leiða verkefnið og gerði það vel.

Heimildir

Auk prentaðra eða veftækra heimilda liggja hér til grundvallar minniskompur, dagbækur, fundargerðir og fleira. Þá er hægt að skoða allnokkuð efni á heimasíðum Flensborgarskólans, Embættis landlæknis og ýmissa skóla:

Aðrar heimildir eru:

Anna Kristín Sigurðardóttir og Sigrún Harpa Magnúsdóttir. (2018). Nemendamiðað námsumhverfi: Hugmyndir framhaldsskólanemenda um kjöraðstæður til náms. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sérrit 2018 – Framhaldskólinn í brennidepli. https://netla.hi.is/serrit/2018/framhaldskolinn_brennidepli/03.pdf

Ásta Henriksen. (2018). Sköpun skiptir sköpum: Viðhorf tungumálakennara til skapandi kennsluhátta. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sérrit 2018 – Framhaldskólinn í brennidepli. https://netla.hi.is/serrit/2018/framhaldskolinn_brennidepli/03.pdf

Burgher, M. S., Rasmussen, V. B. og Rivett, D. (1999). The European network of health promoting schools. The alliance of education and health. International Planning Committee (IPC).

Denman, S., Moon, A., Parsons, C. og Stears D. (2002). The health promoting school: Policy, research and practice. Routledge Falmer.

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir. (2012). Geðorðin tíu – um tilurð þeirra. https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item18223/Gedordin-tiu—um-tilurd-theirra

Embætti landlæknis. (2010). Flensborg Heilsueflandi framhaldsskóli. Höfundur.

Gerður G.Óskarsdóttir. (2012). Skil skólastiga. Frá leikskóla til grunnskóla og grunnskóla til framhaldsskóla. Reykjavíkurborg, Háskólaútgáfan.

Gerður G.Óskarsdóttir. (2018a). Frumkvæði nemenda: Innlit í kennslustundir níu framhaldsskóla. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sérrit 2018 – Framhaldskólinn í brennidepli. https://netla.hi.is/serrit/2018/framhaldskolinn_brennidepli/03.pdf

Gerður G.Óskarsdóttir. (2018b). Samvinna framhaldsskólanemenda: Liður í lærdómi til lýðræðis. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sérrit 2018 – Framhaldskólinn í brennidepli.  https://netla.hi.is/serrit/2018/framhaldskolinn_brennidepli/03.pdf

Guðrún Ragnarsdóttir. (2018). Kvika menntabreytinga: Viðbrögð framhaldsskólans við ytri kröfum um breytingar. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sérrit 2018 – Framhaldskólinn í brennidepli. https://netla.hi.is/serrit/2018/framhaldskolinn_brennidepli/

Hafdís Ingvarsdóttir. (2018). Kennsluhættir speglaðir í ljósi sjálfræðis: Virðing, ábyrgð og traust. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sérrit 2018 – Framhaldskólinn í brennidepli. https://netla.hi.is/serrit/2018/framhaldskolinn_brennidepli/03.pdf

Ingvar Sigurgeirsson, Elsa Eiríksdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. (2018). Kennsluaðferðir í 130 kennslustundum í framhaldsskólum. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sérrit 2018 – Framhaldskólinn í brennidepli. https://netla.hi.is/serrit/2018/framhaldskolinn_ brennidepli/03.pdf

Lög um framhaldsskóla nr. 57/1988.

Lög um framhaldsskóla nr. 80/1996.

Lög um framhaldsskóla nr. 92/2008, 92.

Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. (2021).

Margrét Einarsdóttir, (2020). Geðræn líðan íslenskra ungmenna: Tengsl við vinnu með skóla? Læknablaðið, 106(11), bls.  505-511.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2011). Aðalnámskrá framhaldsskóla. Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Nanna Briem. (2019). Geðheilsa ungs fólks, Læknablaðið, 105(5), bls. 213. doi: 10.17992/lbl.2019.05.229

OECD (2020), Education at a Glance 2020: OECD Indicators, OECD Publishing. https://doi.org/10.1787/69096873-en

OECD. (2020). Education at a glance: OECD indicators 2020. Paris, European Union.

Rosling, H., Rosling, O. og Rönnlund, A. R. (2018). Factfulness. Hodder & Stoughton.

WHO, World Health Organisation. (1947). Constitution of the World Health Organization. Chronicle of the World Health Organization. Höfundur.

WHO, World Health Organisation. (1978). Primary health care. Report of the International conference on primary health care. Höfundur.

 


Um höfund

Magnús Þorkelsson (mth22(hja)hi.is; maggithorkelsson(hja)gmail.com) las sagnfræði og fornleifafræði við Háskólann í Nottingham. Er heim kom fór hann í kennslu, fyrst við Flensborgarskólann í afleysingum, þá við MS, kennslustjóri frá 1990 og aftur í Flensborg 1998 til starfsloka 2022, sem aðstoðarskólameistari og skólameistari. Hann hefur rannsakað íslenskt skólakerfi og þróun þess. Hann hefur verið leiðandi í starfi sínu við MS, Flensborg og víðar. Heilsueflandi framhaldsskóli er rót hugmyndarinnar um framhaldsskóla til farsældar.


Grein birt 8. júní 2023
image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp