Breytum menntun til framtíðar: Samtal við Anne Bamford

í Viðtöl

Kolbrún Þ. Pálsdóttir

Orkumikil, skörp og áhrifamikil – eru lýsingarorð sem koma í huga þegar ég leita eftir orðum til að lýsa dr. Anne Bamford, kennara, listakonu og leiðtoga á sviði menntunar. Menntavísindasvið Háskóla Íslands lenti í lukkupottinum þegar það fékk Anne  sem ytri ráðgjafa í sjálfsmatsferli sviðsins árin 2022 og 2023. Anne starfaði um árabil sem yfirmaður menntamála hjá City of London sem er elsti borgarhluti Londonborgar. Hún hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir rannsóknir sínar á tengslum menntunar, lista, sköpunar og tækni. Hún kynnti hugtakið „heildstæð hæfni“ (e. fusion skills) til að lýsa þeirri hæfni sem þarf til að blómstra nú og í framtíðinni. Anne hefur um árabil starfað fyrir UNESCO og sem ráðgjafi, m.a. fyrir menntayfirvöld Danmerkur, Hollands, Belgíu, Íslands, Hong Kong, Írlands og Noregs.

Dr. Bamford eða Anne, eins og við máttum kalla hana, heimsótti Menntavísindasvið HÍ í mars sl. Hún fundaði með fjölmörgum einstaklingum og hópum þá tvo og hálfan dag sem heimsóknin stóð til að fá sem besta mynd af stöðu rannsókna og reynslu starfsfólks og doktorsnema við Menntavísindasvið. Ég hafði það hlutverk, sem forseti sviðsins og formaður sjálfsmatshópsins, að sjá til þess að heimsóknin gengi vel og að Anne fengi allar þær upplýsingar sem hún þyrfti til að vinna að upplýstri umsögn og ábendingum um hvernig við gætum stutt rannsakendur, starfsfólk og nemendur betur til að vinna að mikilvægri, skapandi og áhrifamikilli þekkingu á sviði menntunar.

Tímasetning heimsóknarinnar gæti ekki hafa verið betri. Frá því í upphafi árs 2022 höfum við vitað að Menntavísindasvið myndi flytja innan skamms í nýja byggingu, Sögu – glæsilega sjö hæða byggingu, áður hótel, sem staðsett er í hjarta meginsvæðis Háskóla Íslands.

Þar sem við höfðum verið, og erum enn að vinna að, sýn okkar og áætlunum um hvernig megi hanna nýjar höfuðstöðvar sviðsins, nútímalegt og lifandi hjarta fyrir menntavísindin, þá hafa jafnframt risið upp áhyggjur og spurningar um hvað sé framundan: Hvað viljum við taka með okkur, hvert erum við eiginlega að fara, og hvernig getum við, starfsfólk og nemendur, tryggt að sýn okkar og draumar endurspeglast  á nýja staðnum?

Á meðan á tveggja daga þétt setinni heimsókn stóð, var ég svo heppin að eiga nokkur indæl og áhugaverð samtöl við Anne, meðal annars yfir kvöldverði, í heita pottinum og einnig í stuttri og kaldri kvöldheimsókn í Öskjuhlíð, þar sem við horfðum á norðurljósin dansa milli stjarnanna. Það sem fer á eftir eru stutt innlit í þau samtöl.

Forvitni og lærdómur

Eitt af því sem kom aftur og aftur fram í orðum Anne var að akademía og rannsóknir hverfðust um að vera forvitin og vilja læra. Hvað þýðir það, til dæmis fyrir Menntavísindasvið í nýju byggingunni? Hvernig getum við látið það raungerast og skapað bestu aðstæðurnar?

Ef þú ert akademískur starfsmaður þá er meginhlutverk þitt að vera forvitin um heiminn í kringum þig og að leiða nemendur þína og aðra til að kanna hann, bretta upp á ermarnar og taka virkan þátt í eigin námi. Eitt af því sem ég myndi ráðleggja er að tala ekki um kennslustofur á Menntavísindasviði, heldur fremur um námssmiðjur (e. learning labs). Allt rými fyrir kennslu og nám ætti að vera tilraunastofa þar sem fræðafólk og nemendur taka virkan þátt í námi, könnun og skilningsleit, hvort sem það er uppeldisfræði, tónlist eða heilsa. Þetta er mikilvægt í hverri háskólastofnun, en sérstaklega á sviði menntavísinda. Menntun er leið til að rannsaka og spyrja gagnrýnna spurninga um hvernig við mótum þjóðfélagið og samfélagið sem við búum í. Erum við inngildandi, opin og aðgengileg? Ástundum við það sem við kennum (e. do we practice what we preach)? Eitt af því sem ég sé hér á Menntavísindasviði, er að kjarnastarfsemi ykkar fer að mestu fram fyrir luktum dyrum, bæði kennsla og rannsóknir. Þegar að ég heimsæki Sögu eftir eitt til tvö ár þá vil ég sjá fólk læra og rannsaka saman, hér ætti að vera spennandi andrúmsloft og líf í hverju horni, og bæði nemendur og starfsfólk hafa hlutverki að gegna til að þetta verði að veruleika.

Anne Bamford heimsækir Sögu.

Ein af áskorunum okkar er að fá nemendur og starfsfólk til að mæta á svæðið. Margir nemendur kjósa að stunda fjarnám þar sem flest námskeið eru kennd bæði sem stað- og fjarnámskeið. Eftir COVID heimsfaraldurinn hefur einnig færst í aukana að starfsfólk vinni að heiman. Hver eru þín ráð?

Þið þurfið að skapa samfélag og menningu sem dregur fólk á staðinn. Nemendur ættu að segja: Ég vil vera á Menntavísindasviði því þar er spennandi og áhugavert námsumhverfi. Ég vil vera hluti af því! Starfsfólk ætti einnig að vilja vera á staðnum, vera hluti af þessum stórkostlega vinnustað sem gegnir mikilvægu hlutverk í menntakerfinu á Íslandi. Auðvitað höfum við í dag mikinn sveigjanleika um hvernig við leysum störf okkar af hendi. Sumir kjósa að vinna  heima, á kaffihúsum eða í opnum eða lokuðum rýmum. Reynið að halda þessu eins opnu og hægt er. Látið fólk sjá fyrir hvað Menntavísindasvið stendur og hvernig þið starfið. Forðist að byggja girðingar. Verið opin gagnvart almenningi, t.d. á eftirmiðdögum eða á kvöldin og gefið nemendum ykkar aðgang að húsinu til að læra og vinna saman. Þetta ætti að vera samfélag, opið námssamfélag í alla staði.

Menntun og listir

Eitt af því frábæra sem gerist við flutning Menntavísindasviðs í Sögu er að hægt verður að staðsetja list- og verkgreinakennslu undir einu og sama þakinu, en í dag fer kennsla í leiklist, tónlist, myndlist, smíði og textíl fram í annarri byggingu. Geturðu deilt aðeins þinni sýn á hlutverk listar í menntun, ekki síst í ljósi alþjóðlegra og staðbundinna samfélagslegra áskorana?

Þjóðfélög um allan heim eru að ganga í gegnum áður óþekktar breytingar. Þessar breytingar hafa mikil áhrif á menntun og móta viðbrögð skóla við slíkum áskorunum og tækifærum til breytinga. Flestir skólar byggja á námsgreinabundinni námsskrá jafnvel þó að við vitum að í veruleikanum þá hugsar eða starfar fólk ekki á afmörkuðum námssviðum (e. do not think or work in discrete subject areas).

Í lífinu sjálfu eru vísindin og listin háð hvort öðru og að kunna að skrifa eða reikna skiptir litlu máli ef skapandi hugsun og fagurfræði koma ekki við sögu. Um leið og þekkingu mannkyns vindur fram byggir mannlegur skilningur á gagnvirkni mismunandi fagsviða. Við erum jafnframt að horfa fram á miklar samfélagsbreytingar í fólksfjölda og flutningum. Skólarnir okkar standa frammi fyrir miklum áhrifum hnattrænnar þróunar og þurfa, á sama tíma, að auka sérstöðu sína og einstaklingsstuðning.

Ég hef skilgreint fjórar meginleiðir til að auka þátt lista og sköpunar í menntun:

  1. Menntun í listum sem felur í sér námsskrá þar sem gert er ráð fyrir kennslu í tónlist, myndlist, leiklist, dansi og skapandi miðlum. Nýtið hvert tækifæri til að bjóða nemendum á tónleika, í leikhús, á bókasafnið og heimsækið listasöfn eða tónlistarstúdíó.
  2. Menntun í gegnum listir felur í sér að samþætta listir inn í aðrar námsgreinar. Hér geta kennarar nýtt sér ýmiskonar námsefni án mikillar fyrirhafnar, en nemendur þurfa þó að hafa töluvert fyrir því að ná tökum á listinni og þurfa að nota eigið ímyndunarafl.
  3. List sem menntun byggir á því að mannfólk hefur í gegnum aldirnar ávallt nýtt listina sem leið til að læra. Við lærum, til að mynda, heilmikið um samúð og tilfinningar með því að horfa á kvikmynd eða búa til dans. Í stað þess að taka próf eða skrifa ritgerð þá gætu nemendur til dæmis útbúið veggspjald, bækling eða auglýsingu, eða þú getur notað list, tónlist eða dans til að kveikja hugmynd eða svar.
  4. Menntun sem list felst því að nýta sköpun, menningu og fagurfræðilegan skilning á námi inn í kennslustofuna. Þá getur þú skapað nokkurs konar “VÁ” tilfinningu þar sem menntunin sjálf verður að listupplifun. Á þessu stigi verður kennarinn sjálfur listamaður, hinn forvitna fræðimanneskja, og nemendurnir eru sveipaðir heimi ímyndunaraflsins.

Rannsóknir eru kjarni náms

Þú leggur áherslu á að háskólakennarar og nemendur eigi að vera með-rannsakendur. Geturðu skýrt hvað felst í því og hvernig það ætti að endurspeglast í daglegri starfsemi?

Að vera rannsakandi byggir á því að þú ert forvitinn og sú forvitni beinist bæði að viðfangsefninu hverju sinni og einnig að skilningsleitinni sjálfri og lærdómsferlinu sem í henni felst. Kjarni samvinnurannsókna er, eins og orðið ber með sér, samvinna og samskipti. Þess háttar hæfni er nauðsynleg öllum. Samvinnurannsóknir ættu að fela í sér gagnrýna hugsun, ígrundun og snúast um fagmennsku og greinandi vinnubrögð. Ávinningur af samvinnurannsóknum getur stóraukið tækifæri til náms og þekkingar í kennaramenntun og á vettvangi starfsþróunar. Þátttaka í rannsóknum getur ekki eingöngu víkkað út nám kennaranema, heldur getur einnig verið fyrirmynd af starfsháttum sem þau geta nýtt sér í kennslustofunni. Jafnvel ung börn geta tekið þátt í rannsóknum. Ég tók nýlega þátt í rannsókn með hópi af tveggja og þriggja ára börnum, þar sem við rannsökuðum þyngdaraflið með því að nota ólíkan efnivið, meðal annars fjaðrir, pappír, kort, hnappa, bómul og fleiri hluti. Börnin „kynntu‟ rannsóknina með því að útbúa þrívíddar listaverk í formi veggspjalds, þar sem hlutir sem vigtuðu þyngst mynduðu bakgrunn og hlutir með minna þyngdarafl voru í forgrunni.

Allir geta orðið rannsakendur ef þau eru hvött til að undrast, púsla saman, kanna, vinna saman og greina hvernig eigin skilningur eykst. Nemendur geta þróað djúpa innsýn í eigið fag sem getur sannarlega verið framlag í kenningagrunn í víðari skilningi. Í árangursríkum samvinnurannsóknum er stuðst við náttúruleg lögmál inngildandi rannsókna (e. naturalistic principles of inclusive inquiry) til að kanna bæði almenn og sértæk viðfangsefni. Ákjósanlegt er að samvinnurannsókn sé byggð á margþættum sjónarhornum og nái til fræðafólks, fagfólks af vettvangi, kennara, nemenda, barna og annarra. Slík samvinna hefur áhrif á tengsl milli þátttakenda, og mótar innihald samtalsins og þætti sem tengjast aðild, gagnvirkni, sjálfræði, eignarhaldi, valdi og ábyrgð. Ég mæli alltaf með að byrja hægt og læra af reynslunni sem verður til. Ég er mjög hrifin af því sem kallast forprófun (e. pilot test). Ef hlutirnir virka vel þá getið þið miðlað nýjum og skapandi hugmyndum en ef árangur náðist ekki, þá hafið þið dregið lærdóm af spennandi tilraun og getið núna prófað eitthvað annað! Ég hvet ykkur til að taka óhikað stór skref til að breyta menntun til framtíðar.

Heildstæð hæfni er lykilatriði

Þú kynntir hugtakið heildstæð hæfni (e. fusion skills) árið 2007 og nú um stundir virðist menntastefna í vestrænum ríkjum hneigjast í átt að heildstæðri og mannlegri sýn á hæfni sem ætti að hlúa að meðal barna og okkar sjálfra. En engu að síður standa kennarar frammi fyrir miklum áskorunum og kerfið virðist ekki endilega skapa nauðsynlega innviði og stuðning fyrir skapandi og nýjar leiðir. Og einhvern veginn lítur út fyrir að það sem er mælt er það sem er metið mikilvægt. Ertu sammála því og hvaða breytinga er þörf að þínu mati?

PISA könnunin sem OECD framkvæmir metur tiltölulega hefðbundna akademíska hæfni 14 ára nemenda, en er þetta endilega sú hæfni sem börn þurfa mest á að halda fyrir farsæla framtíð? Er þetta tiltekna próf endilega besta mælitækið? Ef við þróum próf til að mæta hæfni í að klífa tré, er þá sanngjarnt að biðja höfrunga sem eru afskaplega gáfaðar og skynsamar verur að taka slíkt próf, eða skjaldbökur eða krókódíla sem þó hafa lifað tímana tvenna? Þegar við útbúum próf til að meta tiltekna hæfni útilokum við ávallt annars konar hæfni, því hún verður ekki hluti af verkefninu. Íslenskur menntafrömuður, Ingvi Hrannar Ómarsson, kannaði viðhorf ólíkra hagaðila til þess sem væri það mikilvægasta sem börn þyrftu að læra í skólum. Nánast allt sem var nefnt af foreldrum, kennurum og börnum voru þættir sem erfiðast er að mæla og eru sjaldan hluti af formlegu mati. Það var áhugavert að niðurstöður Ingva voru í miklu samræmi við heildstæðu hæfnina sem ég skilgreindi á eftirfarandi máta: Samskipta- og miðlunarhæfni, hæfni til samvinnu og teymisvinnu, frumkvæði og lausnamiðuð hugsun, gagnrýnin hugsun, seigla og sköpunarhæfni, og hæfni til að greina og meta upplýsingar og gögn. Slíkir eiginleikar eru einmitt þeir eiginleikar sem bæði háskólastigið og yfir 101 mismunandi fyrirtæki í Bretlandi hafa skilgreint sem þá lykilhæfni sem fólk þyrfti að tileinka sér. Heildstæð hæfni er persónubundin og gefur framtíðar og nútímafólki þá færni sem er nauðsynleg til að ná árangri. Heildstæð hæfni höfðar til ólíkra sviða samfélags og tækni og hvetur til nýsköpunar og efnhagsþróunar. Heildstæð hæfni byggir á þverfræðileikanum til að kveikja á sköpuninni og hugvitinu.

Þú varst ráðgjafi íslenskra menntayfirvalda á árunum 2008 til 2009 og skrifaðir umfangsmikla skýrslu um stöðu listkennslu á Íslandi. Síðan þá hefur þú haldið sambandi við íslenska kollega, ekki síst í Reykjavík. Hvert er þitt mat á íslensku menntakerfi, styrkleikum þess og áskorunum? Er eitthvað sem þú vilt deila til að hvetja kennara og annað fagfólk á sviði menntunar?

Íslenskir skólar eru almennt mjög góðir og menntun er hátt metin á Íslandi. Það eru ýmis dæmi um virkilega faglegt og metnaðarfullt starf á sviði menntunar hér á landi. En jafnvel bestu menntakerfi hafa svigrúm til umbóta. Umfram allt þarf kraftmikla og hæfileikaríka kennara. Ísland, eins og flest önnur lönd, þarf að tryggja nýliðun í kennarastétt og styðja við að kennarar séu nýskapandi, ástríðufullir og einarðir leiðtogar náms og kennslu. Markmið og sýn í kennaramenntun þarf að vera skýrt og metnaðarfullt. Kennaranemar þurfa að kynnast því að vera með-rannsakendur, og þróa þekkingu og hæfni til mats, greiningar og ígrundunar. Menntavísindasvið starfar nú þegar í miklu samstarfi við Reykjavíkurborg, menntamálayfirvöld og aðrar stofnanir og hagsmunaaðila. Slíkt samstarf styður við símenntun og starfsþróun kennara. Menntasamfélagið á Íslandi þarf að ígrunda hvaða gæðaviðmið og aðferðafræði er viðeigandi til að tryggja gæði samhliða nýsköpun og breytingum. Án vandaðra rannsókna og gæðaviðmiða er ákveðin hætta á því að barninu verði hent út með baðvatninu. Það  þarf að gæta að kjarnaviðmiðum og starfsháttum sem hafa um árabil skilað árangri og byggt upp faglegt starf sem helst í hendur við alþjóðlegar menntabreytingar og nýjar leiðir.

Þá er mikilvægt að leggja áherslu á jafnrétti og fjölbreytileika til að hvorki einstaklingar né samfélagshópar verði jaðarsettir. Nú er ýmislegt í gangi til að koma til móts við nemendur af erlendum uppruna, nemendur með sérþarfir, menntun drengja og nemenda sem standa félagslega höllum fæti. Það er ákveðin deigla og aukin áhersla á samvinnu um stafrænt og sveigjanlegt nám sem leiðir til þess að nemendur frá öllum landshlutum geti tekið virkan þátt í námi. Gæðamenntun hefur ekki eingöngu áhrif á börn og ungmenni , heldur á allt náms- og kennsluumhverfi og á samfélagið sjálft. Menntun skiptir miklu máli fyrir íslenskt þjóðfélag. Ég skynjaði mikinn metnað og vilja hjá starfsfólki skólans sem ég hitti í síðustu heimsókn minni. Ég er sannfærð um að framundan séu spennandi tímar og ég hlakka til að heimsækja ykkur á nýja staðnum.‟

Ítarefni

Anne Bamford (2006). The wow factor: Global research compendium on the impact of the arts in education. Münster: Waxman.

Anne Bamford (2009). Arts and cultural education in Iceland. Menntamálaráðuneytið.

Anne Bamford. (2011). List- og menningarfræðsla á Íslandi. Mennta- og menningarmálaráðuneytið.


Um höfund

Kolbrún Þ. Pálsdóttir (kolbrunp(hja)hi.is) er dósent og forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Hún lauk bakkalárprófi í heimspeki árið 1996, meistaranámi í uppeldis- og menntunarfræði árið 2001 og doktorsprófi í menntunarfræðum árið 2012, öllu frá Háskóla Íslands. Rannsóknarsvið Kolbrúnar eru einkum tengsl formlegs og óformlegs náms, samvinna í skóla- og frístundastarfi og hlutverk frístundaheimila.


 

Viðtal birt 2. apríl 2023

 

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal