Hatur í heimalandi: Bók um liðsöfnun herskárra þjóðernissinna

í Ritdómar

Atli Harðarson

 

Árið 2020 kom út hjá Princeton University Press bók sem heitir Hate in the Homeland: The New Global Far Right (Hatur í heimalandi: Nýlegar hægriöfgar víða um heim). Höfundurinn, Cynthia Miller-Idriss, er prófessor við American University í Washington DC.

Bókin fjallar um liðsöfnun hreyfinga sem eiga það sameiginlegt að sjá suma íbúa í eigin landi sem óvini eða ógn við kynþátt sinn, þjóðerni, trú eða menningu. Hún er skrifuð fyrir almenning fremur en sérfræðinga en byggir samt á fræðilegri þekkingu enda hefur höfundur árum saman unnið að rannsóknum á öfgahreyfingum.

Í fyrra var bókin endurútgefin bæði sem rafbók og sem pappírskilja. Eftirfarandi umsögn er skrifuð í þeirri trú að efnið eigi erindi við foreldra, kennara, tómstundafræðinga, íþróttaþjálfara og aðra uppalendur.

Uppgangur hægrisinnaðra öfgaflokka

Þótt vaxandi fylgi við herskáar hægriöfgar eigi sér aðdraganda sem nær aftur fyrir aldamót og sé að nokkru endurtekning á sögu frá fyrri hluta síðustu aldar telur Miller-Idriss að vöxtur slíkra öfgahreyfinga sé mun hraðari nú á síðustu árum en í aldarbyrjun. Hún nefnir sem dæmi að í Bandaríkjunum hafi hópum af þessu tagi fjölgað um 50% á árinu 2018. Umræddir hópar ala á hatri og sundrung og hluti þeirra æfir vopnaburð. Í bókinni kemur fram að þetta eigi sér stað í mörgum löndum og í raun sé orðin til alþjóðleg hreyfing herskárra hvítra þjóðernissinna af evrópskum uppruna sem sé um margt lík bæði fasisma og öfgum innan íslam.

Jafnframt vexti öfgahreyfinga hefur fylgi lýðhyggjuflokka farið vaxandi víða um lönd. Samband ofbeldishneigðustu hópanna við þessa stjórnmálaflokka er að vísu flókið en eftir því sem segir í bókinni er það samt talsvert náið. Höfundur notar hugtakið Overton-glugga til að lýsa þessu og segir að málflutningur þeirra sem halda fram mestu öfgunum færi til viðmið samfélagsins um hvað sé tækt að segja á almannavettvangi. Tilvera öfgasinnaðra þjóðernishreyfinga sem boða dráp á meintum óvinum gerir það auðveldara fyrir stjórnmálamenn að tala í ögn minna ógnandi tón, en samt svo opinskátt að vel megi skilja, gegn jafnrétti allra manna.

Eftir að flugvélum var flogið á Tvíburaturnana í New York 11. september 2001 tengdu margir hryðjuverkaógn meira við trúarbrögð múslíma en kynþáttafordóma og þjóðernisstefnu. Veruleikinn er þó sá, ef marka má Miller-Idriss, að árið 2019 voru rúm 80% af morðum innan Bandaríkjanna sem tengja mátti pólitískum öfgum framin af hvítum þjóðernissinnum og tæp 10% af öðrum hægrisinnuðum öfgamönnum. Hreyfingar yst til hægri báru samkvæmt þessu ábyrgð á um 90% morða sem bandarísk yfirvöld flokkuðu sem glæpi af pólitískum toga. Höfundur áætlar að liðsmenn þeirra innan Bandaríkjanna séu milli 75.000 og 100.000 talsins og sambærilegar hreyfingar í Þýskalandi hafi um 12.500 meðlimi. Hér er aðeins verið að tala um harðasta kjarna þeirra sem vilja beita ofbeldi og hryðjuverkum. Misjafnlega hálfvolgir stuðningsmenn og taglhnýtingar eru svo miklu fleiri.

Hugmyndafræði og samsæriskenningar

Þótt meginefni bókarinnar sé hvernig öfgahreyfingar safna liði ræðir Miller-Idriss líka um hugmyndafræði þeirra og segir meðal annars að hún einkennist ekki aðeins af þjóðernishyggju og tilbúningi um mikinn mun á fólki eftir kynþáttum. Hugmyndirnar fela oft og einatt líka í sér: Tortryggni gagnvart ríkisvaldinu; andúð á lýðræðislegum stjórnarháttum; óra um karlmennsku; samsæriskenningar; Og síðast en ekki síst skoðanir í þá veru að samfélagið sé svo illa komið að nú sé að duga eða drepast, senn hljóti að draga til úrslita í einhvers konar rimmu milli eigin hóps og manna með aðra trú eða rætur í öðrum heimsálfum. Þessi hugmyndaheimur hefur góðar varnir gegn skynsemi og þekkingu enda alkunna að þeir sem trúa samsæriskenningum líta yfirleitt á rök gegn þeim sem enn eina staðfestingu þess hve víðtækt samsærið sé – að jafnvel þau gögn sem talin voru traustust séu greinilega fölsuð af óvininum.

Hluti þeirra sem tala máli kynþátta- og þjóðernishyggju dustar líka ryk af „kynþáttafræðum“ sem nasistar og þeirra líkar héldu á lofti á fyrri hluta síðustu aldar. Sumir tengja málflutning sinn heiðnum átrúnaði og enn aðrir tala um helgi heimalandsins með orðfæri náttúruverndar og náttúrudýrkunar. Venjulega blandast saman við þetta hugmyndir um djúp tengsl manna við ættjörð sína og tilkall til þess að eiga hana í friði fyrir öðru fólki. Miller-Idriss bendir á hliðstæður við áróður sumra herskárra múslíma fyrir endurreisn kalífadæmis – eitthvað gamalt sem alþýðan kvað hafa staðið saman um skyldi endurreist og óvinurinn hrakinn burt úr landi hennar.

Fólk á skjá og fólk á fæti

Drjúgur hluti af liðsöfnuninni sem fjallað er um í bókinni á sér stað í netheimum. Það er samt, segir höfundur, mikil einföldun að halda að hún fari öll fram í bergmálshellum samskiptamiðlanna. Einstaklingar, einkum drengir og ungir karlmenn, laðist til fylgis við svona hópa í flóknu samspili bæði við fólk á skjá og fólk á fæti.

Í bókinni er fjallað nokkuð um tilraunir til að hefta umrædda aukningu á liðsafla öfgahreyfinga með því að stöðva hatursorðræðu á efnisveitum og samskiptamiðlum. Höfundur segir að þær hafi lítinn árangur borið. Dæmin sem hún tekur eru meðal annars af Spotify og Apple sem fjarlægðu tónlistarefni ef það innihélt boðskap hvítra þjóðernissinna. Einnig ræðir hún sambærilegar ráðstafanir hjá fleiri netrisum eins og YouTube, Facebook og Twitter og segir að þær hafi ekki dregið úr getu öfgamanna til að koma áróðri sínum á framfæri heldur orðið til þess að efla aðra netmiðla þar sem þeir berja bumbur sínar hindrunarlaust. Jafnframt hefur ritskoðunin gefið þeim tilefni og tækifæri til að kynna sig sem hugsjónamenn í höggi við grimmt kerfi þöggunar og ofsókna. Annað sem gerist þegar reynt er að banna orðafæri af einhverju tagi er að það er dulkóðað eins og þegar hylling kanslara Þriðja ríkisins er táknuð með tölunni 88 (þar sem há er áttundi stafur enska stafrófsins), nafn Kú-klúx-klan er ritað með kýrillsku letri, eða fjórtán orða stefnuyfirlýsing hvítra þjóðernissinna er tjáð með tölunni 14. Úr verður málflutningur undir rós sem breiðist út víða en sjálfvirk ritskoðun grípur ekki. Viðleitnin til að banna málflutning og orðfæri af einhverju tagi á það til að hafa þveröfug áhrif.

Hversdaglegur vettvangur

Miller-Idriss segir að margir geri sér þá mynd af hægrisinnuðum öfgamönnum að þeir gangi um í hálfgerðum hermannabúningum með  tákn um  úlfúð og ofbeldi hangandi utan á sér. Þessi mynd segir hún að sé alröng. Þorri ungra manna sem fylgir öfgahópum sé klæddur í venjuleg föt og laus við áberandi útlitseinkenni, enda hafi umræddar hreyfingar fyrir löngu áttað sig á að fleiri ganga til liðs við þær ef fulltrúar þeirra líta út eins og friðsemdarfólk. Þeim hafi líka skilist að til að afla fylgis sé árangursríkast að vinna á vettvangi sem nýtur almennrar viðurkenningar, hvort sem hann tengist íþróttum eða öðru félagslífi. Hún segir að vissulega sé enn til klæðnaður og varningur sem fólk noti til að lýsa yfir stuðningi við herskáa kynþátta- og þjóðernishyggju en þó sé þetta mjög breytt frá því sem var fyrir nokkrum árum þegar vettvangur þeirra var einkum jaðarmenning, æfingar fyrir vopnuð átök, bardagaíþróttir eða tónlistarhátíðir þar sem tákn um reiði og ógn voru bæði hávær og áberandi. Nú ber meira á kímni og háði og þetta fer mest fram á vettvangi sem flestum þykir hversdagslegur. Fyrir vikið er erfitt fyrir uppalendur að átta sig á því hvað er að gerast þegar ungmenni laðast til fylgis við þá sem ala á ofbeldi og hatri.

Hvað er til ráða?

Víða um lönd reyna stjórnvöld að stemma stigu við hryðjuverkaógn með því að auka heimildir og getu lögreglu til eftirlits og afskipta. Þetta segir Miller-Idriss að dugi skammt því inngrip lögreglu séu jafnan eftir að einstaklingar hafa gengið til liðs við öfgaflokka en nái ekki til þeirra sem enn eru tvístígandi. Hún telur að forvarnir eigi einkum að beinast að þeim sem ekki eru handgengnir neinum hryðjuverkasamtökum en ef til vill móttækilegir fyrir áróðri þeirra og að þar gegni fræðsla og þekking lykilhlutverki. Að þessu sögðu viðurkennir hún að skilningur okkar á aðdráttarafli slíkra samtaka sé enn takmarkaður. Við þurfum að hafa augun opin og reyna að átta okkur betur en forðast einfalda sleggjudóma sem er allt eins víst að margir túlki sem staðfestingu þess að öfgamennirnir þurfi í raun og veru að verja sig og sitt fólk gegn fjandsamlegu samfélagi.

Sjálfur veit ég ekki hve mikið er um liðsöfnun af því tagi bókin fjallar um hér á landi. Mér finnst þó trúlegt að í þessu sem fleiru eltum við nágrannalönd okkar. Það sem bókin segir um þörfina fyrir árvekni á sennilega við hér eins og annars staðar.

 


 

Um höfund

Atli Harðarson (atlivh(hja)hi.is) er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann hefur ritað bækur og greinar um heimspeki, bókmenntir og námskrárfræði. Nánari upplýsingar eru á vefsíðunni https://atlivh.com/


 

Umsögn um bók birt 17. febrúar 2023

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal