Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Taktu það frá mér!

í Pistlar

Þorvaldur H. Gunnarsson

 

Þegar ég horfði í alvöruþrungið andlit kennaranemans sem sagði allt í einu í örvæntingu sinni: ,,Það er ekki hægt að koma til móts við alla þessa nemendur í sama tímanum, inni í sömu skólastofu,” þá brast eitthvað. Ég hugsaði: ,,Við erum enn að fást við þetta viðhorf, a.m.k. 20 árum eftir að ég heyrði það fyrst.” Ritgerð um freistnivanda kennara skaut þá upp kollinum.

Freistnivandi kennara (Eyjólfur Sturlaugsson, 2011) kemur fram þegar þjónusta þeirra, og þar með flæði valds, er ekki útfærð í anda þess sem löggjafinn ætlast til þar sem hagsmunir aðilanna virðast ekki fara saman. Kennarar freistast þá til að vinna meira að eigin hagsmunum í krafti sjálfræðis um útfærslu starfsins ,,á gólfinu” en slíkt kallast umboðsvandi og umboðstap, t.d. að hleypa fyrr út úr tíma, hringja ekki í foreldra ef vandamál koma upp eða mismuna nemendum með einhverjum hætti. Auðvitað ætlar sér enginn að svíkjast um. Þetta snýst ekki um það. Ástæða freistnivanda getur legið í tilhneigingunni ,,að komast af” og létta sér störfin við krefjandi aðstæður. Bjargir getur skort, fjöldi mála til úrlausna er of mikill og veldur tímaskorti, markmið geta verið flókin og óskýr, árangur starfsins er óviss og skjólstæðingarnir (nemendur) sækja skóla skyldunnar vegna.

Í íslensku grunnskólakerfi ríkir sú klíníska (læknisfræðilega) orðræða að sérstakt kerfi stoðþjónustu innan skólans eigi að fást við nemendur sem víkja frá goðsögninni um hinn venjulega nemanda og beri ábyrgð á menntun hans (Edda Óskarsdóttir, Hafdís Guðjónsdóttir og Deborah Tidwell, 2019). Við erum að tala um nemendur með sértæka námsörðugleika. Þessi stoðþjónusta samanstendur af allskyns fólki, eins og sérkennurum, sérfræðingum skólaþjónustu, fulltrúum í lausnateymum, náms- og starfsráðgjöfum, fulltrúum fjölmenningardeildar, stuðningsfulltrúum, þroskaþjálfum og öðrum sem umboð hafa til að ,,laga” eða ,,passa” viðkomandi nemendur. Vegna þessa falla sumir bekkjar- eða faggreinakennarar í þá freistni að líta á nemendur með sértæka námsörðugleika sem gesti í skólastofu sinni og jafnvel bjargarlausa án úrræðanna sem stoðþjónustan veitir.

Margir bregðast við þessu með því að auka stoðþjónustu við nemendur með sértæka námsörðugleika. Því miður spretta bara upp fleiri þarfir sem mæta verður með enn meiri þjónustu og svo framvegis. Við þessu verður að sporna, og það ötullega, eigi skóli margbreytileikans að starfa fullvirkjaður. Hætta verður að líta á sértækar þarfir nemenda sem einhverja heita kartöflu sem aðeins stoðþjónustan getur haldið á. Samvinna og stuðningur allra fagstétta innan skólans, sem og foreldra, um að deila ábyrgð á skólagöngu nemenda, en ekki biðja um að hún sé tekin af mér eða þér, verður að vera lykilatriðið. Valdefla verður hinn almenna kennara þannig að hann geti unnið með öllum nemendum í skólastofunni. Skýra verður betur ábyrgð og hlutverk hvers og eins í skólakerfinu, samhæfa og samræma. Þar standa stjórnendur skólans í stafni og lýsa leiðina.

Ég tel því skynsamlegt, eins og fram kemur hjá Rose og Shevlin (2010), að einblína á styrkleika nemenda, hlusta á hvað þeir hafa að segja og kenna þeim að bjarga sér sem mest sjálfir í skólanum og þá í hinni almennu skólastofu. Að minnsta kosti held ég að stoðkerfi, sem er orðið of flókið, dýrt og sterkt, stuðli að lærðu hjálparleysi nemenda, jafnvel kennara líka, og hljóti á endanum að falla saman undan eigin þunga. Kannski er það fallið nú þegar …

Heimildir

Edda Óskarsdóttir, Hafdís Guðjónsdóttir og Tidwell, Deborah. (2019). Breaking free from the needs paradigm: A collaborative reflection on inclusion. Studying Teacher Education, 15(1), 44–55. https://doi.org/10.1080/17425964.2018.1541290

Eyjólfur Sturlaugsson. (2011). Freistnivandi kennara: Hvernig birtist freistnivandi í starfi

grunnskólakennara í ljósi Lipskys og hvað hefur áhrif á hann? [meistararitgerð, Háskóli Íslands] Skemman. https://skemman.is/bitstream/1946/7951/1/Freistnivandi%20kennara.pdf

Rose, R. og Shevlin, M. (2010). Count Me In!: Ideas for Actively Engaging Students in Inclusive Classrooms. Jessica Kingsley Publishers.


Um höfund

Þorvaldur H. Gunnarsson (thorvaldur(hja)vallaskoli.is) starfar sem aðstoðarskólastjóri í Vallaskóla á Selfossi. Hann leggur stund á MT-nám í Menntun án aðgreiningar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Pistillinn var eitt verkefna á námskeiðinu Kennsla í margbreytilegum nemendahópi.


Grein birt 13. desember 2022

 

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp