Erla Björg Rúnarsdóttir
Í skólum eru nemendur með ólíka styrkleika og margbreytilegar þarfir. Þar starfar einnig fólk með ólíkan bakgrunn og fjölþætta þekkingu sem sinnir fjölbreyttum störfum innan skólans með það að leiðarljósi að auka hæfni nemenda. Það má þó ekki gleyma mannlega þættinum. Þetta fólk þarf vissulega að vera viðbragðasnjallt og geta tekist á við allskonar aðstæður sem geta jafnvel reynst ofurhetjum erfiðar en staðreyndin er sú að þetta er fólk.
Íslenskir skólar starfa eftir menntastefnunni um skóla fyrir alla eða skóla án aðgreiningar. Menntastefnu sem er alþjóðleg og kemur fyrst fyrir á íslensku máli í þýðingu á Salamanca – yfirlýsingunni sem var samþykkt af Sameinuðu þjóðunum árið 1994 (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2015). En hverjir eru það sem bera ábyrgð á framkvæmd stefnunnar? Eru það eingöngu skólarnir og sveitafélögin? Eða er það mögulegt að fleiri starfsstéttir og fleiri aðilar beri ábyrgð? Gagnrýnisraddir eru margar og þeir sem gagnrýna hæst og mest halda því fram að skortur á fjármagi hamli því að hægt sé að framfylgja stefnunnu. Foreldrar standa í þeirri trú að ef barnið þeirra er með greiningu þá eigi það rétt á því að námið sé sniðið að þeirra þörfum og greiningunni fylgi meira fjármagn. Málið er að skóli fyrir alla er einmitt fyrir alla og á læknisfræðileg greining ekki að skipta neinu máli í því samhengi.
Minn skilningur á skóla fyrir alla er sá að við berum öll ábyrgð – allt samfélagið, hvort sem við vinnum í skólakerfinu eða ekki. En mestu ábyrgðina ber ríkið, mennta-, heilbrigðis- og félagsmálakerfin. Framkvæmdina þurfa sveitarfélögin og skólasamfélagið sem heild að sjá um með stuðningi þessara kerfa. Það er ekki hægt að ætlast til þess að öll ábyrgðin sé á herðum skólafólksins, stjórnenda þeirra og sveitarfélaganna og í menntastefnunni er ekki gert ráð fyrir því. Það er því mikilvægt að skapa sameiginlegan skilning á hugtakinu skóli fyrir alla í samfélaginu (Edda Óskarsdóttir o.fl. , 2021).
Í samnefndu lagi spyr lagahöfundur (Stefán Hilmarsson): Hvar er draumurinn? Hvar er lífið sem ég þrái? Ég vil spyrja: Hvernig lítur drauma skólastarf út? Skólastarf þar sem allir starfa af heilum hug eftir menntastefnunni um skóla fyrir alla og ryðja úr vegi hindrunum sem verða á vegi nemenda, kennara og skólasamfélagsins?
Ég tel að það sé draumur hvers kennara að starfa í slíku skólaumhverfi. Ég er sannfærð um að það sé draumur foreldra að börn þeirra njóti menntunar í skólaumhverfi þar sem hlustað er eftir þörfum allra, horft til styrkleika og unnið með veikleika. Þar sem samvinna við foreldra er í hávegum höfð og nemendur og foreldrar þeirra eru hluti af því að skapa námsaðstæður við hæfi. Námsaðstæður þar sem nemendur eru hvattir til að nýta sinn eiginn áhuga til að afla sér þekkingar.
Ég er einnig þeirrar skoðunar að kennarar hafa hvorki haft næði né rými til að skapa sér sína eigin starfskenningu og faglegu sýn í menntastefnunni um skóla fyrir alla. Þeir hafa verið uppteknir við að bregðast við kröfum samfélagsins og þeir hafa á vissan hátt misst trúna á eigin fagmennsku. Ofurtrú samfélagsins á greiningar frá heilbrigðiskerfinu sem slá „vopnin“ úr höndum kennara og dregur úr trú samfélagsins á þekkingu þeirra á kennslufræðilegum nálgunum. Skóli er uppeldis- og menntastofnun en ekki heilbrigðisstofnun. Greiningar eru í langflestum tilvikum staðfesting á því sem kennarinn veit nú þegar og í nær öllum tilvikum þegar farið að vinna með í skólanum. Kennarar hafa þekkingu til að sjá og greina þarfir, styrkleika og veikleika nemenda sinna og hafa tileinkað sér viðbragðssnilli sem stundum kemst nálægt því að teljast til ofurkrafta.
Ég hef um nokkuð skeið leitað mér þekkingar og innblásturs til fræðikonunnar Anne Edwards, en hún hefur fjallað um málefni barna og mikilvægi þess að kerfin sem í kringum þau eru læri að tala og vinna saman. Hún hefur bent á að allir séu með sama markmið, þ.e velferð barns, en að fæstir séu í samvinnu um þessa velferð, heldur á sinni eigin vegferð innan síns sérsviðs. Hennar sýn er að víkka þurfi skilning á störfum þeirra sem starfa saman og að verksvið séu ekki að hindra samvinnu. Hún leggur áherslu á að þeir sem vinna saman séu ekki bara sérfræðingar, hver á sínu sviði, heldur einnig sérfræðingar í velferð barnsins sem unnið er með (Edwards, 2004).
Minn draumur sem kennari er að tileinka mér skýra faglega sýn þar sem öll börn fá notið sín og fá nám við sitt hæfi. Vinna markvisst í þverfaglegum teymum nemendum mínum til velfarnaðar. Þar sem ábyrgðin á námi við hæfi er ekki bara á mínum herðum heldur taka önnur kerfi ábyrgð með öðrum hætti, en einungis að greina vandann og láta mig sem kennara fást eina við að leita leiða til að leysa hann.
Viðtal við Anne Edwards 2013 um fagmennsku, rannsóknir, samstarf heimila og skóla o.fl.
Heimildir
Edwards, A. (2004). The New Multi-Agency Working: Collaborating to Prevent the Social Exclusion of Children and Families. International journal of integrated care 12(5):39. DOI10.1108/14769018200400033
Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2015). Mat á framkvæmd stefnu um skóla án aðgreiningar. Skýrsla starfshóps. https://www.stjornarradid.is/media/menntamalaraduneyti-media/media/frettir2015/skyyrsla_starfshoops_um_mat_a_menntastefnu_loka.pdf
Edda Óskarsdóttir, Hermína Gunnþórsdóttir, Birna M. Svanbjörnsdóttir og Rúnar Sigþórsson. (2021) Framkvæmd stefnu um menntun fyrir alla á Íslandi: Viðhorf skólafólks og tillögur um aðgerðir. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Menntavísindasvið Háskóla Íslands. DOI: https://doi.org/10.24270/netla.2021.7
Erla Björg Rúnarsdóttir er kennslufulltrúi grunnskóla Hafnarfjarðar. Hún er menntaður grunnskólakennari með kennslu yngri barna sem sérsvið. Erla hefur starfað sem umsjónarkennari, myndmenntarkennari, smíðakennari og deildarstjóri stoðþjónustu í grunnskóla í 19 ár. Hún er að ljúka MT námi í mál og læsi við HÍ – menntavísindasvið og er með diplómu í samskiptum og forvörnum frá sama skóla. Erla hefur einnig menntað sig í uppeldisfræði Rudolf Steiner, núvitundar- og jógakennslu fyrir börn og fullorðna. Erla hefur unnið með nemendum og fólki með einstakar þarfir frá árinu 1989.
Pistilinn skrifaði hún á námskeiðinu Kennsla í margbreytilegum nemendahópi þar sem viðfangsefnið var hugmyndafræði að baki kennslu í margbreytilegum nemendahópi og fagmennska í kennslu margbreytilegra nemendahópa.
Pistill birtur 13. nóvember 2022