1

Rödd kennaranemans

Amanda Mist Pálsdóttir

 

Eftir að ég hóf kennaranám fékk ég mjög oft í vettvangsnámi mínu spurninguna „hvernig datt þér eiginlega í hug að fara í kennaranám“? Eftir því sem ég fékk þessa spurningu oftar fór ég smám saman að efast um það hvort ég væri að velja mér rétta námið miðað við viðbrögðin frá samfélaginu. Í dag, þegar ég er nýbúin að ljúka kennaranáminu, get ég fullyrt að þetta er ein besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu. Eftir að hafa fengið allar þessar spurningar um það hvers vegna ég hafði valið kennaranámið fór ég að ígrunda hvað ylli því að umtalið um kennarastéttina væri svona neikvætt. Þegar ég fór að skoða það nánar sá ég að oftar en ekki voru þetta kennarar sem töluðu niður til sinnar eigin stéttar. Það skipti ekki máli hvaða grunnskóla ég heimsótti í vettvangsnámi mínu, ég gat alltaf búist við því að heyra eitthvað neikvætt um kennarastarfið.

Þar sem við kennaranemar erum framtíð kennarastarfsins er það undir okkur komið að upphefja kennarastéttina og breyta viðhorfinu í samfélaginu. Það erum við sem þurfum að berjast fyrir því að fá þessu breytt, en við gerum það ekki nema láta rödd okkar heyrast úti í samfélaginu. Kennaranemar þurfa að vera þátttakendur í að móta jákvætt viðhorf gagnvart kennarastéttinni og því er gríðarlega mikilvægt að rödd okkar fái að heyrast. Þannig getum við lagt af mörkum til að stéttin öðlist þá virðingu sem hún á skilið.

Hlúa vel að kennaranemum á vettvangi

Þegar kennaranemar fara út á vettvang er mikilvægt að tekið sé vel á móti þeim og að þeir finni fyrir stuðningi í skólanum. Þá er hlutverk leiðsagnarkennara ekki síður mikilvægt en ég tel það algjört lykilatriði að kennaranemar fái góðan leiðsagnarkennara þegar þeir byrja að kenna í fyrsta sinn.

Ég fékk það verkefni í hendurnar að taka við umsjónarkennslu á æfingaári (starfsnámsári) mínu og jafnframt mínu fyrsta kennsluári. Þar tók á móti mér kröftugur og krefjandi hópur og því ljóst að ég átti erfitt verk fyrir höndum. Eftir um tvo mánuði í kennslu var ég staðráðin í því að segja af mér þar sem ég var að gefast upp. Ég átti mjög erfitt með það þar sem ég fann að þetta er starf sem ég brenn fyrir. Þá kom leiðsagnarkennarinn minn sterkur inn, stóð mér við hlið, og var mín stoð og stytta. Leiðsagnarkennarinn, ásamt stjórnendum, veittu mér mikinn stuðning og gerðu allt sem þau gátu til að halda mér í starfinu. Mér leið eins og mér hefði verið pakkað inn í bómull og þau lögðust öll á eitt um að finna öll þau tæki og tól sem gátu mögulega stutt mig í þessu verkefni með hópinn minn. Í kjölfarið ákvað ég því að gefast ekki upp, heldur snúa við blaðinu og reyna að breyta hugsun minni, kennsluháttum og starfskenningu og setja mig í spor nemenda minna. Ég hafði í raun bara um tvennt að velja, annað hvort að gefast upp, sem var auðveldasta ákvörðunin, eða taka slaginn, halda áfram og finna leiðir og lausnir í átt að betri bekkjaranda og aga.

Starfskenningin og að hafa trú á innsæinu

Þar sem kennarastarfið er í stöðugri þróun og nýjungar og breytingar líta dagsins ljós reglulega, þurfa kennsluhættir og starfskenning kennarans að vera í takt við það. Þegar ég ákvað að halda áfram í starfi tók ég þá ákvörðun að setja mér markmið. Ég var búin að prófa að vera strangi kennarinn sem gaf ekkert eftir og fór alltaf eftir áætlun. Ég var líka búin að prófa að vera mjúki kennarinn og þessi sem var á milli þess að vera strangur og mjúkur. Það sem gerðist þegar ég var búin að prófa mig áfram var að ég uppgötvaði að þetta snerist ekki um mínar aðferðir og mínar lausnir í kennslunni. Þetta snerist ekki um það að láta nemendur passa inn í einhvern ramma, heldur sá ég að þetta snerist um að hlusta á nemendur, hlusta á hverjar þarfir þeirra eru og finna leiðir sem henta hverjum og einum nemanda best. Það sem meira er að ég sá að þetta snerist fyrst og fremst um að láta nemendum líða vel. Þetta snýst því allt um fjölbreyttar og virkar kennsluaðferðir. Margar af þessum aðferðum lærði ég í kennaranáminu, en ég tel að það megi enn auka mjög á þessa áherslu í náminu. Þegar ég hugsa til baka um þessa tvo fyrstu mánuði sem umsjónarkennari sá ég að skólakerfið var alltaf að reyna að koma öllum nemendum inn í einhvern ákveðinn ramma sem allir áttu að passa í. Hvers vegna er enn ætlast til að börnin passi inn í einhvern ramma? Hvers vegna stimplum við börn?

Hvers vegna kennum við börnunum um? Ég fór að velta þessum spurningum fyrir mér eftir því sem leið á skólaárið. Ég man að ég var mjög ,,kassalöguð” til að byrja með og skrifaði niður, samviskusamlega, nákvæma kennsluáætlun, tíma fyrir tíma hvenær og hvað ég ætlaði að gera með nemendum, því þannig lærði ég að gera í kennaranáminu. Ég komst fljótt að því að ég gæti ekki alltaf fylgt þessum áætlunum þar sem það var mjög misjafnt hvar nemendur voru staddir hverju sinni. Ég fór að sjá hversu mikilvægt það er að lesa í nemendahópinn, því auðvitað er eðlilegt að vera stundum illa stemmd í stærðfræði klukkan tíu mínútur yfir átta á mánudagsmorgni. Svo er þá ekki bara í lagi, t.d að fara í göngutúr með nemendum og koma svo til baka ferskari og tilbúnari í daginn? Ég vildi óska þess að einhver hefði sagt mér hversu mikilvægt það er að lesa í nemendahópinn hverju sinni og brjóta frekar upp daginn, því bæði þú sem kennari og nemendur þínir græða miklu meira á því.

Ég heyrði oft hvað bekkurinn minn væri virkur, stjórnlaus og agalaus og ég fann að þetta hafði áhrif á nemendur. Þeim fannst þau aldrei vera nógu góð fyrir skólann og þeim fannst enginn vera að hlusta á þau. En þar sem ég var kennaranemi einblíndi ég mikið á það að hlusta á reynslumeiri kennara og fagaðila og tók mörgum góðum ráðum og prófaði ýmislegt. En ég fann að margt af því sem mér var sagt að gera virkaði ekki, hvorki fyrir mig né nemendur mína. Ég fór því að hlusta á innsæi mitt, sem sagði mér að takast á við nemendur með jafnaðargeði, notast við jákvæðan aga, hlusta á nemendur, byggja upp traust og leyfa þeim að gera mistök. Ég fór því að einblína á það að nemendum liði vel inni í skólastofunni og fór að sýna þeim að þau skipta máli og að þau eigi að fá að blómstra nákvæmlega eins og þau eru. Þá fyrst fór ég að sjá árangur hjá bekknum, um leið og það var komið traust og þau sáu að þau skiptu máli fóru hlutirnir að gerast. Ég hvatti nemendur í lok hvers dags til að vera alltaf besta útgáfan af sjálfum sér og það slagorð hangir um veggi í skólastofunni.

Að þora að prófa sig áfram

Í þessu ferli mínu, þegar ég var að reyna að finna út úr því hvernig ég ætti að ná aga, trausti, virðingu og góðum bekkjaranda ákvað ég að ýta námsefninu til hliðar um tíma. Ég fór að halda bekkjarfundi þar sem ég var mikið að vinna með hópeflisleiki og fá alla til að tjá sig um eitthvað ákveðið efni. Þessa hugmynd fékk ég eftir að hafa lesið ýmsar dæmisögur um bekkjarstjórnun í náminu. Síðan fór ég með þau í ófáa göngutúra þar sem ótrúlegustu samræður áttu sér stað. Ég man að ég var oft með samviskubit yfir því að vera ekki að kenna þeim neitt þar sem við vorum ekki að læra í stærðfræði, náttúrufræði eða öðrum námsgreinum. Ég fór síðan að spá í það hvort nemendur hefðu fengið meira út úr því að sitja við borð og reikna eða að fá að tjá tilfinningar sínar, byggja upp traust, segja sína skoðun, gera mistök, fara út fyrir þægindarammann og að fá að vera þau sjálf. Mér finnst svarið augljóst. Því að á þessum tímapunkti þurftu nemendur á því að halda að fá að tjá sig og einbeita sér að því að byggja upp sjálfstraust og hjálpast að við að byggja upp góðan bekkjaranda. Þegar þessir hlutir voru komnir á hreint var hægt að byrja að einbeita sér að námsefninu.

Lokaorð mín verða því eftirfarandi: Kæri kennaranemi, hlustaðu á innsæi þitt, fáðu ráðleggingar, ígrundaðu, vertu opinn, hlustaðu á nemendur, settu þig í þeirra spor, prófaðu þig áfram og vertu óhræddur við að gera mistök.


Amanda Mist Pálsdóttir er nýútskrifaður kennari. Í meistaranámi sínu við HÍ fór hún sem skiptinemi til Kaupmannahafnar í eitt ár. Í dag starfar hún sem umsjónarkennari, auk þess að vera knattspyrnuþjálfari.


Pistill birtur: 27/7/2021