Ingileif Ástvaldsdóttir
Í október 2019 var ég svo heppin að fá að vera þátttakandi í samstarfsverkefninu Exchanging Minds sem Skólastjórafélag Íslands og Kennarasambandið í Alberta í Kanada standa að. Samstarfsverkefnið felur í sér að þátttakendur eru paraðir saman, tveir og tveir og heimsækja hvor annan í tíu daga. Í verkefninu gefst þátttakendum tækifæri til að fylgja skólastjórnanda eftir eins og skuggi, bæði í leik og starfi því að meðan á dvölinni stendur búa þátttakendur heima hjá hvor öðrum og ná því að kynnast betur en ef um hefðbundna skólaheimsókn væri að ræða. Í mínu tilviki fékk ég ekki bara tækifæri til að kynnast starfinu í skóla samstarfskonu minnar heldur líka fleiri skólum í skólahverfi hennar.
Í einni slíkri heimsókn fékk ég að horfa á og meta kennarafund þar sem kennarar og stjórnendur skólans æfðu sig í að halda fund þar sem þeir studdu hver annan í að finna lausnir sem fólu í sér aðlögun námsumhverfisins að stöðu og þörfum nemendanna sem voru til umfjöllunar á fundinum. Á þessum fundi kynntist ég því hvernig einfalt skipulag ásamt nálgun og orðfæri fundarmanna getur meðal annars eflt fagmennsku þeirra og ýtt undir að þeir læri hver af öðrum og af eigin starfi.
Þessum fundi stýrði ráðgjafi sem starfar utan skólans sem ég heimsótti. Ráðgjafinn heitir Kurtis Hewson og hefur hann sett saman og þróað líkan að samstarfi fyrir skóla sem hann kallar Collborative Response Model (CRM) og ég hef lauslega þýtt Gagnvirka samstarfslíkanið (GSL). Í febrúar síðastliðnum bauð Kurtis upp á netvinnustofur um líkanið. Um 20 áhugasamir Íslendingar nýttu sér boð hans.
Í grófum dráttum byggir CRM-líkanið á þremur vel þekktum þáttum í skólastarfi; samráðsfundum, mati og greiningum ásamt björgum og úrræðum. Nýjungin í líkaninu er hvernig hver þáttur og samspil þeirra er markvisst notað þannig að starfsfólk skólanna meðvitað styðji hvert annað í að búa nemendum námsumhverfi sem miðast við stöðu og þarfir nemenda. Lykilorð samspilsins eru skipulag og skýrt vinnuferli, skráð gögn um framfarir og samfelldur stuðningur. Áherslur og leiðarljós líkansins sýna að það getur nýst bæði almennum og sérhæfðum teymum innan skóla.
Samráðsfundir: Skipulag og skýrt vinnuferli
Samráðsfundirnir fylgja ákveðnum reglum sem miða að því að finna kennslufræðilegar lausnir sem nýtast nemendum við nám þeirra og einnig að lausnirnar henti fleirum en einum nemanda. Fundirnir hafa fastan tíma innan undirbúningstíma kennara. Skólarnir sem hafa innleitt samstarfslíkanið hafa skipt starfsfólki skólanna í fasta hópa sem funda saman allan veturinn. Þema hvers fundar er ákveðið með nokkrum fyrirvara og taka þau mið af áherslum hvers skóla. Fyrir hvern fund undirbúa þátttakendur sig með þema fundarins í huga og stöðu nemenda sinna. Fundirnir fylgja ákveðnu skipulagi og skráningu á því sem tekið er fyrir, lausnir og hugmyndir ásamt því sem ákveðið er að prófa með nemendum. Skráningunni er svo fylgt eftir á næsta fundi.
Fundirnir hefjast á því að fundarmenn fara yfir hvað hafi gengið vel frá því á síðasta fundi (e. celebrations). Stjórnandi fundanna og aðrir sem sitja fundinn hafa þá eftirfarandi spurningar til hliðsjónar:
- Hvað gekk eftir af því sem síðast var ákveðið?
- Hvaða nálgun eða aðferð sem við ræddum þá virkaði? Og fyrir hvern eða hverja? Af hverju?
- Hvað er til marks um að hún hafi virkað? Hvernig vitum við að nemandinn hafi náð framförum með þessari nálgun?
Undir þessum lið hjálpast fundarmenn að við að rýna gögn sem eru til marks um framfarir nemenda.
Þegar fyrsta lið fundarins er lokið taka fundarmenn fram undirbúningsblöðin sín fyrir fundinn og einn kennari segir frá einum nemenda eða fleirum sem hann skráði á blaðið. Hann segir líka frá af hverju hann skráði þá á blaðið og hvernig hann veit að þessir nemendur eru ekki að ná tilætluðum árangri og af hverju hann vill fá aðstoð samstarfsfólksins við að bæta námsaðstæður þeirra. Fundarmenn hjálpast að við að orða á einfaldan hátt hvað það er í námsaðstæðum sem hamli því að nemendurnir geti náð framförum. Þegar því er lokið leggja fundarmenn til aðferðir sem áður hafa reynst vel við svipaðar aðstæður. Þeir nýta þá bæði þekkingu sína og reynslu til að búa til lista af úrræðum, aðferðum eða kennsluskipulagi sem gæti gagnast nemendum við svipaðar aðstæður.
Undir næsta lið fundarins skoða allir kennararnir undirbúningsblöð sín og nefna þá nemendur sem þeir telja að geti haft gagn af því sem kom fram á fundinum. Þannig nýtist fundartíminn og það sem þar er rætt fleirum en einum nemanda. Síðasti liður fundarins er skráning á því hvaða úrræði hver kennari ætlar að prófa og fyrir hvaða nemanda eða nemendur. Sá liður er svo sá fyrsti á næsta fundi. Með því skipulagi og vinnulagi er samfelldum stuðningi viðhaldið innan líkansins; bæði við nemendur og starfsfólk skólans.
Mat og greiningar: Hvað er til marks um framfarir?
Eins og sést á fyrirkomulagi fundanna þá byggja umræðurnar á þeim gögnum sem þegar eru til í skólanum eða sem starfsfólk skólanna hefur safnað saman um stöðu, aðstæður og framfarir nemenda. Fundirnir eru nýttir til að rýna í gögnin, finna út það sem getur stutt við nám nemenda eða það sem hamlar því að nemendur taki framförum. Skráning eða öflun gagnanna þarf ekki að vera flókin. Þetta geta verið skráning á mætingu, gögn sem sýna námslegar eða hegðunarlegar framfarir eða stutt skráning eftir áhorf í kennslustund eða frímínútum. Starfsmannahópurinn hjálpast að við að setja gögnin fram á skilmerkilegan hátt og nýta þau til að rýna í hvort aðferðirnar sem notaðar eru í skólastarfinu hafa orðið til framfara.
Gögnin og umræðan um þau, þjálfa og styðja starfsfólk skólans í að rýna í eigið starf með bættar námsaðstæður nemenda að leiðarljósi. Hver og einn og hópurinn sem heild, nýta gögn úr daglegu starfi til að meta og greina ávinninginn af skólastarfinu.
Bjargir og úrræði: Stigskiptur og samfelldur stuðningur
Hluti af því að innleiða CRM-líkanið er að starfsmannahópur hvers skóla skráir og flokkar þau úrræði og bjargir sem skólinn, starfsfólk hans og stuðningskerfi búa yfir. Á vinnustofunum í febrúar sýndi Kurtis nokkrar útgáfur af slíkum skráningum og flokkun. Áherslan í flokkuninni er að hver og einn starfsmaður og hópurinn sem heild verði meðvitaður um að hann býr yfir mikilli þekkingu og færni til að aðlaga námsaðstæður að nemendum miðað við þarfir þeirra og aðstæður. Stigskipting flokkunarinnar er liður í að gæta þess að nemendum sé ekki vísað í utanaðkomandi úrræði fyrr en bjargir skólans til að laga námsaðstæður að þörfum nemenda eru fullreyndar.
Hver skóli getur átt safn slíkra skráninga. Ein skráningin getur verið bjargir og úrræði varðandi læsi, önnur varðandi stærðfræði og ein önnur getur verið um hegðunarmótun. Safnið er ekki eins í neinum skóla og er lifandi skjal því það breytist og er uppfært eftir því hverjir starfa við skólann og hvaða þekkingu og færni þeir bæta við sig á meðan þeir starfa þar.
Safnið er meðal annars nýtt undir þriðja lið á samráðsfundunum, þegar hópurinn skoðar hvað hægt væri að gera til þess að bæta námsaðstæður nemenda og hver innan skólans gæti aðstoðað við það. Það má líta á það sem nokkurs konar skjalfestingu á því fagafli sem í skólanum býr.
Gerir gott starf betra
Eins og fram hefur komið eru grunnþættir CRM-líkansins ekki nýir af nálinni í skólastarfi, hvorki á Íslandi né í Kanada. Nýjungin felst í því hversu vel grunnþættirnir eru nýttir og ígrundaðir til að styðja bæði við starfsfólk og nemendur. Í vinnustofunni í febrúar kom fram að með vinnulagi CRM líkansins færðist fókus samráðsfundanna frá einstaka nemendum yfir á stærri hóp sem undir venjulegum kringumstæðum er ekki oft til umræðu á samráðsfundum starfsfólks skóla. Þannig nýtast grunnþættir líkansins við að bæta bæði námsaðstæður og námsárangur fleiri nemenda en áður.
Í Kanada sá ég að skýrt skipulag, meðvitað orðfæri og ígrundað vinnulag efldi bæði einstaklingana innan hópsins og hópinn sem heild til þess að læra af eigin starfi og að taka aukna ábyrgð á námi og farsæld allra nemenda. Vinnulagið ber með sér að litið er á reynslu, sérstöðu og þekkingu starfsfólks og nemenda sem auðlind sem hægt er að nýta nemendum og skólastarfinu í heild til vaxtar; að nýta betur það sem fyrir er, gerir gott starf enn betra.
Meira um CRM líkanið er að finna á heimasíðu Kurtis Hewson og félaga https://www.jigsawlearning.ca/
Heimild
Hewson, K., Hewson, L. og Parsons, J. (2015). Envisioning a collaborative response model: Beliefs, structures, and processes to transform how we respond to the needs of students. AB: Jigsaw Learning Inc.
Ingileif Ástvaldsdóttir lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1999, M.Ed. prófi í Stjórnun menntastofnana árið 2009 frá Háskóla Íslands og Dipl.Ed. í notkun upplýsingatækni í námi og kennslu frá Háskólanum á Akureyri árið 2019. Ingileif hefur starfað í fjölmörg ár í grunnskólum bæði sem umsjónarkennari og lengst af sem skólastjóri. Hún starfar sem aðjúnkt á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, er ein af verkefnastjórum Menntafléttunnar, ásamt því að starfa sem sérfræðingur hjá Menntamálastofnun. Ingileif heldur úti menntablogginu Bara byrja