Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Menntafléttan: Námssamfélög í skóla- og frístundastarfi

í Greinar

 Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Oddný Sturludóttir, Birna Hugrún Bjarnardóttir, Ester Ýr Jónsdóttir, Ingileif Ástvaldsdóttir og Jenný Gunnbjörnsdóttir


Í upphafi árs 2020 fór sendinefnd frá Íslandi til Svíþjóðar að kynna sér stefnumótun og skipulag ýmissa stofnana á sviði menntunar. Sú ferð átti eftir að reynast örlagarík. Menntafléttan – námssamfélög í skóla- og frístundastarfi leit dagsins ljós síðar sama ár fyrir atbeina mennta- og menningarmálaráðherra. Í þessari grein segja verkefnastjórar Menntafléttunnar frá þróun hátt í 50 námskeiða fyrir kennara og starfsfólk í öllu menntakerfinu sem hafa hugmyndafræði leiðtoganáms að leiðarljósi.

Hvað einkennir farsæla og árangursríka starfsþróun kennara og starfsfólks í menntakerfinu? Það er spurning sem margir hafa á vörum sér, flestir hafa skoðun á og ótal margir hafa rannsakað. Niðurstöður rannsókna leiða fram að starfsþróun kennara er árangursrík þegar hún fléttast saman við daglegt starf þeirra, tekur mið af þörfum þeirra og gefur þeim frelsi til athafna. Starfsþróunin þarf að vera í samhengi við barna- og nemendahópinn sem kennararnir vinna með, ná yfir langan tíma og fela í sér samtal og ígrundun í eigið starf – í námssamfélagi með öðrum kennurum og samstarfsfólki (Boylan og Demack, 2018; Robinson, 2011). Allt eru þetta einkenni námskeiða undir hatti Menntafléttunnar en hið síðastnefnda, þróun námssamfélags, er þungamiðja hennar. Samfélög kennara og samstarfsfólks, samtal, ígrundun og pælingar um eigið starf eru hjartsláttur skólastarfs og þó námskeið Menntafléttunnar snúist um mjög ólík viðfangsefni er undirliggjandi rauður þráður þeirra að styðja við þróun námssamfélags í hverjum skóla, teymi, deild eða starfsmannahópi.

Hvað er Menntafléttan?

Menntafléttan samanstendur af námskeiðum sem fylgja hugmyndafræði leiðtoganáms og þróun námssamfélags og taka mið af rannsóknum á því hvernig starfsþróun getur best stutt við kennara í starfi. Hugmyndafræði leiðtoganáms gengur í stuttu máli út á það að þátttakendur á námskeiðunum, kallaðir leiðtogar, vinna með viðfangsefni námskeiðanna í námssamfélagi í eigin skóla, með samkennurum eða samstarfsfólki. Á námskeiðunum fá leiðtogar stuðning við að takast á við það verkefni og ávallt er lögð áhersla á að gerlegt sé að flétta það saman við daglegt starf leiðtogans og samkennara eða samstarfsfólks hans. Námskeiðin eru hagnýt og skapa vettvang til samtals milli leiðtoga þvert á skóla, stofnanir og landsvæði. Á námskeiðunum verða kynnt til sögunnar verkfæri og kveikjur sem tengjast því að styðja við þróun námssamfélags sem og verkfæri tengd viðfangsefni námskeiðsins. Námskeiðin ná yfir heilan eða hálfan skólavetur og byggja yfirleitt á fjórum til sex lotum.

Fjölbreyttur umsjónarhópur námskeiða

Eitt af höfuðmarkmiðum Menntafléttunnar er að styðja við samstarf á öllum sviðum menntunar. Umsjónarfólk námskeiða nálgast nú hátt á sjöunda tug manns og í þeim hópi eru kennarar, verkefnastjórar og stjórnendur úr leik-, grunn- og framhaldsskólum sem og frístundastarfi, kennsluráðgjafar sveitarfélaga, fræðifólk frá Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Listaháskóla Íslands auk sjálfstætt starfandi menntunarfræðinga og fræðifólks, sérfræðingar frá Landvernd, Vísindasmiðju Háskóla Íslands, Landlæknisembættinu, Miðju máls og læsis, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Menntamálastofnun, Nýsköpunarmiðju menntamála hjá Reykjavíkurborg og kennslumiðstöðvum Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Stýrihóp verkefnisins skipa fulltrúar Kennarasambands Íslands, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Stýrihópur heldur utan um samskipti við mennta- og menningarmálaráðuneyti vegna Menntafléttunnar, skipuleggur gagnasöfnun, samráð við haghafa og gagnrýna vini og heldur utan um fjármál verkefnisins í samráði við Menntavísindastofnun.

Birte Harksen leikskólakennari og Hildur Arna Håkansson grunnskólakennari eru meðal þeirra sem hafa umsjón með og kenna á námskeiðum Menntafléttunnar veturinn 2021–2022.

Hvernig fara námskeið Menntafléttunnar fram?

Þeir sem hafa áhuga á námskeiðum Menntafléttunnar skrá sig í samráði við skólastjóra eða stjórnanda á vefnum www.menntamidja.is. Þannig er tryggt að leiðtoginn sem sækir námskeiðið fái nauðsynlega hvatningu og svigrúm í starfi til að styðja við þróun námssamfélags í skólanum eða frístundastarfinu. Flest námskeið tilgreina hámarksfjölda þátttakenda frá hverjum stað, algengt er að miða við tvo leiðtoga úr hverjum skóla eða stofnun. Litið er fram hjá þessu skilyrði ef þátttakandi kemur úr fámennum skóla. Ávallt verður í boði að taka þátt með því að nýta netfundabúnað en skoðað verður hvort tækifæri gefist á staðbundinni kennslu. Námskeiðin eru ekki einingabær enda ekki um eiginleg háskólanámskeið að ræða með verkefnaskilum og lestri fræðigreina. Þátttökugjöld eru engin á meðan samningstímabilinu stendur, eða út skólaárið 2022-2023.


Dæmi um sex lotur í námskeiðinu Leiðsagnarnám í hvetjandi námsumhverfi fyrir grunnskólakennara og stjórnendur. 

  1. lota Leiðtogar og námssamfélög
  2. lota Námsmenning
  3. lota Námsmarkmið, hæfniviðmið og viðmið um árangur
  4. lota Endurgjöf
  5. lota Hlutdeild og virkni nemenda
  6. lota Samtal um uppskeru og fengna reynslu

Á milli kennslulota vinnur leiðtoginn með hópi samstarfsfólks, í langflestum tilvikum innan eigin skóla en í einhverjum tilvikum þvert á skóla eða stofnanir. Við vinnu á vettvangi er svokölluðum þróunarhring fylgt og er honum lýst með mynd hér að neðan. Þetta ferli getur leiðtoginn endurtekið oftar en einu sinni eftir samhengi og aðstæðum. Lykilatriði er að viðfangsefni námskeiðsins ýti við og efli þróun námssamfélaga á vettvangi, með samtali um breytta starfshætti, áskoranir og möguleika.

Leiðtogarnir fá þéttan stuðning frá kennurum námskeiða við að leiða jafningja sína áfram í samtali um breytta starfshætti. Fyrsta lota allra námskeiða er til að mynda helguð þessum dýrmæta þætti og hann gengur sem rauður þráður í gegnum námskeiðin frá upphafi til enda. Allar lotur hefjast á því að leiðtogar bera saman bækur um hvernig gekk á vettvangi frá því þeir hittust síðast.

Velkomin í Menntafléttuna!

Námskeið Menntafléttunnar verða kynnt hvert á fætur öðru á nýrri heimasíðu Menntamiðju, www.menntamidja.is. Þegar þetta er skrifað má lesa lýsingar á 13 nýjum námskeiðum, sem hefjast vorið eða haustið 2021. Þetta eru námskeiðin:

 • Höfum áhrif: Menntun til sjálfbærni á unglingastigi
 • Leiðsagnarnám í hvetjandi námsumhverfi
 • Málið okkar allra: ný sýn í málfræðikennslu
 • Málnotkun, orðaforði og lesskilningur – byggt á forvitni og áhuga nemenda á miðstigi
 • Málörvun með sögum og söng
 • Móðurmál, íslenska sem annað mál og virkt fjöltyngi í grunnskólastarfi
 • Náttúruvísindi, tækni og málörvun í leikskóla
 • Stærðfræðinám og upplýsingatækni á miðstigi
 • Stærðfræðinám og upplýsingatækni á unglingastigi
 • Stærðfræðinám og upplýsingatækni á yngsta stigi
 • Stærðfræðin í leik barna
 • Undur náttúruvísinda í námi yngri barna
 • Vellíðan, seigla og sjálfsmynd í skóla- og frístundastarfi

Í undirbúningi eru svo hátt í tíu námskeið til viðbótar sem kynnt verða á vefnum á næstu vikum og mánuðum. Þar verður m.a. að finna námskeið um forystu fyrir skólastjórnendur leik-, grunn- og framhaldsskóla, námskeið fyrir stuðningsfulltrúa í skóla- og frístundastarfi margbreytileikans, námskeið fyrir framhaldsskólakennara á sviðum stærðfræði og náttúruvísinda, námskeið fyrir leikskólakennara tengt málþroska og annað tengt vísindum og skapandi starfi, námskeið fyrir grunnskólakennara og fagfólk skólabókasafna um lestraráhugahvöt, námskeið fyrir alla grunnskólakennara um nýsköpunarmennt og annað fyrir miðstigs- og unglingastigskennara um verklegar athuganir og áhugasviðsverkefni í náttúrufræði. Vor og haust 2022 verða svo enn fleiri námskeið í boði fyrir kennara og starfsfólk í skóla- og frístundastarfi.

Höfundar, sem eru verkefnastjórar Menntafléttunnar, hvetja kennara, stjórnendur og starfsfólk ólíkra fagstétta í skóla- og frístundastarfi til að gefa fjölbreyttum námskeiðum Menntafléttunnar gaum og taka þannig þátt í þróun námssamfélaga í skóla- og frístundastarfi um land allt.

Nánari upplýsingar: www.menntamidja.is

 


Oddný Sturludóttir lauk B.Mus. prófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2002 og MA prófi í stjórnun menntastofnana frá Háskóla Íslands árið 2018. Oddný hefur starfað sem píanókennari, rithöfundur og borgarfulltrúi en hin síðari ár sem aðjunkt við Deild heilsueflingar og tómstunda og verkefnastjóri á Menntavísindasviði Háskóla Íslands við eflingu kennaramenntunar, Komdu að kenna og Menntamiðju. Oddný er nú verkefnastjóri Menntafléttunnar – námssamfélaga í skóla- og frístundastarfi.

Birna Hugrún Bjarnardóttir lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1993 og Dipl.Ed. í stærðfræðimenntun frá Kennaraháskóla Íslands 2005. Birna Hugrún hefur starfað í fjölmörg ár í grunnskólum sem umsjónarkennari, kennari í námsveri og deildarstjóri. Birna Hugrún var í stjórn Flatar samtaka stærðfræðikennara um árabil, þar af formaður í 4 ár og er ritstjóri Flatarmála, málgagns Flatar. Birna Hugrún starfar nú hjá Menntavísindasviði Háskóla Íslands sem verkefnastjóri í Menntafléttunni í þróun og kennslu námskeiða fyrir stærðfræðileiðtoga.

Ester Ýr Jónsdóttir lauk diplómanámi í uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda frá Kennaraháskóla Íslands árið 2006 og Cand. Scient. prófi frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2005. Ester Ýr hefur starfað sem framhaldsskólakennari í raungreinum við Fjölbrautarskóla Suðurlands og er fyrrum formaður Samlífs – Samtaka líffræðikennara. Ester Ýr hóf störf við Menntavísindasvið Háskóla Íslands sem verkefnisstjóri NaNo – Náttúruvísindi á nýrri öld, en tók við sem verkefnisstjóri starfsþróunar árið 2019.

Ingileif Ástvaldsdóttir lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1999, M.Ed. prófi í Stjórnun menntastofnana árið 2009 frá Háskóla Íslands og Dipl.Ed. í notkun upplýsingatækni í námi og kennslu frá Háskólanum á Akureyri árið 2019. Ingileif hefur starfað í fjölmörg ár í grunnskólum bæði sem umsjónarkennari og lengst af sem skólastjóri. Hún starfar nú sem aðjunkt á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og sem verkefnastjóri í Menntafléttunni ásamt því að starfa sem sérfræðingur hjá Menntamálastofnun.

Jenný Gunnbjörnsdóttir lauk B.Ed. prófi  frá Kennaraháskóla Íslands 1991, Dipl.Ed. í sérkennslufræðum frá Háskólanum á Akureyri 2004 og M.Ed. í lestrarfræðum frá sama skóla 2010. Jenný starfaði um árabil í  grunnskóla sem umsjónarkennari og sérkennari, síðar sem sérfræðingur á Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, aðjunkt við kennaradeild sama skóla og sem sérkennsluráðgjafi hjá Fræðslusviði Akureyrarbæjar. Jenný starfar nú sem verkefnastjóri í Menntafléttunni og sem sérfræðingur á Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri.


Gestaritstjórn afmælisgreina Ingvars Sigurgeirssonar: Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor, Baldur Sigurðsson dósent og Gerður G. Óskarsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkur.


Grein birt 26.3. 2021

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp