Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Allir í bátana, gerum þetta saman – um starfendarannsóknir í Dalskóla

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Hildur Jóhannesdóttir

 

Í þessari grein segir Hildur Jóhannesdóttir, skólastjóri Dalskóla frá  starfendarannsóknum, en þær eru ein af undirstöðum þess að lærdómssamfélag hefur þróast í skólanum. Eins og hugtakið lærdómssamfélag ber með sér verður til aukin þekking ef næst að þróa starfsaðferðir sem fela í sér miðlun þekkingar og verklags á milli kennara, teyma og samstarfshópa. Tilgangur lærdómssamfélags í skólum er að auka gæði kennslunnar og alls starfs með nemendum. Starfendarannsóknir styðja við lærdómssamfélagið því hver rannsókn sem gerð er miðar að auknum gæðum kennslunnar og skólastarfsins. Ásetningur rannsakandans eða hvers rannsóknarhóps er að auka hæfni sína og þekkingu til hagsbóta fyrir nám nemenda og að hafa áhrif á þróun skólastarfs í skólanum með beinum hætti.

Dalskóli, yngsti skóli Reykjavíkurborgar, hefur slitið barnsskónum og er 10 ára um þessar mundir. Skólinn var stofnaður sem leik- og grunnskóli ásamt frístundaheimili og til að byrja með staðsettur í nýbyggðri leikskólabyggingu sem hann sprengdi fljótt utan af sér. Við húsnæðiskostinn bættust þá lausar kennslustofur, en nú er allur skólinn kominn í varanlegt húsnæði sem að mestu er tilbúið. Í dag eru í skólanum 520 börn frá rúmlega eins árs aldri til 15 ára og við skólann starfa um 130 starfsmenn. Allt frá stofnun hans hefur verið lögð áhersla á vinnulag og skipulag sem styður við að lærdómssamfélag jafningja skjóti rótum.

Í þessari grein fjalla ég einkum um hvernig allir grunnskólakennarar, margir leikskólakennarar, frístundaráðgjafar og stjórnendur skólans rannsaka og fylgjast markvisst með eigin framþróun í starfi í þágu náms og leiks nemenda skólans.

Lærdómssamfélagið í Dalskóla

Þegar skólinn var stofnaður haustið 2009 var rætt um það hvernig skóli þetta ætti að vera og hvernig vinnustað við vildum tilheyra. Við vildum vinnustað þar sem allir ættu hlutdeild í því sem þar færi fram og að hver rödd væri mikilvæg. Við vildum vera framsækinn og áræðinn vinnustaður og að við vissum öll á hvaða leið við værum. Við vildum einnig læra hvert af öðru, en síðast en ekki síst að við hefðum hjarta fyrir börnum og hefðum hagsmuni þeirra að leiðarljósi hverja stund.

Þessir draumar kölluðust á við skilgreiningu lærdómssamfélagsins sem gengur út á að þróa menningu og andblæ þar sem lögð er rækt við að sjá kosti þess að læra í sameiningu. Einstaklingar samfélagsins viti hvað þeir vilji, þekki hindranir þess, geti hlustað á hvað aðrir vilja og fundið sameiginlega fleti á þessum framtíðarsýnum.

Þó orð séu til alls fyrst þá sáum við að við þyrftum að smíða og iðka starfshætti sem styddu við ásetning okkar um að skapa lærdómssamfélag. Hér tilgreini ég nokkra þá starfshætti sem við tókum upp til að styðja lærdómssamfélagið í Dalskóla:

Teymiskennsla. Það sem við gerðum til þess að fagmennska eins nýtist öðrum var að setja upp teymiskennslu og teymissamstarf. Skólahúsnæðið er hannað þannig að nokkur teymi hafa sameiginlega vinnuaðstöðu. Leikskólastarfsmenn 4ra og 5 ára barna, frístundastarfsmenn og grunnskólakennarar yngri barna deila vinnuherbergi. Miðstigið deilir vinnuherbergi og unglingastigið einnig. Með því móti á sér stað bæði formleg og óformlega samvinna sem styður samtal jafningja um fagleg mál.

Smiðjur. Við höfum alltaf verið með svokallaðar smiðjur í skólanum, sex kennslustundir í hverri viku og hver smiðja teygir sig yfir 5-6 vikur. Þá eru annað hvort samfélagsgreinar eða náttúrugreinar kenndar þverfaglega með áherslu á huga og hönd. Mest allur skólinn er í sömu smiðjunni á sama tíma. Með því móti er möguleiki á að færa til kennara og aldursblanda nemendum á fjölbreyttan hátt. Við höfum stundum kallað þetta pönkið í skólanum. Með smiðjum aukum við einnig samtal og samvinnu kennara, við aukum hlutdeild kennara með aðkomu að fleiri börnum og hugmyndasmíð út frá markmiðum verður fjölbreyttari.

Leiðsagnarnám. Við lögðum frá upphafi áherslu á það að vanda hverja stund, leikstund, kennslustund og frístundarstund. Gildi skólans Hamingjan er ferðalag kallast á við þá sýn okkar að það er leiðin sem farin er og stundin sem á sér stað sem þarf að vera nærandi og lærdómsrík. Í grunnskólahluta skólans tókum við upp starfsaðferðir leiðsagnarnáms. Góð námsmenning er forsenda þess og undirstaða að leiðsagnarnám fari fram. Gerðar eru væntingar um framfarir allra nemanda. Það ríkir hugarfar vaxtar og nemendur þekkja hvernig þeir læra og hvernig þeir styrkjast sem námsmenn við áskoranir af ýmsu tagi. Nemendahópurinn lærir saman með því að deila þekkingu og mistökum. Í leiðsagnarnámi veitir kennarinn hlutdeild í skipulagningu náms og kennslu, t.d. með því að setja viðmið í samvinnu við nemendur. Hann beitir fjölbreyttri spurningatækni og lögð er áhersla á samræður á milli nemenda um afmörkuð efnisatriði og námsþætti.

Í leiðsagnarnámi er mikilvægt að skýrleiki sé í skipulagi kennslunnar. Uppbygging kennslustundarinnar fylgir í megindráttum eftirfarandi ferli: Áhugi nemenda er vakinn með kveikjum af ýmsu tagi, þá eru námsmarkmið sett fram, viðmið ákveðin og námsstoðir og hjálpargögn lögð fram. Verkefni eru fjölbreytt, bæði hópvinna og einstaklingsvinna. Í kennslustundinni fer fram samantekt, samræður, endurgjöf og úrvinnsla. Endurgjöf til nemenda, eða á milli nemenda er mikilvæg í leiðsagnarnámi og til þess að nemendur geti nýtt hana þarf námsmenningin að byggja á trausti. Nemandinn þarf m.a. að búa yfir réttu hugarfari og sjálfstrausti til að geta tekið á móti endurgjöf, byggt á henni og nýtt sér hana. Starfshættir og hugmyndir nemenda og kennara um nám verða samræmdari þvert á skólann í leiðsagnarnámi og allir nemendur þekkja hvernig hrynjandi kennslustundarinnar er og hvernig samræða og spurningar um nám eru leiddar áfram.

Matsfundir. Við metum starf okkar reglulega með matsfundum, þar sem hver aðili segir álit sitt á tilteknum matsþáttum. Þetta er bæði gert í smærri samræðuhópum og í heyranda hljóði á stærri fundum. Niðurstöður slíkra matsfunda eru nýttar til skólaþróunar og breytingastjórnunar. Þannig skipta allar raddir jafn miklu máli og styður þetta jafnræði og sameiginlegt eignarhald.

Endurmenntun. Vikuleg endurmenntun og þróunarstarf fer fram í grunnskólahluta skólans. Við leggjum mikla áherslu á að eiga vikulega samræðu um nám og kennslu. Með þessu móti stillum við saman strengi og styðjum hvert annað í því vinnulagi sem við erum að þróa og sköpum betri skuldbindingu við sameiginlega sýn á tilgangi.

Starfendarannsóknir. Síðast en ekki síst ástundum við starfendarannsóknir til að styrkja lærdómssamfélagið í skólanum.

Starfendarannsóknir í Dalskóla

Við höfum frá upphafi lagt mikla áherslu á að allir kennarar og stjórnendur framkvæmi starfendarannsóknir. Með því að vinna að starfendarannsókn er farin sú leið í starfi sem hver og einn hefur áhuga á og trúir að skili nemendum auknum árangri og bættri námsmenningu.

Starfendarannsókn er aðferð til þess að bæta eigið starf og byggir á að ígrunda starfið um leið og samræða á sér stað meðal jafningja. Með því að gera starfendarannsóknir eru kennarar skólans að auka þekkingu sína og um leið má segja að þeir séu að framleiða þekkingu fyrir skólann og jafnvel út fyrir veggi hans. Að okkar mati er þetta valdeflandi starfsþróunaraðferð sem styrkir allt faglegt starf skólans. Upphefðin og þekkingin verður til innanhúss, upphefðin kemur ekki að utan.

Þegar sett er fram með formlegum hætti eitthvað sem kennarinn vill bæta, breyta eða innleiða verður það yfirleitt til þess að viðkomandi verður meðvitaður um eigin framþróun í starfi. Við þekkjum öll sem starfsmenn skóla að setja fram drauma og ásetning að hausti og svo er veturinn liðinn fyrr en varir og komið er vor. Ekki vannst tími til þess að gera þær breytingar eða þær umbætur sem löngun var til að gera í eigin starfi. Áskoranirnar koma úr öllum áttum og bregðast þarf við og hætta á að maður hliðarsetji sinn eigin draum um þróun eigin starfs.

Ferillinn í Dalskóla hefst yfirleitt á fræðslu og upprifjun að hausti og því að kennarar og stjórnendur spyrja sig einstaklingslega að því hvað þeir vilja innleiða, hverju þeir vilja breyta, hafa áhrif á, fylgjast með eða læra og þá í tengslum við kennarastarfið á gólfinu. Til þess að velja rannsóknarefni veltum við fyrir okkur námshópnum, tækifærunum sem þar liggja og spáum í þróunarstarfið sem fyrir er í skólanum, en þar liggja mörg rannsóknartækifæri. Kennarar hafa hugsanlega sótt  námskeið eða aðra endurmenntun sem þeir vilja innleiða eða hagnýta sér betur og nýta starfendarannsóknarformið til þess.

Í Dalskóla gera menn einstaklingsrannsóknir en einnig er mjög algengt að teymisfélagar vinni að sömu rannsókninni, það eykur enn frekar skuldbindingu við rannsóknina.

Eftir að rannsóknarefni hefur verið valið fara fram viðtöl á haustönn við stjórnendur þar sem rannsóknarefnið er lagt fram og sett fram formleg rannsóknarspurning. Í upphafi vegferðarinnar er skilgreint það sem þarf að skilgreina, staðan metin, spáð í lesefni, fræðslu, heimsóknir og varðaður vegurinn. Við ráðleggjum öllum að taka frá vikulega einhvern tíma til að halda utan um framvinduna og skráninguna Í starfendarannsóknum er skráning og gagnasöfnun mikilvæg. Gagnasöfnun getur verið viðtöl við nemendur eða aðra, söfnun nemendaverkefna, myndir teknar á vettvangi eða annað sem þurfa þykir til að fylgjast með breytingum. Regluleg skráning veitir mikilvægt aðhald og treystir rannsóknina.  Slík skráningarregla skapar betri skuldbindingu við eigin ásetning og draum.

Yfir veturinn nýtum við þrjá þróunarfundi til samtals og drögum saman stöðuna. Rannsóknirnar eru einnig ræddar í starfsþróunarsamtölum þar sem farið er yfir áskoranir og árangur. Á vorin komum við saman á og kynnum rannsóknirnar hvert fyrir öðru. Við höldum einnig ráðstefnu þar sem hver rannsakandi segir frá rannsóknarspurningu sinni og frá því hvaða áhrif íhlutun hans eða breytingar höfðu. Niðurstöður hverrar rannsóknar eru lagðar fram. Þannig fáum við yfirsýn yfir það gróskumikla starf sem í gangi er í skólanum, við kveikjum áhuga hjá jafningjum og samgleðjumst yfir árangrinum.

Niðurstöður kynntar.

Litið til baka

Á þessum 10 árum hafa rannsóknarefnin verið mörg og margvísleg. Fyrstu árin voru stjórnendur mikið að rannsaka hvernig fara skyldi að því að formgera samstarf á milli leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs, hvernig festa mætti lærdómssamfélag í sessi og með hvaða starfsaðferðum.

Kennararannsóknirnar hafa spannað afar vítt svið; þróun samþættingar, flæði í vinnu með börnum,  áhrif námsumhverfis á nám og hvernig auka má sjálfshjálp með fjölbreyttum aðferðum. Mörg rannsóknarefni hafa verið tengd innleiðingu leiðsagnarnáms og kennarar valið mismunandi áhersluþætti til að rannsaka og lært þannig hver af öðrum og tryggt þar með miðlun aðferða, kennsluefnis og fræða. Nokkrar rannsóknir hafa snúist um teymiskennslu og ný stór kennslurými, en aðrar um mannkostamenntun, skapandi stærðfræði, hvernig hvernig efla má sjálfstæði nemenda, lýðræði og jákvæðan aga.

Nokkrar rannsóknir hafa breytt meiru en starfsaðferðum þess sem rannsakaði og náð að festa í sessi vinnulag í skólanum til framtíðar. Fyrir utan leiðsagnarnámsrannsóknir má nefna tiltekna rannsókn um lestrarhvetjandi smiðjustarf og hefur árlega ein samfélagssmiðja, tengd bókmenntun og auðgandi lestrarverkefnum, verið formuð vegna þessarar rannsóknar. Fyrir mörgum árum var framkvæmd rannsókn á fimm ára deild um hvernig við varðveitum hryggjarstöðu barna og niðurstöður þeirrar rannsóknar svífa enn yfir öllum leikskóladeildum og nær yfir í frístundastarf og starf fyrsta bekkjar. Eitt árið var unnin rannsókn á því hvernig best er að beita röddinni með eða án hjálpartækja. Niðurstöður þeirrar rannsóknar höfðu áhrif á það að í öllum kennslustofunum eru hljóðnemar sem nýttir eru við ákveðnar kennsluaðstæður.

Mat á árangri

Í innra mati á skólastarfi kemur það skýrt í ljós að kennarar telji sig valdeflast við það að rannsaka eigið starf. Þeir hafa með beinum hætti áhrif á þróun skólans og skólasamfélagsins, hver og einn, þeir eru virkir gerendur. Það kemur einnig fram í innra mati að kennurum finnst þeir verða betri kennarar við það að ástunda starfendarannsóknir.

Með starfendarannsóknum eykst sú áræðni að eiga samræðu um nám og kennslu út fyrir veggi skólans, miðlun þekkingar og reynslu verður auðveldari, því skráningin á starfinu og samantektin er markviss. Síðast en ekki síst teljum við að starfendarannsóknir minnki hættu á kulnun, því maður er hugsanlega betur við stjórnvölinn í eigin umhverfi og er staðfastari en ella við að fylgja eigin ásetningi um þróun í starfi.

Látum draumana rætast

Í skólastarfi nærumst við á samhengi sem hefur tilgang, ekki síður en nemendur. Það þarf að vera rými fyrir samræðuna, tilraunina, hlustunina, kyrrðina, sköpunina og lærdóminn. Með starfendarannsóknum teljum við okkur hafa náð vinnulagi sem er til þess fallið að draumar um samhengi, tilgang og framþróun í eigin starfi rætist fyrr en ella.

Dalskóli fékk Íslensku menntaverðlaunin 2020 fyrir framúrskarandi skólastarf. Smellið á myndina til að fræðast um verðlaunin.

 


Hildur Jóhannesdóttir hefur verið skólastjóri Dalskóla frá stofnun hans haustið 2010. Þar á undan var hún deildarstjóri í Norðlingaskóla og aðstoðarskólastjóri í Ingunnarskóla þar sem teymiskennsla, samkennsla og þverfagleg þemavinna, ásamt áformsvinnu nemanda voru einkennandi fyrir starfshætti skólanna. Tuttugu ára starf sem tónlistar- og tónmenntarkennari í Garðabæ ásamt góðri reynslu úr Norðlinga- og Ingunnanrskóla mótuðu þann grunn og þá starfskenningu sem höfundur byggir á.


Gestaritstjórn afmælisgreina Ingvars Sigurgeirssonar: Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor, Baldur Sigurðsson dósent og Gerður G. Óskarsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkur.


Grein birt 12.3. 2021

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp