Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Traust, þrautseigja og góður liðsandi – lykill að menntaumbótum

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Þorsteinn Hjartarson

 

Það er mér sönn ánægja að vera boðið að skrifa grein til heiðurs Ingvari Sigurgeirssyni sem fagnaði sjötugs afmæli sínu á síðasta ári. Í rúma tvo áratugi hafa leiðir okkar Ingvars legið saman með hléum og hefur samstarf okkar alltaf verið gott. Í þessari grein er fjallað um menntaumbætur og hvernig unnið hefur verið að þeim hér á landi á undanförnum árum. Um aldamótin var ég bjartsýnn á að umbótastarf yrði kröftugt í kjölfar nýrrar aðalnámskrár (Menntamálaráðuneytið, 1999) og spyr hvort innistæða hafi verið  fyrir þessari bjartsýni. Í þessu sambandi er fjallað um hvernig staðið var að menntaumbótum í Kanada á sama tíma. Einnig er vikið að því hvernig til hefur tekist við að fylgja eftir stefnunni um skóla án aðgreiningar og hvernig gott skólastarf getur stuðlað að félagslegum hreyfanleika. Litið er inn í skóla í Eistlandi og Svíþjóð og færð fyrir því rök að menntaumbætur náist best fram ef hugmyndafræðin um faglegt lærdómssamfélag er höfð að leiðarljósi.

Gerjun í skólamálum um síðustu aldamót

Um aldamót var töluverð gerjun í skólamálum í kjölfar nýrrar aðalnámskrár (Menntamálaráðuneytið, 1999) en þá höfðu sveitarfélögin (1996) tekið að sér að bera meginábyrgð á framkvæmd grunnskólalaga. Aðalnámskráin lagði á þeim tíma áherslu á að nemendur fengju nám og kennslu við hæfi og að fjölbreytt úrræði ættu að standa til boða. Þá varð til nýtt námssvið í upplýsinga- og tæknimennt og gert var ráð fyrir að tæknin  fléttaðist inn í margar námsgreinar. Ég var í þeim hópi skólamanna sem var bjartsýnn á að nú færu hlutirnir að gerast.

Í kjölfar góðrar þátttöku íslensks skólafólks á BETT í London árið 1999 gáfum við Hafsteinn Karlsson út handbók, Upplýsingatækni í skólastarfi – nýjar áherslur í kennslu, en markmið bókarinnar var að kynna þau áhrif sem upplýsingatæknin hafði haft á skólastarf. Málaflokkurinn hafði verið okkur hugleikinn og það kom síðar á daginn að þær breytingar, sem fjallað var um í handbókinni, gengu hægar fyrir sig en við höfðum ætlað. Gaman er að rifja upp margt af því sem fram kemur í 1. kafla bókarinnar, svo sem að nemendur standi stöðugt frammi fyrir nýjum verkefnum sem ýta undir frumkvæði, sköpunarkraft, áræðni og umræður um álitamál. Í því sambandi er vitnað í Lipman (1992) sem leggur áherslu á að taka vandamál til umræðu og rannsóknar með börnum, í stað þess að þau innbyrði bara upplýsingar og harðar staðreyndir. Með samræðuaðferð heimspekinnar á hversdagslegan hátt væri hægt að þjálfa dómgreind barna og að takast á við siðferðisspurningar. Í sama kafla gáfum við námskrá manngildisins gaum enda þyrfti skólinn að takast á við fjölbreytilegar þarfir samfélagsins. Félagslegur bakgrunnur margra nemenda væri með þeim hætti að skólinn þurfi að leggja rækt við sameiginleg gildi sem flestir ættu þó að læra af foreldum sínum. Ekki síst þeir sem alast upp við erfiðar fjölskyldu­aðstæður þurfa gjarnan að fá þjálfun í grunngildum eins og heiðarleika og virðingu fyrir lífi. Náungakærleikur þarf alltaf að svífa yfir vötnum í skólastarfinu og móta þarf aðferðir til að leysa ágreining og efla samvinnu.

Var innistæða fyrir þessari bjartsýni?

Þrátt fyrir að löggjöfin legði áherslu á menntun fyrir alla og fjölbreytta notkun upplýsingatækninnar bendir margt til að áherslur stjórnvalda hafi ekki stutt nógu vel við opinbera stefnu. Ef horft er í baksýnisspegilinn virðist sem áhersla á bóknám, samræmd próf, vel skilgreinda viðmiðunarstundaskrá, þrepamarkmið í aðalnámskrá (Menntamálaráðuneytið, 1999) og fjármögnun skólakerfisins hafi þvert á móti hægt á skólaumbótum. Jöfnunarsjóður og sveitarfélögin studdust við reiknilíkön sem byggðu nær eingöngu á fjölda nemenda í hverjum skóla og greiningum á sérþörfum þeirra. Má ætla að þær aðferðir við fjármögnun skóla hafi ekki ýtt nægjanlega undir merkingarbæra opinbera umræðu um skólaþróun þótt margir skólar hafi unnið vel að skólaþróunarverkefnum.

Á árunum 2000 til 2007 var ég skólastjóri Fellaskóla í Breiðholti og benti á þeim tíma á að það þyrfti að skoða betur félagslega stöðu nemenda þegar fjármunum er úthlutað til skólanna. Þau orð mín hefðu mátt fá meiri athygli en Arthur heitinn Morthens tók undir ábendingar mínar um að þörf væri á endurskoðun á úthlutun fjármuna út frá félagslegri stöðu skólahverfa. Arthur var öflugur skólamaður og áttum við mörg eftirminnileg símtöl um krefjandi úrlausnarefni í skólastarfinu.

Á þessum árum stuðluðu kjarasamningar kennara varla að skólaumbótum þar sem mikill núningur var á milli stjórnvalda og kennaraforystunnar. Umræða um kjaramál og störf kennara var á frekar neikvæðum nótum. Leiða má líkum að því að kerfishugsun hafi verið ráðandi hjá stjórnvöldum og kennaraforystunni. Einkum var horft á sjálft formið, vinnutímaskilgreiningar, lög og reglugerðir á kostnað samræðu um skólaumbætur og mótun sameiginlegrar sýnar. Lítið fór fyrir umræðu um námsefnisgerð, skólaþjónustu og starfsþróun kennara og skólastjórnenda.

Rétt er að nefna breytingu á hlutverki skólastjóra í lögum um grunnskóla (1995) þegar stjórnunarþættinum var gefið meira vægi. Sú áhersla hafði reyndar verið eitt af baráttumálum Skólastjórafélags Íslands á þeim tíma en þessi breyting leiddi til fjölgunar á stjórnsýsluverkefnum hjá skólastjórum og í mörgum sveitarfélögum færðist ábyrgð á fjármálum og rekstri fræðslumála í auknum mæli til skólastjóra. Nú benda margir skólastjórar á að stjórnsýsluverkefni séu orðin ansi fyrirferðarmikil á kostnað skólaþróunarverkefna sem kalla á ígrundun og faglegt samstarf. Þetta gerðist þrátt fyrir að fræðimenn hefðu varað við þessu. Cuban (1988) færir fyrir því rök að krafa á formlega stjórnun skólastjóra, fremur en faglegt leiðtogahlutverk, vinni gegn skólaþróun.

Hvernig var unnið að skólaumbótum í Kanada á sama tíma?

Í þessari upprifjun er gagnlegt að skoða hvernig aðrar þjóðir unnu að menntaumbótum á sama tíma. Árangur Kanada í skólamálum hefur vakið athygli og Ontariofylkið er þekkt fyrir góða skóla. Þegar grunnur var lagður að endurskoðun skólamála Ontario á 9. og 10. áratugnum var leitað í smiðju Hargreaves og Fullan (2012) sem veittu stjórnvöldum leiðsögn um hvernig best væri að nálgast hið stóra umbótaverkefni. Eitt af því sem hefur stuðlað að góðum árangri er að skólarnir einbeita sér að fáum markmiðum og kennarar hafðir með í ráðum þegar áherslur eru lagðar. Samstarf kennara, skólastjórnenda og kennsluráðgjafa hefur aukist mikið, ekki einungis innan hvers skóla heldur einnig milli skóla. Þessi nálgun er kennd við faglegt lærdómssamfélag en þar eru hugtökin samstarf og samvirkni (e. coherence) lykilhugtök enda hefur samkeppni milli skóla í fylkinu verið á undanhaldi. Kennarar miðla upplýsingum sín á milli um hvernig nemendur þeirra ná árangri og þeir skólar sem ekki ná nógu góðum árangri fá sérstakan stuðning sem fylgt er eftir. Sá stuðningur kemur ekki einungis frá skólaþjónustu heldur einnig frá öðrum skólum, bæði til kennara og skólastjórnenda. Skólastjóri sem nær góðum árangri sem faglegur leiðtogi deilir aðferðum sínum til annarra skólastjórnenda (Nanna Kristín Christiansen, 2012).

Þótt hugmyndafræðilegar áherslur hér á landi hafi ekki verið þær sömu og í Ontario er þó gaman að rifja upp samstarf margra fámennra skóla sem var í þessum anda fyrir og kringum aldamót. Kennslufræðileg samræða fékk að njóta sín á vettvangi Samtaka fámennra skóla. Minningar mínar úr Brautarholtsskóla á Skeiðum á árunum 1987–1998 og samstarfið við Villingaholtsskóla, Þingborg, Gnúpverjaskóla, Skógaskóla, Grunnskóla Austur Landeyja, Gaulverjabæjarskóla og fleiri fámenna sveitaskóla eru ljúfar.

Ákall um að leggja mat á framkvæmd stefnunnar um skóla án aðgreiningar

Ekki var lagt mat á framkvæmd stefnu um skóla án aðgreiningar í tengslum við ný lög um grunnskóla (2008) né aðalnámskrá grunnskóla (2011). Það var ekki fyrr en 15 árum eftir að grunnskólinn fór til sveitarfélaganna að ákveðið var að stofna starfshóp um framkvæmd stefnu um skóla án aðgreiningar í tengslum við viðræðuáætlun milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands enda var talið erfitt að framfylgja þessari stefnu án aukins fjármagns, stuðnings og svigrúms í vinnutíma kennara. Í kjölfarið samþykkti menntamálaráðuneytið að láta gera úttekt á stefnunni og var leitað til Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir. Það voru nýmæli að sjá marga aðila standa saman að verkefninu með viljayfirlýsingu en þeir voru velferðarráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Heimili og skóli og Skólameistarafélag Íslands. Niðurstöður sýna að Ísland stendur sterkt hvað varðar löggjöf um menntun án aðgreiningar. Hlutfallslega færri nemendur eru í sérskólum og sérúrræðum en víðast í Evrópu. Hins vegar eru formlegar greiningar á sérþörfum nemenda á Íslandi langt yfir meðallagi. Talið er að menntakerfið í heild sé vel fjármagnað en að endurhugsa þurfi úthlutun fjármagnsins þannig að það styðji betur við stefnuna. Hvatt er til umræðna meðal þeirra sem vinna að menntamálum um það hvernig best verði staðið að menntun án aðgreiningar. Þá þarf að fara fram athugun og endurskoðun á núverandi reglum um fjárveitingar til skólakerfisins (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2017).

Ný nálgun stjórnvalda í eftirfylgd með menntun fyrir alla?

Umræðufundarröð sem menntamálaráðherra stóð fyrir í kjölfar úttektarinnar með mörgum úr skólasamfélaginu sýndi viðleitni til vinnu í anda lærdómssamfélagsins. Greinilega var tekið mið af ábendingum úttektaraðila, þ.e. að umræða með þeim sem eru á vettvangi sé einn af lykilþáttum fyrir þróun skólakerfisins.

Gagnlegt var að taka þátt í samstarfverkefni ráðuneytisins og nokkurra sveitarfélaga á árinu 2020 vegna þarfa á breyttri tilhögun fjárveitinga til grunnskóla. Stuðst var við sjálfsmatstæki frá Evrópumiðstöðinni við að greina eigin stöðu, forsendur úthlutunar og ráðstöfun fjármuna til grunnskóla. Í samstarfsverkefninu var notast við fjarfundatækni og tilefni er til að hrósa þeim Ragnari Steinþóri Þorsteinssyni og Eddu Óskarsdóttur sem leiddu verkefnið fyrir hönd ráðuneytisins og nálguðust það með ígrundunar- og samstarfshugsun að leiðarljósi.

Þriðja samstarfsverkefnið, Tækifæri fyrir alla: Frábært skólastarf í Fellahverfi, er vert að nefna en þar virðist vera unnið í anda lærdómssamfélagsins. Skólafólk og nemendur í hverfinu vinna saman að því að efla íslenskukunnáttu og styrkja sjálfsmynd barna. Verkefnið miðar að því að efla málþroska og læsi og breyta starfsháttum í leik- og grunnskólum og frístundaheimili hverfisins. Að verkefninu koma félagsmálaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, menntavísindasvið HÍ, Þjónustumiðstöð Breiðholts og skrifstofa skóla- og frístundasviðs.

Þessi dæmi, sem hér hafa verið nefnd, eru að mínu mati skref í rétta átt og æskilegt er að halda áfram á þessari braut, sama hvaða ráðherra er við stýrið.

Fjárveitingar þurfa að taka mið af félagslegri stöðu skólakerfis

Samstarfsverkefni ráðuneytisins og sveitarfélaga um tilhögun fjárveitinga til grunnskóla fyrir alla er lokið en við eigum langt í land með að móta nýja fjármögnunarstefnu. Eins og við Anna Magnea Hreinsdóttir bentum á í grein í Skólaþráðum í nóvember 2018 er brýnt að breyta fjárveitingum til skóla í anda menntunar fyrir alla. Endurskoðun á fjármögnunarmódeli kallar á breytingar á gildandi reglum um fjárframlög sem fela í sér að þau séu háð greiningum á einstaklingsbundnum sérþörfum í námi. Endurskoðunin krefst þess einnig að gerð sé framkvæmdaáætlun sem hefur þann tilgang að auðvelda skólum að nota almennar fjárveitingar á sveigjanlegri hátt. Leggja þarf áherslu á viðbótarúthlutun sem fjölgar leiðum sem skólar geta farið til að veita öllum nemendum aðstoð og að teknar verði upp sveigjanlegri reglur um stuðning sem geta stuðlað að aukinni hæfni starfsfólks í skólum.

Allir sem að skólastarfi koma ættu að leggja hönd á plóg og breyta heildarhugsun og framkvæmd fjárveitinga til skóla í anda menntunar fyrir alla. Í sömu grein er bent á að athyglisvert sé að skoða sænskar leiðbeiningar til sveitarfélaga um fjárveitingar til skóla og skýrslu frá Kanada sem lýsir hvernig fræðsluyfirvöld í Toronto standa að þessum málum. Athygli vekur að í báðum löndum hefur verið unnið að endurskoðun á úthlutunarreglum og horft til fleiri þátta en tíðkast hér á landi. Fræðsluyfirvöld í Toronto tilgreina nokkrar breytur sem horft er til þegar fjárveitingar til skóla eru ákvarðaðar til að jafna aðstöðumun:

  • Meðallaun íbúa í skólahverfinu
  • Hlutfall fjölskyldna með lágar tekjur
  • Hlutfall fjölskyldna sem njóta félagslegrar aðstoðar frá hinu opinbera
  • Hlutfall íbúa á aldrinum 25–64 ára sem hafa einungis grunnskólapróf
  • Hlutfall íbúa í hverfinu (25–64 ára) sem eru með a.m.k. eitt háskólapróf
  • Hlutfall einstæðra foreldra í skólahverfinu

Nú kann einhver að segja að ekki sé þörf á þessum breytum þar sem jafnræði hefur mælst mikið í skólum hér á landi (sbr. PISA-skýrslur) en við nánari skoðun kemur annað á daginn. Á síðasta ári birtist grein í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla eftir Berglindi Rós Magnúsdóttur, Auði Magndísi Auðardóttur og Kolbein Hólmar Stefánsson. Þar er fjallað um skiptingu auðs á milli skólahverfa á höfuðborgarsvæðinu og hvernig þessi skipting hefur þróast yfir 19 ára tímabil eða frá 1997–2016. Rannsóknarniðurstöður gefa mynd af aðstöðumun barna í skólahverfum út frá ójöfnu aðgengi að mismunandi tegundum auðs sem hefur áhrif á möguleika þeirra í lífinu. Annars vegar er um að ræða auð í formi fjármagns og hins vegar í formi menntunar. Sýnt er fram á hvernig auði er misskipt á milli svæða og hvernig misskiptingin þróaðist á umræddu tímabili. Fjárhagsleg misskipting jókst verulega á milli hverfa og einnig hvað varðar menntun. Í því hverfi sem bjó yfir mestri menntun bjuggu 21,1% barna á heimili þar sem a.m.k. annað foreldri hafði lokið framhaldsmenntun á háskólastigi árið 1997 en í því hverfi sem bjó yfir minnstri menntun var hlutfallið 1,2%. Nítján árum síðar voru hlutföllin komin í 50,5% í hverfinu sem bjó yfir mestri menntun en 4,1% í því sem bjó yfir minnstri. Hverfið sem bjó yfir mestri menntun var jafnframt hverfið þar sem tekjur voru hæstar og eignir mestar. Sjá nánar hér.

Bjargir í nærumhverfinu hafa áhrif á möguleika barna í lífinu og það að eignum, tekjum og menntun sé misskipt á milli hverfa þýðir að börn sem búa í tilteknum hverfum hafa umtalsvert forskot á meðan börn í öðrum hverfum hefja líf sitt með refsistig í farteskinu. Sama á við þegar landshlutar eru bornir saman út frá sömu breytum. Víða erlendis er farið að horfa meira á þessa þætti í fjárveitingum til skóla og nú erum við loksins farin að gefa þessum breytum meiri gaum.

Í nýlegu riti Hargreaves, Moving : A memoir of education and social mobility, er fjallað um hvernig skólakerfið getur stuðlað að félagslegum hreyfanleika og stutt börn í að brjótast undan fátækt og menningarlegri mismunun. Hann hvetur þjóðir heims til að vinna gegn misrétti og ójafnrétti. Svo vel takist til þarf að vinna að því að auka skilning á mismunandi félagslegum aðstæðum barna. Þannig eigum við auðveldara með að gefa börnum aukin tækifæri til að auðga líf sitt og fá sambærileg tækifæri og jafnaldrar sama í hvaða hverfi þau búa. Skólarnir gegna stóru hlutverki í að auka félagslegan hreyfanleika. Hægt er að sjá umfjöllun Hargreaves um bók sína Moving á Youtube en þar skrifar hann einnig um eigin reynslu frá æskuárunum.

Hässelbygårdskolan – öflugt skólastarf í félagslega þungu hverfi

Í október 2010 fór hópur starfsfólks Þjónustumiðstöðvar Breiðholts í fræðsluferð til Stokkhólms. Hópurinn heimsótti hverfi sem áttu margt sameiginlegt með Breiðholti, m.a. hátt hlutfall íbúa af erlendum uppruna og hátt hlutfall íbúa sem búa við félagslega erfiðleika. Hópurinn fékk kynningu á félags-, frístunda og skólaþjónustu og heimsótti skóla, sambýli og frístundamiðstöðvar. Hässelbygårdskolan er mér afar minnisstæður en af 520 nemendum skólans á þeim tíma komu 90% frá öðrum löndum og 46 tungumál voru töluð í skólanum. Þar voru um 100 starfsmenn þar af hátt í 30% af erlendum uppruna. Í skólanum hafði mikið umbótastarf verið unnið frá árinu 2006 og í upphafi umbótastarfsins  varð uppstokkun í starfsliði og nýir skólastjórnendur ráðnir. Í kynningu Hrafnhildar Hilmarsdóttur Arenvall, skólastjóra, kom fram að skólinn hafði breyst á fjórum árum úr því að vera neðarlega í meðaltalssamanburði á námsárangri í Svíþjóð í að vera ofarlega. Mikil áhersla er lögð á sænsku, ensku og stærðfræði. Frí námsgögn og fríar skólamáltíðir eru í boði, stjórnendur borða með nemendum og samvinna við nærsamfélagið hafði eflst verulega. Eldri borgarar og háskólanemar koma og aðstoða við heimanám og náið samstarf er við lögreglu, hverfisráð og Ungdomshuset enda fer stór hluti af frístundastarfinu fram innan veggja skólans. Þegar við spurðum Hrafnhildi hvað það hefði verið helst sem styrkti skólastarfið nefndi hún nokkur atriði:

  1. Settar voru inn valgreinar í listum og íþróttum, nemendur geta valið frá 12 ára aldri; leiklist, dans, tónlist og íþróttir.
  2. Leitast var við að fá listamenn til þess að sjá um þessar valgreinar. Þau vinna að ákveðnum verkum sem hafa vakið athygli og aukið hróður skólans. Ávinningurinn: Nemendur hafa fengið aukið sjálfstraust og virðingu og njóta sín betur í öllum námsgreinum.
  3. Endurmenntun kennara var stóraukin og allir fóru á námskeið í að kenna sænsku í gegnum allar námsgreinar. Sænskan er alltaf höfð að leiðarljósi.
  4. Skólinn lagði áherslu á upplýsingatækni í kennsluaðferðum og vinnulagi nemenda og kennara. Ávinningur: Nemendur verða sjálfstæðari í vinnubrögðum og nýta tölvur til að afla sér þekkingar, oft á sínu tungumáli.
  5. Fjórum sinnum á ári er kennsla lögð niður í þrjá daga og þá er unnið í þemavinnu, farið í vettvangsferðir út úr hverfinu eða unnið í listasmiðjum.
  6. Strangar reglur eru í skólanum en fáar og einfaldar.
  7. Einn tími á viku er í móðurmálskennslu.

Hässelbygårdskolan er dæmi um skóla sem nær árangri í  hverfi með félagslegan margbreytileika og vinnur markvisst gegn námsleiða, virðingarleysi og menningarlegri mismunum. Skólinn stuðlar, með öflugu starfi sínu, að góðum námsárangri nemenda. Það auðveldar þeim að ná fram félagslegum hreyfanleika og auknum lífsgæðum. Skólinn kynnir starf sitt á vefnum Hässelbygårdsskolan og er einnig með virka Facebook síðu.

Fjárhagslegir hvatar sem stuðla að skólaþróun – horft til Eistlands

Nauðsynlegt er að hverfa frá hefðbundnu úthlutunarlíkani fyrir fjármögnun skóla og ógagnsæju og greiningadrifnu úthlutunarkerfi Jöfnunarsjóðs en þá þarf að benda á betri leiðir. Hægt er að stuðla að skólaþróun á sambærilegan hátt og gert er í Eistlandi. Þar virðast fjárhagslegir hvatar vera nýttir til að fylgja eftir menntastefnu stjórnvalda og til að styðja við námsumhverfi í anda lærdómssamfélagsins. Haustið 2019 tók ég þátt í námsferð Erasmus+ faghóps til Eistlands og Finnlands. Eistar leggja áherslu á róbótatækni, sýndarveruleika, forritun og samþættingu námsgreina. Til að ná árangri í innleiðingu menntastefnunnar hefur verið valin sú leið að styrkja tiltekna skóla til að koma sér upp nýjasta búnaði og fagþekkingu og tryggja þannig að ákveðnir kennarar taki að sér leiðtogahlutverk. Þeir taka að sér ábyrgð á starfsþjálfun annarra kennara í skólanum og hjá nágrannaskólum. Í Tallina Südlannia skólanum sáum við slíkt fyrirkomulag. Þar var dýr sýndarveruleikabúnaður og róbótar og til að ná árangri fljótt og vel réði skólastjórinn faglegan leiðtoga sér við hlið til að leiða samstarf kennara. Þá voru sálfræðingur, sérkennari og talmeinafræðingur starfandi í skólanum. Gaman var að sjá námsverkefni um allan skólann, mikla áherslu á hreyfingu með klifurvegg innandyra og glæsilega skólalóð. Allir kennarar skipuleggja  útikennslu að lágmarki í sex skipti á ári og hver kennari sinnir frímínútnakennslu einu sinni í viku. Nemendur virtust glaðlegir og frjálslegir enda voru kennslustundir oft brotnar upp með hreyfingu og námsleikjum. Í Tallina Südlannia skólanum virðast stjórnendur eiga auðvelt með að nýta fjármagnið á sveigjanlegan hátt og láta það styðja við fjölbreytta kennsluhætti og dreifða faglega forystu sem er lykilatriði í að koma á gæðaviðmiðum í skólastarfinu.

Heildræn áhrif á allt skólakerfið

Af framansögðu er ljóst að leið okkar til að styrkja skólastarf hér á landi kallar á nýja nálgun í að fylgja eftir menntastefnunni. Við ættum að horfa til þjóða sem hafa náð meiri árangri í þessum efnum. Hér hefur verið litið inn í skóla í Svíþjóð og horft til Kanada og Eistlands en þær þjóðir hafa sótt í smiðju Hargreaves og Fullan (2012). Þeir líta ekki á skólaþróun sem bútasaum, þvert á móti mæla þeir með samvirkninálgun fyrir skólana og allt skólakerfið. Sú nálgun byggir á samvinnu, samábyrgð og sameiginlegri sýn til að ná fram heildrænum áhrifum á skólakerfið. Þetta eigi jafnt við námshópa, skóla, sveitarfélög og menntamálayfirvöld. Ef þessir aðilar ná að stilla saman strengi verði útkoman betri námsárangur og líðan nemenda.

Þegar fjallað er um skólaumbætur er einkum horft til skólanna en Fullan og Quinn (2016) horfa lengra og fjalla um skólaumbætur í heilu skólakerfunum. Við sem leiðum fræðslumál sveitarfélaga, menntamálayfirvöld og samtök kennara ættum að fara í aukið samstarf út frá hugmyndum Fullans og Quinns (2016) sem fjalla um mikilvægi þess að skoða hvernig þættir skólakerfisins spila saman þegar móta á menntastefnu og áherslur í starfsþróun kennara. Sú starfsþróun nær þó ekki einvörðungu til kennara heldur einnig til fagaðila utan skólans og stjórnmálamanna. Nálgun sem kallar á góð félagsleg tengsl, traust og sameiginlega skuldbindingu gagnvart stóru verkefni. Þegar vel tekst til líta allir aðilar svo á að þeir beri sameiginlega ábyrgð á skólaþróun. Nefnt hefur verið að núverandi menntamálaráðherra hafi sýnt viðleitni með vinnu í þessum anda í kjölfar útkomu skýrslunnar um menntun fyrir alla. Þá er fagnaðarefni að ráðherrann ætli að setja ríkulegt fjármagn í ný starfsþróunarnámskeið fyrir kennara og annað fagfólk og að unnið verði með menntavísindasviði Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Kennarasambandinu. Fagna ber þverfaglegri nálgun og að eitt af markmiðum verkefnisins sé að ígrunda og þróa bestu starfshætti og styrkja þannig námssamfélög kennara. Í þeirri vinnu verði leitað til framúrskarandi kennara í mótun námsefnis (sjá frétt Mennta- og menningarmálaráðuneytis frá 8. janúar sl.). Þrátt fyrir þessi jákvæðu skref eigum við þó langt í land með að skapa árangursríka samstarfsmenningu þar sem kennarar koma alltaf að borðinu þegar leitað er leiða til að efla kennslu í skólum landsins.

Skólaþjónusta sveitarfélaga þarf að styðja betur við skóla án aðgreiningar

Háskólinn á Akureyri hefur skoðað skólaþjónustu hér á landi og niðurstöður spurningakönnunar voru kynntar í skýrslu (Birna María Svanbjörnsdóttir o.fl., 2020). Þar nefna skólastjórar leik- og grunnskóla og forsvarsaðilar skólaþjónustu áskoranir sem snúast um að koma til móts við námslega stöðu nemenda. Þeim er tíðrætt um áskoranir sem tengjast líðan og hegðun nemenda og börnum með fjölþættan vanda. Nefndar eru áskoranir við kennslu barna með annað móðurmál en íslensku og að meginhindrunin við að takast á við áskoranir um menntun fyrir alla sé skortur á sérfræðiþekkingu bæði innan skólanna og skólaþjónustunnar. Þörf sé fyrir fleiri sérkennara, fleiri úrræði og öflugri skólaþjónustu sem getur veitt sérhæfðari stuðning inn í skólana og styðji betur við starfsþróun kennara. Þetta ætti ekki koma á óvart því faglegar kröfur og eftirfylgd menntamálayfirvalda til skólaþjónustu sveitarfélaga hafa ekki verið miklar. Í tilviksrannsókn Háskólans á Akureyri (Birna María Svanbjörnsdóttir, o.fl., 2020) kemur fram að menntamálayfirvöld hafi gefið sveitarfélögum töluvert frelsi um framkvæmd og skipulag skólaþjónustu sem hefur þróast með ólíkum hætti. Jafnvel eru til sveitarfélög þar sem skólaþjónusta er varla í boði. Í ummælum viðmælanda birtast ákveðin átök um klíníska nálgun og skólamiðaða nálgun og margt bendir til að skólaþjónustan sinni ekki báðum þessum meginþáttum þjónustunnar jafnt. Sá þáttur sem snýr að stuðningi við skólastarfið, starfsfólk og því að styrkja skólana sem faglegar stofnanir er að mati skýrsluhöfunda síður sinnt.

Árið 2012 var gerð úttekt á skólaþjónustu Árborgar sem var á þeim tíma í höndum Skólaskrifstofu Suðurlands. Trausti Þorsteinsson, dósent, var ráðinn í þá vinnu en hann fékk Gunnar Gíslason fyrrverandi fræðslustjóra, með sér í verkefnið. Í kjölfarið var samþykkt að fara í skipulagsbreytingar og ný skólaþjónusta tók formlega til starfa 2014. Hið nýja skipulag átti að auðvelda allt samráð í skólamálum og auka tækifæri skólastjóra, kennara og foreldra til að hafa áhrif á uppbyggingu skólaþjónustunnar. Lögð er áhersla á sterk tengsl skólanna og nærsamfélagsins. Einnig er leitast við að sameina skólastjórnendur, kennara, starfsfólk skóla og helstu hagsmunaaðila í liðsheild sem stefnir í sömu átt. Ekki verður farið nánar í uppbyggingu skólaþjónustu í Árborg en vísað í greinar sem birst hafa í Skólaþráðum. Annars vegar grein mín og Þórdísar Helgu Ólafsdóttur frá árinu 2017. Hins vegar grein sem ég skrifaði með Lucindu Árnadóttur árið 2018. Þá vil ég hér í lok greinarskrifanna nefna tvö samstarfsverkefni sem eru unnin í anda hugmyndafræði hins faglega lærdómssamfélags. Bæði snúast þau um að styrkja starfsaðstæður kennara og nám nemenda í skóla margbreytileikans.

Starfsþróunarverkefnið Af litlum neista

Verkefnið Af litlum neista var unnið skólaárin 2018-2019 og 2019-2020. Umsjónarmenn þess voru Anna Kristín Sigurðarsdóttir og Ingvar Sigurgeirsson. Kennarar í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri, Sunnulækjarskóla og Vallaskóla unnu að nokkrum skólaþróunarverkefnum sem tengdust hugmyndinni um skólann sem lærdómssamfélag. Fengist var við innleiðingu teymiskennslu, leiðir til að bæta skólabrag og eflingu foreldrasamstarfs. Einnig var leitast við að skoða hvort hægt væri að tengja þessa vinnu við Menntastefnu Árborgar.

Í seinni hluti starfsþróunarverkefnisins, skólaárið 2019-2020, var haldið áfram með verkefni fyrra skólaárs en tveimur megináherslum var nú bætt við, að efla samskipti og leita fjölbreyttra leiða til að efla orðaforða nemenda. Verkefnin tengdust teymiskennslu, samskiptum, samvinnunámi, bekkjar- og skólabrag og foreldrasamskiptum. Jafnframt áttu öll kennarateymi að leita leiða til að efla orðaforða, helst í öllum námsgreinum.

Í þessu starfsþróunarverkefni sýndu kennarar áhuga á því að efla samstarf skólanna með enn fleiri samstarfsverkefnum. Bent var á að vinnan væri í samræmi við hugmyndina um skóla fyrir alla og skólann sem lærdómssamfélag. Jákvæð viðhorf komu fram gagnvart menntastefnu sveitarfélagsins sem kom reyndar ekki á óvart þar sem leitast var við að fá sem flesta til að taka þátt í stefnumótunarvinnunni, þ.e. nemendur, foreldra, starfsfólk skóla sem og fulltrúa foreldrafélaga, fræðsluyfirvalda og atvinnulífs. Hægt er að nálgast efni þessa verkefnis á heimasíðu skólastofunnar.  Nýlegar íslenskar rannsóknarniðurstöður styðja að slík nálgun í starfsþróun og stefnumótunarvinnu sé vænleg til árangurs. Helga Sigríður Þórsdóttir og Anna Kristín Sigurðardóttir (2020) benda á að meiri líkur séu á samvirkni í umbótastarfi þegar unnið er eftir hugmyndafræði um faglegt lærdómssamfélag, stjórnendur veiti faglega forystu, kennarar hafðir með í ráðum og samskipti skóla við skólaskrifstofu og fræðslustjóra byggi á trausti og fagmennsku. Þar sem miðstýring er meiri spyrna kennarar frekar við fótum og upplifa skólastefnu sem kröfur um breytingar sem jafnvel samræmast ekki hugmyndum þeirra um fagmennsku.

Samstarfsverkefni þriggja sveitarfélag um Stöðumat fyrir nemendur af erlendum uppruna

Andrew Hargreaves var ræðumaður á 4. málþingi Revue internationale d’éducation de Sèvres sem fjallaði um meginforsendur árangursríkra menntaumbóta. Málþingið var haldið í júní 2019 í Sèvres í Frakklandi þar sem saman voru komnir meira en sextíu fyrirlesarar, ráðherrar, vísindamenn og menntaleiðtogar frá öllum heimshornum. Hægt er að sjá viðtalið við Hargreaves á YouTube þar sem hann skýrir vel hugtakið “Leading from the middle.” Hugtakið vísar m.a. í samstarf menntamálayfirvalda, skólaskrifstofa og kennara í Ontario, sbr. umfjöllun hér að framan. Þegar ég hlusta á Hargreaves verður mér hugsað til gefandi samstarfsverkefnis Árborgar, Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar, um þýðingu og staðfæringu Stöðumats fyrir nemendur af erlendum uppruna. Þá eru fréttir á þremur sveitafélagavefsíðum og á vef Mennta- og menningarmálaráðuneytisins.  Ummæli Lilju Alfreðsdóttur, ráðherra, í fréttinni lýsa ágætlega vinnubrögðum stýrihópsins síðastliðin fjögur ár en vinnan hefur alltaf verið í anda lærdómssamfélagsins:

Þetta er mikilvægt verkfæri sem skólakerfið hefur lengi vantað til að kortleggja námslega stöðu nýrra nemenda í íslensku skólakerfi. Við innleiðingu matsins hefur starfsfólk í þátttökusveitarfélögum deilt áhuga, sýn og lært saman nýja hluti og kann ég þeim góðar þakkir fyrir afar dýrmæta vinnu sem aðrir njóta nú góðs af. Stöðumatið mun nýtast bæði einstaklingum og skólasamfélaginu í heild.

Lokaorð

Samstarfsverkefnið um Stöðumat fyrir nemendur af erlendum uppruna er gott dæmi árangursríkt samstarf þriggja sveitarfélaga í anda „Leading from the middle“ þar sem ríkir traust, þrautseigja og góður liðsandi. Samstarfið hefur fært okkur matsgögn fyrir nemendur af erlendum uppruna sem lengi hefur vantað. Leitast var við að laða fram sameiginlega sýn og samábyrgð þátttakenda til eflingar á faglegri forystu skólaþjónustu sveitarfélaganna þriggja, en þar skipti virk þátttaka kennara og  kennsluráðgjafa sköpum. Slík vinnubrögð ættu menntamálayfirvöld, Menntamálastofnun, skólaskrifstofur og skólarnir að ástunda í meira mæli. Ef tekst að efla traust milli þeirra sem að skólamálum koma, aðilar hlusti meira hver á annan og nýti betur þekkingu kennara lætur árangurinn ekki á sér standa. Ef okkur tekst að vinna í þessum anda munum við örugglega gera skóla á Íslandi betri þar sem fleiri nemendur ná góðum námsárangri og vellíðan.

Heimildir

Af litlum neista: Starfsþróunarverkefni í grunnskólunum í Árborg 2018-2019. (e.d.). https://skolastofan.is/starfsthrounarverkefni-i-grunnskolunum-i-arborg/

Anna Magnea Hreinsdóttir og Þorsteinn Hjartarson. (2018). Brýnt er að breyta fjárveitingum til skóla í anda menntunar fyrir alla. SkólaþræðirTímarit Samtaka áhugafólks um skólaþróun. https://skolathraedir.is/2018/11/15/fjarveitingar-til-skola-i-anda-menntunar-fyrir-alla/

Arnbjörg Eiðsdóttir, Helga Sigurjónsdóttir, Þóra Kemp og Þorsteinn Hjartarson. 2010. Ferð starfsmanna Þjónustumiðstöðvar Breiðholts til Stokkhólms í október 2010: Skýrsla útgefin í apríl 2011. https://docplayer.se/35056163-Ritnefnd-arnbjorg-eidsdottir-helga-sigurjonsdottir-thora-kemp-og-thorsteinn-hjartarson.html

Berglind Rós Magnúsdóttir, Auður Magndís Auðardóttir og Kolbeinn Stefánsson. (2020). Dreifing efnahags- og menntunarauðs meðal foreldra í skólahverfum höfuðborgarsvæðisins 1997-2016. Stjórnmál og stjórnsýsla, 16(2), 285– 308. https://doi.org/10.13177/irpa.a.2020.16.2.10

Birna María Svanbjörnsdóttir, Hermína Gunnþórsdóttir, Jórunn Elídóttir, Rúnar Sigþórsson og Sigríður Margrét Sigurðardóttir. (2020a). Skólaþjónusta sveitarfélaga við leik- og grunnskóla: Niðurstöður spurningakönnunar til leikskólastjóra, grunnskólastjóra og forsvarsaðila skólaþjónustu. Háskólinn á Akureyri. https://www.unak.is/static/files/pdf-skjol/2020/skyrsla_loka_m.forsidu_28.02.20.pdf

Birna María Svanbjörnsdóttir, Hermína Gunnþórsdóttir, Jórunn Elídóttir, Rúnar Sigþórsson, Sigríður Margrét Sigurðardóttir og Trausti Þorsteinsson. (2020b). Skólaþjónusta sveitarfélaga við leik- og grunnskóla: Niðurstöður tilviksrannsóknar. Háskólinn á Akureyri. https://www.unak.is/static/files/pdf-skjol/2020/rannsoknir/nidurstodur-tilviksrannsoknar_-oktober-2020.pdf

Cuban, L. (1988). The managerial imperative and the practice of leadership in schools. State University of New York Press. https://files.eric.ed.gov/fulltext/ED304758.pdf

Erasmus+ gerir mikið fyrir skólastarfið í Árborg. (2019). https://www.dfs.is/2019/10/18/erasmus-gerir-mikid-fyrir-skolastarfid-i-arborg/

European Agency (2021). https://www.european-agency.org/resources/publications/financing-policies-inclusive-education-systems-self-review-tool

Fullan, M. (2012). What America can learn from Ontario’s education success. The Atlantic. https://www.theatlantic.com/national/archive/2012/05/what-america-can-learn-from-ontarios-education-success/256654/

Fullan, M. og Quinn, J. (2016). Coherence: The right drivers in action for schools, districts, and systems. Corwin.

Hafsteinn Karlsson og Þorsteinn Hjartarson (1999). Upplýsingatækni í skólastarfi – nýjar áherslur í kennslu: Handbók. Höfundar.

Hargreaves, A. (2019). The concept of “Leading from the middle“. https://www.youtube.com/watch?v=k70zlXrlcHk

Hargreaves, A. (2020). Moving: A memoir of education and social mobility. Solution Tree Press.

Hargreaves, A. (2020). Moving: A memoir of education and social mobility. https://www.youtube.com/watch?v=nOEZPbS7T-Y

Hargreaves, A. og Fullan, M. (2012). Professional capital: Transforming teaching in every school.  Teachers College Press.

Hässelbygårdsskolan. (e.d.).  https://hasselbygardsskolan.stockholm.se/

Helga Sigríður Þórsdóttir og Anna Kristín Sigurðardóttir. (2020).  Samvirkni og samvinna í þróunar- og umbótastarfi. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. https://netla.hi.is/greinar/2020/ryn/02.pdf

Lipman, M. (1992). „Heimspeki – framtíðarvon skólakerfisins?“ Ágúst Borgþór Sverrisson. Viðtal í Morgunblaðinu 8. nóvember 1992.

Lucinda Árnadóttir og Þorsteinn Hjartarson. (2018). Snemmtæk íhlutun í skólunum í Árborg. Skólaþræðir.  https://skolathraedir.is/2018/06/09/snemmtaek-ihlutun-i-skolunum-i-arborg/

Lög um grunnskóla nr. 66/1995.

Lög um grunnskóla nr. 91/2008.

Menntamálaráðuneytið. (1999). Aðalnámskrá grunnskóla. Reykjavík: Höfundur. https://www.stjornarradid.is/media/menntamalaraduneyti-media/media/ritogskyrslur/AGislenska.pdf

Menntamálaráðuneytið. (2011). Aðalnámskrá grunnskóla. Reykjavík: Höfundur. Adalsnamskra-grunnskola-3.-utg.-2016.pdf (stjornarradid.is)Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2015). Mat á framkvæmd stefnu um skóla án aðgreiningar: Skýrsla starfshóps. Höfundur.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2017). Menntun fyrir alla á Íslandi: Úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi. Höfundur.

Menntamálastofnun. (e.d.). Stöðumat fyrir erlenda nemendur. https://mms.is/stodumat-fyrir-erlenda-nemendur

Nanna Kristín Christiansen. (2012). Bestu skólarnir eru í Ontario. Krítin. https://kritin.is/2012/11/11/bestu-skolarnir-eru-i-ontario/

Samband íslenskra sveitarfélaga. (2021). Stöðumat fyrir nemendur af erlendum uppruna nú aðgengilegt á 40 tungumálum. https://www.samband.is/frettir/stodumat-fyrir-nemendur-af-erlendum-uppruna-nu-adgengilegt-a-40-tungumalum/

Sveitarfélagið Árborg. (2018).  Menntastefna Árborgar 2018-2022. https://old.arborg.is/wp-content/uploads/2019/01/Menntastefna-%C3%81rborgar-2018-2022.pdf

Sveriges Kommuner och Landsting. (2014). Socioekonomisk resusfördelning till skolor: Så kan kommunen göra.  https://webbutik.skr.se/bilder/artiklar/pdf/7585-115-0.pdf?issuusl=ignore

Toronto District School Board. (2017). The 2017 learning opportunities index: Questions and answers.  https://www.tdsb.on.ca/Portals/research/docs/reports/LOI2017v2.pdf

Trausti Þorsteinsson og Gunnar Gíslason. (2012). Sérfræðiþjónusta skóla í Árborg: Mat á fyrirkomulagi og tillögur um framtíðarskipan. Gát. https://old.arborg.is/wp-content/uploads/2012/12/Lokask%C3%BDrsla-19.12.2012.pdf

Þorsteinn Hjartarson. (2015, 11. nóvember). Tölum vel um kennara og náum betri árangri í skólastarfi. Morgunblaðið. https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1574529/?item_num=0&searchid=8b4d5d02add7ffe17ef4dd11867e126256e96bb0

Þorsteinn Hjartarson og Þórdís Helga Ólafsdóttir. (2017). Árborgarmódelið í skólamálum – hvað gerðum við. Skólaþræðir. https://skolathraedir.is/2017/01/05/arborgarmodelid-i-skolamalum-hvad-gerdum-vid/


Þorsteinn Hjartarson er sviðstjóri fjölskyldusviðs hjá Sveitarfélaginu Árborg. Hann lauk íþróttakennaraprófi árið 1980 og lagði m.a. stund á mannfræði og heimspeki í Háskóla Ísland. Þorsteinn hefur kennsluréttindi í grunnskóla og framhaldsskóla, er með M.Ed.-próf í stjórnun menntastofnana frá Kennaraháskóla Íslands. Hann hefur margra ára reynslu sem kennari og skólastjóri grunnskóla og verið m.a. stundakennari og gestafyrirlesari í KHÍ og HÍ. Þorsteinn var fram­kvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Breiðholts áður en hann tók við starfi fræðslustjóra í Árborg haustið 2011.


Gestaritstjórn afmælisgreina Ingvars Sigurgeirssonar: Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor, Baldur Sigurðsson dósent og Gerður G. Óskarsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkur.


Grein birt: 18/2/2021

 

 

 

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp