Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

„Hvað fékkstu á prófinu?“ Hugleiðing um námsmat í hálfa öld

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Svandís Ingimundardóttir

 

Námsmat þá

Fyrir ríflega hálfri öld fékk lítil 7 ára stúlka sína fyrstu einkunn á lífsleiðinni en svo sannarlega ekki þá síðustu. Hún fékk 3,7 ritað á lítinn miða sem hún skilaði samviskusamlega til móður sinnar þegar heim var komið. Þetta þótti bara nokkuð góð frammistaða hjá þeirri stuttu en talan endurspeglaði hversu mörg atkvæði á mínútu hún gat lesið skammlaust. Þetta vissu foreldrarnir enda hafði svo verið í tugi ára, sama mælistikan á alla og engum vafa undirorpið hvað þýddi. Héðan gat því leiðin einungis legið upp á við.

Sú stutta naut sín í skólanum, hafði framsýna kennslukonu sem m.a. fékk að kenna þeim dönsku, aðeins níu ára gömlum og 12 ára lék hún Grámann í Garðshorni á sviði í söngsalnum. Lífið var yndislegt, hún lagði sig í líma við að skila óaðfinnanlegum ritgerðum, myndskreyttum og vandvirknislega frágengnum og gat fengið allt að Mjög gott++ fyrir. Framtíðin var ráðin þá þegar, staðföst stefndi hún að því að verða kennari þegar hún yrði stór því hvergi leið henni betur en í skólanum. Hún lauk níu ára skyldunámi með viðurkenningu fyrir hæstu meðaleinkunn á landsprófi frá Rotary-klúbbi bæjarins, hvorki meira né minna, með tveimur aukastöfum því nákvæmt skyldi það vera.

Skólagangan hélt áfram og inn komu enn nýjar tegundir af námsmati. Stúlkan átti að geta tjáð það munnlega, yfirheyrð af einum eða fleiri kennurum í einu, hvort og þá hvernig hún hefði skilið það sem hún hafði lesið og fór þá að kárna gamanið. Á næsta skólastigi var einungis gefið í bókstöfum. Hún fékk A, eitt og eitt B og C brá jafnvel fyrir. Það virtist því farið að halla eitthvað undan fæti ef marka mátti fjölbreytni bókstafanna en hvað sögðu þeir? Auðvitað varð hún að fá að vita það og stundum var hægt að sjá úrlausnir og tölurnar á bak við bókstafina en stundum ekki, sem tekið gat á taugarnar.

Stúlkan, að verða fulltíða, stefndi ótrauð áfram menntaveginn og setti stefnu á kennarapróf. Á fyrstu önn upplifði kennaraneminn enn nýjungar þegar kom að námsmati. Nú var það jafningjamat bekkjarfélaga í kjölfar hópverkefnis. Nemendur skyldu hafa til hliðsjónar tiltekin viðmið og rökstyðja í heyranda hljóði þær einkunnir sem þeir töldu bekkjarfélaga sína eiga skilið. Þarna reyndi verulega á og fljótlega varð ljóst að í óefni stefndi. Ungu kennaranemarnir réðu ekki við valdið og virtust jafnvel tilbúnir til þess að „gefa“ einstaka hópi talsvert meira en hann átti inni, í það minnsta samkvæmt umræddum viðmiðum, og munnleg röksemdafærsla hélt ekki vatni. Úr varð að stúlkan, nú tvítug og að því komin að verða móðir, yfirkomin af réttlætiskennd, hélt reiðilestur yfir bekkjarfélögum sínum og taldi frammistöðu þeirra sýna veikleika þeirra við að meta framtíðarnemendur sína með sanngjörnum hætti. Hér væri mikið alvörumál á ferðinni sem haft gæti veruleg áhrif á nemendur þeirra til framtíðar. Úr varð stórmál innan skólans og sálfræðingur og fleiri góðir aðilar fengnir til þess að reyna að bera vopn á klæðin og púsla bekknum saman á nýjan leik með hópefli o.fl. svo hann gæti haldið ótrauður áfram. Til viðbótar þessu áhrifaríka námsmati mátti jafnframt sjá ný hugtök á einkunnaspjöldum: lokið/ólokið og allsendis ómögulegt var að fá vitneskju um hvað réði úrslitum á þeim vogarskálum. Áfram voru þó algengastar afar nákvæmar einkunnir með tveimur aukastöfum, líkt og í landsprófinu forðum, á spjöldum þessara kennara framtíðarinnar.

Já, stúlkan sú hafði fengið fjölbreytt námsmat á alls kyns skölum, misáhrifaríkum og skiljanlegum, áður en hún gat farið að kalla sig kennara og þess umkomna að hefjast handa við að mennta framtíðarþegna þessa lands.

Við tóku góð og gjöful ár við kennslu og stjórnun og fleiri nýjar leiðir til að meta framgang í námi, t.d. með umsögnum. Foreldrar vildu þó gjarnan fá að vita hvað umsagnir þýddu svona um það bil í tölustöfum en þá urðu kennarar óræðir í framan og töldu nóg að upplýsa um að barnið þeirra hefði tekið framförum ef svo bar undir. Já, fyrst og síðast verða foreldrar að fá þau skilaboð að börnin þeirra séu að taka framförum, þau njóti sannmælis og geti virkjað hæfileika sína á fjölbreyttum sviðum. Afar þýðingarmikið er, engu að síður, að foreldrar skilji þá matskvarða sem notaðir eru í þeim tilgangi.

Fjölnámsmat

Árið 1996 markaði ákveðin þáttaskil í íslenskri skólasögu þegar sveitarfélögin tóku yfir allan rekstur grunnskólans. Greinarhöfundur, á hátindi feril síns að eigin mati, og áköf í að laga skólakerfið að þörfum, áhuga og getu nemenda, fékk það ár að leiða tilraunaverkefni í borginni sem fólst í því að koma á starfsnámsbrautum á unglingastigi, sem kallað var Fjölnám. Þar voru samankomnir nemendur úr nokkrum skólum sem áttu það einna helst sammerkt að hafa beðið skipbrot í hefðbundnu bóklegu námi af ýmsum orsökum.

Kennsluhættir og forgangsröðun verkefna á þessari nýju námsleið skyldi verða með öðrum hætti en nemendur hefðu kynnst hingað til, mikil áhersla lögð á sjálfsstyrkingu, samskipti og sterkar hliðar þeirra. Nemendur skyldu fá notið hæfileika sinna á fjölbreyttan hátt og geta, hæfni, framfarir og árangur metið með sanngjarnari hætti en áður á einstaklingsgrunni. Fram kom í kynningarbæklingi Fjölnáms að kennsluhættir og námsefni miðaðist ekki við beinan undirbúning undir samræmd próf „ … en óski nemendur eftir að fá að þreyta þau er þeim það frjálst.“ Að öðrum kosti skyldi sótt um undanþágu frá samræmdri prófatöku á grundvelli laga og reglugerða er þá voru í gildi.[1]

En Adam var ekki lengi í Paradís því reglugerðir koma og fara og ný birtist um mitt skólaár sem kippti í raun stoðum undan námskrá Fjölnáms. Öllum var gert skylt að sitja samræmd próf og engar undanþágur veittar utan til þeirra „ … sem víkja svo frá almennum þroska að þeim henta ekki samræmd próf“.[2] Svo rammt kvað að þessari reglusetningu að nemanda, sem undanþeginn hafði verið dönsku alla sína skólagöngu var ætlað að taka samræmt próf í þeirri grein. Réttlætiskennd kennara var misboðið. Í þágildandi grunnskólalögum sagði í 44. grein: „Megintilgangur námsmats er örvun nemenda og námshjálp … afla sem öruggastrar vitneskju um árangur skólastarfsins …“.[3] En Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála, sem fór með undanþágubeiðnir vegna frávika frá samræmdum prófum, hafði kveðið upp úrskurð sinn, sem síðar var staðfestur af menntamálaráðuneyti. Hvað sem öllu nýbreytnistarfi leið skyldu þessir nemendur metnir og vegnir á staðlaðan hátt. Málið rataði í fjölmiðla og aðspurður sagði aðstoðarmaður þáverandi menntamálaráðherra m.a.: „Fjölnámið virðist ekki vera skilgreint sem sérskóli/sérdeild samkvæmt 38. gr. grunnskólalaganna“,[4] og þar með var engar undanþágur að fá. Allir skyldu settir undir sömu mælistiku. Það var ljóst að hið samræmda námsmat var hvorki til þess fallið að örva nemendur, veita námshjálp né afla öruggrar vitneskju um árangur skólastarfsins líkt og lögin kváðu á um. Lesendum til hugarhægðar þá lögðu kennarar ekki árar í bát, enda álitamál hvort um mannréttindabrot væri að ræða gagnvart fyrrnefndum nemanda. Nemandinn fékk svo, nokkrum dögum fyrir töku prófsins, undanþáguheimild frá töku samræmds prófs í dönsku skv. 5. málsgrein 35. greinar þágildandi grunnskólalaga, að tillögu ráðherra. Námsmat er alvörumál og tilgangur þess og markmið verða að vera skýr og óvéfengjanleg í þágu nemenda.

Námsmat nú

Í dag er öldin önnur og námsmat hefur þróast talsvert frá hinu nákvæma talnakerfi með tveimur aukastöfum og umsögnum kennara um nemendur sína. Grunnskólinn, í það minnsta, hefur fengið nýtt námsmatskerfi, að sænskri fyrirmynd, sem byggir á allt öðrum og sanngjarnari viðmiðum, það er gagnsætt, réttmætt og áreiðanlegt eða er það ekki svo? Svíarnir hafa að vísu lagt þessu námsmati en íslenska seiglan er söm við sig.

Í dag skal meta hæfni nemenda jafnt og þétt yfir veturinn en ekki frammistöðu á einstaka prófum. Fyrir bragðið er augljósara en áður að það er í þágu hvers barns fyrst og fremst og endurspeglar námslegar framfarir yfir tíma. Dæmi um hæfni sem nemandi við lok 1. bekkjar á að hafa náð í myndmennt: „unnið myndræna frásögn úr nánasta umhverfi, upplifunum og ímyndunum með því að nota viðeigandi efni, verkfæri og tækni.“ Þetta er eitt af sex hæfniviðmiðum fyrir sex til sjö ára nemendur. Námsmatið er svo afhent í lituðum formum og hugtökum: hæfni náð = grænt „tjékk“ merki; hæfni ekki náð = rautt x; þarfnast þjálfunar gefur appelsínugulan hring og hafi barnið sýnt framúrskarandi hæfni fær það bláa stjörnu! Þessi lituðu form breytast svo þegar lengra líður á grunnskólagönguna og þekktari tákn taka að dúkka upp, bókstafirnir. Sem dæmi um hæfniviðmið sem stefnt er að við lok 10. bekkjar í þessari sömu grein: „greint, borið saman og lýst ýmsum stílum og stefnum í myndlist og hönnun, bæði á Íslandi og erlendis.“ Hafi nemandi sýnt framúrskarandi hæfni í viðmiðum 10. bekkjar fær hann A en að öðrum kosti B+ og allt niður í D, sem þýðir þá væntanlega að viðkomandi hafi ekki náð nokkurri hæfni í þessari tilteknu grein og ætti að snúa sér að öðru. Sem dæmi um hæfniviðmið í samfélagsgreinum sem að er stefnt fyrir lok 10. bekkjar: „hugleitt og tjáð hver hann er í augum sjálfs sín og annarra, útskýrt hvernig sjálfsmynd hans mótast af umhverfi og búsetu, stjórnmálum og félagslegum aðstæðum, sögu og menningu, trúar- og lífsviðhorfum.“ Ég verð að viðurkenna að vera fegin því að þurfa ekki sem kennari að leggja slíkt mat á óharðnaðan ungling og leyfi mér stórlega að efa það að hafa náð slíkri hæfni sjálf, verandi nýskriðin á sjötugsaldur.

Í aðalnámskrá grunnskóla segir m.a. um námsmat: „Námsmat á að veita nemendum og foreldrum þeirra, kennurum, viðtökuskólum og skólayfirvöldum upplýsingar um námsgengi sem má hafa að leiðarljósi við skipulagningu náms.“[5]

Óhætt er að segja að nýja námsmatið, sem aðalnámskráin frá 2011 boðaði, hafi lagst misjafnlega í skólafólk sem fékk litlu um það ráðið. Sú óánægja endurspeglaðist m.a. í því að gildistöku var ítrekað frestað og hafði það tekið nokkrum breytingum þegar það var innleitt árið 2016. Einkunnakvarðinn varð sex þrepa en ekki fjögurra eins og upphaflega stóð til og Námsmatsstofnun var falið að tengja stig við hvern bókstaf. Þannig gæti A gefið 4 stig, B+ 3,5 o.s.frv. „Framhaldsskóli sem setur ströng skilyrði við inntöku á námsbraut gæti vísað í lágmarksstigafjölda,“ sagði í bréfi menntamálaráðuneytis til frekari skýringar.[6] Markmiðið með nýja námsmatinu var „ … að samræma betur einkunnagjöf milli skóla og bæta upplýsingagildi einkunna hvað varðar hæfni nemenda,“[7] en einnig var þess getið að skólameistarar nokkurra framhaldsskóla, þar sem samkeppni væri um námspláss, hefðu lýst áhyggjum af því að hafa ekki nægilegar upplýsingar um námsstöðu nemenda til að gæta jafnræðis við inntöku með þessum nýju kvörðum.

Kennarar og skólastjórnendur hafa lagt ómældan tíma og orku í að útfæra nýja námsmatskerfið án mikillar ráðgjafar eða stuðnings. Ef eignarhaldið er lítið og sannfæringin fyrir gagnsemi takmörkuð þá situr eftir spurningin um af hverju og fyrir hverja? Í námskránni segir jafnframt: „Nemendur, foreldrar, kennarar og aðrir starfsmenn skóla þurfa að geta skilið niðurstöður námsmats á svipaðan hátt.“[8]

Í umræðu á samfélagsmiðlum fyrir nokkrum árum mátti sjá ræddar lestrareinkunnir: „Ég fatta ekki þessa lestrareinkunn sem börn eru að fá, mín fékk 7,5 í 3. bekk og les rosalega vel.“ Önnur svarar: „Það er ekki gefin hærri einkunn en 8 í lestri hjá krökkum fyrr en þau eru komin í 7. eða 8. bekk.“ Sú þriðja bregst við, en sú er kennari, og segir: „Ég er t.d. að kenna í 6. bekk og það eru nemendur hjá mér með 10.“ Annar kennari: „Ég er líka að kenna í 6. bekk og þau fá ekki hærra en 8.“ Þriðji kennarinn bætist við spjallið og segir: „Í skólanum sem ég kenni í er miðað við að nemendur nái 200 atkvæðum á mínútu (ekki orðum) 200 atkvæði = 8,0 í einkunn.“

Svo virðist sem mismunandi geti verið eftir grunnskólum, og jafnvel milli kennara innan skóla, hvernig umrædd hæfniviðmið birtast í bókstöfum, hugtökum og litakóðum milli greina og jafnvel innan greina.  Það þvælist fyrir kennurum að túlka niðurstöður námsmats svo foreldrar skilji og gera þeim grein fyrir forsendum niðurstaðna. Hvort bókstöfunum er ætlað að endurspegla stig eins og til stóð þekki ég ekki enda spurning hvort gagn sé af enn einu stigakerfinu.

Menntamálastofnun hefur kynnt til sögunnar nýtt skimunar- og stöðupróf í lestri, Lesferil. Þar er m.a. metin lesfimi, rétt lesin orð á mínútu en ekki atkvæði líkt og á síðustu öld. Kennarar hafa tekið þessu nýja matstæki fegins hendi sem vonandi segir til um gagnsemi þess fyrir skólastarf, skýrleika mælinga og upplýsingagildi um stöðu nemanda og framgang í undirstöðunámsgrein.

Höfum gengið til góðs götuna fram eftir veg?

Þessar hugleiðingar eru settar á blað til þess eins að opna umræðu um tilgang, gildi og áhrif námsmats í grunnskóla því þau áhrif geta varðað leið einstaklingsins ævina út. Það er grundvallaratriði, þegar gerðar eru umfangsmiklar breytingar á innviðum skólastarfs, að þær séu gerðar í samstarfi og sátt við sérfræðingana sem við treystum til þess að framkvæma þær á vettvangi og skilningur þeirra á tilgangi og markmiðum tryggður eins og unnt er.

Í ár er liðinn aldarfjórðungur frá yfirfærslu grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga. Af því tilefni, og mörgum fleiri reyndar, er ástæða til þess að staldra við, líta um öxl og spyrja gagnrýninna spurninga. Námsmat er einungis einn þáttur skólastarfs en mögulega einn sá áhrifaríkasti út frá sjónarhóli nemandans þegar upp er staðið. Þá ríflega hálfu öld sem liðin er frá því að greinarhöfundur fékk sinn fyrsta vitnisburð á langri skólagöngu hafa ný birtingarform námsmats litið dagsins ljós með reglulegu millibili og nýjum rökstuðningi. Markmið og tilgangur námsmats þurfa að vera skýr og raunhæf en fyrst og fremst þarf námsmat að endurspegla á skiljanlegan og sanngjarnan hátt námslega stöðu, hæfni og framfarir.

Erum við sannfærð um að hin margslungnu og fjöldamörgu hæfniviðmið ólíkra námsgreina, sem sett eru fram í löngu máli og táknuð með lituðum formum og bókstöfum, segi meira en 3,7? Leyfum okkur að efast og tökum samtalið áfram.

Neðanmálstilvísanir

[1] Skýrsla um tilraunaverkefnið Fjölnám í Réttarholtsskóla 1996-1997, bls. 11
[2] Reglugerð um námsmat nemenda sem víkja svo frá almennum þroska að þeim henta ekki samræmd próf. 23. desember 1996
[3] Lög um grunnskóla nr. 66/1995
[4] Morgunblaðið, 28. janúar 1997
[5] Aðalnámskrá grunnskóla, 2011, bls. 28
[6] Bréf mrn., frá 10. september 2014: Kynning á breytingum á námsmati í grunnskóla
[7] Frétt á vef MMS 22. september 2015
[8] Aðalnámskrá grunnskóla, 2001, bls. 28


Svandis Ingimundardóttir er skólamálafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Svandís tók kennarapróf 1985 og hefur síðar lokið námi í námsráðgjöf (1992), auk meistaranáms (2005). Hún hefur verið kennari, skólastjóri, námsráðgjafi og kynningarfulltrúi.


Gestaritstjórn afmælisgreina Ingvars Sigurgeirssonar: Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor, Baldur Sigurðsson dósent og Gerður G. Óskarsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkur.


Grein birt: 12/1/2021

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp