Hugleiðingar um framfarir, varðveislu og menntun í tilefni af sjötíu ára afmæli Ingvars Sigurgeirssonar
Ragnar Þór Pétursson
Það er dæmigert fyrir Ingvar Sigurgeirsson að þessi grein megi helst ekki fjalla um hann þótt hann samþykki að fram komi að hún sé hugsuð og skrifuð í tilefni af sjötíu ára afmæli hans. Fáa þekki ég sem minni þörf hafa fyrir sviðsljósið nema ef væri til að beina því að öðrum. Ég veit þó að Ingvar mun fyrirgefa mér þá óhlýðni að draga nafn hans fram með þeim hætti sem ég geri. Annað er ekki hægt. Hann skilur líka mætavel að lífið er litakassi en ekki ljósritunarvél; ef ekki er litað út fyrir línurnar hættir myndin að stækka.
Gimsteinar í sorpi
Þegar Hjálmar Jónsson, Bólu-Hjálmar, var orðinn gamall og lúinn barst honum eitt sinn óvænt peningasending. Þessi óvænti vinagreiði varð til þess að hann orti eftirfarandi:
Víða til þess vott ég fann,
þó venjist tíðar hinu,
að Guð á margan gimstein þann
sem glóir í mannsorpinu.
Það var ekki sérlega oft sem Hjálmar fann hjá sér þörf til að mæra samferðafólk sitt enda er ljóðið ekki beiskjulaust. Hin inngróna svartsýni og vantrú á mannskepnuna í skrifum Hjálmars gerir það þeim mun áhugaverðara að leita vísbendinga í ljóðum hans um von eða bjartsýni. Skáldið vissi mætavel af anda upplýsingarinnar, framfaratrúnni og þjóðrækninni sem einkenndi seinni hluta 19du aldar. Sjálfur fæddist hann í blálok 18du aldar og líf hans einkenndist af skorti, skuldum, basli og innri baráttu við vonleysi og freistingar.
Ríkmanns mig rak að setri,
ráðin engin þekkti betri,
af sulti kominn mjög í mál.
Sá ég vera soðið slátur,
sál mín rak upp skellihlátur
og gufuna með græðgi át.
Einmitt var það allur greiði
ég sem hlaut af krásar seyði.
Dró ég mig að beisla bát.
Sál mín vön við sultarhaginn
samt af slórði þennan daginn
og vonir sínar allar át.
Þeim, sem etið hefur gufuna úr sláturpottum hinna ríku, er vorkunn þótt trúin um betri heim nái illa til jarðneskrar tilvistar. Þó skín víða í gegn, auðvitað ekki beiskjulaust, að Hjálmar bar í brjósti veika von um að lífið á Íslandi gæti orðið betra. Hann hafði að sjálfsögðu ríkar efasemdir um að það gæti orðið fyrir atbeina Íslendinga sjálfra en með leiðsögn æðri máttar, Drottins eða jafnvel Kristjáns níunda Danakonungs (sem hann tignaði óvænt í kvæði í tilefni af þjóðhátíðinni 1974), virðist hann hafa talið að bæta mætti um betur.
Jóhann á Dálkstöðum var fyrsti kennari Hjálmars, sá sem kenndi honum að skrifa. Í kennslulaun varð hann andlag fyrstu níðvísu hins upprennandi skálds sem þá var átta ára. Hjálmar var bráðþroska og gáfaður en allnokkuð vanstilltur. Hann kunni Biblíuna vel og las allan trúarlegan texta sem hann komst yfir. Hann var trúaður á almættið en ekki á presta og var óþreytandi við að ögra þeim og gagnrýna. Hann komst líka í ýmis forn fræði og var sjálfmenntaður í þeim. Hann hafði gaman af því að fólk tryði að hann gæti rist galdrarúnir eða notað áhrínisorð, hafi hann hreinlega ekki trúað því sjálfur, og hafði yndi af því á ýmsan hátt að vera talinn fulltrúi hins forna Íslands þegar borgaralegu, rómantísku skáldin reyndu að draga íslenskt ljóðmálið inn í nýja tíma.
Hjálmar var ekki efnilegur bóndi og flest fór aflaga sem hann reyndi fyrir sér í þeim efnum. Það var honum mikið reiðarslag og mannorðsmissir þegar hann var sakaður af sveitungum sínum um sauðaþjófnað, einn alvarlegasta glæp íslensks bændasamfélags, þótt hann hafi að endingu verið sýknaður. Hann átti ýmsa góða vini þótt reglulega slettist upp á vinskapinn og þótti skemmtilegur þegar sá gállinn var á honum.
Mér þykir við hæfi að hefja umhugsun um íslensk skólamál og samfélag á því að draga fram mann eins og Bólu-Hjálmar. Hann var þróttmikill, hæfileikaríkur, íhugull og eftirtektarverður á margan hátt og þrátt fyrir að honum hafi þótt dálítil fremd í því að tilheyra hinu forna Íslandi, í stað þess að hlaupa á eftir rómantískum tískubylgjum sem íslenskir stúdentar drógu með sér frá Kaupmannahöfn, held ég að ljóst sé að hentað hefði bæði honum og Íslandi hefði hann fengið að fæðast inn í samfélagsgerð sem töluvert seinna var á ferðinni. Hann var kannski ekki á undan sinni samtíð – en samtíðin var ekki að öllu leyti tilbúin fyrir hann.
Hlutdeild í himninum
Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg. Þar ríkir fegurðin ein ofar hverri kröfu.
Svo mælti Halldór Laxness. Næst langar mig að gera hann að umræðuefni ásamt hinu jarðneska og himneska – og þá stöðu þegar þetta tvennt rennur saman í eitt. Kynslóð eftir kynslóð þraukuðu Íslendingar gegnum hallæri og hungur með það veganesti að réttláts fólks biði betra líf á himnum. Lífið á norðurhjara hékk oft á bláþræði og tryggð við óbreytta – og fábreytta – lifnaðar- og starfshætti stafaði eflaust fyrst og fremst af varfærnu viðhorfi til breytinga og áhættu. Á 18du og 19du öld fær þjóðin fregnir af nýju þjóðskipulagi, nýjum atvinnuháttum, nýjum tímum – jafnvel nýjum trúarbrögðum og heimkynnum í framandi álfum. Þegar líða fer á tuttugustu öldina stækkar sjóndeildarhringurinn og metnaðurinn og bjartsýnin fara á flug. Trú eykst á að norður við heimskautsbaug megi skapa samfélag sem ekki þarf að skammast sín í samfélagi þjóðanna. Samfélag raflýsingar og útvarps; háskóla og heimsborgara. Óþolinmóður að venju ávarpar ungur Halldór Laxness þjóð sína:
Járnbraut austur! Ræktað land! Raflýsing sveitabæjanna! Saman með fólkið! (Halldór Guðmundsson, 2020)
Þrem misserum seinna tekur Halldór aftur upp penna, nú búsettur í Kaliforníu, til að bregðast við gagnrýni á hin fyrri skrif. Inntak hinna seinni skrifa er þetta: Vond veður á Íslandi og skammdegismyrkur afsaka ekki léleg híbýli og myrkravist heldur þvert á móti krefst þess af þjóðinni, geri hún til sín eðlilegar menningarkröfur, að hún byggi utan um sig hlý og björt hús. Nægur sé efniviðurinn og rafmagnið auðvelt að framleiða. Hann muni halda áfram að skrifa um þessi mál þar til alþýðu landsins skiljist að hún hafi engan rétt til að lifa eins og hundar. (Halldór Laxness, 1928)
Bólu-Hjálmar skammaðist í þjóð sinni og áleit hana vanvirða móður sína, landið, föður sinn, skaparann, og sig sjálfa. Tilraunir hans við að særa fram forna anda sér til hjálpar skiluðu honum litlu öðru en vandræðum. Hann taldi sig þurfa að deyja til að eygja von um betri vist. Halldór hafði engan tíma til að bíða eftir slíku enda af kynslóð sem taldi að fólk gæti sjálft leyst úr læðingi þau öfl sem reiddu bjartari tíma og siðmenninguna á baki sér. Öld framfara var runnin upp – öldin sem skapað gæti paradís á Jörð. Himin og jörð gátu runnið saman í eitt og hið jarðneska orðið himneskt.
Halldór, eins og Hjálmar, menntaði sig að talsverðu leyti sjálfur. Hann sagði skilið við menntaskólann á lokasprettinum og flutti til útlanda, staðráðinn í að verða eitthvað sem ekki virtist hægt að verða á Íslandi að óbreyttu. Hann hélt áfram að nema næstu árin, hjá munkum í Lúxemborg og London, í Kaupmannahöfn og Kaliforníu – auk þess að drekka í sig alþýðufróðleik fólks í íslenskum heiðarbýlum. Á öld framfara hafði það sem Halldór taldi sig þurfa að læra ekki skilað sér inn í skólana og því varð hann, eins og Stephan G. hafði orðið áður, sinn eigin kennari – og meðfram því kennari og umvandari þjóðarinnar sem hann taldi sækjast í að lifa eins og hundar. Öðrum þræði snerist þetta allt auðvitað um að berjast fyrir – nei, krefjast, samfélags sem rými hefði fyrir fólk eins og það sem Halldór vildi vera: „án snillínga íslensks máls erum vér skrælingjar, enda þótt vér komumst í dýrlíngatölu á erlendum kauphölum fyrir hrogn og grút.“ (Halldór Guðmundsson, 2020)
Stormur leystur úr læðingi
Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðsterkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.
Hannes Hafstein náði að vera samtímamaður beggja, Hjálmars og Halldórs, og skáld eins og þeir. Hann var harðfylginn, nokkuð átakasækinn og gjarnan umvafin deilum af ýmsu tagi. Líklega geta aðeins þannig menn skrifað opinberar ástarjátningar til stormsins meðal þjóðar sem enn býr í ófokheldum húsum. Stormur Hannesar er ekkert venjulegt veður. Hann sópar burt því gamla og gefur hinu nýja rými til að vaxa, hann þenur út segl og blæs upp glæður, hann feykir skýjum frá sólu og eflir þrótt.
Önnur eins náttúrulýsing á sér varla hliðstæðu í íslensku ljóðmáli frá fyrri tímum. Vissulega fögnuðu rómantísku skáldin hverju vori og því þegar sólin braust fram undan fjöllum og skýjum. En sú lífsglæðing var yfirleitt ljúf og nærgætin; vorsól sem kyssir lítinn bæ, lækur sem hjalar í leysingum eða fuglasöngur í móa. Bólu-Hjálmari fannst Ísland vera lífsþreytt og slitin móðir ódælla þorpara. Rómantísku skáldin horfðu á hana með augum elskandi barna. Hannes leit á hana sem ótæmandi orkulind. Að því leyti er hann kannski afdráttarlausari fulltrúi framfara en t.d. Halldór Laxness.
Þegar þetta þrennt fór saman: trú á framfarir, sæluríki á jörð og ótæmandi afl var þess auðvitað ekki lengi að bíða að mannkynið færi fram úr sjálfu sér. Í dag ætti myndmálið í Stormi helst við lýsingu á kjarnorkusprengingu og ofsafengnum áhrifum loftslagsbreytinga. Fyrirmyndaríkin sukku hvert af öðru ofan í hafsjó af blóði og landið hætti í raun að vera jarðneskt og rann saman við himininn þegar milljarða ára uppsöfnuðu kolefni var dælt út í andrúmsloftið, í nafni þæginda og framfara, með skelfilegum afleiðingum – loks virðist fólki vera nákvæmlega jafn eðlislægt að fara í taugarnar hvert á öðru í heiminum í dag og það gerði um miðja þar síðustu öld norður í Akrahreppi. Framfarir leiddu af sér hamfarir; framfaraöld fylgi aðfararöld – tími skuldadaga.
Hannes var ólíkur þeim Hjálmari og Halldóri um margt. Hann fæddist inn í samfélag sem var eins og sniðið að þörfum hans. Sonur amtmannsins á Möðruvöllum átti greiða leið til náms og starfa og hlaut að endingu æðsta embætti þjóðarinnar. Hann virðist þó hafa verið algerlega sammála þeim báðum um lágt menningarstig þjóðarinnar og brýna þörf á að bæta þar úr. Hann notar fjölbreytt líkingarmál til að reyna að hvetja þjóð sína til dáða. Stormurinn er eitt. Svipað myndmál fá finna í Spretti, þar sem hann berst á fáki fráum fram um veg. Hann málar athyglisverða mynd af fjalldrapanum í samnefndu kvæði, jurtinni sem læsir rótum sínum í jarðveginn og virðist þola allt, lætur aldrei bugast og dugar jafnvel í vendi til að „húðstrýkja þá, sem heilnæma tyftingu þurfa að fá.“ Umhugsunarverðust er þó vísunin, sem á þessum árum varð sífellt ágengari, í eldmóð og kraft Íslendinga til forna. Í áramótakvæði sínu frá 1901–1902 tilbiður Hannes sólina, tákn um nýja tíma en um leið áminningu um forna dáð og dug.
Þannig líkti hin íslenska endurreisn eftir endurreisn meginlandsins. Með stöðugri vísun til glæstra og fornra tíma, heljarmanna og hreystikvenna. Það er ekki ónýtt þjóð, sem sögð er lifa eins og skepnur, að vera minnt á að hún eigi sér menningararf og líkamlegar erfðir sem sæma myndu stórþjóðum. Það kemur líka í veg fyrir að þjóðin þurfi að standa auðmjúk og lítillát gagnvart þeirri siðmenningu sem hún hefur misst af – og fær henni í hendur tækifæri til að smíða sína eigin.
Það er ekki eins og járnbrautateinar breska heimsveldisins hafi fært siðmenninguna öðrum þjóðum með farmfylli auðmýktar og lítillætis.
Í leit að samfélagi
Hjálmar lærði að lesa í bændasamfélagi 19du aldar. Lestrarkennslan hafði þá um langt skeið haft trúarlegt inntak. Tilgangur hennar var að halda sáluhjálp að fólki sem annars væri glatað. Jóhann bóndi ákvað að kenna drengnum líka að skrifa. Skriftarkennsla var litin hornauga og fannst sumum að þótt lestur færði þér aðgang að guðsorði þá væri nánast móðgun að stilla upp til hliðar við hið heilaga orð ritmáli kotbændanna sjálfra. Því myndu bara fylgja vandræði. Auðvitað fylgdu skrifum Bólu-Hjálmars heilmikil vandræði en um leið glitti í dýrmæta samfélagsrýni og ótrúlega nútímaleg stílbrögð miðað við fornan stílinn, sérstaklega í líkingamáli skáldsins.
Hannes fylgdi hinu hefðbundna menntakerfi embættismennskunnar, alla leið frá Möðruvöllum til Kaupmannahafnar. Hann áttaði sig á því að lífsbjörg þjóðar gæti ekki til langframa byggt á því að gera efnilegt fólk að embættismönnum sem bera skyldu ábyrgð á siðviti og lífi allra hinna. Hafandi gengið og siglt menntaveginn sjálfur hefur honum örugglega sviðið það að sjá samlanda sína sitjandi í fátækt og basli í einhverskonar blöndu af fátækt og hallæri. Lært bjargleysi þjóðarinnar kallaði á að hún yrði drepinn úr dróma, hvort sem væri með vindi eða vendinum.
Halldór fór í engu hefðbundnar leiðir. Leit hans að sjálfum sér varð um leið leit hans að samfélagi sem gæti rúmað hann sjálfan. Sú leit missti stundum sjónar á gildi hverrar manneskju og dómharkan var eftir því en líklega er enginn einn maður jafn augljós holdtekja 20stu aldarinnar í íslensku samfélagi. Hann hóf líf sitt af ótrúlegri sannfæringu fyrir hlutverki sínu og framtíðarmöguleikum; lifði stóra sigra og mikil vonbrigði; var hataður og elskaður. Varð á endanum menningarstofnun í landi sem sárlega þurfti á slíkum að halda, tók á móti hetjum og höfðingjum og bar hróður Íslands um víðan völl. Missti svo hægt og rólega sjónar á sjálfum sér og heiminum þegar leið á níunda áratuginn.
Afrakstur ellefu alda þróunar
Í desember árið 1984 var lögð fram svohljóðandi þingsályktunartillaga á alþingi:
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hlutast til um að í grunnskólanámi verði kennsla í sögu íslenzku þjóðarinnar aukin og við það miðuð að nemendur öðlizt ekki aðeins þekkingu og skilning á sögu þjóðarinnar heldur og trú á landið og vilja til að varðveita menningarsamfélag sem hér hefur þróast í ellefu aldir.
Flutningsmenn voru Eiður Guðnason, Páll Pétursson og Þorvaldur Garðar Kristjánsson forseti sameinaðs þings. Skömmu áður hafði Arnór Hannibalsson ritað grein í Morgunblaðið þar sem hann fann áherslum í sögukennslu ýmislegt til foráttu og einkanlega því að íslenska ríkið hefði gleymt því grundvallarhlutverki sínu við menntun barna að „skapa samstöðu allrar þjóðarinnar“ í „ævarandi baráttu […] fyrir fullveldi og sjálfstæði.“ Ábendingarskilgreiningar um þessa yfirsjón var kennsluefni fyrir níu ára börn um Tansaníu og heil kennslubók um Jón Sigurðsson og sjálfstæðisbaráttuna sem skrifuð var í þriðju persónu fleirtölu þar sem Arnóri hefði þótt betur fara á því að skrifa í þeirri fyrstu. (Arnór Hannibalsson,1983)
Hvernig má það vera að þjóð, hverrar hetjur vildu berast á fáki fráum fram um veg og rífa þjóðina með valdi upp úr andvara og værð, taldi sig á einum mannsaldri kominn á þann stað að komið væri gott og ástæða væri til að líta á sjálfa sig sem afurð ellefu alda þróunar sem bæri að varðveita?
Afstaða Arnórs er að einhverju leyti skiljanleg. Hann hafði séð með eigin augum þær hörmungar sem Stalín hafði steypt yfir ráðstjórnarríkin og tekist mjög á við íslenska trúboða og afneitunarsinna þeirrar helstefnu sem þar var rekinn og í ýmsu orðið undir í þeim efnum. Hann mat, kannski réttilega, að eina vörn þjóða sem ytra alræði ætlar sér að gleypa sé að hafa mikinn áhuga á því að vera áfram þjóð.
Tal um Ísland upp úr 1980 sem afrakstur ellefu alda þróunar er hinsvegar augljóslega innantómur áróður en mögulega til marks um áhrifamátt þeirrar boðunar og uppfræðslu sem aldamótakynslóðin setti í öndvegi þegar hún mótaði hina íslensku endurreisn. Hin glæsta hetjusaga Íslands kann að vera til þess fallin að auka bjartsýni, von og trú á landið og þjóðina – en hún getur aldrei orðið grundvöllur menntunar í landinu, jafnvel þótt sögukennslunni sé ætlað að draga fram í okkur það góða og gæfa.
Mér var hugsað til þessa á dögunum þegar ég las eftirfarandi dagbókarbrot Michael Palins frá ferð hans í Norður-Kóreu í maí 2016. Hann hafði farið í fjallgöngu og hrist af sér megnið af ritskoðurum sínum og gæslumönnum. Á fallegum stað í klettagljúfri settist hann niður með So Hyang, tæplega þrítugri, gáfaðri konu sem starfaði sem leiðsögumaður, og ákvað að koma beint að kjarna máls:
„Líf okkar byggir á málfrelsi,“ segi ég. „Fólk má vera eins dónalegt og það vill um leiðtoga sína. Í mínu landi megum við gagnrýna leiðtoga okkar þegar þeir gera eitthvað rangt og þar sem þeir eru bara mennskir þá gera þeir oft mistök.“
So Hyang gefur mér ekkert eftir.
„Þetta er það sem gerir okkur svo ólík,“ svarar hún. „Leiðtogar okkar eru afar miklir. Þeir eru ekki einstaklingar. Þeir eru tákn þjóðarinnar og við förum ekki að gagnrýna okkur sjálf, er það?“ (Palin 2019, bls. 123)
Það þurfti Ingvar Sigurgeirsson, og önnur af hans kynslóð til, að sá réttmætum efasemdum, eftir ölvunarástand sjálfstæðisbaráttunnar, um að hlutverk menntunar væri að „varðveita“ hið íslenska samfélag. Með sanngirni er hægt að skilja að þjóð sem ætlar að umbylta atvinnu- og lifnaðarháttum á örfáum áratugum og byggja upp tæknilega og félagslega innviði kjósi að beita menntakerfinu til að uppfylla þörf samfélagsins fyrir fólk. Þjóð, sem skilið hefur að tilefni er til að rasa ekki um ráð fram og sér fram á skuldadaga af völdum náttúruspjalla og helstefna, hlýtur að snúa taflinu við og leggja áherslu á þarfir fólks fyrir samfélag.
Þörfin fyrir samfélag
Þegar Halldór Laxness sagði: „fólkið saman!“ meinti hann að tími þéttbýlisins væri upp runninn á Íslandi. Sá sem þetta skrifar lærði að þekkja mikla flutninga úr sveit í bæ og úr bæjum í borg sem „byggðaröskun.“ Halldór leit á þetta sem eftirsóknarvert markmið (sem áhugavert er í ljósi þess að hann kaus að byggja yfir sjálfan sig við þjóðveg í sveit), þau störf sem fólk hefði unnið í sveitum væri hægt að fela vélum, fólk með hugsun og heila virkaði best í samfélagi við aðra heila.
Aftur hvarflar hugur minn til Norður-Kóreu nútímans. Í Sovétríkjunum sálugu var til fyrirbæri sem kallaðist Udarnik en það voru sveitir karla og kvenna sem voru hamhleypur til verkamannavinnu. Þetta afburðafólk, sem naut verulegrar hylli meðal almennings, mætti í stórum flokkum og tók til hendinni. Nokkurskonar stormsveitir í skilningi Hannesar. Slíkar sveitir fundust víða í austantjaldsríkjunum á sínum tíma en eru nú hvergi til – nema í Norður-Kóreu. Á leið sinni að hinu helga Pæktú-fjalli á nöpru og myrku maíkvöldi segir Michael Palin frá því þegar hann sá stóran hóps karla og kvenna hlaupandi til og frá með hjólbörur, skóflur og haka í myrkrinu við að byggja nýja borg þar sem áður var óslitinn skógur. (Palin,1983, bls.132-135)
Ég hygg, það kunni að gleymast að lýðræðið hefur tvær rætur. Þótt erfitt sé að útskýra með rökréttum hætti tilurð þess virðist hafa skipt máli að grísku borgríkin voru þéttbýl. Fólkið var komið saman. Því fylgja auðvitað áskoranir, átök og alls konar leiðindi en um leið opnast smuga á stjórnarfari með áður útilokuðum möguleikum. Þá er það örugglega ekki tilviljun að lýðræðið kviknar fyrst þegar velsæld og afl stöðugt stærri hópa gerir harðstjórum (týrönnum), sem leystu af hólmi þorps- og ættarhöfðingja, nánast ómögulegt að gæta einungis hagsmuna tiltölulega fámennrar klíku.
Í lýðræði hlýtur þörf samfélags fyrir fólk að víkja fyrir þörf fólks fyrir samfélag. Þó þannig, eins og dæmin frá Grikklandi sanna, að almennt sé borin virðing fyrir grundvallarþáttum lýðræðisins. Hin lýðræðislega manneskja ann lýðræðinu en ekki aðeins þeim völdum sem lýðræðið veitir tækifæri á að sölsa undir sig. Hún kann ennfremur að meta að rétti til valds fylgi skyldan til að vilja lúta valdi annarra.
Lýðræði er ekki innflutningsvara með sama hætti og dráttarvélar eða gosdrykkir. Það felst ekki eingöngu í kosningum. Líklega höfum við Íslendingar ekki hugsað nóg saman um lýðræðið okkar, kosti þess og galla og þau tækifæri sem í því búa. Þá höfum við alls ekki útfært með nægilega markvissum hætti hvernig menntakerfið á að ná því grundvallarmarkmiði sínu að undirbúa fólk undir virka þátttöku í lýðræðislegu samfélagi.
Það sem stundum er kallað „sögukennsluskammdegið“ og hnitaðist um varðveisluhlutverk menntunar gagnvart samfélagi eftirstríðsáranna var fyrst og fremst hugmyndafræðileg snerra um lýðræðið. Í aðdraganda átakanna útskýrði Erla Kristjánsdóttir, námsstjóri í samfélagsfræði, þennan meintan skort á sögulegri dýpt í námsgreininni samfélagsfræði:
„Þess er fyrst að geta að ýmiss konar söguleg umfjöllun er í námsefni þar sem saga sem slík er ekki beinlínis á dagskrá, s.s. í umfjöllun um líf fólks í öðrum löndum eða við sjávarsíðuna á Íslandi. Vissulega er æskilegt að allir Íslendingar kunni skil á sögu þjóðar sinnar. En spurningin er hvernig eigi að fjalla um hana. Gömlu námsbækurnar hafa mikið lesmál og mikinn samanþjappaðan fróðleik, en hvað situr eftir í hugum nemenda? Ég held að skilning á sögunni hafi skort …“ (Guðmundur Magnússon, 1983)
Tíminn frá aldamótunum 1900 og fram til 1980 var nægur til þess að vísir yrði til að því nútímasamfélagi sem nú er orðið til. Hann var eflaust líka nægur til þess að margvíslegt jafnvægi hafði myndast í samfélaginu með tilliti til hagsmuna og fjármagns. Það er í sjálfu sér ekkert rökrétt við það að vísa til fornrar fremdar með það að markmiði að „varðveita“ samfélagið í megindráttum. Það var þrótturinn og dugurinn sem forkólfar hinnar rómantísku, íslensku endurreisnar vísuðu í og töldu sig sjá hjá víkingum og afkomendum þeirra. Íslendingasögurnar voru ekki skrifaðar um þjóðholla einangrunarsinna. Þvert á móti fjalla þær nánast allar um heimsborgara þess tíma. Það að stilla upp þeirri sviðsmynd að þjóðin, þrjátíu árum eftir sjálfstæði, og mannsaldri eftir að nútíminn hóf innreið sína af fullum þinga, hafi verið komin á einhvern sérstakan varðveislupunkt eftir ellefuhundruð ára aðdraganda er sérlega hjákátleg í ljósi þeirra stórkostlegu samfélagbreytinga sem orðið hafa síðan.
Á sinn hátt má segja að íhaldssinnar og stjórnmálastéttin hafi haft betur í slagnum í sögukennsluskammdeginu. Skriðþungi þeirra breytinga sem fylgdi grunnskólalögunum frá 1974 hefur enn ekki náð fyrri styrk. Rof hefur orðið milli stefnumörkunar og framkvæmdar þegar kemur að grundvallarmarkmiðum skólastarfs. Menntavísindi og kennsla eru enn tortryggð. Sigurinn er hins vegar innantómur með öllu. Það hvarflar ekki að neinu okkar í dag að sjálfstraust þjóðarinnar standi og falli með því að mála fortíð hennar nægilega björtum litum. Við vitum öll að endapunktur sögunnar er hvergi nálægur og að mikill óinnleystur mannauður fylgir hverri einustu kynslóð. Eins vitum við að velsældin felst ekki í því einu að leysa afl úr læðingi heldur einnig hinu, að kunna sér hóf. Loks er okkur ljóst að fólk þarf ekki að vera sveitungar til að tilheyra sama samfélagi.
Nú, þegar fimmtungur er liðinn af 21stu öld, stöndum við frammi fyrir risavöxnum áskorunum en mun stærri tækifærum. Sá sem þetta skrifar er af kynslóðinni hverra hugar voru vígvöllur hinna hugmyndafræðilegu átaka á níunda áratugnum. Ég var í skóla þegar stjórnmálamenn reyndu að koma í veg fyrir að ég lærði um bavíana og mannlíf í Tansaníu til þess að tryggt væri að trú mín og aðdáun á íslensku samfélagi fengi nægt rými til að þroska og dafna. Hvort skyldi nú gagnast mér meira, þegar börnin mín krefja mig um aðgerðir vegna þess að við höfum búið þeim ósjálfbært samfélag sem t.d. sýnir sig þannig að líffræðilegur fjölbreytileiki jarðarkringlunnar er í stórhættu, að hafa haft kennara sem hvöttu mig til forvitni og víðsýni um heiminn – eða ráðamenn sem töldu að þannig missti ég sjónar á Íslandi? Það er lítið land sem hættir að sjást þegar gaumur er gefinn að öðrum. Að ekki sé talað um hve siðferðilega rangt er að krefjast varðveislu þess sem ósjálfbært er eða ranglátt.
Ingvar Sigurgeirsson og sú kynslóð íslensks fag-, fræða- og skólafólks sem þá sætti árásum stjórnmálamanna reyndist framsýnt og réttsýnt. Vitað var, og hafði verið vitað lengi, að án skilnings og skoðana ætti sér engin menntun stað. Vitað var að sanngjörn gagnrýni herðir samfélög en veikir þau ekki. Vitað var að ólíft er í heimi glansmyndanna. Ég ætla að ljúka þessari hugleiðingu eins og hún hófst, með lausavísu sem Bólu-Hjálmar orti á jóladagsmorgni þegar hann gekk með presti til kirkju:
Vel er alin herrans hjörð,
hérna liggur bevísið.
Sómir mjög að sauðaspörð,
sjáist kringum fjárhúsið.
Heimildir
Arnór Hannibalsson. (7. desember 1983) Um sögu og menntastefnu. Morgunblaðið.
Guðmundur Magnússon. (13. nóvember 1983) Gömlu námsbækurnar eru hlutdræg túlkun á Íslandssögunni – segir Erla Kristjánsdóttir, námsstjóri í samfélagsfræði. Morgunblaðið.
Halldór Guðmundsson. (26. nóvember 2020) Dyravörður hjá víðvarpinu. https://www.ruv.is/laxness/spila/dyravordur-hja-vidvarpinu/31053/984juh
Halldór Laxness. (1928). Um þrifnað á Íslandi. Reykjavík: Iðunn.
Palin, M. (2019). North Korea Journal. London: Hutchinson.
Ragnar Þór er heimspekimenntaður grunnskólakennari. Hann er nú formaður Kennarasambands Íslands. Hann hefur kennt í skólum víða um land, allt frá fámennum sveitarskólum til stórra borgarskóla – og það hefur kennt honum að þótt kennsluhættir séu fjölbreyttir, grundvallast námið undantekningalítið á því sama: Áhrifum þess sem gert er á nemendur, og áhrifum nemenda á það sem er gert.
Grein birt: 8/12/2020