1

Snjallt skólastarf – möguleikar og áskoranir nýrrar tækni

Kolbrún Pálsdóttir

 

Nýlega var haldin á Menntavísindasviði Háskóla Íslands ráðstefnan Snjallt skólastarf möguleikar og áskoranir nýrrar tækni. Fjölbreyttur hópur fyrirlesara fjallaði um þær fjölmörgu leiðir sem tæknin býður upp á í námi og kennslu. Um 300 kennarar, skólastjórnendur, sérfræðingar og áhugafólk sóttu ráðstefnuna og tóku þátt í vinnustofum og menntabúðum, enda er viðfangsefni ráðstefnunnar aðkallandi fyrir alla sem starfa á vettvangi menntunar, náms og kennslu.

Tæknin er verkfæri, tæknin er aðferð

Ábyrgð menntakerfisins er hér tvenns konar: annars vegar að taka tæknina í þjónustu sína, að kenna ungu fólki að nýta hana, leiðbeina þeim í umgengni við tæknina og ekki síður að þjálfa okkur sjálf til að nýta nýja miðla sem tæknin hefur skapað. Hins vegar er það líka hlutverk menntakerfisins að setja tækninni mörk og mið; að láta tæknina ekki stýra innihaldinu eða láta okkur missa sjónar á því sem er markmið menntunar.

Heimsmyndin er breytt, heimurinn hefur tekið stakkaskiptum með tilkomu internetsins, skýjalausna, hugbúnaðar, gervigreindar og sjálfvirknibúnaðar. Mannkynið virðist vera að sigra heiminn, við ferðumst um himingeiminn, köfum á dýpstu sjávarbotna, og virðumst sífellt vera nær því að kryfja dýpsta sannleik veruleikans. Á sama tíma er mannkynið í ákveðinni tilvistarkreppu; átök og fólksflutningar eru tíðir; tekist er á um grundvallargildi samfélaga og jörðinni sjálfri er ógnað vegna lifnaðarhátta okkar, neyslu og ofgnóttar.

Hvers vegna dreg ég upp svo þversagnakennda og dökka mynd á svo fallegum og björtum sumardegi? Ég finn mig knúna til þess að minna á að tæknin sjálf er hlutlaus um þessa þætti; tæknin sjálf hugsar ekki um jöfnuð, frelsi og kærleik. Tæknin sjálf hugsar ekki um sannleika, manngildi og virðingu. Falskar og tilbúnar fréttir eru daglegt brauð á vefmiðlum nútímans; Pólitískar sjónhverfingar, ósannar vísindagreinar, óhróður um náungann. Við þekkjum mörg slík dæmi af öllum sviðum mannlífsins.

Tækni í skólastarfi má aldrei verða markmið í sjálfu sér, heldur verðum við ávallt að líta á tæknina sem verkfæri til að stuðla að námi nemenda og efla þá sem borgara. Hjálpa þeim að verða einstaklingar sem hafa kraft, þekkingu, hæfni og siðvit til að leggja sitt af mörkum til að bæta samfélagið. Tæknin hefur opnað fyrir okkur dyr að lífsgæðum sem forfeður okkur hefði aldrei órað fyrir en tæknin hefur líka kynnt okkur fyrir dekkstu hliðum mannkyns.

Virkjum hug, hönd og hjarta

Það er ótrúlega margt spennandi að gerast í samfélaginu og í skólum landsins – og bar dagskrá ráðstefnunnar svo sannarlega vott um það. Íslenskt menntakerfi hefur alla burði til að vera framúrskarandi og á ýmsum sviðum er íslenskt menntakerfi og skólarnir okkar nú þegar framúrskarandi. Vissulega þarf að gefa í og meðal annars tryggja öllum skólum landsins, nemendum og kennurum aðgengi að nútíma tækniútbúnaði og nauðsynlegum innviðum, ekki eingöngu í skóla framtíðar heldur í skólum dagsins í dag.

Það er samt margt sem má gera, breyta og prófa, stundum með tiltölulega litlum tilkostnaði og með því að hugsa skóla- og frístundastarfið aðeins upp á nýtt. Kraftaverk, lítil og stór, gerast í skólum og félagsmiðstöðvum landsins þegar tekst að virkja hug, hönd og hjarta barna og ungmenna; þegar þau finna að á þau er hlustað, og að þau verða aðilar að starfinu, gerast rannsakendur, uppfinningamenn og listamenn; þau verða gerendur en ekki eingöngu þiggjendur.

Nýtum tæknina á skapandi hátt

Það var áhugavert að hlusta á kanadísku fræðikonuna Jennifer Rowsell sem flutti inngangserindi ráðstefnunnar. Hún sagði meðal annars frá ungum manni sem fann rannsóknar- og sköpunarþrá sinni farveg í gegnum snillismiðjur eða „makerspacers“. Hann lýsti sjálfsnámi sem fór einkum fram í gegnum Youtube og aðra vefmiðla – og hvernig hann fann sínar hvetjandi fyrirmyndir sjálfur og án milligöngu skólans. Þetta er sá veruleiki sem við búum við í dag og það hlýtur að vera hlutverk okkar sem störfum innan menntakerfisins að brúa þetta bil, brúa bilið á milli veruleika unga fólksins og hins formlega skólaumhverfis. Það merkir ekki að við eigum að sleppa takinu og gefa tækninni lausan tauminn innan skólastofunnar, við verðum þvert á móti að standa vörð um siðferðilegt innihald menntunar, umgengni við tæknina og mörk hennar og þess mannlega. Nýtum tæknina til að gera skólastarf merkingarmeira, innihaldsríkara og virkjum þátttöku nemenda í eigin námi, innan og utan skóla.

 

Greinin byggir á ávarpi sem höfundur flutti á ráðstefnunni Snjallt skólastarf – tækifæri og möguleikar nýrrar tækni. Að ráðstefnunni stóðu Félag áhugafólks um skólaþróun og RANNUM, Rannsóknarstofa í upplýsingatækni og miðlun.

 


Kolbrún Þ. Pálsdóttir (kolbrunp@hi.is) er dósent og forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Hún lauk bakkalárprófi í heimspeki árið 1996, meistaranámi í uppeldis- og menntunarfræði árið 2001 og doktorsprófi í menntunarfræðum árið 2012, öllu frá Háskóla Íslands. Rannsóknarsvið Kolbrúnar eru einkum tengsl formlegs og óformlegs náms, samvinna í skóla- og frístundastarfi og hlutverk frístundaheimila.


Frá ráðstefnunni Snjallt skólastarf – möguleikar og áskoranir nýrrar tækni