Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Breytingar á áfengis- og kannabisneyslu íslenskra unglinga 1995−2015

í Greinar

Ársæll Már Arnarsson

 

Undanfarna tvo áratugi hefur verulega dregið úr áfengisneyslu íslenskra unglinga. Þetta hefur komið endurtekið fram í nokkrum könnunum, meðal annars með þátttöku Íslands í Evrópsku vímuefnarannsókninni (ESPAD – European School Survey Project on Alcohol and Other Drugs). Í þeirri könnun er öllum skólum á Íslandi, sem eru með nemendur í 10. bekk, boðin þátttaka og hafa skólastjórnendur sýnt þessu verkefni bæði skilning og hjálpsemi. Það hefur vitanlega mikið gildi að taka þátt í samevrópsku verkefni sem 49 önnur lönd leggja fyrir í grunnskólum sínum á sama tíma. Þar með skapast óviðjafnanleg tækifæri til samanburðar og greiningar. Sömuleiðis er það mikilvægt að Ísland hefur tekið þátt í ESPAD-verkefninu frá upphafi árið 1995 sem þýðir að hægt er að leggja mat á langtímabreytingar í neyslu unglinga og viðhorfum þeirra til vímuefna og annarra þátta í þeirra lífi.

Þessi langtímasamanburður milli landa hefur einmitt leitt í ljós að þó verulega hafi dregið úr áfengisdrykkju íslenskra 10. bekkinga síðustu tvo áratugi, þá hefur neyslan í Evrópu lítið breyst. Á öðrum Norðurlöndum hefur reyndar líka dregið talsvert úr áfengisdrykkju en í minna mæli. Hlutfallslega hafa íslenskir unglingar færst á þessum tuttugu árum frá því að vera á miðjum listanum yfir í neðsta sæti.

Þegar þessar niðurstöður hafa verið kynntar á opinberum vettvangi kalla þær samt yfirleitt fram einhverjar efasemdir. Sumir segja að það megi vel vera að færri unglingar prófi áfengi nú en áður en að ekkert hafi fækkað í hópnum sem drekki oft. Svo eru það þeir sem segja: „Ja, það má vel vera að krakkar í dag drekki síður áfengi en það er bara vegna þess að þeir eru allir að reykja kannabis“.

Til þess að kanna betur þróunina í áfengis- og kannabisneyslu íslenskra unglinga voru gögnin úr ESPAD-rannsókninni frá 1995 til 2015 greind. Hún er lögð fyrir á fjögurra ára fresti og voru  svör frá 19.865 unglingum á þessu tímabili lögð til grundvallar. Einnig var skoðað hvaða þættir það væru sem orsökuðu þessa miklu breytingu á síðustu 20 árum. Eru unglingar nú t.d. miklu betur upplýstir um hættuna sem af neyslu stafar? Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Drug and Alcohol Review fyrr á þessu ári. Þar gefur að líta ítarlegri tölfræðiúrvinnslu en hér fer á eftir.

Mynd 1 sýnir greinilega mikla aukningu í hópi þeirra unglinga sem aldrei hafa bragðað áfengi. Árið 1995 voru um 21% 10. bekkinga sem svöruðu þannig en 20 árum síðar var hlutfallið komi upp í 66%. Á þessu sama tímabili varð engin veruleg breyting á fjölda þeirra sem sagðist einhvern tíma hafa prófað kannabis. Þetta sýnir að sú hugmynd að minni áfengisneysla hefði skilað sér í meiri kannabisneyslu virðist ekki eiga við rök að styðjast að þessu leyti.

Mynd 1. Hlutfall íslenskra unglinga sem hafa aldrei drukkið áfengi og aldrei prófað kannabis (prósentur og 95% öryggisbil).

Þó mun færri unglingar hafi prófað áfengi og svipað hlutfall hafi prófað kannabis þá er öll sagan vitanlega ekki þar með sögð. Það er einnig mikilvægt að skoða breytingar meðal stórnotenda. Mynd 2 sýnir einmitt hlutfall 10. bekkinga sem segjast hafa drukkið áfengi eða notað kannabis 40 sinnum eða oftar. Hvað áfengisdrykkjuna varðar sést svipuð þróun og á mynd 1. Verulega hefur dregið úr fjölda þeirra sem segjast mjög oft hafa drukkið áfengi. Árið 1995 höfðu 14% unglinga drukkið áfengi 40 sinnum eða oftar, en 20 árum síðar var hlutfallið 3%. Mikil kannabisneysla hefur hins vegar verið hægt og sígandi að sækja í sig veðrið á síðustu tveimur áratugum. Þó hlutfall nemenda sem hafa notað kannabis 40 sinnum eða oftar sé aðeins 2,3% þá hefur það rúmlega þrefaldast frá því árið 1995. Þannig að þó að fjöldi þeirra unglinga sem einhverju sinni hafa notað kannabis hafi ekki breyst þá hefur stórnotendum fjölgað. Áfengisneyslan hefur hins vegar minnkað að öllu leyti.

Mynd 2. Hlutfall íslenskra unglinga sem hafa drukkið áfengi og prófað kannabis 40 sinnum eða oftar (prósentur og 95% öryggisbil).

En hver er orsökin fyrir þessum miklu breytingum á unglingadrykkju á Íslandi? Til þess að svara þessari spurningu voru borin saman svör frá árinu 1995 við þau sem fengust 2015. Í ESPAD-rannsókninni hafa unglingarnir verið beðnir um að gefa álit sitt á því hversu hættulega þeir telja ýmiskonar vímuefnanotkun. Í töflu 1a er samanburður á því hversu hættulegt þeir töldu að drekka 5 drykki eða meira um helgi. Eins og sjá má virðist mat þeirra á hættunni af áfengisneyslu lítið hafa breyst síðastliðin 20 ár – fleiri sem svöruðu 2015 sögðu reyndar að hættan væri mikil en fleiri sögðu líka að hún væri engin. Mat unglinga á hættunni af áfengisneyslu virðist a.m.k. ekki skýra hina miklu minnkun í drykkju. Eins og tafla 1b sýnir eru unglingar í dag miklu jákvæðari gagnvart kannabisneyslu en jafnaldrar þeirra voru fyrir 20 árum.

Tafla 1. Mat unglinga á áhættu reglulegrar áfengisdrykkju og kannabisneyslu 1995 samanborið við 2015.Í töflu 2 má sjá muninn á því hvernig 10. bekkingar mátu aðgengi að áfengi og kannabis árið 1995 og 2015. Af þeim áfengistegundum sem spurt var um höfum við valið aðgengi að bjór sem dæmi. Af samanburðinum má augljóslega ráða að aðgengi að áfengi (bjór) hefur minnkað mikið frá 1995 til 2015. Þetta er mjög áhugavert þar sem lítil breyting hefur verið á sölufyrirkomulagi áfengis á þessu tímabili. Það sem líklega ræður er að fullorðnir einstaklingar í umhverfi unglinga eru í flestum tilfellum hættir að kaupa áfengi fyrir þá. Samanburðurinn á aðgengi að kannabis milli 1995 til 2015 er mjög áhugaverður. Í fyrsta lagi vegna þess að sú skoðun margra að nú „sé allt vaðandi í kannabis á Íslandi“ virðist ekki eiga við um aðgengi unglinga. Vissulega hafa of margir unglingar greiðan aðgang að efninu en þannig hefur það alltaf verið. Í öðru lagi er ótrúlegt að sjá hversu litlar breytingar hafa orðið á 20 árum á mati unglinganna á aðgenginu. Tölurnar fyrir 1995 og 2015 eru nánast þær sömu.

Tafla 2. Mat unglinga á því hversu auðvelt eða erfitt er að nálgast áfengi eða kannabis 1995 samanborið við 2015.

Þriðja breytan sem við skoðuðum sem hugsanlegan áhrifavald minnkandi unglingadrykkju var eftirlit foreldra. Í spurningalista ESPAD-rannsóknarinnar er það metið með nokkrum spurningum en í töflu 3 má sjá mat unglinganna á því hversu oft foreldrar þeirra vita hvar þeir séu á kvöldin. Gríðarlegar breytingar hafa orðið á svörum við þessari spurningu á 20 árum og greinilegt að foreldrar í dag eru miklu meðvitaðri um ferðir barna sinna en áður.

Tafla 3. Mat unglinga á því hversu oft foreldrar þeirra vita hvar þeir séu á kvöldin.

Það er í eðli sínu erfitt að mæla árangur forvarna. Yfirleitt eru mörg forvarnarverkefni í gangi í einu og það sem virkar sem forvörn fyrir einstakling nær ekki endilega að hafa áhrif á hópinn í heild. Af ofangreindri rannsókn má þó ráða að hinn mikli samdráttur í áfengisdrykkju unglinga skýrist ekki af breytingum á viðhorfi þeirra heldur af eftirliti foreldra og minna aðgengi að áfengi. Mikilvægt er að stjórnvöld geri sitt ítrasta til að viðhalda þeim árangri. Hvað varðar aukninguna í fjölda stórnotenda kannabis sem sést á þessu tímabili, þá er ólíklegt að sömu meðul dugi. Til þess að ná til þessara unglinga þarf að beita öðrum og sértækari aðferðum. Hins vegar skiptir máli að ekki sé farið í stjórnvaldsaðgerðir sem gerir vandann enn meiri en þegar er. Að mati höfundar væri lögleiðing kannabisefna sem talsvert hefur verið í umræðunni að undanförnu dæmi um slíkt.


Ársæll Már Arnarsson er prófessor í tómstunda- og félagsmálafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann var áður prófessor í sálfræði við Háskólann á Akureyri og stundakennari við Læknadeild H.Í. og sálfræðideild Háskólans í Reykjavík. Hann hefur birt vísindarannsóknir sínar í rúmlega 100 greinum, bókarköflum, skýrslum og bókum.

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp