Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Árangursríkt samstarf Krikaskóla og Heilsugæslu Mosfellsbæjar

í Greinar

Þrúður Hjelm

 

Þegar Krikaskóli tók til starfa í nýbyggingunni  við Sunnukrika í Mosfellsbæ vorið 2010 voru mörkuð spor í samstarfi skólans og Heilsugæslunnar í Mosfellsbæ.

Í skólanum eru börn á aldrinum tveggja til níu ára – þar eru því leikskólabörn og svo börn á yngsta stigi grunnskólans í sama húsnæði og samnýta alla aðstöðu skólans.

Til stóð að skólahjúkrunarfræðingur hefði viðveru í skólanum til að sinna þeim grunnskólabörnum sem í skólanum væru hverju sinni.  Skólahjúkrunarfræðingurinn sinnir fræðslu og eftirliti með heilbrigði og heilsufari barna á aldrinum sex til níu ára.  Áætluð viðvera skólahjúkrunarfræðings var ekki löng  í hverri viku enda börnin ekki mörg á grunnskólaaldri.  Sú hugmynd kom því upp hvort einnig væri hægt að þjónusta leikskólabörnin innan skólans.

Greining var gerð á þeirri þjónustu sem heppilegt væri að veita af hendi Heilsugæslunnar og sá hluti ung- og smábarnaverndarinnar sem hægt væri að veita utan heilsugæslustöðvar var færður í skólann.  Í ljós kom að best væri að halda læknisskoðunum á Heilsugæslustöðinni en alla aðra þjónustu væri hægt að veita í skólanum.

Skólahjúkrunarfræðingur sinnir því bæði leik- og grunnskólabörnum í Krikaskóla og þjónustu við þau og fjölskyldur þeirra. Þroskamat og eftirfylgni í tveggja- og hálfsársskoðun og fjögra ára skoðun er framkvæmd í skólanum í samstarfi við foreldra sem það vilja. Foreldrar geta valið að sækja þessa þjónustu á Heilsugæslustöð ef þeir óska frekar en mjög fáir velja það. Þar er helst um að ræða foreldra barna sem fædd eru yfir hásumarið þegar skólahjúkrunarfræðingur er ekki við í skólanum.

Barnið hittir því hjúkrunarfræðing sem það þekkir í því umhverfi sem það dvelur í á hverjum degi. Börnunum líður vel í þessum aðstæðum og ekki hefur komið til þess að endurtaka þurfi komu barna til að ljúka mælingum. Öllu er hægt að ljúka í einni heimsókn til hjúkrunarfræðingsins  og hagræðið fyrir alla gríðarlegt.

Ef á þarf að halda er hægt að kalla til kennara viðkomandi barns, með mjög stuttum fyrirvara, eða sérkennara með skólahjúkrunarfræðingi og foreldri til að ræða inngrip eða áframhaldandi könnun á þroskaþáttum barna í skólanum. Slíkt hefur einnig flýtt fyrir og auðveldað ákvörðun um að koma málum í rétt ferli, barninu til hagsbóta. Snemmtæk íhlutun getur skipt sköpum fyrir barnið og því teljum við að allt sem flýtir fyrir inngripi sé af hinu góða.

Þessi leið í Krikaskóla hefur fækkað þeim skiptum þar sem hjúkrunarfræðingur þarf að bóka endurkomu hjá barni til að halda áfram með þroskamat sem ekki náðist að ljúka í einni heimsókn. Foreldrar telja mikið hagræði af þessu fyrirkomulagi enda gott að koma í skólann til barnsins og hitta þar fyrir skólahjúkrunarfræðing. Barnið þekkir hjúkrunarfræðinginn sem starfsmann í skólanum og tengsl myndast. Kennarar hafa einnig snúið sér beint til hjúkrunarfræðingsins og beðið um að fylgst sé sértaklega með ákveðnum þáttum við þroskamatið í samstarfi við foreldra.

Við teljum að þetta samstarfsverkefni hafi umtalsverða kosti og höfum lagt áherslu á að viðhalda því. Það hefur því þróast hjá okkur á sama tíma og skólinn hefur stækkað en bæði starfsmenn Krikaskóla og heilsugæslunnar eru sammála um gæði þess.


Þrúður Hjelm er skólastjóri Krikaskóla

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp