Nám og meðnám


Hafþór Guðjónsson, dósent


Skólastarf, frá og með miðstigi grunnskóla, snýst að verulegu leyti  um að kenna ákveðnar námsgreinar. Þá koma námsbækurnar inn með fullum þunga og námið felst einkum í því að tileinka sér það sem stendur í námsbókunum og kunna það til prófs. Dewey (1938/2000) víkur að þessu í bókinni Experience and Education, gagnrýnir þar hefðbundið skólastarf fyrir að vanrækja að taka með í reikninginn það sem lærist óbeint og er hvass í máli:

Ef til vill er hin mesta af öllum kennslufræðilegum villum fólgin í þeirri hugmynd að maður læri einungis þann sérstaka hlut sem hann er að læra um þá stundina. Það sem lærist óbeint eins og t.d. myndun varanlegra viðhorfa, jákvæðra og neikvæðra, getur verið og er oft langtum mikilvægara en sú lexía í stafsetningu, landafræði eða sögu sem lærð var. Því þessi viðhorf koma til með að skipta mestu máli í framtíðinni. Langmikilvægasta viðhorfið sem myndast getur er löngun til að halda áfram að læra (bls. 58).

Hér styðst ég við þýðingu Gunnars Ragnarssonar eins og hún birtist í íslensku útgáfunni af Experience and Education en hún ber heitið Reynsla og menntun og kom út árið 2000. Gunnar notar orðalagið „það sem lærist óbeint“ og forðast þannig að þýða beint orðasambandið „collateral learning“  sem Dewey (1938) notar í Experience and Education (bls. 48). Að minni hyggju er þetta hins vegar svo mikilvægt hugtak að það verðskuldar beina þýðingu. Ég legg hér til að við köllum það „meðnám“.

Hugtakið meðnám hjálpar okkur, sýnist mér, að sjá skólastarf nýjum augum; gefa gaum að öðru en því sem er kennt með beinum hætti, öllu „hinu“ sem nemendur læra með óbeinum hætti, til dæmis viðhorfum eins og Dewey nefnir en líka ýmiss konar færni sem nemendur öðlast með því að taka þátt í  margs konar athöfnum.

Guy Claxton (2008) tekur í svipaðan streng í bókinni What´s the Point of School? –  Rediscovering the Heart of Education. Menntun, segir Claxton (2008) snýst ekki bara um „innihald“ eða námsefni heldur líka og ekki síður um starfshætti í skólastofunni og það sem af þeim hlýst, til dæmis námsvenjur, hugsun, og viðhorf nemenda. Ef skólaganga þín, segir Claxton, snerist að mestu leyti um að taka glósur og muna þær til prófs þá varstu kannski fyrst og fremst að læra að tileinka þér ákveðna verkhætti, námshætti og viðhorf. Þú lærðir mest af öllu að glósa og leggja hluti á minnið,  varðst kannski góður í  því og fórst jafnvel að trúa því að nám gengi út á það að glósa og að leggja hluti á minnið. Hafir þú á hinn bóginn, bætir Claxton við, gengið í skóla þar sem áhersla var lögð á samstarf, samræður og verkefni af ýmsu tagi má ætla að þú búir að því. Þú  fékkst þá  þjálfun í að vinna að verkefnum, vinna með öðrum og ræða við aðra; og fórst jafnvel að trúa því að nám í skóla fælist fyrst og fremst í að læra að gera hluti með öðrum, rækta með sér nýjar hugmyndir og læra að hugsa. Menntun, bætir Claxton (2008) við, má skoða sem þjálfun í að hugsa, skrifa, athuga og tala saman. Hún er, bætir hann við, með tilvísun í Albert Einstein, „það sem situr eftir þegar allt annað er gleymt og grafið“ (bls. vii). Og það sem situr eftir, sýnist manni, er meðnámið: Vinnulag, námsvenjur, kannski ný orð og talshættir, ef til vill ný hugsun og viðhorf; allt þetta „hitt“ sem maður lærði óbeint í gegnum störfin sem maður vann og þátttöku í athöfnum með öðrum og varð með tímanum hluti af manni sjálfum,  hluti af sjálfsmyndinni.

Claxton hefur ekki látið sitja við orðin tóm. Hann hefur hrint af stað skólaþróunarverkefni sem nefnt hefur verið Building Learning Power (BLP) og náð til þúsunda skóla, bæði á Bretlandi og í öðrum löndum. BLP snýst, eins og nafnið gefur til kynna, einkum um að hjálpa ungu fólki að verða betur hugsandi og öflugri námsmenn, bæði í skólum og utan þeirra. Skólar nú á tímum, segir á heimasíðu BLP, þurfa að gera meira en að undirbúa nemendur fyrir próf. Þeir verða líka að undirbúa þá fyrir lífið. Mestu máli skiptir að þróa skólamenningu og námsumhverfi sem „ræktar með ungu fólki venjur og viðhorf sem auðvelda því að takast á við erfiðleika og óvissu á yfirvegaðan hátt“ eins og það er orðað hjá BLP (2012). Lykilatriðið, segja talsmenn BLP, er að efla með nemendum vilja til að takast á við hlutina og færni til að takast á við hvers kyns viðfangsefni, bæði einir og í samvinnu við aðra; kenna þeim til dæmis að hugsa sig vel um, rýna í eigin viðhorf og endurskoða þau ef þörf krefur. Þjálfa þá í að spyrja gagnrýninna spurninga, ímynda sér hluti, hlusta á aðra,  sýna tillitssemi  og gefast ekki upp þó móti blási. Kjörorð BLP eru seigla (resilience), ráðsnilld (resourcefulness), íhygli (reflectiveness) og gagnkvæmni (reciprocity). Þessir þættir, fullyrða talsmenn BLP, ráða miklu um það hvernig nemendum gengur í skóla og þeir ráða líka miklu um það hvernig fólki farnast í lífinu.

Í þessu myndskeiði segja þrír kennarar við Hallbankgate skólann í Cumbria héraði á Englandi frá reynslu sinni af því starfa við skóla sem hefur hugmyndafræði Building Learning Power að leiðarljósi. Meðan kennararnir  segja frá fáum við svipmyndir úr skólanum sem eru ekki síður athygli verðar. Hér er heimasíða skólans, en þar er að finan fleiri myndskeið sem sýna vinnubrögð í anda PBL og viðhorf nemenda og kennara til þeirra.

Skólar sem kenna í anda BLP leggja áherslu á þessa þætti. Ekki svo að skilja að námsefninu sé varpað fyrir róða. Síður en svo. En kennslan verður tvíhliða (dual focus). Annars vegar beinist hún að innihaldinu (námsefninu) hins vegar starfsháttunum í skólastofunni. Starfsháttunum er nú gefinn sérstakur gaumur í ljósi þeirrar sannfæringar að hvernig unnið er í skólastofu sé ekki síður mikilvægt en það sem verið er að læra um þá stundina. Ef vel er að verki staðið má gera ráð fyrir að nemendur standi sig ekki bara vel á prófinu heldur líka að þeir verði betri námsmenn og um leið betur í stakk búnir að takast á við lífið.

Meðnámið er sett í öndvegi, við hliðina á náminu.

Heimildir

Building Learning Power. (2012). Heimasíða verkefnisins Building Learning Power. Sótt af https://www.buildinglearningpower.com/

Claxton, G. (2008). What‘s the point of school? Rediscovering the heart of education. Oxford: Oneworld Publications.

Dewey, J. (1938/2000). Reynsla og menntun. Íslensk þýðing Gunnars Ragnarssonar á Experience and education sem kom fyrst út í Bandaríkjunum árið 1938. Reykjavík: Rann-sóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

 
Bókin Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar aðgengileg á heimasíðu Menntavísindastofnunar

Ingvar Sigurgeirsson, prófessor


Á árunum 2009‒2013 var gerð umfangsmikil rannsókn á starfsháttum í grunnskólum. Rannsóknin er gjarnan nefnd Starfsháttarannsóknin en meginmarkmið  hennar var að veita yfirsýn yfir starfshætti í íslenskum grunnskólum. Meðal annars vakti fyrir rannsakendum að kanna áhrif stefnumörkunar fræðsluyfirvalda um einstaklingsmiðað nám. Rannsóknin mun vera ein sú umfangsmesta sem gerð hefur verið á skólastarfi hér á landi. Verkinu stýrði Gerður G. Óskarsdóttir fv. fræðslustjóri í Reykjavík, en fjöldi annarra fræðimanna kom að verkinu. Einnig tengdust því meistara- og doktorsnemar og fleiri aðilar (alls um 50 manns).

Aflað var umfangsmikilla gagna í 20 grunnskólum, sextán þeirra voru í Reykjavík, tveir á Akureyri, einn í Reykjanesbæ og loks einn sveitaskóli. Gerðar voru vettvangsathuganir, spurningakannanir lagðar fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra og viðtöl tekin.

Í árslok 2014 voru niðurstöður rannsóknarinnar birtar í  bókinni : Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar. Þar er gerð ítarleg grein fyrir framkvæmd rannsóknarinnar og helstu niðurstöðum. Fjallað er um viðhorf nemenda, foreldra og starfsmanna skóla til fjölmargra þátta í skólastarfi. Einnig má nefna skólabyggingar og námsumhverfi, stjórnun og skipulag, kennsluhætti, námsmat, heimanám, þróunarverkefni, þátttöku og samskipti nemenda, samstarf heimila og skóla, tengsl skóla og grenndarsamfélags, útikennslu, list- og verkgreinar og notkun tölvu og upplýsingatækni í skólastarfi. Í lokakafla bókarinnar eru niðurstöður teknar saman og ræddar.

Bókin var gefin út í rúmlega 500 eintökum og er nánast uppseld. Nýlega var ákveðið að birta bókina í rafrænu formi og má sækja hana án endurgjalds á þessa slóð: http://menntavisindastofnun.hi.is/throun_skolastarfs/starfshaettir_i_grunnskolum

Bókin Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar er öðru fremur heimild um starfshætti í grunnskólum í upphafi nýrrar aldar, en það var einnig von rannsakenda að kennarar og annað starfsfólk skóla gæti nýtt  niðurstöðurnar í innra mati skóla og til að meta eigið starf.

Þá er athygli vakin á því að opnaður hefur verið aðgangur að gögnum rannsóknarinnar fyrir fræðimenn og háskólanema, en vinna má fjölmargar fleiri rannsóknir á skólastarfi úr gögnunum. Gagnasafnið er varðveitt hjá Menntavísindastofnun og er hægt að sækja  um aðgang að vettvangslýsingum, afrituðum viðtölum og niðurstöðum spurningakannana, sjá nánar  á þessari slóð: http://menntavisindastofnun.hi.is/gogn_fraedimanna_menntavisindasvids

Loks er þess að geta að nú stendur yfir rannsókn á starfsháttum í framhaldsskólum. Safnað hefur verið gögnum í níu framhaldsskólum víða um um land með vettvangsathugunum og viðtölum við nemendur, kennara og stjórnendur. Úrvinnsla er í gangi og hafa þegar birst greinar með niðurstöðum um ákveðna þætti rannsóknarinnar. Stefnt er að útgáfu bókar, gjarnan í rafrænu formi, um meginniðurstöður. Sjá má  markmið og framkvæmd rannsóknarinnar á þessari slóð: http://menntavisindastofnun.hi.is/sites/menntavisindastofnun.hi.is/files/starfsh_frhsk_skyrsla_19.2.2016.pdf

 
Árborgarmódelið í skólamálum – hvað gerðum við?

thorsteinnÞórdísÞorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri hjá Sveitarfélaginu Árborg og Þórdís H. Ólafsdóttir, verkefnisstjóri hjá skólaskrifstofu Hafnarfjarðar


Í tengslum við umræðuna um PISA og þann samanburð sem hefur verið birtur milli átta stærstu sveitarfélaga landsins hefur margt verið ritað og rætt að undanförnu. Því hefur jafnvel verið haldið fram að bæting hjá Árborg, Hafnarfirði og Reykjanesbæ í PISA sé vegna þess að sveitarfélögin séu að vinna nánast eins í skólamálum. Einn forsvarsmanna vefritsins Skólaþráða hafði samband við fræðslustjóra til að spyrja nánar út í skólamálaáherslur Árborgar og í kjölfarið var ákveðið að skrifa grein í ritið sem gæti kynnt í stuttu máli það sem gert hefur verið í skólamálum sveitarfélagsins á undanförnum misserum. Greinarhöfundar hafa báðir tekið virkan þátt í breytingastarfinu í Sveitarfélaginu Árborg. Þorsteinn Hjartarson frá haustdögum 2011 og Þórdís H. Ólafsdóttir sem kennsluráðgjafi frá haustdögum 2013 fram undir mitt ár 2016 er hún færði sig í Hafnarfjörð. Þar tók hún við starfi verkefnastjóra í bættum námsárangri hjá skólaskrifstofu bæjarins. Greinarhöfundar eru sammála um að þeir geti ekki sagt nákvæmlega til um hvað það er sem hefur skilað bættum árangri Árborgar í PISA en bætinguna megi þó vafalaust rekja til samspils margra þátta sem hér fá nokkra umfjöllun.

Þróun skólamálanna síðustu 4–5 ár

Seinni hluta ársins 2011 var ákveðið að ráða fræðslustjóra hjá Sveitarfélaginu Árborg sem m.a. var falið að vinna að því að styrkja faglega umgjörð skólamála í samstarfi við skóla­stjórnendur, fræðslunefnd og fleiri hags­munaaðila í sveitarfélaginu. Í beinu framhaldi var unnið að nýrri skólastefnu þar sem margir lögðu hönd á plóg. Hugarflugsfundir voru haldnir með foreldrum og skólaráðum og ábendinga­vefur var settur upp. Þar gat fólk sett fram hugmyndir sínar sem nýst gætu við gerð skólastefnunnar. Þá var hugarflugsfundur haldinn með stjórnum nemenda­félaga grunnskólanna og loks var haldinn fundur með kennurum, skólastjórnendum og fulltrúum í fræðslunefnd þar sem lagt var mat á þær áherslur sem lágu fyrir frá fyrri fundum. Stýrihópur annaðist verkstjórn og sam­ræmingar­vinnu en í honum sátu Sandra Dís Hafþórsdóttir, formaður fræðslunefndar, Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri, Guðbjartur Ólason, skólastjóri, og Kristín Eiríksdóttir, leikskólastjóri. Anna Kristín Sigurðardóttir, þáverandi deildarforseti á mennta­vís­inda­sviði Háskóla Íslands, las stefnudrögin yfir og kom með góðar ábendingar.

Úttekt var gerð á skólaþjónustu sveitarfélagsins sem var á þeim tíma í höndum Skóla­skrifstofu Suðurlands. Trausti Þorsteinsson, dósent við Háskólann á Akureyri, var ráðinn í þá vinnu en hann fékk Gunnar Gísla­son fyrrverandi fræðslustjóra, með sér í verkefnið. Þeir félagar skoðuðu ýmis gögn, tóku rýnihópaviðtöl og unnu þétt með vinnuhópi sveitarfélagsins sem hafði það hlutverk að móta framtíðarsýn fyrir skóla­þjónustuna. Niðurstöður má sjá í skýrslu á vefnum en loka­niðurstaða fræðslu- og bæjaryfirvalda í Árborg varð sú að fela fræðslustjóra að vera yfirmaður allrar skóla­þjónustu við leik- og grunn­skóla og stjórnkerfis skólanna um leið og fræðslusvið væri eflt í samræmi við nýjar og breyttar áherslur. Þannig væri auðveldara að efla samráð í skólamálum og fleiri tækifæri byðust skólastjórum, kennurum og foreldrum til að hafa áhrif á upp­byggingu skólaþjónustunnar. Þær áherslur voru í góðu samræmi við nýja skólastefnu Árborgar sem tók gildi á vordögum 2013. Þar er meðal annars lögð áhersla á sterk tengsl skólanna og ýmissa aðila í nærsamfélagi þeirra, talið var mikilvægt að sam­eina skóla­stjórnendur, starfsfólk og helstu hagsmunaaðila í sterka liðsheild sem stefndi í sömu átt.

Hvað var gert til að styrkja liðsheildina?

Í kjölfarið var farið í ýmsar breytingar, efnt var til námskeiða, samráðsfunda skóla­stjórnenda og starfsfólks skólaþjónustu og  stofnaðir faghópar. Allt hefur þetta stuðlað að auknu faglegu samstarfi milli leikskóla, grunnskóla og skóla­þjónustu og hefur meðal annars skilað sér í nýju verklagi í kringum vinnu með mál og læsi bæði í leik- og grunnskólum. Víkjum nú aðeins að upphafi þeirrar vegferðar.

Þegar horft var á megináherslur í skólastefnu Árborgar 2013–2016 lá beint við að nýta hugmyndafræði lærdómssamfélagsins (e. professional learning community) í uppbyggingu nýrrar skóla­þjónustu þar sem margir kæmu að málum er  gætu tekið að sér faglega ábyrgð­­­ar­­­­skyldu. Byggja þurfti upp traust og samstarfs­hugsun meðal skóla sveitar­félags­ins, skólaþjónustu og fræðsluyfirvalda, en nokkur ágreiningur hafði verið uppi um form­gerðar­breytingar á skóla­þjónustunni. Lykilhugtök í þeirri nálgun voru dreifð forysta, styðjandi samvinna, traust og starfsþróun. Nýjar áherslur í skóla­málunum snerust meðal annars um samstarf um lausnir á forsendum hvers skóla þar sem horft væri enn meira á þróun starfshátta. Breytingar á skólastarfinu standa alltaf og falla með kennurum og skólastjórnendum. Að efla samábyrgð skóla, foreldra, skóla­þjónustu og fræðsluyfirvalda sveitarfélagsins skiptir því sköpum í allri skólaþróun og þar með talið fyrir bættan námsárangur og líðan nem­enda.

Heiltæk forysta – aukin gæði í skólastarfi – lærdómssamfélagið

Þegar unnið var að undirbúningi nýrrar skólaþjónustu á haustdögum 2013 var ákveðið að leita í smiðju Önnu Kristínar Sigurðardóttur, þáverandi deildarforseta á menntavísinda­sviði HÍ, sem skipulagði og hélt utan um námskeiðið Heiltæk forysta – aukin gæði í skólastarfi Árborgar í samstarfi við Þórdísi H. Ólafsdóttur sem þá var nýráðin í starf kennsluráðgjafa. Allir skólastjórnendur grunnskóla og leikskóla tóku þátt í námskeiðinu en einnig skólameistari FSu sem tók með sér tvo góða samstarfsmenn. Með þátttöku FSu var stutt enn frekar við faglegt samstarf allra skóla og skólastiga í Árborg. Markmið námskeiðsins var að efla faglegan styrk stjórnenda til að leiða þróun skólastarfs til betri árangurs með áherslu á samvirkni bæði innan skóla og á milli þeirra. Áhersla var á að stjórnendur efldu tengsl sín á milli og nýttu samtaka­máttinn í þróunarstarfi.  Sameiginlegur ásetningur var bætt  menntun í sveitarfélaginu sem heild. Skólastefna Árborgar 2013-2016 var útgangspunktur á námskeiðinu.

Meðal þess sem fjallað var um:

 1. Hugtök  eins og heiltæk forysta, skóli sem lærdómssamfélag, valdefling og teymisvinna
 2. Stefnumótun og forgangsröðun verkefna
 3. Að leiða breytingar
 4. Áætlunargerð og  mat á verkefnum

Þátttakendur voru sammála um að námskeiðið hefði skilað miklu en þar gafst gott tækifæri til samstarfs og ígrundunar þar sem fagleg ábyrgð var mikil sem og skapandi og lausnamiðuð hugsun. Á námskeiðinu var leitað leiða til að þróa samstarfs­verkefni þvert á skóla og skólastig og leggja rækt við samstarfsmenningu sem hvetur til stöðugs náms meðal starfsfólks skólanna í þeim sameiginlega tilgangi að styrkja nám barnanna í Árborg. Hugmyndagrunnur námskeiðsins byggðist á heiltækri nálgun til skólaumbóta og í fyrirlestrum Önnu Kristínar kom fram að þar gilti ekkert „quick fix“ því venjulega þarf þrjú til fimm ár áður en árangur kemur í ljós (Anna Kristín Sigurðardóttir, 2013). Nú þegar börnin í Árborg eru að bæta sig í PISA, vinna með mál og læsi er að skila mælanlegum árangri og faglegt samstarf milli skóla og skólastiga í sveitarfélaginu að eflast verulega, er ljóst að þau orð áttu við rök að styðjast.

Þróunar- og samstarfsverkefni um mál og læsi

Nokkur samstarfsverkefni urðu til á stjórnendanámskeiðinu, Heiltæk forysta – aukin gæði í skólastarfi Árborgar, skólaárið 2013–2014. Tvennt stóð þó líklega upp úr, annars vegar sam­eiginleg ákvörðun leik­skólastjóra að sækja um myndarlegan styrk í Sprota­sjóð til að vinna markvisst með mál og læsi í öllum leikskólum sveitarfélagsins, hins vegar samstarf Þórdísar H. Ólafsdóttur, kennsluráðgjafa, við nokkra kennara, skóla­stjórnendur í Árborg og við Gyðu M. Arnmundsdóttur í Reykjanesbæ, um breytt verklag í vinnu með læsi í grunnskólum sveitar­félagsins. Skólarnir suður með sjó höfðu þegar á þessum tíma sýnt miklar framfarir í námi og kennslu meðal annars með því að nota markvisst bestu mögulegu skimunartæki, greina vel niðurstöður og vinna áfram með þær þannig að nemendur sýndu góðar framfarir í lestri og öðru námi.

Fyrstu skrefin sem lögðu grunn að nýju verklagi með læsi í grunnskólum Árborgar voru svo stigin á vordögum 2014. Þau skref færðu góð rök fyrir að hefja markvissa og sam­ræmda vinnu í öllum grunnskólunum. Sú ákvörðun var tekin á samráðsvettvangi skólastjórnenda, fræðslustjóra og starfsfólks skólaþjónustu. Sama vor fóru skólastjórn­endur í Árborg og starfsfólk skólaþjónustu í heimsókn í Reykjanesbæ þar sem afar vel var tekið á móti hópnum, m.a. með kynningu á áherslum bæjarins í skólamálum. Síðar komu svo stjórnendur og starfsfólk skólaþjónustu Reykjanesbæjar í heimsókn í Árborg og því var kominn góður grunnur að faglegu samstarfi þessara tveggja sveitar­félaga. Leituðu sveitarfélögin óhikað hvort í annars smiðju þótt þau væru ekki að innleiða sömu kennsluhættina. Þróun skólamála í Árborg byggðist ekki á miðlægum áherslum þó að skólastefna sveitarfélagsins væri vegvísir eða rammi fyrir helstu áherslur. Síðastliðin fjögur til fimm ár hefur meginstefnið verið sameiginleg ígrundun og gagn­kvæmur stuðn­ingur í skólasamfélaginu.

Árangursríkt læsi í leikskólum Árborgar

Eins og áður segir sóttu leikskólarnir um myndarlegan styrk í Sprotasjóð til að vinna að þróunarverkefni skólaárið 2014–2015 sem hefði það að meginmarkmiði að auka hæfni og þekkingu barna í læsi. Það var ánægjulegt að styrkumsóknin skyldi fá jákvæða afgreiðslu. Dr. Anna Magnea Hreinsdóttir, þáverandi leikskólafulltrúi í Garðabæ, tók að sér verkefna­stjórn og í ágúst 2014 var haldin ráðstefna fyrir allt starfsfólk leikskóla í Árborg á starfsdegi þeirra. Eftir ávarp fræðslustjóra fjallaði Edda Björgvinsdóttir um gleði og húmor og mikilvægi starfsgleði. Því næst kynnti Anna Magnea Hreinsdóttir verkefnið og ræddi útgangspunkt þess; að starfsþróun kennara væri í þeirra eigin höndum og að talið sé að þróunarverkefni eins og hér um ræðir séu til þess fallin að efla vald kennara og annars starfsfólks. Meginstef þróunarverkefnisins var í anda hugmynda­fræði lærdóms­samfélagsins enda var öll vinnan um veturinn og samstarf milli leikskólanna í þeim anda. Unnið var að þróun daglegra og markvissra sögu- og samræðustunda með áherslu á aukinn hlustunar- og málskilning, orðaforða, hugtakaskilning og tjáningu, einnig með ýmis verkefni sem tengjast daglegu lífi barnanna. Þá var leitast við að fræða foreldra leikskólabarna og styðja þá í hlutverki sínu í málörvun. Ásthildur Bj. Snorradóttir, talmeina­fræðingur, var fengin til að vera með fræðslu um málörvun og snemmtæka íhlutun, en skólar og skólaþjónusta hafa lagt aukna áherslu á að grípa sem fyrst inn í ef merki eru um einhvern vanda. Hægt er að nálgast lokaskýrsluna á vefsvæði Árborgar, sjá nánar í Árangursríkt læsi í leikskólum Árborgar.

Unnið með læsi í leikskólanum Álfheimum
Unnið með læsi í leikskólanum Álfheimum

Nýtt verklag í grunnskólum Árborgar

Þegar ákveðið var formlega á samstarfsfundi vorið 2014 að nota markvisst bestu mögulegu skim­unar­tæki í grunnskólum sveitarfélagsins til að meta lestrarhæfni nemenda, þurfti auðvitað að ræða hvað ætti að gera við niðurstöður skimana, hvernig standa ætti að kynningu á niðurstöðum og hvernig hægt væri að nota þær til að styrkja nám og námsumhverfi nem­enda á forsendum hvers og eins. Sjálfstraust nemenda er ein af miklvægustu náms­undir­stöðunum og því þurfti að passa vel að veikleikar nemenda væru ekki mið­punktur aðgerða. Ákveðið var að setja af stað hraðlestrarnámskeið í beinu framhaldi af LOGOS skimun og þá var mikilvægt að kynna vel fyrir nemendum hvaða gagn þeir gætu haft af þessum skim­unum og lestrarnámskeiðum, sérstaklega þeim nemendum sem höfðu þörf fyrir námskeið. Ekki var nóg að horfa á tölulegar niðurstöður skimana heldur var lögð áhersla á öflugt samstarf skólastjórnenda, kennara, nemenda, foreldra og starfsfólks skóla­þjónustu. Það samstarf skyldi styrkja sameiginlega ábyrgð hópsins á námi nemenda og bættum námsárangri í anda hug­mynda­fræði lærdómssamfélagsins. Einnig var stofnaður faghópur grunnskólanna og skólaþjónustu um læsi þar sem gafst tækifæri til faglegrar umræðu og þar skapaðist vettvangur fyrir gagnkvæman stuðning og miðlun á reynslu.

Hið nýja verklag var í fyrstu á þann veg að nota skimunartækið Leið til læsis í 1. bekk og LOGOS skimun í 3., 6. og 9. bekk. LOGOS er tölvutækt greiningarpróf sem er grundvallað á nýlegum rannsóknum á lestrarfærni. Skólaárið 2014‒2015 lögðu kennsluráðgjafar og sérkennarar við skólana LOGOS skimun fyrir og kennsluráðgjafar unnu úr niðurstöðum sem voru svo kynntar fyrir skólastjórnendum og kennurum viðkomandi árganga. Þessir fagaðilar ákváðu saman hvernig staðið skyldi að lestrarnámskeiði fyrir þá nemendur sem á þurftu að halda. Upplýsingabréf var sent til foreldra þar sem skimunarniðurstöður voru kynntar og LOGOS greiningartækið útskýrt nánar. Mikil áhersla var lögð á lestrarþjálfun heima og í skóla, einkum hjá þeim nemendum sem fóru á átta vikna lestrar­námskeið í kjölfar skimunar. Eftir lestrar­námskeiðið var skimað aftur og ánægjulegt var að sjá miklar framfarir hjá nemendum. Starfið miðar fyrst og fremst að því að bæta náms­árangur nemenda, styrkja kennara í starfi og vinna vel með foreldrum. Þeir nemendur í Árborg sem tóku PISA 2015 höfðu einmitt farið í LOGOS skimun í 9. bekk og hluti þeirra fór í kjölfarið á lestrarnámskeið sem skilaði góðum framförum hjá þeim.  Meðfylgjandi myndir sýna að framfarir geta verið góðar eftir átta vikna lestrarnámskeið sem vel er staðið að.niundi_bekkur

niundi_bekkur_b

Verkefnið hefur svo þróast vel að undanförnu og nú er svo komið að hver skóli sér að mestu um framkvæmd læsisskimana og skipulag lestrarnámskeiða en kennsluráðgjafi kemur meira að faglegu samstarfi, ráðgjöf, tölfræðilegri úrvinnslu og greiningu á niðurstöðum fyrir sveitarfélagið. Allir skólar Árborgar nýta markvisst Lesferil sem er hið nýja lesskimunartæki sem Mennta­málastofnun hefur smíðað. Þá hefur verið lögð meiri áhersla á að nýta niðurstöður samræmdra prófa sem skimunartæki bæði í íslensku og stærðfræði. Með nýjum upplýsingagrunni Mennta­málastofnunar verður öll slík vinna mun auðveldari og fljótlegri.

Lífið er læsi

Unnið var af fullum krafti að gerð læsisstefnu Árborgar skólaárið 2015–2016 af faghópum leik- og grunnskóla og skólaþjónustu. Það verklag og þróunarstarf sem fjallað var um hér að framan var að sjálfsögðu megingrunnur læsisstefnunnar sem hefur fengið heitið Lífið er læsi. Grunnurinn var einnig Hvítbók um umbætur í menntun og Þjóðarsáttmáli um læsi sem gerður var í september 2015 milli mennta- og menningar­málaráðherra, Sveitarfélagsins Árborgar og Heimilis og skóla, landsamtaka foreldra. Fulltrúar Árborgar tóku virkan þátt í undirbúnings- og samráðsfundum þegar unnið var að gerð Hvítbókar skólaárið 2013–2014. Í læsisstefnu Árborgar, sem þegar hefur verið samþykkt af fræðslunefnd, er fjallað um megináherslur og markmið í læsi. Hver skóli útfærir leiðir með fjölbreytilegum og einstaklingsmiðuðum kennslu­aðferðum. Sett eru fram ýmis viðmið um málþroska, hljóðkerfisvitund, orðaforða, leshraða og lesskilning. Lögð er áhersla á að foreldrar taki virkan þátt í námi barna sinna í samvinnu við skólana og foreldrafélögin í Árborg með það að leiðarljósi að vinna að jákvæðri skólaþróun, aukinni velferð nemenda og stuðla að besta mögulega námsárangri nemenda.

Það var gleðilegt og ákveðin viðurkenning fyrir alla sem hafa komið að þróun skólamálanna í Árborg að nýr læsissáttmáli Heimilis og skóla var kynntur við hátíðlega athöfn í Vallaskóla á Selfossi 1. september 2016. Frétt um viðburðinn er aðgengileg á heimasíðu Árborgar.

Framangreint verklag í leik- og grunnskólum auðveldaði gerð læsisstefnunnar, sem enn er í formi draga, en ákveðið var að bíða með útgáfu hennar þar til lesfimiviðmið Mennta­mála­stofnunar væru komin. Hrund Harðardóttir, kennsluráðgjafi, vinnur nú að loka­frágangi í samstarfi við hóp áhuga­fólks um lestur. Hrund mun meðal annars kynna nýja útgáfu á fundi fræðslunefndar í janúar 2017.

Fjölbreytileg þróunarverkefni í anda lærdómssamfélagsins

Hér næst alls ekki að fjalla um öll þau umbóta- og þróunarverkefni sem hafa verið unnin í skólum og skólaþjónustu Árborgar á undanförnum árum. Eitt þeirra er samstarfs­verkefni heilsu­­gæslu, félagsþjónustu og skólaþjónustu þar sem sálfræðingar koma mikið við sögu, meðal annars með námskeiðahaldi fyrir börn, foreldra og starfsfólk. Þá hefur aukin áhersla á ráðgjöf og ýmis verkefni er tengjast námi og kennslu tvítyngdra barna ekki fengið neina umfjöllun að þessu sinni. Þó er ekki hægt ljúka þessari samantekt án þess að fjalla um þrjú verkefni sem snúa beint að eflingu starfshátta í leik- og grunnskólum. Fyrir þá sem vilja lesa meira um þessi verkefni og fleiri til er vísað í ársskýrslur fræðslusviðs sem eru aðgengilegar á Netinu ásamt öðru efni.

Erasmus+ verkefnið Nám, störf og lærdómssamfélag, sem var samstarfsverkefni grunn­skóla sveitarfélagsins og skólaþjónustu skólaárið 2015‒2016, hefur breytt miklu fyrir skólasamfélag Árborgar. Verkefnið hefur stuðlað að skýrari sýn skóla og skólaþjónustu. Það hefur styrkt faglega skóla­málasamræðu þar sem hugmyndum og aðferðum um betri kennslu, starfshætti og skóla­þjónustu er miðlað. Það á ekki síst við gagnvart undirbúningi og framkvæmd Skóladags Árborgar, sem haldinn var í apríl 2016 fyrir allt starfs­fólk leik- og grunnskóla. Nokkrir sem leiddu undir­búningsvinnuna tóku einnig þátt í Erasmus+ verkefninu.

Undirbúningshópurinn
Undirbúningshópurinn

Allt skipulag Skóladagsins byggðist á hugmyndafræði lærdómssamfélagsins þar sem litið er svo á að skólastarf sé ekki hægt að þróa í einangrun. Góður árangur næst með nemendum okkar ef við hjálpum hvert öðru og erum tilbúin að deila góðum hugmyndum, þekkingu og reynslu. Erasmus+ verkefnið auðveldaði m.a. gerð umsóknar í Sprotasjóð fyrir stórt þróunarverkefni skóla­árið 2016‒2017 sem nefnist Námsmat á mörkum skólastiga í Árborg. Verkefnið hlaut náð fyrir augum sjóðsstjórnar enda er um að ræða samstarfsverkefni allra leikskóla og grunnskóla sveitarfélagsins og Fjölbrautaskóla Suðurlands. Verkefnastjóri er Rúnar Sigþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Verkefnið beinist að því að þróun námsmats geti stuðlað að samfellu milli skólastiga með það að meginmarkmiði að bæta námsaðstæður, nám og árangur nemenda. Í hverjum skóla hefur verið stofnuð þróunarstjórn sem veitir verkefninu forystu, er samhæfingar­aðili og veitir kennurum stuðning. Þróunarstjórnir allra skólanna koma saman þrisvar til fjórum sinnum yfir skólaárið til að bera saman bækur sínar og skiptast á reynslu­sögum. Í öllum skólunum er leitast við að bæta námsaðstæður nemenda og náms­árangur, einnig að efla þekkingu og hæfni kennara á sviði námsmats og styrkja samspil náms, kennslu og námsmats sem stuðli að hæfni skólanna til varanlegra breytinga. Starfsþróun kennara og þróun skóla­menningar í átt til lærdómssamfélaga er afar stór þáttur í þróunarverkefninu.

Að lokum

Eins og nefnt var í inngangsorðum var tilefni þessa greinarskrifa bæting Árborgar í PISA og fréttaflutningur í kjölfarið um það hvernig sveitarfélagið hefur verið að vinna að þróun skóla­málanna. Frá árunum 2012–2013 hafa skólamálin verið í mikilli deiglu og mörg metnaðarfull umbóta- og þróunarverkefni hafa verið unnin í Árborg. Áhersla hefur verið lögð á góða líðan og þarfir barnanna og árangur á öllum sviðum. Þáttur foreldra er stór en þar hefur einnig verið unnið í anda hugmynda­fræði lærdómssamfélagins, meðal annars með stofnun Samborgar sem eru sam­tök foreldra­félaga í Árborg. Samtökin voru tilnefnd til foreldraverðlauna Heimilis og skóla í maí 2016. Ein aðalástæðan fyrir stofnun Samborgar var að efla samstarf á milli foreldrafélaganna í sveitarfélaginu börnunum til hagsbóta. Það er í takt við þær áherslur sem fjallað hefur verið um í þessari grein. Í öllu okkar starfi megum við aldrei missa sjónar af því að börnin og þarfir þeirra eiga alltaf að vera í brennidepli þegar áherslur eru lagðar í námi, kennslu og skólaþjónustu.

„Nám á ekki að vera eins og fata sem fyllt er af vatni heldur á nám að snúast um hvernig við fáum neistann til að loga svo úr verði eldur“

Heimildir og krækjur

 

 

 

 
Átak í breyttum kennsluháttum – innleiðing spjaldtölva í Kópavogi

bjorn_gunnlaugssonBjörn Gunnlaugsson, verkefnisstjóri


Niðurstöður samræmdra prófa voru tilefni fréttar sem birt var á vef Kópavogsbæjar seint í mars 2015, fáeinum dögum áður en höfundur þessa greinarkorns hóf störf sem verkefnastjóri spjaldtölvuinnleiðingar í grunnskólum bæjarins. Í fréttinni kom fram að grunnskólar í Kópavogi hefðu verið yfir landsmeðaltali í öllum greinum og árgöngum þetta árið. Það mátti því líta svo á að skólastarf í Kópavogi væri í miklum blóma, að minnsta kosti miðað við þennan mælikvarða.

Bæjaryfirvöld höfðu hins vegar áttað sig á því löngu fyrr að breytinga væri þörf og höfðu viljann til að hrinda þeim í framkvæmd. Undirbúningur hafði staðið yfir um þó nokkurt skeið. Í Salaskóla var farið af stað með þróunarverkefni í notkun spjaldtölva í kennslu árið 2012, sem varð meðal annars til að vekja áhuga bæjaryfirvalda. Skólinn var með 30 spjaldtölvur auk þess sem nemendum bauðst að koma með sín eigin tæki í skólann og var verkefnið unnið í samstarfi við tölvudeild bæjarins.

Ný stefna sveitarfélagsins um upplýsingatækni í skólum leit dagsins ljós árið 2012 og þá var hafist handa við uppbyggingu innviða, sér í lagi þéttingu þráðlauss nets í skólunum. Í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna 2014 var gerður málefnasamningur nýs meirihluta þar sem kveðið var á um stórtæka tæknivæðingu grunnskólanna. Öllum grunnskólakennurum sem og öllum nemendum á mið- og unglingastigi skyldu afhentar spjaldtölvur til einkanota áður en kjörtímabilið væri á enda. Einnig var ákveðið að ráðinn skyldi verkefnastjóri til að stýra innleiðingunni, kerfisstjóra sveitarfélagsins var falin ábyrgð á tæknihlið verkefnisins og ráðnir skyldu þrír kennsluráðgjafar í fullt starf til stuðnings kennurum.

Aðdragandi og markmið

Haustið 2014 var skipaður undirbúningshópur sem stýrt var af menntasviði og hafði það hlutverk að leggja fyrstu drög að kennslufræðilegum markmiðum innleiðingarinnar. Hópnum var falið að gæta þess að hér yrði ráðist í skólaþróunarverkefni fyrst og fremst en ekki tæknivæðingu eingöngu. Í vinnu hópsins urðu til leiðarljós sem síðar áttu eftir að taka á sig skýrari mynd og verða að skilgreindum markmiðum átaks í breyttum kennsluháttum. Rýnt var í notkunarmöguleika spjaldtölvunnar sem náms- og kennslutækis og áhersla lögð á að færa í orð hvernig ná mætti fram skólabót með tilstuðlan spjaldtölvunnar og annarrar tækni.

Spjaldtölvur hafa víða rutt sér til rúms í skólastarfi á undanförnum árum en aðgengi nemenda að þeim er með ólíkum hætti. Margir skólar eiga spjaldtölvur sem kennarar og nemendur geta fengið að láni til afnota við tiltekin verkefni. Í öðrum skólum tíðkast að nemendur komi í skólann með sín eigin snjalltæki, ýmist spjaldtölvur eða síma. Þessar nálganir hafa ýmsa kosti en eiga það þó sameiginlegt að ávinningur nemandans af spjaldtölvunni er takmarkaður, meðal annars vegna þess að verkefni hafa tilhneigingu til að vera smá í sniðum og einföld vegna tímatakmarkana. Þá verður oft lítil samfella milli ólíkra verka nemandans þegar ávallt þarf að skila tækinu að verki loknu og verkefnin því oft háð því að úr verði vistanlegur afrakstur. Færa má rök fyrir því að ávinningur nemandans af spjaldtölvunni aukist því meiri afnot sem hann hefur af henni. Víða er því farin sú leið að hver og einn nemandi hafi sína eigin spjaldtölvu sem enginn annar notar og varð sú leið fyrir valinu í Kópavogi. Þannig er stuðlað að því að nemandi geti sniðið nám sitt að eigin þörfum og áhugasviði. Einnig gerist nemendum þannig kleift að stunda ýmiskonar óformlegt nám utan skóla. Spjaldtölvan er létt og meðfærileg og geta nemendur því nýtt hana nánast hvar og hvenær sem er til náms og afþreyingar.

Þessir eiginleikar spjaldtölvunnar falla vel að þeim markmiðum átaks í breyttum kennsluháttum að nemendur hafi meira um nám sitt að segja en áður hefur tíðkast. Börn og unglingar eru fróðleiksfúst og forvitið fólk og með spjaldtölvu í farteskinu gefst þeim kostur á að afla sér upplýsinga og þekkingar, kunnáttu og færni á óteljandi mismunandi vegu. Spjaldtölvur stuðla að fjölbreytni í námsvinnu og strax á fyrstu misserum átaksins hefur það færst í aukana að kennarar leyfi nemendum að velja hvers konar nálgun henti því verkefni sem lagt er fyrir í skólanum hverju sinni. Þannig er einnig ýtt undir aukna einstaklingsmiðun náms og kennurum gert auðveldara að nálgast hvern og einn nemanda á sínum forsendum.

Aukin fjölbreytni, einstaklingsmiðun og valdefling nemenda eru hornsteinarnir sem markmið innleiðingarinnar byggja á. Einnig ber að hafa hugfast að daglegt líf íslenskra grunnskólabarna er nú þegar að miklu leyti orðið rafrænt. Snjallsímaeign fer sívaxandi, samskipti og tómstundir barna fylgja þeirri þróun og börn eru vön því að vera sítengd. Taki skólinn ekki mið af því er ekki von á góðu. Takist á hinn bóginn að færa nám nemenda nær daglegum veruleika þeirra er von til þess að námsáhugi þeirra glæðist og þeir verði virkari þátttakendur í náminu. Hvers kyns skapandi verkefni eru einnig vel til þess fallin að auka ánægju og áhuga nemenda af skólastarfinu og er aukið vægi sköpunar (e. creativty) og nýsköpunar (e. innovation) mikilvægt markmið verkefnisins. Notkunarmöguleikar spjaldtölvunnar eru töluverðir, því hún er í senn myndavél, hljóðnemi og auk þess nettengd. Henni fylgir ýmiskonar hljóð- og myndvinnsluhugbúnaður og er auðvelt að deila verkefnum milli nemenda og til kennara og foreldra. Þess konar verkefni eru vel til þess fallin að haldnar séu kynningar í skólastofunni eða á sal, þar sem nemendur sýna afrakstur vinnu sinnar og greina frá niðurstöðum. Það er dýrmæt færni að geta tjáð sig fyrir framan hóp og útskýrt hugleiðingar sínar og niðurstöður, færni sem eykur sjálfstraust og eflir sjálfsmynd nemenda. Oft liggur beint við að nemendur vinni verkefni af þessu tagi í hópum og ekki er samvinnufærnin síður mikilvæg þegar horft er til framtíðar.

Fyrir kennara getur spjaldtölvan verið bæði tíma- og vinnusparandi tæki, þótt ekki skuli gera lítið úr því að auðvitað þurfa kennarar að verja umtalsverðum tíma og vinnu í að tileinka sér notkun hennar. Til lengri tíma litið má þó gera ráð fyrir að ávinningur kennara verði nokkur og þegar hefur komið fram hjá mörgum kennurum að spjaldtölvan hafi auðveldað yfirferð verkefna og endurgjöf. Ýmiskonar hugbúnað og kerfi er hægt að nýta til að halda utan um afrakstur og árangur nemenda í námsvinnunni og er það stefnan að minnka vægi skriflegra prófa í námsmati. Þegar slíkur fjöldi nemenda hefur fengið í hendur tæki sem veitir þeim aðgang að ótakmarkaðri þekkingu hlýtur afleiðingin að verða sú með tímanum að utanbókarlærdómur hafi minna vægi í námi og kennslu.

Spjaldtölvuátakið í Kópavogi er stærsta verkefni sinnar tegundar á Íslandi og þó víðar væri leitað, ekki síst ef hin séríslenska höfðatala er höfð í huga. Það stappar nærri því að hundraðasti hver Íslendingur sé með spjaldtölvu á vegum Kópavogsbæjar. Verkefnið er þó ekki það fyrsta á Íslandi og varð ekki til í tómarúmi. Áður hafa ýmsir íslenskir skólar tekið spjaldtölvuna upp á sína arma og má þar nefna Norðlingaskóla og Hólabrekkuskóla í Reykjavík, Árskóla á Sauðárkróki og Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit, auk Salaskóla sem áður er getið. Horft var til reynslu þessara skóla við undirbúning innleiðingarinnar í Kópavogi og einnig var leitað fanga erlendis. Fjölmennur hópur skólafólks heimsótti sveitarfélagið Odder á Jótlandi en þar var spjaldtölvuvæðingu grunnskóla hleypt af stokkunum fyrir fimm árum. Einnig hafa verið heimsóttir nokkrir enskir skólar, ráðstefnur sóttar hérlendis sem erlendis og þannig mætti áfram telja. Sérstök áhersla var lögð á það í aðdraganda innleiðingarinnar að skólastjórar hlytu sem bestan stuðning og fræðslu um þá möguleika sem spjaldtölvan býður upp á við þróun skólastarfs, svo hver þeirra hefði tök á að stýra innleiðingunni í sínum skóla eftir aðstæðum á hverjum stað. Grunnskólarnir í Kópavogi eru níu talsins og innbyrðis nokkuð ólíkir. Þótt helstu markmið átaks í breyttum kennsluháttum séu sameiginleg öllum skólunum er áherslu- og blæbrigðamunur. Hver skóli hefur því tekið sér fyrir hendur að setja saman innleiðingaráætlun þar sem styrkleikar og áherslur skólans koma fram og skilgreindar eru leiðir sem skólinn ætlar að fara að sínum markmiðum.spjaldtolvur_1

Ákvarðanir

Fjölmargir koma að ákvörðunum á ýmsum sviðum átaks í breyttum kennsluháttum. Eins og við er að búast hafa menntasvið og upplýsingatæknideild sveitarfélagsins töluverða aðkomu að verkefninu en strangt til tekið heyrir verkefnið þó undir hvoruga deildina. Frekar mætti segja að það stæði mitt á milli þeirra en samstarfið er þó nokkuð. Skólanefnd Kópavogs er upplýst reglulega um það sem er efst á baugi og hefur tvíþætt hlutverk, annars vegar að leggja mat á framgang verkefnisins en hins vegar er nefndin ráðgefandi á ýmsum sviðum. Allra veigamestu ákvarðanirnar eru teknar af stýrihópi um spjaldtölvuverkefnið en hann skipa, auk verkefnastjóra, bæjarstjóri og bæjarritari, forstöðumaður upplýsingatæknideildar og forstöðumaður menntasviðs. Áðurnefndur undirbúningshópur er enn starfandi en kallast nú verkefnahópur. Hlutverk hans er fyrst og fremst að vinna að faglegri stefnumörkun en einnig hefur fulltrúi foreldra tekið sæti í hópnum. Þá er samstarf og samráð við skólastjórnendur mikið, fundað er í hverjum skóla á mánaðarfresti og einnig er innleiðingin til umræðu á sameiginlegum fundum allra skólastjóranna sem einnig eru haldnir mánaðarlega.

Ástæða er til að greina sérstaklega frá því hvernig var staðið að því að velja hvers konar spjaldtölvur skyldu notaðar í verkefninu í Kópavogi. Frá upphafi var það stefnan að samskonar tæki skyldu notuð í öllum skólum, í því skyni að flækja ekki líf nemenda og kennara um of með ólíku tækniumhverfi. Settur var saman rýnihópur nokkurra fulltrúa frá skólunum, sem fékk það hlutverk að setja saman lista yfir þá þætti sem hafa þyrfti í huga við val á tegund spjaldtölvu. Voru fjölmargir þættir nefndir til sögunnar, allt frá tæknilegum eiginleikum á borð við rafhlöðuendingu og gæði myndavéla til úrvals kennsluforrita, framboðs á námskeiðum fyrir kennara og þannig mætti áfram telja. Hverjum og einum þætti var svo gefið vægi og þannig varð til matslíkan sem sent var til söluaðila. Fjórir söluaðilar fengu síðan tækifæri til að kynna vöru sína fyrir öðrum og fjölmennari rýnihópi sem samanstóð af nemendum og kennurum úr öllum grunnskólum Kópavogs. Þannig var lagt mat á iPad, Android, Chromebook og Surface spjaldtölvur og varð niðurstaðan sú að iPad-spjaldtölvan varð hlutskörpust miðað við þær forsendur sem gefnar voru. Í framhaldi af þeirri niðurstöðu var ákveðið að fyrir valinu yrði iPad Air 2 spjaldtölva með 64 GB minni.

Fyrrnefndur málefnasamningur meirihluta bæjarstjórnar fól í sér að spjaldtölva til einkanota skyldi afhent öllum nemendum á mið- og unglingastigi. Áður höfðu spjaldtölvur verið teknar í notkun á leikskólum bæjarins og því þótti eðlilegt að nemendur á yngsta stigi grunnskóla gætu einnig notið góðs af möguleikum spjaldtölvunnar. Því var ákveðið að úthluta skólunum samtals 315 spjaldtölvum sem ættu að nýtast yngstu nemendunum. Var þessum tækjum úthlutað til skólanna í samræmi við nemendafjölda á yngsta stigi nú í haust, þegar síðasta áfanga afhendingar á mið- og unglingastigi var lokið. Fyrsta skólaárið voru þessi tæki aðgengileg öllum þeim árgöngum sem ekki höfðu fengið úthlutað sínum spjaldtölvum og var markmiðið að kennarar og nemendur fengju tækifæri til að kynnast tækjunum og notkun þeirra í námi og kennslu.

Undirbúningur kennara

Lögð var áhersla á að kennarar gætu hafið undirbúning sem allra fyrst og stóðu vonir upphaflega til að hægt yrði að afhenda þeim spjaldtölvur fljótlega upp úr áramótum 2015. Ekki gekk það eftir, en þegar búið var að velja gerð spjaldtölvunnar tók við undirbúningur útboðs, sem unnið var með ómetanlegri aðstoð starfsfólks Ríkiskaupa. Þegar niðurstöður lágu fyrir var loks hægt að panta búnaðinn og á endanum fór það svo að kennurum voru afhentar spjaldtölvur á næstsíðasta vinnudegi skólaársins, eða 11. júní. Ákveðið var að afhending til fyrstu nemendanna færi fram strax í upphafi næsta skólaárs og að það yrðu nemendur sem væru þá að hefja nám í áttunda og níunda bekk. Reynslan hefur sýnt að námslegur ávinningur af spjaldtölvuvæðingu skóla skilar sér ekki strax og var því tekin sú afstaða að nemendum sem væru að hefja sitt síðasta ár í grunnskóla væri lítill greiði gerður ef farið yrði í umfangsmiklar breytingar á námi þeirra. Nemendum í tíunda bekk voru því ekki afhentar spjaldtölvur þetta haust. Nemendur í sjötta og sjöunda bekk fylgdu í kjölfarið á miðjum vetri og síðustu tveir árgangarnir næsta haust. Innleiðingin var því nokkuð hröð, svo ekki sé meira sagt og tíminn sem kennarar fengu til undirbúnings ekki ýkja mikill. Því var ljóst að tryggja þyrfti mikinn stuðning við kennara, meðal annars í formi margskonar námskeiða. Einnig var nauðsynlegt að kennarar fengju sem mest svigrúm og næði til að aðlaga kennsluhætti fyrstu mánuðina.

Sá kennarahópur sem hvað stystan tíma fékk til undirbúnings voru unglingadeildarkennarar, en þeim til stuðnings var boðið upp á opin hús í Kópavogsskóla alla föstudaga í sumarleyfinu 2015. Kennarar gátu komið og rætt við tæknimenn og kennsluráðgjafa, auk þess sem stuttar kynningar á algegnum kennsluforritum fóru fram. Aðsókn á þessa viðburði var töluverð og þótti lýsa metnaði og jákvæðni í kennarahópnum. Þegar leið að upphafi skólaárs voru undirbúningsdagar nýttir til hins ýtrasta og boðið upp á fjölmörg námskeið, bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Í októberbyrjun var sameiginlegur skipulagsdagur allra grunnskóla tileinkaður spjaldtölvunni og gátu kennarar þá valið um á þriðja tug vinnustofa og námskeiða. Auk kennsluráðgjafanna þriggja komu íslenska fyrirtækið Skema og danska fyrirtækið Kompas að námskeiðahaldinu, en það er stefna Apple að styðja vel við notkun spjaldtölva í skólastarfi og voru námskeið Dananna því sveitarfélaginu nánast að kostnaðarlausu. Langt fram á haust voru öll tækifæri nýtt til kynninga, menntabúða, námskeiða og fyrirlestra og reynt eftir fremsta megni að styðja kennara í að nýta spjaldtölvurnar sem mest í námi og kennslu.spjaldtolvur_2

Væntingastjórnun

Þrátt fyrir töluverða viðleitni voru ekki væntingar um það meðal aðstandenda innleiðingarinnar að björninn yrði unninn á nokkrum vikum. Meginmarkmið var að hvetja kennara til þess að prófa sig áfram, leggja fyrir einföld, skapandi verkefni þar sem nemendur gætu nýtt sér spjaldtölvurnar á sem fjölbreyttastan hátt, til gagnaöflunar, mynd- og hljóðvinnslu og til að sýna og kynna afrakstur vinnu sinnar. Notkun tækjanna var mismikil hjá kennurum eins og við mátti búast og fóru sumir hratt af stað meðan aðrir létu sér nægja að leyfa nemendum að sækja námsbækurnar á vef Menntamálastofnunar og lesa þær á skjánum í stað prentuðu útgáfunnar. Talsvert var um jafningjafræðslu meðal kennara og mátti ósjaldan heyra umræður á kaffistofum um sniðug öpp eða verkefni. Nemendur tóku því undantekningalítið fegins hendi þegar bryddað var upp á nýjum verkefnum þar sem spjaldtölvurnar komu við sögu og vildu flestir fá að nota þær sem oftast.

Spjaldtölvan er fjölhæft afþreyingartæki auk þess að nýtast í námi og á tímabili þótti sumum foreldrum að unglingarnir eyddu fullmiklum tíma í leiki og nethangs, en að minna færi fyrir námsvinnu. Þegar líða fór að jólum og styttist í að spjaldtölvur yrðu afhentar í næsta nemendahópi var því leitað samstarfs við foreldrafélög skólanna um aukna upplýsingagjöf til foreldra um átakið. Að sama skapi var hlustað eftir viðhorfum foreldrasamfélagsins og komu þá fram ýmsar ábendingar sem hægt var að nýta þegar kom að afhendingu. Má þar nefna að ákveðið var að lengja afhendingarferlið og fengu allir nemendur meðal annars fræðslu um ábyrga notkun tækninnar áður en spjaldtölvurnar fóru heim í skólatöskum nemenda. Þá útbjó hver og einn bekkur sáttmála með nokkrum einföldum reglum sem nemendur komu sér saman um, svo sem að birta ekki myndir hver af öðrum í óleyfi, fara eftir fyrirmælum kennara og foreldra og að eiga ekki við spjaldtölvur hvers annars. Enn þykir þó mörgum spjaldtölvan einoka tíma margra nemenda í kennsluhléum. Vinna skólar nú að því að bregðast við þessum vanda, gjarnan í samstarfi við nemendur, enda er slíkt samstarf líklegt til að skapa sátt um þær reglur sem til kunna að verða um notkun spjaldtölvanna sem leiktækja í skólanum.

Undirbúningur kennara hófst nokkrum vikum áður en afhending fór fram og voru haldnir sérstakir umræðufundir og námskeið fyrir umsjónarkennara í sjötta og sjöunda bekk. Einnig var sérstök áhersla lögð á að kennarar nýttu sér aðgang að bekkjarsettum og prófuðu að leggja fyrir einföld verkefni. Kom skýrt fram á þessum tíma að stafræn borgaravitund var kennurum ofarlega í huga. Flestum kennurum var ljóst hve mikilvægt væri að sinna þessum þætti en um leið bar á því að kennara skorti kunnáttu á því sviði. Var því ákveðið að útbúa sérstök verkefni þar sem fjallað yrði um hluti eins og samfélagsmiðla, höfundarétt, netávana og fleira. Sú venja var tekin upp að eitt verkefni skyldi lagt fyrir í hverjum mánuði og fengu kennarar sendar kennsluleiðbeiningar. Hefur þessari vinnu verið haldið áfram nú í haust, á öðru skólaári innleiðingarinnar. Smám saman er því að verða til verkefnabanki sem kennarar munu geta nýtt sér á næstu árum. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að með þeirri ákvörðun að afhenda þúsundum nemenda spjaldtölvur hefur sveitarfélagið bakað sér hluta ábyrgðarinnar á því að nemendur nýti þær skynsamlega. Á móti má benda á að yfirgnæfandi meirihluti nemendahópsins hefur þegar aðgang að tölvu á heimilinu og þar að auki á talsverður fjöldi þeirra snjallsíma eða spjaldtölvu. Það er því ekki svo að aðgengi nemenda að tækniheiminum sé gjörbylt með átakinu í Kópavogi, heldur er eins og áður segir verið að færa nám þeirra nær þeim sítengda veruleika sem þau eru þátttakendur í. Engu að síður er það ætlunin að sinna fræðslu í stafrænni borgaravitund af þeim metnaði sem óneitanlega er þörf. Stefnt er að því að innan fárra ára muni útskrifast nemendur úr grunnskólum Kópavogs sem kunna sig í hinum stafræna heimi.


Upplýsingar um verkefnið er einnig að finna hér:


Um höfund

Björn Gunnlaugsson hefur starfað sem kennari og stjórnandi við Norðlingaskóla í Reykjavík, sem skólastjóri Dalvíkurskóla og aðstoðarskólastjóri Smáraskóla í Kópavogi. Hann stýrir nú innleiðingu spjaldtölva í grunnskólum Kópavogs.
Getur sýndarveruleiki nýst til að skapa betri skilning?

ingvi_hrannarIngvi Hrannar Ómarsson, grunnskólakennari og kennsluráðgjafi


Í nóvember sl. hélt ég erindi á ársþingi Samtaka áhugafólks um skólaþróun. Erindið bar heitið: Hvernig á að fjalla um stóru málin í skólum? Á ráðstefnunni var leitast við að svara þessari spurningu: Hvernig á að fjalla í skólum um flóttamannavandann, loftslagsmálin, stríð, hryðjuverk, fátækt, jafnréttismál, framtíðina? Ráðstefnan var með þjóðfundasniði og byggðist á virkri þátttöku fundargesta þar sem leitast var við að svara þessari spurningu, en einnig voru flutt nokkur stutt erindi, og var mitt eitt þeirra. Í erindinu leitaðist ég við að sýna þá möguleika sem sýndarveruleikatækni gefur til að nemendur geti betur sett sig í annarra spor.

Ég starfa í grunnskólum Skagafjarðar (Árskóla, Varmahlíðarskóla og Grunnskólanum austan Vatna) og starf mitt er á mörkum skóla- og tækniþróunar. Ég lít svo á að við stöndum um þessar mundir á ákveðnum tímamótum hvað tæknina varðar. Annað hvort getur hún hjálpað okkur við að fleyta okkur áfram inn í framtíðina eða fest okkur enn betur í aðferðum fortíðar. Nú eru tækifæri sem við þurfum að nýta.

Við lifum á tímum mikilla breytinga. Sem fullorðnir einstaklingar munu börnin okkar þurfa að takast á við vandamál sem við höfum búið til. Ekki er annað að sjá en að aðalnámskrá, menntunarfræðingar, foreldrar, kennarar og framtíðarfræðingar séu sammála um að aðalmarkmiðin eigi að vera að nemendur hafi framtíðarsýn, getu og vilja til að hafa áhrif á og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því, þróa það og bæta.

Stúlka i 4. bekk prófar sýndarveruleika í fyrsta sinn.
Stúlka i 4. bekk prófar sýndarveruleika í fyrsta sinn.

Með aukinni tækninotkun og þekkingu aukast möguleikar okkar til þess að breyta kennsluháttum. Þegar við ætlum að kveikja eld í hugum barnanna henta þær kennsluaðferðir sem algengastar eru að mínu mati mjög illa. Að sjálfsögðu skiptir kennarinn og geta hans til þess að vekja áhuga og áhugi hans sjálfs á efninu miklu máli en tæknin skapar marga nýja möguleika.

Nemendur okkar eiga rétt á að fá að fjalla um stóru málin; umhverfismálin, misskiptinguna, sjúkdóma sem herja á okkur, vatnsvandamálin, orkumálin, hungrið í heiminum, stríð og flóttamenn. Á hverjum degi flytja fjölmiðlar okkur fréttir af þessum málum en lítið virðist um þau mál fjallað í skólunum. Þar er, að mínum dómi, allt of litlum tíma varið til að dýpka þekkingu og kafa í efni til að nemendur fái raunverulegan skilning á málefnum og viðburðum. Það er eins og við höfum misst sjónar á því að markmið okkar á ekki að vera að undirbúa nemendur fyrir heiminn eins og hann er, heldur að hjálpa þeim að verða nægilega víðsýnir og sterkir til þess að geta tekið þátt í að búa til betri heim. Skólar hafa það hlutverk að stuðla að því að nemendur verði hugsandi og sjálfstæðir borgarar í lýðræðislegu samfélagi, þar sem borgararnir taka ákvarðanir í sameiningu. Til þess þurfa þeir að vera upplýstir, kunna að taka þátt í málefnalegri umræðu og gera það sem þeir geta til þess að bæta samfélagið allt.

Til þess að bæta í verkfærakistu kennara fjárfestum við í Árskóla á Sauðárkróki í 22 Samsung S6 Edge símum og 22 Gear VR sýndarveruleikagleraugum, auk Gear360 myndavélar sem tekur myndir og myndbönd í 360°. Þetta gerðum við m.a. til þess að hjálpa kennurum að fara dýpra í efnið og sýna nemendum heim sem nær langt út fyrir veggi skólastofunnar eða heimabæjarins.

Flest allir snjallsímar ráða við slík myndskeið. Hér er dæmi sem er áhugavert að skoða:

Þegar síminn er svo settur í sýndarveruleikagleraugu lokast fyrir alla utanaðkomandi truflun og það er eins og þú sért á staðnum, upplifunin getur orðið svo sterk.

Hér má sjá eldri konu „fara“ í rússibana:

Í umræðum okkar um stóru málin (eins og umhverfið, hitastigið, misskiptinguna, sjúkdóma, vatnið, orkuna, stríð, hungrið og flóttamennina) er það ótrúlega sterk upplifun að fara með nemendur á staðina í 360° og leyfa þeim að vera hluti af þessum veruleika. Dýptin á umræðum verður allt önnur heldur en ef kennt er um efnið með hliðsjón af hefðbundinni kennslubók.

upprodunÞegar kennarar beita tækni er áríðandi að uppröðun í skólastofu sé þannig að hún auðveldi samræður. Hin hefðbunda uppröðun þar sem nemendur snúa baki hver í annan er beinlínis hindrandi fyrir samræður á milli nemenda. Mín reynsla er sú að hefðbundin uppröðun ýti undir að kennarinn flytji mál sitt á meðan nemendur sitja oft og tíðum nær aðgerðarlausir. Þegar markmið okkar eru beinlínis að skapa umræður verðum við að leiða hugann að því hvaða aðstæður henta best til þess.

Hér eru dæmi um tvö verkefni sem við höfum unnið með þar sem stuðst er við sýndarveruleika.

Það fyrra byggir á ástandinu í Sýrlandi og flóttamannastraumnum. Nemendur horfa á myndbandið Clouds over Sidra sem fjallar um hina 12 ára Sidra sem býr í Za’atari flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Þegar myndin er tekin búa þar 84.000 sýrlenskir flóttamenn:

Við skoðuðum einnig Google Expeditions leiðangur sem ber heitið Out of Syria: Back to School, þar sem við ræddum um aðstæður flóttamanna, réttindi og forréttindi. Google Expeditions sýnir þátttakendum ljósmyndir í 360° og er stórkostlegt tæki:

Kennarar við Árskóla hafa einnig tengt bókina Rúnar góði við umræður um flóttamenn og muninn á réttindum og forréttindum.

Inga Lára Sigurðardóttir, annar tveggja kennara 4.bekkjar í Árskóla fer með nemendur í leiðangur um ’sjö undur veraldar’.
Inga Lára Sigurðardóttir, annar tveggja kennara 4.bekkjar í Árskóla, fer með nemendur í leiðangur um ’sjö undur veraldar’.

Ég fullyrði að viðhorf nemenda til flóttamanna og skilningur þeirra á aðstæðum þeirra hefur breyst við að taka þátt í þessum viðfangsefnum og gert þau víðsýnni. Margar kennslustundirnar eru beinlínis stórkostlegar og nemendur vilja gjarnan halda umræðunni áfram og ræða málin og hvað þeir geti gert.

Í umræðum okkar við nemendur leggjum við áherslu á að heyra skoðanir þeirra á þeim málefnum sem eru til umfjöllunar hverju sinni. Í tengslum við umræður um náttúru og  umhverfisvernd sýndum við nemendum í 10.bekk heimildamyndina Through the ages – President Obama Celebrates Amarica’s National Parks, sjá hér:

obama

https://www.whitehouse.gov/blog/2016/08/25/watch-join-president-obama-virtual-reality-tour-yosemite

Í myndinni fer Barack Obama um Yosemite þjóðgarðinn. Þegar nemendur höfðu horft á myndina í fylgd Obama ræddum við málin með hliðsjón af eftirfarandi þremur meginspurningum:

 1. Ertu á sama máli og Obama að það að vernda náttúru lands sé mikilvægt fyrir komandi kynslóðir?
  • Hvers vegna?
  • Af hverju vilja þau vernda staði og dýr?  Hverju skiptir það?
 2. Hvernig verndum við okkar náttúru?
  • Þjóðgarðar eru eign allra … hvers vegna er það mikilvægt?
   • Á að rukka inn í þjóðgarði og staði á landinu?
    • Ef svarið er já – hver á að borga og hvers vegna?
 3. Að heimsækja svona staði er mikilvægt og Obama segir að það breyti manni. Hvað á hann við?

Nemendur í 10.bekk Árskóla horfa á heimildarmynd um þjóðgarða Bandaríkjanna.
Nemendur í 10.bekk Árskóla horfa á heimildamynd um þjóðgarða Bandaríkjanna.

Umræðurnar sem sköpuðust í kjölfar þess að nemendur horfðu á þessa mynd urðu miklu dýpri en við höfum áður náð. Nemendur sýndu málefnunum miklu meiri áhuga, en þegar við höfum látið þau lesa um þau í bók eða hlusta á fyrirlestur kennarans.

Þessi fyrsta reynsla okkar í Árskóla af að nota sýndarveruleika lofar góðu og bendir til þess að hér séu að skapast nýir möguleikar sem spennandi verður að skoða nánar. Það sem gaman er að sjá er hversu einföld þessi tækni (sérstaklega Google Expeditions, sem er frítt forrit) er í notkun. Kennarar á öllum stigum hafa unnið töluvert með sýndarveruleikann og eru sammála um jákvæðan árangur.

Notkun þessarar nýju tækni er rétt að fara af stað og gefa fyrstu tilraunir okkar í Árskóla svo sannarlega góð fyrirheit.


heimasida

 

Ingvi Hrannar heldur úti heimasíðu: http://ingvihrannar.com/ þar sem hann birtir ýmis skrif um upplýsingatækni og skólamál. Hann hefur í nokkur ár birt um áramót yfirlit yfir það sem hann kallar öpp ársins. Hér er greinargerð um bestu öppin sem hann prófaði árið 2016!