Jóhann Björnsson, heimspekikennari við Réttarholtsskóla
Einu sinni varð bankahrun á Íslandi og eftir fall bankanna 2008 varð heimspekin og lykilþættir hennar, gagnrýnin hugsun og siðferðileg yfirvegun æ oftar til umræðu á opinberum vettvangi. Gerð var rannsóknarskýrsla á vegum Alþingis um orsakir ófaranna í bankakerfinu og í viðauka við skýrsluna kemur fram að ein af ástæðum efnahagshrunsins hafi verið skortur á gagnrýninni hugsun. Skýrsluhöfundar benda á leiðir til úrbóta sem felast m.a. í þjálfun gagnrýninnar hugsunar: Þjálfa þarf gagnrýna hugsun og efla læsi borgaranna á hvers kyns áróður og innistæðulausa ímyndarsmíð. Síðar í sömu skýrslu segir: Í skólum landsins þarf að styrkja ábyrgðarkennd nemenda gagnvart samfélaginu, efla gagnrýna hugsun og vitund þeirra sem borgara í lýðræðissamfélagi …[i]
Í kjölfar þessara orða jókst áhugi á að innleiða enn frekar og víðar heimspeki[ii] og heimspekilega hugsun í skólastarfi. Virkni Félags heimspekikennara varð meiri þessum tíma og kennarar sem höfðu kennt heimspeki fengu æ fleiri fyrirspurnir, heimsóknir og óskir um ráð en áður hafði verið.
Í einstaka tilvikum reyndust þó tilraunir til að innleiða fyrrgreinda lykilþætti heimspekinnar í skólastarf óraunsæjar í ljósi þeirrar hæfni og reynslu sem var til staðar. Dæmi um þetta er þegar í einum skóla var ákveðið að hefja kennslu heimspeki í öllum árgöngum, einu sinni í viku allt skólaárið. Þrátt fyrir góðan ásetning reyndist sú fyrirætlun of viðamikil þar sem kennarar höfðu ekki þær forsendur sem þurfti til að leggja út í slíka vegferð.
Eðlilega spyrja kennarar sem vilja innleiða heimspeki í kennsluna að því hvaða bók sé hægt að styðjast við. Bók í heimspekikennslu er sjaldnast það sem kemur að gagni. Heimspekipraktík[iii] er það svið heimspekinnar sem m.a. felur í sér heimspeki með börnum og unglingum. Þetta er nálgun í kennslu sem er ólík hefðbundnum bóklegum námsgreinum þar sem sjaldan er stuðst við námsbækur. Nemendurnir fá sjálfir að vera heimspekingar og takast á við ýmis viðfangsefni með eigin huga einan að vopni. Barnaheimspekingurinn Matthew Lipman segir að starf heimspekikennarans sé líkt starfi hljómsveitarstjórans eða leikstjórans.[iv] Það þarf að halda hljómsveitinni og leikurunum gangandi. Það eru kveikjur kennarans og spurningar hans sem halda heimspekitímunum gangandi.
Stjórnmálamenn og háskólastofnanir tóku hugmyndum um aukna heimspekikennslu fagnandi. Þór Saari þáverandi þingmaður lagði fram tillögu á Alþingi árið 2011: Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að endurskoða aðalnámskrár grunnskóla og framhaldsskóla með það að markmiði að heimspeki verði skyldufag á báðum skólastigum innan fjögurra ára. [v]
Þrátt fyrir að tillögu Þórs hafi víða verið vel tekið þá voru ekki allir landsmenn sannfærðir. Á svið steig bloggarinn Eva Hauksdóttur sem sagði: „Það er nánast sama hvaða vandamál er til umræðu, alltaf skal einhver viðra þá hugmynd að skólarnir eigi bara að sjá um það. Skólarnir skuli sjá um vímuefnaforvarnir, umferðarfræðslu, trúaruppeldi (dulbúið sem fræðigrein), kynfræðslu, brunavarnir, fjármálauppeldi, lýðræðisfræðslu, rasismavarnir, sjálfsvirðingareflingu, umhverfisvernd, menningaráhuga, leikræna tjáningu og einhliða kynhyggjuáróður svo eitthvað sé nefnt. Allt skal þetta kennt á sjálfbærum lýðræðisgrundvelli. Sjaldan er spurt hvort kennarar séu yfirhöfuð í stakk búnir til þess að bæta við sig greinum …[vi]
Eva hitti naglann á höfuðið: Voru kennarar í stakk búnir til þess að hefja kennslu gagnrýninnar hugsunar og heimspeki eins og lagt var til? Víða voru þeir það ekki og oft þar sem farið var af stað ætluðu þeir sér of mikið. Markið var sett of hátt.
Háskólastofnanir tóku einnig við sér og höfðu gott eitt í huga. Rannsóknarstofa um háskóla, Heimspekistofnun og Siðfræðistofnun tókust á við verkefni sem ætlað var að efla kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði. Vefsíða var gerð,[vii] fundir haldnir og lærðir fyrirlestrar fluttir. Námsefni og fræðirit voru samin til að dýpka skilning kennara á viðfangsefninu.[viii]
Aðalnámskrá grunnskóla[ix] vakti vonir heimspekinga og heimspekikennara, einkum eftirfarandi hæfniþættir þar sem nemendur áttu að … Geta skoðað málin út frá mismunandi sjónarhornum, hlustað á virkan hátt, unnið með öðrum og tekið á jákvæðan hátt þátt í samskiptum, tekið upplýsta afstöðu til gagna og upplýsinga, dregið ályktanir og skapað eigin merkingu, brugðist með rökum við upplýsingum og hugmyndum, spurt rannsakandi spurninga, hugsað gagnrýnið, tekið gagnrýni á uppbyggilegan hátt og sett fram uppbyggilega gagnrýni, tjáð hugsanir sínar og hugmyndir á skipulegan, skýrann og viðeigandi hátt, tekið þátt í rökræðum um viðfangsefni og rökstutt mál sitt af yfirvegun og tekið tillit til ólíkra sjónarmiða.
Allt eru þetta lykilþættir heimspekinnar þó þeir komi vissulega víðar við sögu í skólastarfi en í skipulögðum heimspekitímum.
Hver er staðan núna? Lítið hefur orðið úr auknum hlut heimspekinnar í skólum landsins. Heimspekinni var vissulega ekki hleypt inn kennslustund, a.m.k. ekki á þann hátt sem margir höfðu gert sér vonir um, en hvers vegna? Gáfust kennararnir upp á henni? Höfðu þeir kannski aldrei forsendur til þess að leggja í þessa vegferð? Sat kennaranámið eftir? Ætluðu skólarnir sér of mikið í stað þess að taka smærri skref og öruggari í innleiðingu gagnrýninnar hugsunar og heimspeki? Heimspekin er vissulega óþekk og mikið ólíkindatól og ekki að undra að kennarar hafi átt í erfiðleikum með hana. Hún er viðkvæm og vandmeðfarin og best er að kynnast henni hægt og rólega, jafnvel í samspili við aðrar námsgreinar. Í Frakklandi eru til móðurmálsbækur og er þar heimspekin kennd sem hluti móðurmáls. Þar eru ýmsir þættir móðumálskennslunnar tilgreindir s.s. lestur, ritun, málfræði, orðaforði og heimspeki. Orðið heimspeki fær þar að njóta sína, ekki sem sérstakt fag heldur sem hluti þess að nálgast móðurmálið. Heimspekingarnir eru jú alltaf að fást við tungumálið, merkingu þess og notkunarmöguleika. Hvers vegna verður heimspekin ekki hluti íslenskunnar og jafnvel annarra námsgreina í skólunum? Það væri ráð að athuga það og hafa í huga að kannski hafði heimspekingurinn Páll S. Árdal rétt fyrir sér þegar hann sagði: Í vissum skilningi ætti heimspeki ekki að vera sérstakt fag, heldur miklu fremur viðhorf, eða gagnrýnið sjónarhorn til veruleikans, þar sem menn reyni að mynda sér skynsamlega skoðun á stöðu sinni í veruleikanum.[xi]
[i] Vilhjálmur Árnason, Salvör Nordal, Kristín Ástgeirsdóttir, Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008, Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir 8 (Rannsóknarnefnd Alþingis, 2010).
[ii] Orðið heimspeki í þessari grein vísar ekki eingöngu til heimspekinnar sem sjálfstæðrar námsgreinar heldur getur einnig verið átt við þá fjölmörgu færniþætti sem liggja heimspekinni til grundvallar, s.s. gagnrýnin hugsun, skapandi hugsun, rannsakandi spurningatækni, rök og rökræður, auk siðfræði sem er ein af greinum heimspekinnar. Allar námsgreinar hafa heimspekilega hlið, sbr. vísindaheimspeki, heimspeki stærðfræðinnar, trúarheimspeki, heimspeki félagsvísinda o.s.frv.
[iii] Róbert Jack, Hversdagsheimspeki (Háskólaútgáfan – Heimspekistofnun, 2006). Í þessari bók fjallar Róbert um hversdagsheimspeki eða heimpspekipraktík sem er t.d. heimspeki með börnum og unglingum og heimspekileg ráðgjöf. Þetta er ólíkt fræðilegri heimspeki sem stunduð er í háskólum og víða í framhaldsskólum.
[iv] Matthew Lipman, Ann Margaret Sharp, Frederick S. Oscanyan, Philosophy in the Classroom (Temple University Press, 1980).
[v] http://www.althingi.is/altext/139/s/0091.html
[vi] Eva Hauksdóttir, Er gott að gera heimspeki að skyldufagi í grunnskólum? http://www.norn.is/pistlar/3275/
[vii] http://gagnrýninhugsun.hi.is
[viii] Bækurnar Hugleiðingar um gagnrýna hugsun (Heimspekistofnun – Háskólaútgáfan 2014) eftir Henry Alexander Henrýsson og Pál Skúlason og Hugsaðu málið Kennsluefni í gagnrýninni hugsun og siðfræði, eftir Elsu Haraldsdóttur og Henrý Alexander Henrýsson, var ætlað að styðja við innleiðingu heimspekilegrar hugsunar í skólastarf.(https://gagnryninhugsun.hi.is/wp-content/uploads/Hugsadu_malid_GHoS.pdf)
[ix] Aðalnámskrá grunnskóla, Almennur hluti 2011, Greinasvið 2013 (Mennta- og menningarmálaráðuneytið 2013).
Dæmi um franskar móðurmálsbækur þar sem heimspeki á sinn sess eru Lire et dire francais (Sedrap 2008).
[xi] Jörundur Guðmundsson, Heimspekingurinn Páll S. Árdal, Lesbók Morgunblaðsins 24.05.2003, s. 10.
Jóhann Björnsson er MA í heimspeki frá Katholieke Universiteit Leuven í Belgíu. Kennir heimspeki við Réttarholtsskóla í Reykjavík og er í doktorsnámi við Menntavísindavsið H.Í. með áherslu á heimspeki menntunar og heimspekikennslu barna og unglinga.
Jóhann er er höfundur námsefnis í heimspeki: Eru allir öðruvísi? Fjölmenning og heimspeki, Erum við öll jöfn? Kynjamál og heimspeki, Það er auðveldara að kljúfa atóm heldur en fordóma. Námsefni í fjölmenningarfærni handa efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum (meðhöfundar eru Björk Þorgeirsdóttir og Þórður Kristinsson) og 68 æfingar í heimspeki.