1

Óraunhæfir draumar, óhefðbundin lífsleiknikennsla og öðruvísi valgreinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Kristján Sturla Bjarnason og Guðlaug Sturlaugsdóttir

 

Í Árbæjarskóla höfum við verið að prófa eitt og annað í skólastarfi og félagslífi nemenda á undanförnum árum. Við höfum notið hæfileika fjölbreytts hóps kennara sem hafa komið mörgum góðum hugmyndum í framkvæmd sem flestar hafa lifnað og dafnað. Í þessari grein segjum við frá nokkrum þeirra sem tengjast beint eða óbeint lífsleiknikennslu á unglingastigi. 

Gengið á Reykjafjall í Mosfellsbæ með Þverfellið í augsýn.  Ljósmynd: Kristján Sturla Bjarnason.

Það sem gerir skólastarf skemmtilegt er ekki síst sú staðreynd að við höfum val um hvernig við nálgumst viðfangsefnin með nemendum. Aðalnámskrá grunnskóla stoppar okkur ekki af í að nálgast þau á fjölbreyttan og nýstárlegan hátt heldur frekar vanafesta okkar og takmarkandi hugur. Við virðumst á stundum eiga auðveldara með að finna ástæður fyrir að framkvæma ekki hugmyndir okkar og sjá hindranir í öllum hornum í stað þess að leyfa okkur að hugsa „hvað ef …“ því með réttu hugarfari eru okkur allir vegir færir!

Í Árbæjarskóla höfum við stundum fengið hugmyndir sem sumir myndu kalla „óraunhæfa drauma“. Slíkar hugmyndir eru hins vegar mikilvægur hluti af tilveru skólans og þær hjálpa okkur að þróa hann. Við höfum vissulega lent í því að fara af stað með metnaðarfull verkefni sem síðan hafa þróast í aðrar áttir eða jafnvel lognast út af en mörgum höfum við hrint í framkvæmd og þau haldið lífi. Við erum svo lánsöm að hafa á að skipa frjóu og hæfileikaríku starfsfólki sem fær að margra mati „galnar“ hugmyndir en um leið starfa hér jarðbundnari einstaklingar sem hafa hjálpað okkur að koma þeim í framkvæmd.

Valgreinar – með lífsleikniívafi

Mikil vinna liggur að baki auglýsingum vegna söngleiksins.

Starfsfólk Árbæjarskóla hefur haft kjark og þor til að takast á við ný og spennandi verkefni á síðustu árum í þróun valgreina. Margir hafa eflaust veigrað sér við að fara af stað með sum þessara verkefna í byrjun en þau hafa notið fylgis í kennarahópnum og eru nú hluti af því sem við köllum hefðbundið skólastarf. Verkefnin eru fjölbreytt og hafa oft kallað á óhefðbundin kennslusvæði eins og mynd- og hljóðvinnslustofu, alvöru hljóðver og „Boxið“, litla svið Árbæjarskóla. Skólinn setur líka árlega upp stóran söngleik þar sem fjölbreytt og ólík verk hafa ratað á stóra sviðið svo sem Grease, Konungur ljónanna, Aladín og Footloose. Þar hefur stór hópur nemenda, með ólíkan bakgrunn, fengið tækifæri til að láta ljós sitt skína, jafnt á sviði sem og í listrænum útfærslum á verkunum. Bugsy Malone fer á fjalirnar í vor og er mikill hugur í fólki þrátt fyrir aðstæðurnar í samfélaginu. Þessu til viðbótar hefur jafnt og þétt bæst í flóru valgreina nemenda á unglingastigi. Má þar nefna „Iðnir og tækni“ sem er samvinnuverkefni skólans og Orkuveitunnar, sönglist, lagasmíðar og upptökur, „Á toppinn“ og mynd- og hljóðvinnsla, auk fleiri greina sem vakið hafa áhuga nemenda og munu án efa nýtast þeim bæði í námi og starfi.

Það sem ýmsir gera sér ekki grein fyrir er að margar þessara valgreina, þar á meðal söngleikurinn, eru að hluta til lífsleiknikennsla. Nálgunin er þá ekki bara sú að haka við lífsleiknimarkmið úr aðalnámskrá heldur eru þær valgreinar öðrum þræði hugsaðar út frá lífsleikni. Við erum væntanlega öll sammála um mikilvægi lífsleiknikennslu en vitum jafnframt að það getur verið takmarkandi að kenna hana að öllu leyti innan fjögurra veggja hinnar hefðbundnu kennslustofu. Kennslan í stofunni takmarkast ekki aðeins  lengd kennslustundar heldur er oft erfitt að ímynda sér eða endurskapa aðstæður þar sem lífsleiknin nýtist. Að þessu sögðu er tilgangurinn ekki að varpa fræðilegu ljósi á stöðu lífsleikninnar . Hér er markmiðið frekar að kynna fyrir lesendum dæmi um hvernig hægt er að fást við lífsleikni í kennslu – án þess þó að „kenna“ lífsleikni, ef svo mætti að orði komast.

Lífsleikni – án þess að kenna lífsleikni – hvati í námi

Í framhaldi af því sem áður var sagt má til dæmis nefna valgreinarnar lagasmíðar og kvikmyndagerð. Nálgun greinanna byggir fyrst og fremst á sjálfstæðum vinnubrögðum þar sem nemendur fá verkefni sem þeir þurfa að leysa. Frelsið er talsvert og verkefnin eru hæfilega opin fyrir túlkun. Vissulega eru nemendur að velja sér þessar greinar og því má segja að þær byggi á áhugasviði þeirra. Í vinnunni koma því oft fram styrkleikar hjá nemendum sem sumir hafa kannski ekki fundið sig í hefðbundnum bóklegum greinum. Við höfum oft upplifað að nemendur hafa setið iðnir við kolann í hljóðverinu eða við að klippa myndbandið sitt á sama tíma og þeir hafa séð lítinn tilgang með öðru námi. Nemendur eru þarna að vinna á áhugasviði sínu og gera sér oft ekki grein fyrir að sú vinna teljist til náms. Þetta gerir það oft að verkum að þeir verða mun móttækilegri fyrir leiðsögn en ella og skyndilega verður vinnuálag eða krefjandi verkefni engin fyrirstaða. Tilgangurinn er skýr hjá nemendum og þeir vilja verða enn þá betri í því sem þeir hafa áhuga á.

Við höfum einnig tekið eftir því að áhugi á tiltekinni valgrein hefur oft smitast út í önnur viðfangsefni. Nemendur virðast allt í einu mun áhugasamari um efni sem ekki vakti áhuga þeirra áður ef þeir sjá tengingu við viðfangsefnið sem þeir hafa áhuga á. Sem dæmi má nefna nemanda sem sá almennt lítinn tilgang með námi í íslensku. Í samtali við kennara sinn kvaðst hann ekki skilja hvers vegna í ósköpunum hann þyrfti að læra íslensku þar sem hann ætlaði ekki að verða kennari eða skrifa bækur. Hann ætlaði að verða tónlistarmaður! Stuttu síðar kom nemandinn að máli við kennarann sinn í lagasmíðum og kvaðst vilja bæta sig í textagerð. Sagðist hann orðinn þreyttur á að endurtaka sömu setningarnar og spurði hvernig hann gæti bætt sig. Benti kennarinn honum þá á að lesa ljóð og útskýrði fyrir honum hvernig ljóð geta aukið orðaforða og skilning á textagerð. Við þetta stutta samtal breyttist viðhorf nemandans skyndilega til ljóða og íslenskukennslu. Í næsta lagasmíðatíma var farið yfir gömul ljóð, bragfræði og ljóðstafi. Sami nemandi fylgdist nú grannt með. Nokkrum dögum síðar sást til hans á bókasafninu að lesa ljóðabók.

Lífsleikni samofin áhugatengdum valgreinum

Í ljósi þessara staðreynda ákváðum við að prófa að tengja aðra námsþætti við áhugatengdar valgreinar, án þess þó að vekja athygli nemenda á því. Einn þeirra þátta var lífsleikni. Viðfangsefnin voru fjölbreytt og mörgum spurningum kastað fram. Hvernig má ná árangri í kvikmyndagerð eða tónlist? Hvernig skal takast á við hindranir eða mótbyr? Af hverju skipta tilfinningar máli í listsköpun? Öll þessi viðfangsefni voru brotin til mergjar og gekk það vel. Skyndilega var komin árangursrík leið til að kenna lífsleikni. Í huga nemenda voru þeir að læra lagasmíðar eða kvikmyndagerð og vildu bæta sig á því sviði. Nemendur vissu ekki að þeir væru um leið í lífsleikni, þetta tengdist áhugasviðinu þeirra og það virtist gera þá móttækilegri en ella.

Sérútbúið kennslurými skiptir máli

Við höfum rekið okkur á að námsumhverfið hefur einnig áhrif á nemendur. Þegar nemendur koma í kennslustund í lagasmíðum eða mynd- og hljóðvinnslu, þá eru þeir að stíga út úr skólanum inn í annað umhverfi þó það sé innan skólans. Kennslurýmið er sérútbúið með tilteknar valgreinar í huga. Búið er að mála veggi í öðrum litum, setja upp góða lýsingu og ýta öllu sem minnir á hefðbundna skólastofu til hliðar. Nafninu á skólastofunni er auk þess breytt því tíminn er ekki í E3 heldur í Hollywood eða hljóðverinu. Þetta gerir það að verkum að viðmótið gagnvart námsumhverfinu virðist breytast og nemendur fara að sýna á sér nýjar hliðar. Kennslustofan fór að verða eftirsóknarverður staður og á endanum þannig að erfitt var að fá nemendur til að hætta að vinna að afloknum skóladegi.

Mynd til vinstri: Í hljóðveri Árbæjarskóla fær tónlistarsköpunin að njóta sín.
Mynd til hægri: Hollywood, kvikmyndaver skólans, sem skartar alvöru „green-screen“ vegg.  Ljósmyndir: Kristján Sturla Bjarnason.

Út fyrir skólann – Á toppinn – lífsleiknival

Í þessu sambandi er einnig vert að minnast á nýja valgrein í Árbæjarskóla sem nýtur mikilla vinsælda og varð í raun til út frá ofangreindum uppgötvunum. Valgreinin heitir á „Á toppinn – hvernig lifa á af í óbyggðum“ og snýst í grunninn um að fara í fjallgöngur með lífsleikniívafi. Hugmyndin að valgreininni var eilítið djörf til að byrja með en þó það spennandi að ákveðið var að láta vaða. Hugmynd, sem þrátt fyrir spennandi viðfangsefni, gat auðveldlega mistekist.

Að ganga á Glym er svaðilför þar sem nemendur vaða m.a. yfir Botnsá. Ljósmynd: Kristján Sturla Bjarnason.

Kennarar valgreinarinnar hafa verið áhugamenn um fjallgöngur án þess þó að teljast til sérfræðinga á því sviði. Þeim finnast fjöll skemmtilegt viðfangsefni og telja að þar leynist margar áskoranir sem nýta mætti í kennslu. Stóra spurningin var bara hvernig hægt væri að selja unglingum þá hugmynd að fjallgöngur væru spennandi kostur þar sem frelsi væri til að staldra við, skoða umhverfið, klifra í klettum og gera hluti sem alla jafna gefst ekki svigrúm til í skólaferðum. Hvernig fengjum við unglingana til að velja þessa valgrein?

Fyrsta verkefnið var að finna nafn sem gæti höfðað til nemenda. Úr varð „Á toppinn – hvernig lifa á af í óbyggðum”. Gefið var í skyn, með kómískum undirtón, að ekki væri endilega víst að allir kæmust lifandi heim, svo hættulegar yrðu ferðirnar. Annað sem þótti vænlegt til árangurs var að kynna fyrir nemendum að fagið yrði kennt í lotum. Í stað vikulegra tíma væri einungis farið í nokkrar ferðir sem myndu jafngilda þeim tímafjölda sem áætlaður var í fagið yfir árið. Lotukennslan var ekki einungis leið til þess að selja nemendum hugmyndina heldur nauðsynleg forsenda því almennilegar fjallgöngur taka tíma og hin hefðbundna 60 mínútna kennslustund mætti ekki stoppa okkur af. Að endingu var það rúsínan í pylsuendanum – að fara í eina lengri ferð yfir nótt. Sölumennskan virkaði og fjölbreyttur hópur skráði sig í valgreinina.

Enginn stökkpallur í Skálafelli og lyfturnar voru lokaðar. Nemendur gripu þá til sinna ráða.  Ljósmynd: Kristján Sturla Bjarnason.

Leiðin á toppinn

Fyrsta ferðin var á Reykjafjall í Mosfellsbæ. Fyrir ferðina var haldinn fyrirlestur um búnað, skyndihjálp, samvinnu og hvaða hættur bæri að varast í gönguferðum. Undirliggjandi markmið var þó að efla félagsfærni með samvinnuverkefnum. Búin var til saga um landkönnuð sem hafði ferðast um á fjallinu á seinni stríðsárunum. Þar hafði hann mætt mörgum hindrunum og hitt fyrir ýmsar kynjaverur og fyrirbæri sem allar tengdust sögum af fjallinu. Má þar nefna orrustuþotur úr seinni heimsstyrjöldinni sem skullu saman á fjallinu og Nykra sem búa í Bjarnavatni. Örlög landkönnuðarins voru þó ekki betri en svo að hann varð úti á fjallinu. Hann hafði búið lengi í útlöndum og tók ekki íslenskt veðurfar með í reikninginn.

Nemendum var skipt í hópa og áttu þeir að fylgja slóð landkönnuðarins líkt og í ratleik. Með reglulegu millibili áttu nemendur að leysa þrautir sem voru í formi hópeflis eða annarra samvinnuverkefna. Á síðasta áfangastaðnum tók síðan landkönnuðurinn sjálfur á móti þeim en þá höfðu kennararnir klætt upp beinagrind sem fengin var að láni úr náttúrufræðistofunni og beið hún nemenda á toppnum.

Önnur ferð var síðan á Skálafell þar sem gist var eina nótt. Þá fengu nemendur að upplifa gamaldags skálaferð um miðjan vetur, í kolniðamyrkri. Eftir almennilega fjallgöngu á Skálafell var haldin kvöldvaka. Þar var kafað dýpra í félags- og tilfinningafærnina með því að fara í leiki sem kröfðust þess að nemendur myndu deila með öðrum og tjá sig, að sjálfsögðu allt á eigin forsendum. Þetta kvöld náðist ákveðin einlægni í samskiptum nemenda, eitthvað sem erfitt er að ná fram í umhverfi kennslustofunnar. Það er ekki sambærilegt að vera nánast ein í heiminum, seint um kvöld og í kolniðamyrkri í gömlum skála upp við fjall eða vera staddur í hefðbundinni kennslustofu klukkan 8.10 að morgni í 60 mínútna kennslustund. Það er ljóst að ekki hefði verið hægt að ná fram þessari einlægni án þeirra tengsla sem höfðu myndast í hópnum. Hópurinn varði miklum tíma saman og leysti verkefnin sem ein heild. Það skilaði sér í aukinni samkennd milli ólíkra einstaklinga sem annars hefðu líklega aldrei átt samskipti. Vert er að taka fram að gætt var að því að hafa ekki of marga í hverjum ferðahópi og með auknum vinsældum valgreinarinnar var frekar farin sú leið að bæta við hópum í stað þess að fjölga í þeim. Fleiri ferðir hafa verið farnar og má þar nefna ferð að fossinum Glym í Hvalfirði. Sú ferð reyndi mikið á hópinn því þar þurfti til dæmis að vaða, klifra í klettum og takast á við lofthræðslu, aðstæður sem erfitt er að endurskapa í skólastofu.

Tengslin meira virði en fjallgangan sjálf

Í lok áfangans var lögð könnun fyrir nemendur þar sem skoðað var hvernig þeir hefðu upplifað valáfangann og viðfangsefni hans. Í ljós kom að nemendum fannst fjallgöngurnar skemmtilegar en í huga þeirra voru þær þó ekki það sem stóð upp úr heldur tengslin sem mynduðust í hópnum. Nemendur nefndu vissulega hagnýt atriði eins og mikilvægi þess að mæta í góðum skóm eða taka með auka sokka en það var samheldni hópsins og sameiginlegur sigur þeirra á hindrununum sem stóð upp úr. Að læra að vinna saman, að vera hluti af heild og að finna að maður skipti máli.

Með því að kenna lífsleikni á þennan hátt erum við að tengja tilgang hennar beint við það sem nemendur eru að fást við hverju sinni. Orsakasamhengið milli þess að öðlast hæfni og nýta hana um leið verður auk þess bæði einfaldara og skýrara í augum nemandans. Í fjallgöngunum voru til dæmis mörg tækifæri til að takast á við hindranir og vinna um leið bæði með viðhorf og hugarfar nemenda. Þá gafst ekki síður tækifæri til að vinna með lífsleiknina þegar sest var niður, borðað nesti og litið yfir farinn veg. Bæði í umhverfinu og ferðlaginu sjálfu mynduðust ekki einungis kjöraðstæður til lífsleiknikennslu heldur einnig tækifæri til að þjálfa hæfnina í raunverulegu umhverfi. Hér væri eflaust hægt að kafa enn dýpra í fræðilega hlutann og tengja við þætti eins og óformlegt nám (e. non formal education) eða útinám en það er líklega efni í aðra grein. Látum því nægja að minnast á þessi hugtök og benda á þá þróun sem á sér oftar en ekki stað þegar ólíkar nálganir skarast.

Í lok síðasta tíma ársins var útskýrt fyrir nemendum út á hvað valgreinin gekk í raun og veru. Fjallið var lífið sjálft og þó við séum alltaf að stefna á toppinn þá sé það ferðalagið á toppinn sem skiptir mestu máli, ferðafélagarnir, hindranirnar sem þarf að yfirstíga, samheldnin, fegurðin og þrautseigjan svo fátt eitt sé nefnt. Nemendur voru einnig minntir reglulega á mikilvægi þess að gefa sér tíma, staldra við og njóta útsýnisins.

Lærdómur kennaranna mikilvægur

Að lokum viljum við draga fram að kennararnir lærðu ekki síður en nemendur mikið á þessum verkefnum sem hér hefur verið lýst og þá ekki síst um mikilvægi þess að láta ekki hindranir hugans stöðva sig í að reyna nýja hluti í kennslu. Þegar vel tekst til geta svona hugmyndir orðið upphafið af einhverju alveg nýju í skólastarfinu og þó þær mistakist þá er það eins og með fjallgöngurnar, maður finnur bara aðra leið.

Á toppnum á Reykjafjalli, Reykjaborginni. Ljósmynd: Kristján Sturla Bjarnason.


Kristján Sturla Bjarnason er tónlistarmaður, tónskáld og grunnskólakennari við Árbæjarskóla. Kristján lauk kennaranámi haustið 2020 með samfélagsfræði sem aðalgrein. Lokaverkefni hans í meistaranáminu bar heitið Gildi þess að efla félags- og tilfinningahæfni nemenda (SEL) fyrir skólastarf á Íslandi. Kristján er með B.Sc í sálfræði og hefur unnið með unglingum um nokkurra ára skeið. Kristján er óhræddur við að fara ótroðnar slóðir í kennslunni þar sem áhersla hans er á eflingu félagsfærni nemenda.

Guðlaug Sturlaugsdóttir er skólastjóri Árbæjarskóla.  Guðlaug var fyrst skólastjóri á Hellissandi haustið 1997 og hefur einnig starfað sem slíkur í Reykjavík og á Seltjarnarnesi í yfir 20 ár.  Áður en hún tók við starfi skólastjóra Árbæjarskóla var hún skrifstofustjóri grunnskólaskrifstofu Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.  Guðlaug er með meistarapróf í stjórnun menntastofnana frá KHÍ en meistaraprófsverkefni hennar fjallar um stefnumörkun í skólastjórnun og áhrif skólastjóra á námsárangur.


Gestaritstjórn afmælisgreina Ingvars Sigurgeirssonar: Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor, Baldur Sigurðsson dósent og Gerður G. Óskarsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkur.


Grein birt 19.3. 2021



Nemendur selja útivistarferðir – verkefni á lærdómsríku valnámskeiði í Grunnskóla Húnaþings vestra

Ingvar Sigurgeirsson og Magnús Eðvaldsson

 

 

 

 

Þú rekur ferðaskrifstofu og átt að skipuleggja útivistarferð.

Um er að ræða tveggja til þriggja daga ferð um Húnaþing vestra, þú ræður hvernig ferð þetta er. Þetta getur verið gönguferð, hjólaferð, jeppaferð, hestaferð eða hvað sem þér dettur í hug. Það á allt að vera innifalið í ferðinni til dæmis matur og gisting.

Það sem þarf að koma fram:

Nákvæm lýsing á ferðinni, ferðatilhögun; hvað er gert á hverjum degi í ferðinni?

Útbúnaður, hvað þarf að hafa með sér í ferðina?

Matur, hvað er í matinn í ferðinni?

Hvað kostar ferðin, hvað er innifalið í verðinu (sundurliðun á kostnaði)?

Svona hljóma fyrirmæli sem nemendur á valnámskeiði í Grunnskóla Húnaþings vestra fá í upphafi námskeiðs um útivist sem þeim stendur til boða annað hvert haust. Námskeiðið, sem hefur verið kennt sjö sinnum, hefur verið sótt af 10‒15 nemendum hverju sinni. Kennarinn er Magnús Eðvaldsson. Magnús er virkur björgunarsveitarmaður og námskeiðið er haldið í góðu samstarfi við björgunarsveitina Húna. Námskeiðið stendur yfir í eina önn, 80 mínútur í hverri viku.

Í Grunnskóla Húnaþings vestra á Hvammstanga er boðið upp á fjölbreytt valnámskeið. Nefna má námskeið í smíðum, upplýsingatækni, heimilisfræði, myndmennt, þýsku, prjónaskap, um borðspil og hlutverkaleiki, Skólahreysti, heilsurækt, kvikmyndir, hestamennsku, rokksögu (þar sem farið er í tónlistarsögu og fjallað um helstu hljómsveitir síðustu ára, auk þess sem nemendum stendur til boða að stofna hljómsveit) og sviðslistir. Enn má nefna námskeið sem kennt er við skólavini og veitir nemendum tækifæri til að taka þátt í samfélagslegum verkefnum, til dæmis aðstoða nemendur í íþróttaskóla, styðja nemendur yngri bekkja, hjálpa til við lestrarþjálfun eða sinna öldruðum.

Aðalverkefnið á útivistarnámskeiðinu er, eins og fram kemur hér að ofan, að nemendur hugsa sér að þeir reki ferðaskrifstofu sem selur ferðir um Húnaþing vestra. Þeir þurfa að ákveða hvaða ferðir eru í boði. Nemendur mega vinna einir, í pörum eða litlum hópum. Ferðin verður að standa í tvo til þrjá daga og hana verður að selja þannig að allt sé innifalið (ferðir, matur, gisting). Gerð er krafa um nákvæma tímaáætlun, greinargerð um hvaða staði á að heimsækja og dagleiðir, sem og hvaða matur verður í boði hverju sinni. Þá þurfa að koma fram upplýsingar um allan útbúnað og huga þarf að öryggismálum.

Áhersla er lögð á að nemendur skipuleggi ferðirnar í þaula. Þeir þurfa m.a. að reikna með öllum vistum og ganga þarf úr skugga um allan kostnað. Enginn afsláttur er gefinn af þessu. Allar kostnaðartölur verða að vera raunverulegar og nemendur afla þeirra gjarnan hjá verslunum og ferðaþjónustuaðilum í héraðinu. Þá þurfa nemendur að huga að samþættingu, til dæmis að kynna ferðina á íslensku, ensku og dönsku og tengja hana hreyfingu og náttúrufræði (náttúrufari á svæðinu sem farið er um).

Sem dæmi um ferðir sem nemendur hafa valið að skipuleggja eru göngu- og veiðiferð um Arnarvatnsheiði, hestaferð um Víðidalstunguheiði, hjólaferð um Vatnsnesið, gönguferð í nágrenni Vesturhópsvatns, fjórhjólaferð, jeppaferð þar sem fléttað var inn heimsóknum á sveitabýli og skoðunarferð með rútu á helstu ferðamannastaði.

Segja má að aðalnámsefnið á námskeiðinu sé útivistarkort sem Ferðamálafélag Vestur-Húnavatnssýslu gaf út (er nú ófáanlegt). Kortið hangir uppi í stofunni meðan á námskeiðinu stendur og nemendur skoða það mikið og velta fyrir sér möguleikum.

Nemendur sækja upplýsingar einnig mikið af netinu. Þá er stuðst við efni úr bókinni Góða ferð – Handbók um útivist eftir Helenu Garðarsdóttur og Elínu Magnúsdóttur og Útilíf eftir Helga Grímsson en þangað er meðal annars sótt námsefni fyrir bóklega tíma. Þá leysa nemendur fjölda verkefna, m.a. um notkun landakorta og áttavita. Sum verkefnanna hafa verið gerð í samstarfi við björgunarsveitarmenn.

Ferðina þurfa nemendur vitaskuld að kynna í lok námskeiðsins, þ.e. þeir þurfa að selja öðrum nemendum ferðina og stundum hafa aðrir gestir verið viðstaddir kynningarnar. Að sjálfsögðu þarf að búa til kynningargögn. Nemendur hafa lagt sig mjög fram við þessar kynningar. Dæmi hafa verið um nemendur, sem ekki hafa þótt mjög áhugasamir um bóknám, en hafa skilað frábærum úrlausnum á þessu námskeiði – hafa beinlínis blómstrað við að skipuleggja ævintýraferðir sínar.

Auk þess að fást við þetta verkefni fá nemendur tækifæri til að glíma við fjölbreyttar æfingar sem valdar hafa verið í samstarfi við Björgunarsveitina Húna. Nefna má köfunaræfingar í sundlauginni, siglingu á björgunarsveitarbátnum, gönguferðir og sigæfingar. Inn í námskeiðið er að sjálfsögðu fléttað kynningu á starfsemi björgunarsveitarinnar.

Sérstaklega er vandað til lokadaganna á námskeiðinu. Annar lokadagurinn er kynningardagurinn, en hinn byggist á ferðalagi. Sem dæmi má nefna ferð þar sem nemendur áttu að ganga eftir korti að Laugarstapa og bera einn í sjúkrabörnum hluta leiðarinnar. Þegar komið var að Laugarstapa fengu nemendur að æfa sig við að síga. Eftir að hafa borðað grillaðar pylsur var farið í siglingu!

Vart þarf að taka fram að nemendur eru hæstánægðir með að eiga kost á námskeiði sem þessu og gaman er að segja frá því að þegar námskeiðið hafði verið kennt í fyrsta sinn, var meðbyrinn nýttur og til varð unglingadeild í Björgunarsveitinni sem starfaði í nokkur ár.

Þetta valnámskeið er gott dæmi um námskeið þar sem kennari byggir á þekkingu sinni og áhugamáli, tengir það nærumhverfi nemenda og býður þeim raunveruleg og áhugaverð verkefni sem hafa tilgang. Ekki verður betur séð en að vinnubrögð sem þessi séu í góðu samræmi við aðalnámskrá grunnskóla. Í skólanum er lögð mikil áhersla á tengsl við atvinnulífið. Skólinn hefur til dæmis lengi verið svokallaður GERT skóli (sjá http://gert.menntamidja.is/#pricingtable) og þróað öflugt samstarf við fyrirtæki og háskóla. Þar má nefna þriggja ára háskólakynningaráætlun þar sem nemendur í 8.–10. bekk heimsækja tækni- og nýsköpunarfyrirtæki og háskóla með áherslu á verklega vinnu og þátttöku í raunvísindum og tækni. Fyrsta árið er farið tvo daga í Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, annað árið í Háskóla Íslands og fyrirtæki í Reykjavík og þriðja árið er farið í Háskólann á Akureyri og fyrirtæki þar. Að vori og hausti fá nemendur um það bil viku í starfsnám eftir áhugasviðum hjá fyrirtækjum, stofnunum og bændum allan skóladaginn.


Ingvar Sigurgeirsson er prófessor við Kennaradeild Háskóla Íslands og sjálfstætt starfandi skólaráðgjafi.

Magnús Eðvaldsson er kennari við Grunnskóla Húnaþings vestra þar sem hann kennir m.a. íþróttir og ýmsar valgreinar.

 




Val á miðstigi í Grunnskólanum á Ísafirði

Jóna Benediktsdóttir

 

Í Grunnskólanum á Ísafirði hefur um nokkurra ára skeið verið sett upp val fyrir nemendur á miðstigi sem kallast hræringur. Nafnið var valið vegna þess að í þessu vali blandast allir nemendur miðstigs eftir áhuga nemenda á viðfangsefnum hverju sinni. Valið nær til þriggja kennslustunda á viku og veturinn skiptist í fjögur valtímabil, annars vegar eru tvær samliggjandi kennslustundir og hins vegar einn stakur tími. Til að koma þessum tímum fyrir í stundatöflu nemenda fækkum við stundum í bóklegum greinum um þrjár og sveitarfélagið hefur veitt skólanum viðbótar skiptistundir til að vinna þetta verkefni. Viðfangsefni í valinu eru ólík eftir því hvort um er að ræða einfaldan eða tvöfaldan tíma. Nemendur velja sér því tvær valgreinar fyrir hvert tímabil eða átta valgreinar alls yfir skólaárið. Hugmyndin var ekki síst að leita leiða til að fyrirbyggja námsleiða sem oft verður vart við á miðstigi og þá sérstaklega hjá strákum.

Drengir á námskeiði um tálgun.

Markmið verkefnisins er þríþætt. Í fyrsta lagi að stuðla að auknum samskiptum nemenda milli bekkja, að efla vinnugleði og að sýna nemendum að hægt sé að nálgast skólaviðfangsefnin á fjölbreyttan hátt. Námsmat í þessum verkefnum byggist á þátttöku og nemendur fá matið lokið eða ólokið. Verkefnið byggist meðal annars á þeirri sannfæringu okkar að ekki skipti öllu máli við hvað nemendur eru að fást í kennslustundum svo framarlega sem viðfangsefnin eru gagnleg, uppbyggileg og fela í sér áskorun.

Á skyndihjálparnámskeiði.

Endurlífgun æfð.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Almennt reynum við að passa að viðfangsefnin á hverri önn séu blanda af tækniverkefnum, verklegri vinnu, hreyfingu og verkefnum sem fela í sér eitthvað sem nemendur gleyma sér í dundi við. Nokkur viðfangsefnanna eru þó svo vinsæl að þau eru alltaf í boði. Þar má nefna vinnu í Fablab smiðju þar sem nemendur byrja á að búa til sína eigin límmiða og þróa síðan vinnu sína yfir í ýmiskonar þrívíddar- og tæknivinnu. Tæknilegóið er líka mjög vinsælt og ekki má gleyma því sem við köllum matur og menning þar sem nemendur læra að elda rétti frá framandi löndum og fræðast um menningu sem er ólík okkar. Önnur viðfangsefni sem hafa verið í hræringi hjá okkur eru: spænska, nýsköpun, leðurvinna, vinna með MaKey MaKey, teiknimyndasögugerð, fimleikar, skartgripagerð, útivist, smíðar, skák, leiklist, skrautskrift, tónlist úr heimabyggð, myndlist, raftónlist, dans, umhirða gæludýra, spil, hljóðfæragerð, yndislestur, þýska, samspil, stuttmyndagerð og Börn og umhverfi sem er samstarfsverkefni skólans og Rauða krossins.

MaKey MaKey er app sem á uppruna sinn í MIT háskólanum en með því er hægt að tengja ýmsa hversdagslega hluti við tölvuna og gera þá til dæmis að stjórntækjum. Hægt er að fræðast um þennan hugbúnað og möguleika hana á vefsíðum sem Styrmir Barkarson, kennari við Holtaskóla heldur úti, sjá hér.

Á námskeiði um Makey Makey. Nemendur kanna leiðni í rusli sem þeir fundu á skólalóðinni.

Kannanir sem gerðar hafa verið hafa sýnt að að milli 90-98% nemenda og foreldra eru ánægðir með þetta fyrirkomulag. Vinnugleði, samskipti og þátttaka er einkennandi fyrir þessa tíma og hefur einnig smitandi áhrif yfir í aðrar kennslustundir og með því teljum við að meginmarkmiði verkefnisins sé náð.

Á námskeiði um umhirðu gæludýra.


Um höfund

Jóna Benediktsdóttir er skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði. Jóna lauk M.Ed prófi frá HÍ haustið 2012. Áherslur Jónu í náminu voru á skóla án aðgreiningar og lýðræði í skólastarfi.




Smiðjuhelgar í Grunnskóla Borgarfjarðar

Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir


Grunnskóli Borgarfjarðar starfar á þremur stöðum, á Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Varmalandi. Þetta voru áður sjálfstæðir skólar en voru sameinaðir árið 2010.  Smiðjuhelgar hafa  frá upphafi verið hluti af skólastarfinu. Áður höfðu þær verið við lýði í Varmalandsskóla frá árinu 2007. Smiðjurnar eru haldnar tvisvar sinnum á hverju skólaári, fyrir og eftir áramót og eru ætlaðar nemendum á unglingastigi. Unglingarnir eru einum tíma skemur  á viku í skólanum en viðmið gera ráð fyrir, en í staðinn vinna þeir með þessum hætti eina helgi á önn.

Tilgangur smiðjanna  er að mæta vali fyrir unglingana með öðrum hætti en almennt tíðkast  og gefa þeim kost á að hafa meira um val sitt að segja. Í fámennum skólum byggjast valgreinarnar oft á því sem kennarar innan hvers skóla treysta sér til að bjóða upp á að kenna og vill valið þá stundum verða einsleitt. Með smiðjuhelgunum fá nemendur fleiri tækifæri. Þeir setja fram hugmyndir sínar um það sem þeim finnst áhugavert og langar að hafa í vali. Unnið er út frá þeirra hugmyndum og leitast við að bjóða smiðjur sem flestir hafa áhuga á hverju sinni.

Fjöldi smiðja fer eftir fjölda nemenda. Að undanförnu hafa unglingar úr Reykhólaskóla og Laugargerðisskóla verið með okkur í þessari vinnu og nú á þessu skólaári bættust unglingar úr Flóaskóla í hópinn. Þetta er skemmtileg viðbót við nemendaflóru smiðjuhelganna og gengur nemendum vel að aðlagast og vinna saman. Nemendur allra skólanna hafa átt þátt í að velja og koma með hugmyndir um smiðjur. Smiðjurnar hafa verið kostaðar af skólunum og þátttökugjöld engin.

Þegar dagskrá liggur fyrir sendum við út valblað sem nemendur fylla út og skila til okkar. Hver nemandi velur eina smiðju. Hér má sjá dæmi um upplýsingar um smiðjur sem nemendur fá í hendur til að velja!

Unnið er í smiðjum frá 14.30 á föstudegi til 14.30 á laugardegi.

Dæmi um dagskrá fyrir smiðjuhelgi

Nemendur gista í skólanum eina nótt, eiga saman skemmtilegt kvöld þar sem nemendafélögin sjá um að vera með kvöldvöku, ratleiki, sundsprell eða hvaðeina sem þeim þykir skemmtilegt. Foreldrar nemenda hjálpa til og taka kvöld- og næturvaktir.

Í lok smiðjuhelgarinnar koma foreldrar að sækja börn sín og gefst þeim þá tækifæri til að kynnast því sem unnið var að. Nemendur og kennarar gera grein fyrir verkefnum helgarinnar og afrakstur þeirra er sýndur. Vinna nemenda er metin af kennara eða leiðbeinenda hverrar smiðju fyrir sig í lokin (sjá hér).

Skólinn hefur verið einkar heppinn með það að nærsamfélag hans  hefur lagt honum  lið og  komið að smiðjunum með einum eða öðrum hætti. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hefur t.d. lagt til  aðstöðu fyrir kennslu í logsuðu, pinnasuðu, járnsmíði og stálsmíði. Björgunarsveitir héraðsins hafa  kennt nemendum heilmargt sem lýtur að starfi björgunarsveitanna svo sem leitarstarfi, snjóflóðaleit, sigi, klifri, björgun úr vatni, farið í hella-  og jöklaferðir og farið yfir fyrstu hjálp og margt fleira. Bridgefélögin, skákfélögin og leikfélögin hafa komið að vinnu í smiðjum, ásamt mörgum einstaklingum í héraði sem hafa margt fram að færa. Með þessu aukum við þekkingu nemenda á því sem  fram fer og unnið er að í samfélaginu okkar í Borgarbyggð.

Hér er verið að kenna nemendum á nýjar spelkur í björgunarsveitarsmiðju

Hér á eftir má sjá dæmi um það sem í í boði var á smiðjuhelgum veturinn 2016‒2017. Sjö smiðjur voru í boði hvort skipti og tæplega 90 nemendur  tóku þátt.

Haustsmiðja:

  • Fatahönnunarsmiðja sem var í höndum ungs fatahönnuðar, Halldóru Sifjar Guðlaugsdóttur, sem nýverið lauk námi í Listaháskólanum.
  • Spilasmiðja sem var í höndum Töru Brynjólfsdóttur, kennara frá Spilavinum, þar sem alls konar borðspil sem miða að samskiptafærni og hópefli voru kennd.
  • Forritunarsmiðja sem var í höndum Tómasar Alexanders Árnasonar.
  • Myndlistarsmiðja í höndum Evu Lindar Jóhannsdóttur, myndlistarkennara í Grunnskóla Borgarfjarðar. Hún hefur oft komið að smiðjum um frjóa og skapandi vinnu.
  • Danssmiðja var í höndum eins af vinsælustu danskennurunum hjá World Class, Bergdísar Rúnar Jónasdóttur.
  • Grjót- og torfhleðslusmiðja í höndum Unnsteins Elíassonar hleðslumeistara frá Ferjubakka.
  • Amerískur fótbolti, smiðja sem var í höndum Brynjars Björnssonar og Viðars Gauta Önundarsonar en þeir eru brautryðendur í útbreiðslu og kennslu þessarar íþróttagreinar hér á landi.

Klárir í ameríska fótboltann

Vorsmiðja:

  • Björgunarsveitarsmiðja í höndum Björgunarsveitarinnar Heiðars í Stafholtstungum í Borgarfirði.
  • Tie dye fatalitunar- og stimpilsmiðja var í höndum Þórleifar Guðjónsdóttur tómstundafræðings.
  • Hipp hopp, street dance danssmiðja var í höndum Söndru Simo Erlingsdóttur danskennara.
  • Handknattleikssmiðja sem stýrt var af Gunnari Magnússyni handknattleiksþjálfara.
  • Marokósk matarlist. Smiðja undir stjórn Helenar Rutar Hinriksdóttur sem er  áhugamaður um matargerðarlist.
  • Járn- og stálsmíðasmiðja þar sem Haukur Þórðarson, kennari við LBHI á Hvanneyri, lagði okkur lið með aðstöðu og kennslu.
  • Dalila Lirio snyrtifræðingur leiddi smiðju um umhirðu húðar og förðun.

Brugðið á leik í lok dags þar sem nemendur sjá um skipulag

Hér má sjá lista yfir allar smiðjur sem hafa verið í boði:

  • Frétta-og fjölmiðlasmiðja
  • Glerlistasmiðja
  • Sjálfsvörn
  • Skylmingar
  • Reiðtygjasmiðjur
  • Kvikmyndagerð
  • Ljósmyndun
  • Pinna- og logsmiðjusmiðjur
  • Járn- og stálsmíði
  • Eldsmiðjur
  • Vélvirkjun
  • Fatahönnun
  • Forritun
  • Söng- og tónlistasmiðjur
  • íþróttasmiðjur (handknattleikur, körfuknattleikur, knattspyrna, blak og amerískur fótbolti)
  • Grjót- og torfhleðsla
  • Matreiðsla (ítölsk, mexikönsk, austurlensk, marókósk matargerðarlist)
  • Bakarasmiðjur
  • Leiklistarsmiðjur
  • Stumpsmiðja (ásláttur, líkamstjáning og frumlegar hreyfingar)
  • Myndlist
  • Skyndihjálp
  • Nýsköpunar og legosmiðjur
  • Vísinda- og tilraunasmiðjur
  • Silfursmíði
  • Skartgripasmiðja
  • Tie dye taulitun
  • Ýmiss konar listasmiðjur, s.s. dans, fjöllist, afrískur trommuleikur, afródans, magadans, hipp hopp, street dance
  • Skák
  • Hárgreiðslu- og fléttusmiðjur
  • Förðun-og húðumhirða
  • Bridge
  • Spilasmiðjur
  • Kik box smiðjur
  • Rafiðnaðarsmiðja
  • Kransaskreyting
  • Leðurlistasmiðja

Þeir sem velja matreiðslu hafa séð um að elda mat fyrir hópinn meðan á smiðjunni stendur; kvöldverð á föstudegi og hádegisverð á laugardegi. Það er gaman að sjá hversu vel nemendur leggja sig fram um  að bjóða skólafélögum og gestum upp á góðan og framandi mat, ásamt því að vanda framreiðsluna. Oft skapa þeir skemmtilegan blæ í matsalnum sem tengist því að hafa viðeigandi tónlist eða eitthvað sem minnir á þann stað  sem matreiðslan á uppruna til.

Nemendur í matargerðarlist
Nemendur kynnast nýrri gerð af sjúkrabörum

Það er alltaf spenna fyrir smiðjunum og virkilega gaman að fylgjast með áhuga nemenda, sem og þeirra sem taka að sér að sjá um smiðjurnar hverju sinni. Það má segja að sjá megi nemendur blómstra í verkefnum sínum. Þeir gleyma stund og stað þar sem tímarammi venjubundinna kennslustunda gleymist algerlega.

Almenn ánægja er með verkefnið bæði hjá nemendum og foreldrum sem hefur komið fram í könnunum og mati nemenda eftir helgarnar. Þeir sem hafa kennt í  smiðjunum kveðja okkur yfirleitt með þeim orðum að þeir séu tilbúnir í aðra smiðjuhelgi ef áhugi sé fyrir því. Það eru góð meðmæli með nemendum okkar og verkefninu sjálfu.

Hér má að lokum sjá nokkur dæmi um umsagnir nemenda sjálfra um smiðjuhelgarnar:

  • Er búin að bíða svo lengi eftir að fá að taka þátt í smiðjum, þetta var frábært.“
  • Vildi að ég ætti möguleika á að taka þátt í fleiri en einni smiðju yfir helgina svo margt áhugavert í boði.“
  • Amerískur fótbolti er frábær íþrótt ‒ getur skólinn ekki boðið upp á kennslu í þessari grein alltaf.“
  • Tókst að klára að gera beisli og taum, ég ætla að gefa vini mínum þetta í fermingargjöf. Binni kennari frábær.“
  • Við kynnumst á nýjan hátt krakkarnir.“

Danshópur Söndru