Grunnskólinn hjá sveitarfélögum í 25 ár: Ávinningar og áskoranir
Anna Kristín Sigurðardóttir, Börkur Hansen, Gerður G. Óskarsdóttir, Ingvar Sigurgeirsson, Sigríður Margrét Sigurðardóttir og Þorsteinn Sæberg
Hvatann að flutningi á heildarrekstri grunnskóla til sveitarfélaga árið 1996 má einkum rekja til fyrirmynda frá Norðurlöndum, hugmynda frá OECD um frumkvæði og sjálfstæði einstakra skólaumdæma og skóla og ríkjandi strauma um valddreifingu í ríkisrekstri, þ.m.t. flutningur á verkefnum til sveitarfélaga. Með því að færa stefnumótun og ábyrgð á opinberum viðfangsefnum, s.s. rekstri grunnskóla, nær vettvangi var vænst skilvirkara starfs og aukinnar aðkomu foreldra og íbúa, auk áherslu á sjálfstæði skólanna (Fjármálaráðuneyti, 1993; Jón Torfi Jónasson, 2008; Ólafur G. Einarsson, 1994; Ómar H. Kristmundsson, 2003).
Fyrir flutninginn var kennslu- og stjórnunarkostaður grunnskóla greiddur úr ríkissjóði og yfirstjórn á hendi menntamálaráðuneytis (Lög um grunnskóla, nr. 49/1991). Stofnkostnaður og rekstur skólahúsnæðis grunnskóla hafði aftur á móti verið á höndum sveitarfélaga, auk efniskaupa og fleira, í nokkur ár (Lög um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, nr. 87/1989). Á árunum 1975–1996 var landinu skipt í átta fræðsluumdæmi. Þeim var stýrt af fræðslustjórum sem voru ríkisstarfsmenn og á hverri fræðsluskrifstofu störfuðu að auki nokkrir starfsmenn, s.s. ritari, fjármálafulltrúi og sérkennsluráðgjafi einn eða fleiri, auk sálfræðinga og almennra kennsluráðgjafa í sumum umdæmanna. Lesa meira…