Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Tag archive

tölvu- og upplýsingatækni

Spjaldtölvuskammdegið: Óljósar vangaveltur um uppsprettu andstöðu við viðleitni til að bæta skólastarf og valdefla nemendur

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Björn Gunnlaugsson

Ritvélin var fundin upp á nítjándu öld og var mikil völundarsmíð. Hnappar á lyklaborði voru prýddir öllum bókstöfum stafrófsins og þegar þrýst var á hnappana skutust hamrar leiftursnöggt úr sætum sínum, einnig prýddir sömu bókstöfum upphleyptum sem lentu með þunga á blekborða með þeim afleiðingum að á blaði undir borðanum sat eftir afrit bókstafsins. Þvílíkur galdur! Skrásetningargeta mannkyns margfaldaðist við þetta á einni nóttu en einn ljóður var á ráði þessa nýja galdratækis, eins og oft er með nýjungar. Hamrarnir áttu það til að rekast á þegar þeir flugu að blekborðanum og blaðinu og læsast saman. Nú voru góð ráð dýr.

Ráðist var í að raða hömrunum upp á nýtt og var beitt þeirri aðferð að rýna uppröðun bókstafa í orðum og setja saman hlið við hlið í ritvélinni þá bókstafi sem sjaldnast stóðu saman í orðum, því þannig mætti fækka árekstrunum. Þetta krafðist þess hins vegar að fram færi mikil þjálfun til að ritari lærði þessa nýju uppröðun stafanna en hún lá alls ekki í augum uppi. Þeirri þjálfun er enn haldið áfram í skólum þótt áratugir séu liðnir síðan síðast komu við sögu hamrar með upphleyptum stöfum, blekborðar og blöð þegar setið var við skriftir.

Þegar höfundur þessa pistils var að læra vélritun í grunnskóla á síðustu öld voru rafknúnar ritvélar til á mörgum heimilum og öllum vinnustöðum. Í skólanum var slíkum vélum ekki til að dreifa heldur þurfti að beita allnokkru afli með fingrunum til að fá hamrana til að gera sitt gagn. Nemendum var að sjálfsögðu bannað að nota rafmagnsritvélarnar heima til að vinna vélritunarverkefnin, því þá væri hætta á að þeir næðu ekki að þjálfa upp nægilegt afl í fingurna til að geta notað þessar úreltu ritvélar sem voru hvergi lengur til nema í skólum.

Í dag notast enginn lengur við ritvélar og þótt lyklaborðin hafi fylgt tölvum fyrstu áratugina eru þau nú á útleið því með tækniframförum má nú nota röddina til að gefa tölvunni fyrirmæli um hvað eigi að skrifa. Sé því ekki til að dreifa eru lyklaborð nú oftast á örlitlum skjá þar sem best er að nota þumlana til að þrýsta á stafina. Samt þráumst við við að þjálfa nemendur í vinnubrögðum fortíðar okkar.

Eins og góður skólamaður sagði eitt sinn: „Í skólastarfi erum við miklir sérfræðingar í að gera ranga hluti mjög vel.“ Lesa meira…

Fara í Topp