Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Tag archive

sveitarfélög

Skólaþjónusta sveitarfélaga í nútíð og framtíð: Viðfangsefni, starfshættir og skipulag

í Greinar

Rúnar Sigþórsson, Birna María Svanbjörnsdóttir, Hermína Gunnþórsdóttir, Jórunn Elídóttir, Sigríður Margrét Sigurðardóttir og Trausti Þorsteinsson

Árið 2020 kynnti rannsóknarhópur við Kennaradeild Háskólans á Akureyri fyrstu niðurstöður rannsóknar á skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla í tveimur skýrslum (Birna Svanbjörnsdóttir o. fl. 2020a, 2020b). Enn fremur hefur rannsóknarhópurinn birt tímaritsgreinar um niðurstöður rannsóknarinnar (Birna María Svanbjörnsdóttir o. fl., 2021; Hermína Gunnþórsdóttir o. fl. í ritrýningu; Sigríður Margrét Sigurðardóttir o. fl. 2022) og kynnt þær á ráðstefnum og málþingum. Rannsóknin beindist að því að kanna umgjörð og starfshætti skólaþjónustunnar og hvernig sveitarfélögin standa að því að tryggja skólum sínum þann aðgang að skólaþjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum og reglugerð um skólaþjónustu (nr. 444/2019).

Þrenns konar gagna var aflað í rannsókninni: Í fyrsta lagi var spurningakönnun send til skólastjóra í leik- og grunnskólum og þeirra sem eru í forsvari fyrir skólaþjónustu. Þeir sem svöruðu fyrir hönd skólaþjónustunnar voru í flestum tilvikum yfirmenn skólaskrifstofa, s.s. fræðslustjórar, en gátu einnig verið sveitarstjórar í þeim sveitarfélögum sem ekki reka skólaskrifstofu. Í öðru lagi var tilviksrannsókn þar sem tekin voru nítján viðtöl við fræðslustjóra eða yfirmenn skólaskrifstofa, deildarstjóra og aðra starfsmenn skólaskrifstofa, svo sem sálfræðinga, sérkennsluráðgjafa og talmeinafræðinga í fimm völdum tilvikum. Viðtalsramminn tók mið af spurningakönnuninni og miðaði að því að fá efnismeiri svör um ýmsa þætti en þar fengust. Í þriðja lagi voru greind helstu stefnuskjöl um skólaþjónustuna sem birt eru á vef sveitarfélaganna í tilvikunum fimm þar sem viðtölin voru tekin. Lögð var áhersla á að greina hversu skýr stefna sveitarfélaganna um skipulag og inntak skólaþjónustu birtist á vefsíðum þeirra, hvers konar þjónustustefna birtist í umfjöllun skólaskrifstofa sveitarfélaganna um eigin starfsemi og hver væri umgjörð, skipulag og starfsskilyrði skólaþjónustunnar. Að auki var kannað hvers konar eyðublöð fyrir notendur þjónustunnar eru tiltæk og enn fremur var kannað aðgengi að ýmsum upplýsingum um skólaþjónustuna, svo sem um starfsfólk, starfslýsingar og samstarf við önnur þjónustukerfi. Lesa meira…

Grunnskólinn hjá sveitarfélögum í 25 ár: Ávinningar og áskoranir 

í Greinar

Anna Kristín Sigurðardóttir, Börkur Hansen, Gerður G. Óskarsdóttir, Ingvar Sigurgeirsson, Sigríður Margrét Sigurðardóttir og Þorsteinn Sæberg 

Hvatann að flutningi á heildarrekstri grunnskóla til sveitarfélaga árið 1996 má einkum rekja til fyrirmynda frá Norðurlöndum, hugmynda frá OECD um frumkvæði og sjálfstæði einstakra skólaumdæma og skóla og ríkjandi strauma um valddreifingu í ríkisrekstri, þ.m.t. flutningur á verkefnum til sveitarfélaga. Með því að færa stefnumótun og ábyrgð á opinberum viðfangsefnum, s.s. rekstri grunnskóla, nær vettvangi var vænst skilvirkara starfs og aukinnar aðkomu foreldra og íbúa, auk áherslu á sjálfstæði skólanna (Fjármálaráðuneyti, 1993; Jón Torfi Jónasson, 2008; Ólafur G. Einarsson, 1994; Ómar H. Kristmundsson, 2003).  

Fyrir flutninginn var kennslu- og stjórnunarkostaður grunnskóla greiddur úr ríkissjóði og yfirstjórn á hendi menntamálaráðuneytis (Lög um grunnskóla, nr. 49/1991). Stofnkostnaður og rekstur skólahúsnæðis grunnskóla hafði aftur á móti verið á höndum sveitarfélaga, auk efniskaupa og fleira, í nokkur ár (Lög um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, nr. 87/1989). Á árunum 1975–1996 var landinu skipt í átta fræðsluumdæmi. Þeim var stýrt af fræðslustjórum sem voru ríkisstarfsmenn og á hverri fræðsluskrifstofu störfuðu að auki nokkrir starfsmenn, s.s. ritari, fjármálafulltrúi og sérkennsluráðgjafi einn eða fleiri, auk sálfræðinga og almennra kennsluráðgjafa í sumum umdæmanna.   Lesa meira…

Litið yfir farinn veg 25 árum eftir flutning grunnskólans frá ríki til sveitafélaga: Hverju hefur helst farið fram og hvað er brýnast að bæta?

í Greinar

Ingvar Sigurgeirsson

 

Á síðasta ári voru 25 ár síðan rekstur grunnskólans var fluttur yfir til sveitarfélaganna. Samband íslenskra sveitarfélaga ákvað að Skólaþing sveitarfélaga árið 2021 yrði helgað umræðu um farinn veg og horft fram á veginn til næstu 25 ára. Óskað var eftir því að ég ávarpaði þingið og fékk erindið heitið Hverju hefur helst farið fram og hvað er brýnast að bæta? (Erindið, sem er að finna hér, var raunar ekki flutt fyrr en 21. febrúar 2022 þar sem fresta þurfti þinginu af kunnum ástæðum.)

Á undanförnum árum og áratugum hef ég unnið með mörgum skólum og sveitarfélögum að verkefnum sem meðal annars hafa tengst kennsluháttum, skólaþróunarverkefnum, námsmati, samskiptum, skólaskipan, skólabyggingum og mótun skóla- og menntastefnu. Í þessari vinnu hef ég átt þess kost að eiga samræður við kennara og starfsfólk skóla, fulltrúa í sveitarstjórnum, nemendur, foreldra og íbúa og var hugmynd mín að byggja erindið á þessari reynslu og velja dæmi um það sem vel hefur verið gert, sem og um það sem mikilvægast væri að bæta.

Fljótlega eftir að ég fór að velta efninu fyrir mér og velja dæmi fæddist sú hugmynd að leita álits fólks sem vel hefur fylgst með skólamálum á undanförnum árum og sendi ég 25 skólamönnum beiðni um álitsgjöf og bað þá að svara fjórum spurningum:

  1. Getur þú tilgreint stuðning sveitarfélags við grunnskólastarf sem þér finnst vera til fyrirmyndar? Settu gjarnan stutt rök.
  2. Koma þér í hug skólaþróunarverkefni sem sveitarfélög hafa efnt til og eru til eftirbreytni? Eru einhver framúrskarandi?
  3. Hverjar eru stærstu áskoranir sem sveitarfélög standa nú frammi fyrir gagnvart grunnskólanum?
  4. Hvaða lærdóma má helst draga af reynslunni af flutningi grunnskólans frá ríki og yfir til sveitarfélaganna?

Lesa meira…

Fara í Topp