Hvað heitir barnið? Þegar gagnsæi hugtakanna kallar fram ranghugmyndir og ólíkan skilning
Karl Hallgrímsson
Innleiðing nýrra stefna í íslenskt skólakerfi tekur langan tíma. E.t.v. liggur orsökin í því hversu fljótt sumt skólafólk er að dæma og mynda sér skoðun út frá þeirri merkingu sem það leggur í hugtökin við fyrstu kynni í stað þess að bíða þangað til það hefur kynnt sér málefnin og tryggt réttan og helst sameiginlegan skilning. Fordómarnir mynda ójafnvægi í skólaumhverfinu. Umræðan um nýju stefnuna verður skökk því skilningur þeirra sem um hana fjalla er ólíkur.
Skóli án aðgreiningar, heildstæð móðurmálskennsla, einstaklingsmiðað nám, opinn skóli, teymiskennsla, símat og leiðsagnarnám eru dæmi um stefnur og hugmyndakerfi innan menntakerfisins sem tók langan tíma að fá sameiginlegan skilning á meðal kennara og annars fagfólks, ef hann hefur þá nokkurn tíma náðst.
Hugtakasmíði virðist ósköp saklaus. Jafnvel má hafa gaman af þeim hluta innleiðinga nýrra hugmynda að gefa þeim heiti. Það er þó ekki eins léttvægt og ætla mætti að óathuguðu máli. Hugtakasmíði getur ráðið úrslitum um það hversu vel eða fljótt innleiðing nýrra hugmynda, nýrra stefna og breyttra aðferða tekur í íslensku skólakerfi.
Gagnsæi orðanna sem mynda hugtökin um stefnur og hugmyndir getur stundum þvælst fyrir okkur sem störfum í menntakerfinu. Um leið og við heyrum eða lesum orðið sem fyrst hefur verið valið fyrir nýja hugmynd, nýtt hugmyndakerfi eða nýja stefnu, myndum við okkur skoðun á fyrirbærinu. Þá skoðun myndum við okkur einungis út frá skilningi okkar á orðunum í sjálfu heiti hugmyndarinnar. Sá skilningur er oftar en ekki rangur eða ófullnægjandi og verður til þess að viðhorf okkar til nýjunganna verður neikvætt. Það er bagalegt. Lesa meira…