Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Tag archive

siðfræði

Náttúra, skepnur og farsælt líf

í Greinar

Ólafur Páll Jónsson

Mary Midgley byrjar bók sína, Skepna og maður: Rætur mannlegrar náttúru á orðunum: „Við erum ekki tiltölulega lík dýrum; við erum dýr.“ Hún heldur svo áfram og segir: „Það sem gerir okkur frábrugðin öðrum dýrum kann að vera sláandi, en samanburður við þau hefur verið, og er óhjákvæmilega, mikilvægur fyrir hugmyndir okkar um okkur sjálf“ (Midgley, 1979, bls. xiii).

Í þessari grein, sem byggð er á erindi sem ég hélt á Menntaviku 2023, fjalla ég um manneskjur sem dýr og um mannlega farsæld sem dýrslegt ástand, eða öllu heldur, sem dýrslegt hlutskipti. Nú þegar orðið „farsæld“ er nánast á hvers manns vörum er vert að staldra við og hugleiða merkingu þess. Ég lít svo á að farsæld sé ekki bara ástand, staða einhvers sem er mælanleg á tilteknum tímapunkti, heldur hlutskipti sem varðar aðstæður, sögu og væntingar einstaklingsins, og það umhverfi sem hann er hluti af, bæði náttúrulegt og manngert, efnislegt og menningarlegt. Til að skilja hverskonar hlutskipti það er í tilviki manneskja að njóta farsældar, þá verður að líta á það sem hlutskipti dýrs. En vissulega mjög sérstak dýrs. Lesa meira…

Meginiðja mannfólksins: Umsögn um bók eftir Philip Kitcher

í Greinar/Ritdómar

Atli Harðarson

 

Philip Kitcher er með þekktari heimspekingum samtímans. Hann fæddist í London árið 1947, ólst upp á Suður-Englandi en lauk doktorsprófi í vísindaheimspeki og vísindasögu frá Princeton háskóla í New Jersey árið 1974. Hann er nú prófessor emeritus við Columbia háskóla í New York.

Kitcher er höfundur fjölda bóka um heimspekileg efni. Með skrifum sínum um stærðfræði, líffræði og fleiri raunvísindi á árunum milli 1980 og 1990 skipaði hann sér í fremstu röð fræðimanna á sviði vísindaheimspeki og tók við keflinu af eldri samstarfsmönnum sínum, þeim Carli Hempel (1905–1997) og Thomasi Kuhn (1922–1996).

Á seinni árum hefur Kitcher líka skrifað um listir, trúarheimspeki, stjórnmálaheimspeki, siðfræði og fleiri efni. Nýjasta bók hans fjallar um heimspeki menntunar. Hún kom út í fyrra hjá Oxford University Press og heitir The main enterprise of the world. Á íslensku gæti hún kallast Meginiðja mannfólksins. Að mínu viti sætir þessi bók töluverðum tíðindum. Höfundur þorir að hugsa af djörfung og honum tekst afar vel að tengja heimspeki menntunar við stóran fræðaheim enda hefur hann, eins og áður segir, komið víða við í fyrri skrifum. En þótt hann klífi hátt slær hann hvergi af kröfum um rökstuðning og vandaða umfjöllun. Lesa meira…

Um bókina Flourishing as the Aim of Education eftir Kristján Kristjánsson

í Ritdómar
Kristján Kristjánsson
Atli Harðarson

 Atli Harðarson

 

Kristján Kristjánsson er löngu vel þekktur meðal fræðimanna sem fjalla um heimspeki menntunar. Hann er einkum kunnur fyrir skrif sín um viðfangsefni sem liggja á mörkum siðfræði og menntavísinda. Í ritum sínum um þau efni nýtir hann dygðasiðfræði Aristótelesar sem leiðarljós og bækur hans (Kristján Kristjánsson, 2007, 2015, 2018) eiga mikinn þátt í því að slík siðfræði nýtur vaxandi viðurkenningar og áhuga meðal þeirra sem fjalla um siðferðilegt uppeldi. Kristján er líka frumkvöðull í því að nota nýjustu rannsóknir í sálfræði til að varpa ljósi á viðfangsefni á sviði siðfræði eins og hann gerir í nokkrum bóka sinna (Kristján Kristjánsson, 2002, 2006, 2010, 2013).[1]

Nýjasta bók Kristjáns heitir Flourishing as the Aim of Education og hefur undirtitilinn A Neo-Aristotelian View. Í henni koma saman allmargir þræðir úr fyrri verkum hans þar sem hún fjallar í senn um sálfræðileg efni, siðfræði og skólastarf. Bókin er afar læsileg og lesandi getur vel skilið textann án þess að þekkja fyrri verk Kristjáns. Það hjálpar þó að hafa einhver kynni af heimspekilegri siðfræði og rökræðu um hlutverk og tilgang skóla. Lesa meira…

Fara í Topp