Nýr skóli á nýrri öld – um þróunarstarf í Salaskóla í tuttugu ár
Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum
Hafsteinn Karlsson
Í upphafi aldarinnar var mikil gerjun í skólastarfi. Sveitarfélögin höfðu nýlega tekið við rekstri grunnskólanna af ríkinu og víðast hvar var mikill metnaður og áhugi heimamanna á að gera skólana sína sem besta. Í Reykjavík var t.a.m. markvisst umbótastarf í gangi þar sem lagt var upp með einstaklingsmiðað og fjölbreytt skólastarf. Kennaraháskólinn var kominn vel af stað með sérstakt framhaldsnám fyrir skólastjórnendur með áherslu á faglega forystu skólastjórnenda í sínum skólum og mikilvægi þess að starf hvers skóla byggi á skýrri hugmyndafræði. Meistaranám í kennslufræðum hafði einnig fest rætur. Fjölgreindakenning Gardners var á hvers mann vörum og bók Thomasar Armstrongs um hana kom út í íslenskri þýðingu Erlu Kristjánsdóttur árið 2001. Hún opnaði augu margra kennara fyrir mikilvægi fjölbreytts skólastarfs. Einnig voru hugmyndir um samfellu skóla- og frístundastarfs, umhverfismál, jafnréttismál og möguleikar upplýsingatækninnar í námi og kennslu ofarlega á baugi. Þá voru gerðar tilraunir til að stokka upp kjarasamninga kennara m.a. í því skyni að auka möguleika á faglegu samstarfi og samvinnu kennara við undirbúning og skipulagningu náms. Lesa meira…