1

„Við förum ekki að gagnrýna okkur sjálf, er það?“

Hugleiðingar um framfarir, varðveislu og menntun í tilefni af sjötíu ára afmæli Ingvars Sigurgeirssonar

Ragnar Þór Pétursson

 

Það er dæmigert fyrir Ingvar Sigurgeirsson að þessi grein megi helst ekki fjalla um hann þótt hann samþykki að fram komi að hún sé hugsuð og skrifuð í tilefni af sjötíu ára afmæli hans. Fáa þekki ég sem minni þörf hafa fyrir sviðsljósið nema ef væri til að beina því að öðrum. Ég veit þó að Ingvar mun fyrirgefa mér þá óhlýðni að draga nafn hans fram með þeim hætti sem ég geri. Annað er ekki hægt. Hann skilur líka mætavel að lífið er litakassi en ekki ljósritunarvél; ef ekki er litað út fyrir línurnar hættir myndin að stækka.

Gimsteinar í sorpi

Þegar Hjálmar Jónsson, Bólu-Hjálmar, var orðinn gamall og lúinn barst honum eitt sinn óvænt peningasending. Þessi óvænti vinagreiði varð til þess að hann orti eftirfarandi:

Víða til þess vott ég fann,
þó venjist tíðar hinu,
að Guð á margan gimstein þann
sem glóir í mannsorpinu.

Það var ekki sérlega oft sem Hjálmar fann hjá sér þörf til að mæra samferðafólk sitt enda er ljóðið ekki beiskjulaust. Hin inngróna svartsýni og vantrú á mannskepnuna í skrifum Hjálmars gerir það þeim mun áhugaverðara að leita vísbendinga í ljóðum hans um von eða bjartsýni. Skáldið vissi mætavel af anda upplýsingarinnar, framfaratrúnni og þjóðrækninni sem einkenndi seinni hluta 19du aldar. Sjálfur fæddist hann í blálok 18du aldar og líf hans einkenndist af skorti, skuldum, basli og innri baráttu við vonleysi og freistingar.

Ríkmanns mig rak að setri,
ráðin engin þekkti betri,
af sulti kominn mjög í mál.
Sá ég vera soðið slátur,
sál mín rak upp skellihlátur
og gufuna með græðgi át.
Einmitt var það allur greiði
ég sem hlaut af krásar seyði.
Dró ég mig að beisla bát.
Sál mín vön við sultarhaginn
samt af slórði þennan daginn
og vonir sínar allar át.

Þeim, sem etið hefur gufuna úr sláturpottum hinna ríku, er vorkunn þótt trúin um betri heim nái illa til jarðneskrar tilvistar. Þó skín víða í gegn, auðvitað ekki beiskjulaust, að Hjálmar bar í brjósti veika von um að lífið á Íslandi gæti orðið betra. Hann hafði að sjálfsögðu ríkar efasemdir um að það gæti orðið fyrir atbeina Íslendinga sjálfra en með leiðsögn æðri máttar, Drottins eða jafnvel Kristjáns níunda Danakonungs (sem hann tignaði óvænt í kvæði í tilefni af þjóðhátíðinni 1974), virðist hann hafa talið að bæta mætti um betur.

Jóhann á Dálkstöðum var fyrsti kennari Hjálmars, sá sem kenndi honum að skrifa. Í kennslulaun varð hann andlag fyrstu níðvísu hins upprennandi skálds sem þá var átta ára.  Hjálmar var bráðþroska og gáfaður en allnokkuð vanstilltur. Hann kunni Biblíuna vel og las allan trúarlegan texta sem hann komst yfir. Hann var trúaður á almættið en ekki á presta og var óþreytandi við að ögra þeim og gagnrýna. Hann komst líka í ýmis forn fræði og var sjálfmenntaður í þeim. Hann hafði gaman af því að fólk tryði að hann gæti rist galdrarúnir eða notað áhrínisorð, hafi hann hreinlega ekki trúað því sjálfur, og hafði yndi af því á ýmsan hátt að vera talinn fulltrúi hins forna Íslands þegar borgaralegu, rómantísku skáldin reyndu að draga íslenskt ljóðmálið inn í nýja tíma.

Hjálmar var ekki efnilegur bóndi og flest fór aflaga sem hann reyndi fyrir sér í þeim efnum. Það var honum mikið reiðarslag og mannorðsmissir þegar hann var sakaður af sveitungum sínum um sauðaþjófnað, einn alvarlegasta glæp íslensks bændasamfélags, þótt hann hafi að endingu verið sýknaður. Hann átti ýmsa góða vini þótt reglulega slettist upp á vinskapinn og þótti skemmtilegur þegar sá gállinn var á honum.

Mér þykir við hæfi að hefja umhugsun um íslensk skólamál og samfélag á því að draga fram mann eins og Bólu-Hjálmar. Hann var þróttmikill, hæfileikaríkur, íhugull og eftirtektarverður á margan hátt og þrátt fyrir að honum hafi þótt dálítil fremd í því að tilheyra hinu forna Íslandi, í stað þess að hlaupa á eftir rómantískum tískubylgjum sem íslenskir stúdentar drógu með sér frá Kaupmannahöfn, held ég að ljóst sé að hentað hefði bæði honum og Íslandi hefði hann fengið að fæðast inn í samfélagsgerð sem töluvert seinna var á ferðinni. Hann var kannski ekki á undan sinni samtíð – en samtíðin var ekki að öllu leyti tilbúin fyrir hann.

Hlutdeild í himninum

Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg. Þar ríkir fegurðin ein ofar hverri kröfu.

Svo mælti Halldór Laxness. Næst langar mig að gera hann að umræðuefni ásamt hinu jarðneska og himneska – og þá stöðu þegar þetta tvennt rennur saman í eitt. Kynslóð eftir kynslóð þraukuðu Íslendingar gegnum hallæri og hungur með það veganesti að réttláts fólks biði betra líf á himnum. Lífið á norðurhjara hékk oft á bláþræði og tryggð við óbreytta – og fábreytta – lifnaðar- og starfshætti stafaði eflaust fyrst og fremst af varfærnu viðhorfi til breytinga og áhættu. Á 18du og 19du öld fær þjóðin fregnir af nýju þjóðskipulagi, nýjum atvinnuháttum, nýjum tímum – jafnvel nýjum trúarbrögðum og heimkynnum í framandi álfum. Þegar líða fer á tuttugustu öldina stækkar sjóndeildarhringurinn og metnaðurinn og bjartsýnin fara á flug. Trú eykst á að norður við heimskautsbaug megi skapa samfélag sem ekki þarf að skammast sín í samfélagi þjóðanna. Samfélag raflýsingar og útvarps; háskóla og heimsborgara. Óþolinmóður að venju ávarpar ungur Halldór Laxness þjóð sína:

Járnbraut austur! Ræktað land! Raflýsing sveitabæjanna! Saman með fólkið! (Halldór Guðmundsson, 2020)

Þrem misserum seinna tekur Halldór aftur upp penna, nú búsettur í Kaliforníu, til að bregðast við gagnrýni á hin fyrri skrif. Inntak hinna seinni skrifa er þetta: Vond veður á Íslandi og skammdegismyrkur afsaka ekki léleg híbýli og myrkravist heldur þvert á móti krefst þess af þjóðinni, geri hún til sín eðlilegar menningarkröfur, að hún byggi utan um sig hlý og björt hús. Nægur sé efniviðurinn og rafmagnið auðvelt að framleiða. Hann muni halda áfram að skrifa um þessi mál þar til alþýðu landsins skiljist að hún hafi engan rétt til að lifa eins og hundar. (Halldór Laxness, 1928)

Bólu-Hjálmar skammaðist í þjóð sinni og áleit hana vanvirða móður sína, landið, föður sinn, skaparann, og sig sjálfa. Tilraunir hans við að særa fram forna anda sér til hjálpar skiluðu honum litlu öðru en vandræðum. Hann taldi sig þurfa að deyja til að eygja von um betri vist. Halldór hafði engan tíma til að bíða eftir slíku enda af kynslóð sem taldi að fólk gæti sjálft leyst úr læðingi þau öfl sem reiddu bjartari tíma og siðmenninguna á baki sér. Öld framfara var runnin upp – öldin sem skapað gæti paradís á Jörð. Himin og jörð gátu runnið saman í eitt og hið jarðneska orðið himneskt.

Halldór, eins og Hjálmar, menntaði sig að talsverðu leyti sjálfur. Hann sagði skilið við menntaskólann á lokasprettinum og flutti til útlanda, staðráðinn í að verða eitthvað sem ekki virtist hægt að verða á Íslandi að óbreyttu. Hann hélt áfram að nema næstu árin, hjá munkum í Lúxemborg og London, í Kaupmannahöfn og Kaliforníu – auk þess að drekka í sig alþýðufróðleik fólks í íslenskum heiðarbýlum. Á öld framfara hafði það sem Halldór taldi sig þurfa að læra ekki skilað sér inn í skólana og því varð hann, eins og Stephan G. hafði orðið áður, sinn eigin kennari – og meðfram því kennari og umvandari þjóðarinnar sem hann taldi sækjast í að lifa eins og hundar. Öðrum þræði snerist þetta allt auðvitað um að berjast fyrir – nei, krefjast, samfélags sem rými hefði fyrir fólk eins og það sem Halldór vildi vera: „án snillínga íslensks máls erum vér skrælingjar, enda þótt vér komumst í dýrlíngatölu á erlendum kauphölum fyrir hrogn og grút.“ (Halldór Guðmundsson, 2020)

Stormur leystur úr læðingi

Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðsterkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.

Hannes Hafstein náði að vera samtímamaður beggja, Hjálmars og Halldórs, og skáld eins og þeir. Hann var harðfylginn, nokkuð átakasækinn og gjarnan umvafin deilum af ýmsu tagi. Líklega geta aðeins þannig menn skrifað opinberar ástarjátningar til stormsins meðal þjóðar sem enn býr í ófokheldum húsum. Stormur Hannesar er ekkert venjulegt veður. Hann sópar burt því gamla og gefur hinu nýja rými til að vaxa, hann þenur út segl og blæs upp glæður, hann feykir skýjum frá sólu og eflir þrótt.

Önnur eins náttúrulýsing á sér varla hliðstæðu í íslensku ljóðmáli frá fyrri tímum. Vissulega fögnuðu rómantísku skáldin hverju vori og því þegar sólin braust fram undan fjöllum og skýjum. En sú lífsglæðing var yfirleitt ljúf og nærgætin; vorsól sem kyssir lítinn bæ, lækur sem hjalar í leysingum eða fuglasöngur í móa. Bólu-Hjálmari fannst Ísland vera lífsþreytt og slitin móðir ódælla þorpara. Rómantísku skáldin horfðu á hana með augum elskandi barna. Hannes leit á hana sem ótæmandi orkulind. Að því leyti er hann kannski afdráttarlausari fulltrúi framfara en t.d. Halldór Laxness.

Þegar þetta þrennt fór saman: trú á framfarir, sæluríki á jörð og ótæmandi afl var þess auðvitað ekki lengi að bíða að mannkynið færi fram úr sjálfu sér. Í dag ætti myndmálið í Stormi helst við lýsingu á kjarnorkusprengingu og ofsafengnum áhrifum loftslagsbreytinga. Fyrirmyndaríkin sukku hvert af öðru ofan í hafsjó af blóði og landið hætti í raun að vera jarðneskt og rann saman við himininn þegar milljarða ára uppsöfnuðu kolefni var dælt út í andrúmsloftið, í nafni þæginda og framfara, með skelfilegum afleiðingum – loks virðist fólki vera nákvæmlega jafn eðlislægt að fara í taugarnar hvert á öðru í heiminum í dag og það gerði um miðja þar síðustu öld norður í Akrahreppi. Framfarir leiddu af sér hamfarir; framfaraöld fylgi aðfararöld – tími skuldadaga.

Hannes var ólíkur þeim Hjálmari og Halldóri um margt. Hann fæddist inn í samfélag sem var eins og sniðið að þörfum hans. Sonur amtmannsins á Möðruvöllum átti greiða leið til náms og starfa og hlaut að endingu æðsta embætti þjóðarinnar. Hann virðist þó hafa verið algerlega sammála þeim báðum um lágt menningarstig þjóðarinnar og brýna þörf á að bæta þar úr. Hann notar fjölbreytt líkingarmál til að reyna að hvetja þjóð sína til dáða. Stormurinn er eitt. Svipað myndmál fá finna í Spretti, þar sem hann berst á fáki fráum fram um veg. Hann málar athyglisverða mynd af fjalldrapanum í samnefndu kvæði, jurtinni sem læsir rótum sínum í jarðveginn og virðist þola allt, lætur aldrei bugast og dugar jafnvel í vendi til að „húðstrýkja þá, sem heilnæma tyftingu þurfa að fá.“ Umhugsunarverðust er þó vísunin, sem á þessum árum varð sífellt ágengari, í eldmóð og kraft Íslendinga til forna. Í áramótakvæði sínu frá 1901–1902 tilbiður Hannes sólina, tákn um nýja tíma en um leið áminningu um forna dáð og dug.

Þannig líkti hin íslenska endurreisn eftir endurreisn meginlandsins. Með stöðugri vísun til glæstra og fornra tíma, heljarmanna og hreystikvenna. Það er ekki ónýtt þjóð, sem sögð er lifa eins og skepnur, að vera minnt á að hún eigi sér menningararf og líkamlegar erfðir sem sæma myndu stórþjóðum. Það kemur líka í veg fyrir að þjóðin þurfi að standa auðmjúk og lítillát gagnvart þeirri siðmenningu sem hún hefur misst af – og fær henni í hendur tækifæri til að smíða sína eigin.

Það er ekki eins og járnbrautateinar breska heimsveldisins hafi fært siðmenninguna öðrum þjóðum með farmfylli auðmýktar og lítillætis.

Í leit að samfélagi

Hjálmar lærði að lesa í bændasamfélagi 19du aldar. Lestrarkennslan hafði þá um langt skeið haft trúarlegt inntak. Tilgangur hennar var að halda sáluhjálp að fólki sem annars væri glatað. Jóhann bóndi ákvað að kenna drengnum líka að skrifa. Skriftarkennsla var litin hornauga og fannst sumum að þótt lestur færði þér aðgang að guðsorði þá væri nánast móðgun að stilla upp til hliðar við hið heilaga orð ritmáli kotbændanna sjálfra. Því myndu bara fylgja vandræði. Auðvitað fylgdu skrifum Bólu-Hjálmars heilmikil vandræði en um leið glitti í dýrmæta samfélagsrýni og ótrúlega nútímaleg stílbrögð miðað við fornan stílinn, sérstaklega í líkingamáli skáldsins.

Hannes fylgdi hinu hefðbundna menntakerfi embættismennskunnar, alla leið frá Möðruvöllum til Kaupmannahafnar. Hann áttaði sig á því að lífsbjörg þjóðar gæti ekki til langframa byggt á því að gera efnilegt fólk að embættismönnum sem bera skyldu ábyrgð á siðviti og lífi allra hinna. Hafandi gengið og siglt menntaveginn sjálfur hefur honum örugglega sviðið það að sjá samlanda sína sitjandi í fátækt og basli í einhverskonar blöndu af fátækt og hallæri. Lært bjargleysi þjóðarinnar kallaði á að hún yrði drepinn úr dróma, hvort sem væri með vindi eða vendinum.

Halldór fór í engu hefðbundnar leiðir. Leit hans að sjálfum sér varð um leið leit hans að samfélagi sem gæti rúmað hann sjálfan. Sú leit missti stundum sjónar á gildi hverrar manneskju og dómharkan var eftir því en líklega er enginn einn maður jafn augljós holdtekja 20stu aldarinnar í íslensku samfélagi. Hann hóf líf sitt af ótrúlegri sannfæringu fyrir hlutverki sínu og framtíðarmöguleikum; lifði stóra sigra og mikil vonbrigði; var hataður og elskaður. Varð á endanum menningarstofnun í landi sem sárlega þurfti á slíkum að halda, tók á móti hetjum og höfðingjum og bar hróður Íslands um víðan völl. Missti svo hægt og rólega sjónar á sjálfum sér og heiminum þegar leið á níunda áratuginn.

Afrakstur ellefu alda þróunar

Í desember árið 1984 var lögð fram svohljóðandi þingsályktunartillaga á alþingi:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hlutast til um að í grunnskólanámi verði kennsla í sögu íslenzku þjóðarinnar aukin og við það miðuð að nemendur öðlizt ekki aðeins þekkingu og skilning á sögu þjóðarinnar heldur og trú á landið og vilja til að varðveita menningarsamfélag sem hér hefur þróast í ellefu aldir.

Flutningsmenn voru Eiður Guðnason, Páll Pétursson og Þorvaldur Garðar Kristjánsson forseti sameinaðs þings. Skömmu áður hafði Arnór Hannibalsson ritað grein í Morgunblaðið þar sem hann fann áherslum í sögukennslu ýmislegt til foráttu og einkanlega því að íslenska ríkið hefði gleymt því grundvallarhlutverki sínu við menntun barna að „skapa samstöðu allrar þjóðarinnar“ í „ævarandi baráttu […] fyrir fullveldi og sjálfstæði.“ Ábendingarskilgreiningar um þessa yfirsjón var kennsluefni fyrir níu ára börn um Tansaníu og heil kennslubók um Jón Sigurðsson og sjálfstæðisbaráttuna sem skrifuð var í þriðju persónu fleirtölu þar sem Arnóri hefði þótt betur fara á því að skrifa í þeirri fyrstu. (Arnór Hannibalsson,1983)

Hvernig má það vera að þjóð, hverrar hetjur vildu berast á fáki fráum fram um veg og rífa þjóðina með valdi upp úr andvara og værð, taldi sig á einum mannsaldri kominn á þann stað að komið væri gott og ástæða væri til að líta á sjálfa sig sem afurð ellefu alda þróunar sem bæri að varðveita?

Afstaða Arnórs er að einhverju leyti skiljanleg. Hann hafði séð með eigin augum þær hörmungar sem Stalín hafði steypt yfir ráðstjórnarríkin og tekist mjög á við íslenska trúboða og afneitunarsinna þeirrar helstefnu sem þar var rekinn og í ýmsu orðið undir í þeim efnum. Hann mat, kannski réttilega, að eina vörn þjóða sem ytra alræði ætlar sér að gleypa sé að hafa mikinn áhuga á því að vera áfram þjóð.

Tal um Ísland upp úr 1980 sem afrakstur ellefu alda þróunar er hinsvegar augljóslega innantómur áróður en mögulega til marks um áhrifamátt þeirrar boðunar og uppfræðslu sem aldamótakynslóðin setti í öndvegi þegar hún mótaði hina íslensku endurreisn. Hin glæsta hetjusaga Íslands kann að vera til þess fallin að auka bjartsýni, von og trú á landið og þjóðina – en hún getur aldrei orðið grundvöllur menntunar í landinu, jafnvel þótt sögukennslunni sé ætlað að draga fram í okkur það góða og gæfa.

Mér var hugsað til þessa á dögunum þegar ég las eftirfarandi dagbókarbrot Michael Palins frá ferð hans í Norður-Kóreu í maí 2016. Hann hafði farið í fjallgöngu og hrist af sér megnið af ritskoðurum sínum og gæslumönnum. Á fallegum stað í klettagljúfri settist hann niður með So Hyang, tæplega þrítugri, gáfaðri konu sem starfaði sem leiðsögumaður, og ákvað að koma beint að kjarna máls:

„Líf okkar byggir á málfrelsi,“ segi ég. „Fólk má vera eins dónalegt og það vill um leiðtoga sína. Í mínu landi megum við gagnrýna leiðtoga okkar þegar þeir gera eitthvað rangt og þar sem þeir eru bara mennskir þá gera þeir oft mistök.“

So Hyang gefur mér ekkert eftir.

„Þetta er það sem gerir okkur svo ólík,“ svarar hún. „Leiðtogar okkar eru afar miklir. Þeir eru ekki einstaklingar. Þeir eru tákn þjóðarinnar og við förum ekki að gagnrýna okkur sjálf, er það?“ (Palin 2019, bls. 123)

 Það þurfti Ingvar Sigurgeirsson, og önnur af hans kynslóð til, að sá réttmætum efasemdum, eftir ölvunarástand sjálfstæðisbaráttunnar, um að hlutverk menntunar væri að „varðveita“ hið íslenska samfélag. Með sanngirni er hægt að skilja að þjóð sem ætlar að umbylta atvinnu- og lifnaðarháttum á örfáum áratugum og byggja upp tæknilega og félagslega innviði kjósi að beita menntakerfinu til að uppfylla þörf samfélagsins fyrir fólk. Þjóð, sem skilið hefur að tilefni er til að rasa ekki um ráð fram og sér fram á skuldadaga af völdum náttúruspjalla og helstefna, hlýtur að snúa taflinu við og leggja áherslu á þarfir fólks fyrir samfélag.

Þörfin fyrir samfélag

Þegar Halldór Laxness sagði: „fólkið saman!“ meinti hann að tími þéttbýlisins væri upp runninn á Íslandi. Sá sem þetta skrifar lærði að þekkja mikla flutninga úr sveit í bæ og úr bæjum í borg sem „byggðaröskun.“ Halldór leit á þetta sem eftirsóknarvert markmið (sem áhugavert er í ljósi þess að hann kaus að byggja yfir sjálfan sig við þjóðveg í sveit), þau störf sem fólk hefði unnið í sveitum væri hægt að fela vélum, fólk með hugsun og heila virkaði best í samfélagi við aðra heila.

Aftur hvarflar hugur minn til Norður-Kóreu nútímans. Í Sovétríkjunum sálugu var til fyrirbæri sem kallaðist Udarnik en það voru sveitir karla og kvenna sem voru hamhleypur til verkamannavinnu. Þetta afburðafólk, sem naut verulegrar hylli meðal almennings, mætti í stórum flokkum og tók til hendinni. Nokkurskonar stormsveitir í skilningi Hannesar. Slíkar sveitir fundust víða í austantjaldsríkjunum á sínum tíma en eru nú hvergi til – nema í Norður-Kóreu. Á leið sinni að hinu helga Pæktú-fjalli á nöpru og myrku maíkvöldi segir Michael Palin frá því þegar hann sá stóran hóps karla og kvenna hlaupandi til og frá með hjólbörur, skóflur og haka í myrkrinu við að byggja nýja borg þar sem áður var óslitinn skógur. (Palin,1983, bls.132-135)

Ég hygg, það kunni að gleymast að lýðræðið hefur tvær rætur. Þótt erfitt sé að útskýra með rökréttum hætti tilurð þess virðist hafa skipt máli að grísku borgríkin voru þéttbýl. Fólkið var komið saman. Því fylgja auðvitað áskoranir, átök og alls konar leiðindi en um leið opnast smuga á stjórnarfari með áður útilokuðum möguleikum. Þá er það örugglega ekki tilviljun að lýðræðið kviknar fyrst þegar velsæld og afl stöðugt stærri hópa gerir harðstjórum (týrönnum), sem leystu af hólmi þorps- og ættarhöfðingja, nánast ómögulegt að gæta einungis hagsmuna tiltölulega fámennrar klíku.

Í lýðræði hlýtur þörf samfélags fyrir fólk að víkja fyrir þörf fólks fyrir samfélag. Þó þannig, eins og dæmin frá Grikklandi sanna, að almennt sé borin virðing fyrir grundvallarþáttum lýðræðisins. Hin lýðræðislega manneskja ann lýðræðinu en ekki aðeins þeim völdum sem lýðræðið veitir tækifæri á að sölsa undir sig. Hún kann ennfremur að meta að rétti til valds fylgi skyldan til að vilja lúta valdi annarra.

Lýðræði er ekki innflutningsvara með sama hætti og dráttarvélar eða gosdrykkir. Það felst ekki eingöngu í kosningum. Líklega höfum við Íslendingar ekki hugsað nóg saman um lýðræðið okkar, kosti þess og galla og þau tækifæri sem í því búa. Þá höfum við alls ekki útfært með nægilega markvissum hætti hvernig menntakerfið á að ná því grundvallarmarkmiði sínu að undirbúa fólk undir virka þátttöku í lýðræðislegu samfélagi.

Það sem stundum er kallað „sögukennsluskammdegið“ og hnitaðist um varðveisluhlutverk menntunar gagnvart samfélagi eftirstríðsáranna var fyrst og fremst hugmyndafræðileg snerra um lýðræðið. Í aðdraganda átakanna útskýrði Erla Kristjánsdóttir, námsstjóri í samfélagsfræði, þennan meintan skort á sögulegri dýpt í námsgreininni samfélagsfræði:

„Þess er fyrst að geta að ýmiss konar söguleg umfjöllun er í námsefni þar sem saga sem slík er ekki beinlínis á dagskrá, s.s. í umfjöllun um líf fólks í öðrum löndum eða við sjávarsíðuna á Íslandi. Vissulega er æskilegt að allir Íslendingar kunni skil á sögu þjóðar sinnar. En spurningin er hvernig eigi að fjalla um hana. Gömlu námsbækurnar hafa mikið lesmál og mikinn samanþjappaðan fróðleik, en hvað situr eftir í hugum nemenda? Ég held að skilning á sögunni hafi skort …“ (Guðmundur Magnússon, 1983)

Tíminn frá aldamótunum 1900 og fram til 1980 var nægur til þess að vísir yrði til að því nútímasamfélagi sem nú er orðið til. Hann var eflaust líka nægur til þess að margvíslegt jafnvægi hafði myndast í samfélaginu með tilliti til hagsmuna og fjármagns. Það er í sjálfu sér ekkert rökrétt við það að vísa til fornrar fremdar með það að markmiði að „varðveita“ samfélagið í megindráttum. Það var þrótturinn og dugurinn sem forkólfar hinnar rómantísku, íslensku endurreisnar vísuðu í og töldu sig sjá hjá víkingum og afkomendum þeirra. Íslendingasögurnar voru ekki skrifaðar um þjóðholla einangrunarsinna. Þvert á móti fjalla þær nánast allar um heimsborgara þess tíma. Það að stilla upp þeirri sviðsmynd að þjóðin, þrjátíu árum eftir sjálfstæði, og mannsaldri eftir að nútíminn hóf innreið sína af fullum þinga, hafi verið komin á einhvern sérstakan varðveislupunkt eftir ellefuhundruð ára aðdraganda er sérlega hjákátleg í ljósi þeirra stórkostlegu samfélagbreytinga sem orðið hafa síðan.

Á sinn hátt má segja að íhaldssinnar og stjórnmálastéttin hafi haft betur í slagnum í sögukennsluskammdeginu. Skriðþungi þeirra breytinga sem fylgdi grunnskólalögunum frá 1974 hefur enn ekki náð fyrri styrk. Rof hefur orðið milli stefnumörkunar og framkvæmdar þegar kemur að grundvallarmarkmiðum skólastarfs. Menntavísindi og kennsla eru enn tortryggð. Sigurinn er hins vegar innantómur með öllu. Það hvarflar ekki að neinu okkar í dag að sjálfstraust þjóðarinnar standi og falli með því að mála fortíð hennar nægilega björtum litum. Við vitum öll að endapunktur sögunnar er hvergi nálægur og að mikill óinnleystur mannauður fylgir hverri einustu kynslóð. Eins vitum við að velsældin felst ekki í því einu að leysa afl úr læðingi heldur einnig hinu, að kunna sér hóf. Loks er okkur ljóst að fólk þarf ekki að vera sveitungar til að tilheyra sama samfélagi.

Nú, þegar fimmtungur er liðinn af 21stu öld, stöndum við frammi fyrir risavöxnum áskorunum en mun stærri tækifærum. Sá sem þetta skrifar er af kynslóðinni hverra hugar voru vígvöllur hinna hugmyndafræðilegu átaka á níunda áratugnum. Ég var í skóla þegar stjórnmálamenn reyndu að koma í veg fyrir að ég lærði um bavíana og mannlíf í Tansaníu til þess að tryggt væri að trú mín og aðdáun á íslensku samfélagi fengi nægt rými til að þroska og dafna. Hvort skyldi nú gagnast mér meira, þegar börnin mín krefja mig um aðgerðir vegna þess að við höfum búið þeim ósjálfbært samfélag sem t.d. sýnir sig þannig að líffræðilegur fjölbreytileiki jarðarkringlunnar er í stórhættu, að hafa haft kennara sem hvöttu mig til forvitni og víðsýni um heiminn – eða ráðamenn sem töldu að þannig missti ég sjónar á Íslandi? Það er lítið land sem hættir að sjást þegar gaumur er gefinn að öðrum. Að ekki sé talað um hve siðferðilega rangt er að krefjast varðveislu þess sem ósjálfbært er eða ranglátt.

Ingvar Sigurgeirsson og sú kynslóð íslensks fag-, fræða- og skólafólks sem þá sætti árásum stjórnmálamanna reyndist framsýnt og réttsýnt. Vitað var, og hafði verið vitað lengi, að án skilnings og skoðana ætti sér engin menntun stað. Vitað var að sanngjörn gagnrýni herðir samfélög en veikir þau ekki. Vitað var að ólíft er í heimi glansmyndanna. Ég ætla að ljúka þessari hugleiðingu eins og hún hófst, með lausavísu sem Bólu-Hjálmar orti á jóladagsmorgni þegar hann gekk með presti til kirkju:

Vel er alin herrans hjörð,
hérna liggur bevísið.
Sómir mjög að sauðaspörð,
sjáist kringum fjárhúsið.

Heimildir

Arnór Hannibalsson. (7. desember 1983) Um sögu og menntastefnu. Morgunblaðið.

Guðmundur Magnússon. (13. nóvember 1983) Gömlu námsbækurnar eru hlutdræg túlkun á Íslandssögunni – segir Erla Kristjánsdóttir, námsstjóri í samfélagsfræði. Morgunblaðið.

Halldór Guðmundsson. (26. nóvember 2020) Dyravörður hjá víðvarpinu. https://www.ruv.is/laxness/spila/dyravordur-hja-vidvarpinu/31053/984juh

Halldór Laxness. (1928). Um þrifnað á Íslandi. Reykjavík: Iðunn.

Palin, M. (2019). North Korea Journal. London: Hutchinson.


Ragnar Þór er heimspekimenntaður grunnskólakennari. Hann er nú formaður Kennarasambands Íslands. Hann hefur kennt í skólum víða um land, allt frá fámennum sveitarskólum til stórra borgarskóla – og það hefur kennt honum að þótt kennsluhættir séu fjölbreyttir, grundvallast námið undantekningalítið á því sama: Áhrifum þess sem gert er á nemendur, og áhrifum nemenda á það sem er gert.


Grein birt: 8/12/2020




Læsi á 21. öld

Ragnar Þór Pétursson

„Lestrarefling og lestrarátök verða aldrei neitt af viti ef látið er nægja að líta á lestur sem hindrunarhlaup þar sem höltu þátttakendurnir eru sendir til sjúkraþjálfara við fyrstu hrösun og æðsta takmarkið er að hlaupa eins hratt og maður getur.“ segir Ragnar Þór Pétursson meðal annars í þessum pistli þar sem hann ræðir um læsi á 21. öld frá ýmsum hliðum. Greinin byggir á erindi sem hann hélt fyrir kennara í Borgarbyggð á endurmenntunardögum þeirra nú í ágúst.


 

Sérhver kynslóð ímyndar sér að hún sé gáfaðri en kynslóðin á undan og vitrari en kynslóðin á eftir. (George Orwell)

Heimspekin sem kveikja

Þegar ég var ungur kviknaði hjá mér brennandi áhugi á heimspeki sem haldist hefur fram á þennan dag. Það fór svo á endanum að ég menntaði mig í faginu. Sá munur er á heimspekinni og mörgu öðru sem ég hef fengist við að ég mér hefur iðulega þótt þeim mun meira í hana varið eftir því sem mér hefur reynst örðugra að glíma við hana.

Ósjaldan hef ég staðið frammi fyrir einhverjum texta eða rökleiðslu eins og maður sem reynir í ofvæni að vaða berfættur yfir sleipbotna, straumharða á. Og oft hef ég flogið á höfuðið. Engin ástríða hefur oftar látið mig finna til vanmáttar. Og engri vanmáttarkennd hef ég unnað jafn heitt.

Mig grunar að þessar ítrekuðu glímur við hugmyndir og heiminn hafi verið mitt besta vegnanesti í kennslunni. Kennsla er stöðug áskorun – erfið en gefandi.

Mér er minnisstæð ein heimspekiglíman við Kant, prússneska 18. aldar heimspekinginn.

Við hittumst þrír vinirnir að pæla okkur í gegnum tyrfinn kafla í frægustu bók hans. Margir klukkutímar liðu. Við vorum sífellt að hrapa að ályktunum, rekja slóð okkar til baka og byrja upp á nýtt. Hægt, löturhægt, byrjuðum við að átta okkur á merkingu textans. Við ruddum burt ótal hindrunum í mynd ógnarlangra málsgreina, orðskrúðs og framandi orðalags og þá tók að glitta í hugmyndirnar á bak við þyrnigerðið.

Þegar við loks hættum glímunni seint um kvöld voru félagar mínir svo ofsakátir að þeir skelltu Tom Jones á fóninn og stigu dans.

Ég lá flatur á sama gólfi, lúinn eins og eftir mikil líkamleg átök.

En óskaplega  leið mér vel – og ég hef síðan þá skilið að sá lestur er oft bestur sem er erfiðastur. Það að vera fluglæs – er ekki að geta lesið hratt og áreynslulaust. Það er að geta tekist á flug í lestrinum. Mús getur hlaupið hratt á jafnsléttu – en músarrindill getur tekist á loft.

Galdurinn liggur í þriðju víddinni, fluginu. Sá sem er læs getur brotið sér leið gegnum hismi að kjarnanum – og dregið að sér andann í bókinni.

Nálgun á viðfangsefnið

Yfirskrift þessa pistils er „læsi á 21. öld“. Þegar ég fór að hugleiða það fannst mér strax freistandi að nálgast viðfangsefnið úr annarri af tveimur höfuðáttum.

Maður getur sett sig í spor forvarðar og rætt af þungri alvöru hvort og hvernig bjarga megi ritmálinu úr klóm aldarháttar sem stöðugt grefur undan því. Hvernig slökkva megi á villuljósum stafrænnar tækni og andlegrar leti og hefja á loft gunnfána heilnæms bóklestrar.

Það má líka koma úr öndverðri átt og benda á að það að vera læs merki að vera læs á nútíma sinn. Læsi sem breytist ekki í breytilegum heimi sé í raun ólæsi.

Hvorugt viðhorfið höfðar sérlega sterkt til mín eitt og sér. Þau eru bæði fyrirsjáanleg. Í þeim liggur báðum nokkur sannleikur. En þau eru um leið hálfgerðar skotgrafir. Það hlýtur að liggja einhver leið að viðfangsefninu sem nálgast kjarna þess betur, jafnvel þótt ryðja þurfi grjóti af veginum.

Þegar ég skrifa þessar línur hef ég ekki hugmynd um hvort ég er á annað borð fær um að takast á við slíkt ferðalag af því viti sem það verðskuldar. En ég ætla að reyna. Það er eins með skriftir og lestur. Þetta má vera erfitt.

Til að byrja með langar mig að setja fram fullyrðingu:

Maður er ekki læs þótt maður geti lesið.

Í hinu mikilsverða samhengi er lesturinn aukaatriði. Læsi snýst um hugmyndir, hugsanir og hugtök. Þeim er vissulega miðlað með ritmáli í langflestum tilfellum – en sá sem er læs á texta án þess að fanga innihald hans – er ekki læs. Í öllum pælingum um læsi er nauðsynlegt að gera þennan greinarmun á tæknilegu athöfninni, þ.e. því að breyta táknum í orð, og þeirri hugrænu, að breyta orðum í hugsun.

Talgervill getur breytt texta í hljóð og öfugt. Talgervill er ekki læs.

Lexía frá nemendum

Í þessum efnum eins og mörgum öðrum hafa nemendur mínir líklega kennt mér mest.

Mér er minnisstæð kennslustund sem ég átti fyrir nokkrum árum með hópi nemenda í áttunda bekk. Umræðuefnið var draumar.

Ég spurði krakkana hvort hægt væri að dreyma eitthvað alveg nýtt, eitthvað sem maður hefði enga reynslu af áður.

Eftir nokkrar umræður komst hópurinn að þeirri niðurstöðu að draumar yrðu aðeins til úr þeim efniviði sem hugurinn hefði þegar aflað sér. Hann gæti vissulega nýtt efniviðinn á frumlegan hátt, splæst mannsandliti á hest eða glætt fólk hæfileikanum til að fljúga, en enginn kannaðist við að hafa nokkru sinni dreymt eitthvað sem væri algerlega framandi og ókunnugt.

Út frá því ræddum við ímyndunaraflið, hugsanir og hugmyndir almennt – og niðurstaðan varð enn sú sama. Hugsanir væru smíðaðar úr hugmyndum. Nýrra hugmynda mætti afla með skynfærunum og síðan gæti hugurinn leikið sér að þeim á margvíslegan hátt. En hann gæti ekki búið til hugmyndir úr engu.

Glöggur nemandi bætti þá við að líklega snerist allt nám á endanum um þetta: Að smita nemendur af hugmyndum og hjálpa þeim að púsla einföldum hugmyndum saman í stóra klumpa eða byggingar í huganum.

Ef byggingin væri hroðvirknislega eða fljótfærnislega byggð félli hún til grunna og skildi lítið varanlegt eftir sig – en ef hún væri traust mætti nota hana sem grunn að enn stærri og veigameiri byggingum seinna.

Nemandinn bætti svo við að í sér þætti sem við kennararnir byrjuðum of oft á öfugum enda. Þegar við ætluðum að kenna nemendum eitthvað nýtt færi það oft þannig fram að við reyndum að troða í huga þeirra stórri kubbastæðu sem nemandinn ætti svo að varðveita í heild sinni.

Þetta gerðum við alveg án tillits til þess hvort nemandinn hefði fengið tækifæri til að afla þeirra hugmynda og hugtaka sjálfur sem notaðar væru í bygginguna. Þvert á móti væru byggingarnar oftar en ekki fullar af kubbum, sem kennarinn hefði kannski á valdi sínu, en margir nemendur ekki – og þegar slíkri byggingu væri troðið í huga nemandans í heilu lagi og samhengislítið væri næstum öruggt að margir nemendur sætu stuttu seinna yfir kubbarústum sem þeir hefðu ekki hugmynd um hvernig raðað væri saman.

Nemandinn endaði á að segja að kennarar ættu að leyfa nemendum að byggja sínar hugsanabyggingar sjálfum. Nemendur þyrftu að fá að byggja úr sínu eigin byggingarefni. Byrja á einum kubb í einu. Kennarar mættu leggja til aðstoð og leiðsögn – en fyrst og fremst ættu þeir að vera þolinmóðir meðan nemandinn fengi tækifæri til að klóra sig áfram sjálfur.

Leitið og þér munuð finna

Önnur minning leitar líka á hugann.

Tvo tíma í viku, snemma á þessari öld, sat ég heilan vetur með hópi nemenda sem unnu heimaverkefnin sín. Þetta voru samviskusamir krakkar sem sátu þegjandi mestallan tímann og unnu. Mér leiddist svo ég fór að ganga um og líta á vinnu þeirra.

Ég tók eftir því að einkennileg regla var á því hvernig sumir nemendur svöruðu spurningum í bóklegum greinum.

Eftir nokkra eftirgrennslan sá ég hvað olli. Fyrir nemandann snerist málið um að klára verkefnið. Að klára verkefnið táknaði að skrifa svar við hverri spurningu í vinnubókina. Stundum var það auðvelt. En oft ekki.

Þegar þannig stóð á, greip nemandinn oftar en ekki til þess ráðs að skoða spurninguna og reyna að finna þar einhver stikkorð eða vísbendingar um efni hennar. Síðan var flett inn í kaflann og leitað að einhverjum stað sem virtist fjalla um það sama. Þegar nemandinn hélt að hann væri á réttum slóðum afritaði hann hinn útvalda hluta kaflans stafrétt í vinnubókina sína.

Þessir nemendur töldu sig hafa skilað góðu verki þegar afrituninni var lokið. Heimaverkefnið var búið. Samviskan var friðuð.

Ósjaldan kom í ljós, ef á nemendur var gengið, að lítill eða enginn skilningur var á svörunum – eða spurningunum ef því er að skipta.

Í vinnubókina var nemandinn að reyna að teikna fullbúna byggingu í stað þess að byggja hana sjálfur.

Námið var að gera þessa nemendur að leitarvélum en ekki sjálfstæðum hugsandi verum.

Læsi á tímamótum – litið um öxl

Það er öllum ljóst að læsi stendur á nokkrum tímamótum. Og ekki bara læsið, heldur það að hugsa á íslensku almennt. Ég trúi því að frammi fyrir óvissri framtíð sé fortíðin besti leiðsögumaðurinn. Það er þess vegna rétt að líta aðeins um öxl.

Í grundvallaratriðum hafa menn hugsað með sama hætti frá fornöld til dagsins í dag – og líklega miklu lengur. Um það vitna þau textabrot sem varðveist hafa í gegnum aldirnar.

Ritmálið berst til okkar gegnum Gota og Germana sem kynnst höfðu bæði Rómverjum og Grikkjum. Norrænu þjóðflokkarnir bræddu gríska og latneska stafrófið saman í nýtt stafróf. Þar sem skrifað var á tréspjöld með hnífum reyndust bogadregnu línurnar sem einkenndu marga latneska og gríska bókstafi óhentugar. Rúnir urðu til.

Rúnir

Seinna tóku Skandinavar upp rúnir í einfaldaðri mynd. Þeir töldu sér trú um að rúnir væru goðmagnaðar, uppfinning Guðanna. Þeim mátti beita í lífsbaráttunni. Egill Skallagrímsson notaði þær óspart til að klekkja á óvinum sínum og fræg er sagan af því þegar ungur maður ætlaði að töfra til sín kærustu með rúnum en fórst það verk ekki betur úr hendi en svo að hann lagði á hana bölvun sem gerði hana fárveika. Rúnir voru ekkert gamanmál. Þær voru notaðar til að drepa Gretti og um þær kvað Egill

Skalat maðr rúnar rista
Nema ráða vel kunni
þat verðr mörgum manni
Es of myrkvan staf villisk.

Maður skal láta það vera að skrifa með rúnum nema maður sé fljúgandi fær.

Þetta er gömul saga og ný. Ritað mál hefur alltaf haft tilhneigingu til að tilheyra sumum frekar en öðrum. Snobb, dómharka og flokkadrættir hafa lengi fylgt ritmáli – og virðist síst á undanhaldi.

Snemma komust svokallaðir rúnasteinar í tísku á Norðurlöndum. Það stafaði líklega helst af því að Haraldur blátönn, konungur, lét reisa veglega bautasteina til minningar um foreldra sína og sjálfan sig. Þessir steinar standa enn og hægt er að skoða þá við Jalangur – eða Jelling – í Danmörku.

Með þessu bylti Haraldur upplýsingatækninni. Sjálfan var orðin til. Það var þess vegna hæfilegt að viðurnefni hans, blátönn, væri löngu seinna tekið upp til að tákna þráðlausan samskiptahátt milli tækja.

Haraldur blátönn fékk mörg læk og í kjölfarið reistu smákóngar og höfðingjar um öll Norðurlöndin ógrynni slíkra steina til að vera ekki minni menn. Norðmenn voru þó eitthvað púkalegir en frændur þeirra og tískan fjaraði hratt út þar. Þess vegna fluttist siðurinn ekki til Íslands með landnámsmönnum.

Ritöld hefst

Með kristninni fylgdi latneska letrið. Það reyndist framför frá rúnaletrinu sem hafði eftir einföldun norrænna manna orðið svo knappt að örðugt var að tákna með því hið lifandi tungumál. Latínan átti fleiri hljóð, en þó ekki öll sem þurfti – Það sem upp á vantaði var búið til úr rúnum.

Latneska letrinu fylgdi hin eiginlega fyrsta ritöld. Enn var ritmál aðeins á færi útvalinna. Á Íslandi voru það helst einrænir nördar sem skrifuðu. Íslenskt ritmál tók eflaust mið af því – og ennfremur af því að skrifað var á kálfskinn. Þau voru bæði dýr og fá. Við þekkjum hinn knappa ritstíl Íslendingasagna. Menn höfðu hreinlega ekki efni á málalengingum.

Oft er sagt að hér á landi búi fólk sem getur enn lesið ritmál frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Orðaforði, stafsetning og setningagerð er enn nægilega nærri upphaflegu ritmáli í landinu svo við getum sum stautað okkur fram úr miðaldaíslensku. Framburðurinn mun hafa breyst mikið og við myndum varla skilja mælt mál frá tíma Snorra Sturlusonar. Þannig hefur ritmálið í raun orðið varanlegra en talmálið. Eða réttara sagt, hefur sú eftirmynd talmáls, sem ritmálið var, orðið varanlegri en málið sjálft.

Kannski stafar það af hinum knappa stíl. Málfar Íslendingasagna er einfalt og skýrt. Það er ennfremur endurtekningarsamt og fábrotið. Það er auðvelt að varðveita eitthvað sem er lítið að umfangi.

Sú barátta sem stendur yfir í dag til varðveislu íslensks ritmáls hnitast að mestu um mál sem er miklu flóknara og íburðarmeira en talmál. Hið sama gildir raunar um fleira.

Hnignun rithandar

Sem smástrák á Akureyri var mér kennt að draga til stafs með sama hætti og gert hafði verið þegar kennararnir mínir voru í skóla. Ég skyldi nota skrifstafi. Ég var látinn tengja stafina og flúra þá í allar áttir. Hræringar í menntamálum ollu því að á sama tíma var fyrir nokkru búið að leggja slíka skrift af í fjölmörgum skólum víða um land. Hún var álitin tímaskekkja. Þegar ég flutti suður 11 ára gamall fór ég í bekk sem lært hafði aðra skrift. Upp frá því var ég sjálfala í skriftarnámi.

Ég á nokkra vini að norðan sem í raun eru óskrifandi því skriftin varð aldrei annað en einhverskonar óskapnaður – ekki eiginlegir skrifstafir en um leið of líkir þeim til að geta orðið önnur læsilegri skrift. Þau úr okkar hópi sem urðu vel skrifandi áttu það flest sameiginlegt að leggja skrifstöfunum snemma og taka upp aðra, þægilegri skrift.

Líklega hefur mín kynslóð endanlega drepið skrifstafina með getuleysi sínu við að tileinka okkur hana.

Um mig fór hlandvolgur straumur nostalgíunnar um daginn þegar ég sá rithandarsýnishorf sjálfs forsetans á Bessastöðum.

Þegar ég hætti að læra skrifstafi var rithönd mín ekki ólík núverandi rithönd forseta Íslands.

Líklega hefði hún aldrei orðið miklu betri. Það mætti segja mér að Aðalgeir, gamli skriftarkennarinn minn fyrir norðan, hafi snúið sér við á beddanum þegar hann sá hvernig skrifað er á Bessastöðum.

Til samanburðar má hér sjá hvernig Halldór Laxness skrifaði sem smástrákur. Betur en við báðir.

 

Ég ætla ekki að reyna að halda því fram að skrifstafaritun og jafnvel handskrift yfirleitt hafi ekki hnignað í landinu. Og það svíður dálítið því falleg rithönd er aðdáunarverð. En kjarni málsins er sá að það skiptir sáralitlu máli. Tengiskriftin deyr kannski út. Það sem skiptir öllu máli er hvort fólk er enn fært um að tjá hugsanir sínar og gera þær varanlegar. Ef svarið við því er já – þá hefur í raun ekkert glatast sem alls ekki má glatast.

Mál barnanna

Ég upplifi innri togstreitu nú þegar ég er kominn nokkuð áleiðis með uppeldið á yngsta barninu mínu. Í einhverskonar þrjósku held ég fast við minn keip og les fyrir son minn bækur sem ég unni þegar ég var lítill. Það er samt löngu orðið ljóst að hér er okkur feðgum vandi á höndum.

Nú erum við að lesa Danna heimsmeistara, þessa frábæru bók eftir Roald Dahl. Bókin er nánast nákvæmlega jafn gömul og ég. Íslenska þýðingin er helmingi yngri.

Hér er brot úr kaflanum sem við lásum í gærkvöldi:

Ég leit þangað sem hann benti og sá skrúðfálka voka glæsilega á myrkvuðum himninum yfir plægðum akri handan við slóðina. „Það eru að verða síðustu forvöð fyrir hann að ná sér í kvöldmat að þessu sinni,“ sagði pabbi.

Sjálfur er ég kominn á þann aldur að það er mér töluverð nautn að rekast á dálítið upphafið orðalag og fáséðar sagnir eins og „að voka“. Ég segi fáséðar – því ég man ekki eftir að hafa nokkru sinni heyrt hana.

En ef ég set mig í spor sex ára sonar míns þá á ég erfitt með að sjá að þetta sé besta og aðgengilegasta leiðin til að mála mynd í huga hans af fálka að leita sér að æti í ljósaskiptunum.

Upp að vissu marki er auðvitað nauðsynlegt að tala við og skrifa fyrir börn á máli sem þau koma til með að tileinka sér í stað þess að nota mál sem þau eiga þegar. Aðeins þannig geta þau lært. En ritað mál er í alveg sérstakri hættu á að vera blint á eigin vitjunartíma.

Ég hef leikið mér að því að taka stikkprufur af texta sem skrifaður er fyrir börn með nokkurra áratuga millibili. Niðurstaðan er sú að hugsunin sem borin er á borð fyrir börn hefur vissulega breyst dálítið – en ekki nærri eins mikið og umbúðirnar.

Íslenskt ritmál hefur lengi verið ögn upphafið og tilgerðarlegt; flókið og stirt. Ég held það sé ekki vegna þess að íslensk tunga sé ekki lipur. Mig grunar að það sé vegna þess að lengst af var hið ritaða mál ekki á færi venjulegs fólks. Það er gjá á milli talmáls og ritmáls. Sem veldur því eiginlega af sjálfu sér að lesskilningur er annað  en málskilningur og hugsun.

Skoðum dæmi um þetta úr Síðasta blóminu:

Boys and girls grew up to stare at each other blankly,
for love had passed from the earth
One day a young girl who had never seen a flower
chanced to come upon the last one in the world

Þegar þetta var þýtt á íslensku var því snarað á bundið mál og hljómar svona:

Hvort til annars drós og drengur
dreymdum augum renndu ei lengur,
heldur gláptu öndverð á:
Ástin sjálf var lögzt í dá…
Ein síns liðs á víðavangi
vorkvöld eitt var telpa á gangi
og hún fann á sínu sveimi:
Síðasta blóm í heimi.

Höfundur enska textans, James Thurber, var stílsnillingur. Hann lagði ofurkapp á að málfarið væri alþýðlegt og einfalt.

Íslenska þýðingin er hvorugt.

Hér er verið að klæða bandaríska smásögu í íslenskan búning með því að troða henni í ullarpeysu og sauðskinnsskó. Og það fer henni ekkert sérstaklega vel.

Þýðingin fellur á prófinu. Hún þjónar ekki efninu, heldur fyrst og fremst því hlutverki að uppfylla kröfur um bragarhætti og ritmálshefð. Hún bregst því hlutverki að miðla hugsun.

Og ég held það sé þess vegna sem ritháttur sem þessi hefur smám saman þróast burt úr okkar máli.

Það er ekki merkis um smæð íslenskrar tungu að hún hafi þróast í átt frá drósum til stelpna; frá því að renna augum til þess að horfa. Það er þvert á móti til marks um styrk hennar.

Lestur snýst um miðlun hugmynda og hughrifa. Fleira fylgir ævinlega í farteskinu. Til dæmis stílbrögð. En stílbrögð eru tilfallandi. Of oft teljum við að vald á slíkum aukaatriðum séu kjarni málsins. En þegar menn reyna að varðveita slíkan falskjarna og steypa málfar komandi kynslóða í sama mót þá mun annað tveggja gerast: tungumálið staðnar eða það verður gerð uppreisn.

Móðurást

Þegar höggva þurfti orð í stein eða mála á skinn var stíllinn knappur. Þannig ber frægur sænskur bautasteinn þessar rúnir:

muþiʀ × karþi × i(f)tiʀ × sun × sin × ainika

Móðir gerði yfir son sinn einka.

Það er ekki til marks um læsi að geta flett upp rúnum og umritað á nútímamál. Forrit gæti gert það. Það er læsi að finna sláttinn í strengnum í hjartanu sem tifar með konunni sem fyrir mörgum öldum horfði á eftir eina barninu sínu í dauðann.

Það er hið varanlega. Það er sú hugsun sem fyrir töfra hins ritaða máls flyst gegnum tímans þunga nið alla leið frá Eggeby á miðöldum til nútímans í Borgarfirði.

Það er okkur líka áminning um tilgang ritmáls.

Fyrir tveimur öldum var Jónas Hallgrímsson tíu ára gamall.

Hann þótti vel fallinn til náms og var því sendur til mennta og gekk, eins og frægt er, menntaveginn alla leið til Kaupmannahafnar.

Hann, eins og raunar fleiri íslenskir stúdentar, áttaði sig á því eftir kynni af öðrum málum að íslenskunni væri vandi á höndum.  Tungumálið var trénað, gróið fast, grómtekið. Sérstaklega rit- og ljóðmálið.

Eldgömul stílbrögð tröllriðu svo rituðu máli, sérstaklega ljóðum, að Jónas taldi ljóst að þau stórskemmdu allt sem málið kæmi nálægt. Það vantaði alla fegurð í málið, allt flæði – og miklu meiri einfaldleik.

Til marks um hið þunglamalega tungumál elítunnar á Íslandi á dögum Jónasar má benda á að á hverjum jólum syngja Þjóðverjar um Stille Nacht, Englendingar um Silent night og Íslendingar um frumglæði ljóssins þegar lifandi brunnur hins andlega seims hittir fyrir meinvilla mannkind.

Ein þekktasta grein Jónasar um þumbarahátt íslensks máls var skrifuð af miður góðu tilefni.

Í Noregi hafði fátæk kona orðið úti á milli bæja um hávetur. Þegar líkið var hreyft fundust undir því tvö smábörn. Þau voru bæði lifandi. Móðirin hafði farið úr hverri spjör og vafið utan um börnin. Síðan hafði hún lagst þannig að hún veitti þeim skjól.

Jónas benti á hið augljósa. Hér væri komið frábært yrkisefni sem snerti við hverjum manni. Þess vegna væri skammarlegt að Sunnanpósturinn (eitt helsta tímarit þess tíma) hefði notað tækifærið til að klambra saman hátimbruðum og klaufalegum, íslenskum rímum.

Allt er jafnslétt, ís yfir tjörnum,
andi næðir kaldur á hjörnum;
stjörnur dauft í snjóþoku skína,
stefnunni því hægt er að týna.
Fátæk móðir fer með tvo krakka,
fram á leiðis, verður að flakka;
erfiður er aumingja gangur,
einkum þegar vetur er strangur.
Tvíburar um háls móður hanga;
henni verður megn um að ganga,
fóta- kann ei framróa -árum,
frosnum særist þunn kinn af tárum.

Jónasi er misboðið. Hann segir stílinn klunnalegan og viðbjóðslegan. Og hann segir að svona texti hljóti að styggja fegurðarskyn fólks. Sérstaklega dregur hann fram hendinguna „fóta – kann ei framróa – árum“ sem honum finnst hreint og beint hlægilega asnaleg. En það var eitt megineinkenni íslensks ljóðmáls öldum saman að forðast einfalt mál eins og fætur, hendur og augu og nota þess í stað fjölbreyttar og mislangsóttar myndlíkingar. Augu urðu hvarmaljós og fætur að árum.

Síðan yrkir Jónas ljóðið sem seinna fékk heitið Móðurást. Ekki, að hans sögn, vegna þess að hann væri neitt skáld sjálfur, heldur vegna hins til að sýna hversu auðvelt væri að yrkja betur og fallegar á íslensku.

Fýkur yfir hæðir og frostkaldan mel,
í fjallinu dunar, en komið er él,
snjóskýin þjóta svo ótt og ótt;
auganu hverfur um heldimma nótt
vegur á klakanum kalda.

Hvur er in grátna sem gengur um hjarn,
götunnar leitar, og sofandi barn
hylur í faðmi og frostinu ver,
fögur í tárum, en mátturinn þverr –
hún orkar ei áfram að halda.

Munurinn er augljós. Þessi ljóð eru nánast jafn gömul. En tungumálið er það ekki.

Jónas Hallgrímsson og Fjölnismenn börðust við að draga þjóðina inn í nútímann. Það þurfti nýja nálgun, nýtt mál, nýja stafsetningu og nýjan anda – ætti þjóðin að eiga þess kost að fylgja eftir öðrum þjóðum sem nú voru á valdi upplýsingarinnar og rómantíkurinnar.

Til þess þurfti að leggja til atlögu við heila stétt presta og préláta hins ritaða máls sem fylktu liði innan virkisveggja úreltra bragarhátta.

Og þetta var hvorki í fyrsta né síðasta skipti sem Ísland þráaðist við að fylgja alþjóðlegum straumum og stefnum.

Tregða við breytingar

Það hefur verið sagt að hjólið hafi verið fundið upp á Íslandi á 19. öld. Vitað er að hér héldust atvinnuhættir fornfálegir og fábreyttir mun lengur en á löndunum í kringum okkur. Á vegum útlendinga var grimm skútuútgerð stunduð hér við land í margar aldir. Allan þann tíma gerðu Íslendingar út af veikum mætti á mannskæðum, opnum árabátum. Iðnbyltingin breytti öllu. Skyndilega var hægt að setja vélar í skip og með því margfalda afköst og hraða.

Á Íslandi voru áhrifin þau að við vorum ekki lengi á okkur að draga árabátana á land – og brunuðum svo á miðin aftur – á notuðum skútum (þær voru á svo góðu verði).

Þegar íslenskir stúdentar hófu að læra málfræði og rúnafræði í Kaupmannahafnarháskóla á 19. öldu voru enn volgar glæður galdrabrenna hér á landi. En á slíkum bálum enduðu þeir sem uppvísir voru að því að sýsla með rúnir fram að því. Okkar fyrsti sérfræðingur í efnunum var Finnur Helgason prófessor.

Því miður fyrir orðstír landsins var Finnur mistækur rúnarannsakandi. Það var til dæmis ekki glæstasta stund í sögu íslenskra málvísinda þegar hinn heimskunni sænski efnafræðingur, Berzelius (sem m.a. fann upp efnatáknakerfið) benti á að rándýrt kveðið ljóð sem Finnur hafði ráðið úr rúnum á frægum sænskum bergvegg væri verulega dularfullt því rúnirnar væru án nokkurs efa náttúrulegar jökulristur.

Finnur brást ókvæða við og stóð við (hina röngu) niðurstöðu sína: Svíinn þyrfti endurmenntun.

Þetta er saga íslenskrar tungu. Við hver einustu aldahvörf hefur þurft að draga tungumálið okkar organdi og grenjandi úr einni öld í aðra.  Yfirleitt á auðmýkjandi hátt og fyrir áhrif fólks í öðrum löndum.

Hvað er það „að lesa“?

Fyrir nokkrum árum tók ég eftir því að í kringum mig er fólk sem notar sögnina að lesa á annan hátt en ég hafði vanist.

Í þessari merkingu er lestur notaður til rannsókna, á lífinu og tilverunni. með stuðningi bóka.

δ νεξέταστος βίος ο βιωτς νθρώπ

„Órannsakað líf er einskis virði,“ sagði Sókrates.

Órannsakað líf

Eitt sem við kennarar gætum gert til að efla læsi er einmitt að lifa eftir boðorði Sókratesar. Lesa okkur til örvunar og íhugunar. Og ekki bara um helgar og á sumrin. Það ætti að vera eðlileg sjón í hverjum skóla að nemendur og kennarar sitji í sófum, í kennslurýmum eða inni á bókasafni, og lesi. Það ætti að vera eðlilegur þáttur af stjórnun hvers skóla að veita kennurum tíma og rými til lesturs og íhugunar.

Sjálfur prófaði ég fyrir fáum misserum að leggja einn dag í viku undir lestur og grúsk. Það var gæfuspor. Það gerði mig að miklu betri kennara – og snöggtum skárri manneskju.

Þegar ég tala um lestur í þessu samhengi meina ég ekki að nefið sé límt ofan í bókina. Þvert á móti. Lestur til íhugunar er hægur og brotakenndur. Hann er rofinn með samtölum um efnið, gönguferðum – og skriftum.

Sá sem ástundar slíkan lestur skilur fljótt að lesturinn (og eftir atvikum skriftirnar) standa nærri kjarna tilvistar hans. Það þarf ekki að hafa áhyggjur af slíku læsi. Það viðheldur sér sjálft.

Að efla lestur

Lestrarefling og lestrarátök verða aldrei neitt af viti ef látið er nægja að líta á lestur sem hindrunarhlaup þar sem höltu þátttakendurnir eru sendir til sjúkraþjálfara við fyrstu hrösun og æðsta takmarkið er að hlaupa eins hratt og maður getur.

Lesfimipróf mega ekki verða aðal mælikvarðinn á gæði lestrar.

Við þurfum að horfast í augu við nýju fötin keisarans og viðurkenna að þeir nemendur sem „bestum“ árangri ná á lesfimiprófunum lesa á úrkynjaðan og ljótan hátt.

Þegar lesin eru 200 orð á mínútu upphátt – eins og fjórðungur 14 ára barna á að gera verði lesfimiviðmið Menntamálastofnunar að veruleika hljómar það ankannalega og óeðlilega.

Þegar við leggjum ofuráherslu á hraða lestrar erum við að búa til sprettharðar mýs. Mýs verða aldrei fluglæsar. Til þess vantar þær vængi.

Að ljá börnum vængi

Góðar bækur ljá okkur vængi. Þegar hugurinn grípur eitthvað í bókinni er eins og tónlist bætist við textann og manni verður lífsins ómögulegt annað en að syngja með. Góðar bækur klárast ekki endilega hratt. Maður grípur eitthvað á lofti, lokar bókinni og fer út í lífið með eitthvert fræ fast í huganum sem bókin gaf. Þegar maður snýr aftur er fræið stundum orðið að tré.

Í góðri bók liggur það besta á milli línanna.

Bóklestur sem fær okkur ekki til að hugsa, vekur ekki persónuleg eða tilfinningaleg viðbrögð mun eiga erfitt uppdráttar.

Upplýsingatækni- og samskiptabyltingin sem nú stendur yfir mun ekki ganga af rituðu máli dauðu. Þvert á móti mun hún upphefja ritað mál á sama hátt og leikarar lyfta leikritum á hærra plan og tónlist ljóðum.

Það verða samt breytingar.

Hið ritaða orð kemur ekki lengur í stórum flóðum. Það tilheyrir nú stríðum straumi. Það er ekki lengur meitlað í grjót eða málað á kálfskinn. Það er ofið saman við hina stafrænu veröld hljóða og mynda.

Nýir tímar

Áður fyrr meitluðu menn setningar í strjála bautasteina í von um að rödd þeirra heyrðist yfir gröf og dauða.

Daglega bætist nú meira í forða hinna rituðu orða en bættist í hann í meira en þúsund ár.

Að vera læs í nútímanum merkir að geta fótað sig í þessum straumi, innan um allar þessar upplýsingar, innbyrt þær, melt þær og lagt til sjálfur.

Áhrif

Mörg samfélög tóku þá ákvörðun fyrir margt löngu að læsi væri hin eiginlega grunnmenntun sem hver einasta manneskja skyldi njóta. Önnur gerðu það ekki. Það eru til samfélög á jarðarkringlunni sem reyna hvað þau geta að hindra það að tilteknir samfélagshópar, kynþættir eða kyn verði læs. Ástæðan eru þau áhrif sem læsinu fylgja.

Það er freistandi að líta svo á að læsi fari halloka í heiminum. Það er samt villandi að líta þannig á málið. Síðustu hundrað ár eða svo hefur læsi í heiminum stóraukist.

Það er samt næstum örugglega rétt að lestur af ákveðnu tæi hafi þegar náð hápunkti sínum hér á landi og sé í rénun.

Ástæðan er aftur: Áhrif.

Í samkeppni við aðra miðla hefur lestur farið halloka. Halldór Laxness lýsir því hvernig einsemdin gerði hann að rithöfundi. Hann hitti fáa og hékk meira og minna heima hjá sér þegar hann var barn. Hann hafði aðgang að bókum og þess vegna las hann. Það fór svo að hann fékk á sig orð í sveitinni fyrir að vera undarlegur og einrænn. Klukkutímum saman sat hann í töfraheimum bókanna. Smám saman fór hann að vilja skapa sína eigin heima.

Hefði Halldór fæðst 2002 en ekki 1902 er hreint ekki ólíklegt að hann hefði orðið tölvuleikjum „að bráð“.

Bækur voru lengi eina leið margra út úr einhæfu og tillitslausu samfélagi sem ekki tók eðlilegt tillit til þarfa barna og fullorðinna fyrir afþreyingu og skemmtun.

Í dag eru börn ekki jafn afskipt og einmana og þau voru. Þau hafa flest aðgang að takmarkalítilli afþreyingu sem auðveldara er að tileinka sér en bóklestur.

Það þýðir ekki að þau séu af þeim sökum afhuga bóklestri. Ef foreldrar og aðrir halda að börnum góðum bókum, t.d. með kvöldlestri, er mjög líklegt að enn séu margar kynslóðir framundan sem elskar verða að bókum.

Kvöldlesturinn skiptir ekki sköpum vegna þess að þar venjist börnin við bókstafina eða letrið. Hann skiptir sköpum vegna þess að ef vel tekst til hafa bækurnar djúpstæð áhrif á börnin.

Það eru þessi áhrif sem öll lestrarátök verða að hnitast um.

Börn eru áhrifagjörn. Þau vilja verða fyrir áhrifum. Barn sem verður fyrir jákvæðum áhrifum af bókum er líklegra til að sækja í bækur þegar það verður fullorðið.

Þess vegna verðum við að fara varlega í hvítbókarhoppi.

Við þurfum ævinlega að huga að því hvaða áhrif lesturinn og lestrarkennslan hefur á börnin. Sú tíska – að bæta fyrir hnignandi bóklæsi með því að gera einhliða „samfélagssáttmála“ um læsi. Setja lestrarviðmið um atkvæðafjölda  og draga heimilin til ábyrgðar með því að gera kröfu um lestur á heimilum þar sem annars væri ekki lesið – er afar tvíeggjuð.

Hjónabandsráðgjafi myndi aldrei bregðast við ástlausu sambandi með því að neyða fólk til samvista. Börn sem ekki hafa náð persónulegu sambandi við bækur verða ekkert endilega bættari af því að vera nuddað upp úr prentsvertu.

Þvert á móti er afar líklegt að slíkar aðgerðir hafi skaðleg áhrif til lengdar. Barn sem á neikvæðar minningar af lestri hættir að lesa við fyrsta tækifæri. Fjölskyldur sem eiga óþægilega samveru yfir lestrarstriti eru verr staddar en þær sem lesa ekki neitt. Og sama hve við sannfærum okkur sjálf um að lestur sé mikilvægur í öllu lífi – þá er staðreyndin samt sem áður sú að fjöldi fólks les næstum ekki neitt en lifir samt fullkomlega eðlilegu lífi.

Barn sem öðlast ást á lestri, er barn sem verður fyrir jákvæðum áhrifum. Slík manneskja mun líklega lesa alla ævi.

Barn sem upplifir lestur á neikvæðan hátt mun leita áhrifanna annað.

Við verðum líka að muna að textalestur er aðeins einn þráður af mörgum samofnum í hinum stafræna heimi.

Læsið verður ekki einangrað, ekki frekar en að blekinu verði lyft af kálfskinninu eða rúnirnar tíndar af steininum.

Það hefur líklega aldrei verið flóknara að fóta sig í heiminum. Leiksvið barnanna okkar er veröldin öll. Þau þurfa að læra á margt fleira en bækur. Það væru stórkostleg svik við þau að svínbeygja skólakerfið undir þá fáránlegu hugmynd að nú skuli skólinn taka einn á sig allan hallann af minnkandi lestri. Skólinn hefur ærin verkefni önnur sem hann hefur ekki efni á að vanrækja.

Stærsta áskorun okkar nú sem samfélags er líklega sú að feta í fótspor Jónasar og Fjölnismanna og berjast fyrir því að íslenskan lagi sig að hinum nýja heimi.

Við erum nefnilega að tapa börnunum okkar. Tungumálið okkar er að staðna.

Ef íslenskan verður ekki meira áberandi í sókn sinni inn í hinn stafræna heim mun hún einangrast í áhrifaleysi sínu. Hún gæti jafnvel dáið út í þeirri mynd sem við þekkjum hana.

Meðan börn þurfa að sinna áhugamálum sínum á ensku vegna þess að það er of erfitt eða ómögulegt að gera það á íslensku – þá fer mikilvægur þáttur af persónuþroskanum að hnitast um hið erlenda mál.

Við verðum að vera duglegri að græða hinn stafræna heim með íslenskum fræjum.

Næstu kynslóð verður aldrei haldið frá áhrifum hinnar stafrænu tækni. Það er ómögulegt. Við búum ekki lengur að stopulum skipakomum og fásinni. Hér mun lífið ekki falla í dvala á meðan Ísland fer í gegnum eitt af sínum tíðu tregðuköstum.

Á ritmálið séns?

Nú mætti spyrja sig: Á hefðbundinn lestur nokkra möguleika? Er þetta ekki tapað spil? Hvernig eiga bækur eða skjátextar að keppa við nýjustu kvikmyndirnar eða tölvuleikina eða samskiptamiðlana?

Svarið við þessu skiptir okkur kennara miklu. Það er nefnilega ekki hið sama, sýnd og reynd. Það er auðvelt að fá skjáblindu. Þegar spjaldtölvur og önnur tækni ruddust fram á sjónarsviðið töldu margir að óhjákvæmileg bylting væri framundan. Kennslubókin yrði úrelt innan skamms.

Vissulega leit það vel út þegar hlutir sem áður höfðu lúrt á síðum bóka birtust í gagnauknum veruleika eða háskerpuþrívídd með hljóðrás og gagnvirkni.

En hér er aftur gott að huga að sögunni.

Dauða kennslubókarinnar hefur verið spáð ítrekað síðustu hundrað ár. Hún átti ekki að lifa útvarpstæknina af. Hún átti ekki að lifa kvikmyndatæknina af. Hún átti ekki að lifa sjónvarpið af. Hún átti ekki að lifa tölvutæknina af.

En hún lifði samt.

Og hún mun lifa áfram. Þótt eflaust verði mynd hennar eitthvað breytt.

Ástæðan er nátengt kenningu gamla nemandans míns um hugann og hugsmíðarnar.

Margvísleg tækni getur látið hluti hljóma vel og líta vel út. En þegar kemur að því að umrita upplýsingarnar svo þær taki sér bólfestu í huga manns og verði þar með tíð og tíma að byggingum í samhengi við annað sem hann hefur lært, þá hefur engin ný tækni reynst hafa yfirburði á hið ritaða mál.

Nemendur sem lesa vel skrifaða lýsingu á virkni hjartans skilja hjartað ekkert verr en nemendur sem horfa á myndband, handfjalla líkan eða nota forrit sem sýnir hjartað að störfum.

Og þekkjum við ekki öll að bókin er yfirleitt betri en myndin? – og útvarpsleikritið einhversstaðar þar á milli?

Þetta er í raun rökrétt.

Hið ritaða orð dregur dám af hugsuninni. Og það hefur það fram yfir hið talaða orð að það er auðveldara að hverfa frá því til að hugsa, hverfa til baka, leita aftur að stöðum sem maður hefur tínt. Og maður er miklu fljótari að lesa en hlusta.

Ritað orð fellur vel að hugsuninni og þess vegna er auðvelt að melta það. Þess vegna hefur það lifað og mun lifa.

Á sama hátt verða skriftir áfram mikilvægar.

Það er þessi gagnvirkni huga og texta sem allt snýst á endanum um. Sá er læs sem getur umbreytt texta í hugsun.

Og munum: Það má vera erfitt.

Við megum ekki falla fyrir þeirri ranghugmynd að lestur eigi að verða auðveldur þeim sem náð hafi tökum á honum. Að hugsa þannig er dálítið eins og að nálgast líkamsrækt með þeim hætti að æfingar eigi að vera auðveldar fyrir þá sem eru í góðu formi.

Það er þvæla.

Því betur sem þú ert á þig komin, því líklegra er að þú æfir með þeim hætti að þú verðir algerlega úrvinda.

Það þarf að kenna okkur að njóta þess þegar hlutir eru erfiðir.

Barn sem stautar sig fram úr texta með miklum erfiðismunum þyrfti að læra að vera stolt af sér.

Við þurfum líka að hafa í huga að sá sem les hratt er ekkert endilega vel læs. Alveg eins og hægt er að skrifa tóma þvælu með fallegri rithönd. Raunar er ólæsi læsa fólksins vaxandi samfélagsvandamál.

Margt fólk sem vel lærði að lesa á sinni skólagöngu hefur gersamlega tapað áttum í hinum nýja stafræna heimi. Þetta er fólk sem gæti hæglega sprengt alla skala Menntamálastofnunnar um hraða. Það er samt nánast ólæst.

Heimurinn er nú fullur af upplýsingum, þar ægir öllu saman. Víða leynast rangalar. Það reynir á dómgreind okkar sem aldrei fyrr.

Læsi á 21. öld gerir til okkur margvíslegar kröfur. Það þarf að nota margvíslega miðla og tæki, jafnvel allt á sama tíma; leita að upplýsingum og meta gildi þeirra, sjá í gegnum falsmiðla og -fréttir; sá sem er fluglæs getur að auki unnið úr upplýsingunum, hugsað um þær, átt samskipti við aðra, skapað og miðlað.

Við sjáum of margt fólk búa yfir mjög takmarkaðri færni. Margir gera sér illa grein fyrir uppruna og eðli upplýsinga og falla fyrir rugli, langsóttum samsæriskenningum eða annarri þvælu. Sumir eru fangar í eigin bergmálshellum. Lesa aðeins sem þeir vilja lesa og sjá það sem þeir vilja sjá. Þær byggingar sem fólkið byggir í huga sér eru svotil ósnertar af þeirri almennu, heilbrigðu og bráðnauðsynlegu skynsemi sem Sókrates kenndi.

Lestur og skriftir á upplýsingatímum einkennast um of af sleggjudómum, agaleysi, skotgrafarhernaði og dómgreindarleysi.

Og þetta er stórmál. Fólk lætur dáleiðast af mótsagnarkenndum tístum kolgeggjaðs Bandaríkjaforseta, snarrugluðum áróðursmyndböndum á Youtube og allra handa óhroða. Flókin samfélagsmálefni komast illa í almenna umræðu fyrir þjösnaskap, illindum og óbilgirni.

Ég held að hér séum við að fá í bakið kerfislægan galla á því hvernig við höfum litið á lestur megnið af 20. öld.

Menn hafa vanist því að lesa án þess að hugsa.

Lestur án umhugsunar er slæmur í sjálfum sér – en hann verður stórvarasamur í flóknum og krefjandi heimi.

Fólk sem matað hefur sig á bókum án umhugsunar hefði allt eins getað étið pappírinn.

Í dag eru upplýsingar stríður straumur. Hann hrífur þig með sér ef þú kannt ekki að vaða.

Við verðum að kenna börnunum að vaða. Og ef þau detta, að rísa aftur upp.

Fyrst og fremst verðum við að vera þolinmóð. Láta börnin ekki lesa of mikið í einu og leyfa því sem lesið er að hafa áhrif. Leyfum börnum að nota hjálpartæki, talgervla og hljóðbækur. Verum til staðar meðan börnin byggja forða eigin hugsana. Látum börnin skapa. Lesum fyrir þau og fetum við með þeim veginn inn í stafrænan veruleika.

Kennum þeim að njóta áreynslu. Einblínum ekki á tölur um árangur og annmarka. Finnum fræin í huga hvers barns og hjálpum til við að vökva þau.

Ég veit að það er freistandi að álykta sem svo að niðurstaðan af þessu hjali mínu sé að íslenskt mál, og sérstaklega ritmál, sé einfaldlega of gamaldags, þungt í vöfum og flókið til að lifa af á 21. öld. Málið þurfi að einfalda og laga að samtíma sínum.

Það er alls ekki það sem ég meina.

Meginþráðurinn er þessi: Ritmálið okkar er ekki kirkjuturn, þar sem okkar verkefni er að hrekja börn eins hátt upp í turninn og mögulegt er áður en þau halda út í lífið. Ritmálið okkar, eins og öll tungumálið, er tré. Með ótal greinum í allar áttir. Tungumál er ekkert eitt. Þar er pláss fyrir rímur, þar er pláss fyrir rapp; þar er pláss fyrir skrifstafi og þar er pláss fyrir hrafnaspark. Það er hægt að nota málið vel og illa; á fágaðan og ófágaðan hátt. En tréð þarf fyrst og fremst að fá að vaxa – og vaxtarbroddur þess er fólkið sem notar málið. Til þess að greinarnar vaxi þarf fólk sem klifrar út á bláenda greinanna og lengir þær. Og klifrið er knúið áfram af áhuga og áhrifum. Það er þessi áhugi og þessi áhrif sem allt okkar starf á að snúast upp. Sá sem er stutt kominn sextán ára getur vel orðið brumhnappur seinna á ævinni, haldi hann áfram að klifra.

Þegar Platón festi hugsanir sínar og samtíðarmanna sinna á pappír sendi hann okkur hugsanir yfir tíma og rúm. Hugsanir sem við getum fangað í dag. Ef við erum læs.

En tíminn er einstefna. Það sem Platón getur ekki, er að heyra hvað við höfum um málið að segja.

Í samræðu getum við hugsað upphátt með börnum. Og við eigum að tala um bækur við börn. Ekki aðeins til að útskýra torræð orð og setningar, eða fiska fram misskilning og villur undir yfirskini námsmats, heldur til að stuðla að upplifun og umhugsun.

Meðferð bókmennta á samræmdum prófum er einn stór glæpur við ritmálið og bókmenntirnar. Við megum ekki leggjast niður á það músagildrustig.

Tölva greinir ekki blik í auga barns sem fær magnaða hugmynd. En það gerum við. Hugsunin og samræðan er í raun eitt af fáu sem fyrirsjáanlegt er að við munum gera betur en öll heimsins upplýsingatækni alla 21. öldina.

Ef við ætlum okkur fyrst og fremst það hlutverk að telja mismæli, stjórna skeiðklukku og flokka nemendur eftir því – eigum við heima á öskuhaugum sögunnar með rímum Sunnanpóstsins.


Um höfund

Ragnar Þór er heimspekimenntaður grunnskólakennari sem hefur um skeið starfað í Norðlingaskóla í Reykjavík í teymi á unglingastigi. Starfshættir í skólanum hafa vakið athygli, m.a. vegna mikillar áherslu á skapandi viðfangsefni og þátttöku nemenda í námi sínu. Ragnar Þór hefur lengi verið virkur í skrifum og skrifar nú fasta pistla í Stundina. Hann hefur kennt í skólum víða um land, allt frá fámennum sveitarskólum til stórra borgarskóla – og það hefur kennt honum að þótt kennsluhættir séu fjölbreyttir, grundvallast námið undantekningalítið á því sama: Áhrifum þess sem gert er á nemendur, og áhrifum nemenda á það sem er gert.