1

Ástríðan – hvað viltu læra elskan mín?

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Grein II

Soffía Vagnsdóttir

 

Í fyrstu grein minni (sjá hér) fjallaði ég um þá vegferð sem skólinn hefur verið á allt frá því að foreldrar mínir voru börn og byggðu undir sína framtíð og fram til þess sem börn í skólum nútímans þurfa og ættu að læra. Hér er sjónum einkum beint að þörfinni fyrir breytingar á inntaki náms miðað við viðhorf nemenda til skólans og þess sem þeir eru að fást við þar.

Framtíðin er ekki fyrirsjáanleg

Eða hvað? Er hún fyrirsjáanleg? Miðað við síðustu fréttir af umhverfismálunum – já! Og þess vegna er mikilvægt að ræða hana, ekki síst við nemendur. Framtíðarhugsun er mikilvæg vegna þess að með góðum áætlunum getum við haft áhrif á ótrúlega margt, rétt eins og í okkar persónulega lífi. Og þar hefur skólinn mikilvægu hlutverki að gegna. En hvernig í ósköpunum á skólinn að takast á við þetta? Þegar vísbendingar eru um að alltof margir vilja ekki vera þar? Þegar enginn veit hvað þetta fólk er að fara að gera í framtíðinni? Þegar allir geta sótt alla vitneskju, jafnvel þekkingu á netið? Svo eru það Thunberg áhrifin – þegar öll börn eru komin á torgið að tjá sig um menn og málefni og jafnvel um stóru málin, eins og hlýnun jarðar eða flóttamannavandann og skólinn veit ekki hvort hann á að skrifa skróp eða hrópa húrra fyrir áræðinu.

Í þessari grein fjalla ég um viðhorf nemenda til skólans og viðfangsefna þeirra þar, sem mögulega geta varpað ljósi á ástæður þess að þeim leiðist í skólanum. Ég byggi umfjöllunina á hluta af niðurstöðum meistararannsóknar sem ég vann í námi mínu í Evrópufræðum við Háskólann á Bifröst árið 2018 (Soffía Vagnsdóttir, 2018). Ég tók  viðtöl við sex skólastjórnendur í fjórum Evrópulöndum, lagði spurningalista fyrir nemendur í Slóvakíu og á Íslandi og tók auk þess rýnihópaviðtöl við íslenska nemendur. Ljóst er að þetta eru vísbendingar fremur en afgerandi rannsóknarniðurstöður, en geta varpað ljósi á viðhorf tiltekinna nemenda um viðfangsefnin í skólanum og þá ætti sem valda þeim leiða.

Er ástríðan besta hvatningin til náms og þekkingarleitar?

Sagt er að börn og ungmenni hafi ekki áhuga á því að læra um tilgangslausa hluti. Það virðist einkum eiga við um drengi. Ef reynist rétt að hluti starfa í náinni framtíð séu ekki til í dag, þá hlýtur ýmislegt að þurfa að breytast í námi barna og ungmenna. Ég læt nægja að horfa til starfa innan kvikmyndaiðnaðarins og fiskvinnslunnar. Í fiskvinnslunni er komin vél sem sker úr beinagarð og sker síðan flakið í jafna bita, eftir vilja mannshugans. Störf fiskvinnslukvennanna fjúka út í veður og vind. Í kvikmyndaiðnaðinum er fjöldi starfa orðinn til sem flest heita ensku nafni, en eru bæði fjölbreytt og skemmtileg.

Í hefðbundnu skólastarfi vítt og breytt um heiminn er skólum stýrt af fullorðnum og nemendur hafa takmarkaðað um skólastarf að segja þrátt fyrir að verja þar drjúgum hluta á degi hverjum. Námsefnið er búið til af fullorðnum, rétt eins og húsnæðið, skólareglurnar, starfsemin, viðburðir og bækurnar sem eru notaðar. Aðgerðir til að koma á sameiginlegu eignarhaldi á skólastarfi hafa  lítið verið ástundaðar. Slíkt eignarhald mætti þróa með aðkomu nemenda og aukinni ábyrgð þeirra innan skólanna ásamt öllum öðrum sem að skólastarfinu koma (Zhao, 2018).

Raddir nemenda og áhrif þeirra á skólastarf og eigið nám hafa hlotið meira vægi en áður. Í íslenskum lögum um grunnskóla frá 2008 er fest að skólaráð skuli starfa við hvern skóla og í því sitja tveir fulltrúar nemenda (Lög um grunnskóla nr. 91/2008). Það er mikilvæg leið til að raddir nemenda fái að heyrast. Margir skólar hafa þróað ýmsar leiðir til að auka þátttöku nemenda í ákvörðunum innan skólans en oftast nær snýst  það um annað skipulag en á en náminu sjálfu og inntaki þess. Í samtölum við stjórnendur sem rætt var við í meistaraverkefni mínu voru þættir eins og umgengni í skólanum og skipulag menningarviðburða innan skólans nefndir þegar spurt var um aðkomu nemenda að skipulagi skólastarfsins. Svo virðist sem erfiðasti hjallinn í breytingarferli skólastarfs sé að rýna í inntak námsins sjálfs. Hvað er verið að kenna, hvernig það er gert og hvað skiptir raunverulega máli fyrir nemandann að læra?

Einn viðmælenda minna, skólastjóri í Hollandi, hafði þetta um tilgang skólastarfs og mikilvægi hamingjusamra nemenda að segja:

Einn megintilgangur með skólastarfinu okkar er að reyna að gera nemendur okkar hamingjusama. Ekki eingöngu núna, heldur þegar þeir vaxa úr grasi, að þeir geti orðið fullorðnir, hamingjusamir einstaklingar sem geta fundið sér starf sem þá langar til að vinna við.

Skólastjórinn lagði  áherslu á að hver einstaklingur þurfi að finna lífi sínu tilgang og til þess þurfi hann stuðning í gegnum nám sitt frá unga aldri. Fleiri hafa þessa sýn á hlutverk skólans og tengslin við tilgang og ástríðu. Hér má nefna frumkvöðlafræðinginn Couros (2015) sem heldur því fram að nauðsynlegt sé að hjálpa nemendum  við að finna ástríðu sína og skapa námsreynslu sem hvetur þá til að þróa  eigin styrkleika.

Skólaleiði og líðan nemenda í skólanum

Hér á eftir er farið yfir nokkrar niðurstöður könnunar sem lögð var fyrir 14 ára gamla nemendur í öllum grunnskólum Akureyrar og í einum skóla í Slóvakíu árið 2017. Heildarfjöldi svarenda var 247, eða 73 nemendur í Slóvakíu og 175 nemendur á Íslandi.

Nemendur voru í upphafi spurðir út í viðhorf sitt til veru sinnar í skólanum.

Mynd 1:Mér finnst gaman /leiðinlegt í skólanum.

Samkvæmt niðurstöðunni eru nemendur ekki allir að upplifa ánægju af því að vera í skóla (mynd 1). Þannig finnst um 16% íslenskra stúlkna frekar eða mjög leiðinlegt skólanum og heldur stærri hópi slóvakískra stúlkna. Staðan er mun verri í drengjahópnum en tæpum þriðjungi íslenskra drengja finnst leiðinlegt í skólanum og svipuðu hlutfalli slóvakískra drengja. Það er áhyggjuefni að svo stór hluti nemenda finni ekki gleði í  því að sækja skóla. Það skortir frekari rannsóknir til að vita betur hvers vegna nemendum hér á landi leiðist í skólanum. Þar er líklega meginstefið mikilvægi þess að ná til nemandans og hvernig kennarinn og nemandinn geta mæst, að þeir séu að tala saman og hugsa saman (Hafþór Guðjónsson, 2018). Í niðurstöðum Rannsóknar og greiningar á líðan nemenda í íslenskum skólum árið 2018, kemur fram að í kringum 10–11% nemenda í 8. bekk og 9. bekk segist oft eða nær alltaf líða illa í skólanum (Rannsóknir og greining, 2018). Nemendur þurfa ekki endilega að upplifa slæma líðan þó þeir upplifi skólaleiða, en leiða má líkum að því að þar sé vissulega samhengi á milli. Það þarf einnig að greina betur hvernig hægt er að styðja við hæfni kennara til að átta sig betur á þegar nemendum leiðist og finna út hvers vegna (Daschmann o.fl., 2014). Leiðir nemendur ná ekki að efla vitsmunalegan þroska sinn og persónulega hæfni og eru því í mun meiri áhættu að fá lægri einkunnir, lenda í fjarveru frá skóla og brottfalli (Daschmann o.fl., 2014).

Skólaleiði virðist vera vandamál víða, ef marka má orð dr. Mette Marie Ledertoug skólasálfræðings, sem hún kynnti á ráðstefnu á vegum Landlæknisembættisins í ágúst 2018. Þar kom fram að um fjórðungur danskra barna finna fyrir skólaleiða og flest þeirra sögðu það tengjast aðstæðum á vettvangi, s.s. námsumhverfi, námsefni, kennsluaðferðum, virkni og tengslum við aðra. Niðurstöður áhugaverðrar rannsóknar á þýskum börnum í 9. bekk bentu til að ríflega 90% þeirra fannst innlögn kennara í kennslustundum einhæf, síendurtekin og með sama hætti, vera helsta ástæða skólaleiðans, tæp 70% nefndi einnig inntak námsefnisins sem ekki vekti áhuga þeirra. Rúmlega 40% nemenda nefndu eigin stöðu og líðan og svipað hlutfall nefndi frammistöðu kennarans, s.s. kulnun í starfi og fleira (Daschmann o.fl., 2014).

Viðhorf nemenda til innihalds náms

Tilgangsleysi og einsleitni í kennsluháttum er einn þáttur sem nemendur nefna oft sem ástæðu þess að þeim leiðist í skólanum (Daschmann of.l., 2018). Ýmsar vísbendingar eru um að aðferðafræði kennslu þurfi að breytast og inntak náms sömuleiðis. Mjög mikilvægt er að rýna betur í það sem gert er á vettvangi og hvað er verið að kenna.

Í könnun minni kom fram að þó nokkuð stór hópur nemendanna fann mikið tilgangsleysi í því sem þeir voru að gera í skólanum. Um 40% nemendanna í báðum löndunum upplifðu að það sem þeir gerðu í skólanum skipti ekki máli.

Mynd 2: Ég er að gera margt/ekkert í skólanum sem mér finnst ekki skipta máli.

Það liggur eiginlega í hlutarins eðli að þegar nemendur sjá ekki tilgang í því sem þeir eru að fást við í skólanum, finnst þeim ekki skemmtilegt. Í niðurstöðunum kom fram að tæplega 60% íslenskra stúlkna fannst þær vera að læra margt skemmtilegt í skólanum en tæp 50% drengja. Hlutfallið er mjög svipað í slóvakísku svörunum (mynd 3).

Þetta gefur til kynna að endurskoða þurfi hvað er verið að kenna þegar svo stór hluti nemenda hefur ekki ánægju af því sem þeir eru að læra og sjá ekki tilgang með því.

Mynd 3: Ég er gera margt/ekkert í skólanum sem mér finnst skemmtilegt.

Þetta staðfestist enn frekar í svari nemenda við spurningunni hvort þau séu að læra það sem er mikilvægt fyrir framtíðina (mynd 4). Þar töldu aðeins um tveir þriðju íslenskra stúlkna og 61% þeirra slóvakísku sig vera að læra eitthvað sem er mikilvægt fyrir framtíðina. Það kemur örlítið á óvart að heldur stærri hluti drengjanna eða 73% þeirra íslensku og 68% slóvakísku drengjanna töldu sig vera að læra margt í skólanum sem skiptir máli fyrir framtíðina.

Mynd 4: Ég er að læra margt/ekkert í skólanum sem mér finnst mikilvægt fyrir framtíðina.

Hollenski menntafrömuðurinn og frumkvöðullinn Maurice de Hond (munnleg heimild, 10. nóvember 2017,) benti á að núverandi skólakerfi væri byggt á iðnaðar- og framleiðsluhugsun og vísaði m.a. í rannsókn sem hann sjálfur gerði þar sem einstaklingar sem höfðu lokið háskólaprófi voru spurðir hvort þeir hefðu valið sama fagið og þeir völdu að læra ef þeir ættu að velja aftur. Þá kom í ljós að 55% hópsins sagðist hefðu valið eitthvað annað. De Hond dró þá ályktun að óformlegt nám utan skólakerfisins hefði komið þeim á sporið um það sem þeir hefðu fremur viljað læra en völdu ekki.

Ef ef kennarar myndu skapa nemendum aðstæður til að upplifa persónulegan árangur myndu þeir þróa og efla eigið sjálfstraust. Með því að bjóða nemendum stöðugt upp á tækifæri til að efla persónulegu styrkleika sína enn frekar, eru þeir að þróa námshæfni sína, jafnt og trú á eigin getu. Hver áskorun sem nemendur sigrast á eykur skilning þeirra og trú á að þeir geti lært og tekist á við verkefni sem reyna á.

Þegar nemendur voru spurðir álits um hversu mikil áhrif þeir fá að hafa á það sem þeir læra eru niðurstöður nokkuð sláandi (mynd 6). Rétt um 16% íslensku nemendanna fannst að þeir fengju miklu um það ráðið hvað þeir læra í skólanum. Svo virðist sem slóvakískir jafnaldrar þeirra upplifi heldur meiri ákvörðunarrétt en ríflega þriðjungur taldi svo vera.

Mynd 5: Ég ræð miklu/engu um það sem ég læri í skólanum.

Sjálfsákvörðunarréttur nemandans um val á viðfangsefnum

„Það er ekkert kennt um hvernig á að bjarga sér frá ýmsum hættum. Og þegar maður lendir í einhverju, veit maður ekkert hvað maður á að gera” (nemandi úr rýnihópi).

Á mynd 6 má sjá að meirihluti nemendanna í báðum löndunum segjast vilja læra annað í skólanum en það sem þau eru að læra, sýnu fleiri í Slóvakíu heldur en á Íslandi. Mikilvægt er að árétta að þetta eru aðeins vísbendingar um viðhorf nemenda.

Mynd 6: Mig langar að læra annað en það sem ég fæ að læra í skólanum.

Eins og fram hefur komið  er sjálfsákvörðunarréttur nemandans í eigin námi og tækifæri hans á að velja viðfangsefni mjög mikilvægur. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna   að það  eru of fá tækifæri fyrir nemendur til að velja sér viðfangsefni í skólanum (mynd 7). Um 17% íslenskra stúlkna telja sig stundum eða oft fá að velja sér verkefni og aðeins rúm 6% jafnaldra þeirra í Slóvakíu. Tæp 23% drengja telja sig frekar eða mjög oft fá tækifæri til að velja sér verkefni í skólanum en aðeins um 7% þeirra slóvakísku jafnaldra.

Mynd 7: Ég fæ oft að velja mér verkefni í skólanum.

Víða eru skólar að prófa aðferðir til að virkja nemendur til ákvarðana. Í tékkneska skólanum lýsti aðstoðarskólastjórinn skólaþingum sem haldin eru í skólanum (e. school parliament). Þar fá nemendur tækifæri til að axla meiri ábyrgð á því sem á sér stað í skólanum, en mest eru það þó hlutir eins og reglur um umgengni, tónlist í skólabjöllunni eða slíkt en ekki um inntak námsins. Dæmi um slík skólaþing er einnig að finna víða í íslenskum skólum.

Mynd 8 sýnir að það er reynsla nemenda að þeir séu nánast aldrei spurðir um hvað þeir vilja læra í skólanum. Þetta er í hróplegu ósamræmi við kenningar nútíma sérfræðinga um þróun í skólastarfi og breyttar áherslur í kennslu og kennsluaðferðum þar sem kennarinn ætti fremur að vera leiðsagnaraðili sem leiðir nemandann áfram í þekkingarleit sinni og forvitni. Kennarar ákveða viðfangsefnið, skipuleggja það og taka ákvörðun um með hvaða hætti það er unnið af nemendum. Nemendur eru samkvæmt niðurstöðunum því enn í hlutverki móttakenda þess sem kennarinn leggur fram í stað þess að leita sjálfir þekkingar sem þeir sjálfir kjósa að finna með aðstoð kennarans.

Mynd 8: Kennarinn spyr mig oft: Hvað viltu læra í dag?

Það er ánægjulegt að sjá að íslensku nemendurnir segjast fá mjög oft að vinna saman og mun oftar en jafnaldrar þeirra í Slóvakíu.

Það er skoðun aðstoðarskólastjórans í tékkneska skólanum að hefðir standi í vegi fyrir nýjum aðferðum. Margir kennarar gera sér grein fyrir mikilvægi þess að breytingar þurfa að eiga sér stað en aðrir ekki. Þeir horfast ekki í augu við stórar áskoranir sem heimurinn þarf sameiginlega að takast á við, s.s. loftslagsbreytingar, flóttamannavanda og fleira. Í skólanum hjá henni er nú kennd námsgrein sem kölluð er nútímavandamál heimsins (e. problems of the modern world) þar sem fjallað er um smærri og stærri vandamál, bæði í nærsamfélagi og á alþjóðavísu. Að mati eins viðmælenda minna úr hópi skólatjórnenda, Petru Boháčková eru helstu áskoranir í nútíma skólastarfi hve erfitt er að reyna að gera sér grein fyrir þörfum nemenda þegar þeir hafa setið allt að 20 ár á skólabekk; hvað það væri helst sem þeir þyrftu að vera færir um að þeim tíma liðnum, hún sagði:

Eitt er víst að nemendur þurfa að læra að þeir þurfa að vera að nema ævina út. Þeir þurfa að kunna samvinnu, inn í bekknum, í hópum innan skólans, með nemendum í öðrum skólum og jafnvel með nemendum í öðrum löndum. Þeir þurfa að vera skapandi og þeir þurfa að njóta þess að læra.

Af svörum nemenda má hins vegar sjá að samvinnunám er það sem nemendur vilja helst, að vinna með öðrum nemendum (mynd 9). En um 90% allra nemendanna finnst mjög gaman að vinna í hópavinnu. Þetta gefur vísbendingar um að félagslegur þáttur náms skipti máli. Það að læra og vinna með jafnöldrum er mikilvægur þáttur í þroska og lærdómsferli.

Mynd 9: Mér finnst gaman að vinna í hópavinnu.

Nemendur ættu jafnan að hafa tækifæri til að læra hverjir af öðrum og deila því sem þeir hafa lært til annarra. Við viljum efla nemendur í því að hafa rödd og því þurfum við að kenna þeim að nota rödd sína til að hafa áhrif (Couros, 2015).

Hvað telja nemendur mikilvægast að læra?

Í viðtölum við rýnihópana kom glöggt fram það leiðarstef að nemendum finnst þeir ekki fá að hreyfa sig nægilega í skólanum. Þeir telja mikilvægt að auka hreyfingu og eiga valkosti þar sem það er hægt. Þá kom fram í mörgum hópanna að það væri mikilvægt að fá að vinna í hópavinnu þar sem samskiptahæfni skipti miklu máli. Sumum nemendum fannst ekki nægilega mikið verið að þjálfa samvinnu og samskiptahæfni. „Það er mikilvægt að vinna meira saman, það mun gagnast manni í framtíðinni. Að læra á samskipti er mikilvægt og að hafa góða þekkingu á mörgum hlutum“ (nemandi í rýnihópi).

Mörgum fannst íslenskukennsla of fræðileg og of mikill tími fara í þætti eins og orðflokkagreiningu og þætti sem ekki skiptu lykilmáli. Tjáning, lestur og lesskilningur væru mikilvægari.

Nemendur í rýnihópum nefndu einnig að kennsluaðferðir þyrftu að vera öðruvísi. Of mikið væri um að nemendur væru látnir lesa texta og svara spurningum. Það væri mun betra að nota tæknina betur og fækka bókum. Hún myndi einnig hjálpa þeim að halda utan um eigið nám og bera meiri ábyrgð á því. Tæknin myndi einnig létta á starfi kennara.

Það var rauður þráður í viðhorfum rýnihópanna að nemendur vilja hafa meira val um það sem þeir eru að læra. Þeir vilja fá kennslu í skapandi hugsun, það sé of mikil mötun í gangi, þeir vilja fá að finna hlutina út sjálfir, fá að rannsaka, taka þátt í rökræðum og kappræðum. Þeir vilja fá að koma fram og tjá sig og auka færni sína í framkomu og tjáningu og fræðast miklu meira um heilsuna og heilbrigðan lífsstíl en einnig um hagfræði og notkun peninga.

Athyglisvert var að nemendum er mjög umhugað um stöðu kennara. Það væri mikið álag á kennara og það verði að hjálpa þeim, sérstaklega varðandi tæknina.

Nemendur láta sér annt um þá sem minna mega sín og vilja að komið sé mun betur til móts við þá sem eiga í erfiðleikum námslega og að þeir fái námsefni við hæfi. Þetta kom heim og saman við viðhorf í rýnihópum nemenda sem eru í þeirri stöðu. Þeim fannst námið oft erfitt og fannst þeir  ekki fá viðeigandi stuðning.

Nemendur voru spurðir um  viðhorf sín til náms í nokkrum lykilþáttum sem taldir eru mikilvæg þekking og hæfni fyrir þróun réttláts og heilbrigðs samfélags fyrir mannkynið á 21. öld: Nám í forritun, mannréttindum, umhverfi og náttúru og skapandi hugsun.

Margir hafa þá skoðun að kennsla í forritun þurfi að hafa jafnmikinn forgang í námi nú á dögum og almennt læsi og ritun. Það kemur því nokkuð á óvart að nemendur settu ekki forritunarnám í forgang í námi sínu (mynd 10). Það var þó nokkuð stærra hlutfall slóvakísku unglinganna sem töldu þekkingu á forritun frekar eða mjög mikilvæga.

Mynd 10: Mér finnst mikilvægt að kunna að forrita.

Nemendur töldu hins vegar tungumálakunnáttu mjög mikilvæga (mynd 11), sem styður við sýn sérfræðinga um mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu og lausnaleitar á flóknum viðfangsefnum sem ná langt yfir landamæri. Nemendur gera sér skýra grein fyrir að tungumálakunnátta er lykilhæfni í samskiptum þjóða og er það gleðilegt.

Mynd 11: Mér finnst mikilvægt að læra erlend tungumál.

Þegar nemendur voru spurðir um mikilvægi þess að læra um umhverfi og náttúru í skólanum sést að tæp 78% íslenskra stúlkna og drengja töldu þennan þátt frekar eða mjög mikilvægan. Slóvakísku drengirnir eru sama sinnis og þeir íslensku en vegna mistaka féll þessi spurning af lista slóvakísku stúlknanna.

Mynd 12: Mér finnst mikilvægt að læra um umhverfi og náttúru í skólanum.

Miðað við þá miklu alþjóðlegu umræðu sem orðið hefur um umhverfismál og sjálfbærni gefa þessi viðhorf nemenda góð fyrirheit um sýn þeirra á þennan mikilvæga málaflokk. Alþjóðasamfélagið setur umhverfismál og sjálfbærni ofarlega í umræðuna og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir,  til að mynda í loftslagsmálum, kalla á aukna vitund, ábyrgð, meiri þekkingu og leit að lausnum. Það verður að meginhluta verk þessarar kynslóðar. Þarna liggur mikilvægt tækifæri en ekki síst ábyrgð skólasamfélagsins til að auka fræðslu um mikilvægi þess að þekkja umhverfið, læra á það og nýtingu þess og síðast en ekki síst umgengni við það. Umhverfismál eru forgangsmál á 21. öld og allar æðstu stofnanir heimssamfélagsins, eins og Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið, jafnt innan ríkja sem á heimsvísu beina sjónum sínum að umhverfi og náttúru og þeirri vá sem steðjar að, verði ekkert að gert. Þess vegna er mjög mikilvægt að stórauka kennslu fyrir börn og unglinga á þessu sviði og m.a. hjálpa þeim að átta sig á neysluhegðun í samhengi við sjálfbærnihugsun. Þeirra er framtíðin og þeirra verður ábyrgðin að bregðast við.

Skapandi hugsun er einn af þeim lykilþáttum sem heilbrigt, sanngjarnt og skapandi samfélag til framtíðar er talið byggja á. Nemendur átta sig vel á þessu því rétt um 90% þeirra töldu það frekar eða mjög mikilvægt. Skapandi hugsun leiðir til lausnaleitar og er uppspretta nýrra hluta og hugmynda.

Mynd 13: Mér finnst mjög mikilvægt að læra að vera skapandi í hugsun.

Nemendur eru mjög meðvitaðir um mikilvægi mannréttinda og vilja mjög gjarnan hafa þann þátt öflugan í námi sínu (mynd 14). Athyglisvert er að sjá að hærra hlutfall slóvakísku nemendanna telur vera mjög mikilvægt að læra um mannréttindi heldur en þeirra íslensku. Einnig er athyglisvert að í báðum löndunum virðast stúkurnar vera ákveðnari í að mannréttindafræðsla sé mikilvæg heldur en drengirnir.

Mynd 14: Mér finnst mikilvægt að læra um mannréttindi í skólanum.

Að lokum

Hér hefur sjónum verið beint að viðhorfum nemenda og stjórnenda til breytinga á inntaki náms, hvað nemendur telja mikilvægt og vilja læra og hvers vegna það reynist vera flókið að breyta skólastarfi og inntaki náms með meiri áherslu á vilja og óskir nemenda.

Annar af íslensku skólastjórunum sem ég ræddi við, Skúli Kristjánsson, sagði nemandann sjálfan verða að vera miklu virkari í eigin námi. Að hans mati  erum við að svíkja nemendur nútímans og leggja áherslu á ranga  hluti:

Nemandinn á að setja sér markmið um að hverju hann stefnir. Það verði að nýta betur leiðsagnarnámið og aðferðir leiðsagnarmats. Enn séu alltof margir kennarar uppteknir af því að kenna í stað þess að leiðbeina. Nemandinn verður því aldrei raunverulega virkur í eigin námi. Það gerir það að verkum að nemendur upplifa að marga daga í röð séu þeir að ganga í gegnum „sama daginn“ í skólanum. Það þarf að tengja saman, gera viðfangsefnið að að verkefni, jafnvel þó að tiltekin viðmið séu í mínútutali í hverri námsgrein. Nemendur eiga að vera virkir í eigin námi en við getum ekki gefið þeim þessa tauma á meðan við kennum þeim eins og við kennum þeim í núverandi stöðu, þar sem við setjum upp svo stífan ramma um kennslustundina að þeir fá ekkert svigrúm innan hans.

Hann benti á mikilvægi nemendalýðræðis og vísaði í þeim efnum til Kanada þar sem nemendalýðræði er í hávegum haft.

Ég tel heilshugar undir þessa skoðun. Ég tel að stóra breytingin í skólakerfinu verði að vera miklu meiri áhersla á trú og traust á ákvörðunarrétt nemenda. Það er dapurlegt að nýjustu hugtökin í skólaumræðunni skuli vera orð eins og skólaforðun og loftslagskvíði. Menntun og fræðsla um málefnið og virk hlustun á raddir nemenda er meðal annars svar við þessum vanda. Ég hef líka þá trú að kennarar séu komnir af stað í það breytingarferli að breyta starfsháttum sínum, að þora að vera leiðsegjandi í stað þess að vera stýrandi.

Viðhorf nemendanna staðfesta mikilvægi þess að dýpra nám eigi sér stað þegar nemandinn er fær um að umbreyta þeirri þekkingu og reynslu sem hann fær í gegnum námið yfir á önnur svið eigin lífs. Það styrkir um leið trú hans á að hann hafi eitthvað að segja um það sem hann vill læra og hvar áhugasvið hans liggur á hverjum tíma.

Með dýpra námi er átt við það ferli sem einstaklingurinn gengur í gegnum til að öðlast sex eiginleika sem eru þekking á persónulegri skapgerð (e. character), hvað það þýðir að vera samfélagsþegn (e. social citizen), samstarfshæfni (e. collaboration), samskiptahæfni (e. communication), sköpunarhæfni (e. creativity) og hæfni til gagnrýninnar hugsunar (e. critical thinking). Þessir eiginleikar ná þá einnig utan um samkennd, samúð, samfélagslegan skilning, frumkvöðlahæfni og fleiri þætti sem flókinn nútíminn krefst af einstaklingnum (Fullan o.fl., 2018).

Þjálfun í samstarfi nemenda á sem flestum sviðum skiptir máli því þannig öðlast þeir færni í að þroska hæfileika sína á því sviði. Stjórnendurnir sem rætt var við gera sér einnig grein fyrir mikilvægi þess að þjálfa nemendur í samvinnu og nemendurnir sjálfir vilja vinna saman (mynd 9).

Í upphafi árs 2021 stigu nemendur í Hafnarfirði fram á sjónarsviðið sem hafa stofnað félagið Menntakerfið okkar (sjá til dæmis hér um þetta félag).

Við litum til baka á skólagönguna okkar og áttuðum okkur á því að það var ansi margt sem við hefðum átt að læra sem við gerðum ekki,“ sagði Alexander Ívar Logason einn forsprakki hins nýstofnaða félags.

Við skulum þora að taka nemendur inn í umræðuna af alvöru og muna að betra er að líta til baka eftir 10–15 ár héðan í frá og geta sagt: Sko til, við náðum að undirbúa nemendur okkar í grunnskólanum undir framtíð sína, þegar við heyrum af hamingjusömum og sáttum einstaklingum, sjáum ný störf hafa orðið til á fjölbreyttu sviði þar sem ungt fólk hefur lært að leita sér þekkingar. Fólk sem hefur byggt undir ástríðu sína, skapað sér vettvang og er fært um að lifa og starfa í réttlátu og sanngjörnu samfélagi þar sem allir geta verið með og um leið færst nær því að leysa stórar áskoranir sem við blasa á hverjum tíma. Það er í raun besta mælistikan á góðan grunnskóla.

Þriðja og síðasta greinin fjallar um framtíðina.

https://www.menntakerfidokkar.is/?lang=en

Heimildir

Aðalnámskrá grunnskóla 2011: Almennur hluti /2011.

Daschmann, E. C., Goetz, T., og  Stupnisky, R. H. (2014). Exploring the antecedents of boredom: Do teachers know why students are bored?. Teaching and Teacher Education39, 22-30. https://doi.org/10.1016/j.tate.2013.11.009

Hafþór Guðjónsson. (2018, september). Að ná til nemenda. Skólaþræðir, tímarit samtaka áhugafólks um skólaþróun. http://skolathraedir.is/2018/09/ 

Rannsóknir & greining. (2018). Ungt fólk 2018: Lýðheilsa ungs fólks í Reykjavík. Rannsóknir & greining. https://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_utgefid_efni/reykjavik_heild_loka.pdf

Soffía Vagnsdóttir. (2018). Menntun fyrir mannkyn og jörð. Raddir nemenda um áhrif á eigin menntun og inntak hennar og viðhorf skólastjórnenda til sömu þátta (meistararitgerð). Háskólinn á Bifröst.  https://skemman.is/bitstream/1946/32494/1/Soff%c3%ada%20Vagnsd%c3%b3ttir%2013.%20febr%c3%baar%202019.pdf

Zhao, Y. (2018). Reach for greatness, personalizable education for all children. A SAGE


Soffía Vagnsdóttir er skrifstofustjóri fagskrifstofu grunnskólamála á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Hún útskrifaðist sem tónmenntakennari frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1983, lauk árið 2013 meistaranámi í menningarstjórnun frá háskólanum á Bifröst og meistaranámi í Evrópufræðum frá sama skóla árið 2019. Hún hefur starfað sem kennari og skólastjóri, var fræðslustjóri á Akureyri í tæp fjögur ár en hefur síðustu þrjú árin starfað hjá Reykjavíkurborg.


Gestaritstjórn afmælisgreina Ingvars Sigurgeirssonar: Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor, Baldur Sigurðsson dósent og Gerður G. Óskarsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkur.



Grein birt: 27/4/2021




Nemendaþing ‒ leið til að efla lýðræði í skólastarfi

Jóna Benediktsdóttir

 

Í Grunnskólanum á Ísafirði hefur um nokkurt skeið verið mikill áhugi á að efla lýðræðisleg vinnubrögð, m.a. með nemendaþingum þar sem nemendur ræða ýmis málefni sem varða skólastarfið, sem og fleiri mikilvæg mál. Nemendur stýra umræðunum að hluta til sjálfir og niðurstöður hafa verið notaðar með ýmsum hætti. Markmiðið er að þingin verði fastur liður í skólastarfinu.

Í Aðalnámskrá grunnskóla (2011) er birt menntastefna fyrir alla grunnskóla á Íslandi. Stefnan byggir á sex grunnþáttum menntunar; læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindum, jafnrétti og sköpun. Grunnþættirnir skarast á margvíslegan hátt og hægt er að fella margskonar kennslu að þeim. Allir skólar vinna með grunnþættina en hafa frelsi til að velja sér aðferðir og leiðir. Verkefnið sem hér verður fjallað um snýst fyrst og fremst um þróun lýðræðis og borgaravitundar í skólastarfinu en tengist einnig öðrum grunnþáttum menntunar.

Fræðilegur bakgrunnur

Þegar lagt er af stað í breytingaferli er nauðsynlegt að hafa fræðilegan grunn til að standa á. Okkar grunnur byggir að mestu leyti á hugmyndum John´s Dewey (2000) um lýðræðishugsjónir og Basil Bernstein (1996) um skynsamlegt vinnulag.

Hvað er lýðræði?

Orðið lýðræði getur haft margvíslegar merkingar í hugum fólks en þegar hér er talað um lýðræði er fyrst og fremst stuðst við kenningar Dewey.  Dewey (1976) áleit að lýðræðið væri lífstíll um leið og það væri leið til virkrar þátttöku í þjóðfélaginu. Hugmyndir Dewey gera þær kröfur til nemenda að þeir séu virkir í skólastarfi og leiti svara við spurningum sínum. Einnig að þeir vinni saman að því að finna farsælustu lausnirnar og búa sig þannig undir þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Á þessum forsendum teljum við mikilvægt að virkja alla nemendur til þátttöku í samræðum um hvernig við getum skapað skólasamfélag sem þjónar þörfum þeirra sem best. Inn í kenningar Dewey um lýðræði fléttast einnig hugsunin um að reynsla fólks hafi áhrif til breytinga því reynslan feli í sér tækifæri til að læra (Dewey, 2000).  Það er lýðræði af þessum toga sem við stefnum að því að efla í Grunnskólanum á Ísafirði.

En hvernig á að virkja lýðræðishugsjónirnar í starfi grunnskóla?  

Við ákváðum að byggja vinnu okkar fyrst og fremst á hugmyndum Bernstein um hvaða þættir eru nauðsynlegir til að koma lýðræðishugsjónum í framkvæmd.  Bernstein (1996) telur tvo þætti sérstaklega mikilvæga fyrir skóla sem ætla að skapa umhverfi sem styður við lýðræðisþróun og eflir lýðræðisvitund nemenda. Í fyrsta lagi verður fólk að upplifa sig sem virkan þátttakenda í samfélaginu. Það þýðir ekki eingöngu að fólk fái ákveðna hluti (réttindi) heldur einnig að það verði að geta gefið af sér ákveðna hluti (skyldur). Nemendur verða að upplifa sig sem þátttakendur bæði í þeim skilningi að gefa og þiggja. Í öðru lagi verður fólk að hafa tiltrú á þeim ráðstöfunum sem eru gerðar í samfélaginu. Nemendur verða að skilja að ráðstafanir eru gerðar í þeirra þágu og ef ráðstafanir eru ekki gerðar í þeirra þágu verða rökin fyrir því hvers vegna svo er að vera skýr. Bernstein segir einnig að til að þessar aðstæður geti orðið að raunveruleika í skólastofnunum verði skólarnir að leggja áherslu á rétt nemenda til þátttöku.  Með því á hann við réttinn til þess að taka þátt í að móta, viðhalda og flytja gildi og þekkingu með skipulögðum hætti.

Þessi skilyrði sem hér eru nefnd eru í góðu samræmi við hugmyndir Dewey um mikilvægi þess að fá tækifæri til að læra af reynslunni, túlka hana og þátttöku nemenda í að móta námsumhverfi sitt.

Á vettvangi

Ef þessar skilgreiningar eru tengdar við lýðræðiskennslu í skólastarfi má álykta sem svo að fái nemendur tækifæri til þátttöku í umræðum sem geta leitt til þess að þeir þroski með sér ný viðhorf og sjái að þeir geti haft áhrif, séu þeir að læra um virkni lýðræðis. Þegar fólk ræðir saman með þessum hætti kvikna nýjar hugmyndir af frjóum umræðum og sjálft ferlið við að ná samkomulagi um hvað skiptir máli, verður verðmætt í sjálfu sér, óháð niðurstöðum. Umræðurnar verða þó að hafa merkingu í lýðræðislegu samhengi til að geta fallið undir lýðræðiskennslu. Þær verða einnig að snúast um þau efni sem eru nemendum hugleikin og hafa einhverja merkingu fyrir þá svo sem samskipti, skyldur eða réttindi. Grunnskólinn á Ísafirði vinnur samkvæmt Uppbyggingarstefnunni og nemendur okkar hafa í allmörg ár unnið bekkjarsáttmála um samskipti sem notaðir eru í stað formlegra skólareglna. Í þeirri vinnu læra nemendur talsvert um lýðræðisleg vinnubrögð þar sem hún krefst þess að allir taki þátt og að skoðanir allra séu virtar. Nemendur þekkja því þessi vinnubrögð en á undanförnum árum höfum við unnið að því að færa þátttöku nemenda yfir á heildstæðara plan með því að virkja þá við mótun skólabrags með því að halda regluleg nemendaþing. Þingin hafa verið með þjóðfundarsniði og rætt hefur verið um málefni sem nemendur geta haft áhrif á og eru líkleg til að efla ábyrgðartilfinningu þeirra og vitund um eigin getu til að hafa áhrif.

Markmið þessara umræðuþinga eru fjögur:

  • að veita nemendum tækifæri til að taka þátt í lýðræðislegri samræðu um málefni sem hefur merkingu fyrir daglegt líf þeirra og skipulag skólastarfsins,
  • að efla vitund nemenda um eigin áhrif í skólastarfinu,
  • að fá fram sjónarhorn nemenda í ýmsum málaflokkum,
  • að fá fram tillögur frá nemendum um hvað hægt er að gera til að hafa jákvæð áhrif á daglegt starf í skólanum og víðar.

Þingin hafa verið sett upp með formlegu sniði. Borðstjórar koma úr efri bekkjum skólans og fá sérstaka þjálfun í að virkja samnemendur til þátttöku og að stýra umræðum, en gæta um leið kurteisi.

Þrjú þing um ólík málefni hafa verið haldin í skólanum árin 2013, 2015 og 2017. Á fyrsta þinginu var lögð áhersla á skólasamfélagið. Þá fengu nemendur þrjár spurningar til að kljást við.

  1. Hvaða aðilar mynda skólasamfélagið?
  2. Hvað gætu hóparnir sem mynda skólasamfélagið gert til að gera skólastarfið betra og árangursríkara?
  3. Hvað myndu aðilar skólasamfélagsins ,,græða“ á því ef allir gerðu sitt besta?

Á öðru þinginu var rætt um kynjajafnrétti. Þá fengu nemendur spurningarnar:

  1. Hvað græða strákar á jafnrétti?
  2. Hvað græða stelpur á jafnrétti?
  3. Hvað geta aðilar skólasamfélagsins gert til að efla jafnrétti?
  4. Hvað geta foreldrar gert til að efla jafnrétti?
  5. Hvað getið þið sjálf gert til að efla jafnrétti?

Á þriðja þinginu var svo rætt um samfélagsmiðla. Þá byrjuðu nemendur á að skilgreina þá samfélagsmiðla sem þeir þekktu og flokka þá í mikið og lítið notaða. Þeir völdu síðan þrjá til fjóra af flokkunum sem þeir töldu vera mikið notaða og ræddu gagnsemi þeirra og hvað ber að varast við notkun þeirra.

Niðurstöðurnar

Smellið á myndina til að fá stærri útgáfu af niðurstöðunum frá nemendaþingi um samfélagsmiðla.

Vinnan með niðurstöðurnar er bæði formleg og óformleg. Formlega vinnan er sýnileg á veggjum skólans og víðar en sú óformlega felst í viðhorfsbreytingum, breytingum á hugsun og hegðun nemenda og jafnvel starfsmanna líka. Í öllum tilvikum er þetta vinna sem nær yfir langan tíma og tekur í raun ekki enda.

Nemendaráð skólans hefur ávalt unnið áfram með niðurstöður þinganna og þær hafa verið gerðar sýnilegar í skólasamfélaginu. Einnig hefur verið unnið með niðurstöður þingana í tengslum við markmiðssetningu nemenda í upphafi skólaárs, þar sem þeir skilgreina hvað þeir ætla að gera til að vinna að því að ná þeirri stöðu sem sameinast hefur verið um að sé æskileg.

Tillögur frá nemendum um kennsluhætti hafa verið ræddar í starfsmannasamtölum og ratað inn í margskonar áætlanir í skólastarfinu. Tillögurnar hafa einnig verið notaðar í innra mati skólans þar sem gerðar hafa verið kannanir fyrir kennara út frá þáttum sem nemendur meta mikilvæga í kennslu. Foreldrar fengu einnig tillögur nemenda um hvað þeir gætu gert til að auðvelda börnum sínum námið. Hluti af niðurstöðum hefur verið nýttur í innra mati í tengslum við mat á líðan og bekkjarbrag þar sem þær voru notaðar beint til að útbúa sameiginlega skilgreiningu fyrir æskilega stöðu. Þessar niðurstöður voru síðan færðar yfir í könnun sem nemendur svöruðu og gátu þannig endurmetið stöðuna í hverjum bekk fyrir sig.

Flóknast hefur reynst að vinna með niðurstöður jafnréttisþingsins þar sem þar eru fæst atriði sem nemendur eða starfsfólk skólans getur haft bein áhrif á.  Niðurstöður þess eru þó enn mikið ræddar í skólanum, bæði af nemendum og starfsfólki.

Niðurstöður í hnitmiðuðu formi til að setja á ísskápinn heima!

Nemendaráð er um þessar mundir að vinna með niðurstöður umræðna um samfélagsmiðla og vonumst við til að út úr því komi sáttmáli um skynsamlega notkun. Einnig er verið að útbúa gögn sem munu fara heim til nemenda og verða vonandi hvetjandi til samræðna foreldra og barna um þennan þátt sem leikur svo ríkulegt hlutverk í lífi fólks á okkar dögum.

Fyrir skólabraginn

Í þessu ferli eru nemendur virkir þátttakendur í að skapa eigin merkingu og bregðast við á persónulegan og skapandi hátt. Þeir taka þátt í að skapa samábyrgt samfélag og læra að takast á við álitaefni, því ekki eru allir alltaf sammála í hópunum. Það að gera sér grein fyrir hvað maður sjálfur getur lagt af mörkum til bæta umhverfi sitt og félagslegar aðstæður hefur styrkjandi áhrif fyrir alla og þegar börn og ungmenni skynja merkingu viðfangsefna eflist sköpunargleði þeirra sem hefur áhrif á námsáhugann. Í sköpun felst einnig að virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika og spyrja ,,hvað ef“ spurninga.  Umræðuþáttur þessa verkefnis felur í sér skapandi vinnu þar sem nemendur koma með nýjar tillögur, ígrunda eigin hegðun og fá tækifæri til að sýna frumkvæði. Þó að ekki sé mögulegt að mæla bein áhrif af svona starfi teljum við okkur geta sagt með vissu að áhrifin á skólabraginn eru ótvírætt jákvæð.  Nemendur okkar sýna oft í verki að þeir eru þess fullvissir að þeir geti haft áhrif á ákvarðanir sem teknar eru í skólanum ef þeir eru kurteisir og málefnalegir og telja sjálfsagt og eðlilegt að allir hafi skoðanir og tjái þær eftir löngun hverju sinni.

Markmið okkar er að gera nemendaþing að föstum lið í skólastarfinu. Með því vonumst við til að nemendur okkar venjist því að samræður, þar sem allir taka þátt, leiði til bestu mögulegu niðurstöðu fyrir heildina.

Heimildir

Aðalnámskrá grunnskóla 2011: Almennur hluti /2011.

Bernstein , B. (1996). Pedagogy, symbolic control and identity: Theory, research, critique. Lanham: Rowman & Littlefield.

Dewey, J. (2000). Reynsla og menntun. (Gunnar Ragnarsson þýddi). Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands. (Upprunaleg útgáfa frá 1938).

Dewey, J. (1976). Creative democracy: The task before us. Í J. Boydston (Ed), John Dewey: The later works, 1925-1953, 14. bindi (bls. 224-230). Carbondale: Southern Illinois University Press.


Jóna Benediktsdóttir er skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði. Jóna lauk M.Ed prófi frá HÍ haustið 2012. Áherslur Jónu í náminu voru á skóla án aðgreiningar og lýðræði í skólastarfi.




Lýðræðisverkefni í leikskólanum Árbæ

Kristín Eiríksdóttir, leikskólastjóri

Starfsfólk leikskólans Árbæjar hefur lengi unnið að því að móta lýðræðislegt skólastarf eins og Aðalnámskrá leikskóla gerir ráð fyrir. Starfsfólkið hefur verið áhugasamt um að auka hlut lýðræðis í daglegu starfi en vantaði til þess þjálfun. Sett var á fót þróunarverkefni sem unnið hefur verið eftir síðastliðin ár undir stjórn áhugasamra deildarstjóra sem voru tilbúnir til þess að að leiða verkefnið ásamt leikskólastjóra. Í gegnum árin hefur leikskólinn fengið til liðs við sig helstu sérfræðinga í þessum málum og leitaði eftir reynslu þeirra sem hafa unnið eitthvað með lýðræði í leikskólastarfi. Í leikskólanum er lögð áhersla á að fræða og leiðbeina starfsfólki leikskólans, efna til samræðna milli starfsfólks, skiptast á reynslu og viðhorfum. Nánari upplýsingar um þróunarverkefnið sem unnið var í leikskólanum má nálgast hér: http://www.sprotasjodur.is/static/files/leikskolinn_arbaer_nr30_lokaskyrsla.pdf

Starfsmannafundir og starfsdagar hafa verið nýttir til að ræða um leikskólastarf, hugmyndafræði, stefnu, áhersluþætti og innra starf og oft er farið yfir áætlanir leikskólans og þær ræddar. Í leikskólanum er lögð áhersla á að allt starfsfólk sitji við sama borð, fái upplýsingar og geti rætt saman um mál áður en ákvarðanir eru teknar. En að lokum ber leikskólastjóri ábyrgð á þeim ákvörðunum sem teknar eru og allir starfsmenn þurfa að fara eftir þeim  sem eru teknar. Það að ræða saman um málefnin gefur starfsfólkinu aukin skilning á málum og traust eykst í starfsmannahópnum og þar með starfsgleðin. Áhersla er lögð á að allir eru að vinna saman, allir eru í sama liði og hjálpsemi er hluti af starfinu. Umræður á fundum í starfsmannahópnum eru til dæmis oft um fordóma og viðhorf og hvernig við getum unnið með viðhorfin.

Lögð er áhersla á að  hlusta á raddir barna og var eftirfarandi spurningu varpað fram á einum starfsmannafundi í leikskólanum:  Er hlustað á sjónarmið barnanna í leikskólanum Árbæ?

Svör starfsfólks voru:

  • Já, með því að ræða það innan deildarinnar sem þau segja og breyta þá skipulaginu.
  • Við hlustum á börnin eftir bestu getu í daglegu starfi.
  • Dæmi um góðan vettvang til þess að hlusta eru samverustundir og matmálstímar.
  • Í matmálstímum hlustum við á börnin þegar þau segjast t.d. vera orðin södd og borða ekki ákveðna matartegund.
  • Stundum eru tekin viðtöl eða þau spurð hvernig þeim finnst í leikskólanum og þá meta þau starfið.
  • Við tökum mið af því sem börnin segja t.d. í matartímum og í fataklefa eru þau ekki neydd til að fara í vettlingana ef þau vilja það ekki. Þau finna það oft sjálf og koma svo eftir smástund og vilja vettlinga.
  • Já við teljum það í daglegum samskiptum en mætti örugglega gera ennþá betur.
  • Oft í samverustundum.
  • Mætti bæta, aukið lýðræði.
  • Miklu meira hlustað á börnin nú en fyrir nokkrum árum og farið að þeirra vilja sérstaklega í fataklefa. Hlusta hvort þau þurfi að fara á klósettið ekki neyða þau.
  • Hlustum sjaldan á þau formlega, þ.e. stillum þeim ekki upp í viðtal. Matartímar eru reyndar oft góðir spjalltímar þar sem ýmislegt kemur fram.
  • Við förum eftir óskum barnanna eins og hægt er, t.d. í matartímunum, þau mega sleppa matartegundum, borða eins mikið og þau þurfa. Þau fá að velja leik ef ekki er farið í val og fá að ráða klæðnaði út nokkurn veginn.
  • Maður reynir að gefa sér tíma til að hlusta alltaf á þau en maður getur ekki alltaf framkvæmt það sem þau eru að biðja um.
  • Við þurfum að hlusta, veita þeim skilning og framkvæma það sem hægt er
  • Já, við teljum okkur hlusta daglega með því að hlusta á óskir og uppfylla þær, taka þátt í samræðum við þau og leik, við matarborðið, fataklefanum, í útiverunni.
  • Við tökum mið af óskum þeirra á skynsamlegan hátt. Það sem barninu er fyrir bestu hverju sinni- ræðum við þau af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru.
  • Með því að fá hugmyndir frá börnunum um hvað þau vilja gera og hvernig t.d. í vali, hópastarfi – list, salur o.s.frv.

Einnig hefur  verið leitast við að fá hugmyndir frá starfsmannahópnum um hvernig auka mætti lýðræði í daglegu starfi með börnunum í leikskólanum. Hefur starfsmannahópurinn velt sérstaklega fyrir sér eftirfarandi atriðum:

  • Val á viðfangsefnum – hvernig?
  • Samverustund – umræður
  • Útivera – má ákveða hvenær er farið út og inn?
  • Hópastarf – hvernig er það skipulagt?
  • Innihald hópastarfs – sameiginleg könnun – hver ákveður þemað?
  • Matseðill – matarnefnd.
  • Afmæli – afmælisnefnd – börn- starfsfólk – foreldrar.
  • Hátíðir – nefndir sem skipuleggja.
  • Mat á starfinu – alltaf börn – foreldrar- starfsfólk.
  • Mat á námi barna – þátttaka barna og foreldra.
  • Sumarfrí – engin fær að velja – allir fá að velja?
  • Deildarfundir – allir taki ákvarðanir.
  • Deildarstjórafundir – stjórnunarteymi.
  • Foreldrafélag – foreldraráð – hver er aðkoma þeirra?

Starfsfólk leikskólans talar um að það hafi orðið viðhorfsbreyting hjá starfsfólki varðandi það hvað börnin geta haft áhrif á í daglegu starfi og hvernig þeir gefi börnunum tækifæri til þess að hafa áhrif á líf sitt. Það þarf ekki að breyta miklu í skipulagi starfsins til að það hafi töluverð lýðræðisleg áhrif. Sem dæmi má nefna matmálstíma, útiveru, sjálfshjálp og annað sem að börnin geta ráðið sjálf og stuðlar að sjálfræði þeirra. Stefnt er að því í leikskólanum að deildarbragurinn spegli lýðræði sem felst m.a. í því að  börnin velja sér viðfangsefni eftir áhugasviði og starfsfólk skoði hvernig það getur aukið það valfrelsi sem er í boði á deildinni. Að börnin séu virk í náminu og taki meiri þátt í að búa til þær reglur sem eiga að gilda inni á deildinni og í leikskólanum.

Starfsmannahópurinn hefur gert samskiptasáttmála og hvatt er til  opinna tjáskipta um daglegt starf.

Áherslur samskiptasattmálans eru:

  • Allir sýni kurteisi.
  • Allir fái upplýsingar.
  • Að fá leyfi til að vera maður sjálfur og getað tjáð sig.
  • Að fá að taka þátt.
  • Að allir fái að segja sína skoðun.
  • Virk umræða á fundum.
  • Hlusta sé á skoðanir allra.
  • Vera heiðarlegar.
  • Opin umræða.
  • Leyfa fólki að melta áður en það svarar – gefa tíma.
  • Hlusta á allar hugmyndir og komast að sameiginlegri niðurstöðu.
  • Það er ekki ein sem tekur ákvarðanir alfarið.
  • Að allir verði að passa skap sitt og ekki láta bitna á samstarfsfólki – kurteisi.
  • Við hlustum á börnin eftir bestu getu í daglegu starfi.
  • Við þurfum að hlusta á börnin, veita þeim skilning og framkvæma það sem hægt er.

Ábyrgð hvers og eins starfsmanns á samskiptum innan skólans hefur verið skilgreind. Mat á námi barnanna hefur verið skoðað með lýðræðisgleraugum og aðkoma starfsfólks, foreldra og barna að því. Heilsubók barnsins er hluti af þeirri heilsustefnu sem skólinn starfar eftir. Lögð er áhersla á að a.m.k tveir starfsmenn sem að þekkja barnið skrifi í Heilsubókina. Það er gert til að auka samtal og ígrundun starfsmanna. Heilsubókin varpar ljósi á stöðu barnsins og á stöðu barnsins í barnahópnum. Eftir að búið er að fylla í Heilsubók eru foreldrar boðaðir í foreldraviðtöl og ákveðið var að gefa a.m.k. þrjátíu mínútur fyrir hvert viðtal svo foreldrar hefðu möguleika á að koma fram með sínar tillögur og ræða málin.

Stöðugt er verið að ræða viðhorf starfsfólks til barnahópsins, stærð barnahópa og hve mikilvægt er að hafa trú á getu barna og hæfileikum til að taka þátt í ákvörðunum. Þannig finna börnin að þau hafi áhrif á líf sitt og umhverfi að einhverju leyti. Börn geta oftar ráðið því hvar þau leika með leikefnið sem þau velja. Hugmyndir komu frá starfsmannahópnum um að koma á fót hlutverkum í barnahópnum, svo sem söngstjóra, borðþjóni, veðurfræðingi og þess háttar til að auka þátttöku og áhrif barnanna á daglegt starf. Einnig að hafa meira samráð við börnin hvað það varðar að velja bók í sögustund, hvort börnin vilja fara í hvíld, hafa börnin með í því að búa til reglur, velja sæti, velja sönglög, leikefni, hvað á að vera í valstund, útiveru ( innan okkar ramma).

Umræður eru einnig stöðugt í starfsmannahópnum um aðferðir til þess að auka lýðræði barna. Hugmyndin er að leyfa börnunum að ákveða það sem við teljum að hægt sé að leyfa þeim miðað við aldur og þroska,  til dæmis í samverustundum og á matmálstímum. Starfsfólk er sammála því að það þarf að hlusta á börnin, veita þeim skilning og framkvæma svo það sem að hægt er.

Foreldrar þurfi einnig strax í upphafi leikskólagöngu barna sinna að fá þau skilaboð að framlag þeirra sé mikils metið og að litið sé á þá sem mikilvæga samstarfsaðila. Virkja þarf hæfileika foreldra með spurningum og tillögum frá þeim. Margar hugmyndir hafa komið fram hjá starfsfólki um þátttöku foreldra og má þar helst nefna:

  • Foreldraráð – virkur umsagnaraðili.
  • Nefndir og vinnuhópar.
  • Samráð um einstakt barn innan deildar við foreldra og innan leikskólans.
  • Hafa reglulega fundi.
  • Fá foreldra á deildarfundi.
  • Foreldraviðtöl – umræður.
  • Vera opin fyrir samskiptum – bjóða góðan daginn.
  • Hlusta á óskir foreldra.
  • Virk þátttaka – spurningalistar- fundir viðvera.
  • Rýnihópar um sumarfrí, opnunartíma, mat – matarsiði og um útiveru.
  • Málþing með foreldrum.

Dagleg samskipti foreldra og leikskóla þurfa að mati starfsmanna að einkennast af vilja til samvinnu og virðingu fyrir tilfinningum og skoðunum, jafnt barna, foreldra, leikskólakennara og annars starfsfólks.

Starfsmannahópurinn í leikskólanum Árbæ mun áfram takast á við það hlutverk sitt að efla lýðræðislegt samstarf, sjálfstæða og gagnrýna hugsun og viðurkenningu á félagslegum, menningarlegum og einstaklingsbundnum margbreytileika. Í því sambandi er virk endurmenntun hópsins í daglegu starfi þýðingarmikil, þar sem starfsfólk rýnir í störf sín og ræðir saman um það sem fyrir augum ber, hlustar á virkan hátt á samstarfsfólk sitt, foreldra og börn og sýnir umburðalyndi í skoðanaskiptum og samvinnu.

Kristín Eiríksdóttir er leikskólastjóri í Heilsuleikskólanum Árbæ. Hún brautskráðist sem fóstra frá Fósturskóla Íslands, 1979 og hefur starfað í í leik – og grunnskólum frá útskrift og sem leikskólastjóri frá 1985. Kristín lauk M.Ed gráðu í stjórnun frá Háskóla Íslands 2006 og diplómanámi í opinberri stjórnsýslu frjá Háskóla Íslands 2011. Kristín hefur tekið þátt í fjölmörgum þróunarverkefnum í þeim leikskólum sem hún hefur starfað.