Sjá smiðsaugu
Hafþór Guðjónsson
Þegar ungu fólki finnst það sem kennt er í skólanum hvorki áhugavert né eftirsóknarvert fyrir líf þeirra hér og nú eða fyrir framtíðina verður lærdómurinn í besta falli yfirborðskenndur. Þegar ég segi „yfirborðskenndur“ á ég við að þekkingin – hver sem hún er – verður ekki hluti af hugarheimi nemandans, hefur ekki áhrif á það hvernig hann skynjar heiminn. Andstæðan er þá þekking sem verður hluti af vitsmunalífi nemandans og hefur áhrif á hugsun hans, tilfinningar og gerðir, innan skóla sem utan. Mér finnst gagnlegt að greina þetta tvennt að með hugtökunum skólaþekking og athafnaþekking (Barnes, 2008, bls. 14).
Ég er „gamall Eyjapeyi“. Verð víst að setja þetta í gæsalappir því samkvæmt Íslenskri orðabók er peyi annaðhvort „drengur eða ungur karlmaður í Vestmannaeyjum“ eða „lítill gemlingur“. Ég er kominn vel á áttræðisaldurinn og bý í Reykjavík. En djúpt inni í mér finn ég fyrir þessum Eyjapeyja, þessum gemlingi sem vissi ekki hvort hann ætti að verða prestur eða sjómaður. Sé mig tíu ára nýkominn úr baði, sitjandi upp í hjónarúmi, mömmu megin, greiddur og guðræknislegur á svip, með opna Biblíu í höndunum og mamma stendur í dyragættinni og einhverjar konur sem gægjast yfir axlir hennar, horfa á mig aðdáunaraugum. „Hann ætlar að verða prestur“, segir mamma; og ég rýndi í Biblíuna sem aldrei fyrr. Lesa meira…