Tungumálið sem stýriafl og vitsmunalegt verkfæri
Hafþór Guðjónsson:
Arfur liðinna kynslóða hvílir sem farg á heila lifenda (Marx, 1869/1968, bls. 119).
Tungumálið er meginskilyrði þekkingarsköpunar. Það er í gegnum tungumálið sem reynsla verður að þekkingu (Halliday, 1993, bls. 94).
Okkur er tamt að hugsa um tungumálið sem eitthvað aðskilið frá æðri vitsmunum, til dæmis skynjun. Michael Tomasello, þróunarsálfræðingur við Max Planck stofnunina í Leipzig í Þýskalandi, lítur öðrum augum á málið:
Í mínum huga er tungumálið sérstakt form vitsmuna sérstaklega hannað í þeim tilgangi að auðvelda samskipti manna … Menn vilja deila reynslu sinni hver með öðrum og hafa því, með tímanum, skapað tákn og málvenjur til að gera það. Þegar börn tileinka sér þessi tákn og þessar málvenjur fara þau að skynja hluti á ákveðna vegu sem þau hefðu annars ekki getað … (Tomasello, 1999, bls. 150).