Meginiðja mannfólksins: Umsögn um bók eftir Philip Kitcher
Atli Harðarson
Philip Kitcher er með þekktari heimspekingum samtímans. Hann fæddist í London árið 1947, ólst upp á Suður-Englandi en lauk doktorsprófi í vísindaheimspeki og vísindasögu frá Princeton háskóla í New Jersey árið 1974. Hann er nú prófessor emeritus við Columbia háskóla í New York.
Kitcher er höfundur fjölda bóka um heimspekileg efni. Með skrifum sínum um stærðfræði, líffræði og fleiri raunvísindi á árunum milli 1980 og 1990 skipaði hann sér í fremstu röð fræðimanna á sviði vísindaheimspeki og tók við keflinu af eldri samstarfsmönnum sínum, þeim Carli Hempel (1905–1997) og Thomasi Kuhn (1922–1996).
Á seinni árum hefur Kitcher líka skrifað um listir, trúarheimspeki, stjórnmálaheimspeki, siðfræði og fleiri efni. Nýjasta bók hans fjallar um heimspeki menntunar. Hún kom út í fyrra hjá Oxford University Press og heitir The main enterprise of the world. Á íslensku gæti hún kallast Meginiðja mannfólksins. Að mínu viti sætir þessi bók töluverðum tíðindum. Höfundur þorir að hugsa af djörfung og honum tekst afar vel að tengja heimspeki menntunar við stóran fræðaheim enda hefur hann, eins og áður segir, komið víða við í fyrri skrifum. En þótt hann klífi hátt slær hann hvergi af kröfum um rökstuðning og vandaða umfjöllun. Lesa meira…