Að 17 kennaranemar séu þegar komnir með raddveilueinkenni er óviðunandi
Kristín M. Jóhannsdóttir og Valdís Ingibjörg Jónsdóttir
Af öllum þeim starfstéttum sem „leigja“ rödd sína út sem atvinnutæki hafa raddir kennara verið álitnar í hvað mestri hættu (Verdolini og Ramig, 2001) enda hafa rannsóknir víða um heim sýnt að töluverður fjöldi starfandi kennara þjáist af raddveilum og þar með raddvandamálum (Vilkman 1996; Roy o.fl. 2004; Nybacka o.fl. 2012; Cantor Cutiva, Vogel og Burdorf, 2013). Sérstaklega hafa raddvandamál verið algeng meðal leikskólakennara (Sala o.fl., 2002; Kankare o.fl., 2012;).
Í íslenskri rannsókn á hávaða í leikskólum kom fram að um 20-25% kennaranna taldi sig vera með viðvarandi hæsi, kökktilfinningu í hálsi, raddbresti, rödd sem hvorki dugði í hávaða né í kennslu og um tíundi hluti hafði misst röddina, að minnsta kosti tímabundið (Jónsdóttir o.fl., 2015). Það er í samræmi við þær rannsóknir sem vísað hefur verið í hér að framan. Raddveilur eru ekki bara bagalegar fyrir kennarann sjálfan heldur hafa þær áhrif á hlustunargetu nemenda og þær geta kostað samfélagið mikið. Í bandarískri rannsókn frá 2001 kom t.d. í ljós að þjóðfélagslegur kostnaður Bandaríkjanna vegna raddvandamála kennara nam 2,5 milljarða dollara á ári (Verdolini og Ramig, 2001). Það er því mikilvægt að kennarar hafi góða raddheilsu. Lesa meira…