Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Tag archive

Ingibjörg Sif Stefánsdóttir

Leikandi málörvun í leikskóla – lengi býr að fyrstu gerð

í Greinar

Ingibjörg Sif Stefánsdóttir og Árdís H. Jónsdóttir

 

Í þessari grein verður stiklað á stóru um mál og læsisnám yngstu barnanna í leikskólanum Tjarnarseli í Reykjanesbæ. Fjallað verður um mikilvægi orðaforðanáms og hvernig markviss málörvun fer fram frá upphafi leikskólagöngunnar með stigbundnum hætti. Rætt verður um málörvun fyrir börn með seinkaðan málþroska og ört stækkandi hóp fjöltyngdra barna á Íslandi.

Í Tjarnarseli tvinnast leikur barnanna saman við allt skólastarfið. Litið er á leikinn sem rauðan þráð í þétt ofinni fléttu margra námsþátta. Enginn vafi leikur á mikilvægi hans fyrir þroska barna, þau gleyma sér í skemmtilegum og sjálfsprottnum leik sem einkennist af krafti, gleði og áhuga. Leikurinn byggir undir nám og hæfni til að takast á við áframhaldandi skólagöngu. Ef börnum leiðist læra þau lítið sem ekkert. Þess vegna er brýnt að námsumhverfi barna veki forvitni og áhuga (Shalberg og Doyle, 2019). Í Tjarnarseli er meðal annarra horft til hugmynda John Dewey, sem benti á að börn lærðu mest með því að byggja ofan á fyrri reynslu sína og öðluðust þannig óbeina menntun. Einnig er litið til hugmynda Ingrid Pramling um að börn séu leikandi námsmenn (Ingrid Pramling, 2006) og Lev Vygotsky sem jók skilning manna á mikilvægi leiksins með skrifum sínum um leikinn sem leiðandi afl í uppeldi og þroska barna (Dale, 1997).

Kenningar þessara fræðimanna birtast til að mynda í að sjálfsprottnum leik er gefinn langur samfelldur tími bæði úti og inni. Leitast er við að skapa umgjörð um leikinn þar sem börnin geta fylgt eftir eigin áhugahvöt hverju sinni. Fjölbreytt leikefni er í boði með áherslu á opinn og skapandi efnivið eins og kubba af margvíslegum stærðum og gerðum, efni til listsköpunar, leir, stærðfræðileg viðfangsefni, bækur og spil. Verðlaus efniviður sem til fellur í leikskólanum og á heimilum kennara og barna er notaður til listsköpunar sem og leikja innandyra og í garði skólans. Lesa meira…

Fara í Topp