Rödd kennaranemans
Amanda Mist Pálsdóttir
Eftir að ég hóf kennaranám fékk ég mjög oft í vettvangsnámi mínu spurninguna „hvernig datt þér eiginlega í hug að fara í kennaranám“? Eftir því sem ég fékk þessa spurningu oftar fór ég smám saman að efast um það hvort ég væri að velja mér rétta námið miðað við viðbrögðin frá samfélaginu. Í dag, þegar ég er nýbúin að ljúka kennaranáminu, get ég fullyrt að þetta er ein besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu. Eftir að hafa fengið allar þessar spurningar um það hvers vegna ég hafði valið kennaranámið fór ég að ígrunda hvað ylli því að umtalið um kennarastéttina væri svona neikvætt. Þegar ég fór að skoða það nánar sá ég að oftar en ekki voru þetta kennarar sem töluðu niður til sinnar eigin stéttar. Það skipti ekki máli hvaða grunnskóla ég heimsótti í vettvangsnámi mínu, ég gat alltaf búist við því að heyra eitthvað neikvætt um kennarastarfið.
Þar sem við kennaranemar erum framtíð kennarastarfsins er það undir okkur komið að upphefja kennarastéttina og breyta viðhorfinu í samfélaginu. Það erum við sem þurfum að berjast fyrir því að fá þessu breytt, en við gerum það ekki nema láta rödd okkar heyrast úti í samfélaginu. Kennaranemar þurfa að vera þátttakendur í að móta jákvætt viðhorf gagnvart kennarastéttinni og því er gríðarlega mikilvægt að rödd okkar fái að heyrast. Þannig getum við lagt af mörkum til að stéttin öðlist þá virðingu sem hún á skilið. Lesa meira…