Byrjendalæsi: Rannsókn á innleiðingu og aðferð

Nýlega kom út hjá Háskólaútgáfunni bókin Byrjendalæsi: Rannsókn á innleiðingu og aðferð. Í bókinni eru birtar niðurstöður rannsóknar á Byrjendalæsi sem staðið hefur undanfarin ár. Að rannsókninni stóð hópur rannsakenda af hug- og félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri og Menntavísindasviði Háskóla Íslands, ásamt sjálfstætt starfandi fræðimönnum. Verkefnisstjóri rannsóknarinnar var Rúnar Sigþórsson prófessor við kennaradeild HA og ráðgjafi rannsóknarhópsins var dr. Sue Ellis, prófessor við University of Strathclyde í Glasgow. Ritstjórar bókarinnar eru Rúnar Sigþórsson og Gretar L. Marinósson.

Á þessari slóð má nálgast yfirlit um efni bókarinnar: https://www.unak.is/is/moya/news/bok-um-byrjendalaesi

Byrjendalæsi er þróunarverkefni á sviði læsismenntunar í 1. og 2. bekk grunnskóla sem staðið hefur íslenskum grunnskólum til boða í samvinnu við miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri síðan haustið 2006. Í þróunarstarfinu er Byrjendalæsi sem aðferð við læsiskennslu fléttað saman við starfsþróun og leiðsögn kennara á vettvangi. Í aðferðinni sjálfri er leitast við að samþætta þekkingu á læsi og læsiskennslu, kennslufræðilega sýn á nám sem hugsmíðar, samvinnu nemenda og nám án aðgreiningar. Innleiðingarlíkanið miðar síðan að því að gera aðferðina að veruleika með skipulegri starfsþróun og leiðsögn kennara til að efla faglega samvinnu og teymisvinnu, faglegt sjálfstraust og forystu. Markmiðið er að efla hæfni kennara til læsiskennslu og til að bera ábyrgð á alhliða læsisnámskrá þar sem tekið er mið af margbreytilegum þörfum nemenda. Einnig er lögð áhersla á að foreldrar séu virkir aðilar að læsisnámi barna.

Í samræmi við framangreinda þætti í þróunarstarfinu var rannsókninni skipt í þrjá meginhluta: Í fyrsta lagi beindist rannsóknin að námi og kennslu undir merkjum Byrjendalæsis. Sjónum var beint að aðferðinni sjálfri,  fræðilegum stoðum hennar og hvernig hún samrýmist rannsóknum á skilvirkri læsiskennslu. Einnig var gaumgæft hvernig Byrjendalæsi samrýmist  íslenskri menntastefnu um læsi sem einn af grunnþáttum menntunar, lykilhæfni og nám án aðgreiningar. Í öðru lagi beindist rannsóknin að því hvað einkenndi innleiðingu Byrjendalæsis og hversu góð skilyrði hún skapaði fyrir vöxt og viðgang aðferðarinnar. Í þessum þætti rannsóknarinnar beindist athyglin sérstaklega að starfsþróun og leiðsögn kennara, teymisvinnu og þróun forystu. Þriðji þáttur rannsóknarinnar beindist síðan að samstarfi skólanna við heimili barnanna, heimavinnu, viðhorfum foreldra til læsiskennslunnar og þekkingu þeirra á þeim aðferðum sem beitt var í skólunum.

Bókin skiptist í 14 kafla auk inngangs. Að loknum kafla um snið rannsóknarinnar og gagnaöflun (1. kafla) eru sjö kaflar (2.–8. kafli) um fyrsta þátt rannsóknarinnar – nám og kennslu. Í þessum hluta bókarinnar er Byrjendalæsisaðferðin sjálf og innleiðarlíkanið kynnt og hvort tveggja sett í samhengi við fræðilegt baksvið og rannsóknir, bæði íslenskar og alþjóðlegar. Þá koma sex kaflar um nám og kennslu í Byrjendalæsi (3.–8. kafli). Markmið þeirra er lýsa því hvernig kennararnir sem þátt tóku í rannsókninni útfæra þrjú þrep kennslulíkans Byrjendalæsis, hvernig þeir standa að kennslu tæknilegra þátta læsis og vinna með orðaforða, lesskilning og ritun. Í þessum hluta eru enn fremur kaflar um námsaðlögun og hvernig kennslan svarar til áherslu Aðalnámskrár grunnskóla (2013) á læsi í grunnþáttum menntunar og lykilhæfni.

Þessu næst eru fjórir kaflar (9.–12. kafli) þar sem greint er frá innleiðingu Byrjendalæsis. Markmið þeirra er að gefa heildarmynd af helstu þáttum í þróunarstarfi skólanna og draga af því lærdóm sem gæti gagnast við innleiðingu annarra verkefna. Í þessum köflum er fyrst fjallað um innleiðingarferlið í heild og því næst um einstaka þætti þess: Starfsþróun, leiðsögn kennara og forystu þeirra sem tengjast verkefninu innan og utan skóla.

Síðasti kaflinn (13. kafli), þar sem greint er frá niðurstöðum rannsóknarinnar, fjallar um þann hluta rannsóknarinnar sem sneri að samstarfi skóla og foreldra um læsisnám barnanna. Markmið hans var að kanna hvernig samstarfið fer fram og hvaða þekkingu og sjónarmið foreldrar hafa um læsiskennsluna, gildi hennar og framkvæmd.

Í lokakafla bókarinnar (14. kafla) eru heildarniðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman og ræddar með hliðsjón af rannsóknarspurningum. Jafnframt er horft til framtíðar og rætt hvernig niðurstöður rannsóknarinnar geta nýst við stefnumótun um læsismenntun,  frekari rannsóknir og þróunarstarf á sviði hennar.

Í rannsóknarhópnum störfuðu háskólakennarar í mennta- og félagsvísindum, ásamt fræðimönnum með langa reynslu af kennslu og ráðgjöf, þróunarstarfi í skólum og samstarfi við foreldra. Þessi fjölbreytti bakgrunnur rannsakendanna, ásamt samstarfi þeirra við erlendan sérfræðing, stuðlaði að því að niðurstöður rannsóknarinnar veiti heildstæða sýn á þróun læsismenntunar sem dregur fram órjúfanlegt samhengi hennar, starfsþróunar, forystu í skólum og samstarfs við foreldra. Í bókinni eru víða færð fyrir því rök að þetta samhengi sé nauðsynleg forsenda fyrir þróun læsismenntunar og eflingu læsis nemenda á öllum skólastigum – og til lengri tíma litið – efldu læsi þjóðarinnar. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna skýrt hve flókið slíkt þróunarstarf er en þær benda þó til þess að Byrjendalæsi og innleiðingarlíkan þess sé meðal þess sem getur gagnast við þau margvíslegu úrlausnarefni á sviði læsismenntunar sem fjallað er um í bókinni. Í ljósi þessarar meginniðurstöðu rannsóknarinnar er þess vænst að niðurstöður hennar verði mikilvægt framlag til þekkingar á læsismenntun í íslenskum grunnskólum og þróunar hennar og skili niðurstöðum sem skipta máli í íslensku og alþjóðlegu samhengi.

Bókin var kynnt á málþingi sem haldið var í Háskólanum á Akureyri 9. mars. Upptöku af málþinginu má nálgast á slóðinni: https://www.unak.is/is/samfelagid/upptokur-og-utsendingar?r=97234e20-3697-477a-879b-a89e00dd0b5c

 
Ný bók: Leikum, lærum, lifum – Um nám, leik og grunnþætti menntunar

Fréttatilkynning


Árið 2012 gerði RannUng (Rannsóknastofa í menntunarfræðum ungra barna) samstarfssamning við sveitarfélögin í Kraganum; Garðabæ, Hafnarfjörð, Kópavog, Mosfellsbæ og Seltjarnarnes, um rannsóknarverkefni í leikskólum með það að markmiði að auka þekkingu á leikskólastarfi í sveitarfélögunum og stuðla að auknum gæðum í leikskólastarfi.

Markmið verkefnisins var að vinna með tengsl leiks og náms í leikskólum út frá námsviðum aðalnámskrár leikskóla frá 2011. Skoðað var hvernig leikskólakennarar, umhverfið og barnahópurinn studdu við leik barna og nám. Gengið var út frá víxlverkun leiks og náms, þar sem leikurinn styður við nám og nám styður við leik. Starfendarannsókn og þróunarvinna var framkvæmd í fimm leikskólum, einum í hverju sveitarfélagi, þar sem ein deild tók þátt úr hverjum þeirra.

Sérfræðingar og meistaranemar við Menntavísindasviði Háskóla Íslands unnu með starfsmönnum leikskólanna og leiðbeindu um framkvæmd rannsóknarinnar.

Leikskólakennarar og annað starfsfólk deildanna sem tóku þátt ákváðu hvaða áherslur og leiðir voru farnar í samráði við meistaranema og sérfræðing. Það aflaði sér upplýsinga um eitt námsvið, gerði vettvangsathuganir og hélt dagbækur. Starfsfólkið skráði og ígrundaði eigið starf og þróaði með því móti starfsaðferðir í anda núgildandi stefnumótunar aðalnámskrár. Í lok verkefnisins höfðu viðhorf starfsfólksins gagnvart börnum og námi breyst, og leitt til samskipta í leikskólanum þar sem börnum var í ríkara mæli gefinn kostur á að velja sér leikföng, leikefni og leikfélaga og þeim séð fyrir tíma og rými til að vera virk í eigin námi og leik.

Nú hafa niðurstöður rannsóknarinnar verið birtar í bókinni: Leikum, lærum, lifum. Þar er gerð ítarleg grein fyrir framkvæmd rannsóknarinnar og helstu niðurstöðum. Fjallað er um birtingarmynd námssviða leikskóla og grunnþátta menntunar í leikskólastarfi. Meðal annars má þar helst nefna vellíðan barna í leikskóla, flæði í leik og námi, sköpun og leik, læsi og leik, lýðræði, jafnrétti og sjálfbærni og vísindi. Að lokum er fjallað um gildi rannsóknarinnar fyrir stefnumótun og starfshætti í leikskólum.

Í bókinni er enn fremur að finna umfjöllun um gildi þess að setja fram námsmarkmið og huga að hlutverki kennara og annars starfsfólks í að móta leik sem aðferð í námi og kennslu, í þeim tilgangi að stuðla að námi barna og auka áhrif þeirra á eigið nám og námið hvert hjá öðru.

Bókin er ætluð kennaranemum, kennurum og starfsfólki í leik- og grunnskólum, þeim sem móta stefnu í skólamálum og öðrum sem láta sig menntun yngstu borgaranna varða.

Ritstjórar bókarinnar eru Kristín Karlsdóttir og Anna Magnea Hreinsdóttir.

Bókin er gefin út af Háskólaútgáfunni og RannUng.
Bókin Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar aðgengileg á heimasíðu Menntavísindastofnunar

Ingvar Sigurgeirsson, prófessor


Á árunum 2009‒2013 var gerð umfangsmikil rannsókn á starfsháttum í grunnskólum. Rannsóknin er gjarnan nefnd Starfsháttarannsóknin en meginmarkmið  hennar var að veita yfirsýn yfir starfshætti í íslenskum grunnskólum. Meðal annars vakti fyrir rannsakendum að kanna áhrif stefnumörkunar fræðsluyfirvalda um einstaklingsmiðað nám. Rannsóknin mun vera ein sú umfangsmesta sem gerð hefur verið á skólastarfi hér á landi. Verkinu stýrði Gerður G. Óskarsdóttir fv. fræðslustjóri í Reykjavík, en fjöldi annarra fræðimanna kom að verkinu. Einnig tengdust því meistara- og doktorsnemar og fleiri aðilar (alls um 50 manns).

Aflað var umfangsmikilla gagna í 20 grunnskólum, sextán þeirra voru í Reykjavík, tveir á Akureyri, einn í Reykjanesbæ og loks einn sveitaskóli. Gerðar voru vettvangsathuganir, spurningakannanir lagðar fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra og viðtöl tekin.

Í árslok 2014 voru niðurstöður rannsóknarinnar birtar í  bókinni : Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar. Þar er gerð ítarleg grein fyrir framkvæmd rannsóknarinnar og helstu niðurstöðum. Fjallað er um viðhorf nemenda, foreldra og starfsmanna skóla til fjölmargra þátta í skólastarfi. Einnig má nefna skólabyggingar og námsumhverfi, stjórnun og skipulag, kennsluhætti, námsmat, heimanám, þróunarverkefni, þátttöku og samskipti nemenda, samstarf heimila og skóla, tengsl skóla og grenndarsamfélags, útikennslu, list- og verkgreinar og notkun tölvu og upplýsingatækni í skólastarfi. Í lokakafla bókarinnar eru niðurstöður teknar saman og ræddar.

Bókin var gefin út í rúmlega 500 eintökum og er nánast uppseld. Nýlega var ákveðið að birta bókina í rafrænu formi og má sækja hana án endurgjalds á þessa slóð: http://menntavisindastofnun.hi.is/throun_skolastarfs/starfshaettir_i_grunnskolum

Bókin Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar er öðru fremur heimild um starfshætti í grunnskólum í upphafi nýrrar aldar, en það var einnig von rannsakenda að kennarar og annað starfsfólk skóla gæti nýtt  niðurstöðurnar í innra mati skóla og til að meta eigið starf.

Þá er athygli vakin á því að opnaður hefur verið aðgangur að gögnum rannsóknarinnar fyrir fræðimenn og háskólanema, en vinna má fjölmargar fleiri rannsóknir á skólastarfi úr gögnunum. Gagnasafnið er varðveitt hjá Menntavísindastofnun og er hægt að sækja  um aðgang að vettvangslýsingum, afrituðum viðtölum og niðurstöðum spurningakannana, sjá nánar  á þessari slóð: http://menntavisindastofnun.hi.is/gogn_fraedimanna_menntavisindasvids

Loks er þess að geta að nú stendur yfir rannsókn á starfsháttum í framhaldsskólum. Safnað hefur verið gögnum í níu framhaldsskólum víða um um land með vettvangsathugunum og viðtölum við nemendur, kennara og stjórnendur. Úrvinnsla er í gangi og hafa þegar birst greinar með niðurstöðum um ákveðna þætti rannsóknarinnar. Stefnt er að útgáfu bókar, gjarnan í rafrænu formi, um meginniðurstöður. Sjá má  markmið og framkvæmd rannsóknarinnar á þessari slóð: http://menntavisindastofnun.hi.is/sites/menntavisindastofnun.hi.is/files/starfsh_frhsk_skyrsla_19.2.2016.pdf