Að skrifa til að skilja: Ritun sem rannsókn

Hafþór Guðjónsson 

We don´t simply think first and then write. We write to think (Estrem, 2015, bls. 19)

 

Hinn 7. júní 2017 birtist á netmiðlinum Vísi grein eftir Kristjönu Björgu Guðbrandsdóttur þar sem hún fjallar um og á viðtal við norska metsöluhöfundinn Karl Ove Knausgard sem var staddur hér á landi í tilefni alþjóðlegrar ráðstefnu óskáldaðra bókmennta. Umfjöllun Kristjönu ber yfirskriftina Skrifar til að skilja tilvistina (sjá hér). Hér er auðvitað átt við Karl Ove.

Karl Ove er sískrifandi að eigin sögn og afköstin eftir því. Nýlega sendi hann frá sér sex binda verk, Barátta mín, sem gæti fallið undir eins konar tilvistarheimspeki að sögn Kristjönu. Karl Ove skrifar um líf sitt og lýsir því í smáatriðum, bætir hún við. Aðspurður hví hann skrifi svona mikið, svarar Karl Ove: „Svarið er að ég er háður því að skrifa. Þetta er líka lífsmáti. Bara mín leið til að lifa lífinu.“ Ertu að takast á við lífið í gegngum skriftir? spyr Kristjana. Karl Ove svarar:

Þetta er mín leið til að hugsa og skilja hluti. Tilveruna. Ég fæ aðgang að einhverju sem ég hef ekki aðgang að annars. Konan mín, sem er núna fyrrverandi konan mín, sagði að ég skildi aldrei neitt nema að ég skrifaði um það. Við rifumst kannski. Síðan kannski kom ég viku seinna til hennar vegna rifrildisins. Fullur skilnings. Því ég hafði skrifað um það.

Viðtalið við Karl Ove vakti athygli mína, kannski vegna þess að ég hef upplifað skrif á svipaðan hátt og hann, það er að segja sem leið til að skilja. Þetta byrjaði þegar ég var í doktorsnámi í Kanada. Var þá að rannsaka kennaranám; hvernig fólk lærði að kenna. Eins og gengur aflaði ég gagna, hélt til að mynda dagbók þar sem ég skráði athuganir mínar á vettvangi þegar ég fylgdist með kennaranemum en einnig hugleiðingar af ýmsu tagi. Ég var sískrifandi, bæði á ensku og íslensku og skynjaði, líkt og Karl Ove, að skrifin sem slík hjálpaðu mér til skilnings á þeim viðfangsefnum sem ég var að glíma við.

Ég lét þar við sitja. Pældi ekkert í þessu enda vanist þeirri hugmynd að skrif væru bara skrif, tækni til að setja á blað eða á skjá eitthvað sem maður er búinn að hugsa. Fyrst formar maður hugsun sína, svo tjáir maður hana, til dæmis með því að skrifa hana á blað eða á skjá.

Eða hvað? Er hugsanlegt að þetta geti verið á hinn veginn? Að maður geti beinlínis notað ritun til að forma hugsanir og þar með skrifað sig til skilnings eins og Karl Ove segist gera?

Hér eins og endranær heldur hefðin okkur í heljargreipum. Nei, segir hún, þetta er misskilningur hjá Karl Ove. Orðin forma ekki hugsanir. Hugsanir leita orða. Fyrst hugsar maður, svo kemur maður hugsun sinni í orð.

En það gefst önnur sviðsmynd, önnur sýn á tengsl orða og hugsunar, sýn sem gerir ráð fyrir því að þessi tengsl gangi í báðar áttir. Lev Vygotsky skrifar í lokakafla bókarinnar Hugsun og tunga: „Hugsun  er ekki aðeins tjáð með orðum; hún verður til með hjálp þeirra“ (bls. 218; mín áhersla).

Sé þetta rétt hjá Vygotsky öðlast orð nýjan sess: Þau verða verkfæri til að móta hugsanir og þá um leið nýjar hugmyndir og nýjan skilning – eins og Karl Ove ýjar að.

Sem fyrr segir fann ég fyrir þessum „mætti ritunar“ þegar ég var að skrifa doktorsritgerðina mína. Eins og við má búast pældi ég mikið í fræðunum, las mikið – enda leitandi: Ég var að reyna að ná áttum, búa mér fræðilegan samastað ef svo má að orði komast. Laðaðist að höfundum á borð við John Dewey, Lev Vygotsky og Jerome Bruner. Fannst ég eiga samhljóm með þeim; líkaði hvernig þeir þeir tóku á málunum, hvernig þeir skrifuðu, svo vel raunar að ég fór að herma eftir þeim, leitast við að skrifa eins þeir en þó sérstaklega eins og bandaríski heimspekingurinn Richard Rorty sem mér fannst hafa svo flottan stíl!

Herma eftir! Barnalegt! Viðurkenni að í byrjun fannst mér þessi „eftiröpun“ svolítið ankannaleg. En bara til að byrja með. Þegar á leið og ég hélt uppteknum hætti varð ég þess var að eitthvað nýtt var í uppsiglingu: ég var farinn að lýsa reynslu minni á annan hátt en ég var vanur, skrifa öðruvísi, hugsa öðruvísi, raunar í þeim mæli að ég spurði í undran: Er þetta ég?

Ekkert svar. Ekki þá. Seinna kynntist ég skrifum Bakhtin sem ég segi frá í öðrum pistli. Hann útskýrði málið fyrir mér:

The word in language is half someone else’s. It becomes “one’s own” only when the speaker populates it with his own intention, his own accent, when he appropriates the word, adapting it to his own semantic and expressive intention. (Bakhtin, 1981, bls. 293–294)

Nú fannst mér ég skilja betur hvað ég var að upplifa í skrifum mínum. Þegar við segjum eitthvað eða skrifum eitthvað erum við sjaldan eða aldrei ein á báti. Við eru þátttakendur í orðræðum sem leiða okkur, stýra tali okkar og skrifum að verulegu leyti. Heima á Fróni hafði ég vanist að orða hlutina á ákveðna vegu, tala um menntun, skólastarf, nám og kennslu eftir þeim nótum sem hefðin bauð. Kominn til Kanada í doktorsnám áttaði ég mig á því að það gefast aðrar og jafnvel gagnlegri orðræður um þessa hluti. Í því ljósi hófst ég handa með að „endurinnrétta“ mig, læra að tala og skrifa á annan hátt en ég var vanur. Prófaði að nota orð sem Rorty og allir hinir góðu höfundarnir réttu mér og jafnvel stæla þá sem fyrr greinir. Eins og vænta mátti var textasmíðin ekki beisin til að byrja með en hún lagaðist þegar á leið og þar kom að mér þótti ég hafa haft erindi sem erfiði: Ég hafði tekið að láni orð frá öðrum og gert þau að mínum – með þeim afleiðingum að ég var farinn að skrifa öðruvísi texta og hugsa á annan hátt en áður um menntun, skólastarf, nám og kennslu.

Nokkrum árum eftir að ég lauk mínu doktorsnámi rakst ég á grein eftir Laurel Richardson í Handbók um eigindlegar rannsóknir frá 1994. Greinin ber yfirskriftina Writing. A Method of Inquiry. Richardson bendir á að í rannsóknarstörfum hugsi menn oftast um ritun sem eitthvað sem maður gerir eftir á, þegar rannsókn er lokið, og viðhafi þá gjarnan orðalagið „writing up the research“. En það má vel hugsa um ritun sem hluta af rannsóknarferlinu, segir hún, sem leið eða aðferð til að skilja, uppgötva og greina:

Altough we usually think about writing as a mode of „telling“ about the social world, writing is not just a mopping-up activity at the end of a research project. Writing is also a way of „knowing“  – a method of discovery and analysis. By writing in different ways, we discover new aspects of our topic and our relationship to it. Form and content are inseparable. (Bls. 516)

Með því að skrifa á mismunandi hátt uppgötvum við nýjar hliðar á viðfangsefnum okkar, segir Richardson. Ég tek heilshugar undir það en leyfi mér, í ljósi eigin reynslu, að bæta við að þetta birtist kannski með skýrustum hætti þegar höfundurinn „seilist“ eftir nýjum orðum í því skyni að endurnýja orðabók sína líkt og ég gerði þegar ég vann að doktorsritgerð minni. Þá áttar maður sig á því að ný orð geta ekki einungis birt manni nýjar hliðar á viðfangsefninu heldur líka breytt hugsun manns.

Raunar vekur það mér nokkra undrun hvað fræðimenn gefa ritun sem rannsóknaraðferð lítinn gaum, að ég tali nú ekki um höfunda bóka um aðferðafræði rannsókna. Í bók Uwe Flick, An introduction to qualitative research, er ekki minnist á ritun. Í bók Bogan og Biklen, Qualitative research for education, er að vísu kafli um ritun en þar einskorðast umfjöllunin um „mopping-up activity at the end of research project“ eins og Richardson orðar það. Kaflinn heitir raunar „Writing it up“!

Hvers vegna þetta fálæti gagnvart ritun? Hvers vegna er ritun sem rannsóknaraðferð ekki gefinn meiri gaumur en raun ber vitni? Ástæðan er líklega tvíþætt. Í fyrsta lagi kennir hefðin okkur að hugsa um ritun sem tækni eða færni. Skrif eru bara skrif, tækni sem gerir manni kleyft að koma hugsun sinni á blað. Sumir er góðir í þessu, aðrir ekki. Richardson og hennar fylgismenn líta hins vegar á ritun sem félagslegsmenningarlega iðju. Þegar maður skrifar er maður aldrei einn. Maður er staddur í ákveðnu félagsmenningarlegu umhverfi sem setur manni ákveðnar skorður, býður hvernig beri að skrifa, hvað sé leyfilegt og hvað ekki, hvort maður megi skrifa „ég“ í lokaverkefni og þar fram eftir götunum. Og svo er maður auðvitað ekki að skrifa út í bláinn heldur í ákveðnum tilgangi og fyrir ákveðinn lesendahóp sem líka setur manni vissar skorður. Þegar ég er að skrifa þessar línur hef ég í huga fólk sem lætur sér annt um menntun og skólastarf, ekki bara fræðimenn – og reyni að haga mér eftir því, reyni að vera „á jörðinni“ og forðast akdemíska loftfimleika.

Hin ástæðan, sýnist mér, er sú að margir fræðimenn virðast bundnir þeirri hugsun að tilgangur rannsókna sé að komast að því hvernig heimurinn sé í raun og veru; finnst þeir vera að taka þátt í stóru þekkingar-púsluspili sem miðar að því að kortleggja heiminn. Aðrir (þar á meðal Richardson og ég) líta svo á að það sé ógerlegt að lýsa heiminum eins og hann er í raun og veru. Þegar við reynum það rekumst við á vegg sem er tungumálið eða öllu heldur okkar eigið tungutak. Hvernig við skynjum heiminn helgast af þeim orðum sem við höfum aðgang að og þeim orðræðum sem við tökum þátt í. Verkefnið sem þá blasir við rannsakendum er að þróa þessar orðræður eða skapa nýjar sem gagnast megi bæði leikum og lærðum. Ef grannt er skoðað, segir Richard Rorty (1989) þróuðust vísindin ekki fyrst og fremst vegna þess að vísindamenn uppgötvuðu hluti og tengsl (eða réttu bútana í púslið!) heldur vegna þess að þeim auðnaðist að þróa nýjar orðræður, lærðu að tala um hluti og fyrirbæri á annan hátt en þeir höfðu áður vanist og hefðin bauð.

Heimildir

Bakhtin, M. M. (1981). Discourse in the novel. Í M. Holquist (ritstj.), The dialogic imagination: Four essays by M. M. Bakhtin, bls. 259-422. Þýðendur C. Emerson og M. Holquist. Austin: University of Texas Press.

Bogdan, R. C. og Biklen, S. K. (1998). Qualitative research for education. An introduction to theory and methods (3. útgáfa). Boston: Allyn and Bacon.

Estrem, H. (2015). Writing is a knowledge-making activity. Í L. Adler-Kassner og E. Wardle (ritstj.), Naming what we know: threshold  concepts of writing studies. Colorado: Utah State University Press.

Flick. U. (2006). An introduction to qualitative research (3. útgáfa). London: Sage Publication.

Kristjana Björg Guðbrandsdóttur. (2017).  Skrifar til að skilja tilvistina. Vísir/Fréttablaðið, 14. júní 2017. http://www.visir.is/g/2017170609671/skrifar-til-ad-skilja-tilvistina-

Richardson, L. (1994). Writing: A method of inquiry. Í N. Denzin og Y. Lincoln (ritstj.), Handbook of qualitative  research (1. útg., 516–529). London, England: SAGE.

Rorty, R. (1989). Contingency, irony, and solidarity. Cambridge: Cambridge University Press.

Vygotsky, L. (1986). Thought and language. Cambridge: The MIT Press.

 
Lykilhæfni – leiðir og leiðsögn

Þann 14. ágúst næstkomandi efna Samtök áhugafólks um skólaþróun til ráðstefnu þar sem leitast verður við að svara spurningunni:

Hvernig náum við best þeim markmiðum sem sett eru með skilgreiningu á lykilhæfni í námskrá (hæfni í tjáningu, samræðu, skapandi og gagnrýninni hugsun, samvinnu, sjálfstæðum vinnubrögðum, að nýta ólíka miðla og taka ábyrgð á eigin námi) og hvernig er best að haga mati á þessari hæfni?

Ráðstefnan verður í Rimaskóla í Reykjavík.

Árdegis verða stuttir fyrirlestrar en síðdegis fjölbreytt dagskrá með kynningum á skólaverkefnum, sýningum og vinnustofum.

Aðalerindi flytja:

Anna Magnea Hreinsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs Borgarbyggðar

Sjáðu hvað ég get! 

Hvað er  mikilvægast að börn læri í leikskóla og hvaða nám erum  við að meta? Hvernig stuðla leikskólakennarar að því að börn öðlist hæfni, þekkingu og leikni í grunnþáttum menntunar?

Hulda Dögg Proppé. Íslenskukennari á unglingastigi í Sæmundarskóla, Grafarholti

Hvernig á ég að meta þetta? Að finna leið að settu marki

Það er hægara sagt en gert að breyta meginhugsuninni að baki námsmati. Fjallað verður um þá hugarfarsbreytingu sem þarf að eiga sér stað þegar nemendur eru metnir eftir nýjum matsviðmiðum aðalnámskrár og það ferðalag sem slík vinna felur í sér fyrir kennarahópinn.

Ívar Rafn Jónsson framhaldsskólakennari og doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

LeiðsagnarNÁM – Samtal milli kennara og nemenda

Mikilvægi samtalsins í námi með hliðsjón af ólíkri námsmatsmenningu, þar sem um leiðsagnarnám er í forgrunni. Hvað finnst nemendum og kennurum um námsmat og endurgjöf í framhaldsskóla. Leitast verður við að reifa svörin með von um að finna leiðarljós við að taka næstu skref í þróun námsmats sem er í þágu nemandans og hæfni hans í námi.

Kristín Ingólfsdóttir prófessor og f.v. háskólarektor

Stenst menntakerfið tæknibyltinguna?

Kristín ætlar að fjalla um veldisvöxt tækniþróunar og áhrif hraðans á atvinnulíf, menntastofnanir, verðmætasköpun og samfélög. Hún ætlar að velta upp með hvaða hætti menntakerfið geti sem best undirbúið nemendur á öllum skólastigum til þátttöku í breyttu samfélagi þar sem flestar, ef ekki allar, atvinnugreinar munu kalla eftir nýrri tegund þekkingar og færni.

Meyvant Þórólfsson dósent við Kennaradeild Háskóla Íslands

Lykilhæfni: Alhliða hæfni sem snertir alla þætti uppeldis og menntunar

Byltingar liðinna alda eins og upplýsingin, iðnbyltingin og nýlendustefnan teljast líklega minni háttar breytingaskeið í sögu mannkyns í samanburði við þau umbrot sem við horfumst í augu við nú á tímum undir merkjum hnattvæðingar og nútímavæðingar. Í erindinu er þessi þróun sett í samhengi við hugtakið hæfni eins og það birtist í námskrárþróun undir heitinu lykilhæfni.

Stefanía Malen Stefánsdóttir skólastjóri Brúarásskóla

Með lykilhæfni að leiðarljósi!
Um Brúna – þróunarverkefni í Brúaráskóla

Hvað viljum við að börnin okkar læri? Kynntar verða þær breytingar sem hafa orðið og verið er að þróa, á kennsluháttum í Brúarásskóla. Brúin er þróunarverkefni þar sem markmiðið er að efla ábyrgð, sjálfstæði og val nemenda ásamt því að brjótast úr viðjum faggreinakennslu og einbeita sér að viðfangsefnum.

Sjá nánari upplýsingar og skráningu á www.skolathroun.is

 
Ársþingið 4. nóvember 2016

Á ársþingi Samtaka áhugafólks um skólaþróun, í Rúgbrauðsgerðinni, föstudaginn 4. nóvember, fór fram umræða um stóru málin! Hvernig á að fjalla í skólum um flóttamannavandann, loftslagsmálin, stríð, hryðjuverk, fátækt, jafnréttismál, framtíðina? Ráðstefnan var með þjóðfundasniði og byggðist á virkri þátttöku fundargesta þar sem leitast var við að svara þessari spurningu. Stutt inngangserindi fluttu Anna Lára Steindal, Ingvi Hrannar Ómarsson, Katrín Jakobsdóttir og Stefán Jón Hafstein.

Erindi Stefáns Jóns er aðgengilegt á netinu, sjá hér.

Hér eru nokkrar myndir af þinginu sem Sigurborg Kr. Hannesdóttir, umræðustjóri á ráðstefnunni, tók.

skrekkur  katrin  hopvinna_6 hopvinna  hopvinna_2  hopvinna_3 hopvinna_4jpg  hopvinna_5  orfyrirlestur_1