Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Áhugavert námsumhverfi: Námsrými í 8. bekk Brekkubæjarskóla á Akranesi

í Greinar

Aldís Aðalsteinsdóttir, Helgi Reyr Auðarson Guðmundsson og Þorbjörg María Ólafsdóttir

Í september 2024 efndu Samtök áhugafólks um skólaþróun til „samkeppni“ um áhugavert námsumhverfi. „Samkeppninni“ var fylgt úr hlaði með þessum orðum:

Margir kennarar, sem og þeir sem skipuleggja félags- og tómstundastarf, leggja rækt við að skipuleggja frjótt og skapandi umhverfi fyrir nemendur (og stundum með þátttöku þeirra). Nefna má umhverfi í leikskóladeildum eða skólastofur eða önnur námsrými í grunn- og framhaldskólum. Ekki má gleyma list- og verkgreinastofum, verkstæðum eða öðrum rýmum fyrir skapandi starf. Enn má nefna útikennslustofur, leikvelli, skólasöfn og aðstöðu fyrir tómstundir og félagsstarf. Snjallar lausnir við að skipuleggja rafrænt námsumhverfi koma einnig til greina.

Við hvetjum ykkur til að senda okkur myndir af námsumhverfi sem þið hafið skipulagt og látið fylgja greinagóðar lýsingar, skýringar, uppdrætti eða teikningar eftir því sem nauðsynlegt er. Efnið á að vera tilbúið til birtingar og áskilja samtökin sér rétt til að birta efnið í Skólaþráðum í samráði við þá sem leggja það til.

Gæsalappirnar utan um orðið „samkeppni“ vísa til þess að dregið  var um það hver fengju verðlaunin, en alls bárust á annan tug lýsinga. Meðal þeirra sem sendu framlag voru þrír kennarar við Brekkubæjarskóla á Akranesi, þau Aldís Aðalsteinsdóttir, Helgi Reyr Auðarson Guðmundsson og Þorbjörg María Ólafsdóttir.

Hér lýsa þau þessu skemmtilega námsumhverfi í orðum og myndum.

Í Brekkubæjarskóla á Akranesi er byggt á þverfaglegu samstarfi og öll teymi eru skipuð umsjónarkennurum og fagaðilum úr stoðþjónustu, en það geta verið þroskaþjálfar, iðjuþjálfar, tómstundafræðingar, sérkennarar eða aðrir með sambærilega menntun, auk stuðningsfulltrúa (sjá nánar um þetta hér á heimasíðu skólans). Í 8. bekk er sex manna teymi með 50 nemendum. Í því eru þrír umsjónarkennarar, einn sálfræðingur úr stoðþjónustu skólans og tveir stuðningsfulltrúar.

Teymið hefur aðgang að þremur samliggjandi stofum. Unnið er að viðgerð á lofti í einni þeirra og því birtum við hér aðeins myndir úr tveimur þeirra, stofu 307 og 308.

Í námsrýmum er áhersla lögð á að skapa hlýlegt umhverfi og aðstæður þar sem gott er að vera. Reynt er að brjóta upp hina hefðbundnu kennslustofu og ganga út frá fjölbreyttum kennsluháttum, verkefnamiðuðu námi og mikilli samvinnu nemenda. Stofurnar eru bjartar, húsgögnin fjölbreytt og í báðum stofunum eru sófar sem nemendur sækjast eftir að fá að vera í.

Stofa 307

Í stofunni er mikið lagt upp úr mjúkri lýsingu, samvinnuborðum og fjölbreyttum sætum.

Nemendur hafa val um vinnuaðstöðu. Þau geta setið við borð, í sófa eða lagst á teppi ef það hentar betur. Í kennslustundum byrjum við yfirleitt öll við borð. Oftast spyrja nemendur hvort þau megi færa sig í sófann og vinna þar og fá þá leyfi kennara til þess ef það hentar.  Stundum er líka bara dregið í sófann, en þar sitja unglingarnir gjarnan tvö eða þrjú saman og eru að vinna í sama verkefni. Ef við erum að lesa saman eru sófarnir vinsælir og hið sama gildir vitaskuld um frímínúturnar.

Stofa 308

Þessi stofa er hugsuð þannig að það sé hægt að vinna með fjölbreyttum hætti. Jafnframt því er hún skipulögð þannig að hún geti verið hugsandi kennslustofa (um þessa nálgun má lesa í grein Eyþórs Eiríkssonar sem birtist í Skólaþráðum fyrr á þessu ári, sjá hér). Þorbjörg María (Tobba) hefur leitt hugsandi kennslustofu í stærðfræði þar sem nemendur hjálpast að við að leysa stærðfræði dæmi á jafningjagrundvelli.

Það er eindregið mat okkar kennaranna, og annarrra í teyminu, að námsumhverfi sem þetta hafi í fyrsta lagi jákvæð áhrif á líðan ungmennanna. Nemendur segja að þeim finnist gott að vera í skólanum því umhverfið sé svo notalegt. Í öðru lagi finnum við að þetta ýti undir löngun þeirra til að vera í skólanum og jákvætt viðhorf til skólans, en þarna spilar að sjálfsögðu líka saman fjölbreytt nám og fjölbreyttir kennsluhættir í 8.bekk.


Um höfunda

Aldís Aðalsteinsdóttir er menntaður grunnskólakennari frá kennaradeild Háskóla Íslands og skipulagsfræðingur frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Í starfi sínu sem kennari leggur Aldís áherslu á fjölbreyttar kennslustundir, sköpun og leik í námi nemenda og nemendamiðað nám.

Helgi Reyr Auðarson Guðmundsson er menntaður grunnskólakennari frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands og OISE við Háskólann í Toronto. Hann hefur áður starfað sem kennari í Norðlingaskóla og Laugalækjarskóla, en í kennslu sinni leggur hann áherslu á fjölbreytta og skapandi notkun á stafrænni tækni til þess að auðga nám nemenda og mæta ólíkum þörfum þeirra.

Þorbjörg María Ólafsdóttir er með B.A. í skapandi greinum frá Háskólanum á Bifröst ásamt því að vera menntaður heilsunuddari. Þorbjörg hefur starfað sem leiðbeinandi með umsjón frá árinu 2016. Hún er með ART réttindi frá ART teymi Suðurlands og leggur áherslu á fjölbreytt og skapandi verkefni í kennslu sinni til að koma til móts við sem flesta nemendur.


Grein birt 23. desember 2024
image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp