Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Áhugaverð myndmenntastofa í Grunnskóla Snæfellsbæjar

í Greinar

Ingiríður Harðardóttir

 

Í september 2024 efndu Samtök áhugafólks um skólaþróun til „samkeppni“ um áhugavert námsumhverfi. „Samkeppninni“ var fylgt úr hlaði með þessum orðum:

Margir kennarar, sem og þeir sem skipuleggja félags- og tómstundastarf, leggja rækt við að skipuleggja frjótt og skapandi umhverfi fyrir nemendur (og stundum með þátttöku þeirra). Nefna má umhverfi í leikskóladeildum eða skólastofur eða önnur námsrými í grunn- og framhaldskólum. Ekki má gleyma list- og verkgreinastofum, verkstæðum eða öðrum rýmum fyrir skapandi starf. Enn má nefna útikennslustofur, leikvelli, skólasöfn og aðstöðu fyrir tómstundir og félagsstarf. Snjallar lausnir við að skipuleggja rafrænt námsumhverfi koma einnig til greina.

Við hvetjum ykkur til að senda okkur myndir af námsumhverfi sem þið hafið skipulagt og látið fylgja greinagóðar lýsingar, skýringar, uppdrætti eða teikningar eftir því sem nauðsynlegt er. Efnið á að vera tilbúið til birtingar og áskilja samtökin sér rétt til að birta efnið í Skólaþráðum í samráði við þá sem leggja það til.

Gæsalappirnar utan um orðið „samkeppni“ vísa til þess að dregið  var um það hver fengju verðlaunin, en alls bárust á annan tug lýsinga. Meðal þeirra sem sendu framlag var Ingiríður Harðardóttir, myndmenntakennari við Grunnskóla Snæfellsbæjar, en hún sendi myndir og lýsingar á myndmenntastofunni sinni í skólahúsinu á Hellissandi, en skólinn er rekinn á tveimur öðrum starfsstöðvum, í Ólafsvík og á Lýsuhóli. Nemendur Ingiríðar koma bæði frá Hellissandi og Ólafsvík og eru í 1.–10. bekk.

Myndunum fylgdi Ingiríður úr Hlaði með þessum orðum:

Myndirnar sem ég sendi ykkur eru úr myndmenntastofu Grunnskóla Snæfellsbæjar. Ég legg áherslu á að stofan veki forvitni og áhuga nemenda sem ég tel mikilvægt til þess að nám fari fram auk þess að mikilvægt er að þeim líði vel í stofunni. Allt efni og verkfæri er sýnilegt og aðgengilegt. Þau vita hvar allir hlutir eru og hver og einn hlutur/efni á sinn stað í stofunni eða geymslu sem er inn af stofunni.  Í kennslu minni leitast ég við að tengja nemendur við sitt nánasta umhverfi, náttúru, veður, þjóðsögur og sagnir sem tengjast heimabyggð þeirra. Í stofunni er mikið af allskyns náttúruefni sem mér hefur áskotnast s.s. skeljar, kuðungar, steinar, fjaðrir og margt fleira sem bæði er notað í kennslu og til að skoða, rannsaka og leika sér með. 

Ég er með þó nokkuð af bókum, bæði listaverkabókum og bókum tengdum því efni sem ég nota í kennslunni og oft set ég bækur tengdar því efni sem við erum að vinna með á borðið hjá mér. Það grípur augað og fær þau til að skoða þær.

Þessa dagana er ég að vinna með íslenskar kynjaskepnur og er með bækur því tengdu á borðinu og tvö plaköt í einu horni stofunnar sem eru mikið skoðuð, en nemendur setjast oft þar og skoða kynjaskepnurnar og eiga oft mjög áhugaverð samtöl um þær. Eins er ég oftast með skál á borðinu hjá mér með einhverju efni sem ég tel að þau geti haft áhuga á og þar sem þau koma oft með eitthvað úr fjöruferðum eða af skólalóðinni til mín og fylli ég oft á skál með því efni og það finnst yngsta stiginu mjög spennandi að sjá það sem þau hafa fært mér á borðinu.

Séð yfir hluta stofunnar:

Takið eftir stólfótunum! Myndina af steypireiðinni gerðu nemendur nemendur í 3. bekk fyrir nokkrum árum. „Hópurinn kom til mín,“ segir Ingiríður, „og spurði mig hvert væri stærsta dýr jarðar. Við fundum út með því að gúggla að steypireyður er einna stærst og getur orðið allt að 30 m á lengd. Við byrjuðum á að mæla hversu mikið 30 metrar væru innan húss og komust að því að húsnæðið dugði okkar ekki. Því var brugðið á það ráð að fara út og mæla 30 metra og teikna hvalinn upp. Í þessum hópi var mikill áhugi á hvölum og þau langaði að vinna meira með hann. Það varð úr að okkur samdist um að þau myndu teikna hann og mála. Ákveðið var að minnka hann niður í þrjá metra og fundum við mynd af steypireyði á netinu sem nemendum leist vel á sem ég varpaði upp á töflu sem þau höfðu til hliðsjónar.“

Næsta mynd sýnir hinn hluta skólastofunnar. Vel má sjá þá áherslu sem Ingiríður leggur á að koma öllum gögnum, efni og verkfærum aðgengilega fyrir:

Á kennaraborðinu er skál með ýmsum gripum sem Ingiríður telur að nemendur geti haft áhuga á að skoða og þreifa á. Í þessu tilviki eru kuðungar í skálinni. Vinsælt er að hlusta á kuðungana og þau segja að hver og einn hafi sitt sérstaka hljóð. Oft leynast þarna gripir sem nemendur koma með úr fjöruferðum eða finna á skólalóðinni eða í nágrenni skólans.

Í hilluskáp í stofunni er að finna blóm, bækur og náttúrugripi af ýmsu tagi. „Nemendur koma oft inn á morgnana áður en kennsla hefst til að skoða það sem vekur áhuga þeirra. Þau vita að þau mega snerta og skoða allt sem er í stofunni og oft nota þau stækkunargler til að skoða betur ýmsa smáhluti. Blómin og kaktusarnir vekja líka mikinn áhuga en þegar þessar myndir voru teknar vorum við ekki byrjuð á gróðurtilraunum, en í hverri lotu gerum við einhverjar gróðurtilraunir, komum til fræjum eða afleggjurum og nemendur fylgjast með og fræðast um hvernig plöntur vaxa upp af fræi.“

Notalegur staður í stofunni til að lesa eða slaka á:

„Sófinn kemur sér vel ef nemandi þarf að taka sér hlé, eða er búinn með verkefni. Þá er oft sest niður með góða bók. Fyrir ofan sófann er málverk af Snæfellsjökli málað 1911 og út um gluggana má sjá Snæfellsjökul sjálfan en hann er árlegt viðfangsefni í ýmsum verkefnum en eitt þeirra var „Ísabrot, jöklar í íslenskri myndlist“ og var afraksturinn sýndur á samsýningu í Safnahúsinu á Barnamenningarhátíð 2024. Á næstu mynd má sjá nemendur úti að teikna jökulinn.“

„Í einu horni stofunnar eru veggspjöld um íslenskar kynjaskepnur og kort sem sýnir hvar þær eru sagðar hafa sést á landinu. Veggspjöldin eru notuð í verkefnum og eins eru þau oft uppspretta umræðna og vangnaveltna milli nemenda og voru þau sett á gólfið, bæði vegna skorts á veggplássi og til að auðvelda aðgengi yngri nemenda að þeim.“

Uppdráttur af stofunni með skýringum:

Um myndirnar úr skólastofunni segir Ingiríður að lokum:

Vonandi sýna myndirnar þá áherslu sem ég legg í kennslu minni, þ.e. að tengja nemendur mína við nánasta umhverfi sitt í gegnum staðbundar sögur og sagnarfinn úr þjóðsögum, ævintýrum og goðafræði, ásamt því að vinna með nánasta umhverfi, náttúru og veðurfar, t.d. í tengslum við útikennslu og að taka náttúruefni inn í stofuna sem hluta af námsumhverfinu og sem uppsprettu fyrir sköpun.

Eins og sjá má tengir Ingiríður kennslu sína við nærumhverfið. Grunnskólinn í Snæfellsbæ vann til Íslensku menntaverðlaunanna 2022 fyrir námskrá sem kennd er við átthagafræði og beinist að því að efla jákvæð og virk tengsl skóla og samfélags, þekkingu nemenda á heimabyggð sinni og auka fjölbreytni í námi. Um þessa verðlaunaveitingu má fræðast hér.


Um höfund

Ingiríður Harðardóttir er kennari við Grunnskóla Snæfellsbæjar. Hún lauk meistaranámi frá listkennsludeild Listaháskólans vorið 2016 og hefur starfað sem myndmenntakennari við Grunnskóla Snæfellsbæjar síðan 2017. Hún hefur það að markmiði að tengja nemendur við samfélagið í gegnum þátttöku í ýmis konar verkefnum og með sýningarhaldi. Nemendur hennar hafa bæði haldið sýningar í heimabyggð og út fyrir hana í samvinnu við Náttúruminjasafn Íslands, Listasafn Íslands, LÁN (Listrænt ákall til náttúrunnar) og Árnastofnun.


Grein birt 9. desember 2024

 

 

 

 

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp