Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Að vakna til vitundar: Um bókina World-Centred Education eftir Gert Biesta

í Ritdómar

Atli Harðarson

 

Undanfarinn einn og hálfan áratug hafa bækur og greinar eftir Gert Biesta haft umtalsverð áhrif á menntavísindi og heimspeki menntunar. Þessi áhrif ná langt út fyrir Vestur-Evrópu og hinn enskumælandi heim enda hafa verk eftir hann verið þýdd á um tuttugu tungumál.

Biesta hóf feril sinn í Hollandi þar sem hann fæddist og ólst upp, en hann hefur starfað víða, meðal annars í Noregi og Svíþjóð og er nú prófessor við Maynooth háskólann á Írlandi og við Edinborgarháskóla í Skotlandi. Í skrifum sínum tengir hann þekkingu á menntavísindum, menntastefnu og skólamálaumræðu samtímans við skilning á meginstraumum heimspeki síðustu aldar, einkum evrópskri tilvistarstefnu (existentialism) og amerískri verkhyggju (pragmatism).

Nýjasta bók hans (Biesta 2022), sem kom út í fyrra, heitir fullu nafni World-Centred Education: A View for the Present. Hún er fremur stutt, aðeins 113 blaðsíður, og textinn hverfist um eina meginhugmynd sem er að skólar hafi þrefaldan tilgang og menntun þrenns konar markmið. Það sem hér fer á eftir er um þessa einu bók og allt sem ég hef eftir Biesta er sótt í hana.

Um tilgang skóla og markmið menntunar

Biesta segir í bókinni að menntakerfi nútímans leggi áherslu á markmið af tveimur gerðum. Önnur þeirra er hæfni og gráður (qualification) og hin er félagsmótun (socialisation) af ýmsu tagi. Röksemdafærslan í bókinni snýst um að sýna fram á að þessi tvenns konar markmið nái ekki utan um nema hluta af viðleitni kennara til að mennta nemendur sína. Til að gera sér grein fyrir hvað menntun felur í sér þarf, segir Biesta, að huga að þriðju gerð markmiða sem hann kallar „subjectification.“ Þessi þriðja gerð snýst um að nemendur vakni til vitundar um heiminn.

Sé einblínt á hæfni og félagsmótun, eins og Biesta segir að of margir geri nú um stundir, verður áherslan öll á að kennarar noti kennslutækni og námsefni til að móta börn og unglinga. Það er horft á nemandann utan frá. Með umfjöllun sinni um vitund nemandans bendir Biesta á að menntun verði ekki öll skilin og skýrð í þriðju persónu. Mikilvægur hluti hennar sé aðeins sýnilegur frá sjónarhóli fyrstu persónu.

Þótt Biesta hampi mikilvægi þess að nemendur vakni til vitundar hafnar hann ekki markmiðum af hinum tveimur gerðunum. Hann segir að allar þrjár gerðirnar séu nauðsynlegar og sé okkur alvara með að mennta fólk þá getum ekki sleppt neinni þeirra.

Sögur um Homer Lane, Rosa Parks og Adolf Eichmann

Til að skýra hvað hann á við með „subjectification“ segir Biesta tvær sögur. Önnur sagan er um Homer Lane og nemanda hans sem hét Jason. Lane var fæddur vestur í Bandaríkjunum árið 1875 en er þekktastur fyrir starf sitt við skóla á Englandi sem hann stjórnaði snemma á síðustu öld. Sá skóli hét Little Commonwealth og var ein helsta fyrirmynd Summerhill skólans sem A. S. Neill stofnaði árið 1921.

Nemendur í Little Commonwealth skólanum höfðu sumir átt í útstöðum við samfélagið og lent utangarðs. Sem skólastjóri reyndi Lane, eftir því sem sagan segir, að koma þeim til þroska með því að veita þeim frelsi fremur en með því að þvinga þá til að læra lexíurnar sínar og fylgja reglum. Sagan sem Biesta segir byrjar á því að Lane býður Jason tesopa og spyr hvað hann vilji gera. Jason svarar að sig langi til að mölva þetta fáránlega pjattaða bollastell. Lane segir að hann skuli þá gera það. Skiptir engum togum að nemandinn brýtur það og bramlar. Lane tekur þá upp forláta úr og spyr Jason hvort hann vilji kannski líka eyðileggja það. Nemandinn hikar og eftir ofurlitla umhugsun ákveður hann að skemma ekki meira svo úrið sleppur. Daginn eftir biður hann um að fá að vinna á trésmíðaverkstæði skólans, segist vilja greiða fyrir bollana sem hann braut.

Lykilatriði í þessari sögu er að þegar Jason hikaði við að mölva úrið, sem væntanlega var ansi dýrmætur gripur, þá áttaði hann sig. Hann vaknaði til vitundar, ekki um hvað kennarinn ætlaðist til heldur um hvað blasti við og hvern fjandann hann var sjálfur að gera. Hefði hans eigin vitund ekki rumskað, hefði hann aðeins verið beygður undir reglur samfélagsins með aga og innrætingu, þá hefði, að mati Biesta, ekki verið um eiginlega menntun að ræða. Samkvæmt þessu er mögulegt að uppeldisstofnun nái markmiðum sem varða félagsmótun og hæfni án þess að nemendur menntist í fyllsta skilningi.

Hin sagan sem Biesta segir ber saman tvær persónur sem þekktar eru úr fréttum síðustu aldar. Önnur þeirra er Rosa Parks, svört kona sem fór inn í strætisvagn í Alabama árið 1955 og neitaði að þoka um set þegar vagnstjórinn sagði henni að standa upp fyrir hvítum farþega. Hún lét félagsmótunina og uppeldið sem hún hafði gengið í gegnum ekki ráða heldur sína eigin vitund um heiminn, eigin sýn á aðstæður og hvað væri rétt. Hin persónan er Adolf Eichmann sem skipulagði flutning á gyðingum í útrýmingarbúðir á valdatíma nasista í Þýskalandi. Ísraelsmenn handtóku hann í Argentínu árið 1960 og fluttu til Jerúsalem þar sem var réttað yfir honum. Um þessi réttarhöld skrifaði Hannah Arendt fræga bók sem kom út árið 1963 og heitir Eichmann in Jerusalem: A Report on the Banality of Evil. Biesta byggir á frásögn Arendt þar sem Eichmann er lýst sem afar fáfengilegum manni og innantómum. Hann vann bara vinnuna sína af nákvæmni og samviskusemi án þess að hugsa um afleiðingar og inntak eigin verka. Hann hafði meðtekið kröfur yfirvalda, en hans eigin sjálf kom lítt við sögu. Ef Arendt (1963/2006) segir rétt frá þá hefði mann langað til að banka í ennið á karluglunni og hrópa: „Hæ, er einhver þar, er einhver heima.“ Samkvæmt sögunni var eins og eitthvað skorti á fulla meðvitund – það væri jafnvel ekkert „ég“ á bak við andlitið.

Hlutlægur veruleiki og frelsi nemenda

Biesta notar samanburðinn á Parks og Eichmann til að árétta muninn á þeim markmiðum sem skólakerfi nútímans leggja ofuráherslu á, nefnilega hæfni og félagsmótun, og markmiðum af þriðju gerðinni sem hann segir að við ættum að leggja meiri áherslu á, nefnilega að nemendur vakni til vitundar. Slíka vakningu telur hann forsendu þess að þeir menntist til að segja „nei“ við öflum sem reyna að móta þá og temja. Þessi vakning er, samkvæmt Biesta, nátengd því að læra að vera frjáls. Hún snýst samt ekki um sérkenni, sérvisku eða sérþarfir einstaklinganna heldur um að skynja veruleikann eins og hann er – hafa meðvitund um heiminn og kröfur hans. Bókin heitir World-Centred Education því menntunin sem hún hampar snýst um heiminn en hvorki um barnið né um námsefnið.

Biesta nefnir John Dewey alloft í bókinni, oftar en aðra heimspekinga sem hann vitnar til, og finnur að því að hann hafi lagt of mikla áherslu á mótun (cultivation). Það sem Biesta segir um menntun til frelsis er samt um sumt líkt því sem Dewey (1938/2000) ritaði um sama efni í Reynslu og menntun (Experience and education) þar sem hann talaði einmitt um það sem lykilatriði að stoppa og hugsa eins og Jason gerði í sögunni. Dewey áleit að sönn menntun færði nemendum frelsi með því að gera þeim mögulegt að láta hlutlæg rök, þekkingu og yfirvegun ráða breytni sinni fremur en hvatir og venjur sem standast ekki skynsamlegt og yfirvegað mat (Atli Harðarson, 2023). Biesta virðist á sama máli.

Líkt og Dewey gerir Biesta skýra grein fyrir því að viðleitni til að mennta nemendur til frelsis er óvissu háð. Kennarinn leikur í mesta lagi annan hvern leik í því tafli og veit aldrei fyrir fram með vissu hver viðbrögðin verða. Nemandi sem lærir að segja „nei“ getur hafnað því sem kennarinn réttir að honum en nemandi sem lærir það ekki verður ómenntaður, að minnsta kosti ef raunveruleg menntun felur í sér vitundarvakningu eða „subjectification“ af því tagi sem Biesta ræðir um. Hún miðar að því að heimurinn sjálfur tali til nemenda og veruleikinn geri kröfur til þeirra fremur en kennarinn.

Hörður Zóphaníasson sem var skólastjóri Víðistaðaskóla í Hafnarfirði samdi íslenskan texta við lag Bob Dylans frá 1964, „The Times They Are a-Changin’.“ Texti Harðar byrjar á orðunum „Sjá vindurinn þýtur og veröldin snýst“. Í framhaldinu segir meðal annars:

Sjá skáldin þau yrkja og spekingar spá.
Já, sperrtu upp augun og reyndu að sjá
hvar skórinn að kreppir hver skylda þín er
skylda sem kemur og fer.[1]

Það er ekki fjarri lagi að þetta erindi innihaldi sömu meginhugsun og Biesta orðar þar sem hann fjallar um viðleitni kennara. Ef hún heppnast þá sjá nemendur heiminn með eigin augum. Andstæður þeirrar menntunar sem hér um ræðir eru því ekki einungis skortur á háttvísi, þekkingarleysi og vankunnátta heldur líka sofandaháttur.

Skóli á viðbúnaðarstigi eða griðastaður þess seinlega

Meðal þess sem Biesta ræðir eru ágengar kröfur í samtíð okkar um að skólinn bregðist sífellt við brýnum þörfum. Þær hljóma alloft í mínum eyrum eins og ætlast sé til að skólinn sé nánast verkfæri samfélags á viðbúnaðarstigi – hann eigi einkum að forða börnum frá alls konar aðsteðjandi ógnum fremur en að opna augu þeirra og færa þeim þekkingu á náttúru, menningu og samfélagi. Ný viðfangsefni í skólastarfi eru gjarna kynnt sem einhvers konar forvarnir: Fjármálalæsi sem vörn gegn því að vera féflett og sökkva í skuldafen; Kynfræðsla og kynjafræði sem vörn gegn því vera smánuð eða misnotuð; tuttugustu og fyrstu aldar hæfni sem vörn gegn framtíð sem brýnir klærnar og bíður þess albúin að éta börn sem eru úrelt og gamaldags.

Ekki ætla ég að neita því að hætturnar séu raunverulegar. Það er raunar fráleitt að gera lítið úr þeim. En meðal þeirra spurninga sem bók Biesta vekur er hvað þær eigi að fá mikið rúm í námskrám skóla. Hann bendir á að þótt vissulega þjóni skólar samfélaginu þurfi þeir líka að veita skjól fyrir stundlegum þörfum, vera staður þar sem nemendur hafa ráðrúm til að átta sig og skoða heiminn úr hæfilegri fjarlægð. Hann segir að þessi hugmynd um skólann sem skjólsælan stað sé gömul. Eftir því sem ég best veit er það rétt hjá honum. Hún hefur um aldir fylgt hugsjónum um menntun sem færir fólki frelsi. Raunar er orðið skóli ættað úr grísku þar sem kvenkynsorðið „scholi“ (σχολή) merkir frá fornu fari næði, tómstundir eða frí frá dagsins önn (Jón Ásgeir Kalmansson, 2023).

Ef til vill hefur aldrei verið meiri þörf en nú fyrir stað þar sem börn geta aflað sér þekkingar og vaxið að visku fjarri ógnum og æðibunugangi samtímans, til þess meðal annars að geta síðar verið vakandi og axlað ábyrgð við aðstæður sem enginn kann orð yfir nú – og jafnvel neitað fjölmörgu því sem yfir þau gengur.

Þeir sem einblína á hæfni og félagsmótun sem markmið skólastarfs missa sjónar á þessu. Biesta tengir einsýni þeirra við samfélagshætti sem einkennast af rasandi ráði (impulse society) þar sem menn elta langanir sínar fremur en að staldra við og gagnrýna þær. Hann ræðir í þessu sambandi um markaðsöfl sem hvetja okkur til að þjóna lund okkar fremur en að vega og meta hvers virði það er, allt glingrið sem við girnumst. Ein af spurningunum sem Biesta ber upp er hvort það samfélag sem við byggjum gefi skólahaldi kost á að dafna almennilega. Styður það viðleitni kennara eins og vert er?

Það er ekki hægt að öðlast árvekni og skilning á náttúrunni, menningunni og samfélaginu í neinum fljótheitum. Skóli sem vinnur gegn gönuhlaupunum fer sér því að engu óðslega. Hann gegnir eins og Biesta segir hlutverkum af ólíku tagi og til að sinna þeim öllum þarf hann að hafa slaka á tímanum, vera „griðastaður þess seinlega“ og gefa nemendum ráðrúm til að „hugsa og rökræða, hlæja og leika sér“ svo ég ljúki þessu á tilvitnun í eigin skrif (Atli Harðarson, 2019, bls. 148).

Rit

Arendt, Hannah. (2006). Eichmann in Jerusalem: A Report on the Banality of Evil. Penguin. (Upphafleg útgáfa 1963.)

Atli Harðarson. (2019). Tvímælis: Um heimspeki menntunar og skólakerfi nútímans. Heimspekistofnun Háskóla Íslands og Menntavísindastofnun Háskóla Íslands.

Atli Harðarson. (2023). Education for Self-Control: Some Similarities Between Dewey’s Experience and Education and Locke’s Theory of Rational Agency. Education and Culture, 38(2), 47–65. https://docs.lib.purdue.edu/eandc/vol38/iss2/art4/

Biesta, Gert. (2022). World-Cented Education: A View for the Present. Routledge.

Dewey, J. (2000). Reynsla og menntun (Gunnar Ragnarsson þýddi). Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands. (Upphafleg útgáfa 1938.)

Jón Ásgeir Kalmansson. (2023). Í góðu tómi: Um rætur orðsins skóli. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. https://doi.org/10.24270/netla.2023/14


[1] Skrifað upp eftir flutningi þjóðalagasveitarinnar Lítið eitt sem var hljóðritaður árið 1973 og liggur frammi á https://www.youtube.com/watch?v=sVP380MjKA8.


Atli Harðarson (atlivh(hja)hi.is) er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann hefur ritað bækur og greinar um heimspeki, bókmenntir og námskrárfræði. Nánari upplýsingar eru á vefsíðunni https://atlivh.com/


Umsögn um bók birt 8. desember 2023
image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp