Elsa Eiríksdóttir og Sæberg Sigurðsson
Nýverið hefur skapast mikil umræða um þróun framhaldsskólastigsins – sérstaklega vegna hugmynda úr ranni mennta- og barnamálaráðuneytis um að sameina rótgróna framhaldsskóla (Alþingi, 2023; Höskuldur Kári Schram, 2023; Ísak Gabríel Regal, 2023). Í apríl 2023 var stofnaður stýrihópur um eflingu framhaldsskólans (mennta- og barnamálaráðuneytið, 2023b) og var hópnum falið að „móta og leggja fram tillögur að aðgerðum sem snúa að framtíðarskipulagi framhaldsskólakerfisins og mæta samfélagslegum, faglegum og fjárhagslegum áskorunum framhaldsskólanna“. Upp úr þessu starfi virðast fyrrgreindar hugmyndir um að kanna fýsileika þess að sameina framhaldsskóla hafa sprottið. Til grundvallar eru lagðar spár um þróun framhaldsskólastigsins næsta áratuginn sem birtist í greinargerð um húsnæðisþörf í framhaldsskólum 2023–2033 (mennta- og barnamálaráðuneytið, 2023c) en þar er gert ráð fyrir fækkun nemenda í bóknámi og fjölgun í starfsnámi. Þessi þróun er útskýrð annars vegar með vísun í fámennari árganga og hins vegar aukna aðsókn í starfsnám (mennta- og barnamálaráðuneytið, 2023a, 2023c).
Þar sem fyrirhugaðar breytingar á framhaldsskólastiginu eru umfangsmiklar er ástæða til að skoða vandlega þær forsendur sem liggja til grundvallar. Fram kemur í greinargerð ráðuneytisins að byggt sé á mannfjöldaspám en einnig menntastefnu og markmiðum núverandi ríkisstjórnar. Það er að segja, sett eru fram „tölusett markmið um skólasókn í framhaldsskólum eftir aldri nemenda á grundvelli menntastefnu 2020–2030 og markmiða ríkisstjórnarinnar um aukið vægi starfsnáms á komandi árum“ (mennta- og barnamálaráðuneytið, 2023a). Þetta þýðir að sett eru fram markmið um þróun og á sama tíma virðist gengið út frá þessari þróun sem orðnum hlut, eins og má sjá af þessum orðum ráðherra: „Fleiri og fleiri sækja í verknám sem er fagnaðarefni enda þörfin mikil. Nú höfum við kortlagt þróunina sem sýnir að aðsóknin muni halda áfram að aukast næsta áratuginn“. Það er rétt að aðsókn í starfsnám hefur aukist á síðastliðnum árum en ráðherra virðist þarna gefa sér að markmið ríkisstjórnarinnar um áframhaldandi og aukna aðsókn í starfsnám muni ganga eftir. Í umfjöllun um „meira og betra verknám“ (mennta- og barnamálaráðuneytið, 2023a, 2023c) eru hins vegar fáar tillögur um hvernig þetta eigi að gerast. Þó má nefna áform um að móta kynningarátak gagnvart ungu fólki – sérstaklega til að auka jafnvægi umsókna í ólíkar starfsgreinar og að liðka fyrir inngöngu eldri umsækjenda. Aðrar aðgerðir til að fjölga nemendum í starfsnámi sem mennta- og barnamálaráðuneytið (2022) hefur sett fram snúa fyrst og fremst að því að auka þann fjölda sem framhaldsskólar sem bjóða upp á starfsnám geta tekið við, sem er sannarlega brýnt verkefni.
Í ljósi þess að menntayfirvöld á Íslandi hafa síðustu áratugi sett sér það markmið að efla starfsnám án mikils árangurs er eðlilegt að setja spurningamerki við þessa spá um áframhaldandi og línulega aukningu í starfsnám (sjá t.d., Elsa Eiríksdóttir, 2022; Elsa Eiríksdóttir o.fl. 2018; Jón Torfi Jónasson, 1995; Jón Torfi Jónasson og Gunnhildur Óskarsdóttir, 2016; Ríkisendurskoðun, 2017). Íslenskt menntakerfi er mjög bóknámsmiðað og greina má undirskipaða stöðu starfsnáms í kerfinu víða fyrir utan aðsókn, m.a. í gegnum opinbera menntastefnu, viðhorfi og aðgerðum hagaðila, aðgengi að námi, kennsluháttum og tækifærum til frekara náms eftir brautskráningu (Elsa Eiríksdóttir, o.fl. 2018; Elsa Eiríksdóttir, 2022; Jón Torfi Jónasson, 1995). Mikilvægt er að halda því til haga að aðsókn í starfsnám hefur aukist síðustu ár – sem er jákvætt, en hvort sú aukning haldi áfram og hvað hún merki í raun, bæði hvað varðar þróun starfsnáms og bóknáms er enn óljóst. Í þessari grein er því ætlunin að skoða nánar aðsókn í starfsnám og bóknám með það fyrir sjónum að leggja mat á fyrrgreinda spá um þróun framhaldsskólastigsins.
Spá um fjölda nemenda í framhaldsskólum bendir ekki til fækkunar
Í greinargerðinni um húsnæðisþörf í framhaldsskólum 2023–2033 eru tilgreindar forsendur fyrir spá um þróun fjölda nemenda í framhaldsskólum (mennta- og barnamálaráðuneytið, 2023c) og byggt á ýmsum gögnum, m.a. spá um mannfjöldaþróun frá Hagstofu Íslands. Þar kemur fram að landsmönnum á aldrinum 16 til 65 ára muni fjölga um 13% fram til 2027 en fækki síðan aftur um 2%, frá því sem nú er, fram til 2033. Á grundvelli þessa og spár um hlutfall starfsnáms í framhaldsskóla – sem virðist fyrst og fremst byggja á markmiðum ríkisstjórnarinnar – er sett fram spá um fjölda nemenda í framhaldsskólum. Gert er ráð fyrir að nemendum muni fjölga fram til 2026–2027 (úr um 22.000 í 25.000 eða um 3.000) en fækka svo aftur fram til ársins 2033 (úr 25.000 í 21.000 eða um 4.000). Í samanburði við núverandi stöðu muni því um 1.000 færri nemendur stunda nám við framhaldsskóla á Íslandi árið 2033 en nú er. Að tala um slíka sveiflu sem verulega í sögulegu samhengi er hæpin. Sveifla í fjölda er líkleg, en ekki með þeim hætti að það kalli á umfangsmiklar breytingar á framhaldsskólastiginu, líkt og Gylfi Magnússon (2023) bendir á í nýlegri grein. Til þess að átta okkur á þessum tölum og sögulega samhenginu skulum við skoða mannfjöldatölur frá Hagstofunni (2023a) síðastliðin 30 ár og svo mannfjöldaspána frá sömu stofnun (2023b), 30 ár fram í tímann (sjá mynd 1). Hér má sjá fjöldann í aldurshópnum 16–18 ára en einnig í aldurshópnum 19–24 ára sem er fjölmennur í starfsnámi á Íslandi.
Ef horft er sérstaklega á tímabilið 2023–2033 sést að fram undan er tímabundin fjölgun í aldurshópnum 16–18 ára sem nær hámarki í kringum árið 2027. Á sama tíma er frekar fækkun í aldurshópnum 19–24 ára en svo fjölgar í eldri hópnum með hámarki í kringum árið 2032 ef spáin rætist. Þegar aftur á móti litið er til næstu 30 ára er spáð fjölgun í báðum aldurshópum þó búast megi við sveiflum á leiðinni eins og grafið sýnir. Þessar sveiflur eru þó ekki mikið meiri en þær sem hafa verið á liðnum áratugum.
Þróun aðsóknar sýnir aukinn áhuga á starfsnámi en ekki á kostnað bóknáms
Á Íslandi hefur aðsókn í bóknám löngum verið meiri en í starfsnám og hlutur starfsnáms hefur þótt rýr þegar litið er til landa sem við berum okkur oftast saman við. Á Íslandi eru rétt rúmlega 30% nemenda í framhaldsskóla að meðaltali skráð í starfsnám en þetta hlutfall er um 47% í Evrópu (Cedefop, 2020). Síðastliðin 25 ár hefur þetta hlutfall starfsnámsnema verið nokkuð stöðugt á Íslandi; lægst verið 27% árið 2003 en hæst 37% árið 2017 (Hagstofa Íslands, 2023c). Aðeins um 15% nemenda sem koma beint úr grunnskóla innritast í starfsnám í framhaldsskólum að meðaltali, en á árunum 1997–2017 var þetta hlutfall lægst 11% árið 2016 en hæst 20% árin 1998 og 2000. Af þessu er ljóst að aðsókn í starfsnám er gjarnan vegna annarra nemenda en þeirra sem koma beint úr grunnskóla. Þetta eru þá nemendur sem eru að skipta um nám eða koma úr undirbúningsnámi, hafa hætt námi og eru að koma aftur (t.d. í gegnum raunfærnimat), eða hafa lokið öðru námi (jafnvel á háskólastigi) og velja nú starfsnám. Vísbending um þetta er meðal annars hár meðalaldur starfsnámsnema á Íslandi (Hagstofa Íslands, 2018, 2023c).
Samkvæmt greinargerð mennta- og barnamálaráðuneytisins (2023c) er gert ráð fyrir línulegri aukningu á aðsókn í starfsnámi fram til ársins 2033 og að þá verði hlutfallið í starfsnámi 42,5% af nemendum í framhaldsskóla. Það er því gert ráð fyrir rúmlega 10% aukningu í starfsnámi á næstu 10 árum. Þessi spá virðist fyrst og fremst byggð á markmiðum stjórnvalda, eins og áður kom fram, en er einnig í takti við umræðu um aukna aðsókn í starfsnám á síðastliðnum árum og að fjölda umsókna í starfsnám hafi verið hafnað (Kristín Sigurðardóttir, 2021; Jón Agnar Ólason, 2021; Samtök iðnaðarins, 2022).
Ef aðsókn í starfsnám á tímabilinu 2006–2022 er skoðuð með nánari greiningu (sjá mynd 2) sést nokkuð vel að hlutur starfsnáms sveiflast aðeins á tímabilinu. Á árunum 2006–2009 fjölgaði umsóknum í starfsnám (um ríflega 1.000), sem sennilega má rekja til efnahagshrunsins, en þeim fækkaði svo aftur á árunum 2012–2017 (um tæplega 1.000). Frá 2017 hefur fjöldi umsókna í starfsnám vaxið og í lok tímabilsins (árið 2022) voru um 500 fleiri umsóknir um starfsnám en þegar minnst var á árunum 2016‒2017. Mikilvægt er þó að hafa í huga að þessi aukning í starfsnám á síðustu árum er ekki í allt starfsnám, heldur er aukin aðsókn fyrst og fremst í tilteknar greinar og þá helst byggingagreinar, sem líklega má rekja til uppgangs í þeim geira á síðustu árum.
Athygli vekur að aðsókn í bóknám hefur einnig sveiflast aðeins á þessu tímabili en þó kannski aðeins minna en aðsókn í starfsnám. Ef fjöldi umsókna er skoðaður þá fjölgaði umsóknum um bóknám á tímabilinu 2006–2011, en fjöldinn hélst nokkuð stöðugur til 2016 og fækkaði þá lítillega. Á heildina litið má því sjá nokkrar sveiflur í umsóknum í bóknám og starfsnám en aðsókn virðist almennt nokkuð stöðug. Hér ber að hafa í huga að oft eru nemendur sem sækja um í starfsnám eldri en þeir sem sækja um í bóknám og því er hér um ólíka hópa að ræða. Á heildina virðist samt langsótt að segja að aukning umsókna í starfsnám sé á kostnað bóknáms.
Gögnin sýna að samdráttur í umsóknum hefur verið á tímabilinu í undirbúningsnám í framhaldsskóla (t.d. framhaldsskólabrautir eða almennar brautir). Þessar umsóknir voru um 25% umsókna árið 2006 og eru nú 6%. Leiða má líkum að því að þessa fækkun megi rekja til nýrra laga um framhaldsskóla (nr. 92/2008) og innleiðingar nýrrar aðalnámskrár framhaldsskóla (mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2012) á tímabilinu 2008–2012. Tekið var upp nýtt einkunnakerfi í grunnskólum á þessum tíma og nýjar námsbrautalýsingar voru útfærðar (sérstaklega í bóknámi), undirbúningsnám endurskilgreint og nemendum beint á aðrar leiðir (Guðrún Ragnarsdóttir, 2018). Í framhaldi voru svo bóknámsbrautir til stúdentsprófs styttar sem aftur breytti landslaginu. Nýjar námsbrautalýsingar fyrir starfsnám voru lengur í vinnslu og árið 2017 taldi Ríkisendurskoðun enn nokkuð vanta upp á staðfestingu námsbrautalýsinga í starfsnámi. Námsbrautum í framhaldsskólum var því breytt mikið á árunum 2008–2018 og líklegt að þeim breytingum hafi fylgt sú tilfærsla sem sést á nemendum úr undirbúningsnámi og ekki ólíklegt að drjúgur hluti þeirra nemenda hafi í staðinn sótt í starfsnám.
Nemendur úr grunnskóla sækja frekar í bóknám
Áherslur yfirvalda þegar kemur að því að efla starfsnám hafa gjarnan snúið að því að fjölga þeim sem velja starfsnám að loknum grunnskóla (kallaðir nýnemar í kerfinu). Ef umsóknir þeirra eru skoðaðar sérstaklega sést glöggt hversu stór hlutur bóknáms er hjá þessum hópi (sjá mynd 3). Um 60-70% þeirra sækir um almennt bóknám og hefur þetta hlutfall haldist nokkuð stöðugt síðastliðinn áratug. Aðeins 13% sækja um starfsnám að meðaltali, en umsóknum hefur fjölgað á undanförnum árum, úr 11‒12% (um 550 á ári) fram til ársins 2015, upp í 15‒17% síðustu þrjú ár (um 650‒750 á ári). Hér eru því jákvæð merki um aukinn áhuga þessa hóps á starfsmenntun. Að umsóknum í undirbúningsnám fækkar gefur tilefni til að velta því fyrir sér hvort um sé að ræða einhverja tilfærslu þaðan. Hlutfall hvers árgangs sem sækir um framhaldsskóla hefur verið á bilinu 92% til 96% á tímabilinu 2006 til 2022 (Hagstofa Íslands, 2023c) og því kemst mynd 3 nálægt því að sýna hlutfall hvers árgangs í heild.
Fjölgun umsókna nýnema í starfsnám síðastliðin ár er ein af ástæðum þess að höfnunarhlutfall hefur verið hátt í starfsnám síðastliðin ár (Menntamálastofnun, 2023). Höfnunarhlutfallið hefur af mörgum verið talið merki um viðhorfsbreytingu nemenda. Það eru góðar fréttir að ungmenni hafi nú meiri áhuga á starfsnámi en fara þarf varlega í túlkun á höfnunarhlutfallinu og eins er áríðandi að skoða heildarmyndina. Höfnunarhlutfall er sett saman úr bæði umsóknum og plássum í framhaldsskólum. Á sama tíma og umsóknum nýnema hefur fjölgað hefur plássum í starfsnámi almennt fækkað í kerfinu. Árið 2011 voru 3.783 nemendur teknir inn í starfsnám en árið 2021 voru þeir 2.555, sem er fækkun um 1.228 nemendur (Menntamálastofnun, 2023). Eitthvað af þessu skrifast á fjölgun nemenda í framhaldsskólum eftir efnahagshrunið. Staðan er þó sú að plássum í starfsnám hefur fækkað á tímabilinu og þegar aðsókn eykst verður það vandamál. Það gerir stöðuna svo flóknari að nemendur sem sækja um beint að loknum grunnskóla hafa forgang í skráningu í framhaldsskóla sem þýðir að þeir sem hafnað er í starfsnámi eru fyrst og fremst eldri nemendur.
Eldri nemendur og karlar sækja frekar í starfsnám
Það sem flækir heildarmyndina í samanburði bóknáms og starfsnáms er meðal annars aldursdreifing nemenda, en starfsnámsnemendur eru almennt eldri en bóknámsnemendur (sjá mynd 4). Eins og sést er aldurshópurinn 16–18 ára lang fjölmennastur í bóknámi og fjöldinn hefur verið á uppleið sé litið til lengri tíma. Aldurshópurinn 19–24 ára er fyrirferðarmikill í bóknámi en heldur hefur fækkað í þeim hópi hin síðari ár, væntanlega vegna styttingar náms til stúdentsprófs. Fjöldinn í elsta aldurshópnum, 25–50 ára, hefur líka verið heldur á niðurleið en þó voru fleiri en 1500 nemendur í þeim hópi skráðir í bóknám árið 2021. Á myndinni sést líka að í starfsnámi var aldurshópurinn 19–24 ára fjölmennastur lengi vel en fækkað hefur í honum hin síðari ár. Á móti hefur fjölgað nokkuð í elsta hópnum og þeim yngsta.
Annað sem flækir heildarmyndina, þegar aðsókn í bóknám og starfsnám er skoðuð, er kynjahlutfallið, en eins og mynd 5 sýnir þá sækja konur frekar í almennt bóknám en starfsnám en ekki er eins mikill munur hjá körlum. Heildarfjöldi umsókna fyrir karla og konur er nokkuð svipaður á hverju ári. Fjöldi umsókna kvenna í starfsnám hefur verið á niðurleið en fjöldi umsókna karla hefur verið stöðugri. Meiri aðsókn í starfsnám á síðastliðnum árum virðist fyrst og fremst vera vegna aukinnar aðsóknar karla. Karlar eru í meirihluta í flestum starfsgreinum á framhaldsskólastigi og uppgangur á byggingarmarkaði hefur líklega líka orsakað þessa fjölgun , en karlar hafa löngum verið í meirihluta í byggingagreinum (mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2018; Hagstofa Ísland, 2023c).
Í samantekt Jóns Torfa Jónassonar og Gunnhildar Óskarsdóttur (2016) er að finna greiningu sem kallast á við myndina hér á undan, en þar segja þau frá þróun og forspá fyrir hlutfall nemenda sem útskrifast með stúdentspróf fyrir 20 ára aldur. Spá Jóns Torfa og Gunnhildar var að fjöldi kvenna sem lokið hafa stúdentsprófi við 20 ára aldur væri að ná hámarki (var um 90% þegar greinin var skrifuð) en karlar áttu þá enn langt í land með að ná konum og voru í kringum 60% á sama tíma. Ef spá þeirra rætist má búast við að enn fleiri karlar ljúki stúdentsprófi á næstu árum sem boðar ekki endilega gott fyrir fjöldaþróun í starfsgreinum í óbreyttu kerfi.
Samantekt
Í fyrsta lagi sýna mannfjöldatölur og mannfjöldaspár Hagstofunnar að sveiflur hafa verið og verða í árgangastærðum næstu áratugina. Þessar sveiflur eru nokkrar, en almennt séð mun fjöldi fólks á framhaldsskólaaldri aukast til lengri tíma litið langt fram eftir öldinni. Það er því enginn sérstök ástæða til að búast við skyndilegri fækkun nemenda á komandi árum vegna þessa þáttar.
Í öðru lagi er hægt er að draga ýmsan lærdóm af fjölda umsókna og skráningu í framhaldsskóla á undanförnum árum. Merkja má aukinn áhuga á starfsnámi út frá fjölgun umsókna síðustu ár, en fara þarf varlega í túlkun á þeirri þróun, því aðsókn er mjög mismunandi eftir starfsgreinum. Einnig má merkja sveiflur í aðsókn vegna utanaðkomandi áhrifaþátta í gegnum tíðina, svo sem eftir efnahagshrunið og nú síðast í uppgangi á byggingamarkaði. Aðsóknartölur síðastliðinna tveggja áratuga sýna sveiflur í aðsókn og að aukning síðustu ára er ekki úr takti við þær. Því gæti verið um tímabundna aukningu að ræða og í nánustu framtíð gætum við séð fækkun í átt að því meðaltali sem hefur mátt sjá síðustu áratugina. Einnig þarf að taka kyn og aldur nemenda inn í myndina. Fjöldi umsókna kvenna um starfsnám hefur verið á niðurleið í mörg ár og fjölgunin hjá körlum er mest í eldri aldurshópum.
Í þriðja lagi virðist bóknám halda stöðu sinni sem það nám sem nemendur sækja helst í beint úr grunnskóla og eins sem það nám sem meirihluti framhaldsskólanema stundar. Fjölgun umsókna í starfsnám er því ekki á kostnað bóknámsins. Aðsókn í bóknám hefur haldist stöðug og ekkert í gögnunum bendir til þess að aukning í starfsnámi þýði fækkun í bóknámi, heldur virðist frekar vera um að ræða tilfærslu frá undirbúningsnámi (almennum brautum og framhaldsskólabrautum).
Í fjórða lagi hefur fækkun starfsnámsplássa í framhaldsskólum líka haft áhrif á umræðuna, en höfnunarhlutfallið í starfsnámi hefur aukist umtalsvert á allra síðustu árum, sérstaklega í tilteknum greinum. Hversu mörgum er hafnað hefur vakið verðskuldaða athygli og er alvarlegt mál, en varast ber að túlka höfnunarhlutfallið sem stórfellda aukningu í aðsókn. Það sýnir þó glöggt mikilvægi þess að fjölga plássum í starfsnámi.
Þegar allt er tekið saman er því fátt sem bendir til þess að um línulega aukningu í starfsnámi verði að ræða næsta áratuginn, líkt og gert er ráð fyrir í greiningu ráðuneytisins. Sérstaklega í ljósi þess að ekki liggja fyrir markvissar aðgerðir til að fá fleiri til að velja starfsnám og vinna á móti bóknámshalla í íslensku menntakerfi. Ekki nema ætlunin sé að torvelda aðgengi að bóknámi líkt og Gylfi Magnússon (2023) spyr. Miðað við gögnin ætti frekar að huga að ráðstöfunum nú strax til að mæta þeirri fjölgun nemenda sem væntanleg er í bóknámi á næstu árum vegna stórra árganga sem fljótlega munu komast á framhaldsskólaaldur.
Að framansögðu má velta fyrir sér hvort vit sé í þeim sameiningarhugmyndum sem viðraðar hafa verið að undanförnu. Ljóst er að bæta þarf aðstöðu til starfsnáms, bæði í ljósi fækkunar plássa í framhaldsskólum og aukinnar aðsóknar. Aftur á móti er varhugavert að ætla að aðsókn ungmenna í bóknám í framhaldsskóla muni dragast saman á sama tíma. Á Íslandi hefur löngum verið rík bóknámshefð og bóknámsbrautir framhaldsskóla hafa frá því upp úr 1970 tekið til sín stærsta hluta nemenda (Elsa Eiríksdóttir o.fl., 2018; Jón Torfi Jónasson og Gunnhildur Óskarsdóttir, 2016). Þrátt fyrir ítrekaðar atlögur að því að jafna stöðu bóknáms og starfsnáms hefur lítið þokast (Ríkisendurskoðun, 2017). Þó að jákvæð teikn séu á lofti um aukinn áhuga kennir sagan að varast ber að taka því sem gefnu að þetta þýði áframhaldandi fjölgun í starfsnámi – án bæði sértækra og víðtækra aðgerða. Það er þó vissulega mikilvægt að undirbúa jarðveginn og huga að þeim innviðum sem þarf svo að starfsnámsnemendum geti fjölgað og hægt sé að taka á móti þeim sem hafa hug á að fara í starfsnám.
Heimildir
Alþingi. (2023, 5. maí). Sérstök umræða mánudaginn 8. maí um framtíð framhaldsskólanna. Alþingi. https://www.althingi.is/thingstorf/tilkynningar/serstok-umraeda-manudaginn-8.-mai-um-framtid-framhaldsskolanna
Cedefop (2020). Developments in vocational education and training policy in 2015-19: Iceland. Cedefop. https://www.cedefop.europa.eu/en/publications-and-resources/country-reports/developments-vocational-education-and-training-policy-2015-19-iceland
Elsa Eiríksdóttir. (2022). Áskoranir starfsmenntunar: Aðgengi starfsmenntanema að háskólanámi. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Framtíð og tilgangur menntunar: Sérrit til heiðurs Jóni Torfa Jónassyni, prófessor emeritus. https://netla.hi.is/serrit/2022/heidurs_jon_torfa/09.pdf
Elsa Eiríksdóttir, Guðrún Ragnarsdóttir og Jón Torfi Jónasson. (2018). Þversagnir og kerfisvillur? Kortlagning á ólíkri stöðu bóknáms- og starfsnámsbrauta á framhaldsskólastigi. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sérrit 2018 – Framhaldsskólinn í brennidepli. https://netla.hi.is/serrit/2018/framhaldskolinn_brennidepli/07.pdf
Guðrún Ragnarsdóttir. (2018). Kvika menntabreytinga: Viðbrögð framhaldsskólans við kröfum menntayfirvalda um breytingar Netla – veftímarit um uppeldi og menntun. Sérrit 2018 – Framhaldsskólinn í brennidepli. https://netla.hi.is/serrit/2018/framhaldskolinn_brennidepli/05.pdf
Gylfi Magnússon. (2023, 18. maí). Bókvit, skólar og húsnæði þeirra. Heimildin. https://heimildin.is/grein/17823/bokvit-skolar-og-husnaedi-theirra/
Hagstofa Íslands. (2023a, 6. júní). Íbúar – Yfirlit mannfjölda. Hagstofa Íslands. https://hagstofa.is/talnaefni/ibuar/mannfjoldi/yfirlit/
Hagstofa Íslands. (2023b, 6. júní). Íbúar – Mannfjöldaspá. Hagstofa Íslands. https://hagstofa.is/talnaefni/ibuar/mannfjoldaspa/mannfjoldaspa/
Hagstofa Íslands. (2023c, 6. júní). Framhaldsskólastig – Talnaefni. Hagstofa Íslands. https://hagstofa.is/talnaefni/samfelag/menntun/framhaldsskolastig/
Hagstofa Íslands. (2018, 9. apríl). Nýnemum fækkar í starfsnámi á framhaldsskólastigi. Hagstofa Íslands. https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/menntun/nynemar-a-framhaldsskolastigi-1997-2016/
Höskuldur Kári Schram. (2023, 8. maí). Efast um sameiningaráform ráðherra. Ríkisútvarpið. https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-05-08-efast-um-sameiningaraform-radherra
Ísak Gabríel Regal. (2023, 27. apríl). Skoða að sameina Kvennaskólann og Menntaskólann við Sund. Ríkisútvarpið. https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-04-27-skoda-ad-sameina-kvennaskolann-og-menntaskolann-vid-sund
Jón Agnar Ólason. (2021, 1 september). Samiðn gagnrýnir harðlega stöðu iðnnáms. Ríkisútvarpið. https://www.ruv.is/frettir/innlent/2021-09-01-samidn-gagnrynir-hardlega-stodu-idnnams
Jón Torfi Jónasson (1995). Baráttan á milli bóknáms og starfsmenntunar á framhaldsskólastigi. Í Friðrik H. Jónsson (Ritstjóri), Rannsóknir í félagsvísindum (bls. 277-285). Félagsvísindastofnun HÍ, Háskólaútgáfan.
Jón Torfi Jónasson og Gunnhildur Óskarsdóttir. (2016). Iceland: Educational structure and development. Í T. Sprague (Ritstjóri), Education in non-EU countries in Western and Southern Europe (bls. 11-36). Ritröð: Education Around the World. Bloomsbury. ePub: 978-1-4725-9250-7
Kristín Sigurðardóttir. (2021, 10. ágúst). Bæta þarf fjármunum í menntakerfið. Ríkisútvarpið. https://www.ruv.is/frettir/innlent/2021-08-10-baeta-tharf-fjarmunum-i-menntakerfid
Lög um framhaldsskóla nr. 92/2008.
Menntamálastofnun. (2023, 30. maí). Framhaldsskólatölfræði. Menntamálastofnun. https://mms.is/framhaldsskolatolfraedi
Mennta- og barnamálaráðuneytið. (2022, 8. nóvember). Aðgerðir til að fjölga nemum í starfsnámi. Stjórnarráð Íslands. https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2022/11/08/Adgerdir-til-ad-fjolga-nemum-i-starfsnami/
Mennta- og barnamálaráðuneytið. (2023a, 2. mars). Meira og betra verknám. Stjórnarráð Íslands. https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2023/03/02/Meira-og-betra-verknam/
Mennta- og barnamálaráðuneytið. (2023b, 24. apríl). Stýrihópur um eflingu framhaldsskóla. Stjórnarráð Íslands. https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2023/04/24/Styrihopur-um-eflingu-framhaldsskola/
Mennta- og barnamálaráðuneytið. (2023c). Greinargerð um húsnæðisþörf í framhaldsskólum 2023-2033. https://www.stjornarradid.is/library/01–Frettatengt—myndir-og-skrar/MRN/greinargerd-husnaedistharfir-framhaldsskola-MRN-020323.pdf
Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2012). Aðalnámskrá framhaldsskóla 2011. Almennur hluti. Höfundur.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2018). Samantekt úr education at a glance 2018. Skýrsla OECD um menntatölfræði. https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Menntamalaraduneytid/Samantekt_Education%20at%20a%20Glance%202018%20.pdf
Ríkisendurskoðun. (2017). Starfsmenntun á framhaldsskólastigi. Skipulag og stjórnsýsla. Höfundur. https://www.rikisend.is/reskjol/files/Skyrslur/2017-Starfsmenntun-a-framhaldsskolastigi.pdf
Samtök iðnaðarins. (2022, 7. júní). Fjármagn fylgir ekki aukinni aðsókn í iðnnám. Samtök iðnaðarins. https://www.si.is/frettasafn/fjarmagn-fylgir-ekki-aukinni-adsokn-i-idnnam
Um höfunda
Elsa Eiríksdóttir (elsae(hja)hi.is) er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1999 og meistara- og doktorsprófi í verkfræðilegri sálfræði frá Georgia Institute of Technology 2007 og 2011. Rannsóknir hennar hafa helst snúið að verk- og starfsmenntun, framhaldsskólastiginu, hugrænni námssálarfræði, þróun kunnáttu og yfirfærslu þekkingar.
Sæberg Sigurðsson (saes3(hja)hi.is) er doktorsnemi við Mennavísindasvið Háskóla Íslands og kennari við Tækniskólann. Hann lauk BS-prófi í eðlisfræði árið 1994 og kennsluréttindanámi ári síðar. Hann lauk einnig MEd-prófi í náms- og kennslufræði 2016 og diplómanámi í opinberri stjórnsýslu 2018 frá sama skóla. Rannsóknarverkefni hans í doktorsnámi er á sviði verk- og starfsmenntunar.