Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Að móta öðruvísi enskukennslu – Reynsla af vendinámi við enskukennslu í framhaldsskóla

í Greinar

Geir Finnsson

 

Undanfarið ár hef ég notið þeirra forréttinda að fá að kenna ensku í framhaldsskóla. Rétt eins og mér var sagt þegar ég hóf störf fyrir um einu og hálfu ári síðan hefur starfið reynst afskaplega gefandi og skemmtilegt.

Þess ber hins vegar að geta að skólinn sem ég kenni við, Menntaskólinn á Ásbrú (MÁ) við Keili, er frábrugðinn öðrum framhaldsskólum. Þessi nýjasti framhaldsskóli landsins, stofnaður árið 2019, er ekki aðeins óvenjulegur að því leyti að bjóða upp á tölvuleikjagerðarbraut, heldur fer kennslan þar einvörðungu fram með vendinámi.

Um vendinámið

Vendinám (e. flipped learning/classroom) er nýleg, verkefnamiðuð kennsluaðferð sem snýst í grunninn um að líta á nám út frá tveimur rýmum. Það er annars vegar einstaklingsrýmið (e. individual space), þegar nemendur vinna á eigin forsendum og hins vegar hóparýmið (e. group space) þegar nemendur vinna í samvinnu við aðra nemendur eða kennara – oftast í skólastofu eða í gegnum netið (Flipped Learning Network, 2014). Þannig verður heimanám nemenda að afla sér upplýsinga, gjarnan með því að horfa á myndskeið eða lesa texta og síðan mæta þeir í tíma til að vinna verkefni sem byggjast á þessum upplýsingum undir handleiðslu kennara.

Vendinám hefur verið þekkt undir ýmsum heitum. Í upphafi var talað um vendikennslu (e. flipped teaching) og má rekja það til bandarísku kennaranna Jonathan Bergmann og Aaron Sams sem hófu að taka upp fyrirlestra sína árið 2007 fyrir nemendur sem misstu af kennslustundum. Þeir félagar sáu fljótlega kostina við að bjóða nemendum upp á að horfa á upptökur af fyrirlestrum sínum eins oft og þeim hentaði í stað þess að fá aðeins eitt tækifæri til að hlýða á efnið frá kennurum í kennslustofunni. Vendikennsla snerist þannig um að nemendur undirbyggju sig heima með því að hlýða á upplýsingar frá kennara sínum og mæta svo í tímann til að vinna úr þessum sömu upplýsingum undir handleiðslu kennarans (Bergmann og Sams, 2012).

Í gegnum áranna rás hefur hugmyndafræðin þróast og nú er oftar talað um vendinám, þar sem bein kennsla á sér stað í einstaklingsrými nemenda og í hóparými er nemendum gert kleift að vinna á eigin forsendum í samvinnu við aðra undir handleiðslu kennarans. Þannig fá kennarar nægan tíma til að veita hverjum og einum nemenda einstaklingsmiðaða aðstoð.

Í vendinámi er þumalputtareglan sú að þegar nemendur meðtaka nýjar upplýsingar, eins og að horfa á, hlusta eða lesa eitthvert efni, þá eigi það aðeins að gerast í einstaklingsrýminu. Það rými getur verið hvar sem er, t.d. heima, á bókasafni, kaffihúsi eða einfaldlega einhvers staðar þar sem nemendur fá næði til kynna sér efnið. Þegar nemendur mæta svo í tíma, í hóparýmið, nýta þeir upplýsingarnar sem þeir öfluðu utan kennslustofunnar og vinna verkefni sem byggjast á þessum sömu upplýsingum.

Hvernig fer vendinám fram í MÁ?

Í MÁ (og Keili, þar sem skólinn er til húsa) er öll aðstaða sett upp til að styðja við vendinám. Nemendur mæta í tíma í stofu (hóparýmið) samkvæmt stundatöflu en sjálfar stofurnar eru hannaðar út frá því að nemendur séu í forgrunni. Þannig eru hægindastólar, sófar, stólar, borð o.fi. á víð og dreif um stofurnar svo að bæði nemendur og kennari geta komið sér þægilega fyrir og hafist handa við verkefni dagsins. Þá er einnig í boði fyrir nemendur að vinna verkefni annars staðar í byggingunni, óski þeir eftir því.

Skólinn byggir á lotukerfi og skiptist hver önn í tvær lotur (samtals fjórar yfir heilan vetur). Nemendur taka þá færri áfanga í hverri lotu en verja lengri tíma í hverri viku í sömu áföngum. Það þýðir að t.d. hefðbundinn enskuáfangi er kenndur átta klukkustundir í hverri viku. Á einum degi er því eðlilegt að kenna sama hópnum ensku í þrjár klukkustundir – sem gerir það að verkum að nemendur fá nægan tíma til að vinna krefjandi verkefni undir handleiðslu kennara.

Verðmætur stuðningur kennarasamfélagsins

Sjálfur skrifaði ég meistararitgerðina mína (Geir Finnsson, 2021) um innleiðingu vendináms fyrir enskukennslu í íslenskum framhaldsskólum. Auk þess hafði ég sýnt nálguninni mikinn áhuga í kennaranáminu og því var það kærkomið og spennandi viðfangsefni að fá að kenna strax eftir útskrift í MÁ. Í raun er ég eini enskukennarinn í þessum nýja og (sem stendur) litla skóla og því gefst mér talsvert faglegt frelsi bæði til að móta og þróa enskukennslu út frá vendinámi.

Að því sögðu var ég jafn spenntur fyrir þessu viðfangsefni og ég var smeykur. Ég öfundaði nefnilega félaga mína í kennaranáminu að vissu leyti þegar ég fylgdist með þeim hefja störf í rótgrónari skólum. Það er krefjandi að byrja að kenna og því óneitanlega gott að fá að njóta handleiðslu reynslumikilla kennara og sömuleiðis öruggari tilhugsun að nota gamalkunnar kennsluaðferðir.

Sem betur fer hef ég komist að raun um að kennarasamfélagið, bæði í MÁ og um land allt, er uppfullt af góðhjörtuðum einstaklingum sem hafa stutt við bakið á mér og boðið ómetanlega ráðgjöf. Ég lærði það snemma í ferlinu að allir kennarar búa yfir verðmætri þekkingu sem nýtist vel í öllu skólastarfi, hvort sem þeir kenna sama fag og maður sjálfur eða nota svipaða kennsluaðferð. Þessi stuðningur gerði það að verkum að ég komst vel yfir einn þann hjalla sem einkennir oft fyrstu misserin í vendinámi fyrir kennara. Umræddur hjalli felst í þeirri miklu vinnu sem fer í að búa til efni frá grunni. Kennsluefni í vendinámi þarf oftar en ekki að vera frábrugðið því sem gengur og gerist svo það henti betur fyrir verkefnamiðað nám, lengri kennslustundir og breytt hlutverk kennara, svo ákveðin dæmi séu nefnd (He o.fl., 2016).

Áskoranir

Töluvert álag getur fylgt því að undirbúa kennslustund í vendinámsumhverfi, sér í lagi þegar um þriggja klukkutíma kennslustund er að ræða. Þá ber að tryggja að upplýsingarnar sem nemendur afla sér í einstaklingsrýminu séu góðar, upplýsandi og áhugaverðar svo nemendur verði vel undirbúnir fyrir verkefnin í hóparýminu. Einn af grundvallarþáttunum í vendinámi er að hafa upptökur eða kennslumyndbönd ekki of löng og gæta þess að efnið sé hnitmiðað. Rannsóknir sýna að nemendur séu líklegri til að afla sér upplýsinga um viðfangsefnið ef hægt er að búta niður efnið, til dæmis þegar um myndskeið er að ræða, í stuttar klippur sem þægilegt er að horfa á (Leis og Brown, 2018). Þá eru nemendur líklegri til að horfa oftar en einu sinni til að tryggja að þeir skilji efnið.

Í MÁ eru engin lokapróf en þess í stað eru lögð fyrir krefjandi verkefni í hverri viku. Þá er reglan sú að nemendur hafi alltaf frest í síðasta lagi til kl. 18:00 á hverjum föstudegi til að skila verkefnum vikunnar svo þeir vinni jafnt og þétt yfir lotuna. Því ber að fara hratt og örugglega yfir öll verkefni jafnóðum. Í þessu fyrirkomulagi skipta verkefnin miklu máli og því er æskilegt að hafa þau fjölbreytt, bæði að gerð og lengd. Þá er líka mikilvægt að veita uppbyggjandi endurgjöf eins fljótt og auðið er, svo nemendur læri af því sem betur má fara.

Ég viðurkenni að fyrstu vikurnar mínar í kennslu voru langt frá því að vera gallalausar. Þrátt fyrir að hafa hlotið talsverða menntun í vendinámi og auk þess tekið rafrænt námskeið hjá Flipped Learning Global Initiative (FLGI), sem verðandi kennurum Keilis ber að taka, þá upplifði ég strax að ég væri svo vanur hefðbundnari kennsluaðferðum að þær áttu til með að lauma sér nokkuð oft inn í kennslu hjá mér. Jafnframt gerist það reglulega að mér líði eins og ég sé að gera eitthvað rangt þegar ég, sem kennarinn, er ekki stöðugt í forgrunni í kennslustundinni að tala til alls hópsins. Það tekur nefnilega tíma, bæði fyrir kennara og nemendur að venjast nýjum kennsluháttum, rétt eins og á er bent á FLGI námskeiðunum og það er hollt að minna sig á það.

Sem betur fer var fyrsti hópurinn sem ég kenndi búinn að vera í vendinámi í um tvö ár svo það var öllu heldur ég, sjálfur sérfræðingurinn, sem þurfti á aðlöguninni að halda. Þá var líka gott að vita að þótt nemendur þyrftu að hafa töluvert af myndskeiðum (auk annars efnis) til að horfa á fyrir hvern tíma, var ekki þar með sagt að ég þyrfti að taka upp efni af mér sjálfum fyrir hverja kennslustund. Nóg er til af góðum myndskeiðum á veraldarvefnum sem sjálfsagt er að nýta þegar þannig stendur á og sérstaklega í upphafi á meðan nýir kennarar eru að koma sér upp námsefnisbanka.

Nemendur leysa fjölmörg verkefni undir handleiðslu kennara

Það sem einkennir vendinám einna helst, að mínum dómi, er sú ríka áhersla sem lögð er á verkefnamiðað nám. Þegar ég hóf störf við MÁ var mér tjáð að markmiðið þar væri að útskrifa nemendur sem yrðu góðir verkefnastjórar, skapandi og lausnamiðaðir með sjálfstraust og frumkvæði og gætu unnið sjálfstætt. Það litar nefnilega allt skólastarfið í MÁ hversu mikið nemendur vinna saman í hópum og leysa verkefni sem snúast um að finna lausnir sem kennarinn hefur ekki endilega alltaf séð fyrir áður en hafist er handa.

Algeng verkefni hjá mér felast til dæmis í að nemendur afli sér upplýsinga um áhugasvið sín, eða annað sem tengist námsefninu hverju sinni og kynni síðan fyrir hvert öðru (og forvitnum kennara þar að auki). Þetta fyrirkomulag þekkja eflaust flestir kennarar en með vendinámi býðst nemendum kostur á að hafa nægan tíma og gott ráðrúm til að vinna slík verkefni undir handleiðslu kennarans. Í ljósi þess hve verkefnamiðað vendinám er, hefur reynst mér mikilvægt að hefja lotuna á verkefnum, þar sem nemendur ræða áhugasvið sín og framtíðaráform og máta þau við námsefni áfangans. Þannig notfæri ég mér þær upplýsingar sem nemendur koma á framfæri og nýti þær til að sníða næstu verkefni áfangans betur að þörfum nemenda.

Að mínum dómi getur vendinám skilað okkur einstaklingum í samfélagið sem kunna að hugsa út fyrir rammann þegar kemur að því að leysa öll möguleg viðfangsefni sem glíma þarf við á vinnustað. Eins og áður hefur komið fram býður MÁ upp á tölvuleikjagerðarbraut til stúdentsprófs og því skiptir þetta markmið máli til að gera nemendur tilbúna fyrir þær krefjandi aðstæður sem einkenna tölvuleikjaiðnaðinn. Þar þurfa starfsmenn, með fjölbreytilega styrkleika, að vinna saman í ólíkum hópum við að leysa ýmiss konar verkefni sem hafa mörg hver aldrei verið leyst áður. Því er mikilvægt að til sé vettvangur innan skólasamfélagsins þar sem nemendur eru búnir undir nákvæmlega slíkar aðstæður.

Aukin reynsla kennara af vendinámi getur leitt af sér fjölbreyttara námsefni

Um leið og ég fór að ná tökum á því umhverfi sem vendinámið í MÁ býður upp á, varð auðveldara og í raun skemmtilegra fyrir mig að búa til verkefni og kennsluefni fyrir nemendur sem þau voru líklegri til að sýna áhuga. Sem dæmi má nefna tíma sem snerust um að kenna nemendum að skrifa vandaða tölvupósta, gera álitlegar ferilskrár og fleira sem undirbjó þau fyrir störf í framtíðinni. Í stað þess, til dæmis, að leggja fyrir nemendur að afla sér upplýsinga í einstaklingsrýminu og búa svo til flotta tölvupósta í hóparýminu, nýtti ég tækifærið til að láta þau gera eins slæmar útgáfur af tölvupóstum og þau gátu. Síðar, eftir mjög broslegar umræður um afraksturinn, rýndum við í það sem var viljandi gert illa og nemendur gerðu í kjölfarið bættar útgáfur af verkefninu.

Það eru nefnilega mörg tækifæri til að gera námið skemmtilegra og þar af leiðandi áhugaverðara í hugum nemenda. Annað dæmi er þegar nemendur áttu að undirbúa kynningar hjá mér í ensku. Í stað þess að gera hefðbundna kynningu nýtti ég tækifærið og hóf þverfaglegt samstarf við kennara tölvuleikjagerðaráfangans í MÁ. Í þeim áfanga áttu nemendur að leggja drög að eigin tölvuleik og kynna hann fyrir alvöru tölvuleikjafyrirtæki á ensku. Þar af leiðandi þótti mér kjörið að nemendur nýttu enskutímana til þess að undirbúa sjálfa kynninguna og kynna síðan fyrir mér í enskutíma og fá í kjölfarið uppbyggjandi endurgjöf sem nýttist þeim þegar á hólminn væri komið.

Ábatinn af vendinámi

Það er gagnlegt fyrir mig að líta yfir farinn veg eftir þennan rúmlega eins árs kennsluferil. Það er eitt að fræðast um kennsluaðferð eins og vendinám og annað að láta á hana reyna í verki og sú reynsla hefur reynst mér dýrmæt. Það er til að mynda merkilegt að sjá hversu mikið fræðin virðast endurspegla veruleikann, bæði hvað kosti og galla vendináms varðar. Til að mynda vöruðu kennarar á áðurnefndu FLGI námskeið við því að á köflum liði kennurum eins og þeir væru ekki að sinna starfi sínu einfaldlega því kennarinn er ekki í forgrunni allan tímann. Í vendinámi verða kennarar að mörgu leyti að leiðbeinendum og því getur þurft tíma til að venjast því fyrirkomulagi.

Það er krefjandi viðfangsefni að tileinka sér vendinám, bæði sem kennari og nemandi. Þess vegna er mikilvægt að flýta sér hægt og taka nálgunina í hægum skrefum svo hún virki sem best. Sömuleiðis virðist ábatinn haldast í hendur við það sem sagt hefur verið um vendinámsumhverfið; að nemendur fái gott rými og tíma til að tileinka sér þau vinnubrögð sem gera má ráð fyrir að verði á vinnustöðum í framtíðinni (Bergmann og Sams, 2012). Jafnframt virðast nemendur líklegri til að temja sér sjálfstæð vinnubrögð í vendinámi og hefur fyrirkomulagið auk þess hentað mér, sem kennara, vel til að efla bæði talað og skrifað mál nemenda. Hvort tveggja er stutt af rannsóknum (Turan og Akdag-Cimen, 2020).

Þá ber að nefna þann kost sem stendur upp úr í mínum huga. Hann er sá að vendinám gefur kennurum talsvert meiri tíma til þess að veita hverjum einasta nemanda einstaklingsmiðaða leiðsögn í öllum kennslustundum (Bergmann og Sams, 2016). Við kynnumst nemendum okkar nánar og getum þá sérstaklega komið betur til móts við ólíkar þarfir þeirra.

Mín næstu skref

Nú þegar ég hef kennt alla mína áfanga að minnsta kosti einu sinni þarf ég ekki að verja eins mikilli orku í að útbúa námsefni frá grunni. Þess í stað get ég gengið að því sem ég hef áður gert, byggt á því og bætt það svo fyrir komandi misseri. Þótt það sé vissulega freistandi að breyta engu frá því í fyrra og spara mér vinnuna þegar ég undirbý kennsluna, þá er spennandi að nýta frekar tækifærið til að byggja á þeim grunni sem ég hef lagt og prófa eitthvað nýtt. Hægt er að ganga að mikilli þekkingu, bæði í vendinámssamfélaginu um allan heim og í kennarasamfélaginu hérlendis. Ég bý við þau forréttindi að hafa rými og faglegt frelsi til að nýta mér hana eins og kostur er.

Nú þegar ég er nógu öruggur til að nýta mér vendinámið til fullnustu, finn ég mig þeim mun meira knúinn til að taka áhættu og prófa mig áfram með hugmyndir sem kvikna í samskiptum við aðra kennara. Á nýrri önn hef ég það til dæmis að markmiði að leggja enn meiri áherslu á undirbúning nemenda, bæði fyrir atvinnulíf og háskólanám og því er mikilvægt að nýta óhefðbundnar og skemmtilegar lausnir í þeim tilgangi að vekja áhuga nemenda og hjálpa þeim að móta sinn eigin farveg í þeim efnum.

Að lokum

Eftirá að hyggja er ég feginn því að hafa stokkið út í djúpu laugina um leið og ég byrjaði að kenna. Það hefur vissulega verið krefjandi og jafnvel taugatrekkjandi að þróa enskukennslu í vendinámi við framhaldsskóla, en ríkur stuðningur kennarasamfélagsins leiddi til þess að það tókst vel til. Það eru algjör forréttindi að fá faglegt frelsi til þess að móta umgjörð utan um óhefðbundna kennsluaðferð. Þá skiptir einnig máli að vera í virkum samskiptum við aðra kennara, burtséð frá faggreinum og nálgunum, í því skyni að fá reglulega speglun á eigin verk og sömuleiðis verðmæta endurgjöf. Mestu skiptir að við séum opin fyrir því að miðla af þekkingu okkar og reynslu og njótum þess að prófa nýjungar og taka áhættu með ábata nemenda að leiðarljósi.

Ráð mín til kennara sem hafa í hyggju að taka upp vendinám (eða aðra kennsluaðferð) eru að flýta sér hægt. Til þess að innleiða vendinám er nauðsynlegt að gera það í litlum skrefum, bæði fyrir kennara og nemendur. Sjálfur gaf ég mér góðan tíma og um leið og ég fór að finna að ég hafði viðunandi þekkingu á vendinámi urðu hugmyndirnar frjórri, nemendum til hagsbóta. Það eru litlu skrefin sem telja, að finna hugrekkið til að þora að hrinda mínum eigin hugmyndum í framkvæmd, rýna í hvað gekk vel og hvað mætti betur fara, svo ég læri af reynslunni. Með því bæti ég ekki einungis eigin kennsluhætti heldur sýni ég nemendum mínum það dýrmæta fordæmi að prófa nýja hluti, þiggja endurgjöf og læra af eigin mistökum.

Heimildir

Bergmann, J. og Sams, A. (2012). Flip your classroom: Reach every student in every class every day. International Society for Technology in Education.

Bergmann, J., Sams, A. og Gudenrath, A. (2016). Flipped learning for English instruction. Hawker Brownlow Education.

Flipped Learning Network (FLN) (2014). The four pillars of F-L-I-P™ https://flippedlearning.org/wpcontent/uploads/2016/07/FLIP_handout_FNL_Web.pdf

Geir Finnson. (2021). „Forced to find new paths“: Facilitating the flipped classroom approach in the Upper Secondary School English Classroom [óútgefin meistararitgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/38065

He, W., Holton, A., Farkas, G. og Warschauer, M. (2016). The effects of flipped instruction on out-of-class study time, exam performance, and student perceptions. Learning and Instruction, 45, 61–71. doi:10.1016/j.learninstruc.2016.07.001

Zeynep Turan og Birgul Akdag-Cimen (2020). Flipped classroom in English language teaching: a systematic review. Computer Assisted Language Learning, 33:5-6, 590–606. doi: 10.1080/09588221.2019.1584117


Um höfund

Geir Finnsson (geir.f(hja)keilir.net) er kennari við Menntaskólann á Ásbrú, Keili auk þess að vera félagsmálafulltrúi skólans. Geir lauk meistaranámi í enskukennslu við Háskóla Íslands árið 2021 og hóf störf hjá MÁ síðar sama ár. Meistararitgerð Geirs fjallaði um áskoranir við innleiðingu vendináms í enskukennslu við íslenska framhaldsskóla.


Myndirnar með greininni eru úr myndasafni Keilis.

Greinin hlaut viðurkenningu í samkeppni Samtaka áhugafólks um skólaþróun um ritun greina um áhugaverð þróunarverkefni í framhaldsskólum.


Grein birt 14. febrúar 2023

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp