Rætt við Ástu Kristjönu Guðjónsdóttir, kennara í Reykholtsskóla í Bláskógabyggð, einn af fimm kennurum sem tilnefndir voru til Íslensku menntaverðlaunanna 2022
Íslensku menntaverðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 2. nóvember sl. Sýnt var frá athöfninni í sjónvarpsþætti á RUV kvöldið eftir. Verðlaunin eru veitt í fjórum flokkum: Framúrskarandi skólastarf, kennsla, þróunarverkefni og iðn- og verkmenntun. Að auki eru veitt hvatningarverðlaun (sjá nánar hér). Verðlaunahafar voru kynntir vel í fyrrnefndum sjónvarpsþætti (sjá hér), en ritstjórn Skólaþráða hafði áhuga á að fá að kynnast betur þeim kennurum sem tilnefndir voru fyrir framúrskarandi kennslu. Því var ákveðið að leita til þeirra og biðja þau að svara nokkrum spurningum um viðhorf sín og reynslu og urðu þau góðfúslega við þeirri beiðni.
Viðtölin munu birtast á næstu dögum og er það fyrsta hér, við Ástu Kristjönu Guðjónsdóttir. Ásta var tilnefnd fyrir framúrskarandi árangur við að einstaklingsmiða kennslu og koma til móts við nemendur með fjölbreyttar þarfir. Ásta lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1990, diplómunámi í tölvu og upplýsingatækni frá sama skóla 2003. Síðan sneri hún sér að sérkennslufræðum og lauk meistaragráðu á því sviði 2009. Ásta hefur kennt í Reykholtskóla frá 2014, en hafði áður kennt við skóla víða um land, auk ritstjórnarvinnu hjá Námsgagnastofnun. Ásta hefur unnið að margþættum þróunarverkefnum, einkum verkefnum sem tengjast upplýsingatækni í skólastarfi. Undanfarin ár hefur hún unnið að innleiðingu upplýsingatækni í Reykholtsskóla með það að markmiði að auðvelda nemendum aðgengi að verkfærum sem stuðla að fjölbreyttari námsleiðum og verkefnaskilum. Ásta hefur haldið fyrirlestra og námskeið fyrir kennara um tölvu- og snjalltækni í skólastarfi.
Ásta var spurð um Íslensku menntaverðlaunin og hvort tilnefningin hefði haft einhverja þýðingu fyrir hana?
Ég er stolt og ánægð yfir tilnefningunni. Hún fékk mig til að staldra aðeins við og skoða hvar ég er stödd núna og rifja upp kennsluárin mín. Mig langar að minnast mágkonu minnar Jóhönnu Gestsdóttur, en hún var framúrskarandi kennari, fyrirmynd mín og mikill áhrifavaldur þegar ég var að stíga mín fyrstu skref sem umsjónarkennari.
Hvers vegna ákváðstu að að verða kennari?
Ég var líklega átta ára þegar ég ákvað að verða kennari en þá gekk mér svo vel að kenna bróður mínum að lesa. Alla skólagönguna fylgdist ég svo gagnrýnin með kennurum mínum til að finna út hvaða eiginleikar prýða góðan kennara. Ólafur Jónsson umsjónarkennari minn í 9. bekk (nú 10. bekk.) í Fellaskóla er dæmi um góðan kennara sem gaf sér tíma til að hlusta á nemendur, talaði við þá af virðingu og fannst jafn mikilvægt að skapa góðan samheldinn bekk eins og að kenna fræðin.
Í umsögn um Ástu Kristjönu sem fylgdi tilnefningu sagði meðal annars:
Á meðan aðrir kennarar hvíla sig á striti hversdagsins situr Ásta við og kynnir sér nýjustu kennsluöppin, les greinar um nýjar rannsóknir um lestrarnám og lestrarhamlanir eða æfir sig við tæknilegar lausnir sem koma henni að gagni í starfinu. Ástríða hennar fyrir starfinu og ákveðni hennar í því að finna aðferðir sem virka fyrir hvert og eitt barn svo það geti tileinkað sér nám og nýja þekkingu er aðdáunarverð. Fagmennskan er í fyrirrúmi; nærgætni, þolinmæði og skilningur á leshömlun, hegðunarröskununum og tilfinningavanda eða hverju sem veldur námserfiðleikunum.
Hefur kennslan þín breyst með aukinni reynslu?
Fyrstu tvö árin mín í kennslu grét ég oft því álagið var svo mikið við að halda utan um þetta starf og halda um leið aga í bekknum. Þá hugsaði ég með mér að allt yrði miklu betra þegar ég væri búin að kenna í mörg ár því þá væri ég alveg með tökin á námsefninu og búin að læra frábærar agastjórnunaraðferðir. En nú þrjátíu árum síðar finnst mér ég oft á byrjunarreit. En nú hef ég meiri þekkingu á orsökum hegðunar hjá nemendum. Ég er fljót að sjá á hvaða rófi þeir eru og hvaða námsleiðir henta. Ég byrjaði ferilinn með glærum og fyrirlestrum en núna er ég alltaf að skoða kennsluhætti mína og aðlaga að mismunandi þörfum nemenda. Enginn dagur er eins.
Því er haldið fram að kennarastarfið sé að breytast. Auknar kröfur séu gerðar til kennara og álag að aukast. Hver er skoðun þín á þessu?
Já, kennarastarfið er að breytast. Við leggjum minni áherslu á utanbókarnám en meiri á færni við að afla sér upplýsinga og að greina góðar heimildir frá slæmum. Við leggjum áherslu á þrautseigju, frumkvæði, gagnrýna og skapandi hugsun. Ég er mjög hlynnt skóla án aðgreiningar en til þess að sinna hverjum og einum nemanda þar sem hann er staddur þarf kennarinn að vinna í teymi með öðrum fagaðilum, hafa góðan undirbúningstíma og fáa nemendur í umsjón.
Á hvað leggur þú megináherslu í kennslunni þinni?
Ég fór í þetta starf af því ég vildi að nemendum mínum liði vel í skóla. Skemmtilegast finnst mér þegar nemandi tekur eitthvað frá mér og bætir við eða breytir svo úr verður enn skemmtilegra verkefni. Þegar ég horfi á kennsluáherslur skólans með augum nemanda með dyslexíu sé ég mikilvægi þess að nota fjölbreyttar námsaðferðir til að jafna aðstöðu nemenda til náms. Ég nota spjaldtölvuna sem kennslutæki og get eiginlega ekki hugsað mér kennslustund án hennar. Ég er bara hissa á því að það séu ekki allir búnir að uppgötva hvílíkt hjálpartæki hún er fyrir nemendur. Ég vil að nemandi fái krefjandi verkefni en að kennarinn útvegi honum leiðir og stoðir til að það verði viðráðanlegt að skila því vel.
Getur þú nefnt dæmi um viðfangsefni í kennslu sem eru þér sérstaklega minnistæð? Stendur eitthvað upp úr?
Það er nú margt sem kemur í hugann eftir 32 ára starf. Fyrstu árin var ég mjög upptekin við að tengja kennsluna við færnimarkmið úr Aðalnámskrá. Því stendur svolítið upp úr þegar það tókst ekki. Ég á til dæmis góðar minningar frá árunum mínum í Grundaskóla þegar ég kenndi í yngstu bekkjunum þar. Nemendur í þeim hópi voru mjög duglegir að útfæra verkefni sem ég var búin að skipuleggja. Til dæmis varð ánamaðka-kennslan mín að nokkurra vikna þema þar sem þau vildu búa til hús fyrir ánamaðkana með rúmi, gardínum, borðum og stólum.
Í spjalli við unga nemendur við Grunnskólann á Hólum kom í ljós að mörg voru að safna ýmsu dóti, s.s. mynt, frímerkjum, steinum og skeljum. Við ákváðum því að hafa sýningu á söfnunum þeirra og bjóða foreldrum í heimsókn sem tókst mjög vel.
Í Laugalandsskóla kenndi ég tölvuval og þar var ég með áhugasaman nemenda sem vildi samtengja allar tölvur svo þeir gætu spilað saman tölvuleik. Ég fylgdist með og reyndi að tengja þessa vinnu við áherslur í Aðalnámskrá. Nú heitir þetta rafíþróttir. En ég er líka lánsöm að hafa fengið góðar undirtektir þegar mig langaði að þróa kennsluhætti með aðstoð fartölvu og síðar spjaldtölvu. Sú þróun hefur samt tekið mun lengri tíma en ég hafði ímyndað mér og enn gætir tregðu víðsvegar við að nota þessi hjálpartæki.
Hvert er mat þitt á kennaramenntuninni og hvernig getum við gert hana (enn) betri?
Mér finnst ár og dagur síðan ég útskrifaðist úr Kennaraháskólanum. En ég valdi íslensku og eðlisfræði sem kjörsvið og Þórir Ólafsson kennari fór með okkur í heimsókn til Valdimars (Helgasonar) til að sjá fyrirmyndar kennsluhætti. Ég hef tileinkað mér margt úr þeirri stuttu heimsókn. Ég var búin að kenna rúman áratug þegar ég fór í framhaldsnám. Fyrst í upplýsingatækni og síðan í sérkennslufræði. Það nám gaf mér mikla og góða þekkingu og ég kynntist mörgu frábæru fólki sem efldi mig í starfi. Erla Kristjánsdóttir, Dóra Bjarnason, Hafdís Guðjónsdóttir og Hafþór Guðjónsson höfðu mikil áhrif á starfskenningu mína.
Mér finnst mikilvægt að kennarar hafi tækifæri til að taka sér launað námsleyfi frá störfum á tíu ára fresti til að endurnýja kynnin við fræðin og hlaða batteríin. Nú er ég búin að kenna í þrjátíu ár og hef litla von um að fá aftur launað námsleyfi og ekki fæ ég frekari launahækkun vegna starfsaldurs. Það er heldur dapurlegt og aukin hætta á kulnun í starfi.
Ef þú gætir komið einni breytingu á menntakerfinu til leiðar – hver yrði þá fyrir valinu?
Menntavísindasvið mætti leggja meiri áherslu á að kenna fjölbreytta kennsluhætti með notkun snjalltækja. Menntamálastofnun ætti að gefa út námsefni í margvíslegu formi fyrir fjölbreytilegan hóp nemenda. Námsefni sem kennarinn getur síðan aðlagað að kennslu og þörfum nemenda hverju sinni. Þessar stofnanir mættu líka þrýsta á að íslenskar máltæknilausnir verði sem fyrst nothæfar fyrir snjalltækin okkar því það bætir námsaðstöðu nemenda til mikilla muna.
Hvaða skoðun hefur þú á aðalnámskrá? Viltu breyta henni?
Aðalnámskráin er leiðarljós mitt í kennslu. Hún hefur tekið nokkrum breytingum frá því að ég byrjaði að kenna. Frá því að vera niðurnjörfuð færniviðmið yfir í háleit hæfniviðmið. Hún mætti vera bland af hvorutveggja.
Hvaða ráð myndir þú helst vilja gefa ungum kennurum?
Þegar ég var á síðasta ári mínu í æfingakennslu árið 1990 sagði kennarinn við mig: „og mundu svo að taka þig ekki of alvarlega“. Mér svelgdist á af hneykslun. Ég ætlaði einmitt að taka mig svakalega alvarlega og verða frábær kennari. En eftir því sem árin líða finnst mér þetta eitt besta ráð sem ég hef fengið í kennslu. Þetta starf er þannig að maður getur alveg farið yfir um ef maður brennur fyrir einhverju. Það er svo margt sem við kennarar erum að gera sem stangast á við innri starfskenningu og oft sem verður að velja meðalveginn eða jafnvel að gefa eftir. Þolinmæði er dyggð og það þarf mikið af henni ef maður vill sjá breytingar gerast í kerfinu. Það er búið að taka átta ár og Covid að innleiða spjaldtölvur sem kennslutæki í skólastarfi á mínum vinnustað en ég hélt að allir myndu sjá ljósið eins og ég og ferlið myndi taka innan við ár.
Við ungt fólk sem er að byrja að kenna langar mig að segja: Hugsið bara um að lifa af fyrsta veturinn. Ef það tekst eru ykkur allir vegir færir og munið að þetta kemur þó hægt fari.
Viðtal:
Ingvar Sigurgeirsson og Anna Magnea Hreinsdóttir.
Viðtal birt 27. desember 2022