1

Leikskólinn ‒ þar sem framtíðin fæðist

Grein birt til heiðurs dr. Jóni Torfa Jónassyni prófessor emeritus 75 ára

Kristín Dýrfjörð

 

Steinn Steinar orti í 1942, „Í draumi sérhvers manns er fall hans falið“, en í draumum  sérhverjar manneskju er líka framtíð hennar falin.

Og ég á mér draum – um betra líf, um góða leikskóla og framtíð.

Ég á mér draum, um að leikur barna einkennist af leikgleði og hugmyndaríki í skapandi og styðjandi umhverfi.

Ég á mér draum um að í leikskólum starfi fagfólk sem treystir leik barna sem námsleið.

Ég á mér draum að leikskólinn sé vagga lýðræðis, sé vagga gagnrýninnar hugsunar.

Ég á mér draum um framtíð. 

Nýlega hlustaði ég fyrirlestur um menntun á meðal frumbyggja í Rómönsku Ameríku. Meðal þess sem þar kom fram var umræða um tímann, hvernig við skynjum tímann og upplifum hann. Í samfélaginu sem þarna var til umfjöllunar var talað um að framtíðin væri fyrir aftan okkur, en fortíðin fyrir framan okkur. Þetta hljómar svolítið eins og öfugmæli en því meira sem ég hugsaði um þetta viðhorf til tímans, fannst mér það merkilegra og líka rétt. Því sannarlega mótast framtíð okkar í fortíðinni og fortíðinni mætum við á hverjum degi.

Í því sem við höfum gert eða ekki gert. Þeim tækifærum sem við fengum og nýttum eða vannýttum. Því má segja að framtíð leikskólans búi í fortíðinni. Þær ákvarðanir og þau viðhorf sem við mótum í dag verða hluti af því sem verður.

Ágengni fullorðinna við bernskuna 

Á síðustu árum hafa komið fram vísbendingar um að leikur barna sé í hættu vegna ágengi okkar fullorðna fólksins. Í dag ræðum við gjarnan um ágengni mannsins við náttúruna, en hún nær víðar, hún nær til bernskunnar. Hún nær til hlutverks leikskólans og til leiksins. Því er stundum haldið fram að skólar endurspegli samfélagið, það má velta fyrir sér spegilmyndinni sem nú birtist. Um sumt er sú mynd til fyrirmyndar, við höfum sannarlega unnið að uppbyggingu leikskólakerfisins. Við höfum lagt áherslu á að þar sé leikur, jafnrétti og sköpun leiðarljós.

En samtímis höfum við þrengt svo að rými barna að það getur verið erfitt að framfylgja hugmyndum okkar um bernskuna, sem byggist á börnum frjálsum í fasi við leik og störf í rými sem hentar og styður við nám þeirra og þroska. Minn draumur er að þrátt fyrir að við séum flest sammála um að skóli séu ekki bygging heldur samfélag, þá sé því samfélagi sem leikskólinn er líka tryggt rými til að gera og vera. Að það verði spegilmynd framtíðarsamfélagsins þar sem börn geta þroskast án ótta og of mikils inngrips í líf þeirra.

Öld barnsins

Meðal þeirra texta sem Jón Torfi lagði til að við læsum í námskeiði hjá honum fyrir langt löngu var Barnets århundrade eftir Ellen Key, þar sem ósk hennar  var að 20. öldin yrði öld barnsins, þar sem barninu væri skapað umhverfi til að skapa sig sjálft, til að þroska eigindir sínar, ekki ólíkt því sem Guðmundur Finnbogason ræðir um í bók sinni  Lýðmenntun. Key lagði áherslu á að tala við og hlusta á börn af virðingu, og já, hún undirstrikaði mikilvægi þess að börn fengju að leika sér á eigin forsendum og þátttaka fullorðinna væri á forsendum barna. Í framtíðarleikskólanum vona ég sannarlega að það verði raunin.

Hins vegar má líka hafa eftir Key að engin hugmynd er alveg ný og það sé ekkert að því að endurnýta og betrumbæta eldri hugmyndir. Það sé í raun skylda hverrar kynslóðar að endurskoða arf uppeldisfræðinnar, ígrunda og setja í nýtt samhengi. En ef horft er til skrifa Key má velta fyrir sér hvort við höfum að einhverju leyti farið í hring, sumt af því sem hún barðist gegn sé veruleiki samtímans. Að fortíð sem hún og fleiri talaði gegn sé fyrir framan okkur.

Í textum Key er að finna áherslu á að efla ást og virðingu barna fyrir umhverfinu með því að dvelja í náttúrunni, með því að fullorðið fólk sé fyrirmyndir barna í umgengni og á ást á umhverfi, eitthvað sem við í samtímanum – og í framtíð sem einkennist af loftslagsbreytingum ættum að hlusta á og taka til okkar.

Þegar ég endurlas Key fyrir þennan fyrirlestur, hló ég upphátt á einum stað en það var þegar hún talaði um það að eldast, en það að eldast taldi Key alls ekki nauðsynlegt, aðeins slæman ávana. Kannski eitthvað sem á vel við Jón Torfa sem hefur leitast við að vera forvitinn, ferskur og síkvikur í hugmyndum sínum og rannsóknum um menntun.

Klemma Rousseau – umhverfið  sem þriðji kennarinn  

Dr. Jón Torfi Jónasson, prófessor emiritus við Háskóla Íslands. Greinin byggir á erindi sem höfundur flutti á málþingi til heiðurs honum á málþingi 16. nóvember 2022.

Á nýlegu málþingi um háskólana ræddi Jón Torfi um háskólann sem pólitíska stofnun. Í mínum huga á það einnig við um leikskólann, hann er auðvitað uppeldis- og menntastofnun. En það starf sem þar fer fram markast bæði hugmyndafræði leikskólans sem er auðvitað hápólitísk og af meginstraums, pólitískum þörfum samtímans. Stundum verða árekstrar þarna á milli og þá er hætta á að hugmyndafræðin víki fyrir pólitískum þörfum eða pólitískum ákvörðunum, sem tengjast oft efnahags-  og gæsluhlutverki leikskóla. Og þá lendum við í þessari pólitísku klemmu sem oft endar með ágengni við bernskuna. Þar sem þarfir barna eru mörgum sætum á eftir þörfum atvinnulífs og fullorðinna.

Svo ber að benda á að hugmyndafræði leikskóla er ekkert eitthvað eitt. Það má jafnvel fullyrða með nokkurri vissu að hún fylgi í sumum tilfellum nokkuð ólíkum pólitískum straumum og hugmyndafræði. Sumir sem starfa í leikskólum hafa mikla trú á að þar beri að vinna með aga sem mótast af því að allir eigi að fylgja sömu lestarteinunum, helst að steypa flesta í svipað mót. Aðrir hafa trú á algjöru frelsi þar sem engin mörk má setja.

En kannski að flestir séu einhver staðar þarna á milli, bæði hvað varðar mörk og aga og hafi enn trú á að leikur í mörgum myndum sé það sem skiptir máli. Að klemma Rousseau sé enn klemma leikskólans (svo vitnað sé til Jóns Torfa), að skapa umhverfi sem sýnist vera algjörlega lífrænt en er í grunninn þaulskipulagt til að ná fram tilteknum árangri. Að uppeldisfræðin sem slík virðist vera ósýnileg, en er það auðvitað ekki þeim sem til þekkja. Í slíkum leikskólum er það minn draumur að markmið sé að vekja upp hugmyndaflug, sköpun og gagnrýna hugsun, að vekja hjá börnum undrun yfir því smáa og stóra, að virkja með þeim leikgleði, kærleika og mannúð. Því í þannig samfélagi vil ég lifa og ég óska þess sama fyrir þá sem á eftir koma.

Til að lýsa þessu fyrirbrigði Rousseau, ræðum við í samtímanum um að umhverfið sé þriðji kennarinn og það hvernig það er skipulagt. Þær áherslur sem þar birtast séu hluti uppeldis- og hugmyndafræði sem hver leikskóli leggur til barna.

Í mínum framtíðardraumum, er umhverfið á þann veg að þar sé áhersla á lýðræðisleg vinnubrögð og leik. Að í framtíðinni verði leikur það kennileiti sem við skilgreinum sem gæða leikskólastarf.

Leikskólinn vagga gagnrýninnar hugsunar 

Í leikskóla þurfa börn vitsmunalegar og skapandi áskoranir daglega. Þannig geta þau þroskað hugmyndir sínar og tekist á við nýjar og óþekktar hugmyndir. Leikskólar framtíðar eiga að mínu viti að vera vagga gagnrýninnar hugsunar, vera staður þar sem börnum er ögrað til að hugsa á margar vegu, um sama efni. Þar sé þeim gert kleift að sjá og prófa sig áfram með mörg sjónarhorn og fá tækifæri til ígrunda saman. Þar sé þeim gert kleift að prófa sig áfram í orði og æði í hópi jafnaldra og nærfærinna kennara.

Hér að framan var minnst á skólar eigi að vera vagga lýðræðis, vinnubrögð og viðhorf sem þar ríkja eigi að styrkja lýðræðislegar rætur og hugmyndir hvers samfélags. En til að geta verið sú vagga sem ég og auðvitað marga aðra dreymir um, verður líka að vera kærleikur, kærleikur til barna, til bernskunnar og til framtíðarinnar. Það hefur stundum verið sagt að við getum dæmt samfélög eftir því hvernig við komum fram við okkar minnstu borgara.

Í sáttmála Deweys um uppeldi (My Pedagogic creed) sem vel að merkja er ritað á næstsíðustu öld segir hann; að menntun hefjist við fæðingu, að menntun sé sífellt að móta vald viðkomandi, virkja meðvitund, forma veruhátt, þjálfa hugmyndir og vekja tilfinningar. Að með því hvernig við menntun börnin okkar leggjum við grunn að framtíðinni. Í gegnum menntun fái barnið hlutdeild í samfélaginu og þeirri þekkingu sem mannkynið hefur aflað sér. Það er á okkar ábyrgð sem samfélag að skapa umhverfi sem speglar það besta sem maðurinn hefur áorkað. Að veganesti hvers barns sé að það hafi rétt til að vera, til að gera, til að hugsa, til að skapa, til að skoða, kryfja, setja orð á og gagnrýna. Að veganesti þeirra sé að á þau sé hlustað, að þau hafi fengið tækifæri til að þroskast í samfélagi við alls konar fólk og hugmyndir.

Framtíðin, hún fæddist í gær, hún fæðist í dag og á morgun.

Ég á mér draum – um betra líf, um góða leikskóla og bjarta framtíð.

Í mínum draumi í dag, býr jafnrétti frelsi og barnalag.


Tíu mánaða gamall drengur í Fjölskyldu og húsdýragarðinum. Drengurinn er vanur því að fá að skoða og rannsaka umhverfið sitt. Hann sér þetta rör og verður forvitinn, leggur óhræddur af stað inn í það óvænta, viss um að hann komist á leiðarenda. Á miðri leið nemur hann staðar og horfir til baka. Gengur úr skugga um hvort hann er á öruggum slóðum, heldur svo af stað aftur og lýkur ferðinni. Mynd: Kristín Dýrfjörð, 2009.

Heimildir

Dewey, J. 1897. My pedagogic creed. School Journal, 54, 77-80.

Jón Torfi Jónasson. (2008). Frá gæslu til skóla. Um þróun leikskóla á Íslandi. Rannsóknarstofa um menntakerfi. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Key, Ellen. (1900). Barnets århundrade. Albert Bonniers förlag.


Um höfund:

Kristín Dýrfjörð (dyr(hja)unak.is) er dósent við Háskólann á Akureyri. Hún er leikskólakennari og starfaði lengi sem leikskólastjóri. Rannsóknir hennar tengjast einkum leikskólafræðum, þátttöku barna í leikskólastarfi, lýðræði, skapandi starfi, sjálfbærnimenntun, hugmyndafræði leikskólastarfs, starfsumhverfi, stjórnun og stefnumótun. Kristín er virk á samfélagsmiðlum þar sem hún heldur úti vefsíðunni laupur.is og hefur umsjón með Facebookhópnum Leikur og leikskólastarf sem telur á áttundaþúsund þátttakendur. Kristín er handhafi Orðsporsins  2013, en að því standa Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla, mennta- og barnamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Heimili og skóli.


Grein birt 22. nóvember 2022