Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Bókagleypir, slysaskot og fiðrildi: Ljóðaval lesara á lokahátíðum Stóru upplestrarkeppninnar 2022

í Greinar

Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir

 

Stóra upplestrarkeppnin hóf göngu sína sem þróunarverkefni árið 1996 og festi sig fljótt í sessi í sjöundu bekkjum í grunnskólum um allt land. Ræktunarstarfið í skólunum hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember. Hitann og þungann af því bera kennarar í sjöunda bekk. Haldnar eru bekkjarkeppnir, skólahátíðir og svo lokahátíðir að vori í héraði þar sem sigurvegarar úr hverjum skóla koma fram.

Það er félagsskapurinn Raddir – Samtök um vandaðan upplestur og framsögn sem kom keppninni á laggirnar og hefur séð um skipulag hennar undanfarinn aldarfjórðung. Á síðasta ári, 2021, var komið að þeim tímamótum að afhenda sveitarfélögum landsins keppnina en  Raddir veittu ráðgjöf fyrsta árið. Af þessu tilefni var efnt til málþings þann 26. september 2022 með yfirskriftinni Stóra upplestrarkeppnin – Á tímamótum. Þar voru flutt ávörp og erindi sem varða þessi umskipti. Upptöku af málþinginu má finna á heimasíðu Radda (http://upplestur.hafnarfjordur.is/).

Eins og þeir vita sem þekkja til lokahátíða Stóru upplestrarkeppninnar er lesið í þremur umferðum. Lesarar flytja lausamálstexta úr barnabók í fyrstu umferð en ljóð í síðari tveimur. Í annarri umferðinni velja þeir á milli nokkurra ljóða sem þeim hefur verið úthlutað af skipuleggjendum keppninnar en í þriðju og síðustu umferðinni flytja lesarar ljóð sem þeir velja sjálfir.

Áhugavert er að rannsaka ljóðaval lesaranna, það er hvaða ljóðskáld og hvaða ljóð verða oftast fyrir valinu. Einnig er áhugavert að skoða hvort það er munur á ljóðavali drengja og stúlkna og hvort munur er á ljóðavali eftir búsetu. Ljóðavalið gefur meðal annars ákveðna hugmynd um þann ljóðaforða sem lesarar þekkja og hafa aðgang að.

Mér fannst ástæða til að nýta tækifærið á meðan Raddir væru enn með tengsl við umsjónarmenn lokahátíðanna og rannsaka frjálsa ljóðaval lesaranna. Um það flutti ég erindi á áðurnefndu málþingi. En áður en ég kynni niðurstöðurnar er vert að líta á einu rannsóknina sem áður hefur verið gerð á frjálsu ljóðavali lesara á lokahátíðum í héraði.

Rannsókn á frjálsu ljóðavali lesara á lokahátíðum í héraði árið 2004

Ingibjörg B. Frímannsdóttir gerði viðamikla rannsókn á frjálsu ljóðavali þátttakenda í Stóru upplestrarkeppninni í 7. bekk árið 2004, og birti niðurstöður í grein í tímaritinu Hrafnaþingi árið 2006. Rannsóknin náði ekki einungis til lokahátíða í héraði heldur einnig til bekkjarkeppna og lokahátíða skólanna. En séu niðurstöðurnar sem varða lokahátíðir í héraði skoðaðar sérstaklega byggja þær á svörum 71 lesara. Kynjaskipting hópsins kemur ekki fram í greininni.

23 lesarar af 71, eða um einn þriðji lesara lokahátíða í héraði, völdu ljóð eftir sjö skáld. Önnur skáld dreifast á hina 49 lesarana. Tafla 1 sýnir skáldin sjö sem eiga flest lesin ljóð:

TAFLA 1 – Skáldin sem eiga flest lesin ljóð.

Þórarinn Eldjárn                        6

Kristján frá Djúpalæk               5

Tómas Guðmundsson              4

Jóhannes úr Kötlum                 3

Jónas Hallgrímsson                  2

Davíð Stefánsson                       2

Steinn Steinarr                           1[1]

Ekki er hægt að greina hvaða ljóð eftir þessa höfunda voru lesin á lokahátíðum í héraði þar sem saman er fjallað um ljóðaval á lokahátíðum í skólum og í héraði. Það vekur hins vegar athygli að meðal vinsælustu ljóðahöfundanna sem þessi 23 börn nefna er aðeins einn lifandi ljóðahöfundur. Það er Þórarinn Eldjárn, en hann yrkir eins og flestir vita sérstaklega mikið fyrir börn. Annað athyglisvert er að engin skáldkona er meðal vinsælustu ljóðskáldanna.

Lítill munur var á vali drengja og stúlkna á höfundum að sögn Ingibjargar. Þó kemur það fram að stúlkur velja fremur ljóð eftir Þórarin Eldjárn og Kristján frá Djúpalæk en dreifingin hjá drengjum er meiri. Ljóðavalið á lokahátíðum er fjölbreytt og stór hluti ljóðanna er í bundnu formi.

Vinsælasta ljóðið meðal lesaranna er Slysaskot í Palestínu eftir Kristján frá Djúpalæk. Það var valið 11 sinnum á lokahátíðum skólanna og lokahátíðum í héraði samanlagt. Það völdu 9 stúlkur og 2 drengir. Þetta ljóð völdu svo 4 lesarar á lokahátíðum í héraði en ekki er getið um kyn þeirra. Þegar börnin voru spurð um ástæður fyrir vali sínu á ljóði nefndu þau helst til skýringar að ljóðin væru skemmtileg, flott, sniðug eða sorgleg.

Rannsókn á frjálsu ljóðavali lesara á lokahátíðum í héraði árið 2022

Umsjónarmenn lokahátíðanna um allt land vorið 2022 voru beðnir að safna upplýsingum um sjálfvöldu ljóð lesara á lokahátíðunum og vil ég þakka þeim fyrir þeirra mikla og góða framlag.

Alls voru haldnar 29 lokahátíðir á landinu öllu og svör bárust frá umsjónarmönnum 24 þeirra. Í tilviki einnar lokahátíðar lék vafi á því hvort uppgefin ljóð hefðu verið flutt í annarri umferð eða sem sjálfvalin ljóð í þriðju umferðinni og því eru niðurstöðurnar byggðar á 23 lokahátíðum. Í nokkrum tilvikum bárust ekki upplýsingar um kyn lesara. Vafaatriði voru líka nokkur og ef mér tókst ekki að greiða úr þeim með fullkominni vissu eru þau tilvik ekki með í niðurstöðum, en þau voru örfá.

Alls byggja niðurstöðurnar sem hér verða kynntar því á 23 lokahátíðum og samtals 248 upplesurum. Þar af eru 148 stúlkur og 77 drengir en kyn er óþekkt í 23 tilvikum. Flutt voru alls 201 ljóð. Þau eru eftir 86 skáld, 59 karla og 27 konur en tvö ljóð eru þjóðvísur. Það er athyglisvert að ljóð eftir karla eru tvöfalt fleiri en ljóð eftir konur.

Vinsælustu skáldin

64 skáld eiga eitt ljóð hvert en tvö ljóð eru þjóðvísur. Mörg skáldanna eru vel þekkt, önnur minna. Meðal þekktra skálda eru til dæmis Hallgrímur Pétursson, Hannes Pétursson, Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum og Nína Björk Árnadóttir. Karlskáldin eru 43 og tvöfalt fleiri en skáldkonurnar sem eru 21. Fjögur ljóð eru eftir þekkt tónlistarfólk, þau Bubba, Bjartmar Guðlaugsson, Bríeti og Jónas Sig. Þrír lesarar fluttu ljóð eftir náinn ættingja og þrjú ljóð eru eftir erlend skáld. Hér gætir talsverðrar fjölbreytni í vali eins og sýndi sig líka árið 2004.

Átta skáld eiga tvö ljóð hvert, þar af eru 5 karlar, þeir Guðmundur Böðvarsson, Halldór Laxnes, Hannes Hafstein, Stefán frá Hvítadal og Þorgeir Sveinbjarnarson. Tvö ljóð eiga líka skáldkonurnar þrjár, Ingibjörg Haraldsdóttir, Hulda Ólafsdóttir og Katrín Ruth. Þ. Tvö skáld, þau Jón Thoroddsen og Halldóra B. Björnsson, eiga þrjú ljóð hvort.

Vinsælustu skáldin, það er þau sem eiga fjögur ljóð eða fleiri lesin á lokahátíðum í héraði, eru tólf, tíu karlar og tvær konur, sjá töflu 2:

TAFLA 2 – Skáld sem eiga fleiri en fjögur ljóð eða fleiri.

Þórarinn Eldjárn og Kristján frá Djúpalæk, eru eins og sjá má langvinsælustu ljóðskáld lesara, en þeir áttu líka flest ljóð árið 2004. Jafnmargir lesarar, eða 35, velja ljóð eftir þá tvo en þeir velja mun fleiri ljóð Þórarins en Kristjáns. Það eru því 70 lesarar, eða rétt tæplega 30% lesaranna sem velja ljóð eftir annan hvorn þeirra. Þegar tekið er tillit til þess að mun fleiri stúlkur tóku þátt í lokahátíð kemur í ljós að 20% drengja og 12% stúlkna velja ljóð eftir Þórarin en 8% drengja og 15% stúlkna velja ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk.

Við sjáum líka að nöfn skáldanna í næstu sætum eru kunnugleg frá 2004, Davíð Stefánsson, Jónas Hallgrímsson, Steinn Steinarr, Tómas Guðmundsson og Jóhannes úr Kötlum. Þórarinn Eldjárn, Steinunn Sigurðardóttir, Anton Helgi Jónsson og Kristján Hreinsson eru einu núlifandi skáldin í hópi vinsælustu skáldanna 2022.

Í ljós kom að drengir velja mest ljóð eftir karla. 61 drengur af 77, eða 80%, valdi ljóð eftir karlskáld. Stúlkur velja hins vegar ekkert frekar ljóð eftir konur en karla. Einungis 31 stúlka af 148, eða 20%, valdi ljóð eftir skáldkonu.

Í einstaka tilviki fluttu lesarar ljóð eftir skáld úr héraði en það var satt að segja alls ekki áberandi þáttur í vali lesara. Enginn sjáanlegur munur kom heldur fram á ljóðavali lesara af annars vegar höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni hins vegar svo ekki verður fjallað meira um það.

Vinsælustu ljóðin

Á töflu 3 má sjá níu vinsælustu ljóðin. Þau voru flutt af þremur eða fleiri lesurum:

TAFLA 3 – Vinsælustu ljóðin.

Fjögur skáld eiga þessi níu ljóð og af þeim á Kristján frá Djúpalæk sex ljóð. Þórarinn Eldjárn, Steinn Steinarr og Davíð Stefánsson eiga svo eitt ljóð hver.

Vinsælasta ljóðið er Fiðrildið eftir Kristján frá Djúpalæk sem sjö lesarar fluttu á fimm lokahátíðum. Fimm lesarar á fimm hátíðum völdu ljóðið Bókagleypi eftir Þórarin Eldjárn og aðrir fimm lesarar á fjórum hátíðum völdu ljóðið Slysaskot í Palestínu eftir Kristján frá Djúpalæk, sem var vinsælasta ljóðið 2004 eins og kom fram hér að framan.

38 lesarar, eða nærri 15% lesara, valdi eitt þessara níu ljóða og eitt eða fleiri þeirra var flutt á sautján af þeim 23 lokahátíðum sem hér liggja til grundvallar.

 Ljóðaval drengja og stúlkna

Það má sjá nokkurn mun á ljóðavali drengja og stúlkna. Ef miðað er við öll ljóð sem lesin voru af tveimur lesurum eða fleiri af sama kyni kemur í ljós að þau ljóð fluttu 42 lesarar, þar af 28 stúlkur, níu drengir en kyn fimm lesara er óþekkt. Tafla 4 sýnir vinsælustu ljóðin meðal drengja:

TAFLA 4 – Ljóðaval drengja.

Engir tveir eða fleiri drengir lásu sama ljóðið, önnur en þessi þrjú. Vinsælasta ljóðið meðal drengja er Bókagleypir eftir Þórarin Eldjárn en það valdi engin stúlka. Sama á við hin tvö ljóðin, Rottur og Dalalæðan, þau valdi heldur engin stúlka. Tafla 5 sýnir vinsælustu ljóðin með stúlkna:

TAFLA 5 – Ljóðaval stúlkna.

Vinsælasta ljóðið meðal stúlkna er Slysaskot í Palestínu en það valdi enginn drengur. Enginn drengur valdi heldur ljóðin Í fjarlægum skógi, Morgunböl, Bæn, Mamma ætlar að sofna eða Konan sem kyndir ofninn minn en reyndar er óvíst um kyn eins lesara þess ljóðs.

Fjórar stúlkur lásu vinsælasta ljóðið á lokahátíðum 2022, Fiðrildið, eftir Kristján frá Djúpalæk. Einn drengur las þetta ljóð, en um kyn tveggja annarra sem það lásu er ekki vitað, svo það er erfitt að tala um kynjamun í því sambandi. Fjórar stúlkur lásu líka ljóðið Togararnir talast við en aðeins einn drengur. Tvær stúlkur lásu ljóðið Eitt blóm í grjóti en óvíst er um kyn hinna tveggja sem það völdu.

Þegar ljóðavalið er skoðað kemur líka í ljós að það er meiri dreifing í ljóðavali drengja en stúlkna eins og reyndin var 2004.

Hvernig ljóð vilja börn?

Í rannsókn Ingibjargar B. Frímannsdóttur kom fram eins og áður er nefnt að börnin völdu helst ljóð sem þeim fannst skemmtileg, flott, sniðug eða sorgleg.

Það kemur væntanlega engum á óvart að börn skuli fyrst og fremst velja ljóð sem þeim finnst skemmtileg eða höfða til þeirra tilfinningalega, og það rímar ágætlega við niðurstöður þeirra erlendu rannsókna í þessum efnum, sem Ingibjörg vísar til í greininni.

Í þeim kemur meðal annars fram að börn hafa mestan áhuga á ljóðum sem þau skilja og hæfa þroska þeirra og reynslu, ljóð sem þau geta tengt sig við og ljóð sem segja sögu.

Þau vilja ljóð sem eru fyndin og um hluti og fyrirbæri sem þau þekkja, eða um dýr. Þau vilja líka frekar ljóð úr samtímanum um nútímaleg fyrirbæri, og á nútímalegu máli.

Rím, hrynjandi og hljóðeiginleikar ljóðanna, höfða mest til barnanna af einstökum eiginleikum ljóða, en ljóð með flóknu táknrænu orðalagi og flóknu myndmáli, höfðuðu síst til þeirra (sjá nánar Ingibjörg Frímannsdóttir, 2006). Allt þetta er vert að hafa í huga þegar laða á börn að ljóðum (sjá einnig Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, 2010).

Ég hafði ekki tækifæri til þess í vor, að spyrja lesara á lokahátíðum hvað hefði ráðið vali þeirra á ljóði. En ætli megi ekki reikna með því að svör þeirra hefðu orðið svipuð og lesaranna 2004? Mér þykir það líklegt. Annars vantar tilfinnanlega íslenskar rannsóknir á áhuga barna á ljóðum.

Ef við skoðum valið aðeins nánar, og byrjum á ljóðunum þremur sem drengirnir völdu helst, þá kemur í ljós að bæði Bókagleypir og Rottur eru hefðbundin, rímuð og stuðluð. Og þótt Dalalæðan sé í tiltölulega frjálsu formi, er þar þó bæði að finna ljóðstafi og rím. Öll eru ljóðin myndrík og auðvelt er að sjá yrkisefnið fyrir sér.

Bókagleypir er sniðugt og fyndið ljóð og Rottur dálítið hrollvekjandi, en snjöll samlíkingin vekur líka til umhugsunar. Líkingin við köttinn í Dalalæðunni er einnig sniðug og virðist höfða til drengjanna.

Bókagleypir

Hann Guðmundur á Mýrum borðar bækur,
það byrjaði upp á grín, en varð svo kækur.
Núorðið þá vill hann ekkert annað,
alveg sama þó að það sé bannað.

Hann lætur ekki nægja kafla og kafla,
hann kemst ekki af með minna en heilan stafla.
Hann er víða í banni á bókasöfnum,
en beitir gerviskeggi og fölskum nöfnum.

Hann gleypir í sig feitar framhaldssögur
og fær sér inn á milli stuttar bögur.
Hann telur víst að maginn muni skána
í mörgum við að bíta í símaskrána.

Hann segir: Þó er best að borða ljóð,
en bara reyndar þau sem eru góð.

(Þórarinn Eldjárn, 1991)

Rottur

Milli þils og moldarveggja
man ég eftir þeim,
ljótu rottunum
með löngu skottunum
og stóru tönnunum,
sem storka mönnunum,
sem ýla og tísta
og tönnum gnísta
og naga og naga
nætur og daga.

Fjöldi manna
felur sig á bak við tjöldin.
Þeir narta í orðstír nágrannanna,
niðra þeim, sem hafa völdin,
eiga holu í hlýjum bæjum,
hlera og standa á gægjum,
grafa undan stoðum sterkum,
stoltir af sínum myrkraverkum.
Allar nætur, alla daga
er eðli þeirra og saga
að líkjast rottunum
með löngu skottunum
og naga, naga.

(Davíð Stefánsson, 1929)

Dalalæðan

Hún mjakast eftir dalnum
mjúkum fótum,
smýgur niður í hverja dæld
og dokar við
í brekkurótum,
nuddar gæflynd höfði
upp við hallann,

hringar sig við stein,
strýkur honum þrifin
bak við eyrað,
þvær hann allan.

Setur svo upp gestaspjót.

Og sjá, þá kemur geisli
á skýjaskjáinn.

Svo stígur hún í léttan fót,
lyftir kryppunni,
teygir sig

og trítlar út í bláinn.

(Þorgeir Sveinbjarnarson, 1965)

Það er greinilegt að tilfinningar og rómantík ráða meiru um ljóðaval stúlkna en drengja. Þær tengja til dæmis við sorglegt efni Slysaskots í Palestínu og hugsanlega líka sláandi kaldhæðnina.

Slysaskot í Palestínu

Lítil stúlka. Lítil stúlka.
Lítil svarteyg, dökkhærð stúlka
liggur skotin.
Dimmrautt blóð í hrokknu hári.
Höfuðkúpan brotin.

Ég er Breti, dagsins djarfi
dáti, suður í Palestínu,
en er kvöldar klökkur, einn,
kútur lítill, mömmusveinn.

Mín synd er stór. Ó, systir mín.
Svarið get ég, feilskot var það.
Eins og hnífur hjartað skar það,
hjarta mitt, ó, systir mín,
fyrirgefðu, fyrirgefðu,
anginn litli, anginn minn.

Ég ætlaði að skjóta hann pabba þinn.

(Kristján frá Djúpalæk, 1948)

Ljóðin Mamma ætlar að sofna, Konan sem kyndir ofninn minn og Það vex eitt blóm fyrir vestan, vekja líka tilfinningaleg viðbrögð og einnig á sinn hátt ljóðið Eitt blóm í grjóti og ljóðið Í fjarlægum skógi er þrungið rómantík. Þessi ljóð virðast ekki höfða til drengja á sama hátt.

Ljóðið Morgunböl er líka fyndið og sniðugt og það á einnig við um ljóðið Togararnir talast við sem auk þess er bæði rómantískt og myndríkt.

Togararnir talast við

Nú er hann Ingólfur Arnarson
svo ástfanginn, líkt og forðum
og heimurinn þekkir hvernig fer,
er hjartað gengur úr skorðum —
hann dreymir stöðugt, um dægur löng
og dimmar fárviðrisóttur
og sér ekki annað um höf og höfn
en Hallveigu Fróðadóttur.

Og Hallveigu, dóttur Fróða, finnst
svo fallegur Ingólfs vangi.
Er mikið þótt byrinn meti þau
og mætast í hafi langi?
Þá talast þau við eins og togurum ber
sem tengd væru hjónabandi.
En hvað það er sem þau hvíslast á
er hulið öllum í landi.[2]

Og þegar þau liggja hlið við hlið
í höfn, gerast ævintýri.
Þau horfa hvort annað hrifin á
frá hvalbak aftur að stýri.
Er hafnarysinn að eyrum berst
og æskuna fangar galsinn,
þau saman á legunni dufla dátt
og dansa Sjómannavalsinn.

Svo halda þau út gegn hrönn og ís,
á hafinu stormar gnauða.
En sigli Hallveig á Selvogsgrunn
Í samfylgd með Agli rauða,
í fjarska sjást Ingólfs augu heit
af afbrýðisemi loga
– Ó, megi þau sæinn sigla heil
og saman í friði toga.

(Kristján frá Djúpalæk, 1957)

Öll þessi ljóð eru ýmist hefðbundin í formi eða tiltölulega hefðbundin og myndmálið einfalt. Mér sýnist þessi ljóð falla nokkuð vel að því sem fjallað var um hér að framan um hvernig ljóð börn vilja helst. Og ætli það eigi ekki líka við um ljóðið Fiðrildið eftir Kristján frá Djúpalæk, sem vinsælast var á lokahátíð í vor:

Fiðrildið

Þú gekkst út á engið græna
þá götu sem margur fer.
Á leið þinni fiðrildi fannstu,
það flaug upp í hendur þér.

Þú luktir um fiðrildið lófum
og líf þess varð bundið þér.
En þú ert svo þungur í vöfum,
og það er svo létt á sér

að þú mátt vara þig, vinur,
er vor yfir engið fer
að fiðrildið fljúgi ekki
í frelsið úr höndum þér.

(Kristján frá Djúpalæk, 1945)

Ljóðið er hefðbundið að formi, myndmálið einfalt og segir sögu sem börn eiga auðvelt með að tengja sig við þótt hugsanleg dýpri merking fari ef til vill fram hjá þeim.

Aðgengi barna að ljóðum

Við skulum ekki gleyma því að aðgengi að ljóðum ræður auðvitað miklu um valið. Börnin velja ekki ljóð sem þau þekkja ekki. Líklegt er að börn þekki til dæmis mun fleiri ljóð eftir Þórarin Eldjárn en Kristján frá Djúpalæk og einnig fleiri ljóð eftir karla en konur. Það veltur mest á kennurum og að einhverju leyti foreldrum hvað ljóðum er haldið að börnum (sjá nánar Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, 2010).

Ræktunarþáttur Stóru upplestrarkeppninnar er veigamesti hluti verkefnisins og það eru fyrst og fremst kennarar sem sjá um þann þátt starfsins. Það er vandasamt að finna hentugt og skemmtilegt lesefni svo börnunum finnist gaman að æfa sig að lesa upp.

Síðan árið 1997 hafa 22 skáld verið ljóðskáld Stóru upplestrarkeppninnar og ljóð eftir þau flutt í annarri umferð lokahátíðanna um allt land. Ljóðin sem lesurum stóðu til boða eftir flest þessara skálda má finna á heimasíðu Radda. Karlskáldin eru fimmtán og skáldkonurnar sjö. Öll eru þessi ljóðskáld látin nema þau Anton Helgi Jónsson og Steinunn Sigurðardóttir og fæst þeirra hafa ort sérstaklega fyrir börn og ungmenni.

Það segir sína sögu að 110 lesarar af 248 lásu alls 72 ljóð eftir sextán af þessum 22 skáldum á þeim 23 lokahátíðum sem rannsóknin nær til. Það gera um 45% lesara og um 35% þeirra ljóða sem flutt voru. Það er auðvitað ekkert að því að kennarar beini nemendum að þessum ljóðum enda hafa skipuleggjendur keppninnar valið þau af gaumgæfni með tilliti til að þau fari vel í upplestri unga fólksins.

Langt er síðan ljóðaefni sem grunnskólanemendum stendur til boða í skólunum hefur verið endurskoðað og endurnýjað. Það einkennist fyrst og fremst af ljóðum eldri skálda sem ekki yrkja sérstaklega fyrir börn og er að miklu leyti eftir karla.

Vinsældir ljóða Þórarins Eldjárns enduróma áhuga barna á skemmtilegum og nútímalegum ljóðum sem þau geta tengt sig við og það sárvantar að fleiri skáld gefi sig að ungdómnum. Lítið sem ekkert hefur komið út af ljóðabókum fyrir börn og ungmenni undanfarinn áratug, eða jafnvel lengur, eftir önnur skáld en Þórarin og mér dettur ekki í hug nein skáldkona sem hefur gefið út ljóð fyrir börn á þeim tíma.

Mörg ung skáld, líka ungar konur, hafa hins vegar gefið út ljóðabækur á undanförnum árum. Er ekki eitthvað þar sem grunnskólabörn geta tengt sig við og haft gaman af? Með þessu er ég ekki að hafna ljóðum hinna eldri skálda enda sýnir sig að þau lifa mörg góðu lífi og höfða til ungs fólks. En börn þurfa fjölbreytni í þessum efnum sem öðrum.

Ef til vill væri ráð að efna til samkeppni um ljóðabækur fyrir börn og ungt fólk. Einnig mætti þýða erlend ljóð fyrir börn og ungt fólk í meira mæli en gert er og gefa út, þar er um mjög auðugan garð að gresja.

Að lokum

Það er einn megintilgangur Stóru upplestrarkeppninnar að hvetja unga fólkið til dáða og efla sjálfstraust þess með því að takast á við upplestur og læra að koma vel fram og af öryggi. Frá upphafi hafa kjörorð keppninnar, og um leið leiðarljós ræktunarstarfsins, verið þrjú:

Vandvirkni: Vöndum flutning og framburð.

Ánægja: Lærum að njóta þess að flytja móðurmálið, sjálfum okkur og öðrum til ánægju.

Virðing: Berum virðingu fyrir móðurmálinu, sjálfum okkur og öðrum.

Þjálfun í góðum upplestri eflir einnig læsi og lesskilning hvort sem tekist er á við frásagnarbókmenntir eða ljóð. Ekki síst þess vegna þurfa börn að hafa aðgang að fjölbreyttum og skemmtilegum ljóðum sem vekja áhuga þeirra. Þá eru meiri líkur á því að þau hafi bæði gagn og gaman af ræktunarhlutanum og geti látið ljós sitt skína skært á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar eða á öðrum vettvangi.

Heimildir

Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir. (2010). „… Þó er best að borða ljóð, en bara þau sem eru góð“. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Vefslóð: https://netla.hi.is/greinar/2010/017/index.htm.
Davíð Stefánsson. (1929). Ný kvæði. [Útgefanda ekki getið.]
Ingibjörg B. Frímannsdóttir. (2006). Slysaskot í Palestínu: Könnun á ljóðavali keppenda í stóru upplestrarkeppninni. Hrafnaþing, 3, 105–129.
Kristján frá Djúpalæk. (1945). Villtur vegar. Bókaútgáfa Pálma H. Jónssonar.
Kristján frá Djúpalæk. (1948). Í Þagnarskóg. Sindur.
Kristján frá Djúpalæk. (1957). Það gefur á bátinn. Heimskringla.
Raddir – Samtök um vandaðan upplestur og framsögn. Vefslóð: http://upplestur.hafnarfjordur.is/.
Þorgeir Sveinbjarnarson. (1965). Vísur um drauminn. Bókaútgáfa Menningarsjóðs.


Einn af sigurvegurum í Stóru upplestrarkeppninni 2015 tekur við viðurkenningu úr hendi Ingibjargar Einarsdóttur.

Neðanmálsgreinar

[1] Steinn Steinarr var hafður með hér því fleiri völdu hann í bekkjarkeppnum og lokahátíðum skólanna.

[2] Ég hef ekki upplýsingar um hvort þau sem lásu þetta ljóð lásu öll fjögur erindi ljóðsins. Líklegra er að lesarar hafi aðeins lesið tvö fyrstu erindin en þau er að finna í lesefni sem er aðgengilegt á heimasíðu Radda. Ljóðið verður samt enn skemmtilegra ef öll erindin eru lesin. Þess má geta að öll fjögur erindin eru í bókinni með úrvali ljóða eftir Kristján frá Djúpalæk sem Félag íslenskra bókaútgefenda gaf öllum lesurum á lokahátíðum 2021 þegar Kristján var skáld keppninnar.


Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir (annaing(hjá)hi.is) er lektor í íslensku við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk bakkalárprófi í íslensku árið 1986, námi til kennsluréttinda árið 1985 og MA-prófi í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 2001. Sérsvið hennar eru barnabókmenntir og málörvun ungra barna. Anna Þorbjörg hefur ritstýrt óðfræðitímaritinu Són og er í stjórn Radda – Samtaka um vandaðan upplestur og framsögn.


Grein birt 21. nóvember 2022

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp